Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 111. máls.

Þingskjal 111  —  111. mál.Frumvarp til laga

um breytingu á íþróttalögum, nr. 64/1998, með síðari breytingum (lyfjaeftirlit í íþróttum).

(Lagt fyrir Alþingi á 141. löggjafarþingi 2012–2013.)
1. gr.

    Á eftir 3. gr. laganna kemur ný grein, 3. gr. a, svohljóðandi:
    Ráðherra stendur fyrir lyfjaeftirliti í íþróttum í samræmi við þjóðréttarlegar skuldbindingar og skal veitt til þess framlag úr ríkissjóði eftir því sem ákveðið er í fjárlögum.
    Ráðherra er heimilt að fela þar til bærum aðila framkvæmd lyfjaeftirlits með þjónustusamningi sem gerður er til allt að fimm ára í senn. Í samningnum skal kveðið á um:
          a.      skilmála sem ráðuneyti setur fyrir ráðstöfun fjárframlags til lyfjaeftirlits úr ríkissjóði,
          b.      skilgreiningu á málsmeðferð við lyfjaeftirlit og þeim verkefnum sem ríkissjóður greiðir fyrir,
          c.      helstu áherslur og markmið samningsaðila og
          d.      mat og eftirlit með framkvæmd lyfjaeftirlits.
    Aðila sem falin er framkvæmd lyfjaeftirlits skv. 2. mgr. er skylt að láta ráðuneytinu í té allar þær upplýsingar og gögn sem það þarfnast vegna eftirlits með starfsemi hans og fjármálum.
    Ráðherra getur, að fengnum tillögum aðila sem falin er framkvæmd lyfjaeftirlits með samningi skv. 2. mgr., sett gjaldskrá fyrir lyfjaeftirlit og aðra þjónustu sem veitt er á grundvelli slíks samnings.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2013.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Frumvarp þetta er unnið af mennta- og menningarmálaráðuneytinu til þess að lögfesta alþjóðaskuldbindingar ríkisins á sviði lyfjaeftirlits í íþróttum en slíkt hefur farist fyrir í lengri tíma. Frumvarpið var lagt fram á 140. löggjafarþingi en var ekki afgreitt og er því flutt óbreytt að nýju. Núgildandi fyrirkomulag lyfjaeftirlits á Íslandi er mótað af skuldbindingum íslenska ríkisins og Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ). Aðild ríkisins að samningi Evrópuráðsins gegn misnotkun lyfja í íþróttum frá árinu 1989, viðbótarbókun við sama samning frá árinu 2003 og svokallaðri Kaupmannahafnaryfirlýsingu frá sama ári og aðild ríkisins að samningi UNESCO frá árinu 2005, felur í sér skuldbindingu um að hlíta lyfjaeftirlitsreglum Alþjóðalyfjaeftirlitsins (WADA).
    Stofnað var til núgildandi fyrirkomulags um lyfjaeftirlit með samkomulagi ríkisins og ÍSÍ árið 1993 þar sem ríkið fól ÍSÍ framkvæmd lyfjaeftirlitsins í samræmi við samning Evrópuráðsins og tók að sér greiðslu helmings kostnaðar. Starfshættir og starfsumhverfi lyfjaeftirlits hafa gjörbreyst síðan þetta samkomulag var undirritað og er tilgangur þessa frumvarps að efla og styrkja lagaumhverfi lyfjaeftirlits á Íslandi í samræmi við breyttar áherslur og umhverfi.
    Lyfjanotkun sem tengist því að reyna að bæta árangur sinn í nútímaíþróttum má rekja aftur til miðrar síðustu aldar, eða um og eftir síðari heimstyrjöld. Á áratugunum frá 1970– 1990 fór að bera talsvert á lyfjamisnotkun í hefðbundnum íþróttagreinum. Fyrir lok áttunda áratugarins hafði vandamálið ágerst og var farið að skaða íþróttirnar. Þó svo að alþjóðaólympíunefndin stæði fyrir lyfjaeftirliti var það ekki nægilegt til þess að komast fyrir vandamálið. Erfitt reyndist að samræma aðgerðir innan alþjóðasamfélagsins og komu lyfjamisnotkunarmál mjög reglulega upp á stórmótum. Evrópuráðið ákvað að taka málefnið til umfjöllunar á sínum vettvangi upp úr 1960 en þó var ekki gerður samningur fyrr en 1989. Hafa öll ríki Evrópuráðsins nú staðfest þann samning. Í febrúar árið 1999 hélt alþjóðaólympíunefndin fyrstu heimsráðstefnuna um lyfjaeftirlit í íþróttum fyrir íþróttahreyfinguna og stjórnvöld. Niðurstaða ráðstefnunnar var stofnun Alþjóðalyfjaeftirlitsins (World Anti Doping Agency, WADA) í nóvember árið 1999 sem lýtur svissneskum lögum. Það þótti nauðsynlegt að báðir aðilar, þ.e. fulltrúar íþróttahreyfingarinnar og stjórnvalda tækjust á við þetta viðfangsefni þar sem álitið var að ekki væri á færi annars aðilans að standa að lyfjaeftirliti. Í sameiningu væri betur hægt að standa að lyfjaeftirliti til að verja gildi íþrótta á heimsvísu auk þess að koma í veg fyrir heilsufarslegan skaða sem lyfjamisnotkun getur valdið. Þar sem margar ríkisstjórnir geta ekki verið skuldbundnar af frjálsum félagasamtökum og þeirra samningum og sáttmálum, þ.m.t. alþjóðalyfjaeftirlitssáttmálanum (World Anti Doping Code, WADC), var gerður lyfjaeftirlitssamningur á vegum UNESCO árið 2005 til að stjórnvöld gætu formlega viðurkennt WADA og WADC. Önnur mikilvæg aðgerð ríkisstjórna var samþykkt Kaupmannahafnaryfirlýsingarinnar (Copenhagen Declaration on Anti Doping in Sport), þar sem ríkisstjórnir með undirritun lýstu yfir vilja til að viðurkenna formlega WADA og vinna eftir Alþjóðalyfjaeftirlitssáttmálanum. Alls hafa um 200 þjóðir undirritað yfirlýsinguna og búist er við að a.m.k. öll þau lönd fullgildi UNESCO-lyfjaeftirlitssamninginn.
    Sú leið hefur verið valin með þessu frumvarpi að heimila ráðherra að fela þar til bærum aðila að framkvæma lyfjaeftirlit fyrir hönd ríkisins á þann hátt að gerður verði samningur með skilmálum sem ráðuneytið setur til allt að fimm ára í senn. Aðilar þeir sem heimilt er að gera samning við þurfa að uppfylla þau skilyrði að vera aðili sem ekki er rekinn í hagnaðarskyni, ekki tengdur hagsmunasamtökum er gætu stefnt sjálfstæði verkefnisins í hættu og hann þarf að uppfylla reglur og staðla WADA um lyfjaeftirlit. Ráðherra hefur eftirlitsskyldu með framkvæmd lyfjaeftirlits og ber samningsaðila að veita allar þær nauðsynlegu upplýsingar sem ráðherra óskar eftir vegna lyfjaeftirlits svo að hann geti sinnt eftirlitsskyldu sinni.
    Er þetta í samræmi við þá þróun sem hefur orðið hjá öðrum Evrópuþjóðum. Þó svo að samningur ríkisins við þar til bæran aðila sé um lyfjaeftirlit í íþróttum er gert ráð fyrir að hægt sé að útvíkka svið framkvæmdaraðila á þann hátt að hann geti veitt þjónustu víðar í samfélaginu þar sem þörf er fyrir virkt lyfjaeftirlit og fræðslu. Slíkt fyrirkomulag er í samræmi við þá framkvæmd sem verið hefur í samstarfi íþróttahreyfinga og stjórnvalda og leiddi til þess að Alþjóðalyfjaeftirlitið var stofnað. Þá er talið mikilvægt að auka samstarf og samvinnu lyfjaeftirlitsins og tollyfirvalda, lögreglu og yfirvalda fangelsismála, þar sem samvinna ólíkra aðila er líklegust til að skila víðtækustum árangri í baráttunni gegn auknum innflutningi og notkun ólöglegra efna. Mikill innflutningur á sterum og vefaukandi lyfjum er staðreynd hér á landi en notkun á slíkum efnum kemur að litlu leyti fram í lyfjaprófunum á íþróttafólki í hinu skipulagða íþróttastarfi íþróttahreyfingarinnar. Samstarf við aðila utan hins skipulagða íþróttastarfs, svo sem líkamsræktarstöðva er því mikilvægt til þess að hægt sé að stemma stigu við notkun þessara efna sem eru hættuleg heilsu fólks. Fræðslustarf verður eitt meginverkefni framkvæmdaraðila auk lyfjaprófana. Sú fræðslustarfsemi þarf sérstaklega að ná til allra unglinga, bæði þeirra sem leggja stund á skipulagt íþróttastarf og einnig þeirra sem eru utan þess.
    Vegna skuldbindinga ÍSÍ við alþjóðasamninga tengda lyfjaeftirliti var haft samráð við ÍSÍ við samningu þessa frumvarps og voru einungis gerðar af þeirra hálfu athugasemdir vegna orðalags en ekki efnisinnihalds.
    Eins og fram hefur komið er íslenska ríkið aðili að samningi Evrópuráðsins gegn misnotkun lyfja í íþróttum frá árinu 1989, ásamt viðbótarbókun við sama samning frá árinu 2003, Kaupmannahafnaryfirlýsingunni frá árinu 2003 og UNESCO-lyfjaeftirlitssamningnum frá árinu 2005. Með þessari aðild hefur íslenska ríkið skuldbundið sig til að hafa lyfjaeftirlit með íþróttum. Í 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins er staðfest ábyrgð ríkisins á því að lyfjaeftirlit í íþróttum sé framkvæmt hér á landi.
    Samkvæmt 2. mgr. fær ráðherra heimild til að gera samninga til allt að fimm ára í senn um framkvæmd lyfjaeftirlits. Segir jafnframt að slíkir samningar séu skilyrði fyrir veitingu fjárframlaga til viðkomandi aðila, enda er ljóst að slíkir samningar eru háðir framlögum á fjárlögum hvers árs. Skýrt er tekið fram í a–d-lið hvað skuli koma fram í þessum samningum.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að aðila beri að láta í té þær upplýsingar og gögn sem nauðsynleg eru vegna eftirlitsins. Þykir þetta nauðsynlegt til þess að tryggt sé að grundvöllur opinberrar stefnumótunar í lyfjaeftirliti sé svo traustur sem kostur er á hverjum tíma og til að yfirsýn náist um ráðstöfun opinberra fjárveitinga.
    Þá segir í 4. mgr. að ráðherra geti sett gjaldskrá fyrir lyfjaeftirlit og aðra þjónustu sem veitt er á grundvelli þjónustusamnings vegna lyfjaeftirlits. Í samræmi við almennar reglur um þjónustugjöld þykir rétt að hafa slíka gjaldtökuheimild í lögum. Hér er um að ræða þjónustugjald en það er greiðsla sem tilteknir hópar einstaklinga og lögaðila verða að greiða hinu opinbera eða öðrum, sem hafa heimild til að taka við henni, fyrir sérgreinda þjónustu sem látin er í té og er greiðslunni ætlað að standa að hluta eða öllu leyti undir kostnaði við þá þjónustu sem veitt er.Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á íþróttalögum, nr. 64/1998,
með síðari breytingum (lyfjaeftirlit í íþróttum).

    Frumvarp þetta er lagt fram í þeim tilgangi að efla og styrkja lagaumhverfi lyfjaeftirlits vegna íþróttaiðkunar og tryggja að eftirlitið uppfylli betur skuldbindingar Íslands í þeim efnum. Lagt er til að ráðherra geti falið þar til bærum aðila framkvæmd lyfjaeftirlits í íþróttum með þjónustusamningi sem uppfylli tiltekin skilyrði og hægt verði að gera til allt að fimm ára í senn. Þá er í frumvarpinu kveðið á um heimild ráðherra til að setja gjaldskrá vegna lyfjaeftirlitsins og annarrar þjónustu sem veitt er á grundvelli samnings um framkvæmd lyfjaeftirlits.
    Núverandi fyrirkomulag lyfjaeftirlitsins má rekja til ársins 1993 þegar gert var samkomulag þess efnis milli ríkis og Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ) og er það mótað af skuldbindingum aðila samkomulagsins, annars vegar af aðild ríkisins að samningi Evrópuráðsins gegn misnotkun lyfja í íþróttum frá árinu 1989 auk viðbótarbókana við samninginn og hins vegar af skuldbindingu ÍSÍ til að hlíta grundvallarreglum Alþjóðalyfjaeftirlitsins (WADA). Kostnaði vegna eftirlitsins er nú skipt á milli ríkis og ÍSÍ og í frumvarpinu er gert ráð fyrir að veitt verði rekstrarframlag úr ríkissjóði vegna eftirlitsins eftir því sem ákveðið er í fjárlögum hverju sinni. Komi til frekari útgjalda umfram þau sem nú er fjárveiting fyrir verður í ljósi erfiðrar stöðu ríkissjóðs að gera ráð fyrir að mennta- og menningarmálaráðuneytið nýti til þess fjárheimildir af öðrum viðfangsefnum sínum auk þess sem heimild til gjaldtöku vegna lyfjaeftirlits verði nýtt sem kostur er til að fjármagna eftirlitið. Í þessu sambandi má geta þess að á fjárlögum 2012 nema fjárveitingar fjárlagaliðarins ýmis íþróttamál tæpum 400 m.kr., þar af eru 11,8 m.kr. til lyfjaeftirlits og 156 m.kr. til ÍSÍ.
    Með vísan til þess sem að framan er rakið verður ekki séð að lögfesting frumvarpsins hafi í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.