Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 132. máls.

Þingskjal 132  —  132. mál.Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um skráð trúfélög, nr. 108/1999,
með síðari breytingum (lífsskoðunarfélög, aðild barna
að skráðum trúfélögum og lífsskoðunarfélögum o.fl.).

(Lagt fyrir Alþingi á 141. löggjafarþingi 2012–2013.)
1. gr.

    3. mgr. 1. gr. laganna orðast svo:
    Óheimilt er að taka upp heiti á trúfélag eða lífsskoðunarfélag sem er svo líkt heiti annars trúfélags eða lífsskoðunarfélags að misskilningi geti valdið.

2. gr.

    Fyrirsögn I. kafla laganna verður: Almenn ákvæði um trúfélög og lífsskoðunarfélög.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
     a.      1. og 2. málsl. orðast svo: Heimilt er að skrá trúfélög utan þjóðkirkjunnar og lífsskoðunarfélög. Með skráningu fá trúfélög og lífsskoðunarfélög réttindi og skyldur sem lög ákveða.
     b.      Við 3. málsl. bætist: og lífsskoðunarfélaga.
     c.      Á eftir orðinu „trúfélag“ í 4. málsl. kemur: eða lífsskoðunarfélag.
     d.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Skráning trúfélags og lífsskoðunarfélags.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Skilyrði fyrir skráningu trúfélags er að um sé að ræða félag sem leggur stund á átrúnað eða trú.
     b.      Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Skilyrði fyrir skráningu lífsskoðunarfélags er að um sé að ræða félag sem byggist á veraldlegum lífsskoðunum, miðar starfsemi sína við ákveðin siðferðisgildi og mannrækt og fjallar um siðfræði eða þekkingarfræði með skilgreindum hætti.
     c.      2. mgr. orðast svo:
                  Enn fremur er það skilyrði skráningar trúfélags eða lífsskoðunarfélags að félagið hafi náð fótfestu, starfsemi þess sé virk og stöðug, tilgangur þess stríði ekki gegn lögum, góðu siðferði eða allsherjarreglu og að í félaginu sé kjarni félagsmanna sem taka þátt í starfsemi þess og styðja lífsgildi félagsins í samræmi við kenningar þær sem félagið er stofnað um og eiga til sóknar að gjalda hér á landi samkvæmt lögum um sóknargjöld o.fl. Þá er það skilyrði að félagið sjái um tilteknar athafnir, svo sem útfarir, giftingar, skírnir eða nafngjafir og fermingar eða aðrar hliðstæðar athafnir.
     d.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Ráðherra er heimilt að ákveða með reglugerð tiltekinn lágmarksfjölda félagsmanna til þess að heimilt sé að skrá trúfélag eða lífsskoðunarfélag samkvæmt lögum þessum.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðinu „Trúfélag“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: eða lífsskoðunarfélag.
     b.      1. tölul. 1. mgr. orðast svo: heiti félags og heimilisfang.
     c.      3. tölul. 1. mgr. orðast svo: stefnuskrá og/eða trúarkenningar félagsins og tengsl þeirra við önnur trúarbrögð, trúarhreyfingar eða aðrar lífsskoðanir eða lífsskoðunarfélög.
     d.      Á eftir orðinu „trúfélags“ í 2. mgr. og „trúfélag“ í 3. mgr. kemur í viðeigandi beygingarfalli: eða lífsskoðunarfélag.
     e.      4. mgr. orðast svo:
                  Áður en leyfi er veitt til skráningar trúfélags eða lífsskoðunarfélags skal leita álits nefndar sem ráðherra skipar. Einn nefndarmaður er skipaður samkvæmt tilnefningu lagadeildar hér á landi á háskólastigi, og skal hann vera formaður nefndarinnar, annar tilnefndur af félags- og mannvísindadeild Háskóla Íslands, sá þriðji tilnefndur af guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands og sá fjórði tilnefndur af sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands. Falli atkvæði nefndarmanna jafnt skal atkvæði formanns nefndarinnar hafa tvöfalt vægi.

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „trúfélag skal“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: trúfélög og lífsskoðunarfélög skulu.
     b.      Í stað orðsins „félagsins“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: félags.
     c.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Eftirlit með skráðum trúfélögum og lífsskoðunarfélögum.

7. gr.

    Á eftir orðunum „trúfélag“ í 1. málsl. 1. mgr., „trúfélags“ í 3. málsl. 1. mgr. og orðunum „Þegar skráð trúfélag“ og „sem skráð trúfélag“ í 1. málsl. 2. mgr. 6. gr. laganna kemur í viðeigandi beygingarfalli: eða lífsskoðunarfélag.

8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðinu „trúfélags“ í 1. málsl. 1. mgr., 2. mgr. og 1. málsl. 4. mgr. kemur: eða lífsskoðunarfélags.
     b.      Við 2. málsl. 4. mgr. bætist: eða lífsskoðunarfélagsins.
     c.      Við bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                  Forstöðumönnum skráðra trúfélaga og lífsskoðunarfélaga er heimilt að tilnefna einstaklinga innan þess félags sem þeir veita forstöðu til að annast þau embættisverk sem forstöðumanni skráðs trúfélags eða lífsskoðunarfélags eru falin samkvæmt lögum. Um hæfi umræddra einstaklinga gilda sömu hæfisskilyrði og reglur og um forstöðumenn skv. 1.–3. mgr. Ráðuneytið getur, samkvæmt umsókn forstöðumanns, veitt tilnefndum einstaklingum löggildingu til þess að gegna verkum forstöðumanns, en ekki lengur en til þriggja ára í senn. Tilnefndir einstaklingar skulu starfa á ábyrgð og í umboði forstöðumanns viðkomandi skráðs trúfélags eða lífsskoðunarfélags.
                  Ráðuneytið skal upplýsa Þjóðskrá Íslands um þá einstaklinga innan skráðra trúfélaga og lífsskoðunarfélaga sem hafa heimild til þess að annast embættisverk forstöðumanns viðkomandi félags.
     d.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Forstöðumenn skráðra trúfélaga og lífsskoðunarfélaga.

9. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðinu „trúfélag“ og „trúfélagi“ í 1. mgr. kemur í viðeigandi beygingarfalli: eða lífsskoðunarfélag.
     b.      2. mgr. orðast svo:
                  Barn getur frá fæðingu heyrt til trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi eða verið utan trúfélaga og lífsskoðunarfélaga með eftirfarandi hætti:
                  1.      Séu foreldrar barns í hjúskap eða skráðri sambúð við fæðingu þess skal það heyra til sama skráða trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi og foreldrar þess en ella vera utan trúfélaga og lífsskoðunarfélaga ef það gildir um foreldrana.
                  2.      Ef foreldrar barns sem eru í hjúskap eða skráðri sambúð við fæðingu þess heyra ekki til sama skráða trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi eða annað foreldrið er utan trúfélaga og lífsskoðunarfélaga skulu þeir taka sameiginlega ákvörðun um hvort og þá hvaða skráða trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi barnið eigi að heyra til. Fram til þess tíma verður þessi staða barnsins ótilgreind.
                  3.      Ef foreldrar barns eru ekki í hjúskap eða skráðri sambúð þegar barn fæðist skal það heyra til sama skráða trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi og það foreldri sem fer með forsjá þess en ella vera utan trúfélaga og lífsskoðunarfélaga ef það gildir um foreldrið.
     c.      Á eftir orðinu „trúfélagi“ í 1. málsl. 3. mgr. og 4. mgr. kemur: eða lífsskoðunarfélagi.
     d.      5. mgr. orðast svo:
                  Enginn má samtímis heyra til þjóðkirkjunni, skráðu trúfélagi utan þjóðkirkjunnar eða skráðu lífsskoðunarfélagi eða fleiri en einu skráðu trúfélagi utan þjóðkirkjunnar eða skráðu lífsskoðunarfélagi.
     e.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Aðild að skráðu trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi.

10. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðinu „trúfélagi“ í 1. málsl. 1. mgr. og 3. mgr. og 1. málsl. 4. mgr. kemur: eða lífsskoðunarfélagi.
     b.      Á eftir orðinu „trúfélagi“ í 2. málsl. 1. mgr. og 2. mgr. kemur: lífsskoðunarfélagi.
     c.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Innganga og úrsögn úr trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi og úrsögn úr þjóðkirkjunni.

11. gr.

    Fyrirsögn II. kafla laganna verður: Skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög.

12. gr.

    Heiti laganna verður: Lög um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög.

13. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2013.

14. gr.

    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
     1.      Lög um sóknargjöld o.fl., nr. 91/1987, með síðari breytingum.
                  a.      1. gr. laganna orðast svo:
                       Þjóðkirkjusöfnuðir og skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög samkvæmt lögum um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög skulu eiga ákveðna hlutdeild í tekjuskatti álögðum samkvæmt ákvæðum laga um tekjuskatt eftir því sem lög þessi ákveða.
                  b.      Við 1. málsl. 1. mgr. 2. gr. laganna bætist: og lífsskoðunarfélaga.
                  c.      3. gr. laganna orðast svo:
                       Gjald skv. 2. gr. skiptist þannig:
                  1.     Vegna einstaklings, sem skráður er í þjóðkirkjuna, greiðist til þess safnaðar sem hann tilheyrir og miðast við 1. desember næst á undan gjaldári.
                  2.     Vegna einstaklings, sem tilheyrir skráðu trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi, samkvæmt lögum nr. 108/1999, greiðist gjaldið til hlutaðeigandi trúfélags eða lífsskoðunarfélags.
                  3.     Vegna einstaklinga, sem eru í þjóðkirkjunni og eru óstaðsettir á landinu samkvæmt þjóðskrá, greiðist gjaldið til Jöfnunarsjóðs sókna, sbr. 5. gr.
                       Skráning í trúfélag eða lífsskoðunarfélag miðast við 1. desember næst á undan gjaldári.
                  d.      Fyrirsögn I. kafla laganna orðast svo: Um hlutdeild þjóðkirkjusafnaða og skráðra trúfélaga og lífsskoðunarfélaga í tekjuskatti.
     2.      Hjúskaparlög, nr. 31/1993, með síðari breytingum.
                  a.      Á eftir orðunum „forstöðumanni skráðs trúfélags“ í 16. gr. laganna kemur: eða lífsskoðunarfélags eða fyrir einstaklingi sem starfar í umboði forstöðumanns skráðs trúfélags eða lífsskoðunarfélags.
                  b.      1. og 2. mgr. 17. gr. laganna orðast svo:
                     Kirkjulega hjónavígslu annast prestar þjóðkirkjunnar og prestar og forstöðumenn skráðra trúfélaga hér á landi. Hjónavígslu, sem er ekki kirkjuleg eða borgaraleg, annast forstöðumenn skráðra trúfélaga og lífsskoðunarfélaga hér á landi. Prestar og forstöðumenn skráðra trúfélaga eða lífsskoðunarfélaga skulu hafa fengið löggildingu ráðuneytisins.
                     Þá er þeim einstaklingum sem starfa í umboði forstöðumanna skráðra trúfélaga eða lífsskoðunarfélaga og fengið hafa löggildingu ráðuneytisins og uppfylla skilyrði 7. gr. laga um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög einnig heimilt að annast hjónavígslu.
                  c.      Fyrirsögn á undan 17. gr. laganna orðast svo: 2. Prestar og forstöðumenn skráðra trúfélaga og lífsskoðunarfélaga.
                  d.      Eftirfarandi breytingar verða á 42. gr. laganna:
                  1.     Við 1. málsl. 4. mgr. bætist: og lífsskoðunarfélaga eða einstaklingar sem starfa í umboði forstöðumanns skráðs trúfélags eða lífsskoðunarfélags og fengið hafa löggildingu ráðuneytisins.
                   2.     Á eftir orðunum „utan trúfélaga“ í 2. málsl. 4. mgr. kemur: og ekki í skráðu lífsskoðunarfélagi.
                  3.    Á eftir orðunum „sínu trúfélagi“ í 2. málsl. 4. mgr. kemur: eða lífsskoðunarfélagi.
                   4.     Á eftir orðinu „trúfélags“ í 6. mgr. kemur: eða lífsskoðunarfélags eða einstaklinga sem starfa í umboði forstöðumanns skráðs trúfélags eða lífsskoðunarfélags og fengið hafa löggildingu ráðuneytisins.
     3.      Lög um mannanöfn, nr. 45/1996, með síðari breytingum. 2. mgr. 2. gr. laganna orðast svo:
                  Barn öðlast nafn við skírn í þjóðkirkjunni eða skráðu trúfélagi eða með tilkynningu um nafngjöf til Þjóðskrár Íslands, prests eða forstöðumanns skráðs trúfélags eða lífsskoðunarfélags eða til einstaklinga sem starfa í umboði forstöðumanns skráðs trúfélags eða lífsskoðunarfélags og fengið hafa löggildingu ráðuneytisins.
     4.      Lög um þjóðskrá og almannaskráningu, nr. 54/1962, með síðari breytingum.
                  a.      Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
                   1.     Á eftir orðunum „forstöðumanna eða presta skráðra trúfélaga“ í 2. tölul. 1. mgr. kemur: forstöðumanna skráðra lífsskoðunarfélaga eða einstaklinga sem starfa í umboði forstöðumanns skráðs trúfélags eða lífsskoðunarfélags og fengið hafa löggildingu ráðuneytisins.
                   2.     Á eftir orðunum „forstöðumanna eða presta skráðra trúfélaga“ í 6. tölul. 1. mgr. kemur: forstöðumanna skráðra lífsskoðunarfélaga, einstaklinga sem starfa í umboði forstöðumanns skráðs trúfélags eða lífsskoðunarfélags.
                  b.      1. mgr. 7. gr. laganna orðast svo:
                       Nú kemur það í ljós að prestur þjóðkirkjunnar, forstöðumaður eða prestur skráðs trúfélags eða forstöðumaður skráðs lífsskoðunarfélags eða einstaklingur sem starfar í umboði forstöðumanns skráðs trúfélags eða lífsskoðunarfélags og hefur löggildingu ráðuneytisins hefur vanrækt að gera lögboðna skýrslu til Þjóðskrár Íslands um nafngjöf við skírn eða nafngjöf án skírnar, hjónavígslu eða mannslát eða skýrsla um slíkt er fyrst látin í té að liðnum skilafresti, og varðar það þá sekt.
     5.      Lög um fullnustu refsinga, nr. 49/2005, með síðari breytingum. Við 1. mgr. 41. gr. laganna bætist: eða lífsskoðunarfélags.
     6.      Lög um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, með síðari breytingum. Á eftir orðunum „annarra trúfélaga“ í a-lið 1. mgr. 5. gr. laganna kemur: og samkomuhús skráðra lífsskoðunarfélaga.
     7.      Lög um meðferð einkamála, nr. 91/1991, með síðari breytingum. Á eftir orðunum „viðurkenndum trúfélögum“ í 2. mgr. 3. gr. laganna kemur: og skráðum lífsskoðunarfélögum.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Með frumvarpi þessu, sem samið var í innanríkisráðuneytinu, er lagt til að gerðar verði breytingar á lögum um skráð trúfélög. Drög að frumvarpinu voru sett til umsagnar á heimasíðu innanríkisráðuneytisins og gefinn kostur á því að koma með athugasemdir. Frumvarpið var lagt fram á 140. löggjafarþingi en var ekki afgreitt á því þingi. Það er nú lagt nánast óbreytt fram en gerðar hafa verið breytingar á 4. gr. frumvarpsins um skilgreiningu á trúfélagi og lífsskoðunarfélagi með hliðsjón af umsögnum um frumvarpið sem bárust allsherjarnefnd. Markmið frumvarpsins er annars vegar að jafna stöðu lífsskoðunarfélaga á við skráð trúfélög og koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum trúfélaga og lífsskoðunarfélaga og jafna þannig stöðu umræddra félaga á öllum sviðum samfélagsins. Allir einstaklingar skulu vera jafnir að lögum óháð trúar- eða lífsskoðunum. Með frumvarpinu verður m.a. heimilt að skrá lífsskoðunarfélög líkt og trúfélög að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Við skráningu öðlast lífsskoðunarfélög þau réttindi og skyldur sem skráð trúfélög njóta samkvæmt lögum. Markmið frumvarpsins er hins vegar að tryggja jafnrétti foreldra barns við ákvörðun um til hvaða skráða trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi barn skuli heyra, en samkvæmt núgildandi lögum skal barn við fæðingu talið heyra til sama skráða trúfélagi og móðir þess.

I.     Lífsskoðunarfélög.
    Á undanförnum árum hafa verið gerðar athugasemdir við að lífsskoðunarfélög njóti ekki jafnræðis á við skráð trúfélög. Þetta hefur m.a. komið fram í athugasemdum við drög að skýrslu um stöðu mannréttindamála á Íslandi og í erindum lífsskoðunarfélaga til ráðuneytisins. Þá hefur mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna jafnframt óskað eftir upplýsingum um stöðu lífsskoðunarfélaga samanborið við stöðu skráðra trúfélaga í tengslum við framkvæmd Íslands á samningi Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi.
    Í erindum til ráðuneytisins hefur m.a. verið á það bent að ójafnræði sé í því fólgið að félögum sem aðhyllast tiltekin trúarbrögð sé heimiluð formleg skráning á grundvelli núgildandi laga um skráð trúfélög með þeim réttindum og skyldum sem því fylgir, en að sama eigi ekki við um lífsskoðunarfélög sem ekki aðhyllast trúarlegar kennisetningar en miða starfsemi sína við siðferðisgildi og mannrækt. Þá hefur því jafnframt verið haldið fram að stjórnvöld styrki enn fremur eiginleg trúfélög beint með innheimtu sóknargjalda á meðan lífsskoðunarfélög fái engan stuðning.
    Í sumum nágrannalöndum hafa lífsskoðunarfélögum verið veitt sambærileg réttindi og trúarlegum félögum, en Noregur hefur til að mynda sett lög um rétt lífsskoðunarfélaga til greiðslu úr ríkissjóði ( lov om tilskott til livssynssamfunn). Í athugasemdum við frumvarp sem varð að núgildandi lögum um skráð trúfélög er m.a. gerð grein fyrir því að breytingar hafi orðið í norskum rétti með gildistöku laga nr. 64/1981 ( lov om tilskott til livssynssamfunn), en þau lög veiti lífsskoðunarfélögum rétt til fjárframlaga frá norska ríkinu sem svarar til þeirra framlaga sem norska þjóðkirkjan fær miðað við höfðatölu félagsmanna í viðkomandi félagi. Þá segir að það sé markmið laganna frá árinu 1981 að gera óskráð trúfélög og félög um lífsviðhorf eins sett að því er varðar fjárstuðning frá hinu opinbera og trúfélög sem hlotið hafa skráningu samkvæmt lögunum frá 1969. Með lögunum hefur félögum sem ekki geta talist trúfélög í viðteknum skilningi (félög um lífsviðhorf) og óskráðum trúfélögum verið veitt sambærileg staða að því er varðar opinberan fjárstuðning og skráðum trúfélögum samkvæmt lögunum frá árinu 1969.
    Í athugasemdum við frumvarp til núgildandi laga um skráð trúfélög er vísað til rits Ólafs Jóhannessonar Stjórnskipun Íslands (2. útg. 1978), bls. 422, þar sem segir: „Það eru einungis félög, sem stofnuð eru til að „þjóna guði“, sem njóta verndar stjórnarskrárinnar. Félög, sem stofnuð eru til að berjast gegn trúarbrögðum, njóta auðvitað ekki verndar 63. gr., heldur lúta almenna ákvæðinu í 73. gr. [nú 74. gr.]. Félög til rannsóknar á framhaldslífi, svo sem félög til sálarrannsókna og þess háttar, verða naumast talin stofnuð til að þjóna guði og munu því ekki njóta verndar greinarinnar.“ Síðar í sama riti segir Ólafur Jóhannesson um 63. gr. stjórnarskrárinnar (bls. 474): „Samkvæmt því stjórnarskrárákvæði getur löggjafinn ekki heft frelsi manna til að stofna trúfélög né til að starfa í slíkum félögum, nema þau kenni eitthvað það eða fremji, sem gagnstætt er góðu siðferði eða allsherjarreglu. Með því ákvæði hefur stjórnarskrárgjafinn sérstaklega helgað trúariðkunarfélög og veitt þeim vernd umfram önnur félög, og verður eigi við þeirri skipan haggað af almenna löggjafanum.“
    Í grein Oddnýjar Mjallar Arnardóttur ( Trúfrelsi, sannfæringarfrelsi og jafnrétti) sem birt var í Guðrúnarbók: afmælisriti til heiðurs Guðrúnu Erlendsdóttur 3. maí 2006 er vísað til 9. gr. mannréttindasáttmála Evrópu (MSE), sbr. lög nr. 62/1994. Á bls. 373 segir: „Vernd 9. gr. MSE er í raun þríþætt. Fyrsti málsliður 1. mgr. 9. gr. verndar hið svonefnda innra hugsana-, samvisku- og trúfrelsi ( forum internum), sbr. að framan. Engar takmarkanir má í lög leiða á þeim rétti. Ákvæði 9. gr. verndar einnig rétt manna til að breyta um trú eða sannfæringu og verður sá réttur ekki takmarkaður með lögum. Eru þessi atriði sambærileg við verndarsvið 63. gr. og 1. mgr. 73. gr. íslensku stjórnarskrárinnar um trúfrelsi og frelsi til skoðana og sannfæringar.“
    Í fyrrnefndri grein Oddnýjar Mjallar Arnardóttur er jafnframt umfjöllun á bls. 380–382 um 1.–3. mgr. 18. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi sem eru talin efnislega sambærileg við 9. gr. MSE. Það sem sé verndað sé hugsana-, samvisku- og trúfrelsi og sérstaklega rétturinn til að rækja (láta í ljós/iðka) trú sína eða sannfæringu með guðsþjónustu, boðun, breytni og helgihaldi. Þá segir að árið 1993 hafi mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna samþykkt almenna umsögn um skýringar á ákvæðum 18. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Sé þar m.a. lögð sérstök áhersla á að hugsana- og samviskufrelsi sé verndað til jafns við trúfrelsi. Þá sé einnig áréttað að verndin sé hvorki takmörkuð við hefðbundin trúarbrögð né þá sannfæringu eina sem hafi skipulagsleg einkenni eða hefðir sem líkja megi við hefðbundin trúarbrögð. Sé lögð á það áhersla að varast beri tilhneigingu til hvers konar mismununar á grundvelli þess að um sé að ræða ný hugmyndakerfi eða þess að minnihlutahópar aðhyllist þau. Þá sé lögð á það áhersla að þótt ríki fari með tiltekna sannfæringu sem hina opinberu hugmyndafræði í stjórnarskrá, almennum lögum eða í framkvæmd megi það ekki leiða til brota gegn hugsana-, samvisku- og trúfrelsi þeirra sem ekki aðhyllast þá hugmyndafræði, né mismununar gagnvart þeim. Í greininni er einnig vísað til þess að árið 2005 hafi allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkt ályktun um afnám trúarlegs óumburðarlyndis þar sem áréttað sé að vernd nái jafnt til hugsana, samvisku, trúar eða sannfæringar. Þá sé á því byggt að leggja þurfi ríkari áherslu en verið hefur á að tryggja verndina og berjast gegn óumburðarlyndi og mismunun. Ríki séu jafnframt hvött til að grípa til aðgerða í því skyni að efla umburðarlyndi og virðingu fyrir sannfæringu annarra. Ríki séu einnig sérstaklega hvött til þess að tryggja að stjórnskipun þeirra og lög veiti virka vernd fyrir og hugsana-, samvisku-, trúar- og sannfæringarfrelsi.
    Að lokum segir í fyrrnefndri grein Oddnýjar Mjallar Arnardóttur á bls. 383 að réttur trúleysingja, efasemdarmanna og þeirra sem taka ekki afstöðu og aðhyllast eftir atvikum önnur hugmyndakerfi en trúarleg hafi ekki verið tryggður í stjórnarskránni eins og efni hafi staðið til með endurskoðun stjórnarskrárinnar árið 1995. Ályktun hennar sé því að rétt sé að svara endurnýjuðu kalli Sameinuðu þjóðanna um að ríki heims tryggi að stjórnskipan þeirra og löggjöf veiti hugsana-, samvisku-, trúar- og sannfæringarfrelsi virka og jafna vernd.
    Í greinargerð Hjalta Hugasonar, prófessors við guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands, til Stjórnlagaráðs ( Tillaga til Stjórnlagaráðs um niðurfellingu VI. kafla stjórnarskrár og sameiningu 62.–64. gr.) frá 5. apríl 2011 eru lagðar til breytingar á núgildandi stjórnarskrá. Fram kemur að íslenska samfélagið standi á þröskuldi fjölmenningar og að öllum líkindum muni samfélagið þróast í sömu átt og samfélög annars staðar í Evrópu þar sem fólk af mismunandi þjóðerni, kynþáttum og trúarbrögðum lifi hlið við hlið. Þá skipi trú og trúariðkun oft veigamikinn sess í félagslegri og einstaklingsbundinni sjálfsmynd þess. Útfærð trúfrelsisákvæði séu því ekki síst nauðsynleg til að verja mannréttindi fólks sem hefur flust hingað búferlum og myndar trúarlega minnihlutahópa. Eins þurfi trúfrelsi að tryggja stöðu þeirra sem standa vilja utan allra trúfélaga og/eða hafna trú.
    Þá koma einnig fram þau sjónarmið í greinargerð Hjalta Hugasonar í tengslum við tillögur til breytinga á ákvæðum stjórnarskrárinnar að líta skuli til þess réttar sem hver einstaklingur hefur og hans réttur skuli vera færður fram fyrir trúfélögin og stöðu þeirra og þar með skuli taka tillit til aukinnar einstaklingshyggju í samfélaginu í trúarlegum efnum. Hlutur þeirra sem standa utan þjóðkirkjunnar og þeirra sem standa utan trúfélaga skuli jafnframt vera bættur með því að leggja trúfélög og lífsskoðunarfélög að jöfnu. Með tillögum hans til breytinga á ákvæðum stjórnarskrárinnar sé öllum trúfélögum og lífsskoðunarfélögum gert jafnhátt undir höfði þar sem í tillögunum er kveðið er á um almennan stuðning og vernd öllum þeim trúfélögum og lífsskoðunarfélögum til handa sem sækjast eftir skráningu á grundvelli laga þar að lútandi. Þá segir jafnframt að styrkur og vernd ríkisins einstökum trúfélögum og lífsskoðunarfélögum til handa gæti að verulegu leyti byggst á gagnkvæmum samningum milli ríkisins og einstakra trúfélaga og lífsskoðunarfélaga sem veittu hinu opinbera aukna innsýn í starf sitt, tækju á sig ákveðin hlutverk en hlytu í staðinn tiltekinn styrk.
    Við breytingar á lögum um skráð trúfélög ber að líta til umræddra sjónarmiða sem hér hefur verið gerð grein fyrir í ljósi þess að þær breytingar sem lagðar eru til í þessu frumvarpi miða að því að jafna stöðu lífsskoðunarfélaga á við skráð trúfélög.

II.     Núverandi fyrirkomulag um að barn skuli við fæðingu talið heyra til sama skráða trúfélagi og móðir þess.
    Það fyrirkomulag í núgildandi lögum um skráð trúfélög að barn skuli frá fæðingu talið heyra til sama skráða trúfélagi og móðir þess hefur einnig verið gagnrýnt á undanförnum árum. Jafnréttisstofa komst að þeirri niðurstöðu í lok ársins 2008 að annmarkar væru á umræddu ákvæði laganna um skráð trúfélög sem kveður á um að barn skuli frá fæðingu talið heyra til sama skráða trúfélagi og móðir þess og tók fram að það væri tæpast í samræmi við jafnréttislögin og bann þeirra við mismunun á grundvelli kyns að móðerni ráði því alfarið til hvaða trúfélags barn heyrir frá fæðingu. Jafnréttisstofa komst enn fremur að þeirri niðurstöðu að ekki væri að sjá að það væru neinir hagsmunir, hvorki fyrir nýfætt barn né aðra, að barn væri sjálfkrafa skráð í trúfélag hvort sem það fylgdi skráningu móður eða föður. Eðlilegra væri í samræmi við jafnrétti og anda þeirra laga sem og jafnrétti og mannréttindi almennt að forsjármenn tækju um það ákvörðun hvort og þá hvenær skrá ætti barn í trúfélag. Samþykki beggja forsjármanna, ef þeir væru tveir, yrði þá að liggja fyrir til þess að barn yrði skráð í trúfélag þegar það væri yngra en að því væri heimilt að sjá um slíkt á eigin forsendum.
    Með vísan til jafnræðissjónarmiða foreldra barns eru lagðar til breytingar á ákvæðinu sem eiga að hluta til fyrirmynd í norskum lögum um trúfélög o.fl. og að hluta til í eldri lögum um trúfélög, nr. 18/1975. Lagðar eru til breytingar þess efnis að séu foreldrar barns við fæðingu þess í hjúskap eða skráðri sambúð skal það heyra til sama trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi og foreldrar þess en ella utan trúfélaga eða lífsskoðunarfélaga ef það gildir um foreldrana. Ef foreldrar, sem eru í hjúskap eða skráðri sambúð við fæðingu þess, heyra ekki til sama trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi eða annað foreldrið er utan trúfélaga eða lífsskoðunarfélaga skulu þeir taka sameiginlega ákvörðun um hvort og þá til hvaða trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi barn skuli heyra. Fram til þessa tíma verður þessi staða barnsins ótilgreind. Ekki er gert ráð fyrir því að Þjóðskrá Íslands tilkynni foreldrum þeirra barna sem svo háttar til um þessa stöðu. Ef foreldrar barns eru ekki í hjúskap eða skráðri sambúð þegar barn fæðist skal barn heyra til sama trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi og það foreldri sem fer með forsjá þess en ella vera utan trúfélaga eða lífsskoðunarfélaga ef það gildir um foreldrið. Við athugun á því hver fari með forsjá barns við fæðingu þess þegar foreldrar eru hvorki í hjúskap eða skráðri sambúð ber að líta til 2. mgr. 29. gr. barnalaga, nr. 76/2003, en samkvæmt því ákvæði fer móðir ein með forsjá barns ef foreldrar eru hvorki í hjúskap né skráðri sambúð við fæðingu þess, sbr. þó 1. mgr. 32. gr. laganna.
    Við gerð frumvarpsins hafa borist athugasemdir þess efnis að börn eigi ekki að heyra til trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi við fæðingu. Samkvæmt framansögðu hefur sá háttur verið hafður á að börn heyra við fæðingu til sama trúfélagi og móðir þess. Tilgangurinn með framangreindum breytingum er að jafna stöðu foreldra hvað þetta atriði varðar þannig að meginreglan verði sú að barn heyri til sama trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi og þeir sem fara með forsjá þess. Með umræddu fyrirkomulagi er ekki verið að kippa stoðum undan núverandi fyrirkomulagi, en verið er að jafna stöðu þeirra sem fara með forsjá barns við fæðingu þess hvað þetta varðar.
    Þá ber að öðru leyti að líta til 3. mgr. 8. gr. laganna, en samkvæmt því ákvæði tekur það foreldri sem fer með forsjá barns ákvörðun um inngöngu þess eða úrsögn úr skráðu trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi. Ef foreldrar fara saman með forsjá barns taka þeir ákvörðun sameiginlega. Hafi barn náð 12 ára aldri skal leita álits þess um slíka ákvörðun.

III.     Breytingar á öðrum lögum.
    Til þess að tryggja jafnræði lífsskoðunarfélaga á við skráð trúfélög á öllum sviðum samfélagsins eru í frumvarpinu einnig lagðar til breytingar á lögum um sóknargjöld o.fl., nr. 91/1987, hjúskaparlögum, nr. 31/1993, lögum um mannanöfn, nr. 45/1996, lögum um þjóðskrá og almannaskráningu, nr. 54/1962, lögum um fullnustu refsinga, nr. 49/2005, lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, og lögum um meðferð einkamála, nr. 91/1991.
    Með breytingum á lögum um sóknargjöld o.fl. öðlast skráð lífsskoðunarfélög rétt á ákveðinni hlutdeild í tekjuskatti álögðum samkvæmt ákvæðum laga um tekjuskatt. Þess ber að geta að í Noregi er áskilið að fjöldi félagsmanna í lífsskoðunarfélagi sé að lágmarki 500 til þess að félag eigi rétt á hlutdeild í tekjuskatti. Ekki þykir rétt að setja skilyrði í lög um sóknargjöld o.fl. um tiltekinn lágmarksfjölda í skráðu trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi til þess að það skuli eiga rétt á hlutdeild í tekjuskatti, en í frumvarpinu er lagt til að ráðherra hafi heimild til þess að ákveða í reglugerð tiltekinn lágmarksfjölda félagsmanna til þess að heimilt sé að skrá trúfélag eða lífsskoðunarfélag samkvæmt lögunum.
    Gera má ráð fyrir því að hluti þeirra sem í dag eru skráðir utan trúfélaga séu meðlimir í lífsskoðunarfélögum sem munu hugsanlega sækja um skráningu á grundvelli laganna verði frumvarpið að lögum. Með fjölgun á skráðum trúfélögum og/eða lífsskoðunarfélögum munu einstaklingar sem tilheyra þeim falla undir lög um sóknargjöld o.fl. Samkvæmt þeim lögum skulu skráð trúfélög eiga ákveðna hlutdeild í tekjuskatti álögðum samkvæmt ákvæðum laga um tekjuskatt og er fjárhæðin 701 kr. á mánuði fyrir hvern einstakling 16 ára og eldri á árinu 2012. Á þessu stigi liggur ekki fyrir hversu mörg félög gætu átt rétt á skráningu sem trúfélag eða lífsskoðunarfélag né hversu margir meðlimir þeirra eru. Þó má benda á að fyrir hverja 100 einstaklinga 16 ára og eldri sem fjölgar um í skráðum trúfélögum og lífsskoðunarfélögum vegna þessara breytinga munu útgjöld ríkissjóðs aukast um rúmar 800.000 kr. á ári.
    Með breytingum á hjúskaparlögum fá forstöðumenn skráðra lífsskoðunarfélaga heimild til þess að framkvæma hjónavígslur og leita um sættir hjóna samkvæmt hjúskaparlögum. Þá er jafnframt lagt til að einstaklingum sem starfa í umboði forstöðumanna skráðra trúfélaga og lífsskoðunarfélaga og fengið hafa löggildingu ráðuneytisins og uppfylla skilyrði 7. gr. laga um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög verði einnig heimilt að annast hjónavígslur og leita um sættir hjóna. Við gerð frumvarpsins kom til skoðunar hvort tiltaka ætti sveitarstjóra í viðkomandi sveitarfélagi sem vígslumenn samkvæmt hjúskaparlögum. Var þó talið að slíkt ætti ekki að skoða nánar fyrr en endurskipulagningu sýslumannsembættanna væri lokið eða í tengslum við það verkefni.
    Með breytingum á lögum um mannanöfn öðlast barn einnig nafn með nafngjöf hjá skráðu lífsskoðunarfélagi eða með tilkynningu til forstöðumanns skráðs lífsskoðunarfélags eða til einstaklinga sem starfa í umboði forstöðumanns skráðs trúfélags eða lífsskoðunarfélags og fengið hafa löggildingu ráðuneytisins.
    Með breytingum á lögum um þjóðskrá og almannaskráningu byggist almannaskráning samkvæmt lögunum einnig á skýrslum forstöðumanna skráðra lífsskoðunarfélaga og einstaklinga sem starfa í umboði forstöðumanns skráðs trúfélags eða lífsskoðunarfélags og fengið hafa löggildingu ráðuneytisins um nafngjafir, hjónavígslur og mannslát og sérstökum upplýsingum fyrrnefndra aðila um menn.
    Með breytingum á lögum um fullnustu refsinga geta fulltrúar skráðra lífsskoðunarfélaga veitt föngum sambærilega þjónustu samkvæmt ákvæðinu og prestar og fulltrúar skráðra trúfélaga.
    Með breytingum á lögum um tekjustofna sveitarfélaga verða samkomuhús skráðra lífsskoðunarfélaga einnig undanþegin fasteignaskatti líkt og kirkjur og bænahús íslensku þjóðkirkjunnar og annarra skráðra trúfélaga.
    Með breytingum á lögum um meðferð einkamála geta forstöðumenn skráðra lífsskoðunarfélaga einnig verið undanþegnir skyldu til starfa meðdómsmanns.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1.–3. gr. og 11. gr.

    Í þessum greinum eru lagðar til breytingar á 1. og 2. gr. núgildandi laga sem fjalla um trúfrelsi og skráningu trúfélags auk fyrirsagna I. og II. kafla laganna. Breytingarnar miða að því að jafna stöðu lífsskoðunarfélaga á við stöðu skráðra trúfélaga. Með breytingunum verður óheimilt að taka upp heiti á trúfélag eða lífsskoðunarfélag sem er svo líkt heiti annars trúfélags eða lífsskoðunarfélags að misskilningi geti valdið. Þá verður einnig heimilt að skrá lífsskoðunarfélög sem fá með skráningu þau réttindi og skyldur sem lög ákveða. Samkvæmt þessum ákvæðum gilda að öðru leyti sömu reglur og sjónarmið varðandi skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög.

Um 4. gr.

    Í greininni eru lagðar til breytingar á 3. gr. núgildandi laga. Lagt er til að skilyrði skráningar trúfélags verði þau að um sé að ræða félag sem leggur stund á átrúnað eða trú. Þá er lagt til að skilyrði skráningar lífsskoðunarfélags verði þau um sé að ræða félag sem byggist á veraldlegum lífsskoðunum, miðar starfsemi sína við ákveðin siðferðisgildi og fjallar um siðfræði eða þekkingarfræði með skilgreindum hætti.
    Í athugasemdum við frumvarp til núgildandi laga um skráð trúfélög kemur fram í umfjöllun um skilgreiningu á trúfélagi að ekki sé verið að setja fram fræðilega skilgreiningu á hugtakinu trúfélag sem trúarbragðafræðingar séu endilega sammála um heldur sé eingöngu verið að setja fram almenn skilyrði sem trúfélag verður að uppfylla til að hljóta skráningu samkvæmt ákvæðum frumvarpsins. Sömu sjónarmið eiga einnig við hér varðandi skilgreiningu á lífsskoðunarfélagi til þess að það hljóti skráningu samkvæmt ákvæðum þessa frumvarps. Enn fremur er leitast við að setja fram ákveðin skilyrði skráningar lífsskoðunarfélags til þess að koma í veg fyrir að félög af ýmsum öðrum toga, sem hafa ekki þann tilgang eða sögulegu eða menningarlegu rætur o.fl. sem áskilið er í frumvarpi þessu, fái skráningu og þau réttindi sem því fylgja.
    Þá er það enn fremur lagt til að skilyrði skráningar trúfélags og lífsskoðunarfélags verði þau að félag hafi náð fótfestu, starfsemi þess sé virk og stöðug, tilgangur þess stríði ekki gegn lögum, góðu siðferði eða allsherjarreglu og að í félaginu sé kjarni félagsmanna sem tekur þátt í starfsemi félagsins og styðji lífsgildi þess í samræmi við kenningar þær sem félagið er stofnað um og eiga til sóknar að gjalda hér á landi samkvæmt lögum um sóknargjöld o.fl. Er hér um að ræða nýmæli í þessu ákvæði um að tilgangur félags megi ekki stríða gegn lögum, góðu siðferði eða allsherjarreglu, en sömu sjónarmið koma einnig fram í 1. mgr. 1. gr. núgildandi laga. Þykir rétt að þessi sjónarmið verði ítrekuð frekar í 3. gr. laganna. Þá er það skilyrði að félög sjái um tilteknar félagslegar athafnir á borð við útfarir, giftingar, skírnir eða nafngjafir og fermingar eða aðrar hliðstæðar athafnir. Er það í samræmi við þau sjónarmið sem gerð hefur verið grein fyrir um að skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög taki á sig ákveðin hlutverk í samfélaginu en hljóti í staðinn hlutdeild í tekjuskatti, þ.e. sóknargjöld. Ekki er þó gert að skilyrði að félög annist allar þær athafnir sem nefndar eru hér að framan kjósi félag t.d. einungis að sjá um giftingar eða fermingar en ekki útfarir eða skírnir eða nafngjafir. Félög öðlast þó með skráningu þau réttindi sem lög ákveða til að framkvæma tilteknar athafnir. Hér er ekki um tæmandi talningu að ræða, heldur eru taldar upp þær helstu athafnir sem tengjast tímamótum í lífi fólks. Þess ber að geta að í reynd eru skráð trúfélög ekki með sambærilegar athafnir og annast ekki allar þær athafnir sem gerð hefur verið grein fyrir hér að framan. Er lagt til að samræmis varðandi trúfélög og lífsskoðunarfélög verði gætt í þessum efnum og að ekki verði lögð skylda á félög að sjá um sömu athafnirnar, en til þess að félag verði skráð verður það að annast tilteknar athafnir. Þá er þetta skilyrði jafnframt talið koma í veg fyrir að önnur félög en trúfélög og lífsskoðunarfélög í mjög þröngum skilningi geti öðlast skráningu og þann rétt sem í henni felst. Skal litið svo á að þetta sé eitt helsta skilyrði þess að félag samkvæmt lögunum öðlist skráningu.
    Samkvæmt núgildandi lögum um skráð trúfélög þurfa skráð trúfélög ekki að hafa tiltekinn lágmarksfjölda félagsmanna til þess að öðlast skráningu samkvæmt lögunum. Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að ekki hafi þótt rétt að setja beinlínis skilyrði um tiltekinn lágmarksfjölda í trúfélagi sem skilyrði fyrir skráningu, en meta verði alla þessa þætti í heild þegar metið er hvort skilyrðum þeim sem sett séu í frumvarpinu sé fullnægt. Í framkvæmd hefur verið miðað við að fjöldi félagsmanna í trúfélagi verði að vera a.m.k. 25 til þess að það verði skráð samkvæmt lögunum. Þykir rétt að leggja til að ráðherra hafi heimild til þess að setja í reglugerð ákveðið viðmið hvað þetta varðar.

Um 5. gr.

    Í greininni eru lagðar til orðalagsbreytingar á 4. gr. laganna svo að efni ákvæðisins falli bæði að trúfélögum og lífsskoðunarfélögum. Þá eru einnig lagðar eru til breytingar á heiti þeirra deilda Háskóla Íslands sem skipa þá nefnd sem ráðherra leitar álits hjá áður en veitt er leyfi til skráningar trúfélags eða lífsskoðunarfélags, í samræmi við þær breytingar sem orðið hafa á heiti umræddra deilda. Jafnframt eru lagðar til þær breytingar á 4. mgr. að ráðherra leitar álits sömu nefndar þegar um er að ræða trúfélög og lífsskoðunarfélög en að nefndin verði styrkt með því að bæta við fjórða nefndarmanni í umrædda nefnd. Skal sá nefndarmaður vera tilnefndur af sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands. Er þetta lagt til með það í huga að réttara sé, sérstaklega með tilliti til eðlis lífsskoðunarfélaga, að nefndin verði styrkt með framangreindum hætti. Einnig er lagt til að formaður nefndarinnar verði skipaður samkvæmt tilnefningu lagadeildar hér á landi á háskólastigi. Er því ekki áskilið að leita þurfi tilnefningar frá lagadeild Háskóla Íslands, heldur er heimilt að leita eftir tilnefningum í þeim háskólum hér á landi sem bjóða upp á laganám. Þá er lagt til að atkvæði formanns nefndarinnar hafi tvöfalt vægi ef atkvæði nefndarmanna falla jafnt.

Um 6.–8. gr.

    Í þessum greinum eru lagðar til breytingar á 5., 6. og 7. gr. núgildandi laga sem fjalla um eftirlit með skráðu trúfélagi þegar skráning er felld út gildi og forstöðumenn skráðra trúfélaga. Breytingarnar miða að því að jafna stöðu lífsskoðunarfélaga og skráðra trúfélaga. Ekki eru lagðar til aðrar efnislegar breytingar á ákvæðunum en þær að bæta við orðinu lífsskoðunarfélag er þau fjalla um skráð trúfélög.
    Í c-lið 8. gr. eru þó lagðar til breytingar á 7. gr. laganna þess efnis að forstöðumönnum skráðra trúfélaga og lífsskoðunarfélaga verði heimilt að tilnefna einstaklinga innan þess félags sem þeir veita forstöðu til að annast þau embættisverk sem forstöðumanni skráðs trúfélags eða lífsskoðunarfélags eru falin samkvæmt lögum. Um hæfi umræddra einstaklinga gilda sömu hæfisskilyrði og reglur og um forstöðumenn skv. 1.–3. mgr. 7. gr. laganna. Þá er lagt til að ráðuneytið geti samkvæmt umsókn forstöðumanns veitt tilnefndum einstaklingum löggildingu til þess að annast verk forstöðumanns, en eigi lengur en til þriggja ára í senn. Tilnefndir einstaklingar skulu jafnframt starfa á ábyrgð og í umboði forstöðumanns viðkomandi skráðs trúfélags eða lífsskoðunarfélags. Umræddar breytingar eru lagðar til með tilliti til aukinna umsvifa forstöðumanna sem geta gert það að verkum að erfitt reynist fyrir þá að sinna einir þeim verkum sem þeim eru falin. Þá geta einnig komið upp ýmiss konar forföll hjá forstöðumönnum, svo sem vegna veikinda, og þykir því rétt að fleiri einstaklingar innan viðkomandi skráðs trúfélags eða lífsskoðunarfélags hafi heimild til þess að annast verkefni viðkomandi forstöðumanns.
    Rétt þykir að taka fram að hugtakið forstöðumaður trúfélags eða lífsskoðunarfélags nær yfir þann sem hefur réttindi og skyldur samkvæmt þessum lögum ásamt fleiri lögum og hefur því m.a. heimild til þess að framkvæma ýmsar athafnir, svo sem hjónavígslur. Forstöðumenn hafa því rétt til þess að stjórna og framkvæma ýmsar athafnir og kalla mætti þá því „athafnastjóra“. Rétt þykir þó að nota hugtakið forstöðumaður sem er almennara hugtak, þrátt fyrir að forstöðumaður sé jafnan athafnastjóri innan viðkomandi félags. Þá er rétt að taka fram að stjórnvöld hafa ekki afskipti af því hvernig fyrirkomulagi er háttað innan trúfélaga eða lífsskoðunarfélaga. Þegar félag hefur verið skráð og öðlast þau réttindi og skyldur sem því fylgja þarf þó að vera einn einstaklingur í forsvari fyrir félagið gagnvart stjórnvöldum. Samkvæmt framansögðu geta síðan fleiri einstaklingar innan félagsins starfað í umboði forstöðumanns eftir ákveðnum skilyrðum.
    Lagt er til að ráðuneytið upplýsi Þjóðskrá Íslands um þá einstaklinga innan skráðra trúfélaga og lífsskoðunarfélaga sem hafa heimild til þess að annast embættisverk forstöðumanns viðkomandi félags, en nauðsynlegt þykir að Þjóðskrá Íslands hafi umræddar upplýsingar tiltækar.

Um 9. gr.

    Í greininni eru lagðar til orðalagsbreytingar á 8. gr. núgildandi laga svo að efni ákvæðisins falli bæði að trúfélögum og lífsskoðunarfélögum auk þess sem lagðar eru til efnislegar breytingar á 2. mgr. 8. gr. laganna.
    Samkvæmt 2. mgr. 8. gr. núgildandi laga skal barn frá fæðingu talið heyra til sama skráða trúfélagi og móðir þess. Til þess að tryggja jafnrétti foreldra barns hvað þetta varðar eru lagðar til breytingar á ákvæðinu. Lagðar eru til breytingar þess efnis að séu foreldrar barns í hjúskap eða skráðri sambúð við fæðingu þess skuli barn heyra til sama skráða trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi og foreldrar þess en ella vera utan trúfélaga og lífsskoðunarfélaga ef það gildir um foreldrana. Ef foreldrar barns, sem eru í hjúskap eða skráðri sambúð við fæðingu þess, heyra ekki til sama skráða trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi eða annað foreldrið er utan trúfélaga og lífsskoðunarfélaga skulu þeir taka sameiginlega ákvörðun um hvort og þá til hvaða skráða trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi barn skuli heyra. Fram til þessa tíma verður þessi staða barnsins ótilgreind. Ef foreldrar barns eru ekki í hjúskap eða skráðri sambúð þegar barn fæðist skal barn heyra til sama skráða trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi og það foreldri sem fer með forsjá þess en annars vera utan trúfélaga og lífsskoðunarfélaga ef það gildir um foreldrið. Við athugun á því hver fari með forsjá barns við fæðingu þess þegar foreldrar eru hvorki í hjúskap né skráðri sambúð ber að líta til 2. mgr. 29. gr. barnalaga, nr. 76/2003, en samkvæmt því ákvæði fer móðir ein með forsjá barns ef foreldrar eru hvorki í hjúskap né skráðri sambúð við fæðingu þess, sbr. þó 1. mgr. 32. gr. laganna.
    Umrætt fyrirkomulag felur í sér að staða þeirra barna sem eiga foreldra, sem eru í skráðri sambúð eða í hjúskap og heyra ekki til sama skráða trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi eða annað foreldrið er utan trúfélaga eða lífsskoðunarfélaga, verður ótilgreind hvað þetta varðar fram til þess tíma er foreldrar taka sameiginlega ákvörðun til hvaða skráða trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi barnið skuli heyra. Foreldrar geta á sama hátt einnig ákveðið að barnið skuli vera utan trúfélaga og lífsskoðunarfélaga.
    Árétta skal að foreldrar barns sem fara með forsjá þess geta síðan ávallt tekið ákvörðun um að skrá barn úr því trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi sem það heyrir til við fæðingu eða skráð barn í annað trúfélag eða lífsskoðunarfélag í samræmi við 3. mgr. 8. gr. laganna.

Um 10. gr.

    Í þessari grein eru lagðar til breytingar á 9. gr. núgildandi laga sem fjallar um inngöngu og úrsögn úr skráðu trúfélagi og úrsögn úr þjóðkirkjunni. Breytingarnar miða að því að jafna stöðu lífsskoðunarfélaga og skráðra trúfélaga. Ekki eru lagðar til aðrar efnislegar breytingar á ákvæðinu en þær að bæta við orðinu lífsskoðunarfélag í ákvæðið er það fjallar um skráð trúfélög.

Um 12. gr.

    Í greininni er lagt til að heiti laganna verði í samræmi við efni þeirra, þ.e. um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög.

Um 13. gr.

    Lagt er til að lögin taki gildi 1. janúar 2013. Nauðsynlegt þykir að hafa ákveðinn aðlögunartíma, m.a. til þess að setja reglugerðir á grundvelli laganna auk þess sem ákveðinn undirbúningstími þarf að vera fyrir undirstofnanir og jafnvel ný félög sem sækja ætla um skráningu á grundvelli laganna.

Um 14. gr.

    Í þessari grein eru ákvæði um breytingu einstakra lagaákvæði, en breytingarnar miða að því að jafna stöðu lífsskoðunarfélaga og skráðra trúfélaga á öllum sviðum samfélagsins.
    Í 1. tölul. eru lagðar til breytingar á lögum um sóknargjöld, nr. 91/1987. Með breytingunni öðlast skráð lífsskoðunarfélög rétt á ákveðinni hlutdeild í tekjuskatti álögðum samkvæmt ákvæðum laga um tekjuskatt.
    Í 2. tölul. eru lagðar til breytingar á hjúskaparlögum. Með breytingunni fá forstöðumenn skráðra lífsskoðunarfélaga heimild til þess að framkvæma hjónavígslur og leita um sættir hjóna samkvæmt hjúskaparlögum. Þá er jafnframt lagt til að þeim einstaklingum sem starfa í umboði forstöðumanna skráðra trúfélaga og lífsskoðunarfélaga og fengið hafa löggildingu ráðuneytisins og uppfylla skilyrði 7. gr. laga um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög verði einnig heimilt að annast hjónavígslur og leita um sættir hjóna. Er þetta í samræmi við þau sjónarmið sem gerð hefur verið grein fyrir um aukin umsvif forstöðumanna og sérstakar aðstæður sem geta skapast, svo sem vegna forfalla þeirra, þannig að nauðsynlegt sé að einstaklingar innan trúfélaga og lífsskoðunarfélaga hafi heimild til þess að annast verkefni forstöðumanna.
    Í 3. tölul. eru lagðar til breytingar á lögum um mannanöfn. Með breytingunni öðlast barn einnig nafn með nafngjöf hjá skráðu lífsskoðunarfélagi eða með tilkynningu til forstöðumanns skráðs lífsskoðunarfélags eða til einstaklings sem starfar í umboði forstöðumanns skráðs trúfélags eða lífsskoðunarfélags og fengið hefur löggildingu ráðuneytisins. Ekki þykir þörf á því að tilgreina sérstaklega að barn öðlist nafn hjá skráðu lífsskoðunarfélagi eftir nafngjafarathöfn þrátt fyrir að félag viðhafi eftir atvikum slíka athöfn, en einungis er átt við með hvaða hætti barn geti öðlast nafn.
    Í 4. tölul. eru lagðar til breytingar á lögum um þjóðskrá og almannaskráningu. Með breytingunni byggist almannaskráning samkvæmt lögunum einnig á skýrslum forstöðumanna skráðra lífsskoðunarfélaga og einstaklinga sem starfa í umboði forstöðumanna skráðra trúfélaga og lífsskoðunarfélaga og fengið hafa löggildingu ráðuneytisins um nafngjafir, hjónavígslur og mannslát og sérstökum upplýsingum forstöðumanna skráðra lífsskoðunarfélaga um menn.
    Í 5. tölul. eru lagðar til breytingar á lögum um fullnustu refsinga. Með breytingunni geta fulltrúar skráðra lífsskoðunarfélaga veitt föngum sambærilega þjónustu samkvæmt ákvæðinu og prestar og fulltrúar skráðra trúfélaga.
    Í 6. tölul. eru lagðar til breytingar á lögum um tekjustofna sveitarfélaga. Með breytingunni verða samkomuhús skráðra lífsskoðunarfélaga einnig undanþegnar fasteignaskatti líkt og kirkjur og bænahús íslensku þjóðkirkjunnar og annarra skráðra trúfélaga.
    Í 7. tölul. eru lagðar til breytingar á lögum um meðferð einkamála sem kveður á um þá sem eru undanþegnir skyldu til starfa meðdómsmanns. Mun ákvæðið þá einnig taka til forstöðumanna skráðra lífsskoðunarfélaga.Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um skráð trúfélög, nr. 108/1999, með síðari breytingum (lífsskoðunarfélög, aðild barna
að skráðum trúfélögum og lífsskoðunarfélögum o.fl.).

    Meginmarkmið frumvarpsins er annars vegar að jafna stöðu lífsskoðunarfélaga og skráðra trúfélaga og stuðla að meiri jöfnuði meðal íbúa landsins gagnvart lögum óháð trúar- eða lífsskoðunum. Hins vegar er það markmið frumvarpsins að tryggja jafnrétti foreldra barns við ákvörðun um til hvaða trúfélags eða lífsskoðunarfélags barn skuli heyra en samkvæmt núgildandi lögum skal barn við fæðingu talið heyra til sama skráða trúfélags og móðir þess.
    Helstu breytingartillögur frumvarpsins varða lög um skráð trúfélög, nr. 108/1999, auk þess sem lagðar eru til breytingar á eftirtöldum lögum til samræmis við markmið frumvarpsins: lögum um sóknargjöld o.fl., nr. 91/1987, hjúskaparlögum, nr. 31/1993, lögum um mannanöfn, nr. 45/1996, lögum um þjóðskrá og almannaskráningu, nr. 54/1962, lögum um fullnustu refsinga, nr. 49/2005, lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995 og lögum um meðferð einkamála, nr. 91/1991.
    Þau ákvæði frumvarpsins sem helst eru talin geta haft áhrif á útgjöld ríkissjóðs varða réttindi lífsskoðunarfélaga og hlutdeild þeirra í framlögum vegna sóknargjalda. Með frumvarpinu verður m.a. heimilt að skrá lífsskoðunarfélög líkt og trúfélög að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, svo sem að félag aðhyllist tiltekið hugmyndakerfi og bjóði upp á tilteknar athafnir á borð við giftingar og skírnir. Við skráningu öðlast lífsskoðunarfélög þau réttindi og skyldur sem skráð trúfélög hafa samkvæmt lögum og mundu þau því fá greidd framlög úr ríkissjóði vegna sóknargjalda fyrir skráða félaga sem eru 16 ára og eldri í stað þess að fjármagna sig af sjálfsaflafé svo sem félagsgjöldum. Samkvæmt núgildandi lögum er sóknargjald ákvarðað sem tiltekin fjárhæð ár hvert fyrir hvern einstakling í þjóðkirkjusöfnuði eða skráðu trúfélagi sem er orðinn 16 ára 31. desember árið áður en gjaldár hefst. Fjárhæðin nemur 701 kr. á mánuði á þessu ári eða sem svarar til 8.412 kr. á heilu ári. Miðað við meðalævilíkur má gera ráð fyrir að ríkið greiði alls um 555 þús. kr. fyrir einstakling sem á aðild að trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi til æviloka. Auk þess greiðir ríkið sem svarar til 18,5% af sóknargjöldum þjóðkirkjunnar í Jöfnunarsjóð sókna og 14,3% í Kirkjumálasjóð. Svarar það til þess að sóknargjald vegna einstaklinga í þjóðkirkjusöfnuðum nemi 11.172 kr. og sé þar með 33% hærra. Ekkert framlag er greitt vegna einstaklinga sem standa utan trúfélaga eða eru í trúfélagi sem ekki hefur hlotið skráningu. Hér er því um lögboðin framlög úr ríkissjóði til skráðra trúfélaga að ræða í skilningi laga nr. 88/1987, um fjárreiður ríkisins, en hins vegar innheimtir ríkið engin sóknargjöld heldur greiðast framlögin í reynd af almennu skattfé og öðrum tekjum ríkisins.
    Nálægt 15 þúsund einstaklingar sem eru 16 ára og eldri eru í trúfélögum sem ekki hafa fengið skráningu eða eru ótilgreindir. Þá eru tæplega 12 þúsund einstaklingar sem eru utan trúfélaga. Af þessum fjölda er talið að nokkur hundruð séu skráð í lífsskoðunarfélög en heildarfjöldi félagsmanna þeirra liggur ekki nægilega vel fyrir hjá innanríkisráðuneytinu. Í þessu sambandi er helst horft til lífsskoðunarfélagsins Siðmenntar, félag siðrænna húmanista á Íslandi, en félagið hefur áður sótt um skráningu og verður að teljast líklegt að það verði skráð eftir breytingu laganna. Félagið hefur vel á þriðja hundrað félagsmenn og verður fjárhagslegur hvati fyrir það að fá skráningu og fjármagna starfsemi sína eftirleiðis af skattfé í stað þess eða til viðbótar við að vera fjármagnað með 4.400 kr. árgjaldi skráðra félaga eins og nú er. Þá kann að vera að félagsmönnum slíkra lífsskoðunarfélaga fjölgi og jafnvel að ný félög verði stofnuð í kjölfar þess að réttur myndast til þess að fjármagna starfsemina með ríkisframlögum. Verði frumvarpið lögfest er ekki hægt að segja fyrir um hversu mikil fjölgun gæti orðið á einstaklingum sem framlag vegna sóknargjalda miðast við en benda má á að útgjöld ríkissjóðs mundu að óbreyttu aukast um 8,4 m.kr. á ári fyrir hverja þúsund nýja einstaklinga sem ríkissjóður greiðir sóknargjöld með.
    Vegna mikils halla sem er á ríkisrekstrinum um þessar mundir og stefnumörkunar um að afkoman nái jafnvægi eftir tvö ár þarf að leitast við að sporna gegn nýjum útgjöldum af þessum toga sem ekki hefur verið gert ráð fyrir í útgjaldaramma innanríkisráðuneytisins. Í tengslum við þetta frumvarp mætti gera ráð fyrir að því yrði náð fram með því að lækka einingaverðsviðmiðun framlaga vegna sóknargjalda þannig að heildarútgjöldin verði óbreytt þótt einstaklingum í trúfélögum og lífsskoðunarfélögum fjölgi.
    Verði frumvarpið lögfest má telja líkur á að einstaklingum sem ríkissjóður greiðir sóknargjöld með fjölgi um fleiri hundruð og hugsanlega þúsundir til lengri tíma litið. Gera verður ráð fyrir að brugðist yrði við því með því að lækka á móti einingarverð sóknargjalda fyrir hvern einstakling þannig að útgjöldin haldist innan þess ramma sem innanríkisráðuneytinu er markaður í ríkisfjármálaáætlun gildandi fjárlaga. Loks má nefna viðbótarkostnað sem falla mun til hjá Þjóðskrá Íslands vegna breytinga á tölvukerfum en gert er ráð fyrir að hann verði óverulegur og rúmist innan núverandi fjárheimilda stofnunarinnar.