Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 154. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 154  —  154. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um mótun heildstæðrar stefnu um afreksfólk í íþróttum.

Flm.: Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Þorgerður K. Gunnarsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að móta heildstæða stefnu um afreksfólk í íþróttum í samvinnu við Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands og sveitarfélögin. Stefnan verði tímasett samhliða því að tryggður verði fjárhagslegur stuðningur við afreksfólk.

Greinargerð.


    Tillaga þessi var áður lögð fram á 140. löggjafarþingi (396. mál).
    Afreksíþróttir hafa skipað veglegan sess meðal landsmanna og afreksíþróttafólk okkar verið góð landkynning á erlendri grund. Jafnframt vita allir mikilvægi þess að börn og ungmenni hafi góðar fyrirmyndir. Slíkt er ómetanlegt fyrir allt forvarnastarf og uppbyggingu íþrótta- og æskulýðsmála. Ýmislegt hefur verið gert af hálfu hins opinbera sem vert er að nefna, sérsamböndum hefur verið gert kleift að halda úti landsliðum og taka þátt í alþjóðastarfi sem fulltrúar Íslands, ferðasjóður íþróttafélaga hefur verið efldur og stutt hefur verið við afrekssjóð ÍSÍ, en betur má ef duga skal.
    Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands hefur mótað afreksstefnu sína þar sem settar hafa verið fram tímabundnar markvissar áætlanir um frammistöðu á stórmótum. En til að tryggja slagkraft markmiðanna til langframa ber, ásamt því að horfa á keppnisárangur, að styrkja eigin getu og hæfileika hreyfingarinnar til að vinna að langtímamarkmiðum í afreksíþróttum. Mörg íþróttafélög í samvinnu við sveitarfélög hafa gert slíkt hið sama.
    Landslið kvenna í knattspyrnu og handknattleik hafa á undanförnum árum bæst í hóp landsliða karla í sömu greinum og staðið sig með mikilli prýði á stórmótum og Gerpla á Norðurlandameistara í hópfimleikum kvenna. Þá hafa íþróttamenn í einstaklingsíþróttum staðið sig vel og áfram mætti telja. Það er því tímabært að stjórnvöld móti stefnu um afreksfólk í íþróttum í samvinnu við sveitarfélögin og Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands og styðji þannig íþróttahreyfinguna með markvissari hætti.
    Í þingsályktunartillögunni er því lagt til að ráðherra verði falið að móta heildstæða stefnu um afreksfólk í íþróttum. Mikilvægt er að stefnan verði unnin í samvinnu við Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands og sveitarfélögin til þess að tryggja að sem flestir taki þátt í vinnunni. Þannig eru mestar líkur á að stefnan verði grundvöllur að öflugum stuðningi við afreksfólkið okkar sem eykur líkur á að sem mestur árangur náist. Nauðsynlegt er að stefnan verði tímasett, t.d. til næstu 5–10 ára, og fjárhagslegur stuðningur tryggður samhliða. Stefnan verði endurskoðuð a.m.k. árlega. Þá telja flutningsmenn eðlilegt að ráðherra haldi allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis upplýstri um framgang málsins.