Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 44. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 186  —  44. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit



um tillögu til þingsályktunar um aðgerðir til að efla og auðvelda póstverslun.

Frá umhverfis- og samgöngunefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið.
    Tillaga þessi var áður flutt á 140. löggjafarþingi (562. mál) og er nú endurflutt efnislega óbreytt.
    Meginefni tillögunnar lýtur að því að fela forsætisráðherra að setja á fót starfshóp sem kanni þróun og regluverk í póstverslun og geri tillögur að lagabreytingum og öðrum ráðstöfunum í því skyni að skapa póstverslun samkeppnisstöðu sem væri til hagsbóta fyrir neytendur og atvinnufyrirtæki. Afstaða nefndarinnar á síðasta þingi kom fram í nefndaráliti (þskj. 1236) og sagði þar m.a. að póstverslun hefði farið vaxandi undanfarin ár, eins og fram kæmi í greinargerð, og þörf aukist fyrir bætt lagaumhverfi á þessu sviði. Nefndin tók heilshugar undir þingsályktunartillöguna og fagnaði því að settur yrði á fót starfshópur í því skyni að efla og auðvelda póstverslun. Nefndarálitinu var dreift 26. apríl en málið komst ekki til síðari umræðu áður en þingi var frestað í júní. Nefndin hefur nú athugað málið að nýju, er á sama máli og lýst er í nefndarálitinu frá því í vor, og leggur til að tillagan verði samþykkt.

Alþingi, 26. sept. 2012.



Guðfríður Lilja Grétarsdóttir,


form.


Ólína Þorvarðardóttir.


Róbert Marshall.



Mörður Árnason,


frsm.


Atli Gíslason.