Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 217. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 225  —  217. mál.




Fyrirspurn



til innanríkisráðherra um lagfæringu þjóðvegarkafla á Sauðárkróki.

Frá Gunnari Braga Sveinssyni.


    Hvenær áætlar ráðherra að lokið verði við lagfæringu á þjóðvegarkafla sem liggur í gegnum Sauðárkrók en hafist var handa við breytingu á legu kaflans árið 2003?


Skriflegt svar óskast.


Greinargerð.


    Fyrir nokkrum árum var hafist handa við miklar endurbætur á þjóðveginum um Þverárfjall sem stytt hefur leiðina á milli Blönduóss, Skagastrandar og Sauðárkróks til mikilla muna. Er umferð um veginn mjög mikil enda stytti hann jafnframt leiðina til höfuðborgarinnar fyrir íbúa Fjallabyggðar, Hofsóss, Hóla í Hjaltadal og hluta dreifbýlisins í Skagafirði.
    Hluti vegarins liggur í gegnum Sauðárkrók og telst því þjóðvegur í þéttbýli. Hafist var handa við breytingu á legu þessa kafla árið 2003 en þá var sú veglína sem nú er miðað við hönnuð og samþykkt af Vegagerðinni. Ólokið er 370 metra kafla sem ekki er enn kominn í endanlega planlegu.
    Núverandi lega þessa kafla er því sem næst inn á lóðir húsa við Aðalgötu á Sauðárkróki og þar hafa orðið nokkur slys þegar bílar hafa lent upp á gangstétt og inn á lóðir húsanna. Lagfæring vegarins varðar því brýnt öryggi íbúa og akandi og gangandi vegfarenda. Er þá enn ótalið að tafir á færslu vegarins standa í vegi fyrir framkvæmdum við nýja smábátahöfn á Sauðárkróki.
    Þrátt fyrir góð orð hefur ríkisvaldið ekki enn fært veginn til samræmis við skipulag sveitarfélagsins.