Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 239. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 262  —  239. mál.
Tillaga til þingsályktunarum aðskilnað peningamyndunar og útlánastarfsemi bankakerfisins.

Flm.: Lilja Mósesdóttir.


    Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra að skipa nefnd sérfræðinga sem verði falið að kanna hvernig hægt sé að tryggja aðskilnað peningamyndunar og útlánastarfsemi bankakerfisins með því að afnema heimildir bankanna til útlána umfram lausar innstæður. Nefndin ljúki störfum 1. janúar 2013 og ráðherra skili skýrslu til Alþingis um niðurstöður nefndarinnar innan mánaðar frá því að hún lýkur störfum.

Greinargerð.


    Það er mat flutningsmanns að enn hafi ekki verið gripið til fullnægjandi aðgerða til að koma í veg fyrir að hér geti orðið annað bankahrun. Mikilvægt er að gripið sé til aðgerða sem stuðla að því að koma á fjármálalegum stöðugleika sem miðar að því að koma í veg fyrir frekari fjármálaleg stórslys á borð við bankahrunið árið 2008.
    Í núverandi peningakerfi er innlánsstofnunum heimilt að búa til ígildi peninga með útlánum umfram innstæður. Í raun er megnið af þeim peningum sem notaðir eru í almennum viðskiptum rafræn innlán sem einkabankar hafa búið til með útlánum umfram innstæður. Skilja þarf að peningamyndun og útlánastarfsemi bankakerfisins með því að breyta lögum og heimila Seðlabanka einum að búa til peninga, hvort sem peningarnir eru úr pappír, málmi eða á rafrænu formi.
    Með þessari lagabreytingu færast hreinar vaxtatekjur (vaxtatekjur af útlánum umfram vaxtagjöld af innlánum) að miklu leyti til Seðlabankans en bankar hafa fram til þessa hagnast af þeim. Aðskilnaðurinn mun gefa Seðlabankanum betri stjórn á peningamagni í umferð og koma í veg fyrir að bankar búi til eignabólur með útlánastarfsemi sinni.
    Mikilvægt er að skoða kosti og galla slíks fyrirkomulags hér á landi til að koma í veg fyrir annað bankahrun. Nýleg rannsókn sérfræðinga sem starfa hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum staðfestir að slíkur aðskilnaður skilar þeim ávinningi sem Irving Fisher (1936) fullyrti að þær mundu gera, þ.e. að:
     1.      bæta stjórn á meginorsakavaldi hagsveiflna sem er skyndileg aukning og samdráttur útlána og framboð á peningum sem bankar búa til,
     2.      varna bankaáhlaupi,
     3.      minnka opinberar skuldir og
     4.      draga úr skuldsetningu einstaklinga, þar sem peningamyndun þarf ekki lengur að byggja á lántöku.
    Standist þessar niðurstöður er það mat flutningsmanns að hér sé komið tækifæri fyrir stjórnvöld til að skapa mikinn ávinning fyrir þjóðina með litlum tilkostnaði. Því er mikilvægt að gripið sé til aðgerða strax og skipuð nefnd sérfræðinga sem fari yfir umrædda skýrslu, heimfæri forsendur hennar á íslenskt samfélaga og leggi mat á hvort slík leið er fær, hvernig best er að hrinda henni í framkvæmd og hvaða lagabreytingar eru nauðsynlegar í því skyni.
    Lagt er til að nefndin skili niðurstöðum sínum eigi síðar en 1. janúar 2013 og ráðherra skili Alþingi skýrslu um niðurstöðurnar eigi síðar en mánuði frá því að nefndin lýkur störfum.