Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 163. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 285  —  163. mál.




Svar



forsætisráðherra við fyrirspurn Atla Gíslasonar um úrskurðarnefndir.


     1.      Hversu margar sjálfstæðar og óháðar úrskurðarnefndir eru starfandi á vegum ráðuneytisins, hvað heita þær og hver eru verkefni þeirra?
    Á vegum forsætisráðuneytis starfa tvær sjálfstæðar og óháðar úrskurðarnefndir. Þær eru úrskurðarnefnd um upplýsingamál og óbyggðanefnd.
    Úrskurðarnefnd um upplýsingamál er starfrækt á grundvelli V. kafla upplýsingalaga, nr. 50/1996, til að leysa úr ágreiningsmálum um aðgang almennings að upplýsingum hjá stjórnvöldum.
    Óbyggðanefnd er sjálfstæð stjórnsýslunefnd sem á grundvelli III. kafla laga um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, nr. 58/1998, hefur þríþætt hlutverk:
     1.      Að kanna og skera úr um hvaða land telst til þjóðlendna og hver séu mörk þeirra og eignarlanda.
     2.      Að skera úr um mörk þess hluta þjóðlendu sem nýttur er sem afréttur.
     3.      Að úrskurða um eignarréttindi innan þjóðlendna.

     2.      Hver var heildarkostnaður ríkisins af starfsemi nefndanna árin 2009, 2010 og 2011, sundurliðað á hverja nefnd fyrir sig?


Bókuð gjöld hjá FOR 2009 2010 2011
Úrskurðarnefnd upplýsingalaga 4.181.512 3.726.475 4.266.924
Óbyggðanefnd 78.958.276 30.134.241 45.558.861

    Lækkun á kostnaði vegna óbyggðanefndar á milli áranna 2009 og 2010 skýrist af því að í kjölfar efnahagshrunsins var tekin ákvörðun um hægja mjög á starfssemi nefndarinnar í sparnaðarskyni. Kostnaður jókst aftur á árinu 2011 vegna aukinna umsvifa en gert er ráð fyrir að störf nefndarinnar verði komin í fyrra horf á árinu 2013.