Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 168. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 288  —  168. mál.




Svar



mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn Atla Gíslasonar um úrskurðarnefndir.


     1.      Hversu margar sjálfstæðar og óháðar úrskurðarnefndir eru starfandi á vegum ráðuneytisins, hvað heita þær og hver eru verkefni þeirra?
    Nefndir starfandi á vegum ráðuneytisins eru eftirfarandi:
    Áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema. Hlutverk: Að úrskurða í málum þar sem námsmenn í ríkisháskólum eða háskólum sem hlotið hafa staðfestingu mennta- og menningarmálaráðherra, telja brotið á rétti sínum, sbr. ákvæði reglna nr. 1152/2006, um störf áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema skv. 20. gr. laga um háskóla, nr. 63/2006.
    Fjölmiðlanefnd. Hlutverk: Að annast eftirlit samkvæmt fjölmiðlalögum, nr. 38/2011, og daglega stjórnsýslu á því sviði sem lögin ná til.
    Fornleifanefnd. Hlutverk: Að úrskurða um ákvarðanir Fornleifaverndar ríkisins um leyfisveitingar og rannsóknir og stöðvun framkvæmda.
    Málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Hlutverk: Að gefa álit um hvort úrskurðir stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna séu í samræmi við ákvæði laga, reglugerða og reglna um sjóðinn sem staðfestar hafa verið af menntamálaráðherra.
    Útvarpsréttarnefnd, starfaði til 1. september 2011 þegar skipuð var fjölmiðlanefnd skv. 8. gr. fjölmiðlalaga, nr. 38/2011. Hlutverk: Að veita útvarpsleyfi, úrskurða í kærumálum o.fl.
    Úrskurðarnefnd vegna ágreiningsmála milli sveitarfélaga um stuðningsþörf og kostnað vegna skólagöngu fósturbarna. Hlutverk: Samkvæmt reglugerð nr. 547/2012, um skólagöngu fósturbarna í grunnskólum. Nefndin hefur ekki verið skipuð.
    Úrskurðarnefnd skv. 57. gr. höfundalaga, nr. 73/1972, sbr. lög nr. 60/2000. Hlutverk: Að skera úr ágreiningi sem rís um fjárhæð þóknunar til höfunda þegar verk þeirra eru birt eða flutt eða notuð á annan hátt.

     2.      Hver var heildarkostnaður ríkisins af starfsemi nefndanna árin 2009, 2010 og 2011, sundurliðað á hverja nefnd fyrir sig?
    Áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema: Heildarkostnaður 10.381.856 kr.
    Fjölmiðlanefnd: Heildarkostnaður 27.193.082 kr.
    Fornleifanefnd: Engar greiðslur koma fram vegna starfa nefndarinnar á tilgreindum árum.
    Málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna: Heildarkostnaður 14.281.371 kr.
    Útvarpsréttarnefnd: Heildarkostnaður 51.856.309 kr.
    Úrskurðarnefnd vegna ágreiningsmála milli sveitarfélaga um stuðningsþörf og kostnað vegna skólagöngu fósturbarna: Ekki hefur komið til kostnaðar.
    Úrskurðarnefnd skv. 57. gr. höfundalaga, nr. 73/1972: Engar greiðslur enda nefndin ekki starfandi á tilgreindum árum.