Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 283. máls.

Þingskjal 316  —  283. mál.Frumvarp til laga

um velferð dýra .

(Lagt fyrir Alþingi á 141. löggjafarþingi 2012–2013.)
I. KAFLI
Markmið, gildissvið og skilgreiningar.
1. gr.
Markmið.

    Markmið laga þessara er að stuðla að velferð dýra, þ.e. að þau séu laus við vanlíðan, hungur og þorsta, ótta og þjáningu, sársauka, meiðsli og sjúkdóma, í ljósi þess að dýr eru skyni gæddar verur. Enn fremur er það markmið laganna að þau geti sýnt sitt eðlilega atferli eins og frekast er unnt.

2. gr.
Gildissvið.

    Lög þessi taka til hryggdýra auk tífætlukrabba, smokkfiska og býflugna. Lög þessi gilda einnig um fóstur þegar skynfæri þeirra eru komin á sama þroskastig og hjá lifandi dýrum. Lög þessi taka ekki til hefðbundinna veiða og föngunar á villtum fiski. Ákvæði laga þessara eru lágmarksreglur um meðferð dýra.

3. gr.
Skilgreiningar.

    Í lögum þessum er merking eftirfarandi orða sem hér segir:
     1.      Dýrahald: Hvert það fyrirkomulag þar sem dýr eru haldin, hvort sem það er í atvinnuskyni eða ekki.
     2.      Föngun: Að ná dýri lifandi.
     3.      Hálfvillt dýr: Dýr sem ekki eru merkt í samræmi við 21. gr. og ganga laus.
     4.      Læknisaðgerð: Aðgerð eða meðhöndlun að undangenginni sjúkdómsgreiningu dýralæknis, þ.m.t. gelding án rofs á húð.
     5.      Meðhöndlun: Aðgerð, önnur en læknis- eða skurðaðgerð, þar sem gripið er inn í líkama eða atferli dýra, svo sem fæðingarhjálp, klaufhirða, járningar, rúningur, snyrting.
     6.      Skurðaðgerð: Aðgerð sem felur í sér rof á húð eða slímhúð, þó ekki með nálum.
     7.      Umráðamaður: Eigandi dýrs eða annar aðili sem er ábyrgur fyrir umsjá dýrs.
     8.      Umsjá: Umönnun, fóðrun og varsla dýra.
     9.      Veiðar: Að ná dýri í þeim tilgangi að deyða það.
    

II. KAFLI
Stjórn dýravelferðarmála.
4. gr.
Yfirstjórn.

    Ráðherra fer með yfirstjórn mála er varða velferð dýra en framkvæmd stjórnsýslunnar er að öðru leyti í höndum Matvælastofnunar sem hefur eftirlit með því að ákvæðum laga þessara sé framfylgt.
    Matvælastofnun er skylt að leita álits fagráðs um velferð dýra um stefnumótandi ákvarðanir og umsóknir um leyfi til dýratilrauna.

5. gr.
Fagráð um velferð dýra.

    Starfa skal sérstakt fagráð um velferð dýra. Í ráðinu skulu sitja fimm menn og jafnmargir til vara. Ráðherra staðfestir skipan ráðsins og er skipunartími þess þrjú ár. Í ráðinu skal vera fagfólk á sem flestum eftirtalinna fagsviða: dýralækninga, dýrafræði, dýraatferlisfræði, dýravelferðar, dýratilrauna, búfjárfræða og siðfræði.
    Yfirdýralæknir er formaður fagráðsins en aðrir fulltrúar skulu skipaðir af Bændasamtökum Íslands, Dýralæknafélagi Íslands, Dýraverndarsambandi Íslands og Siðfræðistofnun Háskóla Íslands. Fagráðinu ber að kalla eftir sérfræðiáliti þegar fjallað er um fræðileg álitamál og ráðið skortir sérþekkingu á viðkomandi sviði. Hlutverk fagráðsins er eftirfarandi:
     a.      að vera Matvælastofnun til ráðuneytis um stefnumótun og einstök álitaefni er varða málefni á sviði velferðar dýra,
     b.      að veita Matvælastofnun umsögn um umsóknir vegna dýratilrauna,
     c.      að fylgjast með þróun dýravelferðarmála og upplýsa Matvælastofnun um mikilvæg málefni á sviði velferðar dýra,
     d.      að taka til umfjöllunar mál á sviði velferðar dýra að beiðni einstakra fagráðsmanna.
    Fagráðið skal hafa aðsetur hjá Matvælastofnun sem leggur því til vinnuaðstöðu og starfsmann með sérfræðiþekkingu á starfssviði ráðsins. Fagráðið skal halda gerðabók um störf sín og gefa út ársskýrslu fyrir 1. mars ár hvert. Um málsmeðferð hjá fagráðinu skal farið að ákvæðum stjórnsýslulaga.

III. KAFLI
Almenn ákvæði um meðferð dýra.
6. gr.
Almennt um meðferð dýra.

    Skylt er að fara vel með dýr og ber umráðamaður ábyrgð á að annast sé um þau í samræmi við lög þessi. Ill meðferð dýra er óheimil.

7. gr.
Hjálparskylda.

    Þeim sem verður var við eða má ætla að dýr sé sjúkt, sært, í sjálfheldu eða bjargarlaust að öðru leyti ber að veita því umönnun eftir föngum. Sé umráðamaður ekki til staðar skal tilkynna atvikið til lögreglu sem kallar til dýralækni meti hún það svo að ástæða sé til. Sé fyrirsjáanlegt að ekki sé hægt að koma dýrinu til hjálpar innan hæfilegs tíma og augljóst er að sjúkdómur dýrs eða meiðsl eru banvæn er heimilt að deyða dýrið, sbr. 20. gr. Sé um að ræða búfé eða gæludýr skal tilkynna slíka aflífun til Matvælastofnunar.
    Sveitarfélagi er skylt að sjá til þess að gripið sé til aðgerða skv. 1. mgr. sé um hálfvillt eða villt dýr að ræða. Ráðherra sem fer með vernd og friðun villtra fugla og villtra spendýra skal þó sjá til þess að gripið sé til slíkra aðgerða sé um að ræða villt dýr af stofni í útrýmingarhættu og dýr sem lenda í umhverfisslysum. Þrátt fyrir hjálparskyldu sem tilgreind er í 1. mgr. er ráðherra og sveitarfélagi heimilt að taka ákvörðun um aflífun villtra dýra þegar fyrirsjáanlegur kostnaður vegna aðgerða er verulegur.
    Umráðamaður dýrs skal bera allan kostnað sem stofnað er til vegna ákvæða 1. mgr. Sveitarfélag ber allan kostnað sem stofnað er til skv. 1. mgr. þegar um er að ræða hálfvillt og villt dýr sem ekki eru af stofni í útrýmingarhættu. Ráðuneyti sem fer með vernd og friðun villtra fugla og villtra spendýra ber allan kostnað sem stofnað er til skv. 1. mgr. þegar um er að ræða villt dýr sem eru af stofni í útrýmingarhættu.
    Sá sem stofnar til útgjalda skv. 1. mgr. á rétt á endurgreiðslu á öllum nauðsynlegum kostnaði úr hendi þess aðila sem ber ábyrgð á kostnaði samkvæmt grein þessari. Sveitarfélögum er heimilt að setja reglur um framkvæmd endurgreiðslna og skulu þær staðfestar af ráðherra.

8. gr.
Tilkynningarskylda.

    Leiki grunur á að meðferð á dýrum brjóti gegn lögum þessum eða reglugerðum settum samkvæmt þeim skal sá sem verður þess var tilkynna það Matvælastofnun eða lögreglu svo fljótt sem auðið er. Sé mál tilkynnt lögreglu skal hún tilkynna Matvælastofnun um það. Matvælastofnun skal kanna hvort tilkynning sé á rökum reist.
    Ef tilkynnandi skv. 1. mgr. óskar nafnleyndar gagnvart öðrum en Matvælastofnun eða lögreglu skal það virt nema sérstakar ástæður mæli gegn því. Ákvörðun Matvælastofnunar um nafnleynd er heimilt að skjóta til ráðherra innan tveggja vikna frá tilkynningu ákvörðunar. Leiðbeina skal tilkynnanda um rétt hans til að kæra ákvörðun Matvælastofnunar.

9. gr.
Geta, hæfni og ábyrgð.

    Hver sá sem hefur dýr í umsjá sinni skal búa yfir eða afla sér grunnþekkingar á þörfum og umönnun viðkomandi dýrategundar og skal enn fremur búa yfir nægjanlegri getu til að annast dýrið í samræmi við lög þessi.
    Rekstraraðili leyfisskylds dýrahalds skal sjá til þess að það starfsfólk sem sér um umönnun dýranna búi yfir nægjanlegri hæfni og þekkingu á viðkomandi sviði. Þjónustuaðili við dýrahald skal búa yfir nægjanlegri þekkingu til þeirra starfa sem hann annast.
    Óheimilt er að fela börnum undir 18 ára aldri og ólögráða einstaklingum einum ábyrgð á dýrum.

10. gr.
Umráðaskipti dýra.

    Óheimilt er að selja, gefa eða afhenda dýr einstaklingi sem ástæða er til að ætla að hafi ekki aðbúnað, getu eða vilja til að annast dýrið í samræmi við lög þessi. Veita skal viðtakanda dýrs, eftir því sem við á, upplýsingar um atriði sem máli skipta um velferð þess.

IV. KAFLI
Leyfi og eftirlit.
11. gr.
Leyfisskylda.

    Leyfi Matvælastofnunar þarf fyrir dýrahaldi og starfsemi sem er tilgreind í viðauka. Ráðherra er enn fremur heimilt í reglugerð að kveða á um að annað dýrahald og önnur sambærileg starfsemi og tilgreind er í viðauka sé leyfisskyld. Óheimilt er að hefja leyfisskylda starfsemi áður en leyfi hefur verið veitt.
    Leyfi er bundið við leyfishafa og er ekki framseljanlegt. Leyfið byggist á úttekt húsakosts, búnaðar og þekkingar, sbr. 9. gr. og 28.–31. gr. Heimilt er að skilyrða eða hafna útgáfu leyfis hafi umsækjandi hlotið dóm vegna brots á lögum þessum.
    Leyfishafa ber að veita Matvælastofnun, með hæfilegum fyrirvara, upplýsingar um fyrirhugaðar meiri háttar breytingar á starfsemi sem varðað geta skilyrði leyfis. Matvælastofnun er heimilt að endurskoða leyfi áður en gildistími þess er liðinn vegna breyttra forsendna, svo sem ef breytingar verða á rekstri vegna tækniþróunar eða breytingar á reglum varðandi velferð dýra eða framkvæmd eftirlits.
    Matvælastofnun skal sjá til þess að listi yfir útgefin leyfi sem eru í gildi sé birtur eða aðgengilegur hjá stofnuninni.
    Ráðherra setur í reglugerð nánari fyrirmæli um leyfisveitingar, meðal annars að leyfi megi binda þeim skilyrðum sem þykja nauðsynleg til að tryggja góða meðferð dýra, svo sem aðbúnað þeirra, fjölda, umhirðu, innra eftirlit og opinbert eftirlit með starfseminni. Heimilt er að binda leyfi mismunandi skilyrðum eftir flokkun og tegund starfsemi, svo sem um menntun og hæfni.
    Í reglugerð skal enn fremur kveðið á um tímalengd leyfa og er heimilt að kveða á um að leyfi skuli vera ótímabundin.

12. gr.
Eftirlit.

    Öll leyfisskyld starfsemi skv. 11. gr. skal háð reglulegu opinberu eftirliti af hálfu Matvælastofnunar. Umfang og tíðni eftirlits skal byggt á áhættuflokkun.
    Ráðherra setur í reglugerð nánari fyrirmæli um eftirlit og framkvæmd þess.

V. KAFLI
Meðferð og meðhöndlun dýra.
13. gr.
Meðferð.

    Umráðamönnum dýra ber að tryggja dýrunum góða umönnun, þar með talið að:
     a.      sjá til þess að þörfum dýranna sé sinnt að jafnaði einu sinni á dag; þetta gildir þó ekki um dýr í sumarhögum,
     b.      tryggja gæði og magn fóðurs, beitilands og vatns þannig að fullnægi þörfum dýranna,
     c.      tryggja grasbítum útivist á beitilandi á sumrin,
     d.      vernda þau gegn meiðslum, sjúkdómum og sníkjudýrum eða annarri hættu,
     e.      sjá til þess að sjúk eða slösuð dýr fái tilhlýðilega læknismeðferð eða séu aflífuð,
     f.      venja dýr við umgengni við menn, eftir því sem við á,
     g.      tryggja að útbúnaður sé til staðar svo unnt sé að annast um þau og meðhöndla á viðunandi hátt.

14. gr.
Sérstakt bann.

    Bannað er að:
     a.      ofbjóða kröftum dýrs eða þoli,
     b.      yfirgefa dýr í bjargarlausu ástandi,
     c.      hafa samræði eða önnur kynferðismök við dýr,
     d.      nota lifandi dýr sem fóður, agn eða sem skotmark við skotæfingar eða skotkeppni,
     e.      etja dýrum saman til áfloga,
     f.      þvinga fóður eða vatn ofan í dýr nema nauðsynlegt sé vegna læknismeðferðar,
     g.      misbjóða dýrum á annan sambærilegan hátt.

15. gr.
Aðgerðir og meðhöndlun.

    Skurð- og læknisaðgerðir og önnur meðhöndlun dýra skal aðeins framkvæmd þegar og á þann hátt að velferð dýra sé höfð að leiðarljósi og tryggð að meðferð lokinni eins og unnt er. Ekki er heimilt að framkvæma aðgerð ef fyrirséð er að dýr muni, að aðgerð lokinni, líða fyrir örkuml eða þjáningar og engar líkur eru á bata.
    Skurðaðgerðir, þar á meðal fjarlæging líkamshluta eða fegrunaraðgerðir, skulu ekki framkvæmdar nema af læknisfræðilegum ástæðum. Þó er heimilt að fjarlægja horn, spora af dagsgömlum hönum og gelda dýr. Merkingar á dýrum eru einnig heimilar í samræmi við lög og reglugerðir sem um þær gilda.
    Við sársaukafulla aðgerð eða meðhöndlun skal ávallt deyfa eða svæfa dýr og veita því verkjastillandi meðhöndlun, nema við eyrnamörkun lamba og kiðlinga og geldingar grísa yngri en vikugamalla. Við geldingu grísa skal þó ávallt beita verkjastillandi lyfjagjöf.
    Dýralæknum er einum heimilt að meðhöndla og framkvæma skurð- og læknisaðgerðir á dýrum. Öðrum er þó heimilt að framkvæma eftirfarandi hafi þeir fengið leyfi til þess samkvæmt lögum um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr:
     a.      læknisaðgerðir samkvæmt tilvísun frá dýralækni,
     b.      sæðingar sauðfjár, geitfjár, nautgripa, svína, refa, kalkúna, hæna og kanína,
     c.      fangskoðanir nautgripa,
     d.      klipping á skotti og gelding grísa yngri en vikugamalla samfara verkjastillandi lyfjagjöf,
     e.      örmerkingar.
    Öllum er heimilt að framkvæma eftirfarandi:
     a.      lyfjameðhöndlun samkvæmt fyrirmælum frá dýralækni,
     b.      meðhöndlun sem veldur hvorki sársauka né vanlíðan,
     c.      merkingar og eyrnamörkun, aðrar en örmerkingar.

16. gr.
Þjálfun, sýningar, keppni o.fl.

    Hver sá sem þjálfar dýr, notar þau í keppni og sýningar eða á annan hátt skal tryggja að þau:
     a.      hafi til þess líkamlegt heilbrigði og hafi hlotið viðeigandi þjálfun,
     b.      hafi ekki verið meðhöndluð með lyfjum sem deyfa sjúkdómseinkenni eða auka afkastagetu þannig að það samræmist ekki velferð þeirra,
     c.      séu ekki markvisst beitt meðferð sem veldur þeim skaða eða óþarfa ótta.
    Ráðherra er heimilt að setja nánari reglur samkvæmt grein þessari.

17. gr.
Flutningur dýra og rekstur búfjár.

    Við flutning á dýrum ber að gæta þess að þau verði fyrir sem minnstu álagi og við rekstur búfjár sé hvorki þoli þeirra né kröftum ofboðið. Hvorki er heimilt að flytja dýr né reka sé augljóst að það þoli það ekki.
    Flutningstæki skulu þannig útbúin að þau henti viðkomandi dýrategund og tryggi öryggi dýranna. Við flutning skal veita dýrum viðeigandi umönnun og gæslu.
    Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um flutning og rekstur dýra og um leyfi fyrir flutningstækjum, öryggisbúnaði og merkingu þeirra. Þá er heimilt að setja fyrirmæli er tryggja velferð búfjár í tengslum við flutninga. Einnig er heimilt að setja nánari ákvæði um flutning búfjár frá brottfararstað til áfangastaðar, þ.m.t. um hleðslu, umfermingu, affermingu, hámarksflutningstíma og um þær kröfur sem eru gerðar um flutningstæki sem flytja búfé, þ.m.t. um hleðslubúnað þeirra. Heimilt er auk þess að setja reglur um flutningsskilríki flutningsaðila, skyldur gæsluaðila með búfé, sérstök leyfi flutningsaðila sem veitt verða af Matvælastofnun og reglur til að skylda aðila sem vinna við flutning á búfé til að sækja námskeið þar sem meðal annars er fjallað um velferð dýra og dýrasjúkdóma.

18. gr.
Ræktun.

    Við ræktun mismunandi eiginleika hinna ýmsu dýrategunda skal þess gætt að ávallt séu alin heilsuhraust dýr. Æxlun, þar með talin tæknifrjóvgun eða erfðatækni, er óheimil þegar fyrirsjáanlegt er að hún:
     a.      breyti eiginleikum á þann hátt að það hafi neikvæð áhrif á heilsu og atferli dýra eða afkvæma þeirra eða viðhaldi slíkum annmörkum,
     b.      dragi úr getu dýra til að sýna eðlilegt atferli.
    Ráðherra er heimilt í reglugerð að kveða nánar á um skilyrði varðandi ræktun einstakra dýrategunda með tilliti til sjónarmiða um velferð dýra.

19. gr.
Tilraunir, kennsla og læknisfræðileg starfsemi.

    Óheimilt er að nota lifandi dýr við kennslu, tilraunir, rannsóknir, framleiðslu eða prófun efna eða lyfja og við sjúkdómsgreiningu nema með sérstöku leyfi Matvælastofnunar ef slíkri notkun fylgir álag eða þjáning fyrir dýrin. Ákvæði þetta á þó ekki við um leyfisskylda starfsemi að því marki sem útgefið leyfi heimilar slíka notkun lifandi dýra.
    Einungis má nota lifandi dýr í tilraunum ef ekki eru þekktar aðrar leiðir til að ná sambærilegum árangri. Óheimilt er að nota lifandi dýr við prófun á snyrtivörum.
    Leyfi skv. 1. mgr. skal taka til ræktunar, eldis, dreifingar, notkunar og aflífunar tilraunadýra. Heimilt er að binda leyfi þeim skilyrðum sem má telja nauðsynleg til að tryggja velferð tilraunadýra. Gæta skal þess við tilraunir eða aðgerðir á dýrum að þær baki þeim ekki meiri þjáningu en óhjákvæmilegt er. Matvælastofnun skal tryggja að þeir sem nota dýr í tilraunaskyni hafi hlotið þjálfun og menntun í viðkomandi vísindagrein og lokið námskeiði um meðferð tilraunadýra.
    Ráðherra skal setja í reglugerð nánari ákvæði um dýratilraunir, þar á meðal meðferð tilraunadýra og eftirlit með dýratilraunum og um menntun og þjálfun þeirra sem nota dýr í tilraunaskyni.

20. gr.
Aflífun.

    Dýr skulu aflífuð með skjótum og sársaukalausum hætti og eftir því sem unnt er án þess að önnur dýr verði þess vör. Forðast skal að valda dýrum óþarfa þjáningum eða hræðslu.
    Dýr í umsjón manna skulu svipt meðvitund fyrir aflífun nema þegar aflífunin veldur meðvitundarleysi umsvifalaust. Að lokinni aflífun skal gengið úr skugga um að dýr sé dautt. Óheimilt er að aflífa dýr með því að drekkja þeim, nema um sé að ræða gildruveiði minka sem hluta af skipulögðum aðgerðum til að halda minkastofninum í skefjum. Einnig er óheimilt að aflífa dýr með útblæstri véla, nema við aflífun loðdýra ef um er að ræða vélar sem eru sérstaklega hannaðar og framleiddar til aflífunar loðdýra og notkun vélar hefur verið samþykkt af Matvælastofnun.
    Dýr skulu ávallt svipt meðvitund áður en blóðtæming fer fram og skal meðvitundarleysið a.m.k. vara frá upphafi blóðtæmingar og til dauða. Eingöngu er heimilt að nota útbúnað til sviptingar meðvitundar og/eða til aflífunar sem hæfir viðkomandi dýrategund og skal þess gætt að hann sé rétt notaður og honum vel við haldið.
    Við aflífun í neyðartilvikum, sbr. 7. gr., skal uppfylla ákvæði 1. og 2. mgr. eins og kostur er.
    Aflífun dýra er ekki heimil sem skemmtiatriði eða keppni.
    Ráðherra skal setja í reglugerð nánari ákvæði um hverjir megi aflífa dýr, hvernig staðið skuli að aflífun og bann við tilteknum aðferðum við aflífun.

VI. KAFLI
Merkingar dýra o.fl.
21. gr.
Merkingar og skráningarskylda.

    Skylt er að einstaklingsmerkja kanínur, ketti, hunda, geitur, hross, nautgripi, sauðfé og svín.
    Matvælastofnun ber ábyrgð á að starfræktir séu gagnagrunnar um skráningu einstaklingsmerkja skv. 1. mgr. Stofnuninni er heimilt að fela öðrum starfrækslu gagnagrunns með samningi.
    Við merkingu á dýrum skal nota aðferðir er valda sem minnstum sársauka og takmarka ekki eðlilegt atferli dýranna eða valda þeim óþarfa álagi.
    Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um merkingar dýra, þar sem m.a. yrði kveðið á um aldursmörk, skilyrði eða bann við merkingum eða merkingaraðferðum. Einnig skal þar kveðið á um skilyrði varðandi gagnagrunna, einstaklingsskráningar í gagnagrunna og umsjón með þeim.

22. gr.
Slepping dýra út í náttúruna.

    Óheimilt er að sleppa dýrum sem hafa alist upp hjá mönnum út í náttúruna í þeim tilgangi að þau verði þar til frambúðar. Þó er heimilt að sleppa seiðum og fiskum. Umráðamanni eða sveitarfélagi, sé umráðamaður ekki þekktur, er skylt að smala eða handsama dýr, önnur en villt dýr, sem ætla má að líði fyrir umhirðu- eða skjólleysi úti í náttúrunni.

23. gr.
Handsömun dýra.

    Ef dýr strjúka eða sleppa úr haldi skulu umráðamenn þeirra þegar gera ráðstafanir til að handsama þau. Viðkomandi sveitarfélagi er skylt að taka slík dýr í vörslu sína, lesa af einstaklingsmerkjum og gera þegar ráðstafanir til að hafa uppi á umráðamanni þeirra. Sveitarfélögum er skylt að hafa aðstöðu til að halda slík dýr. Sveitarfélagi er heimilt að innheimta áfallinn kostnað úr hendi umráðamanns samkvæmt gjaldskrá. Ef umráðamaður vitjar ekki dýrsins innan viku frá því að honum var tilkynnt um handsömun þess eða ef umráðamaður finnst ekki innan tveggja vikna er sveitarfélaginu heimilt að ráðstafa dýrinu eins og um hálfvillt dýr sé að ræða. Sveitarfélag telst umráðamaður dýra á meðan þau eru í vörslu þess.
    Eftir tvo sólarhringa frá handsömun er sveitarfélagi heimilt að ráðstafa hálfvilltu dýri til nýs eiganda, selja það gegn áföllnum kostnaði eða aflífa án bóta.
    Sveitarfélagi er heimilt að fela öðrum að framkvæma þær skyldur sem tilgreindar eru í 1. mgr. og 2. mgr. með sérstökum samningi.
    Við handsömun dýra er óheimilt að beita aðferðum sem valda dýri óþarfa ótta, limlestingum eða kvölum.

24. gr.
Dreifing og merking dýraafurða.

    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um kröfur til merkinga á vörum unnum úr dýrum eða dýraafurðum á grundvelli sjónarmiða um velferð dýra. Þá getur ráðherra einnig sett ákvæði sem takmarka eða banna innflutning eða dreifingu dýraafurða sem eru framleiddar í andstöðu við lög þessi með þeim takmörkunum sem leiðir af alþjóðasamningum.

VII. KAFLI
Villt dýr.
25. gr.
Föngun villtra dýra.

    Óheimilt er að halda villt dýr. Matvælastofnun getur veitt leyfi til föngunar villtra dýra til nota við rannsóknir, fyrir söfn og dýragarða, til ræktunar og undaneldis eða annarra sambærilegra nota. Matvælastofnun skal afla umsagnar Náttúrufræðistofnunar Íslands varðandi föngun á villtum dýrum áður en leyfi til þess er veitt.
    Við föngun villtra dýra er óheimilt að beita aðferðum sem valda limlestingum eða kvölum.
    Ráðherra setur í reglugerð skilyrði fyrir veitingu leyfis og kveður á um aðferðir við föngun og meðferð villtra dýra við flutning og vörslu. Jafnframt er ráðherra heimilt að kveða á um bann við föngun og vörslu tiltekinna tegunda villtra dýra með tilliti til sjónarmiða um velferð dýra.

26. gr.
Veiðar.

    Ávallt skal staðið að veiðum þannig að það valdi dýrunum sem minnstum sársauka og aflífun þeirra taki sem skemmstan tíma. Skylt er veiðimönnum að gera það sem í þeirra valdi stendur til að aflífa þau dýr sem þeir hafa valdið áverkum.
    Við veiðar er óheimilt að beita aðferðum sem valda dýri óþarfa limlestingum eða kvölum. Við veiðar á villtum dýrum skal að auki fara að fyrirmælum gildandi laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.
    Ráðherra setur í reglugerð, að höfðu samráði við ráðherra er fer með stjórn veiða, vernd og friðun villtra fugla og villtra spendýra, nánari ákvæði um aðferðir við veiðar.

27. gr.
Meindýr.

    Við eyðingu meindýra er óheimilt að beita aðferðum sem valda þeim óþarfa limlestingum eða kvölum. Tryggja skal að útrýmingarefni valdi ekki tjóni á öðrum dýrum en meindýrum.
    Við eyðingu á meindýrum skal að auki fara að fyrirmælum gildandi laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum og lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir.
    Ráðherra setur í reglugerð, að höfðu samráði við ráðherra er fer með hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, nánari ákvæði um aðferðir við eyðingu meindýra.

VIII. KAFLI
Aðbúnaður, umhverfi o.fl.
28. gr.
Aðbúnaður dýra.

    Umráðamaður dýra skal tryggja að dýr séu haldin í umhverfi sem samræmist sjónarmiðum um velferð dýra, m.a. hvað varðar öryggi þeirra og heilbrigði og tekur tillit til bæði sérstakra þarfa dýrsins og séreinkenna tegundarinnar. Umhverfi dýra skal vera þannig, eftir því sem við á, að þau geti athafnað sig, hreyft sig, hvílst, notið útivistar, beitar eða viðhaft annað atferli sem þeim er eðlilegt.
    Dýr skulu hafa skjól fyrir veðrum í samræmi við þarfir sínar þegar þau eru úti að staðaldri. Að vetri til skal sjá til þess að á staðnum sé húsaskjól eða annað öruggt og hentugt skjól fyrir öllum veðrum.
    Þegar veitt eru leyfi samkvæmt öðrum lögum fyrir athöfnum sem geta haft neikvæð áhrif á líðan eða að öðru leyti á velferð dýra, t.d. sökum hávaða eða mengunar, skal taka tillit til sjónarmiða um velferð dýra í samræmi við ákvæði laga þessara.
    Ráðherra setur í reglugerð nánari kröfur er lúta að aðbúnaði einstakra dýrategunda.

29. gr.
Byggingar og búnaður.

    Húsnæði, innréttingar, girðingar og annar búnaður sem ætlaður er dýrum skal þannig úr garði gerður að tekið sé tillit til þarfa og öryggis dýranna hvað varðar fóðrun, atferli, hreyfingu, rýmisþörf, hvíld og annan aðbúnað, svo sem loftgæði, lýsingu, hljóðvist og efnisnotkun. Einnig skal þess gætt að dýrum stafi engin slysahætta af aðstæðum sem þeim eru búnar eða hætta skapist á því að dýrin geti orðið innikróuð eða bjargarlaus í neyð.
    Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um aðbúnað og meðferð dýra samkvæmt grein þessari.

30. gr.
Skilyrði varðandi aðbúnað villtra dýra í dýragörðum.

    Einungis er heimilt að hafa villt dýr í dýragörðum þegar aðbúnaður sem þeim er ætlaður er þess eðlis að dýrið geti aðlagast honum á fullnægjandi hátt með tilliti til sjónarmiða um velferð dýra.
    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um kröfur um aðbúnað einstakra dýrategunda.

31. gr.
Dýrahald, aðferðir og útbúnaður.

    Hver sá sem heldur dýr ber ábyrgð á að starfsaðferðir, tæki, tól og hvers konar útbúnaður sem notaður er á dýr í umsjá hans séu ekki andstæð velferð dýra.
    Hver sá sem kynnir starfsaðferðir er varða dýrahald eða dreifir tækjum, tólum og hvers konar útbúnaði varðandi dýrahald ber ábyrgð á að það sé ekki andstætt velferð dýra.
    Matvælastofnun getur krafist upplýsinga og gagna frá hlutaðeigandi aðilum um að ákvæði 1. mgr. og 2. mgr. séu uppfyllt.
    Ráðherra setur reglugerð um bann við eða takmörkun á dreifingu á starfsaðferðum, tækjum, tólum og hvers konar útbúnaði. Ráðherra er enn fremur heimilt að setja ákvæði í reglugerð með nánari fyrirmælum um mat og prófanir.

IX. KAFLI
Gjaldtaka o.fl.
32. gr.
Gjaldtaka.

    Matvælastofnun er heimilt að taka gjald samkvæmt gjaldskrá fyrir leyfisumsóknir, úttektir, eftirlit, eftirfylgni og útgáfu leyfa skv. 11., 12., 17., 19., 21. og 25. gr.
    Matvælastofnun gerir tillögu að slíkri gjaldskrá sem ráðherra staðfestir og er birt í B-deild Stjórnartíðinda. Gjaldið má ekki vera hærra en nemur kostnaði við umsýslu, úttektir, eftirlit og eftirfylgni.

X. KAFLI
Stjórnvaldsfyrirmæli og viðurlög.
33. gr.
Heimildir Matvælastofnunar og skyldur umráðamanna.

    Matvælastofnun er heimilt að fara á hvern þann stað þar sem dýr eru haldin til að kanna aðstæður og aðbúnað þeirra og við beitingu þvingunarúrræða. Í því felst meðal annars heimild til sýna- og myndatöku og skoðunar og ljósritunar gagna. Ekki er þó heimilt að fara í þessum tilgangi í íbúðarhús, útihús eða aðra þvílíka staði án samþykkis eiganda eða umráðamanns húsnæðisins nema að fengnum dómsúrskurði, sbr. þó 2. mgr.
    Leiki grunur á að um sé að ræða alvarlegt brot gegn lögum þessum eða reglugerðum sem eru settar með stoð í þeim getur lögregla fyrirvaralaust tekið dýr úr vörslum eiganda eða umsjónarmanns. Í þessu skyni er lögreglu rétt að fara inn í íbúðarhús, útihús eða aðra þvílíka staði án dómsúrskurðar ef brýn hætta er talin á að bið eftir úrskurði valdi dýrum þeim er í hlut eiga skaða.
    Við skoðun og eftirlit skal umráðamaður dýra veita án endurgjalds alla nauðsynlega aðstoð við eftirlitið, svo sem aðstoð starfsmanna, aðgang að húsakynnum og tækjabúnaði. Einnig ber að veita Matvælastofnun allar umbeðnar upplýsingar og afhenda öll þau gögn sem hafa þýðingu við eftirlitið. Aðrir opinberir aðilar sem búa yfir upplýsingum sem geta haft þýðingu við eftirlit skulu að beiðni Matvælastofnunar veita þær upplýsingar.

34. gr.
Þvingunarúrræði.

    Í tilefni brota á lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim er Matvælastofnun heimilt að gera kröfu um úrbætur, veita áminningu, leggja á dagsektir, fella niður opinberar greiðslur í landbúnaði, láta vinna úrbætur á kostnað aðila, takmarka eða stöðva starfsemi, leggja hald á tæki og tól, vörslusvipta umráðamann dýrum og aflífa dýr.
    Stöðvun starfsemi skal aðeins beitt að um alvarleg tilvik eða ítrekað brot sé að ræða eða ef aðilar sinna ekki fyrirmælum innan tilgreinds frests. Við stöðvun starfsemi er heimilt að leita aðstoðar lögreglu.
    Heimilt er að beita dagsektum, niðurfellingu á opinberum greiðslum í landbúnaði, úrbótum á kostnað aðila máls og að vörslusvipta umráðamann dýrum að undangengnum hæfilegum fresti til úrbóta. Kveða skal á um hámark dagsekta í reglugerð sem ráðherra setur. Dagsektir, að frádregnum kostnaði við álagningu og innheimtu, renna í ríkissjóð og má innheimta með fjárnámi án undangengins dóms eða sáttar. Heimild til niðurfellingar á opinberum greiðslum í landbúnaði má þó einvörðungu beita vegna ítrekaðra brota á lögum þessum og að undangenginni áminningu eða vegna svo alvarlegra brota að til vörslusviptingar kemur.
    Matvælastofnun er heimilt að taka ákvörðun um að vörslusvipta umráðamann dýrum og sér lögregla um framkvæmd hennar. Við vörslusviptingu skal Matvælastofnun ákveða hvort dýrin skuli flutt burt eða þeim haldið á þeim stað þar sem þau eru. Matvælastofnun er heimilt að láta aflífa vörslusvipt dýr að liðnum tveimur sólarhringum takist hvorki stofnuninni né eiganda að finna viðeigandi aðstæður eða aðbúnað fyrir dýr. Matvælastofnun telst vera umráðamaður dýra á meðan vörslusvipting stendur yfir og er skylt að annast um þau, sjá um brottflutning á dýrum sem tekin hafa verið úr vörslu umráðamanns og ber ábyrgð á fóðrun, umhirðu og aðbúnaði dýranna allt á kostnað eiganda eða umráðamanns. Matvælastofnun tekur ákvörðun um hvort aflétta skuli vörslusviptingu dýra eða ráðstafa þeim með öðrum hætti að virtum andmælarétti aðila máls þar sem honum skal gefinn kostur á að setja viðhlítandi tryggingu fyrir greiðslu á kostnaði við geymslu, fóður og umhirðu fyrir dýrin uns dómur fellur, sbr. 7. mgr. Matvælastofnun skal ráðstafa dýrunum og getur látið bjóða dýr upp, selt þau til lífs eða slátrunar eða látið aflífa þau sé ekki unnt að ráðstafa þeim á annan hátt.
    Telji Matvælastofnun að úrbætur þoli enga bið getur stofnunin tekið dýr úr vörslu eiganda eða umráðamanns eða aflífað dýr sem hafa orðið fyrir varanlegum skaða sökum vanfóðrunar, harðýðgi, slysa eða slæms aðbúnaðar. Framangreindar aðgerðir skulu gerðar í samráði við eða samkvæmt fyrirmælum lögreglu. Matvælastofnun er ekki skylt að veita andmælarétt samkvæmt stjórnsýslulögum þegar úrbætur þola enga bið.
    Telji Matvælastofnun það nauðsynlegt, til að stöðva eða koma í veg fyrir illa meðferð á dýrum, getur hún fyrirvaralaust og til bráðabirgða svipt umráðamann heimild til þess að hafa eða sjá um dýr þar til úrbætur hafa verið gerðar eða dómur fallið, sbr. 7. mgr.
    Nú vill eigandi eða umráðamaður dýrs ekki hlíta því að dýr sé tekið úr vörslu hans eða að hann sé til bráðabirgða sviptur heimild til að hafa eða sjá um dýr og getur hann þá borið ágreiningsefnið undir dómstóla, hvort sem er sérstaklega eða í sakamáli sem höfðað kann að vera á hendur honum. Slíkt frestar þó ekki aðgerðum eða framkvæmd slíkra ákvarðana skv. 4. mgr. og 6. mgr.
    Vörslusvipting á dýrum og aflífun samkvæmt grein þessari skal framkvæmd með aðstoð lögreglu og ber lögreglan ábyrgð á þeim aðgerðum. Sláturleyfishöfum er skylt að taka slík dýr án tafar til slátrunar óski Matvælastofnun þess.
    Umráðamaður dýra skal bera kostnað af aðgerðum Matvælastofnunar samkvæmt grein þessari.
    Um gjaldtöku fer samkvæmt gjaldskrá Matvælastofnunar, sbr. 32. gr. Þá er heimilt að krefja eiganda eða umráðamann dýra um endurgreiðslu vegna kostnaðar skv. 4. mgr.
    Matvælastofnun og lögreglustjóri eiga lögveð í dýrum vegna greiðslu kostnaðar við framkvæmdir á grundvelli þessarar greinar. Þá er Matvælastofnun og lögreglu heimilt að innheimta kostnaðinn með fjárnámi án undanfarandi dóms eða sáttar.
    Ekki er skylt að greiða bætur til eiganda dýrs vegna aflífunar á dýrinu eða annarrar ráðstöfunar á því í samræmi við grein þessa.

35. gr.
Stjórnvaldssektir.

    Matvælastofnun getur lagt stjórnvaldssektir á einstaklinga eða lögaðila fyrir brot á 6., 13.–20., 22. og 25.–31. gr. laga þessara og reglugerðum settum með stoð í þeim. Stjórnvaldssektum verður beitt óháð því hvort brot eru framin af ásetningi eða gáleysi.
    Stjórnvaldssektir geta numið allt að 1 millj. kr. Við ákvörðun sekta skal m.a. tekið tillit til alvarleika brots, hvað það hefur staðið lengi, samstarfsvilja hins brotlega aðila og hvort um ítrekað brot er að ræða. Matvælastofnun er heimilt að ákveða hærri sektir hafi aðili hagnast af broti. Skal upphæð stjórnvaldssektar þá ákveðin sem allt að tvöfalt margfeldi af þeim hagnaði sem aðili hefur aflað sér með broti gegn lögunum, þó aldrei hærri en 5 millj. kr.
    Gjalddagi stjórnvaldssektar er 30 dögum eftir að ákvörðun um sektina var tekin og reiknast dráttarvextir frá þeim tíma verði vanskil á greiðslu hennar. Ákvörðun Matvælastofnunar um stjórnvaldssekt er aðfararhæf og renna sektir í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við álagningu og innheimtu.
    Ekki skal beita öðrum refsiviðurlögum þegar stjórnvaldssekt er beitt.
    Aðili máls getur skotið ákvörðun um stjórnvaldssekt til dómstóla. Málskot frestar aðför.

36. gr.
Leyfissvipting.

    Matvælastofnun er heimilt að svipta leyfishafa leyfi sem gefið er út skv. 11. eða 17. gr. verði hann ítrekað uppvís að því að vanrækja skyldur sem á honum hvíla samkvæmt lögum þessum eða öðrum lögum sem um reksturinn eða flutningana gilda eða brjóti hann að öðru leyti ítrekað gegn skilyrðum eða skilmálum leyfisins.
    Áður en kemur til sviptingar skv. 1. mgr. skal Matvælastofnun senda leyfishafa viðvörun, þar sem fram komi tilefni sviptingar og skal leyfishafa eftir atvikum gefinn frestur til að bæta úr annmörkum, sbr. 34. gr.

37. gr.
Heimildarsvipting með dómi.

    Hafi aðili gerst sekur um stórfellt eða ítrekað brot á lögum þessum eða reglugerðum sem eru settar með stoð í þeim má svipta hann með dómi heimild til að hafa dýr í umsjá sinni, versla með þau eða sýsla með þau með öðrum hætti. Sama gildir ef ljóst þykir að aðili hafi ekki getu til að annast dýr, sbr. 9. gr. Heimildarsvipting getur lotið að dýrum almennt eða einstökum tegundum og staðið tiltekið tímabil eða ævilangt. Ákæruvaldið getur haft uppi kröfu um heimildarsviptingu í opinberu máli hvort sem krafist er refsingar á hendur sakborningi eða ekki. Sá sem sviptur er heimild samkvæmt þessari málsgrein og skeytir ekki dómi um heimildarsviptingu skal sæta sektum.

38. gr.
Refsiábyrgð.

    Brot gegn lögum þessum eða reglugerðum sem eru settar með stoð í þeim varða sektum eða fangelsi allt að einu ári. Ef brot er stórfellt eða ítrekað getur það varðað fangelsi allt að tveimur árum.
    Hlutdeild í brotum og tilraun til brota á lögum þessum er refsiverð.

39. gr.

Reglugerðarheimild.

    Ráðherra er heimilt að mæla nánar fyrir um framkvæmd laga þessara í reglugerð.

XI. KAFLI
Gildistaka o.fl.
40. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2013. Frá sama tíma falla úr gildi lög nr. 15/1994, um dýravernd, með síðari breytingum. Reglugerðir sem settar hafa verið með heimild í lögum nr. 15/1994, um dýravernd, sem og reglugerðir um aðbúnað og velferð dýra settar á grundvelli laga nr. 103/2002, um búfjárhald o.fl., halda gildi sínu að svo miklu leyti sem þær samrýmast lögum þessum.

41. gr.
Lagaskil.

    Ef málsmeðferð hjá Matvælastofnun hefur hafist í tíð eldri laga gilda ákvæði laga þessara um meðferð máls eftir gildistöku þeirra. Gildir það þótt atvik þau sem mál er sprottið af hafi gerst að einhverju eða öllu leyti í tíð eldri laga.

42. gr.
Breyting á öðrum lögum.

     1.      Lög nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum: Í stað orðanna ,,11. gr. laga nr. 103/2002, um búfjárhald o.fl.“ í 1. mgr. 2. gr. laganna kemur: 9. gr. laga um búfjárhald.
     2.      Lög nr. 66/1998, um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr, með síðari breytingum:
              a.      1. gr. laganna orðast svo:
                     Lög þessi taka til hvers þess dýralæknis sem er skipaður, settur eða ráðinn til starfa í þágu ríkisins og þeirra dýralækna og heilbrigðisstarfsmanna dýra sem starfa samkvæmt leyfi þar að lútandi sem veitt er eftir lögum þessum.
              b.      2. gr. laganna orðast svo:
                     Dýralæknar og heilbrigðisstarfsmenn dýra skulu standa vörð um heilsu dýra í landinu, stuðla að bættu heilsufari og velferð þeirra, aukinni arðsemi búfjár og góðum aðbúnaði og meðferð dýra. Dýralæknar skulu vera á verði gagnvart því að einstaklingar eða samfélagið í heild bíði tjón af völdum dýrasjúkdóma. Með starfi sínu skulu þeir leitast við að girða fyrir hættur sem stafað geta af sjúkum dýrum og neyslu spilltra búfjárafurða, af innflutningi lifandi dýra og búfjárafurða, efna, áhalda eða hluta sem borið geta með sér smitefni.
              c.      A-liður 5. gr. laganna orðast svo: yfirstjórn og eftirlit með störfum héraðsdýralækna, sérgreinadýralækna, dýralækna og annarra heilbrigðisstarfsmanna dýra sem leyfi hafa samkvæmt lögum þessum.
              d.      Á eftir 6. gr. laganna kemur ný grein, 6. gr. a, svohljóðandi:
                     Rétt til þess að starfa hér á landi sem heilbrigðisstarfsmaður dýra hefur sá einn sem lokið hefur prófi í einhverri grein heilbrigðisfræði dýra eða lokið námskeiði á viðkomandi sviði viðurkenndu af Matvælastofnun og fengið leyfi stofnunarinnar.
                     Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um nám og menntunarskilyrði fyrir hverja starfsgrein sem hann ákveður að fella undir lög þessi. Í reglugerð þessari skal m.a. kveðið á um að dýrahjúkrunarfræðingar teljist þeir vera sem hafa lokið prófi í dýrahjúkrun frá skóla sem er viðurkenndur af íslenskum stjórnvöldum. Jafnframt teljast þeir dýrahjúkrunarfræðingar sem heimild hafa til að starfa hér á landi undir starfsheiti heimalands síns í samræmi við reglur Evrópska efnahagssvæðisins eða stofnsamning Fríverslunarsamtaka Evrópu. Ráðherra setur nánari reglur um leyfisveitingu, menntunarkröfur og viðurkenndar menntastofnanir. Ef um er að ræða próf frá skóla sem er utan Evrópska efnahagssvæðisins og Sviss skal leita umsagnar dýralæknaráðs áður en leyfi er veitt samkvæmt lögunum.
                     Ráðherra setur jafnframt í reglugerð ákvæði um réttindi og skyldur hverrar starfsgreinar.
                     Matvælastofnun heldur skrá yfir heilbrigðisstarfsmenn dýra sem hafa leyfi samkvæmt þessari grein.
              e.      7. gr. laganna orðast svo:
                     Eingöngu þeir dýralæknar sem hafa leyfi skv. 2. mgr. 6. gr. mega sjúkdómsgreina dýr, ávísa lyfjum, meðhöndla og framkvæma skurð- og læknisaðgerðir á dýrum.
                     Eingöngu þeir heilbrigðisstarfsmenn dýra sem hafa leyfi skv. 6. gr. a mega meðhöndla og framkvæma aðgerðir á dýrum sem tilgreindar eru í reglugerð samkvæmt sömu grein.
              f.      Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
                a.    1. mgr. orðast svo:
                         Dýralækni og heilbrigðisstarfsmanni dýra ber að sinna störfum sínum af árvekni og trúmennsku og halda við þekkingu sinni. Dýralæknir ber ábyrgð á greiningu sjúkdóms og meðferð sjúklinga sinna. Heilbrigðisstarfsmaður dýra ber ábyrgð á þeirri meðhöndlun sem hann framkvæmir.
                b.    7. og 8. mgr. orðast svo:
                         Dýralækni ber að sýna nákvæmni í útgáfu vottorða og læknisyfirlýsinga. Dýralæknar og aðrir heilbrigðisstarfsmenn dýra eru bundnir þagnarskyldu um þá vitneskju sem þeir öðlast í starfi sínu og þeim er trúað fyrir og varðar ekki almannaheill.
                         Dýralækni og öðru heilbrigðisstarfsfólki dýra er einungis heimilt að auglýsa leyfisskylda starfsemi sína með efnislegum og látlausum auglýsingum.
              g.      18. gr. laganna orðast svo:
                     Verði Matvælastofnun þess vör að dýralæknir eða annar heilbrigðisstarfsmaður dýra sem hefur leyfi samkvæmt lögum þessum vanræki skyldur sínar og störf, fari út fyrir verksvið sitt eða brjóti alvarlega í bága við fyrirmæli sem honum er skylt að starfa eftir ber Matvælastofnun að áminna hann um að bæta ráð sitt.
                     Nú kemur ítrekuð áminning ekki að haldi eða sé um óhæfu í leyfisskyldum störfum að ræða og ber þá Matvælastofnun að afturkalla leyfi sem stofnunin hefur veitt eða að kæra málið til ráðherra. Getur þá ráðherra úrskurðað að viðkomandi skuli sviptur leyfi að fullu eða um tiltekinn tíma.
                     Uppfylli leyfisskyldur aðili samkvæmt lögum þessum ekki lengur þær kröfur sem gerðar voru þegar leyfi var veitt, svo sem vegna bilunar á andlegri eða líkamlegri heilsu eða misnotkunar vímuefna, ber Matvælastofnun að greina ráðherra frá málavöxtum.
                     Ráðherra skal leita álits dýralæknaráðs um mál skv. 2. og 3. mgr. ákvæðis þessa. Svipta má viðkomandi dýralækni eða dýrahjúkrunarfræðing leyfi ef dýralæknaráð leggur það til.
     3.      Lög nr. 90/2002, um Umhverfisstofnun, með síðari breytingum: E-liður 2. mgr. 1. gr. laganna fellur brott.
     4.      Lög nr. 80/2005, um Matvælastofnun, með síðari breytingum:
              a.      Orðin ,,lögum nr. 15/1994, um dýravernd“ og „lögum nr. 103/2002, um búfjárhald o.fl.“ í a-lið 2. gr. laganna falla brott.
              b.      E-liður 2. gr. laganna orðast svo: að annast verkefni sem stofnuninni eru falin samkvæmt lögum um velferð dýra og lögum um búfjárhald.
              c.      Orðin ,,og 4. gr., 11. gr. og 13. gr. laga nr. 103/2002, um búfjárhald o.fl.“ í f-lið 2. gr. laganna falla brott.
              d.      3. málsl. 1. mgr. 4. gr. laganna orðast svo: Þó skal ráðherra skipa sviðsstjóra yfir sérstöku sviði sem fara skal með dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim og velferð dýra.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Þrátt fyrir ákvæði 11. gr. þurfa þeir sem við gildistöku laga þessara eru með dýrahald eða starfsemi sem ekki er háð leyfi samkvæmt lögum um dýravernd, nr. 15/1994, og fellur undir viðauka ekki að sækja um leyfi til dýrahalds. Skilyrði er að ekki hafi verið gerð athugasemd við dýrahald viðkomandi aðila.

Viðauki.

1.         Dýrahald:
1.1.    Svín 2 eða fleiri.
1.2.    Nautgripir 6 eða fleiri.
1.3.    Loðdýr 6 * eða fleiri.
1.4.    Kindur/geitur 20 eða fleiri.
1.5.    Fuglar 50 eða fleiri.
1.6.    Hross 11 eða fleiri.
1.7.    Hundar 6 * eða fleiri.
1.8.    Kettir 6 * eða fleiri.
1.9.    Kanínur 6 * eða fleiri.
* Fjöldatölur eiga við um kynþroska dýr.

2.         Starfsemi:
2.1.    Dýraspítalar.
2.2.    Endurhæfingarstöðvar.
2.3.    Þjálfunarstöðvar.
2.4.    Sýningar- og keppnishúsnæði.
2.5.    Dýragarðar.
2.6.    Dýragæslur þar sem dýrafjöldi er umfram það sem er tilgreint í 1. tölul.
2.7.    Hestaleigur.
2.8.    Önnur sambærileg starfsemi sem er tilgreind í reglugerð.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

I.

    Frumvarpi þessu var dreift á 140. löggjafarþingi og er nú lagt fram að mestu óbreytt en þó hefur verið leitast við að bregðast við nokkrum atriðum sem upp komu í almennri umræðu sem fram fór í fjölmiðlum og víðar eftir að frumvarpið kom fram nú fyrr á árinu.
    Í bréfi umhverfisráðherra, dags. 2. apríl 2008, var tilkynnt að ráðherra hefði ákveðið að skipa nefnd til að koma með tillögu að endurskoðun dýraverndarlaga, nr. 15/1994. Þar kom fram að markmiðið með endurskoðun laganna væri m.a. að stjórnsýsla og eftirfylgni mála á sviði dýraverndar yrði skilvirk og sem einföldust í framkvæmd. Í því sambandi yrði að skoða hvort endurskoða þyrfti þvingunarúrræði og viðurlög laganna. Nefndinni var falið að fara yfir efnisákvæði laganna varðandi vernd dýra og kanna hvort þörf væri á að auka þá vernd. Þá átti nefndin að taka til athugunar hvort ástæða væri til að setja í lög ákvæði um aðbúnað og umhirðu gæludýra og um dýrahald í atvinnuskyni og gera tillögur um ákvæði varðandi aðferðir við að fanga gæludýr sem sloppið hafa úr umsjón manna, ganga laus og þykja til ama. Nefndin átti einnig að meta hvort tilefni væri til að setja ákvæði um eyðingu meindýra í lögin. Nefndinni var jafnframt falið að fara yfir ákvæði laga um búfjárhald, nr. 103/2002, og laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, nr. 64/1994, sem varða dýravernd með það fyrir augum að samræma sem best ákvæði þessara laga og laga um dýravernd. Varðandi hlutverk lögregluyfirvalda við framkvæmd dýraverndar bar nefndinni að hafa samráð við dómsmálaráðuneytið.
    Í nefndina voru skipuð Sigrún Ágústsdóttir, þá lögfræðingur í umhverfisráðuneytinu, formaður, Hjalti J. Guðmundsson sviðsstjóri, tilnefndur af Umhverfisstofnun, Kristinn Hugason stjórnsýslufræðingur, tilnefndur af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, Sif Traustadóttir dýralæknir, tilnefnd af Dýralæknafélagi Íslands, og Sigurborg Daðadóttir dýralæknir, tilnefnd af dýraverndarráði. Í byrjun árs 2009 tók Steinunn Fjóla Sigurðardóttir, lögfræðingur í umhverfisráðuneytinu, við formennsku í nefndinni af Sigrúnu sem hvarf til annarra starfa en Steinunn hafði þá starfað með nefndinni um skeið.
    Á fundi nefndarinnar í febrúar 2009 kom fram sú tillaga Umhverfisstofnunar að í frumvarpi nýrra laga um dýravernd yrði Matvælastofnun falið að annast eftirlit með velferð dýra auk viðbragða vegna gruns um illa meðferð dýra. Einnig var lagt til að Matvælastofnun yrði falið að annast stjórnsýslu varðandi leyfisveitingar og eftirlit með starfsemi sem telst til dýrahalds í atvinnuskyni. Hins vegar var lagt til að stjórnsýsla veiðistjórnar samkvæmt lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum yrði óbreytt. Nefndin tók undir þessi sjónarmið Umhverfisstofnunar og fór málið til frekari úrvinnslu, fyrst í umhverfisráðuneytinu, og sendi umhverfisráðherra minnisblað til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, dags. 29. september 2009, þar sem segir m.a.: „Muni áframhaldandi starf nefndarinnar miða að því að yfirstjórn mála samkvæmt nýju frumvarpi verði í höndum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og verði Matvælastofnun falið að annast eftirlit með velferð dýra í umsjá manna auk viðbragða vegna gruns um illa meðferð dýra, sem og að annast leyfisveitingar og allt eftirlit með starfsemi sem telst til dýrahalds í atvinnuskyni.“ Minnisblaði umhverfisráðherra var svarað með jákvæðum hætti í bréfi frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, dags. 4. nóvember 2009 (sjá og forsetaúrskurð um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, nr. 125/2011). Í kjölfar þessa skipaði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið nýja nefnd til að vinna áfram að verkefninu. Í þessari nýju nefnd sátu Kristinn Hugason stjórnsýslufræðingur, tilnefndur af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, formaður, Halldór Runólfsson yfirdýralæknir, tilnefndur af Matvælastofnun, Hjalti J. Guðmundsson sviðsstjóri, tilnefndur af Umhverfisstofnun, Sif Traustadóttir dýralæknir, tilnefnd af Dýralæknafélagi Íslands, Sigurborg Daðadóttir dýralæknir, tilnefnd af dýraverndarráði, og Steinunn Fjóla Sigurðardóttir, tilnefnd af umhverfisráðuneytinu. Með nefndinni störfuðu Margrét B. Sigurðardóttir, fagsviðsstjóri á Matvælastofnun, Kjartan Ingvarsson, lögfræðingur hjá Umhverfisstofnun, og Steinþór Arnarson, lögfræðingur hjá Matvælastofnun. Frumvarp þetta er byggt á tillögum nefndarinnar, með breytingum sem unnar voru í ráðuneytinu, t.d. í kjölfar álitsumleitunar sem nánar er fjallað um í IV. kafla.

II.

    Tildrög þess að farið var af stað með endurskoðun dýraverndarlaga var m.a. að ekki þótti hafa náðst nægjanlega góður árangur í einstökum málum sem upp hafa komið. Ástæður þess stafa að hluta til af núverandi lagaumhverfi innan málaflokksins. Þannig heyrir framkvæmd laga um dýravernd, nr. 15/1994, undir umhverfisráðuneytið eða Umhverfisstofnun en lög um búfjárhald o.fl., nr. 103/2002, sem eru að nokkru marki dýraverndarlög (dýravelferðarlög) fyrir búfé, undir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið eða Matvælastofnun. Þetta fyrirkomulag hefur í einhverjum tilfellum valdið því að valdmörk og hlutverk einstakra stofnana hafa verið óskýr en auk þess eru tvær stofnanir að vinna að sama málaflokknum. Í tilviki dýravelferðarmála er varðar búfjárhald hefur lögum um búfjárhald o.fl. verið beitt en einnig lögum um dýravernd þegar mál eru kærð til lögreglu. Í tilviki villtra dýra og gæludýra hefur lögum um dýravernd verið beitt.
    Lög um búfjárhald o.fl. eru fátækleg þegar kemur að ákvæðum um velferð dýra en ákvæði um aðbúnað og velferð dýra eru ítarleg í reglugerð um aðbúnað viðkomandi búfjártegundar. Lagastoð þeirra reglna sem eru í framangreindum reglugerðum er á köflum veik þar sem þær sækja ekki stoð í heildstæða löggjöf um velferð dýra. Lög um dýravernd eru hins vegar mun ítarlegri þegar kemur að ákvæðum um velferð dýra.
     Þvingunarúrræði laga um búfjárhald eru ekki fjölbreytt en þau felast fyrst og fremst í því að kæra brot til lögreglu eða beita vörslusviptingu þegar ekki er orðið við kröfum um úrbætur. Í mörgum tilvikum skilar kæra til lögreglu litlum árangri þar sem önnur mál teljast brýnni og rannsókn getur orðið umfangsmikil þótt brotið teljist ekki endilega alvarlegt. Vörslusvipting er að sama skapi mjög harkalegt úrræði og því ekki beitt nema það sé nauðsynlegt. Það er því skortur á úrræðum sem mundu nýtast til að taka á þeim ólíku málum sem upp geta komið. Vörslusvipting hefur einnig gefist misjafnlega vel en þegar til vörslusviptingar kemur þurfa Matvælastofnun, lögreglustjóri og sveitarfélag að vinna saman þar sem þessir aðilar hafa allir ákveðnum skyldum að gegna. Í sumum tilvikum hefur þessi framkvæmd verið heldur þunglamaleg vegna þess að framkvæmd málanna hvílir á of mörgum opinberum aðilum. Lög um dýravernd eru lítið sterkari þegar kemur að þvingunarúrræðum en þeim lögum hefur ekki verið beitt af hálfu Matvælastofnunar sem eftirlitsaðila enda lög um dýravernd á könnu Umhverfisstofnunar sem aftur hefur ekki eftirlit með búfjárhaldi.

III.

    Nefndin kynnti sér löggjöf nágrannaþjóðanna í þessum málaflokki auk þess sem samræmis er gætt, eftir því sem við á, við reglur Evrópusambandsins á þessu sviði. Einkum var þó stuðst við nýlega löggjöf Norðmanna á þessu sviði. Í frumvarpinu er lagt til að heiti málaflokksins verði breytt í lagamálinu, hætt verði að tala um dýravernd og þess í stað talað um velferð dýra. Lögin fjalli þannig um velferð dýra í stað hugtaksins dýraverndar sem notað var áður. Orðið dýravernd er að sönnu gamalt og gott orð í íslensku máli en eigi að síður eru sterk rök fyrir þessari breytingu. Þau helstu eru að hugtakið velferð dýra lýsir betur efnisinntaki þessa frumvarps til nýrra laga um málaflokkinn heldur en hugtakið dýravernd gerir. Hinum nýju lögum er m.a. ætlað að taka á fjölmörgum efnisatriðum sem nú er að finna í lögum um búfjárhald. Gildissviðið er þannig orðið víðfeðmara en var í eldri lögunum. Margt kemur nýtt inn sem er meira á sviði meðferðar búfjár og fjallar þar með um velferð þess og annarra dýra í umsjá manna, frekar en einvörðungu vernd gegn því að ekki sé farið illa með dýr. Þessu til viðbótar ber orðið á að margir leggi hliðstæðan skilning í hugtökin dýravernd og náttúruvernd og telja því að hér sé um að ræða verndun villtra dýra eða vernd dýrastofna, t.d. gegn útrýmingu. Velferðarhugtakið er hins vegar víðtækara og felur ekki aðeins í sér að vernda stofna eða hópa dýra heldur að hugað sé að velferð einstakra dýra. Þessi skilningur er og í samræmi við þá þróun sem hefur orðið á Norðurlöndunum og víðar í Evrópu, en þar er greint á milli verndunar dýra í skilningi náttúruverndar og svo velferðar dýra hvað varðar líðan þeirra, umönnun og aðbúnað. Velferðarhugtakið er víða notað í dag og þá í svipuðum tilgangi. Þá er rétt að benda á að hugtakið „velferð dýra“ er nú þegar notað í öðrum lögum, svo sem í lögum um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr, nr. 66/1998, lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, nr. 99/1993, lögum um matvæli, og lögum um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru, nr. 22/1994. Þá kom hugtakið velferð tilraunadýra inn í 16. gr. núverandi laga um dýravernd, nr. 15/1994, við breytingu á lögunum sem gerð var árið 2008 með lögum nr. 165. Umrædd breyting á heiti laganna er því í samræmi við þá þróun sem átt hefur sér stað í notkun umræddra hugtaka bæði hérlendis og erlendis.

IV.

    Með nýrri heildstæðri löggjöf er ætlunin að eitt ráðuneyti fari með forsjá löggjafarinnar og ein stofnun, Matvælastofnun, fari með framkvæmd málaflokksins en mikil fagþekking á velferð dýra er til hjá þeirri stofnun. Samhliða er lagt til að störf búfjáreftirlitsmanna verði flutt frá sveitarfélögunum til Matvælastofnunar en hlutverk þeirra er að stærstum hluta eftirlit með velferð búfjár. Þessu fylgir hagræði og aukin skilvirkni í eftirlitinu, ekki er þó gert ráð fyrir að starfsgengisskilyrðum búfjáreftirlitsmanna verði breytt frá því sem nú er vegna þessa.
    Helstu nýmæli í lagafrumvarpinu, auk tilflutnings verkefna sem þegar er getið, eru að gert er ráð fyrir að í stað núverandi dýraverndarráðs verði sett á laggirnar sérstakt fagráð um velferð dýra sem hafi aðsetur hjá Matvælastofnun og fari yfirdýralæknir með formennsku í fagráðinu. Þetta mun styrkja starfsemi Matvælastofnunar á fagsviðinu og samhæfa og einfalda stjórnsýsluna, m.a. með því að gert er ráð fyrir að fagráðið taki við því starfi sem nú fer fram í tilraunadýranefnd. Þessi atriði öll eiga að tryggja það markmið sem sett var þegar afráðið var að ráðast í endurskoðun núgildandi laga um dýravernd, þ.e. að stjórnsýsla og eftirfylgni mála á sviði dýraverndar verði skilvirk og sem einföldust í framkvæmd. Þessu höfuðmarkmiði til viðbótar kemur að í lagafrumvarpinu er gert ráð fyrir miklum breytingum bæði á þvingunarúrræðum þegar pottur er brotinn gagnvart velferð dýra og eins að heimila að beitt verði stjórnvaldssektum.
    Fjölmargar nýjungar eru í frumvarpinu varðandi efnisákvæði þess, bæði varðandi almenn ákvæði um meðferð dýra og meðhöndlun þeirra og um aðbúnað og umhverfi dýra. Nánar er fjallað um þessi atriði í athugasemdum við einstakar greinar en almennt má segja að ákvæði þessi feli í sér aukna velferð dýra. Þannig er hnykkt á þeirri skyldu að fara vel með dýr. Í lagafrumvarpinu er, eftir því sem við á, litið til velferðar allra dýra sem gildissvið frumvarpsins nær til, hvort sem er búfé í matvælaframleiðslu eða í annarri þjónustu við manninn, þ.e. nytja- og sýningardýr, gæludýr eða jafnvel meindýr. Ákvæði um föngun gæludýra sem sloppið hafa laus eru mjög skýrð frá því sem var í eldri löggjöf og hvað varðar meindýr beinast efnisákvæði frumvarpsins að því að þessum dýrum sé eytt með mannúðlegum hætti og sjálfsagðri fagmennsku beitt við þann verknað. Leyfisskylda verður aukin en þess gætt að hún verði þó ekki íþyngjandi. Leyfisveitingarnar eru til þess fallnar að auðvelda eftirlit. Skylda til einstaklingsmerkinga verður einnig aukin sem hefur mikið hagræði í för með sér þegar dýr eru handsömuð og koma þarf þeim til umráðamanns síns.
    Mörgum ákvæðum sem nú er að finna í lögum um búfjárhald o.fl., nr. 103/2002, hefur verið fundinn staður í frumvarpi þessu og þeim breytt eftir þörfum, enda er hér á ferðinni frumvarp til heildarlaga um velferð dýra. Viðeigandi ákvæðum í fyrrnefndum lögum um búfjárhald er lagt til að verði breytt, sem og ákvæðum laga um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr, nr. 66/1998, með tengdri lagasetningu (bandormi). Lagaskila við lög um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, nr. 64/1994, er jafnframt gætt. Þá hefur verið haft samráð við innanríkisráðuneytið varðandi hlutverk lögregluyfirvalda við alvarleg brot gegn ákvæðum lagafrumvarps þessa eftir að það hefur öðlast gildi.
    Við gerð frumvarpsins var haft samráð við helstu hagsmunaaðila. Frumvarpið var sent fjölmörgum aðilum til álitsumleitunar og athugasemdir bárust í flestum tilfellum. Eftirtaldir aðilar fengu frumvarpið sent: Bændasamtök Íslands og undirfélög, Dýralæknafélag Íslands, dýraverndarráð, Dýraverndarsamband Íslands, Hundaræktarfélag Íslands, Kattavinafélag Íslands, Landssamband hestamannafélaga, Matvælastofnun, Mannvirkjastofnun, Samband íslenskra sveitarfélaga, Velbú, Umhverfisstofnun, Félag tamningamanna, Hólaskóli – Háskólinn á Hólum, Landbúnaðarháskóli Íslands á Hvanneyri, Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum og Náttúrufræðistofnun. Frumvarpið var jafnframt kynnt á heimasíðu ráðuneytisins og bárust athugasemdir frá nokkrum aðilum í kjölfar þess.
    Með frumvarpi þessu eru valdmörk í dýravelferðarmálum skýrð og eftirlit í málaflokknum treyst. Með nýjum ákvæðum um háttsemi sem dýraeigendum er skylt að viðhafa er ætlunin að bæta úr þeim brotalömum sem komið hafa í ljós síðastliðin ár á núverandi löggjöf. Á sama tíma fá reglugerðir um aðbúnað skýrari lagastoð í nýjum lögum. Þá verður þvingunarúrræðum fjölgað og beiting þeirra einfölduð þannig að unnt verður að taka á þeim ólíku málum sem upp geta komið. Þannig er stefnt að því að tryggja að öll dýr sem frumvarpið nær til njóti viðunandi verndar og velferðar. Með nýjum heildstæðum lögum um velferð dýra verður löggjöfin í senn einfaldari og beittari í framkvæmd.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í greininni er gerð grein fyrir markmiðum frumvarpsins sem hafa ber að leiðarljósi við framkvæmd og skýringu laganna sem og við setningu reglugerða á grundvelli laganna. Meginmarkmið frumvarpsins er að stuðla að velferð dýra. Samkvæmt greininni felst það nánar tiltekið í hugtakinu „velferð dýra“ að dýr séu laus við vanlíðan, hungur og þorsta, ótta og þjáningu, sársauka, meiðsli og sjúkdóma. Annað markmið frumvarpsins er nátengt hinu fyrrnefnda og felst í því að dýr hafi möguleika á því að sýna sitt eðlilega atferli eins og frekast er unnt. Í markmiðsákvæði 1. gr. felst viðurkenning á því að dýr séu skyni gæddar verur sem hafa sjálfstæðan tilverurétt óháð því hvernig þau nýtast manninum eða efnahagslegum ávinningi mannsins af þeim. Viðurkenning á því að dýr séu skyni gæddar verur er mikilvægt leiðarljós við túlkun einstakra ákvæða frumvarpsins og með henni er lögð á það áhersla að dýr séu lifandi verur sem geta fundið til sársauka og vanlíðunar og að taka beri tillit til þess við alla ráðstöfun þeirra, umönnun og meðhöndlun. Sambærileg viðurkenning á því að dýr séu skyni gæddar verur hefur átt sér stað í nágrannalöndum okkar, t.d. í Noregi, og einnig af hálfu Evrópusambandsins. Þá er það vel þekkt að velferð dýra er veigamikill þáttur í að tryggja heilsu þeirra og þannig hefur velferð dýra í matvælaframleiðslu áhrif á öryggi og gæði matvæla og þar með hagsmuni neytenda.
    Í 1. gr. frumvarpsins eru lögð til grundvallar ákveðin grunngildi varðandi velferð dýra. Gildi þessi byggjast á „frelsunum fimm“ sem svo eru nefnd sem eru almennt viðurkennd á sviði velferðar dýra. Frelsin fimm fela í sér að stefnt sé að því að tryggja að dýr séu hvorki svöng né þyrst, þeim líði ekki illa eða þurfi að þola mikinn sársauka eða óþarfa álag og ótta, að þau séu laus við sjúkdóma og geti sýnt eðlilegt atferli eftir því sem frekast er unnt. Þessi markmið sem felast í frelsunum fimm lýsa inntaki þeirra markmiða sem að er stefnt með 1. gr. frumvarpsins. Á hinn bóginn er ljóst að aldrei er hægt að útiloka eða fyrirbyggja þessi atriði að öllu leyti.

Um 2. gr.

    Í þessari grein er fjallað um gildissvið frumvarpsins og þá dýrahópa sem frumvarpinu er ætlað að ná til. Flestir kaflar frumvarpsins ná að meginstefnu til dýra í umsjá manna eða þeirra sem eru nýtt af manninum, en í slíkum tilvikum er helst þörf á setningu umgengnisreglna mannsins við dýr. Frumvarpið nær einnig til ýmissa villtra dýra og fjallar m.a. um föngun þeirra og aðferðir við veiðar og aflífun. Í því sambandi ber einnig að líta til laga nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. Frumvarpið nær því til hryggdýra auk tífætlukrabba, smokkfiska og býflugna. Þau dýr sem falla í flokk hryggdýra (Vertebrata) eru öll spendýr, fuglar, fiskar, skriðdýr og froskdýr. Þá falla tífætlukrabbar (Decapoda) undir frumvarpið sem og smokkfiskar (Cephalopoda) sem eru sjávarhryggleysingjar og mikið nýttir af manninum. Til tífætlukrabba teljast krabbadýr svo sem humar, krabbar og rækjur. Þessar tegundir eru miklar nytjategundir og geta verið hvort sem er ræktaðar eða veiddar og geymdar lifandi til lengri eða skemmri tíma. Til smokkfiska teljast bæði smokkar og kolkrabbar, en kolkrabbar hafa til að mynda mikið verið rannsakaðir og hefur sýnt sig að þeir eru með afar háþróuð skynfæri. Þá eru þeir vinsæl dýr til að hafa til sýninga t.d. í sædýrasöfnum. Mikilvægt er því að ákvæði laganna nái einnig til þessara hópa. Frumvarpið tekur einnig til býflugna þar sem þær eru ræktaðar til afurðaframleiðslu en skordýr falla almennt ekki undir lögin.
    Undanskildar gildissviði frumvarpsins eru hefðbundnar veiðar og föngun á villtum fiski sem ekki þótti raunhæft að fella undir ákvæði þessa frumvarps. Þær aðferðir sem beitt er við veiðar eiga sér langa forsögu og ekki fæst séð að betri aðferðir við veiðarnar séu til staðar. Tekið skal þó fram að einungis veiðar á villtum fiski er undanþegnar í frumvarpinu og gilda því ákvæði frumvarpsins að öðru leyti um villtan fisk.
    Gildissvið frumvarpsins nær ekki einungis til dýra heldur tekur einnig til fósturs þegar skynfæri þess er komið á sama þroskastig og hjá lifandi dýrum. Eftir ákveðið þroskastig eru fóstur talin geta skynjað sársauka á sama hátt og lifandi dýr.
    Tekið er fram í frumvarpinu að um er að ræða lágmarksreglur um meðferð dýra. Felur frumvarpið því í sér lágmarkskröfur til þeirra sem umgangast þau dýr sem frumvarp þetta nær til.


Um 3. gr.

    Í ákvæðinu er að finna orðskýringar á hugtökum sem notuð eru í frumvarpinu. Varðandi orðskýringar skulu eftirfarandi hugtök skýrð nánar:
     Föngun: Gerður er greinarmunur á föngun og handsömun. Föngun á við um villt dýr sem ætlað er að ná lifandi, en handsömun á við um dýr sem að jafnaði eru í vörslu manna en hafa sloppið eða strokið úr haldi.
     Hálfvillt dýr: Hér er um nýtt hugtak að ræða sem ætlað er að ná til dýra sem eiga að vera einstaklingsmerkt skv. 21. gr. frumvarpsins en eru það ekki. Dæmi um slík dýr eru ómerktar kanínur, kettir, hundar, hross o.fl. sem ekki eru í vörslu manna.
     Meðhöndlun, læknisaðgerð og skurðaðgerð: Mikilvægt er að skilgreina þessi hugtök þar sem frumvarpið gerir greinarmun á heimildum manna til inngripa.


Um 4. gr.

    Vísað er til inngangskafla hvað skýringar við þessa grein varðar.

Um 5. gr.

    Í ákvæðinu er fjallað um fagráð um velferð dýra. Gert er ráð fyrir því að yfirdýralæknir sé formaður ráðsins og skulu fjórir aðrir fulltrúar skipaðir af Bændasamtökum Íslands, Dýralæknafélagi Íslands, Dýraverndarsambandi Íslands og Siðfræðistofnun Háskóla Íslands. Bændasamtök Íslands eru m.a. samtök búfjárframleiðenda á öllum sviðum og er í ljósi þessa nauðsynlegt að þau samtök komi að skipan fagráðsins. Einnig er mikilvægt að Dýralæknafélag Íslands skipi einn fulltrúa í ráðið. Verður þá að ætla að með því að Dýraverndarsamband Íslands skipi fulltrúa í fagráðið sé enn frekar verið að stuðla að því að fagráðið muni hafa sjónarmið velferðar dýra að leiðarljósi. Aðkoma Siðfræðistofnunar var við lýði í tilraunadýranefnd og er hér lagt til að svo verði áfram í fagráðinu. Skilyrði er að þeir sem skipaðir eru í fagráðið séu fagaðilar á sem flestum eftirtalinna fagsviða: dýralækninga, dýrafræði, dýraatferlisfræði, dýravelferðar, dýratilrauna, búfjárfræða og siðfræði. Ljóst er að ríkar faglegar hæfniskröfur eru gerðar til væntanlegra fagráðsmanna jafnframt því sem þess er gætt að fagleg breidd sé til staðar við skipan ráðsins. Gert er ráð fyrir því að ráðherra staðfesti skipan ráðsins og gengur hann því úr skugga um að skilyrði 1. mgr. séu uppfyllt áður en hann staðfestir skipunina.
    Fagráðinu er ætlað að leysa dýraverndarráð af hólmi sem starfar samkvæmt núgildandi lögum. Við það ávinnst tvennt. Annars vegar einfaldast stjórnsýslan með því að ráð sem hefur ekki eiginlegt skilgreint stjórnsýsluhlutverk með höndum er ekki lengur til staðar og hins vegar er stofnunin sem fer með málaflokkinn styrkt faglega með því að fagráðinu er fundinn sess í beinum tengslum við hana. Markmiðið er að Matvælastofnun geti leitað til ráðgefandi fagaðila varðandi tiltekin málefni og álitaefni auk þess sem leitast er við að stuðla að opinni og upplýstri umræðu og þekkingu um dýravelferðarmál með því að til sé sjálfstæður faglegur vettvangur þar sem fylgst er með dýravelferðarmálum og þróun þeirra, bæði innan lands og á erlendum vettvangi.
    Hlutverki fagráðsins er lýst í fjórum liðum í 2. mgr. 5. gr. Fagráðinu er í fyrsta lagi ætlað að vera ráðgefandi aðili gagnvart Matvælastofnun við ýmsa stefnumótun á fagsviðinu og varðandi álitaefni sem upp kunna að koma, en dýravelferðarmál og umgengni mannsins við dýr geta t.d. snert ýmis siðferðileg álitaefni. Fagráðinu er í öðru lagi ætlað að veita Matvælastofnun umsögn vegna umsókna um dýratilraunir og er þar með gert ráð fyrir því að tilraunadýranefnd verði lögð niður. Í þriðja lagi er fagráðinu ætlað það mikilvæga hlutverk að fylgjast með þróun dýravelferðarmála og upplýsa Matvælastofnun um málefni sem ráðið metur að séu mikilvæg á sviðinu. Með þessu hlutverki er fagráðinu ætlað að móta heildarstefnu í málaflokknum og einnig að styrkja Matvælastofnun faglega, en gera verður ráð fyrir að starfið verði nánar mótað af fagráðinu sjálfu. Í fjórða lagi ber ráðinu skylda til að taka til umfjöllunar tiltekin mál að beiðni einstakra fagráðsmanna, en þessari skyldu er ætlað að styrkja hlutverk hvers einstaks aðila í fagráðinu.
    Samkvæmt 3. mgr. skal fagráð um velferð dýra hafa aðsetur hjá Matvælastofnun. Gert er ráð fyrir að fagráðið haldi gerðabók um sín störf og gefi út ársskýrslu ár hvert.


Um 6. gr.

    Ákvæðið er svipað og 2. gr. núgildandi laga en í frumvarpi þessu er því þó bætt við að umráðamaður beri ábyrgð á því að annast sé um dýr í samræmi við lögin. Dýr eru oft og tíðum í umsjá annarra en eigenda sinna og því er talið nauðsynlegt að það sé skýrt að sá sem hefur umsjón með dýri hverju sinni sé einnig ábyrgur fyrir meðferð þess. Tekið er út ákvæðið um að „óheimilt sé að hrekkja dýr eða meiða“ sem er í 2. gr. núgildandi laga en þess í stað bætt við ákvæði um að bannað sé að fara illa með dýr, sem nær til mun víðtækari háttsemi en þeirrar fyrrgreindu. Með illri meðferð er m.a. átt við alla meðferð sem veldur sársauka, ótta eða óþægindum og er ónauðsynleg.

Um 7. gr.

    Ákvæði 1. mgr. um fyrstu hjálp er keimlíkt ákvæðum 8. og 9. gr. núgildandi laga, en nú er lagt til að bráðatilvik séu öll tilkynnt til lögreglu ef umráðamaður er óþekktur. Ætlunin er að taka á bráðatilvikum þar sem ljóst er að dýr kvelst, svo sem vegna sjúkdóma, slysa, misþyrmingar, barsmíða eða að það er í sjálfheldu, og fyrirséð að það muni kveljast eða dragast upp, ef því verður ekki komið til hjálpar. Ákvæði um neyðaraflífun er nákvæmar útfært en í núgildandi lögum. Þá er kveðið á um að tilkynna skuli slíka aflífun til Matvælastofnunar ef um búfé eða gæludýr er að ræða.
    Nýmæli eru í 2. mgr. og varða ábyrgð ríkis og sveitarfélaga á að koma hálfvilltum og villtum dýrum til hjálpar. Óljóst hefur verið hingað til hver ber ábyrgð á ákvörðunum og greiðslu kostnaðar og hefur það valdið töfum á aðgerðum og jafnvel aðgerðaleysi. Ákvæðið er mikilvægt til að tryggja að bráðaumönnun sé veitt hvort heldur það er björgun eða aflífun og að það sé skýrt hver taki ákvörðun um aðgerðir og greiði útlagðan kostnað. Reglulega koma upp tilvik þar sem stór spendýr (rostungar, andarnefjur, ísbirnir o.s.frv.) þarfnast hjálpar og því er nauðsynlegt að setja í lög hver hafi ákvörðunarvald um aðgerðir, sem geta verið ærið kostnaðarsamar.
    Að öllu jöfnu bera sveitarfélög ábyrgðina og greiða útlagðan kostnað þegar um hálfvillt og villt dýr er að ræða nema þegar um er að ræða villt dýr af stofni í útrýmingarhættu eða villt dýr sem lenda í umhverfisslysum, þ.m.t. náttúruhamförum, þá ber ráðuneyti sem fer með vernd og friðun villtra fugla og villtra spendýra ábyrgð á aðgerðum. Ríki og sveitarfélögum er gefin rýmri heimild til neyðaraflífunar þegar fyrirséð er að kostnaður verður verulegur.
    Í 4. mgr. er kveðið á um rétt þess sem stofnar til útgjalda skv. 1. mgr. á endurgreiðslu á öllum nauðsynlegum kostnaði úr hendi þess aðila sem ber ábyrgð á kostnaði samkvæmt greininni. Gert er ráð fyrir að sveitarfélög geti sett sér reglur um framkvæmd endurgreiðslna kostnaðar sem síðan verði staðfestar af ráðherra.

Um 8. gr.

    Ákvæði um tilkynningarskyldu er í 18. gr. núgildandi laga en álíka ákvæði er einnig að finna í 16. gr. laga um búfjárhald o.fl. Lögð er skylda á alla þjóðfélagsþegna að tilkynna til Matvælastofnunar eða lögreglu ef þeir hafa grun eða vitneskju um að illa sé farið með dýr. Greinin tekur til tilvika sem ekki teljast til bráðatilvika, sbr. 7. gr. frumvarpsins. Sú skylda er lögð á lögreglu að tilkynna slík mál til Matvælastofnunar og skal stofnunin í ljósi eftirlitshlutverks hennar í kjölfarið kanna hvort tilkynningin sé á rökum reist.
    Í 2. mgr. er það nýmæli að gæta skuli nafnleyndar þess sem tilkynnir um hugsanlegt brot skv. 1. mgr. Telja verður brýnt að slíkt ákvæði sé til staðar til að stuðla að því að ill meðferð á dýrum eða grunur um slíkt sé í sem flestum tilvikum tilkynnt til yfirvalda. Mikilvægi nafnleyndar birtist m.a. í tregðu manna við að tilkynna um hugsanleg brot sökum ýmissa tengsla, t.d. nábýlis, vina- eða fjölskyldutengsla. Ákvörðun Matvælastofnunar um nafnleynd er heimilt að skjóta til ráðherra innan tveggja vikna frá tilkynningu ákvörðunar. Gert er ráð fyrir að almennar reglur stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, gildi að öðru leyti um málsmeðferðina.

Um 9. gr.

    Í greininni er það nýmæli að gerð er krafa um að hver sá sem hefur dýr í umsjá sinni búi yfir eða afli sér grunnþekkingar á þörfum og umönnun viðkomandi dýrategundar. Ekki er gerð sú krafa að um sé að ræða víðtæka þekkingu heldur einungis lágmarksþekkingu sem vænta má að geri viðkomandi aðila færan um að uppfylla lágmarkskröfur laganna varðandi umönnun dýra. Gera má t.d. ráð fyrir að þeir eigendur búfjár sem nú þegar hafa staðist búfjáreftirlit og eftirlit héraðsdýralækna teljist hafa nægjanlega grunnþekkingu samkvæmt greininni. Sama gildir um gæludýraeigendur sem ekki hafa fengið athugasemdir um sitt dýrahald þótt alltaf þurfi að skoða hvert mál fyrir sig. Ákvæðið tengist 11. gr. frumvarpsins sem fjallar um leyfisskyldu. Við útgáfu leyfa til dýrahalds ber að hafa hliðsjón af kröfu 9. gr. um grunnþekkingu. Í ljósi þessa má vænta að í útgefnu leyfi til dýrahalds séu sett fram skilyrði um að viðkomandi búi yfir eða afli sér viðeigandi þekkingar. Í 1. mgr. 9. gr. er einnig sú krafa gerð að sá sem hafi dýr í umsjá sinni búi yfir nægjanlegri getu til að annast dýrið. Ljóst er að ekki er nægjanlegt að viðkomandi búi yfir fullnægjandi þekkingu til að annast dýrið heldur þarf hann einnig að vera fær um það til að velferð dýrsins sé gætt. Ýmsar ástæður geta leitt til þess að um sé að ræða skort á getu til að annast dýr og má sem dæmi nefna ýmsa andlega annmarka eða líkamlega fötlun viðkomandi. Í slíkum tilvikum getur stundum verið ástæða til að taka dýr úr vörslum umráðamanns. Í þessu sambandi má benda á að reynslan hefur sýnt að rót ýmissa vandamála á sviði velferðar dýra hefur m.a. tengst takmarkaðri getu eða jafnvel vilja umráðamanns til að annast dýr og/eða þekkingarleysi í tengslum við umönnun þeirra.
    Reynslan sýnir að rót flestra vandamála á sviði velferðar dýra er heilsubrestur umráðamanns dýranna, þekkingarleysi hans eða almennt viljaleysi til að sinna dýrunum með fullnægjandi hætti. Þegar um endurtekin brot á lögum þessum er að ræða varðandi meðferð og umhirðu dýra og eftirlitsaðili hefur gögn og skýrslur um þessi endurteknu brot viðkomandi án þess að eftirlitsaðili geti bent á hluti í umhverfi dýrsins, hús, girðingar, skort á fóðri o.s.frv., er almennt engin ástæða önnur fyrir ástandi dýranna nema skortur á vilja, getu eða þekkingu til að sjá um dýrin. Ekki er gert ráð fyrir að eftirlitsaðili leggi fram læknisvottorð eða annars konar mat á getu, þekkingu eða vilja viðkomandi umráðamanns dýra við beitingu þvingunarúrræða. Í slíkum tilfellum verður við úrlausn mála, í ljósi reynslunnar, hægt að vísa almennt til 9. gr., þ.e. að umráðamann skorti vilja, getu eða þekkingu til að sjá um dýr þótt eftirlitsaðili kveði ekki upp úr um það, að öðru leyti, af hvaða ástæðu umráðamaður dýranna sinni þeim eins illa og raun ber vitni.
    Í 2. mgr. 9. gr. er nýmæli um að rekstraraðili leyfisskylds dýrahalds skuli sjá til þess að starfsfólk hans búi yfir nægjanlegri þekkingu og hæfni á viðkomandi sviði. Hér gæti einnig komið til þess að gerð yrði krafa um sérstök námskeið. Þetta á t.d. við um alla þá sem bjóða þjónustu sína við tamningu, þjálfun og meðhöndlun dýra. Talið er eðlilegt að gerðar séu ríkari kröfur til rekstraraðila og þjónustuaðila stórra búa og þjálfunarstöðva en til umsvifalítilla búfjáreigenda og gæludýraeigenda.
    Að lokum er það nýmæli í greininni að óheimilt er að fela börnum undir 18 ára aldri og ólögráða einstaklingum einum ábyrgð á dýrum. Greinin á sér að hluta til fyrirmynd í 21. gr. laga um dýravernd. Leggur frumvarpið m.a. þær skyldur á foreldra og aðra forráðamenn barna undir 18 ára aldri að sjá til þess að börnin beri ekki alfarið ein ábyrgð á dýrum, m.a. dýrum í þeirra eigu, heldur sé frumábyrgðin hjá þeim sem hafa forráðin. Þá felur greinin einnig í sér bann við því að aðrir feli börnum undir 18 ára aldri eða öðrum einstaklingum sem eru lögræðissviptir slíka ábyrgð. Sjónarmiðin hér að baki eru þau að börn á þessu aldursskeiði eru almennt ekki fær um að bera alfarið ein ábyrgð á dýrum sökum þroskaleysis og sama gildir um þá einstaklinga sem sviptir hafa verið lögræði, t.d. sökum andlegra annmarka eða sjúkdóma.

Um 10. gr.

    Í greininni er það nýmæli að óheimilt er að selja eða afhenda aðila með öðrum hætti dýr þegar tilefni er til að ætla að viðtakandi hafi ekki getu eða vilja til að annast dýrið á þann hátt að samræmist ákvæðum frumvarpsins. Með ákvæðinu er ekki verið að leggja sérstaka rannsóknarskyldu á þann sem fyrirhugar að afhenda dýr heldur er um aðgæsluskyldu að ræða. Sem dæmi getur skyldan falist í því að afhenda ekki dýr í þeim tilvikum þegar viðkomandi býr yfir tiltekinni vitneskju um þann sem hann fyrirhugar að afhenda dýrið, t.d. að hann hafi nýlega haft dýr í sinni umsjá sem hafi verið vanfóðrað eða hann hafi nýlega hlotið dóm fyrir brot á lögum um velferð dýra. Nú á síðustu árum hefur jafnvel verið stundað að gefa dýr, t.d. svín eða kalkúna, sem tækifærisgjafir aðilum sem enga aðstöðu hafa til að fullnægja þörfum þeirra. Við slíkri þróun þarf að spyrna eins sjálfsagt og það er að dýr séu gefin þeim sem aðstæður og þekkingu hafa til að fara með þau á þann hátt sem ber.
    Ákvæði nýtist einnig til að koma í veg fyrir að þriðji aðili blandi sér í dýravelferðarmál með því að taka við dýrum til skamms tíma og skila þeim síðan aftur til þess manns sem uppvís hefur orðið að óhæfu dýrahaldi og er til meðferðar hjá Matvælastofnun.

Um 11. gr.

    Ákvæðið er að mestu nýmæli en hluti dýrahalds er þó leyfisskyldur skv. 12. gr. dýraverndarlaga, þ.e. dýrahald í atvinnuskyni, annað en í landbúnaði. Sú starfsemi og það dýrahald sem gert er ráð fyrir að sé leyfisskylt er nánar tilgreint í viðauka. Samkvæmt frumvarpi þessu er meginreglan sú að öll atvinnutengd starfsemi þar sem boðin er einhvers konar þjónusta við dýr er leyfisskyld. Nýmæli er að annað dýrahald, sem ekki er í atvinnuskyni, er einnig að hluta til leyfisskylt, en það ræðst af fjölda dýra í hverju dýrahaldi. Rökin hér að baki eru þau að eftir því sem dýr eru fleiri eykst hættan á því að umráðamaður með litla þekkingu eða hæfni á umræddu sviði annist ekki um dýrin á viðunandi hátt. Ill meðferð dýranna getur m.a. birst í óviðunandi eða of smáu húsnæði eða aðstöðu dýranna að öðru leyti, vanfóðrun og annarri vanhirðu þeirra. Vænta má að eftir því sem fjöldi dýra er meiri þá aukist þörfin á opinberu eftirliti. Í ljósi þessa er miðað við að umfangslítið dýrahald sé utan leyfisskyldu. Þær fjöldatölur dýra sem fram koma í viðauka ráðast af mati á umfangi dýrahalds miðað við þá dýrategund sem um er að ræða. Það var mat nefndar um heildarendurskoðun dýraverndarlaga að fjöldatölur í viðauka ættu að miða við að undanskilja hreina áhugamennsku í dýrahaldi leyfisskyldu. Markmiðið með greininni er m.a. að tryggja velferð dýra eins og kostur er áður en starfsemin hefst með úttekt Matvælastofnunar. Nánari fyrirmæli um umsóknir um leyfi koma fram í ákvæðum til bráðabirgða. Ákvæðið er einnig sett með því markmiði að hægt verði að beita því sem lið í úrræðum til að stöðva brot á velferð dýra, með því að nema úr gildi leyfi til dýrahalds, sbr. 36. gr. frumvarpsins. Með því að leyfisskylda áðurgreint dýrahald er Matvælastofnun gert kleift að hafa upplýsingar um alla leyfisskylda starfsemi, þ.m.t. búfjárhald, og breytingar á henni og þar af leiðandi mun heildstæðari gögn og upplýsingar um dýrahald í landinu.
    Samkvæmt 2. mgr. ber leyfisveitanda, við meðferð leyfisumsóknar, að taka út það húsnæði sem mun hýsa dýrahaldið, viðkomandi búnað og þekkingu. Ljóst er að þessi atriði eru grundvöllur leyfisveitingar hverju sinni. Þá er leyfisveitanda heimilt að hafna útgáfu leyfis hafi umsækjandi hlotið dóm vegna brots á lögunum, en slík tilvik kalla á mat leyfisveitanda á alvarleika brots og tengslum þess við leyfisveitinguna.
    Í 3. mgr. er lögð sú skylda á leyfishafa að tilkynna Matvælastofnun um meiri háttar breytingar á viðkomandi starfsemi eða dýrahaldi. Meiri háttar breytingar gætu til dæmis verið breytingar sem leiða til þess að viðkomandi uppfyllir ekki lengur einstök skilyrði leyfisins, t.d. hvað varðar fjölda eða tegund dýra, aðbúnað eða stærð húsnæðis. Þá er Matvælastofnun einnig heimilt að endurskoða starfsleyfi hvenær sem er á gildistímanum, t.d. ef breytingar hafa orðið á rekstrinum eða vegna tækniþróunar.
    Samkvæmt 4. mgr. ber Matvælastofnun að sjá til þess að listi yfir útgefin leyfi sé birtur á viðunandi hátt eða sé almenningi að öðru leyti aðgengilegur.
    Í 5. mgr. er að finna víðtækar heimildir fyrir ráðherra til setningar reglugerðar með nánari fyrirmælum um leyfisveitingar og skilyrði þeirra, með sjónarmið um velferð dýra að leiðarljósi.


Um 12. gr.

    Samkvæmt ákvæðinu skal öll leyfisskyld starfsemi skv. 11. gr. háð reglulegu opinberu eftirliti af hálfu Matvælastofnunar. Sú krafa að allt eftirlit með leyfisskyldu dýrahaldi skuli vera byggt á áhættumati er nýmæli. Þegar eftirlit er byggt á áhættumati er tíðni reglubundins eftirlits metin út frá áhættu sem varðar velferð dýra, sem hefur verið greind og metin og lögð til grundvallar eftirlitskerfinu. Með þessu móti verður eftirlitið hnitmiðaðra og tíðni þess mest þar sem áhættan er mest og þar af leiðandi í samræmi við raunverulega þörf í hverju dýrahaldi fyrir sig. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að ráðherra útfæri nánari fyrirmæli um eftirlitið og framkvæmd þess í reglugerð.

Um 13. gr.

    Greinin leggur þá skyldu á alla umráðamenn að annast dýr í umsjá þeirra á viðunandi hátt. Ákvæði þessarar greinar ná til umráðamanna allra dýra, einnig dýra sem haldin eru á eyðijörðum.
    Samkvæmt a-lið er skylt að sinna þörfum dýra að jafnaði einu sinni á dag. Sú skylda ætti t.d. að koma í veg fyrir að dýr séu skilin eftir eftirlitslaus á eyðijörðum eða á stöðum þar sem enginn hefur búsetu. Nær skylda þessi þó ekki til þess þegar dýr eru í sumarhögum. Í b-lið er kveðið á um skyldu umráðamanna að sjá til þess að dýr fái vatn og næringu við hæfi og í samræmi við þarfir viðkomandi dýrategundar. Ákvæði c-liðar felur í sér nýmæli, en þar er lagt til að skylt verði að tryggja grasbítum, þ.e. þeim dýrum sem fóðruð eru á grasi, aðgang að útivist á beitilandi á sumrin. Með breyttum búskaparháttum hefur það færst í vöxt að grasbítar eru haldnir á húsi allan ársins hring, einkum nautgripir og hross að sumarlagi, en slíkt telst ekki samrýmast markmiðum þessa frumvarps með tilliti til eðlilegs atferlis þeirra. Nefna má í þessu sambandi að í núgildandi reglugerðum um aðbúnað nautgripa og hrossa eru ákvæði um lágmarksútivist eða beit þessara dýrategunda.
    Í d-lið greinarinnar felst ein af mikilvægustu skyldum umráðamanns, þ.e. að vernda dýr gegn meiðslum, sjúkdómum, sníkjudýrum og annarri hættu. Vert er þó að benda á að með tilkomu „lífræns“ búskapar hefur borið við að dýr séu ekki meðhöndluð með lyfjum gegn tilteknum sjúkdómum eða séu ekki ormahreinsuð. Rétt þykir að lögbinda lágmarksmeðhöndlun á dýrum og skylda umráðamenn til að forða þeim frá slysagildrum og sjúkdómum eins og kostur er. Þá er í e-lið lögð til sú skylda að umráðamenn sjái til þess að dýr fái þá læknismeðferð sem þau þurfa eða séu aflífuð þegar annar kostur er ekki í stöðunni.
    Í f-lið greinarinnar er að finna nýmæli sem skyldar umráðamenn til að tryggja að unnt sé að annast um dýrin og meðhöndla þau. Hér er nánar átt við að skylt sé að temja dýr að ákveðnu marki eða koma upp fullnægjandi aðhaldi þannig að öll umönnun og meðhöndlun sé framkvæmanleg. Telja verður að það samræmist ekki markmiðum frumvarpsins um velferð dýra að ekki sé hægt að meðhöndla ótamið veikt eða slasað dýr. Ef dýr er ekki tamið (t.d. hross, holdanautgripur, loðdýr) getur það verið hættulegt fólki að koma því til hjálpar. Í slíkum tilvikum ber umráðamanni þá að hafa komið sér upp aðstöðu, t.d. tökubás, búri eða sérsniðnu áhaldi, þannig að hægt sé að meðhöndla dýrið.

Um 14. gr.

    Greinin er að mestu leyti nýmæli og fjallar um sérstakt bann við vanrækslu eða illri meðferð á dýrum. Í a-lið er lagt bann við því að kröftum dýra og þoli sé ofboðið. Þetta getur til dæmis átt við um hesta sem eru notaðir til útreiða, ferðalaga eða í keppni eða dýr sem notuð eru til dráttar, svo sem sleðahunda. Skv. b-lið er óheimilt að yfirgefa dýr sem er í slíkri aðstöðu að það hefur ekki möguleika á að bjarga sér. Hér getur t.d. verið um það að ræða að dýr er skilið eftir í lokuðum vistarverum án fóðurs í lengri tíma án þess að þess sé vitjað.
    Nýmæli er að finna í c-lið greinarinnar. Ákvæðið er til komið vegna mála sem hafa komið upp hérlendis og erlendis en þar er jafnvel þekkt að dýr séu notuð í þessum tilgangi gegn greiðslu. Ákvæði sem þetta er nú víða verið að setja inn í dýraverndarlög í nágrannalöndum okkar. Markmiðið er að tryggja velferð dýra en einnig að dýr verði ekki fyrir ósiðlegu athæfi.
    Í d-lið er einnig að finna nýmæli þar sem kveðið er á um að óheimilt er að nota lifandi dýr sem fóður, agn eða skotmark við skotæfingar eða skotkeppni. Þá er í e-lið lagt bann við því að etja dýrum saman til áfloga og tekur liðurinn til dæmis til hanaats, hundaats og hestaats. Markmiðið er að koma í veg fyrir meiðsl og sársauka.
    Lagt er til það nýmæli í f-lið að óheimilt verði að þvinga fóður ofan í dýr nema samkvæmt ráði dýralæknis. Dæmi eru t.d. um að í Frakklandi hafi fóðri verið þvingað ofan í gæsir við framleiðslu sérstakrar gæsalifrarkæfu, svokallaðs „foie gras“, til að framkalla „fitulifur“, sem er sjúklegt ástand lifrar og því ekki heilsusamlegt fyrir gæsir.
    Í g-lið er tekið fram að bannað er að misbjóða dýrum á annan sambærilegan hátt og er upptalning ákvæðisins þannig ekki tæmandi um þá háttsemi sem er óheimil.

Um 15. gr.

    Greinin fjallar um það í hvaða tilvikum heimilt er að framkvæma hvers konar aðgerðir á dýrum og á hvaða hátt. Gildir hér eins og endranær meginsjónarmið frumvarpsins um velferð dýra. Þá tekur greinin á því hvaða aðilum er heimilt að framkvæma skurðaðgerðir og aðrar læknisaðgerðir á dýrum og meðhöndla þau að öðru leyti. Nánari skilgreiningar á hugtökunum skurðaðgerð, læknisaðgerð og meðhöndlun er að finna í 3. gr. frumvarpsins. Ákvæði 15. gr. á sér ákveðna fyrirmynd í 13. gr. núgildandi laga sem fjallar um aðgerðir á dýrum, en það er nánar útfært í frumvarpinu. Tilgangurinn með ákvæðinu er að tryggja að dýr hljóti rétta sjúkdómsgreiningu og meðhöndlun og að aðgerðir og meðhöndlun þeirra valdi þeim ekki vanlíðan eða þjáningu. Einnig er verið að tryggja velferð dýranna að lokinni aðgerð eða annarri meðhöndlun.
    Í 1. mgr. er lagt til að óheimilt verði að framkvæma aðgerðir á dýrum sé örkuml eða þjáningar fyrirséðar að lokinni aðgerð og engar líkur á bata fyrir dýrið. Rökin hér að baki eru þau að það sé ekki í þágu velferðar dýrs að það þjáist á slíkan hátt að lokinni aðgerð sé það mat fagaðila að það muni þrátt fyrir aðgerð ekki ná bata. Skv. 1. mgr. er dýralækni því ekki heimilt að framkvæma skurðaðgerð þrátt fyrir beiðni dýraeiganda, sé það mat hans að skilyrði 1. mgr. séu uppfyllt.
    Samkvæmt 2. mgr. er meginreglan sú að skurðaðgerðir á dýrum skuli aðeins framkvæmdar af læknisfræðilegum ástæðum. Ekki er talið réttlætanlegt að leyfa fegrunaraðgerðir á dýrum eða fjarlægingu líkamshluta í þeim tilgangi einum að breyta útliti dýranna, svo sem með fjarlægingu á skotti eða skurði af eyrum á hundum, enda hafi dýrin ekki þörf fyrir þessar aðgerðir. Samkvæmt ákvæðinu er þó heimilt að fjarlægja horn, spora af dagsgömlum hönum og gelda dýr. Þá eru merkingar á dýrum einnig heimilar í samræmi við lög og reglugerðir sem um þær gilda.
    Lagt er til í 3. mgr. að ávallt verði skylt að nota deyfingu eða svæfingu ef fyrirséð er að aðgerð eða meðhöndlun dýra muni valda þeim sársauka. Gelding á dýrum án deyfingar verður þannig bönnuð, nema þegar um er að ræða geldingar á grísum yngri en vikugömlum. Við slíkar aðgerðir verður beitt verkjastillandi lyfjagjöf. Þá er gerð er sérstök undanþága fyrir eyrnamarkanir á lömbum og kiðlingum. Eyrnamörkun byggist á aldagamalli venju og snýst um að bændur þekki fé sitt frá öðru fé og það jafnvel úr fjarlægð. Eyrnamörkin hafa það umfram önnur merki að þau detta ekki úr og ekki er hægt að fjarlægja þau, þótt mögulega væri hægt að breyta marki. Ekki þykir raunhæft að hrófla við þessu fyrirkomulagi.
    Í 4. mgr. er lagt til að sú meginregla haldist óbreytt að dýralæknum einum sé heimilt að framkvæma skurð- og læknisaðgerðir á dýrum, sbr. 1. mgr. 13. gr. núgildandi dýraverndarlaga. Í málsgreininni eru síðan taldar upp þær aðgerðir sem aðrir en dýralæknar mega framkvæma á dýrum, hafi þeir fengið til þess þjálfun og jafnframt leyfi samkvæmt lögum um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr. Er ákvæðið í samræmi við tillögur frumvarpsins um breytingar á lögum um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr. Lagt er til að þeim lögum verði breytt til samræmis og nánar kveðið á um hvað annað starfsfólk á dýraheilbrigðissviði megi gera við dýr, svo sem einstaklingar sem hafa sótt sér menntun í dýrahjúkrun og starfa með dýralæknum.

Um 16. gr.

    Í greininni er fjallað um meðhöndlun dýra við þjálfun þeirra, notkun í keppni og sýningar eða notkun þeirra á annan hátt. Sambærilegt ákvæði má finna í 6. gr. núgildandi laga, en það ákvæði er þó takmarkað við notkun dýra í keppni. Lagt er til að ákvæðið verði nánar útfært frá gildandi lögum í frumvarpi þessu og nái m.a. til fleiri tilfella. Varðandi þjálfun, keppni og sýningar dýra má sem dæmi nefna að hestasýningar og keppnismót á hestum eru tíð sem og hunda- og kattasýningar og keppnismót með veiðihundum.
    Í c-lið er að finna nýmæli um að óheimilt sé að beita dýr markvisst þannig meðferð að það valdi þeim skaða eða óþarfa ótta. Þarna er fjallað um markvisst atferli af hendi mannsins og átt við aðferðir sem fela í sér hættu á meiðslum. Þar getur til dæmis verið um að ræða ýmis konar þvinganir sem beinast gegn dýrum og framkalla óttaviðbrögð hjá þeim. Athygli er vakin á að í greininni er talað um „óþarfa ótta“ en alkunna er að aðstæður á sýningar- og keppnisstöðum geta óhjákvæmilega verið þannig að þær framkalli óttaviðbrögð en þá á dýr sem rétt er meðhöndlað að geta sótt styrk til húsbónda síns sem jafnvel áralöng samvinna þeirra á milli hefur fært því fullvissu um að hann ber velferð þess fyrir brjósti.

Um 17. gr.

    Greininni svipar til 11. gr. laga um dýravernd sem er þó meira almenns eðlis en 17. gr. frumvarpsins. Í 17. gr. laga nr. 103/2002, um búfjárhald o.fl., er einnig að finna heimild til setningar reglugerðar um flutning búfjár og er 2. og 3. mgr. 17. gr. frumvarpsins að mestu leyti samhljóða þeirri grein.

Um 18. gr.

    Ákvæðið er nýmæli en sambærileg ákvæði koma fyrir annars staðar í íslenskri löggjöf, t.d. í 12. gr. laga um innflutning dýra, nr. 54/1990, og 1. gr. b laga um einkaleyfi, nr. 17/1991. Í a-lið 1. mgr. er verið að stemma stigu við öfgafullri starfsemi í ræktun, t.d. þegar kvendýr geta ekki fætt afkvæmi sín með náttúrulegum hætti, þannig að jafnvel þurfi að koma til ítrekaðra keisaraskurða. Samkvæmt þessum lið er jafnframt óheimilt að rækta undan dýrum þar sem fyrirséð er að afkvæmi þeirra verði með sköpunargalla sem þau geta liðið fyrir. Í b-lið 1. mgr. er enn frekari áhersla lögð á að æxlun sé óheimil þegar hún dregur úr getu dýra til að sýna eðlilegt atferli. Má hér nefna sem dæmi að fyrirsjáanlegt er að tiltekin hundaræktun muni leiða til þess að lappir hvolpanna verði óeðlilega stuttar miðað við aðra líkamshluta þannig að þeir muni eiga í erfiðleikum með að bera sig eða þá að t.d. kjaftlag sé með þeim hætti að dýrið eigi í erfiðleikum með að nærast. Þá má einnig nefna sem dæmi trönubit, skúffukjaft o.fl.
    Í ljósi þess hversu 18. gr. frumvarpsins er almennt orðuð og þess að þörf getur verið á mismunandi útfærðum reglum eftir því hvaða dýrategund er um að ræða er hér lagt til í 2. mgr. að ráðherra verði heimilt að kveða í reglugerð nánar á um skilyrði varðandi ræktun einstakra dýrategunda.

Um 19. gr.

    Greinin á sér að stórum hluta fyrirmynd í 16. gr. núgildandi laga um dýravernd. Í frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að tilraunadýranefnd verði lögð niður, en í stað hennar muni verkefni nefndarinnar að hluta til flytjast til nýs fagráðs um velferð dýra, sbr. 5. gr. frumvarpsins. Matvælastofnun mun þó annast leyfisveitingu vegna dýratilrauna að fenginni umsögn fagráðsins. Þá eru ákvæði greinarinnar m.a. ætluð sem stoð fyrir ítarlegri reglugerð sem ráðherra er ætlað að setja um allt sem varðar velferð dýra við tilraunir, kennslu og læknisfræðilega starfsemi vegna dýra. Málefni þau er varða dýratilraunir eru hluti af skuldbindingum Íslands skv. EES-samningnum þó svo að málefni velferðar dýra falli ekki undir samninginn.

Um 20. gr.

    Greinin á sér að hluta fyrirmynd í 14. gr. núgildandi laga um dýravernd en sett eru nákvæmari fyrirmæli en áður. Lagt er til að öll dýr sem frumvarpið nær til eigi rétt á því að vera aflífuð með skjótum og sársaukalausum hætti, jafnvel þó að þau geti í einhverjum tilfellum verið talin til meindýra.
    Ákvæði greinarinnar bannar aflífun dýra með blóðtæmingu án þess að þau séu svipt meðvitund áður og þar með komið í veg fyrir að þau séu aflífuð með kvalafullum hætti.
    Nýmæli er að óheimilt er að aflífa dýr með drekkingu og með útblæstri frá vélum þar sem þessar aðferðir eru ekki taldar geta uppfyllt grunnskilyrðið um að aflífun dýra skuli framkvæmd með skjótum og sársaukalausum hætti. Þó er heimil gildruveiði minka en gildrur eru oft og tíðum notaðar við skipulagðar aðgerðir til að halda minkastofninum í skefjum. Vandséð er hvernig komist verður hjá að beita þeirri aðferð í þeirri mikilvægu viðleitni að hamla gegn offjölgun á mink. Þá er heimilt að aflífa loðdýr með útblæstri véla ef vélarnar eru sérstaklega hannaðar og framleiddar til aflífunar loðdýra. Gert er að skilyrði að Matvælastofnun samþykki slíkar vélar áður en þær eru teknar í notkun gagngert til að gæta þess að einungis séu notaðar vélar sem eru sérstaklega hannaðar og framleiddar í þessum tilgangi. Þá er það nýmæli að aflífun dýra er óheimil sem skemmtiatriði eða keppni og skýrir það sig sjálft.
    Ákvæði greinarinnar er m.a. ætlað sem stoð fyrir ítarlegri reglugerð sem ráðherra er ætlað að setja um allt sem varðar velferð dýra við aflífun dýra.

Um 21. gr.

    Ákvæðið kveður á um skyldu til að einstaklingsmerkja tilteknar dýrategundir og nýmæli um að skyldumerkja tiltekin gæludýr. Í núgildandi dýraverndarlögum eru engin ákvæði um merkingar dýra, en velferð dýra felst m.a. í því að koma þeim fljótt til eigenda sinna hafi þau týnst.
    Í 2. mgr. er tiltekið að við merkingu dýra, hvort heldur sé um að ræða einstaklings- eða hópmerkingu, skuli beita aðferðum sem valda sem minnstum sársauka. Ákvæðið útilokar ekki eyrnamörk þó að sársaukaminni aðferðir séu þekktar, sjá nánari umfjöllun í athugasemdum við 15. gr. Þá kemur fram í 2. mgr. að merking skuli hvorki hindra eðlilegt atferli dýrsins né valda því óþarfa álagi. Þetta er mikilvægt ákvæði varðandi merkingu villtra dýra, svo sem fugla, sjávarspendýra o.fl. Ákvæðið er enn fremur mikilvægt varðandi merkin sjálf, svo sem stærð og staðsetningu merkja, og ætti að koma í veg fyrir að merki sem ætluð eru einni dýrategund séu notuð í önnur dýr, svo sem nautgripamerki í hross.
    Gert er ráð fyrir að ráðherra setji nánari ákvæði í reglugerð um merkingar og um skráningu merkinga í gagnagrunna og ábyrgð á rekstri þeirra skv. 3. mgr. Ekki er nóg að merkja dýrin ef ekki er hægt að rekja þau til eiganda. Ákvæði þessarar greinar eru mikilvæg í tengslum við 23. gr. sem fjallar m.a. um eignarhald á óskiladýrum.

Um 22. gr.

    Í greininni er lagt bann við því að dýrum sem alist hafa upp hjá mönnum sé sleppt út í náttúruna. Vitað er til þess að gæludýraeigendur hafi í einhverjum tilvikum losað sig við gæludýr sín, svo sem ketti og kanínur, með því að sleppa þeim út í náttúruna. Ljóst er að dýr sem hefur verið annast um af mönnum eiga almennt ekki auðvelt með að bjarga sér sjálf í náttúrunni og eru einnig dæmi um að þessi dýr hafi verið til vandræða, bæði í þéttbýli og dreifbýli. Í núgildandi lögum er einungis lögð skylda á eigendur dýra að gera viðeigandi ráðstafanir til að fanga dýr sleppi það úr haldi en sú skylda hefur ekki komið í veg fyrir að dýrum sé sleppt vísvitandi út í náttúruna. Ákvæði þetta girðir þó ekki fyrir að búfé sé sleppt tímabundið á sumrin á afrétt. Þá er tekið fram í ákvæðinu að heimilt sé að sleppa seiðum og fiskum. Umfangsmiklar seiðasleppingar hafa tíðkast hérlendis um alllangt skeið og ekki er talin ástæða til að leggja bann við þeirri framkvæmd.
    Í greininni er einnig lögð skylda á umráðamann eða sveitarfélög, sé umráðamaður ekki þekktur, að smala eða handsama dýr sem hafa sloppið út í náttúruna, enda má ætla að þau líði fyrir skort á umhirðu og skjóli við slíkar aðstæður. Í ljósi þessa verður að telja mikilvægt að skýrt sé kveðið á um skyldu til að handsama slík dýr. Rétt er að taka fram að meginreglan er sú að umráðamanni ber skylda til þess að smala eða handsama dýr sín hafi þau sloppið eða verið sleppt úr haldi. Ber sveitarfélagi eingöngu skylda til að smala eða handsama dýr í þeim tilvikum sem umráðamaður finnst ekki.


Um 23. gr.

    Greinin á sér að hluta til fyrirmynd í 10. gr. núgildandi laga. Skyldur umráðamanns um viðbrögð þegar dýr strjúka eða sleppa úr haldi er óbreytt en málsmeðferð er hins vegar á annan veg og miðar að því að málum ljúki hratt og vel. Hér er gert ráð fyrir að viðkomandi sveitarfélagi beri skylda til að taka dýr í sína vörslu.
    Sveitarfélögum eru færð réttindi og skyldur varðandi óskiladýr, en þeim ber að annast um þau, bregðast við og hafa uppi á skráðum eiganda. Þá ber sveitarfélögum að hafa aðstöðu til að halda slík dýr. Sveitarfélögum er heimilt skv. 3. mgr. ákvæðisins að fela öðrum að framkvæma þær skyldur sem tilgreindar eru í 1. og 2. mgr. ákvæðisins með sérstökum samningi. Samhliða skyldum sveitarfélaganna er þeim færður ráðstöfunarréttur á ómerktum dýrum annars vegar og merktum dýrum hins vegar. Ómerkt dýr telst hálfvillt dýr og telst viðkomandi sveitarfélag umráðamaður þeirra að liðnum tveimur sólarhringum. Þannig getur sveitarfélag ráðstafað ómerktum dýrum eftir tvo sólarhringa en merktum dýrum eftir tvær vikur finnist eigandi ekki. Ákvæðið er sett til að einfalda og hraða málsmeðferð auk þess að gera opinberum aðilum kleift að ljúka málum, annaðhvort að láta aflífa dýrið, selja eða afhenda það nýjum eiganda.
    Gerður er mikill greinarmunur á því hvort dýr er merkt eða ómerkt. Sá sem ekki merkir dýrið sitt skv. 21. gr. getur síður vænst þess að fá dýrið til baka, en sá sem merkir dýrið hefur meiri möguleika á að fá dýrið til baka þar sem opinberum aðilum yrði skylt að reyna að hafa uppi á honum. Þetta hvetur til ábyrgara dýrahalds. Ákvæðið er ekki síst sett til að draga úr fjölda óskilakatta á höfuðborgarsvæðinu.

Um 24. gr.

    Í 24. gr. frumvarpsins er sett heimild fyrir ráðherra til að gera kröfur um merkingar á dýraafurðum út frá dýravelferðarsjónarmiðum. Þannig geti ráðherra gert kröfu um að sýnt sé fram á að vara sé framleidd í samræmi við lög þessi og að vara sé merkt í samræmi við það. Mikilvægt er að neytendur og stjórnvöld séu almennt upplýst um framleiðsluferli vara sem framleiddar eru úr dýraafurðum til að unnt sé að meta vöruna út frá ákvæðum frumvarpsins og sjónarmiðum um velferð dýra. Þá er ráðherra heimilt að setja reglur sem takmarka eða banna innflutning eða dreifingu á ákveðnum vörum sem vitað er til að framleiddar eru úr dýraafurðum sem standast ekki kröfur laga þessara eða þeirra alþjóðasamninga sem Ísland er aðili að. Þessi reglugerðarheimild sætir þó þeim takmörkunum sem leiðir af alþjóðlegum samningum, svo sem fríverslunarsamningum sem Ísland er aðili að. Skuldbindingar Íslands skv. EES-samningnum kveða á um í meginatriðum að allar magntakmarkanir á innflutningi og útflutningi svo og allar ráðstafanir sem hafi samsvarandi áhrif séu óheimilar. Skv. 13. gr. EES-samningsins kemur það ekki í veg fyrir að leggja megi á innflutning eða útflutning bönn eða höft sem réttlætast m.a. af almennu siðferði og vernd lífs og heilsu manna eða dýra eða gróðurvernd. Að því tilskildu að slík höft leiði þó ekki til gerræðislegrar mismununar eða séu duldar hömlur á viðskipti milli samningsaðila.

Um 25. gr.

    Markmiðið með ákvæði þessu er að tryggja að villt dýr séu ekki höfð í haldi að tilefnislausu. Frá þessu er undantekning að fengnu leyfi Matvælastofnunar að undangenginni umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands. Þannig er ætlunin að koma í veg fyrir að fólk taki villt dýr og ali sér til skemmtunar eða ávinnings til lengri eða skemmri tíma.
    Ráðherra setur skilyrði í reglugerð fyrir veitingu ofangreindra leyfa og bann við föngum og vörslu tiltekinna tegunda villtra dýra með sjónarmið velferðar dýra að leiðarljósi. Allar aðferðir við föngun villtra dýra skulu vera þannig útfærðar að þær valdi ekki dýrinu limlestingu eða kvölum.

Um 26. gr.

    Greinin byggist á 15. gr. núgildandi laga um dýravernd. Markmiðið með þessu ákvæði er að við veiðar á villtum dýrum skuli ávallt fara eftir þeirri meginreglu að dýrið upplifi sem minnstan sársauka og að aflífun taki sem skemmstan tíma. Einnig er markmiðið að veiðimenn sjái til þess að þau dýr sem þeir hafa valdið áverkum við veiðarnar verði aflífuð með skjótum hætti þannig að dýrin þjáist sem minnst. Veiðimenn skulu ávallt skjóta dýr í öruggu færi og aflífa dýr eins skjótt og mögulegt er ef það særist. Við veiðar á villtum dýrum skal ávallt fara að gildandi lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum þar sem tilgreindar eru aðferðir og tæki sem má nota við veiðar. Þá getur ráðherra sett í reglugerð nánari ákvæði um aðferðir við veiðar með velferð dýra að leiðarljósi og að höfðu samráði við ráðherra er fer með stjórn veiða, vernd og friðun villtra fugla og villtra spendýra.

Um 27. gr.

    Markmiðið með þessu ákvæði er að tryggja að meindýr séu aflífuð með aðferðum sem valda þeim ekki óþarfa limlestingum eða kvölum. Þess eru nokkur dæmi að meindýrum hafi verið eytt með ómannúðlegum aðferðum, svo sem með límbökkum eða öðrum aðferðum sem draga dauðastríð óþarflega á langinn. Varðandi skilgreiningu á meindýrum vísast á hverjum tíma til laga um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglugerða settra samkvæmt þeim. Gert er ráð fyrir að ráðherra setji reglugerð um aðferðir við eyðingu meindýra og að leyfilegar aðferðir verði tilgreindar þar. Gert er ráð fyrir samráði við ráðherra sem fer með hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit.

Um 28. gr.

    Greinin er ásamt 29. gr. meginstoðin fyrir svokölluðum aðbúnaðarreglugerðum dýra. Gert er ráð fyrir að í þeim komi fram nánari útfærslur á aðbúnaði hverrar dýrategundar, svo sem umönnun, hvíld, útivist ofl. Aðbúnaðarreglugerðir tilgreina lágmarkskröfur sem gerðar eru þannig að dýrum líði eins vel og kostur er, að teknu tilliti til þess dýrahalds sem viðhaft er hverju sinni.
    Samkvæmt greininni er umráðamönnum dýra skylt að taka tillit til eðlisþarfa viðkomandi dýrategundar. Hestum er eðlislægt að velta sér, hundum að hlaupa, köttum að skerpa klær, svínum og hænum að róta, grasbítum að bíta gras o.s.frv. Gert er ráð fyrir að eðlisþarfir dýra fái notið sín eins og kostur er, en reglugerðir tilgreina þessa þætti nánar. Gert er ráð fyrir að með reglugerðum verði fylgt þróun varðandi bestu mögulegu meðferð dýra hverju sinni um leið og tekið sé mið af fjárhagslega raunhæfum úrlausnum til bættrar meðferðar. Skv. 2. mgr. er umráðamönnum skylt að sjá til þess að dýr sem eru úti að staðaldri hafi skjól fyrir veðrum jafnt sumar sem vetur.
    Í 3. mgr. er kveðið á um skyldur opinberra aðila sem veita hvers kyns leyfi fyrir athöfnum sem geta haft áhrif á líðan og/eða öryggi dýra að taka tillit til áhrifa sem athöfnin getur haft á dýr áður en leyfi er veitt. Hér fellur undir t.d. leyfi fyrir flugeldasýningum, brennum, mótorkrossbrautum o.þ.h. sem veldur miklum hávaða eða mengun þannig að dýr geti hlotið skaða af eða orðið verulega óttaslegin.

Um 29. gr.

    Ákvæði greinarinnar er ætlað að tryggja góðan aðbúnað dýra og gerir kröfur til bygginga og búnaðar. Greinin er ásamt 28. gr. meginstoð fyrir aðbúnaðarreglugerðir dýra. Gert er ráð fyrir að í þeim verði að finna nánari útfærslur á byggingum og búnaði fyrir hverja tegund fyrir sig. Nýmæli eru ákvæði um slysahættur og flóttamöguleika í neyð. Ákvæðið felur í sér að bannað verður að hindra flóttaleiðir fyrir dýr vegna eldsvoða, t.d. yrði bannað að naglfesta hurðir eða loka stíum þannig að þær séu ekki opnanlegar í neyð.

Um 30. gr.

    Í greininni er kveðið á um að ekki megi halda villt dýr í dýragörðum í þeim tilvikum sem dýr getur ekki aðlagast á fullnægjandi hátt þeim aðbúnaði sem því er ætlaður, t.d. sökum síns náttúrulega atferlis eða annarra þátta sem varðar lífsskilyrði þess. Þannig getur aðbúnaður sem hefur svo hamlandi áhrif á atferli dýra að það varði við velferð þeirra ekki talist fullnægjandi þannig að heimilt sé að halda dýr. Þá þarf jafnframt að vera til staðar aðbúnaður sem stuðlar að því að dýrin geti athafnað sig eins eðlilega og kostur er. Ráðherra er gefin heimild til að setja skilyrði varðandi aðbúnað einstakra tegunda sem haldin eru í dýragörðum, svo sem hvað varðar hönnun rýmis og umhirðu dýranna.

Um 31. gr.

    Greinin er nýmæli og fjallar um takmarkanir á notkun á búnaði sem notaður er í dýrahaldi. Greinin er til komin vegna vandamála sem hefur orðið vart við vegna sölu á útbúnaði sem óheimilt er að nota á dýr eða má einungis nota af fagaðilum, svo sem geldingatangir og tjakkar til notkunar við burðarhjálp hjá stórgripum. Það er því mikilvægt að hægt sé að takmarka dreifingu á þess konar tækjum, tólum eða búnaði.
    Lagt er til að Matvælastofnun geti krafið þann sem notar eða dreifir slíkum tækjum, tólum eða útbúnaði eða kynnir starfsaðferðir er varða dýrahald um gögn því til staðfestingar að tækin valdi dýrum ekki þjáningu eða vanlíðan, til dæmis niðurstöður rannsókna sem sýna að velferð dýra sé nægjanlega tryggð. Gert er ráð fyrir að ráðherra setji reglugerð sem tiltekur nánar bann eða takmörkun á dreifingu á tilteknum tækjum, tólum eða útbúnaði, svo sem bann við sölu geldingatanga til annarra en þeirra sem leyfi hafa til notkunar þeirra.

Um 32. gr.

    Í ákvæðinu er kveðið á um heimild til að setja gjaldskrá sem byggð er á raunverulegum kostnaði Matvælastofnunar við leyfisveitingar, eftirlit o.fl. Í 11. og 12. gr. frumvarpsins er fjallað um leyfisskylt dýrahald og leyfisskylda starfsemi. Raunkostnaður vegna 11. og 12. gr. tekur til úttekta, eftirlits, eftirfylgni og útgáfu starfsleyfis. Hér er m.a. átt við tímagjald eftirlitsmanns og ferðakostnað. Tilvísun til kostnaðar vegna eftirfylgni vísar til tíðari skoðana og eftir atvikum til aukins stjórnsýslukostnaðar eftirlitsaðila við beitingu þvingunarúrræða. Þá er heimilt að innheimta gjald vegna kostnaðar Matvælastofnunar við leyfisveitingar og eftirlit skv. 17. gr. frumvarpsins varðandi flutninga dýra og rekstur búfjár.
    Undir þetta ákvæði fellur einnig kostnaður vegna afgreiðslu umsókna, umsagna og útgáfu leyfa á grundvelli 11., 19. og 25. gr. og er kostnaðurinn fyrst og fremst falinn í launakostnaði og öðrum skrifstofukostnaði við afgreiðslu erinda.
    Gjaldtaka vegna 21. gr. frumvarpsins er vegna kostnaðar við skráningu og tengda umsýslu en ekki vegna stofnkostnaðar gagnagrunnsins.

Um 33. gr.

    Með greininni er Matvælastofnun veitt heimild til að fara á hvern þann stað þar sem dýr eru höfð og kanna aðstæður þeirra og aðbúnað. Einnig er Matvælastofnun veitt heimild til að fara á hvern þann stað sem dýr eru höfð við beitingu þvingunarúrræða. Í 1. mgr. er kveðið á um heimildir Matvælastofnunar til eftirlits en ekki er um tæmandi talningu að ræða á öflun gagna. Matvælastofnun er ekki heimilt að fara inn í íbúðarhús, útihús eða aðra þvílíka staði án samþykkis eiganda eða umráðamanns nema að fengnum dómsúrskurði. Í 2. mgr. er þó kveðið á um heimildir lögreglu til að fara m.a. inn í íbúðarhús o.fl. þegar brýn hætta er talin á að bið eftir úrskurði valdi dýrum þeim er í hlut eiga skaða. Lögregla getur þá fyrirvaralaust tekið dýr úr vörslu eiganda eða umsjónarmanns. Matvælastofnun telst umráðamaður dýra meðan á vörslusviptingu stendur yfir, líkt og nánar er kveðið á um í 34. gr. frumvarpsins.

Um 34. gr.

    Með ákvæði þessu eru eftirlitsaðila færð í hendur aukin úrræði vegna brota á ákvæðum frumvarpsins eða reglugerðum settum á grundvelli væntanlegra laga. Í lögum um búfjárhald o.fl. og dýraverndarlögum er fyrst og fremst um að ræða heimild til að taka dýr úr vörslum fólks. Mörg þeirra brota sem um ræðir geta talist minni háttar og því geta úrræði eins og krafa um úrbætur dugað til að úr sé bætt. Í 1. mgr. 34. gr. frumvarpsins er því kveðið á um fjölbreyttari heimildir til að bregðast við ólíkum brotum að eðli og alvarleika en eftirlitsaðila er falið að móta stefnu við beitingu úrræðanna í samræmi við meðalhófsreglu stjórnsýslulaga. Heimilt er að beita úrræðum 34. gr. óháð því hvort um leyfisskylda starfsemi er að ræða eða ekki.
    Nýmæli er að finna í 1. mgr. um að heimilt sé að leggja hald á tæki og tól í tilefni brota á ákvæðum frumvarpsins eða viðeigandi reglugerðum. Samkvæmt ákvæðinu verður heimilt að leggja hald á tæki og tól sem eru bönnuð eða vörslur þeirra háðar leyfi. Gildir þetta óháð því hvort sala er fyrirhuguð eða tæki eða tól finnast hjá umráðamanni dýrs. Gert er ráð fyrir að Matvælastofnun leiti atbeina lögreglu þegar þörf er á að leggja hald á tæki og tól. Haldlagningu ber að framkvæma í samræmi við ákvæði laga um meðferð sakamála.
    Samkvæmt 2. mgr. er Matvælastofnun heimilt að stöðva starfsemi aðila þegar um alvarleg tilvik eða ítrekuð brot er að ræða eða ef aðilar sinna ekki fyrirmælum innan tilgreinds frests. Heimilt er að leita aðstoðar lögreglu við stöðvun starfsemi. Í 3. mgr. eru heimildir afmarkaðar frekar en þar er m.a. nýmæli að kveða á um dagsektir og niðurfellingu á opinberum greiðslum í landbúnaði vegna brota á ákvæðum frumvarpsins. Þá er heimilt samkvæmt ákvæðinu að gera úrbætur á kostnað aðila máls og að vörslusvipta umráðamann dýrum. Ávallt ber þó að veita frest til úrbóta áður en úrræðunum er beitt samkvæmt ákvæðinu. Margvísleg rök eru fyrir því að styrkja ekki framleiðslu landbúnaðarafurða þar sem brotin eru ákvæði er varða velferð dýra. Til að mynda eiga neytendur almennt ekki kost á að sniðganga afurðir frá þeim búum þar sem brotin eru lög um velferð dýra. Tilgangur með niðurfellingu á greiðslum er að þvinga fram úrbætur. Enginn vafi er á að úrræði sem þetta yrði skilvirkt og áhrifaríkt. Þá fer það ekki saman að ríkissjóður styrki búfjárframleiðslu hjá einstaklingi eða lögaðila sem ríkisvaldið er jafnframt að fást við vegna lagabrota á ákvæðum um velferð dýra. Til niðurfellingar á opinberum greiðslum getur því komið þótt aðilinn sem í hlut á hafi brotið gegn velferð annarrar dýrategundar en þeirrar sem í hlut á hvað greiðslur varðar. Röksemdin fyrir því er sú að búreksturinn á búinu og þar með dýrahaldið sé ein heild og ekki beri að styrkja með opinberum greiðslum bú þar sem ábótavant sé um dýravelferð í heild. Heimild til niðurfellingar á styrkjum má þó einvörðungu beita vegna ítrekaðra brota á lögum þessum og að undangenginni áminningu eða svo alvarlegra brota að til vörslusviptingar kemur.
    Í 4. mgr. er vörslusvipting dýra afmörkuð ítarlega enda getur verið um mikið inngrip að ræða í atvinnuréttindi og eignarréttindi umráðamanns dýrs. Sambærilega heimild er að finna í 16. gr. laga um búfjárhald en framkvæmdin er einfölduð til muna með því að fækka stjórnvaldsaðilum sem að málum koma og einfalda málsmeðferð. Breytingin felst í því að nú verður ákvörðunarvald um vörslusviptingu fengið Matvælastofnun. Það er sú stofnun sem hefur þekkingu til að meta hvort vörslusvipting er nauðsynleg. Í lögum um búfjárhald o.fl. var það lögreglustjóri sem bar ábyrgð á því að ákvörðun væri tekin um vörslusviptingu. Eðlilegra er að sú stofnun sem hefur fagþekkingu taki ákvörðun um vörslusviptingu á dýrum og beri ábyrgð á þeirri ákvörðun frá upphafi til enda. Í greininni er tekið fram að vörslusvipting geti farið fram með þeim hætti að dýrin verði ekki fjarlægð af þeim stað sem þau eru á, en slíkt getur verið nauðsynlegt, t.d. þegar um fiskeldi er að ræða eða svínabú, alifuglabú eða sauðfjárbúskap þar sem sjúkdómar eru landlægir. Þá er Matvælastofnun veitt heimild til að aflífa vörslusvipt dýr að liðnum tveimur sólarhringum takist hvorki stofnuninni né eiganda að finna viðeigandi aðstæður eða aðbúnað fyrir dýrin. Í þeim tilfellum þar sem viðeigandi aðstæður og aðbúnaður finnast ekki er Matvælastofnun þá heimilt að grípa til þess neyðarúrræðis að aflífa dýrin. Að lokinni vörslusviptingu er aðila máls gefinn kostur á að koma á framfæri sínum sjónarmiðum en í framhaldi tekur Matvælastofnun ákvörðun um hvort vörslusviptingu verði aflétt eða hvort dýrunum skuli ráðstafað með öðrum hætti. Ef niðurstaðan er að dýrunum skuli ráðstafað með öðrum hætti ber Matvælastofnun að gæta sjónarmiða velferðar dýra við ráðstöfun dýranna. Eðlilega ber eftir því sem kostur er að horfa til fjárhagslegra hagsmuna aðila máls, t.d. með því að koma dýrunum í sláturhús eða selja þau öðrum ef það er mögulegt. Matvælastofnun er hins vegar ekki ætlað að sitja uppi með dýrin nema skamman tíma og því slátrun eða aflífun dýranna líkleg niðurstaða. Umráðamaður á ekki bótarétt vegna framkvæmda á grundvelli þessarar greinar enda telst hún ekki til eignarnáms. Matvælastofnun yrði óheimilt að ráðstafa dýrum þegar aðili máls leggur fram fullnægjandi tryggingu fyrir kostnaði á meðan málið er í meðferð hjá dómstólum sbr. 7. mgr.
    Í 5. mgr. er fjallað um alvarlegustu tilvikin sem upp geta komið og taka þarf dýr úr vörslum einstaklinga fyrirvaralaust. Í slíkum tilfellum væri um að ræða mál sem þola enga bið og brot þannig að óforsvaranlegt er að dýr sé áfram í vörslu umráðamanns. Slík mál vinnast í samráði við lögreglu.
    Í 6. mgr. er fjallað um heimild til að svipta umráðamann heimild til að hafa dýr í umsjá sinni. Þessu úrræði gæti t.d. þurft að beita eftir að vörslusvipting hefði farið fram til að aðili tæki ekki að nýju við öðrum dýrum. Þessi heimild er í samræmi við 5. mgr. 18. gr. laga um dýravernd.
    7. mgr. er í samræmi við 6. mgr. 18. gr. laga um dýravernd.
    Í 8. mgr. segir að vörslusvipting á dýrum skuli framkvæmd með aðstoð lögreglu sem og aflífun samkvæmt greininni og beri lögreglan ábyrgð á þeim aðgerðum. Ábyrgð lögreglu snýr að aðgerðum og beitingu valds á staðnum en ekki ábyrgð á ákvörðunum Matvælastofnunar um beitingu þeirra úrræða. Þá er kveðið á um skyldu sláturleyfishafa til að taka vörslusvipt dýr til slátrunar óski Matvælastofnun þess. Mikilvægt er að hægt sé að leita til sláturleyfishafa eftir aðstoð og sláturleyfishafar geti ekki hafnað því að veita aðstoð, svo sem vegna viðskiptahagsmuna eða annarra tengsla við þá dýraeigendur sem verða fyrir vörslusviptingu.
    9. mgr. er í samræmi við ákvæði 16. gr. laga um búfjárhald o.fl.
    Í 11. mgr. kemur fram að Matvælastofnun og lögreglan eigi lögveð í viðkomandi dýrum vegna aðgerða samkvæmt þessari grein. Dugi verðmæti þeirra ekki fyrir kostnaðinum er heimilt að innheimta kostnað með fjárnámi án undanfarandi dóms eða sáttar.
    Í 12. mgr. kemur fram að eigandi dýrs eigi ekki bótarétt vegna aflífunar dýra eða annarrar ráðstöfunar á grundvelli 34. gr.

Um 35. gr.

    Í greininni er lagt til að Matvælastofnun hafi heimildir til að leggja á stjórnvaldssektir við tilteknum brotum á ákvæðum frumvarpsins í þeim tilgangi að ná fram markmiðum þess og tryggja betri framfylgd í ljósi eftirlitshlutverks stofnunarinnar. Með þessu nýmæli verður unnt að ljúka einstökum málum með álagningu stjórnvaldssekta. Einkum er lagt upp með að smávægilegum brotum gegn ákvæðum frumvarpsins ljúki með stjórnvaldssekt en alvarlegri mál verði kærð til lögreglu. Með þessu móti er betur tryggt að sérhverju broti gegn ákvæðum frumvarpsins ljúki með refsingu. Ljúki máli með sekt er því formlega lokið og verður það þá ekki sent lögreglu til rannsóknar nema nýjar og alvarlegar upplýsingar komi fram í dagsljósið, sbr. 4. mgr.
    Stjórnvaldssektir geta numið allt að 1.000.000 kr. skv. 2. mgr. Í greininni eru talin upp atriði sem hafa skal til hliðsjónar við ákvörðun sekta en upptalningin er ekki tæmandi. Hafi aðili hagnast af broti er Matvælastofnun heimilt að ákveða hærri sektir sem geta verið allt að tvöfalt margfeldi af hagnaði sem aðili hefur aflað sér með broti gegn lögunum, þó ekki hærri en fimm milljónir króna.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að greiða skuli sektir innan mánaðar frá ákvörðun Matvælastofnunar og lagt til að dráttarvextir verði reiknaðir eftir mánuð frá sektarákvörðun. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fari þá eftir lögum um vexti og verðtryggingu. Kveðið er á um að sektir skuli renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtu. Eðlilegt þykir að innheimtukostnaður, sem stofnun ber kostnað af, renni til hennar.

Um 36. gr.

    Í ákvæðinu er fjallað um heimildir Matvælastofnunar til að svipta leyfishafa leyfi til dýrahalds og til þeirrar starfsemi sem kveðið er á um í viðauka. Um útgáfu leyfis til dýrahalds er fjallað í 11. gr. frumvarpsins. Samkvæmt ákvæðinu er Matvælastofnun heimilt að svipta leyfishafa leyfi verði hann ítrekað uppvís að því að vanrækja skyldur sem á honum hvíla samkvæmt frumvarpinu eða öðrum lögum sem um reksturinn gilda eða brjóti að öðru leyti ítrekað gegn skilyrðum eða skilmálum leyfisins. Sem dæmi má nefna að leyfishafi hefur ítrekað orðið uppvís að því að brjóta þær reglur er gilda um aðbúnað þeirra dýra sem viðkomandi hefur í haldi, fjölda dýranna, umhirðu eða aðrar skyldur, m.a. þær er lúta að innra eftirliti hvað varðar viðkomandi starfsemi.
    Í ákvæðinu er einnig kveðið á um heimild Matvælastofnunar til að svipta leyfishafa leyfi til flutninga skv. 17. gr. Skv. 17. gr. frumvarpsins er ráðherra heimilt að setja í reglugerð reglur um sérstök leyfi flutningsaðila sem veitt verða af Matvælastofnun. Gert er ráð fyrir í frumvarpi þessu að Matvælastofnun verði heimilt að svipta leyfishafa leyfi verði hann ítrekað uppvís að því að vanrækja skyldur sem á honum hvíla samkvæmt frumvarpinu eða lögum sem eiga við um flutning dýra og rekstur búfjár eða hann brjóti ítrekað gegn skilyrðum eða skilmálum leyfisins.
    Samkvæmt 3. mgr. getur svipting leyfis einungis komið til eftir að leyfishafi hefur fengið viðvörun og eftir atvikum átt þess kost að bæta úr því sem mundi valda sviptingu leyfisins. Ber að skýra ákvæðið á þá leið að í þeim tilvikum sem slíkt er mögulegt, m.a. með tilliti til dýraverndarsjónarmiða, skuli veita viðkomandi færi á að bæta úr annmörkum áður en kemur til leyfissviptingar. Er ákvæði 3. mgr. 36. gr. í samræmi við andmælarétt stjórnsýslulaga. Skv. 3. mgr. 36. gr. frumvarpsins skal þá í viðvörun til leyfishafa koma fram tilefni sviptingar.

Um 37. gr.

    Greinin er að mestu byggð upp á 20. gr. núgildandi laga um dýravernd en við bætist að horfa megi til 9. gr. frumvarpsins um getu, hæfni og ábyrgð.

Um 38. gr.

    Greinin er óbreytt frá 19. gr. laga um dýravernd og þarfnast ekki skýringa.

Um 39. gr.

    Í ákvæðinu er mælt fyrir um heimild ráðherra til að setja nánari reglur um framkvæmd laganna í reglugerð.

Um 40. og 41. gr.

    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.

Um 42. gr.

    Í ákvæðinu eru gerðar breytingar á ýmsum lögum vegna frumvarps þessa til laga um velferð dýra og laga um búfjárhald.
    Þær breytingar sem tilkomnar eru vegna laga um búfjárhald eru eingöngu tilkomnar vegna nýs laganúmers og stytts heitis laganna. Þetta eru breytingar á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, og lögum nr. 80/2005, um Matvælastofnun.
    Vegna frumvarps til laga um velferð dýra þarf einnig að gera breytingar á lögum nr. 90/2002, um Umhverfisstofnun, og lögum nr. 80/2005, um Matvælastofnun.
    Í ákvæðinu eru stærstu breytingarnar gerðar á lögum nr. 66/1998, um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr. Hluti velferðar dýra felst í því að dýrum sé sinnt eða þau meðhöndluð af fagfólki þegar dýr eru sjúk eða ákveðnar aðgerðir eru framkvæmdar. Í ákvæðinu er gildissvið laga um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr útvíkkað og látið ná til heilbrigðisstarfsmanna dýra. Flestar breytingar miða að því að uppfæra lögin í samræmi við það að þau taki nú einnig til heilbrigðisstarfsmanna dýra. Vekja ber þó sérstaka athygli á d-lið 2. tölul. en þar kemur fram að heilbrigðisstarfsmenn dýra þurfi að fá viðurkenningu og leyfi frá Matvælastofnun. Gert er ráð fyrir að ráðherra setji reglugerð um menntunarkröfur fyrir hverja stétt svo og reglur um réttindi og skyldur þeirra stétta. Með breytingunni er ekki þrengt að atvinnufrelsi frá því sem verið hefur heldur þvert á móti er mótaður farvegur til viðurkenningar á þekkingu og færni til að stunda ýmsa meðhöndlun dýra. Núgildandi lög gera ráð fyrir einkarétti dýralækna á mörgum aðgerðum á dýrum en með frumvarpinu er farvegur búinn til fyrir dýrahjúkrunarfræðinga, sæðingamenn o.fl.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Gert er ráð fyrir að þeir sem haldið hafa dýr fyrir gildistöku laganna sem ekki er háð leyfi samkvæmt lögum um dýravernd, nr. 15/1994, og fellur undir viðauka þurfi ekki að sækja um leyfi til dýrahalds. Hafi verið gerð athugasemd við dýrahald viðkomandi aðila þarf þó að sækja um leyfi skv. 11. gr. frumvarpsins.
Fylgiskjal I.

Atvinnuvega- og
nýsköpunarráðuneyti:


Mat á áhrifum frumvarps til laga um velferð dýra og frumvarps til laga um búfjárhald á fjárhag sveitarfélaga skv. 129. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011.

    Meginmarkmið frumvarps til laga um velferð dýra er að koma á heildstæðri löggjöf um velferð dýra og einfalda framkvæmd og eftirfylgni mála sem varða málaflokkinn. Samhliða frumvarpinu og í sama tilgangi leggur ráðherra fram frumvarp til laga um búfjárhald. Samkvæmt áætlun sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins er gert ráð fyrir að samanlagt hækki bæði frumvörpin árleg útgjöld Matvælastofnunar um 115 m.kr. á fyrsta ári en þau nemi eftir það um 106 m.kr. á ári. Það er mat ráðuneytisins að um 83 m.kr. af þessum útgjöldum séu vegna verkefna sem nú eru á ábyrgð sveitarfélaga. Ráðuneytið telur frumvörpin að öðru leyti ekki hafa veruleg áhrif á fjárhag sveitarfélaga. Þó gæti einhver kostnaður fallið á sveitarfélögin vegna ákvæðis um hjálparskyldu, sbr. 7. gr. frumvarps til laga um velferð dýra. Þá er talið að einhver kostnaður geti fallið á sveitarfélögin vegna 23. gr. frumvarps til laga um velferð dýra sem kveður á um handsömunar- og vörsluskyldu. Ráðuneytið telur þó að sveitarfélögin geti mætt útlögðum kostnaði vegna handsömunar- og vörsluskyldunnar að mestu leyti með gjaldtöku en í nefndri grein er gert ráð fyrir heimild sveitarfélaga til að innheimta áfallinn kostnað úr hendi umráðamanns samkvæmt gjaldskrá.
    Samband íslenskra sveitarfélaga telur að stærstur hluti nýrra verkefna Matvælastofnunar við búfjáreftirlit felist í öflun hagtalna. Búfjáreftirlit og forðagæsla, sem í dag eru verkefni sveitarfélaga, verði einungis hlut af starfssviði þeirra starfsmanna sem Matvælastofnun hyggst ráða. Samband íslenskra sveitarfélaga telur að verkefnatilfærsla létti kostnaði af sveitarfélögum sem nemi um 47,4 m.kr. á ársgrundvelli. Ekki eru talin vera rök til þess að taka árlegan kostnað vegna þvingunarúrræða, sem ráðuneytið metur vera 5 m.kr. á ári, með í kostnaðarmatið, þar sem sveitarfélög hafi setið uppi með þann kostnað á umliðnum árum vegna óskýrra laga og reglugerða. Vegna hjálparskyldu, sbr. 7. gr. frumvarps til laga um velferð dýra, er talið að 10 m.kr. á ári sé varlega áætlaður kostnaður sveitarfélaga og leggja beri þá tölu til grundvallar í kostnaðarmati frumvarpanna. Samband íslenskra sveitarfélaga metur kostnað vegna handsömunar- og vörsluskyldu sveitarfélaganna, sbr. 23. gr. frumvarps til laga um velferð dýra, hljóða upp á stofnkostnað á bilinu 50–75 m.kr. og árlegan kostnað á bilinu 45–72,5 m.kr. Talið er óljóst hvernig gjaldtökuheimildir eru hugsaðar, auk þess sem þær muni ekki koma að neinu haldi í tilvikum hálfvilltra dýra og þar sem eigendur eru ekki borgunarmenn fyrir aðgerðum.

Samantekt.
    Ráðuneytið telur að kostnaður sveitarfélaga lækki um 83 m.kr. vegna frumvarpanna en þó geti einhver kostnaður fallið á sveitarfélög vegna hjálparskyldu og vegna handsömunar- og vörsluskyldu sem kveðið er á um í frumvarpi til laga um velferð dýra. Samband íslenskra sveitarfélaga telur að árlegur nettókostnaður sveitarfélaga hækki um 7,6–35,1 m.kr. Þá telur Samband íslenskra sveitarfélaga að stofnkostnaður hjá sveitarfélögunum verði 50–75 m.kr. Samband íslenskra sveitarfélaga fer fram á að sveitarfélög fái bættan mismun samkvæmt kostnaðarmati, eftir atvikum með leiðréttingu á framlögum til annarra verkefna, svo sem eyðingu á mink og ref sem kallar á um 100 m.kr. útgjöld sveitarfélaga árlega.Fylgiskjal II.

Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um velferð dýra.

    Meginmarkmið frumvarps þessa er að koma á heildstæðri löggjöf um velferð dýra og einfalda framkvæmd og eftirfylgni mála sem varða málaflokkinn. Samhliða frumvarpi þessu og í sama tilgangi leggur atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra fram frumvarp til laga um búfjárhald. Með lögfestingu frumvarpanna verða felld úr gildi lög nr. 15/1994, um dýravernd, með síðari breytingum, og lög nr. 103/2002, um búfjárhald o.fl., með síðari breytingum. Til samræmis við nýja löggjöf eru í frumvarpinu lagðar til orðalagsbreytingar á nokkrum lögum. Í eftirfarandi umsögn er farið yfir þau fjárhagslega áhrif sem lögfesting beggja frumvarpanna mun hafa á ríkissjóð en einnig er vísað til umsagnar um fyrrnefnt frumvarp til laga um búfjárhald.
    Stjórnsýsla dýraverndar er samkvæmt gildandi lögum í höndum umhverfis- og auðlindaráðuneytis og Umhverfisstofnunar en framkvæmd búfjáreftirlits hins vegar á vegum sveitarfélaga og á kostnað þeirra. Með nýrri löggjöf verða þessir málaflokkar á ábyrgð eins aðila atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, og er gert ráð fyrir að framkvæmd hennar verði að mestu á vegum Matvælastofnunar. Meðal þeirra verkefna sem stofnunin mun taka yfir er skráning búfjár. Þá verður búfjáreftirlit framvegis á hennar vegum auk þess sem stofnuninni verður ætlað að annast söfnun hagtalna og eftirlit með merkingu búfjár. Þá mun verða til sérstakt fagráð dýraverndar sem starfar undir Matvælastofnun og mun það leysa dýraverndarráð af hólmi.
    Samkvæmt áætlun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins er gert ráð fyrir að samanlagt hækki bæði frumvörpin árleg útgjöld Matvælastofnunar um 105 m.kr. á fyrsta ári en að þau nemi eftir það um 96 m.kr. á ári þar sem 9 m.kr. af þeim eru einskiptis kostnaður. Þar af er kostnaður við verkefni samkvæmt þessu frumvarpi metinn 13 m.kr. á ársgrunni. Að mati ráðuneytisins þarf að fjölga stöðugildum við stofnunina víðs vegar um landið. Má þar nefna eitt stöðugildi sérgreinadýralæknis sem ætlað er að hafa umsjón með málaflokknum auk þess sem hann taki að sér eftirlitshlutverk að hluta. Þá er gert ráð fyrir að sérstakt fagráð þurfi á starfsmanni í hlutastarf að halda sem starfi með ráðinu að verkefnum þess sem felast m.a. í því að vera Matvælastofnun til ráðuneytis um stefnumótun og álitaefni á sviði velferðar dýra, veita stofnuninni umsögn um umsóknir vegna dýratilrauna, fylgjast með þróun dýravelferðarmála og taka til umfjöllunar mál á því sviði. Ekki er gert ráð fyrir auknum útgjöldum vegna nefndarlauna þar sem fagráðið kemur í stað dýraverndarráðs sem nú starfar samkvæmt gildandi lögum. Aftur á móti er gert ráð fyrir starfstengdum kostnaði vegna vinnu ráðsins, m.a. vegna útgáfu á ársskýrslu þess. Við stjórnsýslusvið stofnunarinnar bætast verkefni vegna dýravelferðarmála. Þá verði ráðnir sex starfsmenn í fullt starf vegna vinnu við velferð dýra og öflun hagtalna auk þess sem nokkrir starfsmenn verði ráðnir hluta úr ári vegna heimsókna til búfjáreigenda í tengslum við hagskýrslugerð. Þessu til viðbótar eru óregluleg útgjöld sem fallið geta á Matvælastofnun. Annars vegar eru útgjöld vegna þvingunarúrræða, m.a. vegna brottflutnings, fóðrunar, umhirðu og aðbúnaðar dýra eftir vörslusviptingu, þegar eigandi eða umráðamaður dýra er ekki greiðsluhæfur en Matvælastofnun áætlar þennan kostnað um 5 m.kr. á ári. Hins vegar eru útgjöld vegna eftirfylgni við hagskýrsluskil en ætlunin er að þeir búfjáreigendur sem eru með ófullnægjandi skil á skýrslum verði heimsóttir og eru útgjöld vegna þessa áætluð um 5,6 m.kr. Á móti þessum útgjöldum koma samsvarandi tekjur sem greiddar verða af viðkomandi búfjáreigendum. Þá er reiknað með að tæplega 9 m.kr. einskiptis kostnaður falli til á fyrsta ári vegna gagnagrunns sem gera þarf vegna skráningar á auðkennismerktum dýrum. Það er mat atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins að um 83 m.kr. af þessum útgjöldum séu vegna verkefna sem nú eru á ábyrgð sveitarfélaga en á móti koma tæplega 6 m.kr. tekjur, um 9 m.kr. eru vegna verkefna sem færast frá Umhverfisstofnun og um 3 m.kr. vegna nýrra lagaákvæða og mundu teljast ný útgjöld fyrir ríkissjóð.
    Samkvæmt sveitarstjórnarlögum sem tóku gildi 1. janúar sl. skal leggja fyrir Samband íslenskra sveitarfélaga mat á fjárhagslegum áhrifum lagafrumvarpa áður en þau eru afgreidd úr ríkisstjórn og lögð fram á Alþingi. Í samræmi við lögin var Sambandi íslenskra sveitarfélaga send áætlun um fjárhagsleg áhrif frumvarpsins á Matvælastofnun en í henni eru þau verkefni sem færast frá sveitarfélögum til Matvælastofnunar metin á rúmar 77 m.kr. nettó, sbr. umfjöllun hér fyrir framan. Samband íslenskra sveitarfélaga hefur gert athugasemd við þann kostnað sem áætlað er að færist frá sveitarfélögum til Matvælastofnunar, auk þess sem tíunduð eru önnur fjárhagsleg áhrif frumvarpsins á sveitarfélög. Sambandið telur fráleitt að áætla þennan kostnað svo háan og telur hann vera nærri 26 m.kr. á ári. Þá er því einnig hafnað að kostnaður við þvingunarúrræði verði um 5 m.kr. á ári án þess að nefnd sé fjárhæð sem sveitarfélögin telja vera nærri lagi. Það er því ljóst að verulega ber á milli aðila um mat á fjárhagslegum áhrifum frumvarpsins. Engu síður verður að gera ráð fyrir að samkomulag verði gert við Samband íslenskra sveitarfélaga um einhvers konar uppgjör vegna yfirfærslu verkefna t.d. þar sem sveitarfélögin skuldbinda sig til að taka yfir eða fjármagna önnur verkefni sem nú eru á vegum ríkisins. Engar viðræður hafa þó farið fram um slíkt og því ekki hægt að svo stöddu að segja til um hvort eða með hvaða hætti það nái fram að ganga.
    Að því gefnu að viðhlítandi samkomulag náist milli ríkisins og sveitarfélaganna um uppgjör verkefnanna sem ríkið yfirtekur munu útgjöld vegna frumvarpanna ekki aukast meira en sem nemur kostnaði vegna nýrra lagaákvæða eða um 3 m.kr. á ári sem gerist á næsta ári þegar lögin munu taka gildi.