Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 284. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 317  —  284. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um Seyðisfjarðargöng.

Flm.: Arnbjörg Sveinsdóttir, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Kristján Þór Júlíusson, Höskuldur Þórhallsson, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Ólöf Nordal.


    Alþingi ályktar að fela innanríkisráðherra að hefja nú þegar fullnaðarundirbúning að gerð Seyðisfjarðarganga. Miðað verði við að rannsóknum og undirbúningi verði lokið í tæka tíð til að hægt verði að hefja framkvæmdir í beinu framhaldi af Norðfjarðargöngum.

Greinargerð.


    Tillögur sem voru efnislega samhljóða þessari voru áður fluttar á 136. löggjafarþingi (þskj. 799, 449. mál) og 140. löggjafarþingi (þskj. 127, 127. mál) og voru jarðgöngin í þeim tillögum nefnd Fjarðarheiðargöng en eru nú nefnd Seyðisfjarðargöng til samræmis við samgönguáætlun. Þeim fylgdu viðamiklar greinargerðir um meðal annars sögulega þróun umræðu um jarðgöng til að leysa samgönguvanda Seyðisfjarðar og gerð grein fyrir nýjustu ályktunum bæjarstjórnar Seyðisfjarðar og nýjustu rannsóknum sem gerðar hafa verið. Efni þeirra greinargerða er sleppt hér þó það standi enn fyllilega fyrir sínu.
    Það sem gerst hefur síðan þær tillögur voru fluttar er að við afgreiðslu þingsályktunartillögu um samgönguáætlun fyrir árin 2011–2022 á 140. þingi var flutt tillaga af þingmönnunum Kristjáni Þór Júlíussyni, Tryggva Þór Herbertssyni, Birki Jóni Jónssyni, Sigmundi Erni Rúnarssyni, Höskuldi Þórhallssyni, Jónínu Rós Guðmundsdóttur, Kristjáni L. Möller og Þuríði Backman um að miðað verði við að rannsóknum og undirbúningi Seyðisfjarðarganga verði hagað með þeim hætti að hægt verði að hefja framkvæmdir við jarðgöng undir Fjarðarheiði í kjölfar Norðfjarðarganga og Dýrafjarðarganga (þskj. 1574, 393. mál). Tillagan var samþykkt og er hluti af samgönguáætlun 2011–2022.
    Sú tillaga sem nú er flutt er til að tryggja að allur undirbúningur sem er nauðsynlegur til að hægt sé að hefja útboð á Seyðisfjarðargöngum verði örugglega til staðar ekki síðar en þegar Norðfjarðargöngum líkur. Það er brýnt að leitað verði allra leiða til að svo megi verða óháð því hvaða aðrar framkvæmdir verður ráðist í samkvæmt samgönguáætlun. Ástandið á Fjarðarheiði er orðið svo alvarlegt að það er ekki forsvaranlegt að bíða lengur með aðgerðir.
    Vegurinn um Fjarðarheiði er eina vegtenging Seyðisfjarðar. Seyðisfjörður verður eini þéttbýlisstaðurinn á Íslandi, fyrir utan Borgarfjörð eystri, sem býr við þær aðstæður að tengjast um eina leið, á háum fjallvegi, inn á almenna vegakerfið eftir að lokið hefur verið við Norðfjarðargöng.
    Í ályktunum Samtaka sveitarfélaga á Austurlandi er lögð áhersla á að hefja nú þegar rannsóknir og undirbúning að göngum undir Fjarðarheiði sem næstu göngum á Austurlandi. Seyðfirðingar hafa lengi talað fyrir gerð jarðganga undir Fjarðarheiði og fylgja helstu röksemdir hér á eftir, eins og þær koma fram í ályktunum bæjarstjórnar Seyðisfjarðar.
          Ófærð og vandræði á Fjarðarheiðinni standa gjarnan yfir í nokkra daga í senn, dæmi eru um allt að sjö daga samfellt tímabil þar sem erfitt og ómögulegt hefur verið að komast yfir.
          Útköll björgunarsveitanna á Seyðisfirði og Egilsstöðum hafa aukist mjög mikið síðastliðin ár vegna erfiðrar vetrarfærðar á Fjarðarheiði. Það er ekki ásættanlegt ástand að björgunarsveitirnar séu löngum stundum bundnar yfir samgöngukerfinu og geta þá ekki sinnt öðrum björgunarverkefnum og því hlutverki sem þeim er ætlað samkvæmt almannavarnalögum.
          Margir veigra sér við því að fara yfir heiðina nema hún sé greiðfær og fólk þorir ekki á heiðina vegna hálku, skafrennings og blindu. Þessar aðstæður valda því að fjöldi fólks þarf að búa við einangrun.
          Leiðin er varasöm jafnvel við bestu aðstæður að sumarlagi þar sem krappar beygjur og brekkur eru og umferð oft nokkuð mikil. Sérstaklega geta skapast erfiðar aðstæður í þoku og þegar saman fer þoka og myrkur.
          Mikil atvinnu- og skólasókn er yfir Fjarðarheiði í báðar áttir þar sem hluti bæjarbúa sækir vinnu og stundar nám daglega í nágrannabyggðarlögum. Börn og unglingar stunda einnig íþróttaæfingar á Héraði.
          Stór hluti íbúabyggðar á Seyðisfirði er á skilgreindum ofanflóðahættusvæðum. Ef hættuástand skapaðist og/eða snjóflóð féllu eru Seyðfirðingar mjög háðir því að samgöngur um þennan eina akveg séu greiðfærar.
          Seyðisfjörður er landamærabær og eina vegtenging bílaumferðar til og frá meginlandi Evrópu liggur þar um.
          Siglingar Norrænu hafa mikil áhrif á ferðaþjónusta um allt land samkvæmt rannsókn á þróun ferðaþjónustu á Íslandi. Því er mikilvægt að enn frekar sé hægt að fjölga ferðamönnum sem ekki verður gert nema með öruggum samgöngum um Fjarðarheiði.
          Þeir sem nýta fragtþjónustu ferjunnar verða að geta treyst á að koma farmi sínum í skip. Alltof oft hefur það gerst að farmur hefur ekki komist á tilsettum tíma vegna ófærðar. Þetta ógnar heilsárssiglingum verulega.
          Öruggar samgöngur frá Seyðisfirði eru nauðsynlegar til að komast í sjúkraflug og á Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað þar sem m.a. fæðingardeildin er staðsett.
          Samgöngur við flugvöllinn á Egilsstöðum þarf að tryggja þegar kemur að öryggi og allri sérfræðiþjónustu lækna við íbúana. Aðgengi að flugvelli er einnig mikilvægt fyrir tengingu við höfuðborgarsvæðið þar sem stærstur hluti opinberrar stjórnsýslu er staðsettur.
          Heilbrigði og öryggi Seyðfirðinga er ógnað vegna tíðrar ófærðar yfir heiðina.
          Löggæsla hefur verið verulega skert á Seyðisfirði og lögreglustöðin hefur m.a. verið lögð niður.
          Samvinna og samstarf sveitarfélaga hefur aukist mikið, m.a. samstarf um félagsþjónustu, skólaþjónustu og málefni fatlaðra.
          Brunavarnir eru í samstarfi sveitarfélaganna á Austurlandi og slökkviliðsstjóri staðsettur á Egilsstöðum. Það er mikið öryggismál að samgöngur séu greiðar vegna starfa slökkviliðsins.
          Byggðaþróun hefur ekki verið hagstæð. Óviðunandi samgöngur er stór þáttur í þeirri þróun. Með jarðgöngum stækkar atvinnusvæði Seyðisfjarðar og nágrannabyggðarlaga.
          Með Fjarðarheiðargöngum opnast möguleiki til að leggja hitaveitu frá Fljótsdalshéraði til Seyðisfjarðar. Samkvæmt áliti fulltrúa Fljótsdalshéraðs, m.a. í umsögn um Fjarðarheiðargöng, gæti hitaveitan vel annað þörf Seyðfirðinga fyrir heitt vatn. Á Seyðisfirði er dreifikerfi fyrir hendi.
    Samgöngubætur með Fjarðarheiðargöngum munu auka öryggi vegfarenda og íbúa Seyðisfjarðar. Þá munu þær stórauka möguleika íbúa á Austurlandi til sóknar í atvinnu og félagslegu tilliti. Að lokum má benda á að margt af því sem að framan er talið telst til mannréttinda í samfélögum nútímans.
    Vetrareinangrun Seyðisfjarðar verður ekki leyst með öðrum hætti en jarðgöngum. Í fjöldamörg ár hefur verið í athugun að leysa samgöngumál á milli Seyðisfjarðar og annarra hluta Austurlands með jarðgöngum. Erfiðleikar við að halda uppi samgöngum yfir Fjarðarheiði hafa sífellt aukist. Vegurinn yfir Fjarðarheiði er í 620 m hæð og verður þar með hæsti fjallvegur til þéttbýlisstaðar þegar Norðfjarðargöngum er lokið. Auk þess er vegurinn í mikilli hæð á löngum kafla eða á um 10–15 km kafla í yfir 550 metra hæð. Björgunarsveitir frá Seyðisfirði og Fljótsdalshéraði eru oft tímunum saman á Fjarðarheiði við að bjarga fólki niður af heiðinni í óveðrum. Á undanförnum árum hefur Vegagerðin skilgreint 20–40 daga á Fjarðarheiði sem vandræðadaga, þ.e. þegar vegfarendur þurfa aðstoð, snjómokstur er nánast samfelldur eða vegurinn hreinlega lokaður. Við þetta bætast þeir dagar þegar skefur á heiðinni með mikilli blindu sem verður til þess að mjög hættulegt er að ferðast um veginn.
    Mikilvægi vegarins um Fjarðarheiði felst ekki síst í því að hann er eina vegtengingin við ferjusiglingarstað út úr landinu. Ferðir Norrænu allt árið frá Seyðisfirði er eina reglubundna tenging landsins við meginland Evrópu með farþegasiglingum. Um 40.000 farþegar fara um Seyðisfjarðarhöfn árlega. Flutningar með Norrænu eru geysimiklir. Yfir 10.000 ökutæki fara árlega með ferjunni og 20 þúsund tonna vöruflutningur, sem samsvarar 700 fulllestuðum vöruflutningabílum. Því þarf vegurinn um Fjarðarheiði að þjóna mikilli umferð ferðamanna og flutningabíla í tengslum við siglingar ferjunnar. Ekkert verður ofsagt um mikilvægi þess að slíkur vegur uppfylli ströng skilyrði varðandi öryggi vegfarenda.
    Í þessari þingsályktunartillögu er gert ráð fyrir því að undirbúningi og rannsóknum vegna Seyðisfjarðarganga verði lokið þannig að hægt verði að ráðast í gerð þeirra strax í kjölfar Norðfjarðarganganna, en undirbúningi að gerð þeirra er nú lokið og þau verða boðin út á næstunni. Mikið af gögnum liggur nú fyrir vegna vinnu sem í áranna rás hefur verið lagt í m.a. af Seyðisfjarðarkaupstað, Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi og Vegagerðinni. Þá ber einnig að líta á að með tilliti til sögulegrar þróunar umræðunnar um jarðgöng á Austurlandi eru Norðfjarðargöng aðeins fyrsti áfangi stærri framkvæmdar sem hefur það að markmiði að gera Austfirði og Hérað að einu atvinnu- og þjónustusvæði og gjörnýta þannig möguleika þjónustustofnana á Austurlandi. Göng undir Fjarðarheiði yrðu annar áfangi þeirrar framkvæmdar og því rökrétt framhald jarðganga milli Eskifjarðar og Norðfjarðar.