Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 335. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 382  —  335. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt,
með síðari breytingum (sjómannaafsláttur).

Flm.: Árni Johnsen, Ásbjörn Óttarsson, Kristján Þór Júlíusson,
Ragnheiður E. Árnadóttir, Gunnar Bragi Sveinsson.


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á B-lið 67. gr. laganna:
a.     2.–4. mgr. orðast svo:
              Rétt til sjómannaafsláttar hafa þeir einstaklingar sem stunda sjómennsku og eru lögskráðir í skipsrúm að því tilskildu að laun þeirra fyrir sjómennsku nemi 30% af tekjuskattsstofni þeirra hið minnsta.
              Sjómannaafsláttur sjómanna á fiskiskipum skal vera 14% af þeim hluta tekjuskattsstofns sem þeim hlotnast sem endurgjald fyrir sjómannsstörf, þó að hámarki 1.360.000 kr. á ári.
              Sjómannaafsláttur annarra sjómanna en sjómanna á fiskiskipum, svo sem lögskráðra sjómanna sem starfa á varðskipi, rannsóknarskipi, sanddæluskipi, ferju eða farskipi sem er í förum milli landa eða er í strandsiglingum innan lands, skal vera 15% af tekjuskattsstofni að 4.100.000 kr. og 8% af næstu 7.200.000 kr., þó að hámarki samtals 863.000 kr. á ári.
b.     6. mgr. orðast svo:
              Setja skal í reglugerð ákvæði um framkvæmd þessa stafliðar. Í henni skal m.a. kveða á um með hvaða hætti skuli ákvarða þann hluta tekjuskattsstofns sem kemur til útreiknings sjómannaafsláttar og hvaða gagna megi krefjast í því sambandi.
c.     7. mgr. fellur brott.

2. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða XXX í lögunum fellur brott.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta var lagt fram á 139. löggjafarþingi (275. mál) og 140. löggjafarþingi (62. mál) og er nú lagt fram að nýju. Því fylgdi svohljóðandi greinargerð:
    „Í a-lið 24. gr. laga nr. 128/2009, um breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum, sem samþykkt voru á Alþingi 21. desember 2009, felst að afnema skuli sjómannaafslátt í áföngum frá og með 1. janúar 2011. Skal afslátturinn að öllu leyti falla brott frá og með 1. janúar 2014, sbr. 2. mgr. téðs stafliðar framangreindra breytingalaga. Í frumvarpi þessu er lagt til að framangreind lagabreyting verði felld brott og sjómönnum tryggður áfram sjómannaafsláttur.
    Með 1. gr. frumvarpsins er núgildandi B-lið 67. gr. laga nr. 90/2003 breytt með þeim hætti að eldri reglur um skilyrði sjómannaafsláttar eru færðar að færeyskri fyrirmynd um fiskimannafrádrátt. Reglur um sérstakan frádrátt skiptast á þrjá hópa, fiskimenn, sjómenn á kaup- og farþegaskipum og skipum tengdum olíuvinnslu og síðan sjómenn sem starfa um borð í skipum sem skráð eru á færeysku alþjóðaskipaskránni skv. 33. gr. færeysku skattalaganna, nr. 86/1983. Hér er B-lið 67. gr. laga nr. 90/2003 breytt til samræmis við færeysku reglurnar varðandi fiskimenn og aðra sjómenn.
    Í Færeyjum er fiskimannafrádráttur 14% af skattskyldum tekjum vegna fiskveiðistarfa að hámarki 470.000 DKR, en hafi sjómenn hærri tekjur njóta þeir ekki sérstaks fiskimannafrádráttar skv. 17. tölul. 33. gr. færeysku skattalaganna, nr. 86/1983. Fiskimannafrádrátturinn getur því orðið hæstur 65.800 DKR á hverju almanaksári.
    Sjómannaafsláttur annarra sjómanna en fiskimanna, svo sem lögskráðra sjómanna sem starfa á varðskipi, rannsóknarskipi, sanddæluskipi, ferju eða farskipi sem er í förum milli landa eða er í strandsiglingum innan lands, nemur 15% af reiknuðum tekjuskatti af fyrstu 200.000 DKR, en síðan 8% af reiknuðum tekjuskatti af þeim tekjum að 350.000 DKR eða að hámarki 42.000 DKR á ári.
    Helstu ástæður þess að sjómönnum hefur verið veittur sérstakur afsláttur er að þeir sinna erfiðum störfum sem eru þjóðhagslega mikilvæg og þeir dvelja langtímum frá heimili sínu og fjölskyldu vegna vinnu sinnar. Sjómannaafslátturinn hefur verið hluti af samfélagssáttmála stjórnvalda við sjómenn í áratugi, sem núverandi ríkisstjórn afturkallaði einhliða án nokkurs samráðs eða viðræðna við sjómenn.
    Upphaf sjómannaafsláttar má rekja til ársins 1954. Þá var með lögum nr. 41/1954, um breyting á lögum nr. 6 9. janúar 1935, um tekjuskatt og eignarskatt, lögfestur svokallaður hlífðarfatafrádráttur og fæðisfrádráttur. Hlífðarfatafrádráttur náði til lögskráðra fiskimanna en þó ekki annarra í áhöfn togara. Rökin sem færð voru fyrir honum voru þau að hann væri vegna kostnaðar sjómanna af hlífðarfötum umfram aðra launþega. Fæðisfrádrátturinn tók aftur á móti einungis til þeirra sjómanna á fiskiskipum sem þurftu að sjá sér fyrir fæði sjálfir.
    Með lögum nr. 37/1957, um aukinn skattfrádrátt til handa skipverjum á fiskiskipum, var hlífðarfatafrádrátturinn aukinn þannig að hann tók til allra skipverja á togurum. Þá var tekinn upp sérstakur frádráttur sem náði til allra lögskráðra fiskimanna. Með lögum nr. 43/1967, um breyting á lögum nr. 90 7. október 1965, um tekjuskatt og eignarskatt, var hlífðarfatafrádráttur og sérstaki frádrátturinn látinn ná til allra lögskráðra sjómanna, þ.e. líka til annarra en fiskimanna.
    Með lögum nr. 7/1972, um breyting á lögum nr. 68 15. júní 1971, um tekjuskatt og eignarskatt, var tekinn upp nýr fiskimannafrádráttur, 8% af launum, sem tók í upphafi einungis til sjómanna á fiskiskipum en var ári síðar, með lögum nr. 60/1973, um breyting á lögum nr. 68 15. júní 1971, um tekjuskatt og eignarskatt, og lögum nr. 7 23. mars 1972, um breyting á þeim lögum, jafnframt látinn taka til hlutaráðinna landmanna sem fengu með þeim lögum einnig hlífðarfatafrádráttinn og sérstaka frádráttinn. Hundraðshluti fiskimannafrádráttar hækkaði í 10% 1975 og síðan í 12% 1984.
    Með lögum nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, voru hlífðarfatafrádráttur og sérstakur frádráttur sameinaðir í einn sjómannafrádrátt sem þá tók til allra lögskráðra sjómanna og hlutaráðinna landmanna. Fæðisfrádráttur fyrir sjómenn á fiskiskipum, sem sáu sér sjálfir fyrir fæði, hélst óbreyttur. Fiskimannafrádráttur fyrir lögskráða sjómenn og hlutaráðna landmenn var með lögum nr. 9/1985, um aðgerðir til að bæta hag sjómanna og sjávarútvegs, einnig látinn taka til sjómannsstarfa um borð í skipum sem ekki voru fiskiskip. Með lögum nr. 49/1987, um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, var þessum frádráttarliðum steypt saman og í stað þeirra kom einn sjómannaafsláttur.
    Sjómannaafsláttur á tekjuárinu 2010 er 987 kr. á dag eða að hámarki 360.255 kr. á ári, miðað við fleiri en 245 daga á sjó. Sjómannaafslátturinn kemur á annan hátt til frádráttar annars staðar á Norðurlöndunum, þar er almennt miðað við að reikna afsláttinn af tekjuskattsstofni ársins eða reiknuðum tekjuskatti.
    Í Svíþjóð er sjómannaafsláttur ákvarðaður samkvæmt lögum nr. 764/2007, sbr. lög nr. 282/1973. Afslátturinn er tvískiptur eða 35.000 SKR „i nærfart“ og 36.000 SKR „i fjærfart“, en afslátturinn reiknast af tekjuskattsstofni ársins. Sjómenn eiga jafnframt rétt á sérstakri skattalækkun sem nemur 9.000 SKR „i nærfart“ og 14.000 SKR „i fjærfart“. Ívilnunin dregst frá reiknuðum tekjuskatti.
    Í Noregi hefur sjómannaafslátturinn nýlega verið hækkaður í 150.000 NKR fyrir bæði „kyst- og hav“. Tekjuskatturinn er 30% af skattskyldum tekjum, umfram 150.000 NKR. Tekjur sjómanna upp að 150.000 NKR eru skattfrjálsar.
    Í Danmörku nær sjómannaafslátturinn til lögskráðra sjómanna. Þeir eiga rétt á 190 DKR frádrætti fyrir hvern byrjaðan dag á sjó í veiðiferðum sem standa yfir í a.m.k. 12 klst. Afslátturinn er að hámarki 41.800 DKR yfir almanaksárið og reiknast af tekjuskattsstofni ársins.
    Sjómenn á Norðurlöndunum njóta því sjómannaafsláttar, en sama á við í öðrum fiskveiðiríkjum eins og Kanada og Nýja-Sjálandi þar sem sjómenn eiga rétt á sérstökum skattafslætti. Fiskveiðiþjóð eins og Íslendingar á að tryggja sjómönnum sínum sambærileg kjör við þau sem tíðkast hjá þeim fiskveiðiþjóðum sem við berum okkur saman við.
    Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra voru á árinu 2008 6.102 sjómenn sem fengu sjómannaafslátt, en sjómannaafslátturinn nam 1.105 millj. kr. vegna ársins 2008. Til samanburðar voru 3.875 aðilar sem greiddu dagpeninga að fjárhæð 8.747 millj. kr. vegna ársins 2008. Af þeim sem greiddu dagpeninga á árinu 2008 voru 138 opinberir aðilar sem greiddu samtals 1.531 millj. kr. Hér er um að ræða fjármuni sem ekki falla undir staðgreiðslu skatta og eru í raun skattfrjálsir. Opinberir starfsmenn njóta samkvæmt þessu mikilla fríðinda umfram aðrar starfsstéttir en að minnsta kosti 18% allra greiddra dagpeninga fara til opinberrar stjórnsýslu.
    Það er því sanngjörn krafa að sjómenn njóti áfram þessara kjara sem þeir hafa haft í áratugi, en annað fæli í sér ójafnræði við aðrar starfsstéttir sem geta nýtt sér dagpeningagreiðslur í formi skattafsláttar.“