Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 340. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 387  —  340. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um uppstokkun réttarkerfisins og millidómstig.

Flm.: Árni Johnsen.

    Alþingi ályktar að fela innanríkisráðherra að undirbúa uppstokkun réttarkerfisins með samræmingu vinnureglna og undirbúningi millidómstigs sem annars dómstigs á milli héraðsdóms og Hæstaréttar. Við vinnuna verði haft samráð við Dómarafélag Íslands, Lögmannafélag Íslands og háskólaprófessora með sérþekkingu á sviði réttarfars.

Greinargerð.


    Tillaga þessi var flutt á 139. löggjafarþingi (277. mál) og aftur á 140. löggjafarþingi (72. mál). Henni fylgdi svohljóðandi greinargerð:
    „Mikið misræmi er á milli dóma á Íslandi og það hefur aukist á síðustu árum. Dæmi eru um að sama dag hafi fallið dómar í gagnstæðar áttir í sambærilegum dómsmálum. Oft og tíðum virðist sem dómar grundvallist á algjörum hugdettum dómara, bæði í héraðsdómi og í Hæstarétti. Með fjölgun dómara er mikil hætta á að misræmi aukist og er því mikilvægt að stokka kerfið upp, gera það heilsteyptara og auka trúverðugleika fremur en draga úr honum eins og nú virðist stefna í. Íslenska réttarkerfinu hefur stundum verið líkt við réttarkerfi bananalýðvelda. Þeir sem lengst ganga í slíkum samlíkingum halda því jafnvel fram að íslenska réttarkerfið sé fremur eins og þau sem einkenna bavíanalýðveldi.
    Vandræðagangurinn í kringum landsdóm, sem var barn síns tíma og hefur dagað uppi sem tröllaklettur í réttarkerfi nútímans, er nægur grundvöllur ástæðna og raka til þess að gera þá bragarbót á réttarkerfinu sem framsækið þjóðfélag þarf á að halda. Hæstaréttardómarar voru fimm talsins til skamms tíma, síðan sex og svo níu. Nú hefur þeim verið fjölgað tímabundið í 12. Fjölmargir lögmenn telja að fjölgun hæstaréttardómara sé ekki það sem við þörfnumst því fjölgun dómara auki misræmi milli dóma réttarins.
    Miklu nær er að setja á fót millidómstig sem gæti fengið heitið Lögrétta, staðsett á milli héraðsdóms og Hæstaréttar. Millidómur mundi væntanlega taka til meðferðar mörg sakamál og úrskurða um gæsluvarðhald. Til greina kæmi að þar færi fram önnur umferð skýrslutöku á eftir héraðsdómi. Skýrslur eru aðeins í undantekningartilvikum teknar fyrir Hæstarétti. Það þýðir í reynd að ef Hæstarétti þykir dómur héraðsdóms ekki nægilega ígrundaður ógildir hann dóm héraðsdóms. Fyrir almenna borgara kemur slíkt þannig út að erfitt verður fyrir þá að skilja misræmið sem von er. Mörgum málum sem annars er vísað til Hæstaréttar yrði lokið í millidómi og réttarkerfið yrði liprara og mál gengju fljótar fyrir sig.
    Ljóst verður að telja að millidómstig mundi létta mjög álaginu af Hæstarétti. Danir og margar fleiri Evrópuþjóðir eru með millidómstig, og skiptist dómskerfi þeirra í héraðsrétt, landsrétt og Hæstarétt. Reikna mætti með því að í millidómi sætu þrír dómarar að öllu jöfnu þannig að heildarfjöldinn þyrfti væntanlega vera alls fimm til sex dómarar.“