Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 347. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 394  —  347. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um aðgengi að hverasvæðinu við Geysi.

Flm.: Árni Johnsen, Björgvin G. Sigurðsson, Ragnheiður E. Árnadóttir,
Sigurður Ingi Jóhannsson, Unnur Brá Konráðsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela innanríkisráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra að sjá nú þegar til þess að umbætur á aðgengi ferðamanna að hverasvæði Geysis verði bætt og göng fyrir fótgangandi gerð þar undir þjóðveginn frá bílastæðum.

Greinargerð.


    Frá því að umhverfisráðuneytið tók við vörslu hverasvæðisins við Geysi í Haukadal af menntamálaráðuneytinu fyrir um það bil 20 árum, hefur þetta fjölsóttasta ferðamannasvæði landsins verið að drabbast niður jafnt og þétt. Meira að segja öryggismerkingar, hvað þá aðrar merkingar, á hverum eru orðnar máðar og ólæsilegar. Hellustígar þeir sem lagðir voru sem fyrsti hluti stígakerfis á svæðinu í tíð Geysisnefndar mennta- og menningarmálaráðuneytisins eru orðnir ruslaralegir á köflum og hættulegir.
    Mörg hundruð þúsund ferðamenn heimsækja Geysi og Gullfoss ár hvert og eru engin náttúrufyrirbæri á landinu eins fjölsótt af ferðamönnum. Geysissvæðið er eitt alþekktasta hverasvæði í heimi og raunveruleg ímynd Íslands í heitu vatni og gufu. Það er með ólíkindum að íslensk stjórnvöld skuli ekki hafa metnað og döngun í sér til þess að hafa þessi mál í lagi á fjölsóttustu ferðamannastöðum. Langhæsta fjárhæð sem sett var í stígagerðina við Geysi á sínum tíma var 5 millj. kr.
    Mikilvægt er að slíta í sundur umferð gangandi fólks frá bílastæðum þvert yfir þjóðveginn að Geysissvæðinu. Auðveldast er að gera það með undirgöngum sem Vegagerðin hefur reyndar kost á í frágangi þjóðvegarins þar sem sérstakt fjármagn er áætlað til þess að sinna sérstökum þáttum sem varða umferð ferðamanna.
    Það er engin afsökun fyrir íslensk stjórnvöld og sleifarlag þeirra í málum svæðisins við Geysi að ekki er búið að ganga endanlega frá samningum um kaup ríkisins á hverasvæðinu, en samningar hafa verið tilbúnir um skeið.
    Hótel Geysir hefur byggt upp glæsilega aðstöðu á heimsmælikvarða við Geysi fyrir gesti og gangandi með söfnum, veitingasölum og gistiaðstöðu, en verkþáttur ríkisins er til háborinnar skammar. Þessi tillaga er flutt í því skyni að freista þess að vinna bráðan bug á því ófremdarástandi og óöryggi sem er á hverasvæðinu við Geysi, móðurskip allra hvera í heiminum.