Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 255. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 411  —  255. mál.




Svar



fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn Unnar Brár Konráðsdóttur um Maastricht-skilyrði og upptöku evru.


     1.      Hvenær má gera ráð fyrir að Ísland uppfylli Maastricht-skilyrðin samkvæmt þeim efnahagsspám sem ríkisstjórnin styðst við, þ.e.:
                  a.      að verðbólga verði ekki meira en 1,5% yfir meðaltali verðbólgu hjá þeim þremur ESB-ríkjum sem eru með lægstu verðbólguna,
                  b.      að langtímastýrivextir verði ekki meira en 2% hærri en að meðaltali í þeim þremur ríkjum ESB þar sem verðlag er stöðugast,
                  c.      að halli á rekstri ríkissjóðs verði ekki meiri en 3% af vergri landsframleiðslu,
                  d.      að heildarskuldir hins opinbera verði ekki yfir 60% af vergri landsframleiðslu?

a.    Samkvæmt Maastricht-skilyrðunum skal verðbólga ekki vera meiri en 1,5 prósentustigum yfir meðaltali verðbólgu árið áður í þeim þremur aðildarríkjum Evrópusambandsins þar sem hún mældist minnst.
         Árshækkun samræmdrar vísitölu neysluverðs (HCPI) á Íslandi var í september 5,3%, en meðaltalsverðbólga árið 2011 var 1,57% í þeim þremur ESB-ríkjum þar sem verðbólga var minnst. Ísland uppfyllti því ekki skilyrðið fyrir árið 2011.
         Markmið Seðlabanka Íslands um stöðugt verðlag miðar við 2,5% verðbólgu á tólf mánuðum. Framkvæmdastjórn ESB spáir 5,1% verðbólgu á Íslandi árið 2012 og 3,9% árið 2013 (ekki HCPI). Árið 2012 er því spáð að verðbólga (HCPI) verði 1,03% í þeim þremur ríkjum ESB þar sem hún er minnst og 1,9% árið 2013. Verði þetta niðurstaðan næst skilyrðið ekki á spátímanum.
b.     Ekkert Maastricht-skilyrðanna varðar stýrivexti. Samkvæmt Maastricht-skilyrðunum skulu langtímavextir ekki vera hærri en 2 prósentustigum umfram vexti í þeim þremur aðildarríkjum ESB þar sem verðbólga er minnst. Langtímavextir skuldabréfa ríkissjóðs (10 ára) voru að meðaltali 6,8 % árið 2011. Í þeim þremur ríkjum ESB þar sem verðbólga var minnst 2011 voru vextir að meðaltali 5,76%. Ísland uppfyllti því skilyrðið árið 2011.
c.    Samkvæmt Maastricht-skilyrðunum skal halli af rekstri hins opinbera ekki vera meiri en 3% sem hlutfall af vergri landsframleiðslu í lok ársins á undan. Samkvæmt fjárlagafrumvarpi 2013, sem lagt hefur verið fram á Alþingi, mun heildarjöfnuður á ríkissjóði árið 2013 vera neikvæður um 0,1% af VLF, en áætlað er að hann verði neikvæður um 1,5% af VLF árið 2012. Sveitarfélög voru rekin með 3,4% halla árið 2011, en búist er við því að jöfnuður náist árið 2013. Skilyrðið um afkomu hins opinbera næst því árið 2012.
d.    Samkvæmt Maastricht-skilyrðunum skulu skuldir hins opinbera, þ.e. ríkissjóðs og sveitarfélaga, ekki vera hærri en sem nemur 60% af vergri landsframleiðslu í lok ársins á undan. Ef svo er ekki þarf hlutfallið að hafa minnkað og stefna í 60% á ásættanlegum hraða.
         Skuldir hins opinbera, án viðskiptaskulda og lífeyrisskuldbindinga, námu um 101,1% af vergri landsframleiðslu í lok árs 2011 samkvæmt Hagstofu Íslands. Framkvæmdastjórn ESB spáir fyrir um að hlutfallið taki að lækka í 91,7% í lok árs 2012 og 88,3% í lok árs 2013.
         Samkvæmt þessu næst markmið um skuldir ríkissjóðs ekki á spátímanum, en sé tekið tillit til lækkunar hlutfallsins á spátímanum má telja hraða lækkunar skulda um 6,4 prósentustig að meðaltali á ári viðunandi.
         Einnig er rétt að horfa til þess að stór hluti skulda ríkissjóðs er eign gjaldeyrisforða Seðlabankans. Ef horft er fram hjá þeim skuldum er ljóst að hrein skuldastaða ríkissjóðs gefur ástæðu til að ætla að Ísland geti uppfyllt skuldaviðmið Maastricht innan fárra ára.

     2.      Hvenær er gert ráð fyrir, samkvæmt þeim efnahagsspám sem ríkisstjórnin styðst við, að Ísland nái því marki að hafa verið aðili að gengissamstarfi Evrópu (Exchange Rate Mechanism, ERM II) í a.m.k. tvö ár án gengisfellingar og að gengi krónunnar hafi á þeim tíma verið innan þeirra tilteknu vikmarka sem eru skilyrði þess að ríki geti tekið upp evru?
    Engar kröfur eru gerðar um aðild að ERM II aðrar en aðild að Evrópusambandinu. Ísland er ekki aðili að ESB, en sótti um aðild 16. júlí 2009 og hófust aðildarviðræður formlega 27. júlí 2010. Að aðildarviðræðum loknum fer fram þjóðaratkvæðagreiðsla um aðildarsamninginn. Við aðild að sambandinu gæti Ísland sótt um aðild að ERM II. Aðildarríki þurfa að vera í tvö ár í ERM II gengissamstarfinu með viðunandi árangri áður en upptaka evru er möguleg.