Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 390. máls.

Þingskjal 466  —  390. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði,
með síðari breytingum (deildir í veiðifélögum).

(Lagt fyrir Alþingi á 141. löggjafarþingi 2012–2013.)



1.      gr.

    Í stað orðanna „sem gilda skulu í a.m.k. átta ár“ í 1. málsl. 2. mgr. 29. gr. laganna kemur: fyrir tilgreindan árafjölda.

2. gr.

    4. mgr. 39. gr. laganna verður svohljóðandi:
    Í samþykktum má kveða á um að veiðifélag skuli starfa í deildum, enda taki ákvæðið til alls félagssvæðisins og hver deild taki yfir tiltekið veiðivatn eða hluta vatns. Í samþykktum veiðifélagsins skal tilgreina þær deildir sem starfa á félagssvæðinu og umdæmi þeirra. Hver deild skal setja sér samþykktir sem aðalfundur veiðifélags samþykkir og Fiskistofa staðfestir og birtir í Stjórnartíðindum. Um deildir innan veiðifélaga gilda eftirfarandi ákvæði:
     1.      Deild ráðstafar veiði og arði í sínu umdæmi.
     2.      Deild heldur arðskrá og gilda um hana sömu reglur og koma fram í 41. gr.
     3.      Deild setur sér nýtingaráætlanir í samræmi við fyrirmæli laganna.
     4.      Heimilt er deild að setja sér fiskræktaráætlun enda liggi fyrir samþykki veiðifélags.
     5.      Ákvarðanir í deildum sem skuldbinda alla félagsmenn skulu bornar upp til samþykktar á aðalfundi veiðifélags. Að öðru leyti gilda ákvæði laga þessara um stofnun og starfsemi deilda eftir því sem við á.
     6.      Með breytingum á samþykktum veiðifélaga má afnema deildaskiptingu veiðifélagsins eða breyta umdæmi starfandi deilda. Nú tekur félagsfundur ákvörðun um að afnema deildaskiptingu veiðifélags og getur þá félagsfundur í deild óskað eftir að stofna veiðifélag á starfssvæði deildarinnar, sbr. 2. mgr. 38. gr. Um fjárhagslegan aðskilnað veiðifélags og deildar fer samkvæmt VII. kafla.
     7.      Nú starfar veiðifélag í deildum og er þá heimilt að setja ákvæði í samþykkt veiðifélagsins um að fulltrúar deilda skuli eiga sæti í stjórn þess.

3. gr.

    Eftirtaldar breytingar verða á 41. gr. laganna:
     a.      Í stað tilvísunarinnar „1.–4. mgr.“ í 1. málsl. 5. mgr. kemur: 1.–3. mgr.
     b.      2. málsl. 5. mgr. fellur brott.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Samþykktum veiðifélaga sem starfa í deildum skal breytt til samræmis við fyrirmæli laga þessara í síðasta lagi innan tveggja ára frá gildistöku þeirra.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið að tilhlutan atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra á grundvelli tillagna starfshóps sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipaði hinn 17. nóvember 2011, til að endurskoða reglugerð nr. 1024/2006, um starfsemi veiðifélaga, og einnig reglugerð nr. 412/2007, um arðskrár veiðifélaga, en báðar reglugerðirnar eru settar samkvæmt heimildum í lögum nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði, með síðari breytingum. Í starfshópinn voru skipuð Óðinn Sigþórsson, formaður Landssambands veiðifélaga, sem var formaður starfshópsins, Árni Ísaksson, forstöðumaður lax- og silungsveiðisviðs Fiskistofu, og Sigríður Norðmann, lögfræðingur í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu. Einnig starfaði með starfshópnum Ingimar Jóhannsson, skrifstofustjóri í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu
    Forsaga málsins er að hinn 1. júlí 2006 tóku gildi ný lög nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði. Við framkvæmd laganna hefur komið í ljós að gera þarf tilteknar breytingar og lagfæringar á lögunum. Í skilabréfi starfshópsins til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, dags. 25. janúar 2012, komu fram tillögur starfshópsins að breytingum á gildandi reglugerðum um starfsemi veiðifélaga og arðskrár veiðifélaga auk þess sem því fylgdi fylgiskjal með drögum að nýrri reglugerð um arðskrár veiðifélaga. Einnig kom fram í skilabréfinu að starfshópurinn teldi nauðsynlegt að setja í reglugerð um starfsemi veiðifélaga ákvæði um starfsemi deilda. Við vinnu starfshópsins hafi hins vegar komið í ljós að ákvæði 4. mgr. 39. gr. laga nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði, sem hefur að geyma heimild til að stofna deildir í veiðifélögum, væri svo óljóst að ekki væri unnt að byggja á því ný og ítarlegri ákvæði í reglugerð um starfsemi deilda í veiðifélögum, með því efni sem starfshópurinn taldi nauðsynlegt. Af því tilefni lagði starfshópurinn til við ráðherra að unnið yrði frumvarp með þeim breytingum á lögum nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði, sem nauðsynlegar yrðu taldar til að unnt yrði að setja nánari ákvæði um starfsemi deilda í reglugerð. Því taldi starfshópurinn á því stigi ekki rétt að skila drögum að nýrri reglugerð um starfsemi veiðifélaga fyrr en breytingar hefðu verið gerðar á lögum nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ákvað af þessu tilefni að fela starfshópnum að semja frumvarp til laga um framangreindar breytingar á lögum nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði.
    Núgildandi ákvæði um deildir í veiðifélögum er að finna í 4. mgr. 39. gr. laga nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði, en þar kemur fram að heimilt sé að ákveða í samþykktum að veiðifélag skuli starfa í deildum, enda taki hver deild yfir tiltekið veiðivatn eða hluta vatns.
    Umrætt ákvæði 4. mgr. 39. gr. laganna hefur verið óbreytt í lögum frá árinu 1957, þegar sett voru lög nr. 53/1957, um lax- og silungsveiði. Ákvæðið var þá að finna í 3. mgr. 69. gr. laganna, með sama efni og það er í gildandi lögum. Í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 53/1957, um lax- og silungsveiði, voru engar skýringar með ákvæðinu aðrar en þær að þetta hafi gefist vel í framkvæmd og því væri ástæða til að lögfesta slíkt ákvæði.
    Þá hefur í síðari löggjöf aðeins verið vísað til þess að sambærilegt ákvæði hafi verið í eldri löggjöf um lax- og silungsveiði.
    Framangreint ákvæði hefur verið framkvæmt með ýmsum hætti eftir að það var lögfest og ýmis álitaefni komið upp, t.d. varðandi meðferð atkvæðisréttar í veiðifélögum sem ekki eru deildaskipt að öllu leyti og starfrækja deildir um hluta félagssvæðisins. Í þeim tilvikum hafa félagsmenn deilda atkvæðisrétt á svæði deildar og einnig atkvæðisrétt á fundum í veiðifélaginu þegar verið er að ráðstafa veiði á öðrum svæðum félagsins þar sem þeir eiga ekki beinna hagsmuna að gæta. Þetta fyrirkomulag leiðir til ójöfnuðar þar sem félagsmenn í deildum hafa ríkari atkvæðisrétt en félagsmenn á öðrum svæðum í veiðifélagi sem ekki starfa í deildum.
    Sjálfstæði deilda samkvæmt núgildandi lögum er mjög takmarkað. Margar deildir í veiðifélögum starfa hins vegar eins og um væri að ræða sjálfstæð veiðifélög. Þá hafa deildaskipt veiðifélög í einstökum tilvikum starfað sem fulltrúafélög deilda en heimild til þess er ekki í gildandi lögum. Af þessum sökum er nauðsynlegt að setja skýrari ákvæði í löggjöfina um þetta efni enda verður einnig að líta til skylduaðildar veiðiréttareigenda að veiðifélögum. Óljós ákvæði gildandi laga um starfsemi deilda innan veiðifélaga hafa leitt til ágreinings innan veiðifélaga og réttaróvissu við framkvæmd laganna þar sem sjálfstæði deilda er mjög takmarkað í gildandi löggjöf. Þá er starfsgrundvöllur deilda ótryggur þar sem veiðifélag getur ákveðið á fundi að leggja deild niður ef svo ber undir. Af þessu leiðir að deild getur ekki ráðstafað veiði til lengri tíma en eins árs í senn.
    Í vinnu sinni fjallaði framangreindur starfshópur um tvo mögulega kosti við breytingu á lögunum varðandi deildir, þ.e. annars vegar að fella brott ákvæðið í 4. mgr. 39. gr. laganna um heimild veiðifélaga til að starfa í deildum eða setja skýrari ákvæði í lögin um starfsemi deilda. Niðurstaða starfshópsins var sú að velja síðari kostinn. Ástæður þess eru m.a. að nú starfar mikill fjöldi deilda í veiðifélögum og breyting á því fyrirkomulagi myndi augljóslega valda mikilli röskun.
    Fyrir liggur álitsgerð LEX lögmannsstofu, sem unnin var að beiðni Landssambands veiðifélaga, um réttarstöðu deilda í veiðifélögum og er hana að finna á vefsíðunni www.angling.is. Þá ályktaði Landssamband veiðifélaga um mál þetta á aðalfundi sínum á Húsavík 8.–9. júní 2012. Með frumvarpi þessu fylgir listi yfir deildir í veiðifélögum á landinu og einnig ályktun aðalfundar Landssambands veiðifélaga um nauðsyn á endurskoðun ákvæðis laganna um deildir í veiðifélögum.
    Með vísan til framanritaðs hefur við samningu frumvarpsins verið reynt að tryggja að ákvæði um deildir í veiðifélögum í lögum nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði, verði skýr og auðveld í framkvæmd og einnig að jafnræði verði milli félagsmanna deilda og almennra félagsmanna í veiðifélögum. Með frumvarpinu hefur einnig verið reynt að tryggja að skýr lagarammi verði um starfsemi veiðifélaga og deilda innan þeirra, þannig að lagastoð sé til að setja reglugerð um starfsemi deilda. Lagt er til að áfram verði heimild í lögum til að starfrækja deildir í veiðifélögum en þá skuli skipta öllu veiðifélaginu í deildir. Einnig eru lagðar til ýmsar reglur um starfsemi deilda í veiðifélögum.
    Til viðbótar við framangreint eru í frumvarpinu lagðar til minni háttar breytingar á lögum nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði, sem talið var rétt að gera með sama frumvarpi. Eru þær eftirfarandi:
     1.      Lagt er til að breytt verði ákvæðum um tímamörk reglna sem veiðifélag eða veiðiréttarhafar, þar sem ekki starfa veiðifélög, setja um stangveiði á veiðisvæði sínu. Samkvæmt gildandi lögum skulu slíkar reglur gilda í átta ár.
     2.      Lagt er til að ákvæði 1. málsl. 5. mgr. 41. gr. laganna verði breytt og að felldur verði brott 2. málsl. 5. mgr. 41. gr. lagannna. Fyrrnefnda ákvæðið er ekki í samræmi við meginefni laganna um gildistöku arðskrár sem unnin er af matsnefnd. Síðarnefnda ákvæðið hefur ekkert raunhæft gildi þar sem kærufrestur skv. 4. mgr. er liðinn.
    Við gerð frumvarpsins var haft samráð við Landssamband veiðifélaga. Verði frumvarpið að lögum mun það fyrst og fremst hafa áhrif á starfsemi veiðifélaga.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Hér er lagt til að breytt verði ákvæði um tímamörk reglna sem veiðifélag eða veiðiréttarhafar, þar sem ekki eru veiðifélög, setja um stangveiði á veiðisvæði sínu, þ.e. eldra ákvæði um að slíkar reglur skuli gilda í átta ár. Ástæða breytinganna er sú að óheppilegt þykir að binda gildistíma við ákveðið árabil þar sem aðstæður geta verið breytilegar. Því er nauðsynlegt að nokkur sveigjanleiki sé fyrir hendi þegar ákveðinn er sá tímarammi sem nýtingaráætlunin tekur til.

Um 2. gr.

    Með þessu ákvæði er lagt til að sett verði nýtt ákvæði um starfsemi deilda í veiðifélögum en þar er gert ráð fyrir að ákvörðun um að deildaskipta veiðifélagi sé tekin á aðalfundi með breytingum á samþykktum veiðifélags. M.a. er í frumvarpinu gert ráð fyrir auknu sjálfstæði deilda sem þannig ráðstafi veiði á sínu svæði án samþykkis aðalfundar veiðifélags. Með lögunum er tryggður réttur deilda til að setja sér samþykktir og arðskrá og halda sjálfstæðan fjárhag en slíkar heimildir er ekki að finna í gildandi lögum. Einnig er þar gert ráð fyrir að deild setji sér nýtingaráætlanir í samræmi við ákvæði laganna. Ekki er hins vegar gert ráð fyrir að deildir geti gert fiskræktaráætlanir nema veiðifélag samþykki það. Enn fremur eru þar önnur ákvæði um starfsemi deilda sem nauðsynleg eru talin sem og ákvæði um að ákvarðanir í deildum sem skuldbinda alla félagsmenn skuli bornar upp til samþykktar á fundi veiðifélags. Þetta á sérstaklega við þegar teknar eru ákvarðanir sem skuldbinda deildir fjárhagslega í ljósi þess að félagsmenn í veiðifélagi bera ótakmarkaða ábyrgð á skuldbindingum þess. Þegar veiðifélag fer með réttindi deilda skal við ákvörðun um réttindi og skyldur leggja til grundvallar verðmæti veiði á öllu félagssvæðinu. Að öðru leyti gilda ákvæði laga þessara um starfsemi deilda eftir því sem við á og tekur deild í veiðifélagi á sig lögboðnar skyldur gagnvart opinberum aðilum, svo sem Fiskistofu og Fiskræktarsjóði. Þá kemur fram í ákvæðinu að með breytingum á samþykktum veiðifélaga megi afnema deildaskiptingu veiðifélagsins eða breyta umdæmi starfandi deilda. Loks er þar kveðið á um að ef félagsfundur tekur ákvörðun um að afnema deildaskiptingu veiðifélags geti félagsfundur í deild óskað eftir að stofna veiðifélag á starfssvæði deildarinnar, sbr. 2. mgr. 38. gr. Um fjárhagslegan aðskilnað veiðifélags og deildar fer samkvæmt VII. kafla laganna en gert er ráð fyrir að rísi ágreiningur um fjárhagslegt uppgjör geti aðilar leitað eftir úrskurði matsnefndar skv. VII. kafla laganna. Að öðru leyti má gera ráð fyrir að veiðifélagið muni setja almennar reglur sem nái til allra deilda til að tryggja að náð verði markmiðum laganna um sjálfbæra nýtingu o.fl.

Um 3. gr.

    Með ákvæði þessu er lagt til að breytt verði ákvæði 1. málsl. 5. mgr. 41. gr. laganna og að felldur verði brott 2. málsl. Fyrrnefnda ákvæðið er ekki í samræmi við meginefni laganna um gildistöku arðskrár sem unnin er af matsnefnd. Síðarnefnda ákvæðið hefur ekkert raunhæft gildi þar sem kærufrestur skv. 4. mgr. er liðinn.

Um 4. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Hér er lagt til að lögfest verði ákvæði til bráðabirgða þess efnis að samþykktum veiðifélaga sem starfa í deildum skuli breytt til samræmis við fyrirmæli laga þessara í síðasta lagi innan tveggja ára frá gildistöku þeirra.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal I.






Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal II.


Ályktun Landssambands veiðifélaga á aðalfundi
á Húsavík, dagana 8.–9. júní 2012.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal III.

Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 61/2006,
um lax- og silungsveiði, með síðari breytingum (deildir í veiðifélögum).

    Meginmarkmiðið með frumvarpi þessu er að leiða í lög heimild sem veitir veiðifélögum rétt til að starfa í svæðisbundnum deildum. Þessi breyting er lögð til með hliðsjón af þeirri reynslu sem fengist hefur frá því að núgildandi lög tóku gildi en að auki eru lagðar til tvær aðrar minni háttar breytingar á lögunum.
    Frumvarpið varðar fyrst og fremst starfsemi veiðifélaga og því mun lögfesting þess ekki hafa áhrif á útgjöld ríkissjóðs.