Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 243. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 473  —  243. mál.




Svar



velferðarráðherra við fyrirspurn Sigmundar Ernis Rúnarssonar
um biðlista eftir hjúkrunarrýmum.


     1.      Hversu margir eru á biðlistum eftir hjúkrunarrýmum?
    Samkvæmt upplýsingum frá embætti landlæknis biðu 244 einstaklingar eftir hjúkrunarrýmum á landinu öllu í lok október 2012. Ef svokölluð flutningsmöt eru reiknuð með eru 320 á biðlista á landinu öllu. Flutningsmöt eru fyrir fólk sem er í úrræði en vill flytjast annað. Úrræðið getur annaðhvort verið hjúkrunarrými eða dvalarrými.

     2.      Á hvaða landsvæðum eru lengstu biðlistarnir?
    Biðlistinn er lengstur í Reykjavík en þar biðu 102 eftir hjúkrunarrýmum í lok október 2012. Næstlengstur var biðlistinn á Akureyri en þar biðu 17 manns eftir hjúkrunarrýmum og þar á eftir voru Reykjanesbær með 16 manns og Hafnarfjörður með 14 manns á biðlista, sbr. eftirfarandi yfirlit:

Heilbrigðisumdæmi og sveitarfélög Flutningsmöt Biðlisti Biðlisti
m. fl.möt
Meðalbiðtími
Biðlisti og biðtími eftir hjúkrunarrýmum Fjöldi Fjöldi Fjöldi Mán.
Heilbrigðisumdæmi Austurlands 5 15 20 7,9
Fjarðabyggð 7 7,3
Fljótsdalshérað 7 10,5
Vopnafjarðarhreppur 1 4,6
Heilbrigðisumdæmi höfuðborgarsvæðisins 19 128 147 3,5
Garðabær 5 1,7
Hafnarfjörður 14 2,8
Kópavogur 6 3,6
Reykjavík 102 3,7
Mosfellsbær 1 4,7
Heilbrigðisumdæmi Norðurlands 12 28 40 4,5
Akureyri 17 2,5
Blönduóssbær 1 0,4
Dalvíkurbyggð 3 2,8
Fjallabyggð 1 7,1
Norðurþing 2 7,3
Sveitarfélagið Skagafjörður 4 9,6
Heilbrigðisumdæmi Suðurlands 21 24 45 2,4
Hveragerði 4 3,0
Mýrdalshreppur 1 7,3
Rangárþing eystra 5 1,1
Skaftárhreppur 1 0,1
Sveitarfélagið Árborg 10 2,3
Sveitarfélagið Hornafjörður 1 2,9
Vestmannaeyjar 2 2,6
Heilbrigðisumdæmi Suðurnesja 5 24 29 2,6
Grindavíkurbær 5 1,4
Reykjanesbær 16 3,8
Sveitarfélagið Garður 3 1,2
Heilbrigðisumdæmi Vestfjarða 1 12 13 4,9
Bolungarvík 4 7,0
Ísafjarðarbær 8 3,6
Heilbrigðisumdæmi Vesturlands 13 13 26 3,8
Akranes 6 2,2
Borgarbyggð 5 5,3
Strandabyggð 2 5,0
Samtals 76 244 320 3,6
    Biðlisti 29. október 2012.
    Flutningsmöt 4. október 2012.
         
    Þótt biðlistinn sé lengstur á höfuðborgarsvæðinu er biðtíminn styttri en í ýmsum öðrum heilbrigðisumdæmum. Stafar það af því að íbúar hjúkrunarheimila á höfuðborgarsvæðinu eru veikari þegar þeir koma inn á hjúkrunarheimilin og umönnunarþyngd þeirra er yfirleitt mun meiri en annars staðar á landinu. Dvalartími þeirra er því styttri. Lengd biðtíma og dvalartíma á hjúkrunarheimilum ákvarðast að miklu leyti af fjölda rýma sem er til ráðstöfunar, umönnunarþyngd íbúa þeirra og þeirri heilbrigðisþjónustu sem þeir njóta.

     3.      Er unnið eftir áætlun um að stytta listana?
    Áætlun ráðuneytisins miðar að því að mæta tímanlega heilbrigðis- og umönnunarþörf einstaklinga og lengja tímann sem þeir geta verið heima og seinka þannig að einstaklingar þurfi að fara á biðlista eftir hjúkrunarrými. Þetta er t.d. gert með þjónustu heimahjúkrunar, hvíldarinnlögnum, dvöl í mismunandi tegundum dagvistar og endurhæfingu. Til að fylgjast með og meta heilbrigðis- og umönnunarþörf einstaklinga hafa verið hönnuð og tekin í notkun RAI-matskerfi. RAI HC er matskerfi sem metur umönnunarþörf einstaklinga áður en þeir þurfa á hjúkrunarrými að halda og RAI NH metur umönnunarþörf íbúa í hjúkrunarrýmum. Kerfin stuðla að því að einstaklingar og íbúar hjúkrunarheimila fái viðeigandi umönnun á réttum tíma og á réttu hjúkrunar- og umönnunarstigi. Í viðbót er áætlun um að fjölga hjúkrunarrýmum á þeim stöðum þar sem þeirra er mest þörf og stytta einnig þannig biðlistana. Framangreind áætlun takmarkast þó af þeim fjármunum á fjárlögum sem ráðuneytið hefur til ráðstöfunar á hverjum tíma.

     4.      Hver er áætlaður kostnaður við að eyða listunum?
    Kostnaður við að byggja 244 hjúkrunarrými er um 7.210 m.kr. og rekstrarkostnaður 2.051 m.kr. á ári og er þá miðað við að meðaldaggjald sé 22.374 kr. á dag og húsnæðisgjaldið sé 3.179 kr. á m 2. Hins vegar er rétt að benda á að ekki er raunhæft að ætla að eyða biðlistum heldur verður að líta til þess að þeir séu ásættanlegir með tilliti til biðtíma. Eitt af markmiðum heilbrigðisáætlunarinnar til ársins 2010 var að fólk í brýnni þörf fyrir búsetu á hjúkrunarheimili þyrfti ekki að bíða lengur en 90 daga eftir því búsetuúrræði. Ljóst er að undanfarið hefur það gengið eftir að mestu en þó ekki alls staðar.

     5.      Hvað hafa mörg ný hjúkrunarrými verið tekin í notkun frá 2009 og hvaða áætlanir eru um frekari fjölgun?
    Framkvæmdaáætlun um byggingu nýrra hjúkrunarrýma nær bæði til þess að fjölga hjúkrunarrýmum og/eða til þess að bæta aðbúnað íbúa á hjúkrunarheimilum. Ríkisstjórnin samþykkti 13. október 2009 að heimila félags- og tryggingamálaráðherra í samstarfi við fjármálaráðherra að leita eftir samstarfi við níu sveitarfélög um byggingu hjúkrunarheimila samkvæmt svokallaðri leiguleið. Það voru sveitarfélögin Akureyrarkaupstaður, Borgarbyggð, Fljótsdalshérað, Garðabær, Hafnarfjörður, Kópavogur, Reykjanesbær, Mosfellsbær og Seltjarnarnes. Til viðbótar bættust Ísafjarðarbær og Bolungarvík nýlega í þennan hóp. Þannig að nú er gert ráð fyrir að 11 sveitarfélög byggi eða hafi nýlokið við að byggja hjúkrunarheimili samkvæmt leiguleiðinni. Staða framkvæmdanna er mismunandi eftir sveitarfélögum og ýmist er þar verið að fjölga hjúkrunarrýmum þar sem þess er þörf eða eyða fjölbýlum og fjölga einbýlum í samræmi við viðmið ráðuneytisins um aðbúnað í hjúkrunarrýmum. Þar eru gerðar miklar kröfur um gæði aðbúnaðar og ávallt miðað við að um einbýli sé að ræða.
    Til viðbótar framkvæmdum samkvæmt þessari áætlun er einnig verið að byggja ný hjúkrunarrými eða nýlokið við byggingu þeirra á Eskifirði og Höfða á Akranesi.
     *      Akureyri. – Nýlega var vígt nýtt hjúkrunarheimili með 45 hjúkrunarrýmum. Um er að ræða bættan aðbúnað, uppbyggingu einbýla, en rýmum ekki fjölgað.
     *      Borgarbyggð. – Í sumar var vígt nýtt hjúkrunarheimili með 32 hjúkrunarrýmum. Um er að ræða bættan aðbúnað, uppbyggingu einbýla en rýmum ekki fjölgað.
     *      Fljótsdalshérað. – Búið er að undirrita samning um byggingu 30 hjúkrunarrýma og 10 til viðbótar samkvæmt ákveðnu samkomulagi, alls 40 hjúkrunarrými. Þar eru núna 24 hjúkrunarrými þannig að um fjölgun hjúkrunarrýma verður að ræða. Áætlað að rýmin verði tilbúin um mitt ár 2014.
     *      Garðabær. – Verið er að byggja 60 rýma hjúkrunarheimili í Sjálandi. Áætlað er að byggingin verði tilbúin vorið 2013 og að þangað flytji íbúar hjúkrunarheimilisins sem nú er að Vífilsstöðum. Á Vífilsstöðum eru nú 40 rými svo um fjölgun rýma verður að ræða.
     *      Hafnarfjörður. – Framkvæmdir þar eru enn á undirbúningsstigi en áætlað er að hjúkrunarheimilið á Sólvangi flytji í nýtt hjúkrunarheimili þegar að því kemur. Á Sólvangi eru 55 rými en á nýju heimili verða 60 rými þannig að um fjölgun verður að ræða.
     *      Kópavogur. – Áætlað er að byggja 44 ný hjúkrunarrými að Boðaþingi sem verða til viðbótar við þau hjúkrunarrými sem fyrir eru. Ekki er komin tímasetning á þá framkvæmd.
     *      Reykjanesbær. – Undirbúningur byggingar 60 hjúkrunarrýma stendur yfir. Það felur í sér fjölgun um 28 hjúkrunarrými til viðbótar við þau sem fyrir eru. Áætlað er að ný bygging verði tekin í notkun árið 2014.
     *      Mosfellsbær. – Bygging 30 nýrra hjúkrunarrýma er langt komin. Það er um viðbótarhjúkrunarrými að ræða. Áætlað er að opna nýtt hjúkrunarheimili í byrjun næsta árs.
     *      Seltjarnarnes. – Áætlað er að byggja þar 30 ný hjúkrunarrými og er um viðbótarrými að ræða. Ekki er komin tímasetning á þá framkvæmd.
     *      Ísafjörður. – Búið er að undirrita samning um byggingu nýs hjúkrunarheimilis með 30 hjúkrunarrýmum. Framkvæmdir ekki hafnar en hjúkrunarrýmum mun fjölga um fimm frá því sem nú er.
     *      Bolungarvík. – Búið er að undirrita samning um byggingu nýs hjúkrunarheimilis þar. Um er að ræða bættan aðbúnað og uppbyggingu einbýla en rýmum ekki fjölgað.
     *      Eskifjörður. – Verið er að byggja nýtt 20 rýma hjúkrunarheimili og munu þau rými koma í stað þeirra rýma sem fyrir eru. Áætlað að opna nýtt hjúkrunarheimili árið 2013.
     *      Höfði. – Ný hjúkrunareining með níu rýmum var vígð nú í haust. Um er að ræða fækkun fjölbýla og bættan aðbúnað.
     *      Hjúkrunar- og dvalarheimilið Lundur á Hellu. – Í undirbúningi er að byggja átta rýma heilabilunardeild. Um er að ræða bættan aðbúnað og uppbyggingu einbýla en rýmum ekki fjölgað.
     *      Undirrituð hefur verið viljayfirlýsing um uppbyggingu húsnæðis Heilbrigðisstofnunar Vesturlands í Stykkishólmi. Um er að ræða bættan aðbúnað, uppbyggingu einbýla en rýmum ekki fjölgað. Verkefnið er á fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar.
    Til viðbótar þessu er áætluð umfangsmikil uppbygging ríflega 200 hjúkrunarrýma á höfuðborgarsvæðinu, þar sem hvað brýnast er að fjölga rýmum, í samstarfi við sveitarfélögin. Ekki er komin tímasetning á þá framkvæmd.
    Árið 2010 voru tekin í notkun 110 ný viðbótarrými í Mörk Suðurlandsbraut og 44 viðbótarrými í Boðaþingi Kópavogi og árið 2011 voru síðan tekin í notkun 10 ný rými að Jaðri Snæfellsbæ. Samtals er því um að ræða framkvæmdir og fyrirhugaðar framkvæmdir við ríflega 850 rými.
    Enn sem komið er hefur fjölgun hjúkrunarrýma þó ekki verið eins og til stóð þar sem efnahagserfiðleikar ríkissjóðs leiddu til þess að fækka varð hjúkrunarrýmum. Árið 2009 var heildarfjöldi hjúkrunarrýma 2.575 en í dag er heildarfjöldi hjúkrunarrýma 2.472. Frá árinu 2009 til ársins 2012 hefur hjúkrunarrýmum verið fækkað um 302 en á móti þeirri fækkun hafa komið ný rými svo að heildarfækkunin er 103 hjúkrunarrými. Engu að síður hefur mikil uppbygging átt sér stað og sérstök áhersla lögð á að bæta aðbúnað aldraðra. Í því felst að mikil áhersla hefur verið lögð á að taka úr notkun fjölbýli og byggja upp einbýli sem uppfylla viðmið ráðuneytisins um aðbúnað á hjúkrunarheimilum.