Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 310. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 513  —  310. mál.




Svar



umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn Arnbjargar Sveinsdóttur
um stjórnsýslu hreindýraveiða.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hver er stefna ráðherra varðandi það að flytja alla umsýslu og stjórnun hreindýraveiða til Austurlands eins og Samband sveitarfélaga á Austurlandi hefur hvatt stjórnvöld til að gera?     

    Umsýsla og stjórnun málefna hreindýra og hreindýraveiða er í dag staðsett á Austurlandi samkvæmt upplýsingum frá Umhverfisstofnun. Umhverfisstofnun telur að um 90% af vinnu við málefni hreindýramála sé unnin á Egilsstöðum, þar á meðal öll umsjón með veiðunum, en ýmis stoðþjónusta sé í höndum 5–6 aðila á mismunandi sviðum stofnunarinnar, þ.e. vefumsjón, greiðsla reikninga, samþykktarferli o.s.frv. Þegar þörf hefur verið á að kaupa utanaðkomandi þjónustu í tengslum við hreindýrastofninn hefur stofnunin leitast við að kaupa hana úr héraði eftir því sem þekking og aðstæður leyfa. Rannsóknir á hreindýrastofninum ásamt eftirliti og vöktun með stærð, breytingum og ástandi stofnsins eru í umsjá Náttúrustofu Austurlands.
    Stefna umhverfis- og auðlindaráðherra er um þessar mundir óbreytt hvað varðar umsjón, stjórnun, eftirlit og rannsóknir á hreindýrum. Undanfarin tvö ár hefur verið að störfum nefnd til þess að meta og yfirfara stöðu og framkvæmd laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. Búist er við tillögum nefndarinnar á næstunni. Meðan nefndin hefur ekki skilað tillögum sínum telur ráðuneytið ótímabært að gefa út yfirlýsingar eða taka ákvörðun um breytingu á fyrirkomulagi hreindýramála. Ráðuneytið mun hins vegar fara ítarlega yfir tillögur nefndarinnar, m.a. tillögur er lúta að hreindýrum og stjórn hreindýramála.
    Umhverfisstofnun hefur einn starfsmann deildar lífríkis og veiðistjórnunar staðsettan á Egilsstöðum sem sinnir eingöngu málefnum tengdum hreindýrum. Helstu störf starfsmannsins er að annast úthlutun og sölu hreindýraveiðileyfa, hafa yfirsýn yfir veiðarnar á veiðitíma og reikna út arðsúthlutun til landeigenda. Sala hreindýraveiðileyfa felur m.a. í sér að fara yfir umsóknir veiðimanna um hreindýraveiðileyfi, stjórna útdrætti og úthlutun hreindýraveiðileyfa og innheimta gjald fyrir þau og að endurúthluta í þeim tilvikum þegar veiðimenn skila inn veiðileyfum. Þegar kemur að veiðum er það starfsmaður Umhverfisstofnunar á Egilsstöðum sem sér um daglegt samband við veiðileiðsögumenn en þeir eiga að tilkynna sig til og af veiðum til Umhverfisstofnunar. Þá miðlar hann upplýsingum til annarra leiðsögumanna, t.d. hvar hjarðir er að finna og hvar annarra veiðimanna er von, til að draga úr líkum á árekstrum þeirra á veiðislóð. Þegar upp koma mál eins og að færa mörk veiðisvæða eru þau unnin sameiginlega af Umhverfisstofnun, Náttúrustofu Austurlands og hreindýraráði. Að því hafa þá komið starfsmenn Umhverfisstofnunar á Egilsstöðum og Akureyri. Jafnframt hefur eftirlitsmaður með hreindýraveiðum verið ráðinn yfir veiðitímabilið.
    Komi upp lagaleg álitamál tengd hreindýrum, svo sem varðandi veiðar og arðsúthlutun, hefur það verið lögfræðingur Umhverfisstofnunar starfandi á Egilsstöðum sem annast slík lögfræðileg úrlausnarefni. Sé hins vegar tilkynnt um að hreindýr séu í vanda, svo sem flækt í girðingar, hafa starfsmenn Umhverfisstofnunar á Akureyri og Egilsstöðum unnið sameiginlega að úrlausn slíkra mála og þá gjarnan verið í sambandi við heimamenn til að leysa úr þeim málum eftir atvikum.