Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 308. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 514  —  308. mál.




Svar



mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn Arnbjargar Sveinsdóttur
um framboð háskólanáms á Austurlandi.


     1.      Hver er stefna ráðherra varðandi aukið framboð háskólanáms á Austurlandi?
    Þegar skoðaðar eru nýjar upplýsingar um hlutfallslega skiptingu íbúa 18 ára og eldri í hverjum landshluta árin 2011–2012 eftir menntun, kemur í ljós umtalsverður munur á milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar. Einnig kemur fram mikill munur á menntun íbúa milli einstakra landshluta. Til dæmis hafa á höfuðborgarsvæðinu 41% íbúa á ofangreindu aldursbili lokið grunn- og framhaldsnámi á háskólastigi sem er um helmingi hærra hlutfall en á landsbyggðinni. Hlutfall háskólamenntaðra kvenna er mun hærra en karla og á það við um alla landshluta. Hlutfall íbúa með iðnmenntun, verknám eða meistarapróf er aftur á móti hærra á landsbyggðinni, sérstaklega þegar horft er til karla. Margt fróðlegt kemur fram í þessum samanburði landshluta. Ef horft er sérstaklega til Austurlands í samanburði við landsmeðaltal þá er hlutfall þeirra sem lokið hafa háskólanámi töluvert lægra þar og hlutfall þeirra sem aðeins hafa lokið grunnskólaprófi með því hæsta á landinu eða 35%. Á grunni sóknaráætlana landshluta eru landshlutasamtök sveitarfélaga að vinna að gerð svæðisbundinna áætlana. Sérstök áhersla er þar lögð á menntun og menningarmál auk atvinnumála, nýsköpunar og markaðsmála.
    Á undanförnum árum hefur verið gripið til margháttaðra aðgerða til að bæta aðgengi að háskólanámi. Fræðsluaðilar víða um land hafa boðið nemendum ráðgjöf og nauðsynlega aðstöðu til háskólanáms auk þess að þjónusta háskóla varðandi próftöku nemenda. Hröð þróun hefur verið varðandi bætt aðgengi að námi á háskólastigi. Fjárfest hefur verið í öflugu háhraðaneti sem skapar ómæld tækifæri fyrir þá sem stunda háskólanám frá sinni heimabyggð auk þess sem sérfræðiþekking stofnana á landsbyggðinni getur nýst í ríkara mæli til kennslu á háskólastigi fyrir tilstilli tækninnar. Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur nýverið endurnýjað samninga við símenntunarmiðstöðvar og þekkingarnet þar sem með formlegum hætti er boðið bæði upp á nám á grundvelli laga um framhaldsfræðslu og nám á háskólastigi í samstarfi við háskóla. Á það t.d. við um Austurbrú ses., arftaka Þekkingarnets Austurlands, sem og Þekkingarnet Þingeyinga. Fjárfest hefur verið í nýju háskólaneti til að tryggja háhraðatengingar við fræðsluaðila (háskóla, framhaldsskóla, símenntunarmiðstöðvar, þekkingarnet, háskólafélög og þekkingarsetur). Þetta gerir alla fjarkennslu einfaldari og öruggari. Fjarnám á háskólastigi er á landsvísu og því ekki einvörðungu hagsmunamál landsbyggðarinnar. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands voru skráðir nemendur á háskólastigi í fjarnámi alls 2.952 árið 2011 og er Háskóli Íslands stærstur með 1.393 nemendur, Háskólinn á Akureyri er með 835 nemendur, Háskólinn á Bifröst með 246 og aðrir færri. Í þessu samhengi má nefna að Háskólinn á Akureyri býður upp á fjarnám í kennaradeild, viðskiptadeild, hjúkrun og iðjuþjálfun og nýtti sér þjónustu 12 fræðsluaðila á síðasta ári. Skráðir fjarnemar Háskólans á Akureyri árið 2012 við t.d. Námsflokka Hafnarfjarðar eru 220 á vorönn og 260 á haustönn og þar er höfð umsjón með 600–1.000 próftökum á reglulegum próftímabilum auk umsjónar með próftökum utan próftíma vegna tímaprófa og símatsprófa.
    Það er því að stórum hluta undir fræðsluaðilunum sjálfum og námsráðgjöfum þeirra komið hversu mikil þátttaka er í því námi sem stendur til boða í fjarkennslu. Austurbrú hefur undanfarin ár verið framarlega í að bjóða íbúum Austurlands upp á fjarnám á háskólastigi í gegnum starfsstöðvar sínar víða í fjórðungnum. Áhersla hefur verið lögð á aukið námsframboð háskóla í formi dreifnáms og undanfarin ár hefur verið byggt upp þéttriðið net fræðsluaðila sem bjóða upp á aðgengi að námi á háskólastigi.

     2.      Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að háskólar landsins geti boðið upp á fjölbreyttari námsleiðir í samstarfi við Austurbrú, t.d. sérstakar námsleiðir sem byggjast á sérstöðu fjórðungsins?
    Á árinu 2012 var gengið frá samningum við alla háskóla landsins um kennslu og rannsóknir þeirra árin 2012–2016, ásamt sérstökum viðaukum sem lýsa starfsemi skólanna, markmiðum þeirra og stefnu. Markmið samninganna er m.a. að auka gagnsæi og eftirlit með rekstri skólanna ásamt því að regluleg endurskoðun viðauka samningsins gerir skólum og ráðuneyti kleift að bregðast jafnóðum við þjóðfélagsbreytingum og sníða rekstur skólanna og háskólastigsins í landinu að þörfum þjóðfélagsins á hverjum tíma. Markmiðið er að háskólarnir allir taki með virkum hætti þátt í að auka námsframboð sitt í formi fjarnáms. Í gegnum endurskoðun viðauka samninganna og á fundum samráðsnefndar háskólastigsins verður unnið áfram að því að auka framboð háskólanáms í samstarfi við fræðsluaðila vítt og breitt um landið. Í þessu samhengi stendur til að boða fulltrúa þeirra aðila sem bjóða upp á aðstöðu til náms á háskólastigi til formlegs samráðs um þarfir og námsframboð.

     3.      Hver er afstaða ráðherra til staðbundinnar kennslu í heimabyggð, sem sparar fé og tíma nemenda sem eru búsettir fjarri háskólunum?
    Mennta- og menningarmálaráðuneytið telur mikilvægt að boðið sé upp á fjölbreytt nám á háskólastigi í heimabyggð, þar sem eftirspurn og forsendur eru til staðar. Miklar framfarir í upplýsingatækni opna góða möguleika til slíks enda nærri 3.000 manns sem nýta sér slíkt á landsvísu. Mikilvægt er að fjölbreytni í námsframboði aukist á komandi árum.