Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 420. máls.

Þingskjal 527  —  420. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940,
með síðari breytingum (öryggisráðstafanir o.fl.).

(Lagt fyrir Alþingi á 141. löggjafarþingi 2012–2013.)




1. gr.

    2. mgr. 16. gr. laganna fellur brott.

2. gr.

    62. gr. laganna orðast svo:
    Nú er maður sýknaður samkvæmt ákvæðum 15. gr., eða niðurstaða dóms verður sú samkvæmt ákvæðum 16. gr. að refsing sé árangurslaus, og má þá ákveða í dómi, ef nauðsynlegt þykir vegna réttaröryggis, að gerðar skuli ráðstafanir til að fyrirbyggja frekari afbrot.
    Nú teljast vægari ráðstafanir, svo sem eftirlit, þar á meðal rafrænt eftirlit, ákvörðun varðandi dvalarstað og vinnu, lyfjameðferð, meðferð vegna áfengis- og vímuefnanotkunar eða geðmeðferð, ekki fullnægjandi og má þá ákveða í dómi að maður skuli vistaður á geðdeild, viðeigandi heimili eða stofnun.
    Við mat á því hvort dæma skuli mann til að sæta ráðstöfunum skv. 2. mgr. og um val á þeim skal einkum líta til eðlis brots og upplýsinga um dómþola, þ.m.t. brotaferil og sjúkdómsástand og fyrirsjáanlega þróun þess. Vistun á geðdeild, viðeigandi heimili eða stofnun verður að jafnaði ekki beitt nema ætla megi að lífi, heilsu eða frelsi annarra þyki hætta búin og að slík ráðstöfun teljist nauðsynleg til að fyrirbyggja þá hættu.

3. gr.

    Á eftir 62. gr. laganna kemur ný grein, 62. gr. a, svohljóðandi:
    Nú er ákveðið að maður skuli vistaður á geðdeild, viðeigandi heimili eða stofnun skv. 2. mgr. 62. gr. og skal sú ráðstöfun þá vera ótímabundin þegar hann hefur gerst sekur um manndráp, rán, frelsissviptingu, alvarlega líkamsárás, brennu, nauðgun eða annað alvarlegt kynferðisbrot eða fyrir tilraun eða hlutdeild til þessara brota.
    Þegar ákveðið er að vista mann sem framið hefur önnur brot en greinir í 1. mgr., eða þegar öðrum ráðstöfunum en vistun er beitt, skal hámarkstími ráðstafana ekki vera lengri en 5 ár. Að kröfu ákæruvalds getur dómstóll í sérstökum tilvikum framlengt þennan tíma um tvö ár. Innifalið í þessum tímamörkum er sá tími sem vægari ráðstöfunum kann að hafa verið beitt.

4. gr.

    63. gr. laganna orðast svo:
    Nú hefur orðið svo ástatt um mann sem í 15. eða 16. gr. segir eftir að hann hefur framið refsiverðan verknað en áður en endanlegur dómur gengur í máli hans og má þá ákveða í dómi hvort refsing skuli dæmd eða hún eigi að falla niður. Nú eru skilyrði skv. 62. gr. fyrir hendi og má þá ákveða að ráðstöfunum samkvæmt þeirri grein skuli beitt í stað refsingar eða þangað til unnt þykir að fullnusta refsinguna.
    Ákvæði 65. og 66. gr. eiga við þegar ákvæðum 1. mgr. er beitt.
    Nú er maður dæmdur í refsingu en fluttur á stofnun á grundvelli dóms skv. 1. mgr. og skal þá dvöl þar koma til frádráttar refsingu.

5. gr.

    64. gr. laganna orðast svo:
    Sé maður dæmdur í fangelsi fyrir manndráp, stórfellda líkamsárás eða annað gróft ofbeldis- eða kynferðisbrot, eða tilraun til slíkra brota, og dómur telur verulegar líkur á því í ljósi sakaferils og andlegs ástands hans við lok afplánunar, svo og af undanfarandi breytni hans, að hann muni drýgja ofbeldis- eða kynferðisbrot þegar afplánun lýkur og sé því hættulegur umhverfi sínu má dómari ákveða í sérstöku máli, sem höfðað er að tilhlutan ákæruvaldsins eigi síðar en þremur mánuðum fyrir lok afplánunar enda komi reynslulausn ekki til greina, að beitt skuli öryggisráðstöfunum skv. 62. gr. að lokinni afplánun. Heimilt er að ákveða að vistun manns fari fram í fangelsi, enda verði sú ráðstöfun ekki talin andstæð hagsmunum hans. Um beitingu ráðstafana samkvæmt þessari grein gilda að öðru leyti ákvæði 62. gr. a, 65. gr. og 66. gr.

6. gr.

    65. gr. laganna orðast svo:
    Nú er maður dæmdur til að sæta vistun á geðdeild, viðeigandi heimili eða stofnun skv. 62. gr. og skal dómstóll þá skipa honum tilsjónarmann sem hefur það hlutverk að fylgjast með ástandi hans og gæta þess að vistunin og aðrar ráðstafanir sem ákvarðaðar eru vari ekki lengur en nauðsyn krefur. Skipun tilsjónarmanns gildir þar til vistun lýkur.
    Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um skipun tilsjónarmanns, hlutverk hans og heimildir, sem og um þóknun hans sem greiðist úr ríkissjóði.

7. gr.

    66. gr. laganna orðast svo:
    Ákæruvaldið skal gæta þess að ráðstafanir sem dæmdar eru skv. 62.–64. gr. vari ekki lengur eða séu umfangsmeiri en nauðsyn krefur.
    Nú er vistun ótímabundin og leitar ákæruvaldið þá úrskurðar dómstóls eigi síðar en 5 árum eftir uppkvaðningu dóms um hvort vistunin teljist lengur nauðsynleg eða hvort beita skuli vægari ráðstöfunum í stað vistunar. Slíkt skal þó ekki gert hafi úrskurðar verið krafist innan síðustu tveggja ára. Síðan skal leita úrskurðar dómstóls að minnsta kosti á tveggja ára fresti.
    Að beiðni ákæruvalds, dómþola, tilsjónarmanns, geðdeildar, heimilis eða stofnunar, þar sem maður er vistaður, eða Fangelsismálastofnunar úrskurðar dómstóll hvort breyta skuli ráðstöfunum skv. 62.–64. gr. eða fella þær niður. Þegar aðrir aðilar en ákæruvaldið vilja leita úrskurðar um að breyta ráðstöfunum eða fella þær niður skal slík beiðni send ákæruvaldinu sem skal leggja málið fyrir dómstól til úrskurðar svo fljótt sem verða má. Fallist dómstóll ekki á beiðni dómþola eða tilsjónarmanns hans geta þeir ekki krafist úrskurðar á ný fyrr en að liðnu einu ári frá uppkvaðningu úrskurðar.
    Úrskurðir samkvæmt þessari grein sæta kæru til Hæstaréttar samkvæmt reglum um kæru í sakamálum. Sá aðili sem sett hefur fram kröfu skv. 3. mgr. á rétt til að kæra samkvæmt þessari málsgrein, en ákæruvaldið leggur kæruna fram. Kæra á úrskurði um að breyta eða fella ráðstöfun úr gildi frestar réttaráhrifum hans.

8. gr.

    67. gr. laganna orðast svo:
    Fangelsismálastofnun ber ábyrgð á því að dómi eða úrskurði um beitingu ráðstafana skv. 62., 63. og 64. gr. sé framfylgt. Fangelsismálastofnun skal ef þörf krefur hafa samráð við ráðuneyti sem fer með heilbrigðismál um framkvæmdina. Því ráðuneyti sem fer með heilbrigðismál er skylt að sjá til þess að fyrir hendi séu vistunarúrræði skv. 2. mgr. 62. gr.
    Ráðherra setur í reglugerð nánari fyrirmæli um hlutverk og skyldur Fangelsismálastofnunar við framkvæmd ákvarðana skv. 1. mgr., um málsmeðferð og um inntak ráðstafana skv. 62., 63. og 64. gr., þar á meðal um nánara fyrirkomulag vistunar, rafræns eftirlits, og um leyfi til skammtímadvalar utan vistunarstaðar, að höfðu samráði við ráðherra heilbrigðismála.

9. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið af refsiréttarnefnd að tilhlutan dómsmálaráðherra, nú innanríkisráðherra.
    Með bréfi, dags. 8. mars 2005, fól dómsmálaráðuneytið (nú innanríkisráðuneytið) refsiréttarnefnd að endurskoða VII. kafla almennra hegningarlaga um öryggisráðstafanir. Í bréfinu var tekið fram að við þá vinnu skyldi einkum horft til breytinga á löggjöf um sama efni í Danmörku og Noregi, auk þess sem óskað var eftir því að náið samráð yrði haft við ríkissaksóknara. Jafnframt var tekið fram að ráðuneytið mundi afla sjónarmiða og viðhorfa ráðuneyta félags- og heilbrigðismála til málsins.
    Með bréfi, dags. 30. nóvember 2007, kynnti ráðuneytið refsiréttarnefnd samþykkt þingsályktunar 13. júní sama ár um aðgerðaáætlun til fjögurra ára til að styrkja stöðu barna og ungmenna. Samkvæmt áætluninni skyldi m.a. taka til skoðunar lagaheimildir svo unnt væri að láta kynferðisafbrotamenn með barnagirnd á háu stigi sæta öryggisráðstöfunum eftir afplánun refsidóma, svo sem vöktun, sbr. VII. kafla 3. tölul. áætlunarinnar. Var refsiréttarnefnd falið að taka til skoðunar núgildandi heimildir laga til beitingar öryggisráðstafana eftir afplánun refsidóma og hvort ástæða væri til að taka þær heimildir til endurskoðunar.
    Við vinnu sína aflaði refsiréttarnefnd gagna um gildandi löggjöf um öryggisráðstafanir á Norðurlöndunum. Eftir yfirferð þeirra var ákveðið að við samningu frumvarpsins yrði auk sérstakra aðstæðna hér á landi einkum stuðst við sem fyrirmynd sambærileg ákvæði í dönsku hegningarlögunum. Þá kannaði nefndin sögulega þróun dómaframkvæmdar hér á landi í málum þar sem reynt hefur á beitingu öryggisráðstafana og skrif fræðimanna.
    Í II. kafla athugasemda við frumvarp þetta er fjallað um markmið með frumvarpinu og meginefni þess. Í III. kafla er fjallað um lagareglur um þvingaða vistun manna á stofnunum. Í IV. kafla er fjallað um gildandi rétt og dómaframkvæmd og í V. kafla um réttarstöðuna á þessu sviði á Norðurlöndunum. Í framhaldinu eru settar fram athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
    Frumvarp þetta var sent Fangelsismálastofnun ríkisins, ríkissaksóknara, heilbrigðisráðuneyti (nú velferðarráðuneyti) og félags- og tryggingamálaráðuneyti (nú velferðarráðuneyti) til umsagnar. Að fengnum athugasemdunum tók refsiréttarnefnd frumvarpið aftur til skoðunar og var það metið hvort framkomnar athugasemdir gæfu tilefni til þess að breyta efnisákvæðum frumvarpsins. Var það niðurstaða nefndarinnar að ekki væri ástæða til þess að breyta efnisákvæðum frumvarpsins en hins vegar hefur verið tekið mið af þeim ábendingum sem bárust í skýringum við einstakar greinar frumvarps þessa.

II. Meginefni frumvarpsins og markmið.
    Í VII. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, er fjallað um öryggisráðstafanir, sviptingu borgararéttinda og upptöku eigna. Ákvæði 62.–67. gr. laganna fjalla um öryggisráðstafanir og hafa þau ákvæði að mestu staðið efnislega óbreytt frá setningu laganna eða í rúmlega 70 ár. Endurskoðun á ákvæðunum er því orðin tímabær, einkum með tilliti til ríkjandi sjónarmiða um mannréttindavernd ósakhæfra manna.
    Með frumvarpinu er stefnt að því að skilgreina betur samspil einstakra úrræða og skilyrði fyrir beitingu þeirra, þannig að skýrt sé við hvaða aðstæður heimilt sé að beita úrræðum á borð við þvingaða vistun á stofnun og hvenær beita megi vægari úrræðum. Þá er leitast við að færa orðalag gildandi ákvæða um öryggisráðstafanir í nútímalegra horf og gera inntak þeirra skýrara og fyllra en verið hefur. Með því móti er unnt að auka gegnsæi lagareglna um öryggisráðstafanir og gera beitingu þeirra fyrirsjáanlegri. Þó er ljóst að ekki verður komist hjá því að haga reglum um beitingu öryggisráðstafana þannig að dómara sé falið tiltekið mat, auk þess sem hafa verður í huga að ekki er unnt að fjalla um læknisfræðilegar ákvarðanir um meðferð ósakhæfra manna og um inntak vistunar í almennum hegningarlögum. Með frumvarpinu er jafnframt stefnt að því að skýra betur en í gildandi ákvæðum hvernig ábyrgð stjórnvalda á fullnustu dóma um öryggisráðstafanir er háttað og mæla fyrir um heimildir til setningar reglugerða til að hægt sé að kveða nánar á um inntak öryggisráðstafana og málsmeðferð.
    Í 2. og 4. gr. frumvarpsins er fjallað um öryggisráðstafanir gagnvart mönnum sem misjafnlega er ástatt um. Í 3. gr. frumvarpsins er lagt til að lögfestar verði reglur um tímalengd öryggisráðstafana og í 6. gr. er vikið að skipun tilsjónarmanns einstaklings sem dæmdur hefur verið til að sæta vistun á stofnun. Í 5. gr. er lagt til að lögfest verði ákvæði, er taki við af gildandi ákvæðum 66. og 67. gr., en í hinu nýja ákvæði er lagt til að lögfest verði heimild dómara til að beita öryggisráðstöfunum skv. 2. gr. frumvarpsins, að uppfylltum ströngum skilyrðum, í beinu framhaldi af afplánun manns, sem dæmdur hefur verið í fangelsi fyrir gróf ofbeldis- eða kynferðisbrot. Í 7. gr. er sú skylda lögð á ákæruvaldið að gæta þess að öryggisráðstafanir vari ekki lengur eða séu umfangsmeiri en nauðsyn krefur og mælt fyrir um breytingar og afnám þeirra. Loks er í 8. gr. fjallað um stjórnsýslulega ábyrgð á fullnustu dóma um öryggisráðstafanir og mælt fyrir um setningu reglugerða um inntak og framkvæmd öryggisráðstafana.

III. Lagaákvæði um þvingaða vistun manna á stofnunum.
    Í 1. mgr. 67. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, er að finna þá meginreglu að engan megi svipta frelsi nema samkvæmt heimild í lögum. Verður því ætíð að vera til staðar laga heimild fyrir vistun manna á stofnunum gegn vilja þeirra. Menn í slíkri aðstöðu eiga jafnframt rétt á að bera lögmæti frelsissviptingarinnar undir dómstól svo fljótt sem verða má skv. 4. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar, en í slíku málskoti felst einkum endurskoðun á stjórnvaldsákvörðun, þar sem ákvörðun um frelsissviptingu í þeim tilvikum sem heyra undir ákvæðið hefur að öðru jöfnu verið tekin af stjórnvaldi. Í 67. gr. stjórnarskrárinnar eru ekki talin upp þau tilvik þar sem heimilt er að svipta mann frelsi samkvæmt heimild í lögum. Það er aftur á móti gert í 1. mgr. 5. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og er í d-lið ákvæðisins sérstaklega gert ráð fyrir því að frelsissvipting sé heimil ef um er að ræða löglega gæslu ósjálfráða manns vegna eftirlits með uppeldi hans. Þá er í e-lið sama ákvæðis mælt fyrir um heimild til löglegrar gæslu manns sem er andlega vanheill. Helstu heimildir fyrir þvingaðri vistun manna á stofnunum, sem ekki þurfa endilega að tengjast refsiverðri háttsemi, eru ákvæði lögræðislaga, nr. 71/1997, um nauðungarvistun og ákvæði barnaverndarlaga, nr. 80/2002, um vistun barns utan heimilis.
    Í III. kafla lögræðislaga er fjallað um nauðungarvistun manns á sjúkrahúsi. Samkvæmt 2. mgr. 19. gr. laganna getur læknir ákveðið að sjálfráða maður skuli færður og vistaður nauðugur í sjúkrahúsi ef hann er haldinn alvarlegum geðsjúkdómi eða verulegar líkur eru taldar á að svo sé eða ástand hans er þannig að jafna megi til alvarlegs geðsjúkdóms. Hið sama gildir ef maður á við alvarlega áfengisfíkn að stríða eða ofnautn ávana- og fíkniefna. Frelsisskerðing samkvæmt ákvæðinu má ekki vara lengur en 48 klukkustundir nema með samþykki innanríkisráðuneytisins, en fáist samþykki þess má vista viðkomandi í allt að 21 sólarhring frá dagsetningu samþykkis ráðuneytisins af þeim ástæðum sem áður greindi og telji læknir nauðungarvistun óhjákvæmilega. Í 30. gr. er mælt fyrir um rétt nauðungarvistaðs manns til að bera ákvörðun um nauðungarvistun og þvingaða meðferð í sjúkrahúsi undir dómstóla.
    Í 27. gr. barnaverndarlaga er mælt fyrir um heimildir barnaverndarnefndar til að úrskurða um vistun barns utan heimilis í þeim tilvikum þegar ekki liggur fyrir samþykki foreldris og/eða barns sem náð hefur 15 ára aldri. Skilyrði fyrir beitingu ákvæðisins eru að úrræði skv. 24. og 25. gr. laganna hafi ekki skilað árangri eða barnaverndarnefnd eftir atvikum komist að þeirri niðurstöðu að þau séu ófullnægjandi. Jafnframt er skilyrði að brýnir hagsmunir barns mæli með vistun þess utan heimilis. Gert er ráð fyrir að barnaverndarnefnd geti annars vegar ákveðið að barn skuli vera kyrrt á þeim stað sem það dvelst í allt að tvo mánuði og hins vegar kveðið á um töku barns af heimili í allt að tvo mánuði og um nauðsynlegar ráðstafanir í framhaldi af því, svo sem ráðstöfun þess á fóstur- eða vistheimili, meðferðarheimili eða stofnun til að tryggja öryggi þess og aðhlynningu. Í 2. mgr. ákvæðisins er tryggður réttur foreldra eða barns sem náð hefur 15 ára aldri til að bera úrskurð barnaverndarnefndar undir héraðsdómara. Í 80. gr. laganna er mælt nánar fyrir um framkvæmd vistunar barns á heimili eða stofnun.
    Af þeim ákvæðum, sem hér hefur verið lýst, má ráða að samkvæmt gildandi rétti fer vistun einstaklinga gegn vilja þeirra fram að jafnaði á viðeigandi stofnun eða heimili þar sem þeir hljóta meðferð eða aðhlynningu í samræmi við þarfir þeirra.

IV. Gildandi réttur og dómaframkvæmd.
    Refsingum er beitt þegar afbrot hafa verið framin og öll skilyrði refsiábyrgðar eru uppfyllt. Á hinn bóginn kemur í fyrsta lagi til greina að beita öryggisráðstöfunum, sbr. 62. gr. almennra hegningarlaga, þegar einstaklingur hefur framið afbrot hlutrænt séð en á skortir að refsiskilyrði um geðrænt sakhæfi sé fullnægt. Því verði ekki lagt til grundvallar að til refsiábyrgðar hafi stofnast. Öryggisráðstöfunum kann þá að vera beitt, enda þyki það nauðsynlegt vegna réttaröryggis til að varna því að háski verði af manninum. Í öðru lagi kann að koma til greina að beita öryggisráðstöfunum skv. 62. gr. hegningarlaga, þegar maður hefur framið refsiverðan verknað og öllum skilyrðum refsiábyrgðar er fullnægt, ef talið verður að maður, sem verkið vann, hafi verið andlega miður sín í merkingu 16. gr. hegningarlaga, eða talið verður að svo sé ástatt um mann til langframa, sem í 15. og téðri 16. gr. sömu laga segir, eftir að hann hefur drýgt hinn refsiverða verknað, sbr. 63. gr. sömu laga. Þá kann í þriðja lagi að vera beitt öryggisráðstöfunum skv. 62. gr. að refsingu lokinni í ákveðnum tilvikum þegar maður hefur verið dæmdur í fangelsi, sbr. 67. gr. Þá skal loks getið að í ákvæðum almennra hegningarlaga um öryggisráðstafanir er ekki mælt fyrir um skilyrði fyrir ákvörðunum fangelsisyfirvalda um breytingar á afplánunarháttum manns, sem situr í fangelsi að fengnum fullnaðardómi, vegna ástands sem kemur til sögunnar eftir að afplánun hefst. Um það efni gilda ákvæði laga nr. 49/2005, um fullnustu refsinga, sbr. einkum 15. gr. laganna um vistun á sjúkrahúsi o.fl., sjá til hliðsjónar Hrd. 1998, bls. 1503, Hrd. 2003, bls. 4639, mál nr. 164/ 2003 og Hrd. 2004, bls. 4158, mál nr. 240/2004.
    Verður nú nánar gerð grein fyrir ákvæðum gildandi laga um öryggisráðstafanir.
    Um öryggisráðstafanir er nú fjallað í 62.–67. gr. almennra hegningarlaga. Með öryggisráðstöfunum skv. 62. gr. er annars vegar átt við vistun á viðeigandi hæli, og hins vegar við önnur vægari úrræði svo sem tryggingu, bann við dvöl á ákveðnum stöðum eða sviptingu lögræðis. Með vistun á viðeigandi hæli er almennt átt við ótímabundna vistun á heimili eða stofnun þar sem viðkomandi hlýtur meðferð við hæfi. Þessi úrræði 62. gr. eiga samkvæmt orðum ákvæðisins við um þá sem eru sýknaðir vegna sakhæfisskorts skv. 15. gr. eða ef niðurstaða dómstóls er sú að refsing sé árangurslaus skv. 16. gr. Samkvæmt 15. gr. laganna eru þeir einstaklingar ósakhæfir sem sökum geðveiki, andlegs vanþroska eða hrörnunar, rænuskerðingar eða annars samsvarandi ástands voru alls ófærir til að stjórna gerðum sínum á þeim tíma sem þeir frömdu hinn refsiverða verknað. Ákvörðun um geðrænt sakhæfi er byggð á lögfræðilegum mælikvarða, en í því felst að það er lagt í vald dómstóla að meta hvort skilyrði ákvæðisins séu fyrir hendi með hliðsjón af sérfræðiáliti um andlegt ástand sakbornings á verknaðarstund. Skv. 1. mgr. 16. gr. hegningarlaga skal ekki refsa manni fyrir afbrot, hafi hann verið andlega miður sín, svo sem vegna vanþroska, hrörnunar, kynferðislegs misþroska eða annarrar truflunar, en þetta ástand er ekki á eins háu stigi og getur í 15. gr., nema ætla megi eftir atvikum og eftir að leitað hefur verið læknisumsagnar að refsing geti borið árangur.
    Skilyrði fyrir beitingu úrræða skv. 62. gr. hegningarlaga er að það sé talið nauðsynlegt vegna réttaröryggis að gera ráðstafanir til að varna því að háski verði af viðkomandi einstaklingi. Sé skilyrðið uppfyllt má ákveða að viðkomandi skuli vistaður á viðeigandi hæli ef ætla má að vægari ráðstafanir, svo sem trygging, bann við dvöl á ákveðnum stöðum eða svipting lögræðis, komi ekki að notum. Úrræði samkvæmt ákvæðinu eru ekki tæmandi talin og er því heimilt að grípa til annarra ráðstafana en þeirra sem þar eru taldar upp. Ákvæðið hefur einnig verið túlkað svo í dómaframkvæmd að dómstólar geti breytt fyrri ákvörðun, ákveðið vægari úrræði en vistun á stofnun án takmarkana, eða hert gæslu allt eftir aðstæðum og nauðsyn hverju sinni. Einnig hefur verið litið svo á að lausn eða mildun vistunar megi vera háð skilyrðum. Í því sambandi hefur í dómaframkvæmd verið áréttað að nauðsynlegt sé að úrræði eða rýmkun á vistun séu ákveðin svo skýrt sem verða megi þannig að viðeigandi stjórnsýsluaðili megi framfylgja þeim og sá sem í hlut eigi viti sem gleggst hvaða skilyrðum hann þurfi að hlíta, sjá Hrd. 16. mars 2008, mál nr. 267/2008. Engar breytingar eru gerðar á þessum grundvallarreglum við samningu frumvarpsins.
    Þegar vistun á hæli er dæmd skal Hæstiréttur samkvæmt gildandi 62. gr. skipa viðkomandi tilsjónarmann sem á að hafa eftirlit með því að dvöl hans á hælinu verði ekki lengri en nauðsyn ber til. Gert er ráð fyrir að innanríkisráðherra geti hvenær sem er leitað úrlausnar héraðsdóms, þar sem hælið er, um hvort vistun telst lengur nauðsynleg. Þegar ár er liðið frá dómsuppsögu eða síðasta dómsúrskurði, eða fyrr með samþykki ráðherra, getur tilsjónarmaður lagt málið í úrskurð dómstóls þess sem áður greinir og sæta úrskurðir „áfrýjun“ (kæru) eftir reglum um kæru í opinberum málum, nú sakamálum. Dómþoli getur hins vegar ekki sjálfur leitað úrlausnar dómstóls um veru sína á hælinu. Þegar dómstóll ákveður að aflétta vist á viðeigandi hæli hefur tíðkast að binda úrskurð tilteknum skilyrðum, svo sem þannig að hælisvistinni er aflétt í áföngum eða viðkomandi er gert að sæta nánar tilgreindri læknismeðferð. Í framkvæmd hefur verið miðað við að sömu málsmeðferðarreglur gildi um afnám vægari ráðstafana en hælisvistar, þó svo að framangreind ákvæði taki ekki berum orðum til þeirra.
    Í 63. gr. er, sem fyrr getur, mælt fyrir um úrræði þegar maður hefur verið sakhæfur er hann framdi refsiverðan verknað, en svo verður ástatt um hann til langframa sem í 15. eða 16. gr. segir eftir að hann hefur drýgt verknaðinn en áður en fullnaðardómur gengur í máli hans. Við slíkar aðstæður ákveður dómur hvort refsing skuli dæmd eða hvort hún eigi að falla niður. Ef framangreind skilyrði 62. gr. þykja vera fyrir hendi má ákveða að ráðstöfunum samkvæmt þeirri grein skuli beitt í stað refsingar eða þangað til unnt þykir að framkvæma refsingu. Er því hugsanlegt að dæma mann til að sæta bæði refsingu og öryggisráðstöfunum samkvæmt ákvæðinu.
    Í 64. gr. er mælt fyrir um úrræði gagnvart sakborningum sem hafa framið afbrot undir áhrifum áfengis. Samkvæmt ákvæðinu er heimilt að ákveða að viðkomandi verði lagður inn á viðeigandi hæli í allt að 18 mánuði eða ef ítrekun á sér stað í allt að þrjú ár megi ljóst vera eftir að læknisumsagnar hefur verið leitað að hann geti ekki haft hemil á drykkjufýsn sinni. Það er dómsmálaráðherra sem ákveður að fengnum tillögum stjórnar hælisins og viðkomandi læknis hvort leysa megi manninn af hælinu, áður en hámarkstími er liðinn, sökum þess að ætla megi að hann hafi læknast. Ekki er gert ráð fyrir að unnt sé að grípa til vægari úrræða en hælisvistunar eða að dómþoli geti sjálfur leitað úrlausnar dómstóls um veru sína á hælinu.
    Í 66. gr. er fjallað um öryggisráðstafanir gagnvart þeim sem heitist við annan mann eða hótar honum bana, brennu eða öðrum óförum. Skilyrði fyrir beitingu úrræða samkvæmt ákvæðinu er að refsingu verði ekki við komið eða hún þyki ekki veita næga tryggingu. Með því að refsingu verði ekki við komið er átt við að hótunin sé í sjálfu sér ekki refsiverð eða að refsing liggi við verknaðinum en viðkomandi sé sýknaður, t.d. af huglægum ástæðum. Gert er ráð fyrir að ákæruvaldið geti, að kröfu þess sem hlut á að máli eða án kröfu ef það þykir nauðsynlegt vegna réttaröryggis, krafist dómsúrskurðar um hvort gera skuli ráðstafanir til varnar því, að hótunin sé framkvæmd, þar á meðal, hvort heitingarmaður skuli setja tryggingu eða hvort setja skuli hann í gæslu. Ákæruvaldið getur ávallt lagt fyrir dóm að úrskurða að ráðstafanir falli niður, en dómfelldi getur lagt málið fyrir dóm þegar sex mánuðir eru liðnir frá uppkvaðningu dóms eða síðasta úrskurði og fyrr ef ákæruvaldið samþykkir.
    Í 67. gr. er að finna ákvæði um öryggisráðstafanir gagnvart vanaafbrotamönnum. Ákvæðið á við um sakhæfa einstaklinga sem dæmdir hafa verið í fangelsi. Skilyrði fyrir beitingu ákvæðisins er að viðkomandi hafi verið dæmdur í fangelsi og mjög sennilegt megi telja af því hvernig glæp hans var háttað og andlegu ástandi hans er varið, svo og af undanfarandi breytni hans, að hann muni drýgja afbrot af vana eða í atvinnuskyni og sé því hættulegur umhverfi sínu. Við slíkar aðstæður má ákveða í dómi eða síðar í sérstöku máli að beita skuli öryggisráðstöfunum skv. 66. gr. að refsingu lokinni og gildir síðastnefnt ákvæði einnig um afnám ráðstafana.
    Í fylgiskjali með frumvarpinu gefur að líta almennt yfirlit yfir dómaframkvæmd um beitingu öryggisráðstafana samkvæmt gildandi ákvæðum 62.–67. gr. hegningarlaga.

V. Réttarstaðan á Norðurlöndum.
1. Danskur réttur.
    Í dönskum rétti er gert ráð fyrir því að unnt sé að dæma andlega vanheila einstaklinga sem framið hafa refsiverðan verknað til að sæta öryggisráðstöfunum í stað refsingar. Við mat á sakhæfi er byggt á lögfræðilegum mælikvarða eins og í íslenskum rétti.
    Fjallað er um öryggisráðstafanir í 9. kafla dönsku hegningarlaganna. Í 68. gr. er mælt fyrir um úrræði sem beita má ef ákærði er sýknaður vegna sakhæfisskorts. Ef nánar tilteknar vægari ráðstafanir teljast ekki fullnægjandi er heimilt að ákveða að viðkomandi skuli settur á geðsjúkrahús, á stofnun fyrir einstaklinga með alvarlegan geðsjúkdóm eða undir eftirlit með möguleika á að með stjórnvaldsákvörðun megi setja viðkomandi á viðeigandi heimili eða stofnun til sérstakrar umönnunar eða eftirlits. Skv. 68. gr. a skal vistun á stofnun að meginreglu ekki vara lengur en fimm ár, en í sérstökum tilvikum getur dómstóll framlengt þennan tíma um tvö ár. Þegar einstaklingur hefur gerst sekur um manndráp, rán, frelsissviptingu, alvarleg ofbeldisbrot, hótanir, brennu, nauðgun eða annað alvarlegt kynferðisbrot eða tilraun til slíkra brota er þó almennt enginn hámarkstími ákveðinn. Þegar hámarkstími er ekki ákveðinn skal ákæruvaldið krefjast úrskurðar um hvort breyta eigi eða afnema ákvörðun um öryggisráðstafanir fimm árum eftir að úrskurður hefur gengið, nema málið hafi verið lagt í úrskurð innan síðustu tveggja ára. Síðan skal leggja málið fyrir dóm á tveggja ára fresti og er þannig tryggt að dómstóll endurskoði ákvörðun um öryggisráðstafanir reglulega. Aðrar ráðstafanir en vistun á stofnun skulu almennt ekki vara lengur en þrjú ár, en þó má við sérstakar aðstæður framlengja þennan tíma sem má þó samanlagt ekki verða lengri en fimm ár. Í 69. gr. er mælt fyrir um að hafi gerandi á verknaðarstund verið í ástandi sem bundið sé takmörkuðum þroska, veiklun eða truflun á sálrænni starfsemi sem sé ekki með þeim hætti að falli undir 16. gr. geti dómstóll ákveðið að hann skuli sæta ráðstöfunum skv. 68. gr. ef slíkt telst þjóna tilgangi í stað refsingar. Skv. 69. gr. a skal hámarkstími vistunar á stofnun vera fimm ár og hámarkstími dvalar almennt ekki vera lengri en eitt ár. Að öðru leyti gilda sömu reglur og greinir í 68. gr. a um tímalengd ráðstafana skv. 69. gr.
    Í 70. gr. er fjallað um skilyrði þess að dæma megi einstakling í gæslu. Er það í fyrsta lagi heimilt ef hann hefur gerst sekur um manndráp, rán, frelsissviptingu, alvarlegt ofbeldisbrot, hótanir eða brennu eða tilraun til þessara brota og eftir eðli brotsins og upplýsingum um viðkomandi, þ.m.t. fyrri brotaferil, megi ætla að til staðar sé nærtæk hætta fyrir líf annarra, líkama, heilbrigði eða frelsi og beiting gæslu í stað fangelsis er talin nauðsynleg til að fyrirbyggja þessa hættu. Jafnframt má dæma einstakling í gæslu ef hann hefur gerst sekur um nauðgun eða annað alvarlegt kynferðisbrot og framangreind skilyrði eru uppfyllt, að öðru leyti en því að gerð er krafa um að ætla megi að til staðar sé veruleg hætta fyrir líf annarra, líkama, heilbrigði eða frelsi. Í 71. gr. eru ákvæði um skipun talsmanns ákærða þegar til álita kemur að dæma hann til vistunar á stofnun, þegar ákveðið hefur verið að vista hann á stofnun eða þegar ákvörðun gerir slíka vistun mögulega. Skv. 72. gr. hvílir sú skylda á ákæruvaldinu að gæta þess að öryggisráðstafanir vari ekki lengur og séu ekki víðtækari en nauðsyn krefur. Gert er ráð fyrir að dómþoli, talsmaður hans, ákæruvaldið, stjórn stofnunar þar sem dómþoli er vistaður eða Fangelsismálastofnun geti krafist úrskurðar dómstóls um breytingu á ákvörðun um öryggisráðstafanir eða um afnám slíkrar ákvörðunar. Sé beiðni frá dómþola eða talsmanni hans ekki tekin til greina er ekki unnt að bera fram nýja beiðni fyrr en liðið er hálft ár frá uppkvaðningu úrskurðarins.
    Í 73. gr. segir að sé svo ástatt um einstakling sem hefur framið refsiverðan verknað sem greinir í 16. gr. eða 69. gr. eftir að hann framdi verknaðinn, en áður en dómur gengur, ákveði dómstóll hvort dæma skuli refsingu eða falla frá henni. Í 74. gr. er mælt fyrir um að þegar einstaklingur sem á verknaðarstund er ekki orðinn átján ára hefur framið afbrot hættulegt einstaklingum eða annað alvarlegt afbrot geti dómstóll ákveðið að viðkomandi skuli sæta félagsuppeldislegri meðferð er vari í tvö ár, ef það er talið þjóna þeim tilgangi að fyrirbyggja frekari afbrot. Í ákvæðinu er jafnframt mælt fyrir um hámarkstíma dvalar í sólarhringsvistun eða á viðurkenndum dvalarstað og heimild til framlengingar á ráðstöfunum.

2. Norskur réttur.
    Í norskum rétti er gert ráð fyrir því að unnt sé að dæma einstaklinga sem ekki voru sakhæfir á þeim tíma sem þeir frömdu refsiverðan verknað til að sæta öryggisráðstöfunum í stað refsingar. Í 44. gr. norsku hegningarlaganna segir að ekki skuli dæma þann til refsingar sem á verknaðarstund var geðveikur eða rænulaus og gildir hið sama ef viðkomandi átti við verulegan andlegan vanþroska að stríða. Við mat á sakhæfi samkvæmt ákvæðinu er byggt á læknisfræðilegum mælikvarða, en í því felst að alfarið er byggt á tilvist ákveðinna andlegra annmarka en ekki á áhrifum þeirra á gerðir sakbornings.
    Í 39. gr. og 39. gr. a–h norsku hegningarlaganna er vikið að úrræðum þegar ekki er unnt að dæma mann til refsingar vegna 44. gr. laganna. Skv. 39. gr. getur dómstóll ákveðið að flytja skuli ósakhæfan brotamann á lokaða geðdeild sé það talið nauðsynlegt til að vernda samfélagið. Aðeins má taka ákvörðun um slíkan flutning ef brotamaður hefur framið eða gert tilraun til að fremja alvarlegt ofbeldisbrot, kynferðisbrot, frelsissviptingu, brennu eða annað alvarlegt brot sem beinist að lífi, heilbrigði eða frelsi eða getur stofnað þessum lífsgæðum í hættu. Jafnframt megi telja að til staðar sé nærtæk hætta á að viðkomandi muni á ný fremja alvarlegt afbrot sem skerði eða skapi hættu fyrir líf, heilbrigði eða frelsi annarra. Einnig er heimilt að ákveða að vista mann á lokaðri geðdeild ef viðkomandi hefur framið eða gert tilraun til að fremja minna alvarlegt afbrot af þeirri tegund sem tilgreint var að framan, og hafi áður framið eða gert tilraun til afbrots sem þar er nefnd, og að telja megi að náið samhengi sé á milli fyrra og núverandi afbrots. Auk þess þarf að vera til staðar sérstaklega nærtæk hætta á ítrekun alvarlegs afbrots sem skerði eða setji líf, heilbrigði og frelsi annarra í hættu.
    Samkvæmt 39. gr. c er unnt að dæma sakhæfan einstakling til gæslu á stofnun á vegum fangelsisyfirvalda sé tímabundin refsing ekki talin nægileg til að vernda samfélagið og séu skilyrði 39. gr. uppfyllt. Gert er ráð fyrir að hámarks- og lágmarkstími gæslu sé ákveðinn af dómstól. Hámarkstími skal almennt ekki vera lengri en 15 ár og aldrei lengri en 21 ár, en lágmarkstími ekki vera lengri en 10 ár. Hægt er að framlengja þessi tímamörk í allt að fimm ár í senn. Þá eru í lögunum ákvæði um lausn manns úr gæslu og skilyrði sem unnt er að setja fyrir reynslulausn úr gæslu og um rof á slíkum skilyrðum.

3. Sænskur og finnskur réttur.
    Í sænskum rétti er geðrænt sakhæfi strangt tiltekið ekki refsiskilyrði heldur hefur það áhrif við val á viðurlögum. Í 6. gr. 30. kafla sænsku hegningarlaganna segir að ekki skuli dæma einstakling til að sæta fangelsisvist hafi hann verið alvarlega andlega truflaður á verknaðarstund. Byggt er á lögfræðilegum mælikvarða við mat á sakhæfi eins og í íslenskum og dönskum rétti. Þó svo að viðkomandi hafi verið ósakhæfur á verknaðarstund er hann ekki sýknaður og er t.d. hugsanlegt að dæma hann til greiðslu sektar eða til vistar á réttargeðdeild.
    Í finnskum rétti er gert ráð fyrir að sýna þurfi fram á orsakatengsl milli andlegra annmarka og skilnings á refsiverðum verknaði eða ólögmæti hans. Skv. 4. gr. þriðja kafla finnsku hegningarlaganna skal ekki dæma einstakling sem skortir slíkan skilning til að sæta refsingu og á hið sama við ef getu viðkomandi til að stjórna gerðum sínum hefur verið raskað á afgerandi hátt. Mat á því hvort orsakatengsl séu til staðar og á áhrifum andlegra annmarka heyrir undir dómstóla og er því byggt á lögfræðilegum mælikvarða við mat á sakhæfi.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Lagt er til að 2. mgr. 16. gr. laganna falli brott þar sem ákvæðið er óþarft, sbr. ákvæði 15. gr. laga um fullnustu refsinga, nr. 49/2005.


Um 2. gr.

    Í ákvæðinu er fjallað um öryggisráðstafanir gagnvart þeim sem sýknaður er skv. 15. gr. eða ef refsing er talin árangurslaus skv. 16. gr. laganna. Í 1. mgr. er gert ráð fyrir að við slíkar aðstæður megi ákveða í dómi að gerðar skuli ráðstafanir til að fyrirbyggja frekari afbrot ef það þykir nauðsynlegt vegna réttaröryggis. Við mat á því hvort ráðstafanir séu nauðsynlegar vegna réttaröryggis verður að líta til þess hvort hætta sé á að ákærði fremji frekari afbrot í framtíðinni og hversu veruleg slík hætta sé í ljósi andlegs ástands viðkomandi við uppkvaðningu dóms. Matið er ekki bundið við að hætta sé á að viðkomandi fremji sams konar eða eðlisskyld brot. Nánar er síðan fjallað um efnisgrundvöll matsins í 3. mgr.
    Í 2. mgr. er vikið að þeim ráðstöfunum sem til greina koma ef skilyrði 1. mgr. eru uppfyllt. Samkvæmt ákvæðinu má ákveða í dómi að maður skuli vistaður á geðdeild, viðeigandi heimili eða stofnun teljist vægari ráðstafanir svo sem eftirlit, þar á meðal rafrænt eftirlit, ákvörðun varðandi dvalarstað og vinnu, lyfjameðferð, meðferð vegna áfengis- og/eða vímuefnanotkunar eða geðmeðferð, ekki fullnægjandi.
    Með þessu er upptalning 2. málsl. núgildandi ákvæðis færð til nútímalegra horfs og til samræmis við dómaframkvæmd. Er talað um vistun á geðdeild, viðeigandi heimili eða stofnun í stað vistunar á viðeigandi hæli, auk þess sem upptalningu á vægari ráðstöfunum er breytt til samræmis við þær ráðstafanir sem unnt er að grípa til í dag. Þar á meðal er lagt til að skýrt verði kveðið á um heimild til að mæla fyrir um að maður sæti lyfjameðferð, en því úrræði hefur verið talið heimilt að beita samkvæmt gildandi 62. gr. hegningarlaga, sjá Hrd. 2002, bls. 161, mál nr. 446/2001, dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá 10. apríl 2002, mál nr. S-264/ 2001, og dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá 5. júlí 2007, mál nr. S-683/2007, sem nánar eru raktir í fylgiskjali með frumvarpi þessu. Þar sem svipting lögræðis er ráðstöfun, sem almennt hefur ekki verið notuð við úrlausn mála á grundvelli gildandi 62. gr. hegningarlaga, er lagt til að það verði afnumið. Um lögræðissviptingu gilda þó eðli máls samkvæmt ákvæði II. kafla lögræðislaga, nr. 71/1997, sjá nánar umfjöllun í III. kafla almennra athugasemda frumvarpsins.
    Í 2. mgr. 2. gr. frumvarpsins er lagt til að ein af þeim tegundum vægari ráðstafana, sem heimilt verður að beita, sé í formi rafræns eftirlits. Er þá nánar átt við að dómari geti fallist á að maður verði látinn hafa á sér tæknilegan búnað svo að unnt sé að fylgjast með ferðum hans. Ráðstöfun þessi verður eðli máls samkvæmt beitt samhliða ákvörðun um dvalarstað manns, en undir slíka ákvörðun fellur m.a. bann við dvöl á ákveðnum stöðum. Þá kann að vera rétt eftir atvikum að beita jafnframt öðrum ráðstöfunum, t.d. um að maður sæti lyfja- eða geðmeðferð með reglubundnum hætti. Þess skal getið að lagafyrirmæli um rafrænt eftirlit af þessu tagi er ekki nýmæli í íslenskum lögum. Þannig er kveðið á um skilyrði rafræns eftirlits í lögum um fullnustu refsinga, nr. 49/2005, eins og þeim var breytt með lögum nr. 129/2011 sem tóku gildi 1. október 2011. Þá er gert ráð fyrir því í síðari málslið 1. mgr. 100. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, að dómari geti gert það að skilyrði fyrir því að beitt sé vægara úrræði en gæsluvarðhaldi í formi farbanns, eða að sakborningur haldi sig á ákveðnum stað eða innan ákveðins svæðis, að „hann hafi á sér búnað svo að unnt sé að fylgjast með ferðum hans“. Ótvírætt þykir, að hafi löggjafinn talið koma til greina að beita rafrænu eftirliti við þessar aðstæður þá sé enn frekar ástæða til að lögfesta slíka heimild til notkunar í þeim tilvikum sem 2. gr. frumvarpsins fjallar um. Í þessu sambandi er jafnframt ástæða til að árétta að þótt rafrænt eftirlit af þessu tagi feli eðli máls samkvæmt í sér nokkurt inngrip í friðhelgi einkalífs manns verður talið að viðhlítandi heimild sé til slíkra lagafyrirmæla í 3. mgr. 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, sbr. 9. gr. stjórnskipunarlaga, nr. 97/1995. Þar segir að þrátt fyrir þá meginreglu skv. 1. mgr. sömu greinar að allir skuli njóta friðhelgi einkalífs og heimilis megi með sérstakri lagaheimild takmarka á annan hátt slíka friðhelgi ef „brýna nauðsyn ber til vegna réttinda annarra“. Ljóst er að áður en til greina kemur að beita ráðstöfun á borð við rafrænt eftirlit, eða öðrum vægari ráðstöfunum en vistun manns á geðdeild, viðeigandi heimili eða stofnun, sbr. 2. gr. frumvarpsins, verður að liggja fyrir að slík ráðstöfun þyki nauðsynleg vegna réttaröryggis, enda sé þá leitast við að fyrirbyggja frekari afbrot. Það er því ljóst að heimild af þessu tagi er sett af brýnni nauðsyn til að vernda réttindi annarra. Rafrænt eftirlit skv. 2. gr. frumvarpsins kæmi einkum til greina þegar um er að ræða mann, sem 15. eða 16. gr. hegningarlaga eiga við um, og ekki verður talið að ástæða sé til að beita vistun á geðdeild, viðeigandi heimili eða stofnun, en ástæða þykir vegna eðlis brots, andlegra annmarka og annarra ytri atvika að fylgjast með ferðum hans, a.m.k. tímabundið. Þá verður þessari ráðstöfun einnig beitt í þeim tilvikum sem greinir í 5. gr. frumvarpsins, en um það efni er vísað nánar til sérstakra athugasemda við það ákvæði hér síðar.
    Úrræði skv. 2. gr. frumvarpsins eru ekki tæmandi talin og má því grípa til annarra ráðstafana en þar eru taldar upp, en þó ekki ráðstafana sem eru meira íþyngjandi fyrir dómþola en vistun á geðdeild, viðeigandi heimili eða stofnun. Þá er hugsanlegt að beita samtímis fleiri en einni tegund hinna vægari ráðstafana, eins og áður er rakið. Eins og nánar verður rakið í sérstökum athugasemdum við 8. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir því að innanríkisráðherra setji nánari ákvæði í reglugerð um inntak ráðstafana skv. 2. gr. og um málsmeðferð.
    Í 3. mgr. er fjallað um þau atriði sem dómara ber að líta til við mat á því hvort dæma skuli mann til að sæta ráðstöfunum skv. 2. mgr. og við val á þeim. Í núgildandi ákvæði er ekki mælt fyrir um slík atriði, en með þessu móti er leitast við að gera mat dómara fyrirsjáanlegra og gegnsærra. Jafnframt er tryggt að meðalhófs verði gætt við val á ráðstöfunum með því að árétta að viðurhlutameiri ráðstöfunum, þ.e. vistun á geðdeild, viðeigandi heimili eða stofnun, verði að jafnaði ekki beitt nema ætla megi að lífi, heilsu eða frelsi annarra þyki hætta búin og að slík ráðstöfun teljist nauðsynleg til að fyrirbyggja þessa hættu. Mat dómara að þessu leyti er því heildstætt.

Um 3. gr.

    Með þessu ákvæði er lagt til að lögfestar verði reglur um tímalengd öryggisráðstafana skv. 2. gr. frumvarpsins. Hingað til hafa öryggisráðstafanir sem ákveðnar hafa verið með dómi verið ótímabundnar án tillits til eðlis hins refsiverða verknaðar. Sú skipan hefur meðal annars verið studd þeim rökum að nauðsynleg tímalengd öryggisráðstafana ráðist af mati á því hvenær ekki teljist lengur vera hætta á því að viðkomandi fremji refsiverðan verknað á ný og að ekki sé hægt að sjá fyrir hvenær það muni vera. Þannig séu ótímabundnar ráðstafanir í bestu samræmi við það markmið að koma í veg fyrir frekari afbrot. Til stuðnings því að ákveða öryggisráðstafanir með tímabundnum hætti má nefna að ótímabundnar ráðstafanir eru verulega íþyngjandi fyrir dómþola og að í sumum tilfellum hefur tímalengd ráðstafana varað lengur en sú refsing sem ætla má að hefði verið dæmd, en það á einkum við ef um minni háttar brot hefur verið að ræða.
    Í ákvæðinu er lagt til að ákvörðun um hvort öryggisráðstafanir séu tímabundnar eða ótímabundnar ráðist bæði af eðli hins refsiverða verknaðar og eðli þeirra ráðstafana sem viðkomandi er gert að sæta. Gert er ráð fyrir að vistun á geðdeild, viðeigandi heimili eða stofnun skv. 2. mgr. 62. gr., sbr. 2. gr. frumvarpsins, skuli vera ótímabundin þegar viðkomandi hefur gerst sekur um þau alvarlegu brot gegn einstaklingum sem talin eru upp í 1. mgr. eða fyrir tilraun til þessara brota eða hlutdeild í þeim. Í ljósi eðlis þessara afbrota þykir það vera í bestu samræmi við það markmið vistunar á stofnun að koma í veg fyrir að viðkomandi fremji frekari afbrot og meðferðarsjónarmið að ákveða vistun með ótímabundnum hætti. Hafi einstaklingur gerst sekur um önnur brot en greinir í 1. mgr. eða sé ákveðið að beita öðrum ráðstöfunum en vistun er aftur á móti gert ráð fyrir að ráðstafanir séu tímabundnar. Skal hámarkstími almennt ekki vera lengri en fimm ár, en þó er gert ráð fyrir að dómstóll geti í sérstökum tilvikum framlengt þennan tíma um tvö ár. Innifalið í þessum tímamörkum er sá tími sem vægari ráðstöfunum kann að hafa verið beitt.

Um 4. gr.

    Í ákvæðinu er vikið að öryggisráðstöfunum gagnvart einstaklingi sem svo verður ástatt um sem segir í 15. og 16. gr., eftir að hann hefur framið refsiverðan verknað en áður en endanlegur dómur gengur í máli hans.
    Ákvæði 1. mgr. er efnislega óbreytt frá 63. gr. núgildandi laga. Þar er gert ráð fyrir að ákveða megi að ráðstöfunum skv. 62. gr. skuli beitt í stað refsingar eða þangað til að unnt þykir að framkvæma refsingu séu skilyrði fyrrnefnds ákvæðis fyrir hendi. Það er því hugsanlegt að dæma einstakling bæði til að sæta refsingu og öryggisráðstöfunum samkvæmt ákvæðinu. Sé refsing ekki felld niður kemur hún í kjölfarið á ráðstöfunum skv. 62. gr. eða þegar dómþoli verður sakhæfur eða unnt þykir að framkvæma refsingu, sbr. þó 83. og 83. gr. a laganna.
    Í 2. mgr. er tekið fram að ákvæði 65., sbr. 6. gr. frumvarpsins, um skipun tilsjónarmanns, og 66. gr., sbr. 7. gr. frumvarpsins, um breytingar eða afnám ráðstafana, eigi við þegar ráðstöfunum er beitt skv. 1. mgr. Í 3. mgr. er mælt fyrir um að dvöl manns, sem hefur verið dæmdur í refsingu en verið fluttur á stofnun skv. 1. mgr., skuli koma til frádráttar refsingu.

Um 5. gr.

    Í gildandi 66. gr. hegningarlaga er mælt fyrir um tilteknar öryggisráðstafanir gagnvart þeim sem hótar öðrum manni eða nánum vandamanni hans bana, brennu, líkamsmeiðingum eða öðrum óförum og refsingu verður annaðhvort ekki við komið eða hún þykir ekki veita næga tryggingu. Þá er heimilt með dómsúrskurði, sem ákæruvaldið hlutast til um að kröfu þess, sem hlut á að máli, eða án kröfu hans, ef nauðsynlegt þykir vegna réttaröryggis, að ákveða hvort gera skuli ráðstafanir til varnar því að hótunin sé framkvæmd, þar á meðal, hvort heitingarmaður skuli setja tryggingu eða hvort setja skuli hann í gæslu. Í 67. gr. gildandi laga er kveðið svo á um að sé maður dæmdur í fangelsi, og mjög sennilegt má telja af því, hvernig glæp hans var háttað og andlegu ástandi hans er varið, svo og af undanfarandi breytni hans, að hann muni drýgja afbrot af vana eða í atvinnuskyni og sé því hættulegur umhverfi sínu, megi ákveða í refsidómi eða síðar í sérstöku máli, sem höfðað er að tilhlutan ákæruvaldsins, að beitt skuli öryggisráðstöfunum skv. 66. gr. að refsingu lokinni. Létta megi slíkum ráðstöfunum af aftur eftir sömu reglum og getur um í 66. gr.
    Lagt er til að framangreind ákvæði 66. og 67. gr. gildandi laga verði felld brott og í staðinn komi 5. gr. frumvarpsins. Í reynd er í fyrsta lagi lagt til að heimild 66. gr. verði afnumin, enda hefur henni ekki verið beitt í framkvæmd, sjá þó til hliðsjónar Hrd. 1975, bls. 415. Með þessari tillögu frumvarpsins er á því byggt að það úrræði sem mælt sé fyrir um í gildandi 66. gr. feli að jafnaði í sér heimild til að bregðast við aðstöðu þar sem fyrir liggur grunur um að maður hafi framið refsivert brot í formi hótana um bana, brennu eða aðrar ófarir. Við þær aðstæður gera íslensk lög á hinn bóginn ráð fyrir því að beitt verði að jafnaði þvingunarráðstöfunum í þágu rannsóknar sakamáls á borð við gæsluvarðhald, sbr. d-lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála. Þar er kveðið á um heimild til að úrskurða mann í gæsluvarðhald þegar fram er kominn rökstuddur grunur um að sakborningur, sem náð hefur 15 ára aldri, hafi gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við, enda megi telja gæsluvarðhald „nauðsynlegt til að verja aðra fyrir árásum sakbornings ellegar hann sjálfan fyrir árásum eða áhrifum annarra manna“. Í því sambandi ber einnig að hafa í huga að skv. 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008 er gert ráð fyrir því að þegar skilyrði gæsluvarðhalds skv. 1. mgr. 95. gr. eru fyrir hendi geti dómari þá, í stað þess að úrskurða sakborning í gæsluvarðhald, mælt fyrir um vistun hans á sjúkrahúsi eða viðeigandi stofnun, bannað honum brottför af landinu ellegar lagt fyrir hann að halda sig á ákveðnum stað eða innan ákveðins svæðis. Sé þess krafist geti dómari sett það skilyrði fyrir ráðstöfun að sakborningur hafi á sér búnað svo að unnt sé að fylgjast með ferðum hans. Að framangreindu virtu er ekki talin ástæða til að viðhalda heimild á borð við gildandi 66. gr. hegningarlaga.
    Í öðru lagi er lagt til að gildandi 67. gr. hegningarlaga verði með 5. gr. frumvarpsins efnislega breytt að nokkru marki og fært til nútímalegra horfs þannig að það geti orðið raunhæft og virkt úrræði, enda hefur gildandi ákvæði almennt ekki heldur verið beitt í framkvæmd, sjá til hliðsjónar Hrd. 1990, bls. 1482. Með 5. gr. er nánar lagt til að sé maður dæmdur í fangelsi fyrir manndráp, stórfellda líkamsárás eða annað gróft ofbeldis- eða kynferðisbrot, eða tilraun til slíkra brota, og dómur telur verulegar líkur á því, í ljósi sakaferils og andlegs ástands hans við lok afplánunar, svo og af undanfarandi breytni hans, að hann muni drýgja ofbeldis- eða kynferðisbrot þegar afplánun lýkur og sé því hættulegur umhverfi sínu, megi dómari ákveða í sérstöku máli, sem höfðað er að tilhlutan ákæruvaldsins eigi síðar en 3 mánuðum fyrir lok afplánunar, enda komi reynslulausn ekki til greina, að beitt skuli öryggisráðstöfunum skv. 62. gr. að lokinni afplánun. Heimilt verður að beita vistun í fangelsi, enda verði það ekki talið andstætt hagsmunum manns. Um beitingu ráðstafana samkvæmt greininni gildi að öðru leyti ákvæði 62. gr. a, 65. gr. og 66. gr. laga þessara, sbr. 3., 6. og 7. gr. frumvarpsins.
    Ákvæði 5. gr. frumvarpsins er að efni til af sama meiði og gildandi ákvæði 67. gr. hegningarlaga. Þó er leitast við að þrengja gildissvið ákvæðisins þannig að áskilið sé að maður hafi verið dæmdur í fangelsi fyrir manndráp, sbr. 211. gr. hegningarlaga, stórfelldar líkamsmeiðingar, sbr. 2. mgr. 218. gr., eða annað gróft ofbeldis- eða kynferðisbrot, sbr. einkum þau ákvæði í XXII. kafla hegningarlaga sem varða þyngstu refsingu. Á hinn bóginn verður ákvæði 5. gr. frumvarpsins ekki takmarkað við það, eins og gildandi 67. gr., að maður „muni drýgja afbrot af vana eða í atvinnuskyni“. Þá er lagt til að í stað sönnunarmælikvarða gildandi 67. gr., „mjög sennilegt má telja af því“, beri dómara að leggja mat á hvort „verulegar líkur“ séu á því að skilyrðum ákvæðisins sé fullnægt. Er það áfram þrengri mælikvarði en greinir í gildandi 62. gr. hegningarlaga, „ef nauðsynlegt þykir vegna réttaröryggis“, sbr. einnig 2. gr. frumvarpsins, en rýmri mælikvarði en felst í núgildandi 67. gr.
    Ákvæði 5. gr. frumvarpsins gengur út á það að þegar líður að lokum afplánunar manns, sem dæmdur hefur verið í fangelsi fyrir brot af því tagi sem að framan greinir, verði ákæruvaldið, eigi síðar en þremur mánuðum fyrir lok afplánunar, að leggja mat á hvort höfða skuli sérstakt mál þar sem krafist verði að öryggisráðstöfunum skv. 2. gr. frumvarpsins verði beitt í tilviki dómþola að afplánun lokinni. Algengast er að sú tímasetning um lok afplánunar sem miðað er við í framkvæmd sé þegar til greina kemur að veita manni reynslulausn á grundvelli VII. kafla laga nr. 49/2005, um fullnustu refsinga. Ef reynslulausn kemur ekki til greina þá er miðað við lok dæmdrar fangelsisvistar. Hér verður að hafa í huga að almennt verður að ganga út frá því að í tilviki manns, sem svo er ástatt um segir í 5. gr. frumvarpsins, yrðu ekki talin skilyrði til að veita reynslulausn, sbr. 2. málsl. 4. mgr. 63. gr. laga nr. 49/2005. Þar segir að ekki skuli veita reynslulausn, nema sérstakar ástæður mæli með því, þegar reynslulausn telst „óráðleg vegna haga fangans eða með tilliti til almannahagsmuna, svo sem þegar hann hefur sýnt af sér mjög ámælisverða hegðun í afplánun eða er talinn hættulegur öðrum samkvæmt mati fagaðila“.
    Ef ákæruvaldið setur fram kröfu um beitingu öryggisráðstafana á grundvelli 5. gr. frumvarpsins að afplánun lokinni er það hlutverk dómara að meta hvort skilyrðum ákvæðisins sé fullnægt og þá hvort beita skuli vistun á geðdeild, viðeigandi heimili eða stofnun eða vægari ráðstöfunum á borð við eftirlit, þar á meðal rafrænt eftirlit, ákvörðun varðandi dvalarstað og vinnu, meðferð vegna áfengis- og/eða vímuefnanotkunar eða geðmeðferð. Sé ákveðið að beita vistun í máli manns, þá er gert ráð fyrir í 5. gr. frumvarpsins að heimilt verði að ákveða vistun í fangelsi, enda verði það ekki talið andstætt hagsmunum mannsins. Á þessi heimild einkum við þegar ákvörðun um að færa mann úr fangelsi, þar sem hann hefur afplánað refsidóm, í vistun á annarri stofnun, verði talin geta leitt til óæskilegrar röskunar á högum og andlegu ástandi manns að virtum atvikum öllum. Þetta fyrirkomulag er í samræmi við gildandi 67. gr., enda er þar vísað til 66. gr. um þær öryggisráðstafanir sem beita má.
    Það er ljóst að heimild 5. gr. frumvarpsins, eins og gildandi 67. gr. hegningarlaga, felur í sér frávik frá þeirri grundvallarreglu að maður skuli frjáls ferða sinna eftir að hafa lokið afplánun fangelsisdóms. Á hinn bóginn byggjast þessi ákvæði á því að hagsmunir samfélagsins áskilji að í lögum séu til staðar fullnægjandi heimildir til að bregðast með raunhæfum og virkum hætti við þeirri hættu sem stafar frá manni sem verulegar líkur eru á að muni fremja alvarleg brot þegar að lokinni afplánun í ljósi fyrirliggjandi upplýsinga um sakaferil hans og andlegt ástand við lok afplánunar. Samkvæmt þessu er, eins og greinir í III. kafla í almennum athugasemdum hér að framan, í e-lið 1. mgr. 5. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, beinlínis gert ráð fyrir því að ein tegund heimilaðra undantekninga frá almennum rétti manna til frelsis og mannhelgi er „lögleg gæsla [...] manns sem er andlega vanheill“.
    Ljóst er að sú byrði hvílir á ákæruvaldinu að sýna dómara fram á að skilyrði 5. gr. frumvarpsins sé fullnægt og verður þá að ætla að fyrir liggi meðal annars viðhlítandi upplýsingar af sérfræðilegum toga um andlegt ástand hlutaðeigandi manns og undanfarandi breytni hans á meðan á afplánun hefur staðið. Ljóst er að heimild 5. gr. frumvarpsins á fyrst og fremst við í alvarlegum undantekningartilvikum. Þar má til dæmis nefna þau tilvik þar sem álitamál kann að hafa risið um sakhæfi dómþola við refsimeðferð máls þar sem ákært hefur verið fyrir gróft ofbeldis- eða kynferðisbrot, en niðurstaða dóms hafi verið sú að dómþoli hafi verið sakhæfur og því fangelsisrefsing dæmd. Við afplánun hafi andlegt ástand og breytni dómþola jafnframt veitt skýrar vísbendingar um að hætta kunni að vera á því að hann muni drýgja alvarleg brot að nýju þegar afplánun lýkur. Vegna þessa hafi t.d. verið talið nauðsynlegt á meðan á afplánun hefur staðið að dómþoli sæti geðmeðferð eða jafnvel vistun á sérstakri stofnun vegna andlegs ástands hans. Gögn af sérfræðilegum toga skipta miklu máli við mat á því hvort skilyrði þættu til að beita 5. gr. frumvarpsins, svo sem hvort maður sé haldinn alvarlegum skapgerðartruflunum, sem t.d. komi fram í afbrigðilegum kynferðislegum athöfnum og/eða óhóflegri vímugjafanotkun, og hvort líkur séu á því að ráða megi þar bót á með læknisfræðilegum aðferðum. Þá skiptir einnig eðli máls samkvæmt máli að leggja mat á umfang og eðli þess ofbeldis- eða kynferðisbrots eða -brota, sem maður hefur verið dæmdur fyrir, og þá t.d. hvort um síbrotamann sé að ræða.
    Það skal ítrekað að ekki er sjálfgefið að ástæða sé til að beita öryggisráðstöfunum í formi vistunar á geðdeild, viðeigandi heimili eða stofnun skv. 5. gr. frumvarpsins. Nægjanlegt kann að vera að beita vægari ráðstöfunum á borð við eftirlit, þar á meðal rafrænt eftirlit, ákvörðun um dvalarstað og læknisfræðilega meðferð. Sem dæmi má nefna að þegar maður hefur verið dæmdur fyrir alvarleg kynferðisbrot gegn börnum, og verulegar líkur eru taldar á því að hann muni fremja slík brot að nýju að lokinni afplánun, kæmi til greina að mæla fyrir um rafrænt eftirlit í því formi að á honum sé jafnan tæknilegur búnaður svo unnt sé að fylgjast með ferðum hans. Samhliða því sé mælt fyrir um bann við því að hann komi nálægt þeim stöðum þar sem börn eða hópur barna er til staðar, t.d. við leik- eða grunnskóla. Um rafrænt eftirlit að öðru leyti, sem öryggisráðstöfun, vísast nánar til athugasemda við 2. gr. frumvarpsins. Það skal áréttað að hér er ekki verið að mæla fyrir um notkun rafræns eftirlits sem fullnustuúrræðis, en slíkt ákvæði er að finna lögum nr. 49/2005, um fullnustu refsinga, sbr. lög nr. 129/2011, eins og áður hefur verið rakið.

Um 6. gr.

    Í ákvæðinu er fjallað um skipun tilsjónarmanns manns sem dæmdur hefur verið til að sæta vistun á geðdeild, viðeigandi heimili eða stofnun. Er það í samræmi við það fyrirkomulag sem er í gildandi löggjöf. Ekki er talin þörf á skipun tilsjónarmanns þegar maður er látinn sæta vægari ráðstöfunum en vistun. Er þá einnig haft í huga að skv. 7. gr. frumvarpsins er sú skylda lögð á ákæruvaldið að gæta þess að ráðstafanir vari ekki lengur eða séu umfangsmeiri en nauðsyn krefur. Einnig verður það hlutverk Fangelsismálastofnunar, sbr. 1. mgr. 8. gr. frumvarpsins, að gæta hagsmuna þess manns, sem í hlut á, við framkvæmd öryggisráðstafana.
    Samkvæmt 1. mgr. er dómstól skylt að skipa manni sem dæmdur hefur verið til vistunar á geðdeild, viðeigandi heimili eða stofnun skv. 2. mgr. 62. gr. tilsjónarmann. Ekki er sem fyrr greinir gert ráð fyrir skipun tilsjónarmanns þegar beitt er vægari úrræðum en vistun. Tilsjónarmaður hefur það hlutverk að fylgjast með ástandi viðkomandi og gæta þess að vistunin og aðrar ráðstafanir sem ákvarðaðar eru vari ekki lengur en nauðsyn krefur. Skipun hans er ótímabundin, en lýkur þegar vistun er felld niður.
    Í 2. mgr. er gert ráð fyrir að innanríkisráðherra setji reglugerð með nánari ákvæðum um skipun tilsjónarmanns, hlutverk hans og heimildir, sem og um þóknun hans sem greiðist úr ríkissjóði.

Um 7. gr.

    Í 1. mgr. er lagt til að sú skylda verði lögð á ákæruvaldið að gæta þess að ráðstafanir sem dæmdar eru skv. 62.–64. gr. vari ekki lengur eða séu umfangsmeiri en nauðsyn krefur. Sambærilegt ákvæði er ekki að finna í núgildandi löggjöf, en í því felst að ákæruvaldinu ber að fylgjast með ástandi viðkomandi og fara fram á að dómstóll breyti ráðstöfunum eða felli þær niður ef svo ber undir í samræmi við 3. mgr. Þar sem lagt er til grundvallar í 1. mgr. 8. gr. frumvarpsins að Fangelsismálastofnun beri ábyrgð á því að úrskurði um beitingu öryggisráðstafana skv. 62.–64. gr. sé framfylgt er ljóst að náið samráð verður að vera á milli ákæruvaldsins og stofnunarinnar við meðferð þessara mála. Um það efni verður að fjalla nánar í reglugerð sem innanríkisráðherra ber að setja á grundvelli 2. mgr. 8. gr. frumvarpsins, eins og nánar verður rakið hér síðar.
    Í 2. mgr. er vikið að breytingum og lausn úr ótímabundinni vistun. Samkvæmt ákvæðinu skal ákæruvaldið leita úrskurðar dómstóls eigi síðar en fimm árum eftir uppkvaðningu dóms um hvort vistunin teljist lengur nauðsynleg eða hvort henni skuli breytt, nema krafist hafi verið úrskurðar innan síðustu tveggja ára. Síðan skal ákæruvaldið leita dómsúrskurðar á a.m.k. tveggja ára fresti og er þannig tryggt að endurskoðun dómstóla á ákvörðun um ótímabundna vistun fari reglulega fram.
    Í 1. málsl. 3. mgr. er lagt til að ákæruvaldið, dómþoli, tilsjónarmaður hans, geðdeild, heimili eða stofnun þar sem viðkomandi er vistaður eða Fangelsismálastofnun geti krafist úrskurðar dómstóls um hvort breyta skuli ráðstöfunum skv. 62.–64. gr. eða fella þær niður. Gert er ráð fyrir að hægt sé að krefjast slíks úrskurðar hvenær sem er eftir að ákvörðun hefur verið tekin og óháð eðli þeirra ráðstafana sem viðkomandi hefur verið gert að sæta. Tillagan felur í sér umtalsverða rýmkun á heimild til að krefjast dómsúrskurðar um breytingu eða afnám öryggisráðstafana. Í núgildandi lögum er aðeins gert ráð fyrir að ráðherra eða tilsjónarmaður dómþola geti farið fram á úrskurð dómstóls um hvort ráðstafanir skv. 62. gr. séu lengur nauðsynlegar. Þá getur ákæruvaldið ávallt krafist dómsúrskurðar vegna ráðstafana skv. 66. gr., en dómþoli aðeins gert slíka kröfu að liðnum sex mánuðum frá uppkvaðningu dóms eða fyrr með samþykki ákæruvaldsins. Í 2. málsl. er fjallað um málsmeðferð ef aðrir aðilar en ákæruvaldið vilja leita dómsúrskurðar. Ítrekað er að sú skylda hvílir á ákæruvaldinu að leggja fram kröfu fyrir hönd þeirra aðila sem eiga málsóknarrétt skv. 1. málsl. Í 3. málsl. er heimild dómþola eða tilsjónarmanns hans til að krefjast dómsúrskurðar takmörkuð með þeim hætti að þeir geta ekki krafist úrskurðar á ný fyrr en að liðnu ári frá uppkvaðningu úrskurðar hafi beiðni þeirra verið hafnað.
    Í 4. mgr. er tekið fram að úrskurðir samkvæmt ákvæðinu sæti kæru til Hæstaréttar samkvæmt reglum um kæru í sakamálum. Þá er jafnframt áréttað að þeir aðilar, sem hafa óskað eftir því að krafa sé sett fram skv. 3. mgr., eigi rétt á að kæra úrskurð til Hæstaréttar, en að ákæruvaldið leggi fram slíka kröfu. Jafnframt er tekið fram að kæra á úrskurði um að breyta eða fella ráðstöfun úr gildi fresti réttaráhrifum hans.

Um 8. gr.

    Í ákvæðinu er fjallað um skyldur og hlutverk Fangelsismálastofnunar og velferðarráðuneytis við beitingu öryggisráðstafana. Í 1. mgr. er lagt til að Fangelsismálastofnun beri ábyrgð á því að dómi eða úrskurði um beitingu ráðstafana skv. 62., 63. og 64. gr., sbr. 2., 4. og 5. gr. frumvarpsins, sé framfylgt og er gert ráð fyrir að stofnunin skuli, ef þörf krefur, hafa samráð við velferðarráðuneytið um framkvæmdina. Áréttað er að velferðarráðuneytinu verði skylt að sjá til þess að fyrir hendi séu vistunarúrræði skv. 2. mgr. 62. gr., en það felur ekki í sér breytingu á núgildandi fyrirkomulagi. Í frumvarpi þessu er gert ráð fyrir því að þegar maður er sýknaður samkvæmt ákvæðum 15. gr. almennra hegningarlaga eða niðurstaða dóms er sú að refsing sé árangurslaus, sbr. 16. gr., skuli þegar nauðsyn þykir til vegna réttaröryggis gera ráðstafanir til að fyrirbyggja frekari afbrot. Þegar vægari ráðstafanir teljast ekki fullnægjandi má ákveða að maður skuli vistaður á geðdeild, viðeigandi heimili eða stofnun. Í þessu felst að ekki er tekin afstaða til þess á hvers konar stofnun skuli vista menn þegar vistun þykir nauðsynleg samkvæmt framansögðu. Þörf er hins vegar á því að skýrt liggi fyrir hvaða stjórnvald beri stjórnarfarslega ábyrgð á því að viðeigandi úrræði samkvæmt hegningarlögum séu til staðar á hverjum tíma þannig að þær efnisreglur sem hér er mælt fyrir um verði raunhæfar og virkar í framkvæmd. Miðað er við að það fari eftir forsendum ákvörðunar um vistun, á hvers konar stofnun viðkomandi skuli dvelja, sbr. t.d. dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá 31. maí 2002 þar sem niðurstaðan var sú að vista ætti ákærða á heimili eða sambýli þar sem heimilismönnum væri veitt þjónusta allan sólarhringinn. Í frumvarpi þessu felast þannig engin áform um breytingar á valdmörkum ráðuneyta eða stofnana. Að sama skapi er ekki gert ráð fyrir því að Fangelsismálastofnun hafi nokkuð með inntak vistunar að gera heldur er stofnuninni falin stjórnsýsluleg ábyrgð á því að ákvörðun dómstólsins komi til framkvæmdar.
    Í 2. mgr. er lagt til að innanríkisráðherra setji í reglugerð nánari fyrirmæli um hlutverk og skyldur Fangelsismálastofnunar við framkvæmd ákvarðana skv. 1. mgr. og um inntak ráðstafana skv. 62., 63. og 64. gr., þar á meðal um nánara fyrirkomulag vistunar, um málsmeðferð og um leyfi til skammtímadvalar utan vistunarstaðar, að höfðu samráði við velferðarráðherra. Í reglugerðinni verði m.a. fjallað um framkvæmd rafræns eftirlits.

Um 9. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal I.


Dómaframkvæmd um beitingu 62.–67. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.


Dómur aukaréttar Reykjavíkur frá 19. desember 1928, mál nr. 67/1928.
    Maður var ákærður fyrir að hella saltsýru upp í munninn á 11 mánaða gömlum syni sínum í þeim tilgangi að deyða hann. Um ástæður verknaðarins var á ákærða helst að skilja að honum hafi þótt móðir barnsins ekki vera nógu góð við sig og að hann hafi því viljað hefna sín á henni með því að skaða barnið. Þá hafi hann séð eftir meðlagi með barninu og jafnvel efast um að það væri rétt feðrað. Í skýrslu geðlæknis kom fram að ákærði væri geðveikur einfeldningur með þroska á við 8–10 ára barn. Hann gæti verið hættulegur umhverfi sínu, sérstaklega þegar hann væri undir áhrifum áfengis. Í niðurstöðu aukaréttar kom m.a. fram að ákærði gæti ekki talist hæfur til þess að taka út hegningu og yrði því eftir 39. gr. almennra hegningarlaga frá 1869 (núgildandi 15. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940) að telja verknað hans vítalausan. Hins vegar þótti læknisvottorð bera þess ljósan vott, að nauðsynlegt væri að dæma ákærða til að hlíta því að gerðar yrðu um hann ráðstafanir til að enginn háski hlytist af honum. Var sú niðurstaða staðfest í Hæstarétti.

Hrd. 1948, bls. 181.
    Þrír menn, E, H og L, voru ákærðir fyrir að falsa ávísanir. Geðlæknir og læknaráð töldu að ákærði L væri ekki geðveikur, en hins vegar væri hann vanþroska einfeldningur með vitsmunalegan þroska sem svaraði til 9–11 ára barns. Refsing væri því sennilega þýðingarlaus. Héraðsdómur var sammála mati geðlæknis og gerði ákærða L ekki refsingu fyrir brot sitt með vísan til 16. gr. hegningarlaga. Þá þótti dómnum ekki ástæða til vegna réttaröryggis að gera neinar ráðstafanir skv. 62. gr. laganna gagnvart honum. Við áfrýjun málsins var leitað eftir áliti læknaráðs um sakhæfi ákærða L, sem tók undir niðurstöðu geðlæknisins. Hæstiréttur taldi hins vegar að þegar framburðir ákærða L væru athugaðir, og þau gögn sem fyrir lægju um störf og æviferil hans, þætti eftir atvikum mega ætla að refsing gæti borið árangur. Var hann því dæmdur í 5 mánaða fangelsi.

Hrd. 1949, bls. 291.
    Maður var ákærður fyrir manndráp og tilraun til manndráps, en hann gekk berserksgang inn í skála hjá fjölskyldu, stakk ungabarn til bana með beittu saxi og særði systur þess og móður lífshættulega. Um andlega heilsu ákærða sagði læknaráð að ákærði hefði fengið geðveikisköst fyrir og eftir brotið en þess á milli virtist hann ekki hafa verið geðveikur. Töldu sérfræðingar ákærða ekki geta talist geðveikan að staðaldri, en hann væri geðveill og það ástand væri varanlegt. Enn fremur væri sú hætta á ferð að hann gæti misst stjórn á sér og unnið óhappaverk og orðið þannig hættulegur umhverfi sínu. Var niðurstaða lækna því sú að ákærði hefði verið í því ástandi á verknaðarstund sem lýst er í 16. gr. hegningarlaga og að mjög vafasamt væri að refsing gæti borið árangur. Var héraðsdómur sammála mati geðlæknis og taldi 16. gr. laganna eiga við um ákærða en gerði honum ekki refsingu. Hins vegar var hann dæmdur til að sæta gæslu á viðeigandi hæli með vísan til 62. gr. hegningarlaga. Hæstiréttur komst að annarri niðurstöðu um áhrif hinnar andlegu vanheilsu á gerðir sakbornings. Í ljósi þess að ákærði hefði fengið brjálsemisköst fyrir og eftir brotið, ekki hafi verið í ljós leitt neitt annað tilefni en brjálsemi til hins ægilega glæps, árásin hafi verið framin án nokkurrar leyndar og að tilviljun hafi ráðið því hver eða hverjir urðu fyrir henni mátti telja víst að ákærði hafi verið alls ófær um að stjórna gerðum sínum, er hann vann verkið. Var ákærða því skv. 15. gr. hegningarlaga ekki refsað fyrir verknaðinn. Vegna andlegs ástands ákærða væri mikil hætta á því að hann gæti hvenær sem er misst stjórn á sjálfum sér og framið ódæðisverk. Hann væri því mjög hættulegur umhverfi sínu og bæri nauðsyn til að honum væri að óbreyttu ástandi haldið í öruggri gæslu ævilangt. Var hann því með stoð í 62. gr. hegningarlaga dæmdur til að sæta öryggisgæslu.

Hrd. 1950, bls. 253.
    Maður var ákærður fyrir brennu, en hann reikaði um ölvaður og kveikti í húsum og munum. Geðlæknir og læknaráð komust að þeirri niðurstöðu að andlegt ástand ákærða hafi verið með þeim hætti að 16. gr. hegningarlaga ætti við fremur en 15. gr. Hvorki ráðið né læknirinn treystu sér þó til að segja til um hvort refsing mundi bera árangur. Héraðsdómur var sammála því að 16. gr. hegningarlaga ætti við um ákærða en með hliðsjón af málavöxtum, og þar sem geðlæknirinn taldi að ákærði hefði framið brotin vegna veiklunar heilans af bráðri heilabólgu samfara eiturverkunum áfengis, sem leyst hafi eldsýki úr læðingi, væri litið svo á að refsing ákærða til handa gæti ekki borið árangur. Þar sem ákærði þótti hins vegar hættulegur umhverfi sínu var hann dæmdur til að sæta öryggisgæslu skv. 62. gr. hegningarlaga. Hæstiréttur taldi að geðtruflanir ákærða hefðu verið á svo háu stigi er hann framdi brot sín að ekki væri unnt að dæma honum refsingu, sbr. 15. gr. hegningarlaga. Hins vegar væri hætta á því að hann mundi fremja sams konar brot og í máli þessu ef hann væri látinn laus. Vegna almannaöryggis var því talið nauðsynlegt að honum væri að óbreyttu ástandi haldið í öruggri gæslu skv. 62. gr. hegningarlaga.

Hrd. 1956, bls. 657.
    Maður var ákærður fyrir ýmis brot, svo sem þjófnað, ólöglega neyslu áfengis og hnupl. Taldi geðlæknir ákærða fávita og geðveilan. Hann væri hins vegar ekki geðveikur og því sennilegt að refsing gæti borið nokkurn árangur. Féllust bæði héraðsdómur og Hæstiréttur á það mat og dæmdu hann til fangelsisrefsingar.

Dómur Sakadóms Reykjavíkur frá 10. mars 1966, mál nr. 112/1966.
    Maður var ákærður fyrir stórfellda líkamsárás með því að slá eiginkonu sína í höfuðið með flösku með þeim afleiðingum að hún hlaut bana af, en fyrir atlöguna höfðu þau verið við drykkju. Í niðurstöðu geðlæknis kom fram að ákærði væri hvorki geðveikur maður né geðvilltur, heldur vangefinn, nánar tiltekið fáviti tæplega á þroskastigi 5 ára barns. Væri ekki um sakhæfi að ræða hjá svona vanþroska einstaklingi. Samkvæmt mati sakadóms var ekki talið að ákærði hefði verið alls ófær til að stjórna gerðum sínum sem mundi leiða til sýknu skv. 15. gr. hegningarlaga. Hins vegar væri augljóst að andlegu ástandi ákærða væri svo háttað að refsing gæti ekki borið árangur. Með hliðsjón af 16. gr. hegningarlaga þætti rétt að ákveða að hann skyldi sæta vist á viðeigandi hæli skv. 62. gr. hegningarlaga.

Dómur Sakadóms Reykjavíkur frá 26. október 1971, mál nr. 446/1971.
    Maður var ákærður fyrir manndráp með því að svipta eiginkonu sína lífi með hnífsstungum á heimili þeirra. Í niðurstöðu geðlæknis kom m.a. fram að ákærði væri haldinn geðklofa, en sjúklingar af þeirri tegund geti fengið skyndileg æðisköst gagnvart áreiti sem taki til ranghugmynda þeirra eða ofskynjana og missi þeir þá oft fullkomlega vald á sjálfum sér og fremji stjórnlausa verknaði. Að mati læknisins hefði ákærði verið í slíku æðiskasti þegar hann framdi verknaðinn og hefði því verið alls ófær um að stjórna gerðum sínum. Var hann því talinn ósakhæfur. Sakadómur leitaði umsagnar læknaráðs sem féllst á niðurstöðu geðlæknisins. Sakadómur lagði þá niðurstöðu til grundvallar og taldi rétt að sýkna ákærða með hliðsjón af 15. gr. hegningarlaga. Þegar hins vegar væri litið til hins alvarlega verknaðar og þess sem fram hafi komið um geðhagi ákærða þætti nauðsynlegt, réttaröryggis vegna, að dæma hann til þess að sæta öryggisgæslu skv. 62. gr. hegningarlaga.

Dómur Sakadóms Reykjavíkur frá 11. apríl 1972, mál nr. 150/1972.
    Maður var m.a. ákærður fyrir tilraun til manndráps með því að ráðast á móður sína og stinga hana í bakið með sveðju, en af hlaust mikið stungusár. Í málinu lágu fyrir tvö vottorð um geðheilbrigði ákærða. Í öðru þeirra kom fram að ákærði væri haldinn meiri háttar geðveiki og hlyti því að teljast ósakhæfur. Í hinu vottorðinu var ákærði ekki talinn geðveikur, heldur geðvilltur af kleyfhuga manngerð, lítt greindur og tilfinningasljór. Leitað var umsagnar læknaráðs sem féllst á hina síðari niðurstöðu og taldi ákærða sakhæfan. Sakadómur komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að ástand ákærða hefði á verknaðarstundu verið með þeim hætti að hann hafi eigi verið sjálfráður gerða sinna og bæri því með hliðsjón af 15. gr. hegningarlaga að sýkna hann. Þegar hins vegar væri litið til þess hversu alvarlegir verknaðir ákærða voru og að líkindi stæðu til þess að hann gæti orðið hættulegur umhverfi sínu og jafnvel sjálfum sér þætti með vísan til réttaröryggissjónarmiða rétt að dæma hann til að sæta öryggisgæslu skv. 62. gr. hegningarlaga.

Hrd. 1973, bls. 442.
    Maður var ákærður m.a. fyrir fjárdrátt og skjalafals með því að kaupa svefnbekk án þess að vera borgunarmaður fyrir honum, að selja hann tiltekinni verslun og með því að falsa nafn móður sinnar á skuldabréf. Geðlæknir taldi ákærða haldinn geðvillu sem hafi haft í för með sér andfélagslegar tilhneigingar. Niðurstaða héraðsdómara, stutt mati læknisins, var að ákærði hafi ekki verið haldinn geðveiki, andlegum vanþroska eða hrörnun. Var niðurstaða læknisins að ákærði væri afbrigðilegur persónuleiki með gallaða skapgerð og því sakhæfur. Var hann dæmdur í eins árs fangelsisvist í héraðsdómi og Hæstarétti.

Hrd. 1973, bls. 912.
    Maður var ákærður fyrir nokkur brot, m.a. fyrir tilraun til manndráps og líkamsmeiðingar. fór hann að heimili fyrrverandi tengdamóður sinnar með haglabyssu og skotfæri og hóf skothríð. Hæfði hann tengdamóður sína víðsvegar um líkamann auk þess sem hann skaut fótinn undan manni sem hafði reynt að yfirbuga hann. Niðurstaða geðlæknis var sú að ákærði hafi hvorki verið geðveikur né fáviti, heldur hafi hann verið geðvilltur maður haldinn verulegur skapgerðargöllum, sem hafi einkennst af áberandi hömluleysi og ofstopa. Hafi einkennin orðið margfalt verri við áfengisneyslu. Þó svo hann hafi verið mjög drukkinn taldist það þó ekki rýra sakhæfi mannsins, jafnvel þó viðbrögð hans hafi verið fjarstæðukennd. Hafi ákærði mátt þekkja sjálfan sig af því að vera algerlega hömlulaus ofstopamaður undir áfengisáhrifum og hafi hann einnig fullkomlega skilið samhengið milli skotárásar og sektardóms. Héraðsdómur féllst á mat læknisins um að ákærði hefði verið sakhæfur þrátt fyrir geðveilu sína og stórfellda vankanta í skapgerð og dæmdi hann til 12 ára fangelsisvistar, sem Hæstiréttur mildaði í 8 ár.

Dómur Sakadóms Reykjavíkur frá 20. júní 1974, mál nr. 312/1974.
    Maður var ákærður fyrir að svipta móður sína lífi með því að stinga hana með hnífi í bak og brjóst og skera hana á háls á heimili þeirra. Í niðurstöðu geðlæknis sem var staðfest af læknaráði kom fram að ákærði hefði haft einkenni um geðrænar truflanir frá fermingaraldri og verið talinn geðsjúkur frá 25 ára aldri. Hann hefði af og til haft ranghugmyndir og gæti ekki talist sakhæfur. Sakadómur féllst á að ákærði hefði framið verknaðinn í geðveikiskasti og hafi verið ófær um að stjórna gerðum sínum á verknaðarstundu. Að mati dómsins væri ákærði því ósakhæfur og bæri að sýkna hann með hliðsjón af 15. gr. hegningarlaga. Þegar litið væri hins vegar til þess hve verknaður ákærða væri alvarlegur, svo og til þess sem fram hafi komið um geðveiki hans, þætti nauðsyn til bera vegna réttaröryggis, að dæma hann til að sæta öryggisgæslu skv. 62. gr. hegningarlaga.

Dómur Sakadóms Reykjavíkur frá 16. maí 1975, mál nr. 462/1975.
    Maður var ákærður fyrir manndráp með því að stinga annan mann margar stungur í brjóst og kvið þannig að hann hlaut bana af. Þá var hann ákærður fyrir manndrápstilraun með því að stinga annan mann mörgum hnífsstungum í brjóst og kvið í því skyni að svipta hann lífi. Í niðurstöðu geðlæknis kom m.a. fram að ákærði væri vangefinn, auk þess sem hann væri mállaus og heyrnarlaus. Að mati læknisins var ákærði ekki sakhæfur. Sakadómur féllst á þá niðurstöðu og taldi ákærða ekki ábyrgan gerða sinna í skilningi 15. gr. hegningarlaga. Hins vegar þegar litið væri til alvarlegs eðlis verknaða ákærða, svo og til þess sem fram hafi komið um sakhæfi hans, þætti nauðsynlegt vegna réttaröryggis að dæma hann til að sæta öryggisgæslu skv. 62. gr. hegningarlaga.

Dómur Sakadóms Reykjavíkur frá 16. desember 1975, mál nr. 902/1975.
    Kona var ákærð fyrir að svipta unnusta sinn lífi með því að stinga hann með hnífum og/eða skærum á háls, öxl og í viðbein. Þá var hún ákærð fyrir stórfellda líkamsárás fyrir að stinga mann með vasahníf í bak, brjóstkassa og augabrún. Í niðurstöðu geðlæknis kom fram að ákærða væri sakhæf, en á verknaðarstundu hafi hún ekki getað gert sér fulla grein fyrir gerðum sínum. Leitað var umsagnar læknaráðs sem tók undir niðurstöðu geðlæknisins um að ákærða hefði verið ófær á verknaðarstundu um að stjórna gerðum sínum. Sakadómur komst að þeirri niðurstöðu að andlegt heilbrigði ákærðu hafi verið með þeim hætti sem lýst er í 15. gr. hegningarlaga. Var henni því ekki refsað, en með hliðsjón af réttaröryggissjónarmiðum og eðlis verknaðanna þótti rétt að dæma hana til að sæta öryggisgæslu skv. 62. gr. hegningarlaga.

Hrd. 1978, bls. 225.
    Maður var ákærður fyrir manndráp, en hann braust inn í skotfæraverslun og tók þaðan haglabyssu ófrjálsri hendi. Mætti hann stuttu síðar manni á gangi og eftir að hafa spurt hann nokkurra spurninga skaut ákærði manninn í andlitið sem féll til jarðar og greip um andlit sitt. Hleypti ákærði þá tveimur skotum til viðbótar í hnakka mannsins sem lést samstundis. Niðurstaða geðlæknis var sú að ákærði væri haldinn alldjúpstæðum persónuleikatruflunum, svokallaðri geðvillu. Engin ótvíræð merki um meiri háttar geðveiki hafi þó komið fram og taldist hann því sakhæfur. Héraðsdómur var sammála því mati og dæmdi ákærða í 16 ára fangelsi, en Hæstiréttur lækkaði þá refsingu í 12 ár, m.a. vegna ungs aldurs ákærða.

Hrd. 1979, bls. 681.
    Maður var ákærður fyrir að svipta unnustu sína lífi með haglabyssu í bíl við Rauðhóla og reyndi í kjölfarið að taka eigið líf, en unnustan hafði tjáð honum að hún hefði ákveðið að slíta sambandi þeirra. Í mati geðlæknis kom fram að ákærði hefði hvorki verið haldinn geðveiki né fávitahætti. Hann hafi hins vegar verið haldinn miklum persónuleika- og skapgerðargalla. Var héraðsdómur sammála því mati og dæmdi ákærða í 16 ára fangelsi. Við áfrýjun málsins var óskað eftir áliti læknaráðs. Þar var tekið undir að ákærði hefði verið með mikla persónuleika- og skapgerðargalla þegar hann framdi brotið. Það ástand hans hafi hins vegar ekki verið á því stigi sem greinir í 15. gr. hegningarlaga, heldur mundi frekar falla undir 16. gr. hegningarlaga. Var niðurstaða læknaráðs því sú að ákærði væri sakhæfur og að refsing gæti líklega borið árangur. Var Hæstiréttur sammála sakhæfismatinu en mildaði dóminn í 14 ára fangelsisrefsingu.

Hrd. 1980, bls. 883.
    Tveir menn voru ákærðir fyrir að verða manni að bana í fangaklefa með því að bregða mittisól um háls hans og kýla hann í andlitið. Báðir hinir ákærðu sem og hinn látni voru ofurölvi á verknaðarstundu en tilefni árásarinnar var óljóst. Annar mannanna sagði að einhver brjálsemi hefði gripið hann í klefanum. Héraðsdómur tók undir mat geðlæknis og taldi mennina sakhæfa en gerði hvorugum refsingu með vísan til 16. gr. hegningarlaga. Hins vegar þótti ástæða til að dæma þá til að sæta öruggri gæslu skv. 62. gr. Hæstiréttur var sammála sakhæfismati héraðsdóms, sem og áliti læknaráðs sem hafði verið aflað eftir uppsögu héraðsdóms, en taldi hins vegar með vísan til 16. gr. hegningarlaga rétt að dæma þá hvorn um sig til 8 ára fangelsisrefsingar.

Dómur Sakadóms Reykjavíkur frá 30. maí 1980, mál nr. 288/1980.
    Maður var ákærður fyrir manndráp með því að veitast að móður sinni og svipta hana lífi á heimili þeirra með því að slá hana margsinnis með þungum kertastjaka í höfuðið þannig að bani hlaust af. Í niðurstöðu geðlæknis kom m.a. fram að ákærði væri ekki fáviti, en hann hafi þjáðst af geðklofa og verið svo illa haldinn af þeim sjúkdómi sem hafi hjá honum einkennst af sinnuleysi, flötum geðhrifum, ranghugmyndum og ofskynjunum, þegar morðið var framið, að hann hafi ekki gert sér grein fyrir eðli verknaðarins. Mat geðlæknir ákærða ósakhæfan. Sakadómur tók undir þetta mat og taldi að ákærði hefði verið með öllu ófær um að stjórna gerðum sínum, þar sem verkið hafi verið unnið í geðveikiskasti. Var ákærði því sýknaður með vísan til 15. gr. hegningarlaga en dómnum þótti nauðsyn til að gera ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir að háski stafaði af ákærða. Var hann því dæmdur til að sæta öryggisgæslu á viðeigandi stofnun.

Hrd. 1983, 1234.
    Maður var ákærður fyrir manndráp. Fór hann heim með manni sem hann hitti á skemmtistað. Gaf maðurinn ákærða marihuana að reykja og róandi töflur. Vaknaði ákærði síðan við að maðurinn var að hafa við hann mök. Kvaðst ákærða hafa brugðið og orðið skelfingu lostinn. Hann hafi náð í skæri og stungið manninn í líkama og auga með þeim afleiðingum að hann lést. Í mati geðlæknis kom fram að ákærði væri hvorki haldinn geðveiki né heldur væri hann fáviti, en hins vegar væri hann greindarskertur. Hann hefði hins vegar verið haldinn miklum persónuleikatruflunum. Var ákærði metinn sakhæfur sem staðfest var af læknaráði. Héraðsdómur staðfesti sakhæfismatið og dæmdi hann í 12 ára fangelsi en Hæstiréttur lækkaði þann dóm í 8 ára fangelsi.

Hrd. 1983, bls. 1608.
    Maður var ákærður fyrir að misþyrma stúlku hrottalega á lóð og í skúr við hús í Þverholti, en hann stakk hana m.a. víðsvegar um líkamann með skrúfjárni, barði hana með steini í höfuðið og bar logandi kveikjara að kynfærum hennar og brjóstum. Þá hafði hann í frammi tilburði við að hafa við hana samfarir rænulausa og skyldi hana þannig eftir, en afar kalt var í veðri. Geðrannsókn leiddi í ljós greinilega geðvilluskapgerð, kaldlyndi, kæruleysi, takmarkaða siðferðiskennd og vanhæfni að læra af reynslu. Einkenni um virka geðsjúkdóma hafi hins vegar ekki fundist og var hann því metinn sakhæfur. Bæði héraðsdómur og Hæstiréttur féllust á sakhæfismatið og dæmdu hann í 10 ára fangelsi.

Hrd. 1988, bls. 241.
    Maður var ákærður fyrir nokkur kynferðisbrot gegn ungum drengjum. Í mati geðlæknis um ástand ákærða kom fram að hann væri hvorki haldinn geðveiki né greindarskorti. Hins vegar væri hann haldinn alvarlegum persónuleikatruflunum sem komu fram í hömluleysi og lélegri hvatastjórn. Var hann dæmdur í héraðsdómi í 2½ árs fangelsi, en Hæstiréttur dæmdi hann í 9 mánaða fangelsi, en að lokinni refsivist ætti hann að gangast undir 15 mánaða vist á viðeigandi hæli til lækningar með vísan til 65. gr. almennra hegningarlaga.

Hrd. 1988, bls. 1604.
    Maður var ákærður fyrir að verða öðrum að bana með því að hafa snúið eða hert hálsbindi að hálsi mannsins í átökum þeirra á milli. Að mati geðlæknis var ekki talið að ákærði væri haldinn formlegri geðveiki né greindarskorti. Hins vegar hafi greinst merki um persónuleikatruflanir, skapgerðarbresti ásamt einkennum taugaveiklunar. Auk þess var ljóst að ákærði hafi um margra ára bil átt við að stríða áfengissýki og lyfjafíkn. Var hann því talinn sakhæfur. Í héraðsdómi var tekið undir sakhæfismatið og ákærði dæmdur til 10 ára fangelsisrefsingar, en Hæstiréttur þyngdi þann dóm í 12 ár.

Hrd. 1989, bls. 442.
    Kona var ákærð fyrir tilraun til manndráps fyrir að hafa stungið fyrrverandi sambýlismann sinn í brjóst og háls, en þau höfðu átt í stormasamri sambúð. Samkvæmt áliti geðlæknis var ekki talið að ákærða væri haldin formlegri geðveiki né heldur greindarskorti. Hins vegar hafi hún átt við að stríða alvarlegar persónuleikatruflanir, sem hafi m.a. lýst sér í alvarlegum atferlisvandkvæðum allt frá bernsku, lélegri skóla- og atvinnusókn, áfengissýki og fíkniefnaneyslu auk almenns rótleysis í lífsháttum. Var hún því talin sakhæf. Dæmdi héraðsdómur hana í 4 ára fangelsi sem Hæstiréttur lækkaði í 2½ ár.

Hrd. 1989, bls. 634.
    Maður var ákærður fyrir að verða sambýliskonu sinni að bana í átökum þeirra með því að vefja böndum eða köðlum um háls hennar þannig að hún kafnaði, en á verknaðarstundu voru þau orðin talsvert ölvuð og þreytt af langvarandi drykkju. Samkvæmt mati geðlæknis var ákærði ekki haldinn formlegri geðveiki né greindarskorti. Hins vegar benti lífsferill hans ásamt niðurstöðu persónuleikaprófa til þess að ákærði hafi átt við nokkrar persónuleikatruflanir að stríða samfara skapgerðarbrestum. Var hann því metinn sakhæfur. Var fallist á sakhæfismatið og ákærði dæmdur í 8 ára fangelsi í héraðsdómi sem Hæstiréttur þyngdi í 10 ár.

Hrd. 1989, bls. 1540, mál nr. 87/1989.
    Maður var ákærður fyrir tilraun til manndráps með því að skera annan mann á háls með hnífi. Í áliti geðlæknis kom m.a. fram að ákærði væri haldinn geðsjúkdómi, sem jaðri við geðklofa, og komist á köflum í raunverulegt geðveikisástand. Vegna hinna sterku andfélagslegu þátta í skapgerð ákærða og stjórnlausra árásarhvata, sem gætu brotist út samfara truflunum í hugmyndalífi, gæti hann að líkindum verið hættulegur umhverfi sínu. Var talið að sjúkdómurinn versnaði við vímuefnaneyslu. Samkvæmt þessu og með skírskotun til 15. og/eða 16. gr. hegningarlaga var niðurstaða héraðsdóms sú að ákærða yrði ekki dæmd refsing. Hins vegar væri nauðsynlegt að gera ráðstafanir til þess að varna því að háski verði af honum og bæri því skv. 62. gr. hegningarlaga að ákveða að hann skyldi sæta öruggri gæslu á viðeigandi stofnun. Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms.

Hrd. 1990, bls. 991.
    Maður var ákærður fyrir manndráp með því að hafa svipt fyrrum leigusala sinn lífi á heimili þess síðarnefnda með því að stinga hann og skera á háls. Árásin var tilefnislaus en mátti rekja til geðveiki ákærða og ranghugmynda um hinn látna. Risti hann m.a. upp kviðinn á líkinu og ritaði með stórum stöfum fyrir ofan það orðin „Bader Meinhof“ með blóði þess. Héraðsdómur tók undir álit geðlæknis og taldi ákærða ósakhæfan og sýknaði hann með vísan til 15. gr. hegningarlaga. Ákærði var hins vegar dæmdur til að sæta öryggisgæslu á viðeigandi hæli skv. 62. gr. hegningarlaga og var sú niðurstaða staðfest í Hæstarétti.

Dómur Sakadóms Reykjavíkur frá 7. maí 1991, mál nr. 233/1991.
    Maður var ákærður fyrir manndráp með því að hafa svipt konu lífi í herbergi ákærða í sambýli fyrir þroskahefta með því að stinga hana mörgum hnífsstungum í brjóst og bak. Í niðurstöðu geðlæknis kom m.a. fram að ákærði væri ekki haldinn formlegri geðveiki. Hann væri hins vegar treggefinn, með skemmd í heila sem rekja mátti til heilablæðingar. Afleiðing þessarar skemmdar hafi afgerandi áhrif á hegðunarmunstur ákærða, persónuleika og skapgerð. Var niðurstaðan sú að ákærði var ekki talinn sakhæfur. Undir þetta tók sakadómur og taldi ákærða hafa verið alls ófæran um að stjórna gerðum sínum er hann vann umrætt voðaverk. Var hann því sýknaður með hliðsjón af 15. gr. hegningarlaga. Með vísan til hins alvarlega brots, sem og réttaröryggis, þótti rétt að dæma hann til að sæta öryggisgæslu á viðeigandi hæli skv. 62. gr. hegningarlaga.

Dómur Sakadóms Reykjavíkur frá 14. maí 1991, mál nr. 250/1991.
    Kona var ákærð fyrir manndráp með því að hafa svipt sambýlismann sinn lífi á heimili þeirra með því að stinga hann með flatningshnífi í brjóstholið, með þeim afleiðingum að honum blæddi út og lést nær samstundis. Ákærða hafði áður framið manndráp og verið dæmd til að sæta öryggisgæslu. Í niðurstöðu geðlæknis kom m.a. fram að ákærða hefði í nærfellt þrjá áratugi verið haldin formlegum geðsjúkdómi. Taldi hann sakhæfi hennar skert og ólíklegt að refsing mundi bera árangur. Mat hann ástand ákærðu þó eigi svo alvarlegt sem greinir í 15. gr. hegningarlaga, heldur ætti 16. gr. hegningarlaga fremur við. Sakadómur féllst á þetta mat og dæmdi ákærðu ekki refsingu með vísan til 16. gr. hegningarlaga. Hins vegar taldi dómurinn nauðsynlegt að gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir það að háski hlytist af ákærðu. Var hún því dæmd til að sæta öruggri gæslu á viðeigandi stofnun skv. 62. gr. hegningarlaga.

Dómur Sakadóms Reykjavíkur frá 31. maí 1991, mál nr. 300/1991.
    Maður var ákærður fyrir tilraun til manndráps með því að hafa stungið föður sinn með hnífi í brjóstið en stungan gekk í gegnum brjóstkassann og inn í lungað. Í niðurstöðu geðlæknis kom m.a. fram að ákærði væri haldinn formlegum geðsjúkdómi. Væri sakhæfi ákærða skert og ólíklegt að refsing mundi bera árangur. Sakadómur tók undir geðlæknismatið og taldi að geðhögum ákærða væri svo háttað að 16. gr. hegningarlaga ætti við og var ákærða ekki dæmd refsing. Með vísan til réttaröryggissjónarmiða þótti hins vegar nauðsynlegt að dæma hann til að sæta öryggisgæslu á viðeigandi hæli skv. 62. gr. hegningarlaga.

Hrd. 1993, bls. 1844.
    Kona var ákærð fyrir brennu með því að hafa kveikt í pappakössum og rusli í stigagangi á jarðhæð fjölbýlishúss svo að af hlaust eldsvoði, en í húsinu voru bæði börn og fullorðnir. Í mati geðlæknis kom m.a. fram að á þeirri stundu er verknaðurinn var framinn hefði geðslag ákærðu verið sjúklegt og hún væntanlega átt við ranghugmyndir að stríða þannig að dómgreind hennar og raunveruleikamat hefði verið skert. Í Hæstarétti kom fram að með hliðsjón af þeim læknisfræðilegu gögnum og umsögnum sem fyrir lágu bæri að fallast á það með héraðsdómara að ekki væru efni til þess að ætla að refsing bæri árangur gagnvart ákærðu. Var henni því ekki gerð refsing, sbr. 16. gr. hegningarlaga, en varakröfu ákæruvaldsins um öryggisgæslu skv. 62. gr. var vísað frá þar sem hana var ekki að finna í ákæru málsins. Í ákæru hafði einungis verið krafist refsingar en í málflutningi gerði ákæruvaldið kröfu um að ákærða yrði látin sæta öryggisgæslu á viðeigandi stofnun. Féllst Hæstiréttur á þann rökstuðning og staðfesti héraðsdóminn.

Hrd. 1997, bls. 73.
    Maður var ákærður fyrir nokkur brot, m.a. stórfellda líkamsárás með því að stinga fingrum djúpt í augu stjúpa síns. Að mati geðlækna var ákærði metinn geðklofi en á þeirri stundu sem verknaðurinn var framinn hafi hann verið haldinn verulegri skertri dómgreind og raunveruleikamati vegna langvarandi geðsjúkdóms sem hefði í för með sér fylgikvilla eins og ranghugmyndir. Var ákærði því metinn ósakhæfur. Í héraðsdómi og Hæstarétti var tekið undir hið geðræna mat og var ákærði dæmdur til að sæta vistun á viðeigandi stofnun skv. 62. gr. hegningarlaga.

Hrd. 1998, bls. 1503.
    Tvíburabræður, S og Ó, voru ákærðir fyrir manndráp með því að svipta mann lífi á hrottafenginn hátt í Heiðmörk. Höfðu bræðurnir hitt manninn á skemmtistað í Reykjavík en lokkað hann með sér í bílferð í því skyni að ræna hann. Voru báðir ákærðir fyrir manndráp og rán, en S var m.a. gefið að sök að hafa rekið steinhnullung tvisvar sinnum í höfuðið á fórnarlambinu en Ó að hafa ekið bifreið að því loknu yfir fórnarlambið. Í mati geðlæknis var ekki talið að Ó hafi verið ósakhæfur. Hins vegar hefðu greinst merki um persónuleikaröskun sem m.a. lýstu sér í samskiptaerfiðleikum og áfengissýki samfara nokkrum skapgerðarbrestum. Geðlæknir taldi hins vegar að S væri haldinn formlegum geðsjúkdómi (geðklofa) og að hann hefði átt við að stríða afleiðingar hans á þeirri stundu er umræddur verknaður varð. Af þeim sökum væri sakhæfi S skert og talið að ákvæði 16. gr. hegningarlaga ættu við. Mat hann það svo að refsing mundi ekki bera árangur. Í héraðsdómi var fallist á að 16. gr. hegningarlaga ætti við um S og hann því talinn sakhæfur, en hins vegar var talið að refsing gæti borið árangur. Ekki var hins vegar fjallað sérstaklega um sakhæfi Ó. Voru bræðurnir dæmdir til fangelsisrefsingar, S fyrir manndráp og hlaut 16 ára fangelsi en Ó fyrir hlutdeild í manndrápi og hlaut 8 ára fangelsi. Hæstiréttur staðfesti dóm héraðsdóms yfir S um sakhæfi og að hann skyldi sæta refsingu en taldi þó ekki unnt að hann afplánaði dóm sinn á stofnun með vísan til 2. mgr. 16. gr. hegningarlaga þar sem slíkri stofnun hefði ekki verið komið á fót, þótt réttargeðdeildin á Sogni tæki í einstaka tilvikum við föngum um nokkurra mánaða skeið meðan þeir afpláni refsivist. Hæstiréttur þyngdi hins vegar dóm Ó í 12 ára fangelsi.

Hrd. 1999, bls. 3606, mál nr. 194/1999.
    Maður var ákærður fyrir að svíkja allháar fjárhæðir undan skatti. Í héraðsdómi var ákærði dæmdur í 4 mánaða skilorðsbundið fangelsi. Ekki var fjallað um andlega heilsu ákærða fyrir héraðsdómi en Hæstiréttur taldi hvorki tilefni til að álykta að andlegt heilsufar ákærða á þeim tíma sem brotin voru framin hafi verið með þeim hætti að 16. gr. hegningarlaga ætti við né að unnt væri að fella niður refsingu skv. 63. gr. hegningarlaga. Var því staðfest niðurstaða héraðsdóms um 4 mánaða skilorðsbundið fangelsi.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness frá 4. október 2001, mál nr. S-503/2001.
    Maður var ákærður fyrir stórfellda líkamsárás með því að hafa á heimili móður sinnar ráðist að henni með skærum og skorið hana á háls. Þá var hann einnig ákærður fyrir önnur brot, m.a. að kýla og sparka í lögreglumann, og fyrir að bíta annan lögreglumann í eyrað. Um ástæður hins fyrsttalda brots bar ákærði að hann hefði verið nýbúinn að reykja hass og drekka mikið af bjór og kvaðst hafa heyrt raddir sem hvöttu hann til þess að skaða móður sína. Kvaðst hann hafa náð í skæri og gengið rakleitt til móður sinnar og skorið hana á háls. Í skýrslu geðlæknis kom m.a. fram að ákærði ætti við alvarleg geðræn vandamál að stríða, m.a. geðrof og geðklofa. Að mati læknisins hafi hann verið alls ófær um að stjórna gerðum sínum þegar hann lagði til móður sinnar með skærunum. Undir þetta tók héraðsdómur og komst að þeirri niðurstöðu að ákærði hefði verið ósakhæfur skv. 15. gr. hegningarlaga. Með hliðsjón af hinum alvarlega verknaði og skýrslu geðlæknis um geðhagi ákærða taldi dómurinn rétt að hann sætti öryggisgæslu á viðeigandi hæli skv. 62. gr. hegningarlaga.

Hrd. 2002, bls. 161, mál nr. 446/2001.
    Maður var ákærður fyrir líkamsárás en hann réðst á ungan dreng sem var að spila fótbolta með öðrum drengjum og lærbraut hann. Að mati geðlæknis var ákærði haldinn geðklofa á háu stigi en unnt væri að halda niðri sjúkdómseinkennum með forðasprautum sem gefnar væru undir eftirliti. Héraðsdómur féllst á mat geðlæknisins og taldi að refsing mundi ekki bera árangur með vísan til 15. gr. hegningarlaga. Var ákærði því dæmdur til að gangast undir viðeigandi lyfjameðferð vegna geðsjúkdóms á sjúkrahúsi skv. 62. gr. hegningarlaga. Var sú niðurstaða staðfest í Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 10. apríl 2002, mál nr. S-264/2001.
    Kona var ákærð fyrir að leggja nokkrum sinnum til annarrar konu með flökunarhníf í sameiginlegri setustofu íbúa í félagslegu húsnæði. Ekki virtist hafa verið um neinn aðdraganda að ræða en ákærða kvaðst hafa skyndilega fundið fyrir mikilli reiði án nánari skýringa. Kvaðst hún ekkert sökótt hafa átt við brotaþolann. Undir dómsmeðferð málsins gekkst ákærða undir geðheilbrigðisrannsókn. Í skýrslu geðlæknis kom m.a. fram að ákærða ætti við alvarlega persónuleikaröskun að stríða og á verknaðarstundu hefði hún ekki verið fær um að stjórna gerðum sínum. Þá kom fram að hún væri á köflum mjög hættuleg sjálfri sér og öðrum. Var niðurstaðan sú að ákærða væri ósakhæf. Héraðsdómur féllst á niðurstöðu geðlæknisins og taldi að sjúkdómur ákærðu hefði verið á svo háu stigi er hún framdi verknaðinn að hún hefði verið ófær um að stjórna gerðum sínum, sbr. 15. gr. hegningarlaga, og bæri því að sýkna hana. Vegna réttaröryggis væri hins vegar nauðsynlegt að gera ráðstafanir sem dugi til að koma í veg fyrir hættu af völdum ákærðu. Með vísan til 62. gr. hegningarlaga var því ákveðið að hún mundi gangast undir viðeigandi meðferð vegna sjúkdómsins.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 17. maí 2002, mál nr. S-968/2002.
    Maður var ákærður fyrir manndráp með því að hafa veist að brotaþola og banað honum með mörgum hnífsstungum í brjóstkassa, bak og háls og auk þess skorið hann margsinnis með hnífi í háls, höfuð og líkama. Þá var hann einnig ákærður fyrir að hafa barnaklámefni undir höndum. Í skýrslu geðlæknis kom m.a. fram að geðskoðun ákærða hefði sýnt örugg einkenni sturlunarsjúkdóms og ranghugmynda. Þá hefði hann þjáðst af alvarlegu þunglyndi og haft viðvarandi sjálfsvígshugsanir. Að mati læknisins væri ákærði ósakhæfur. Í niðurstöðu héraðsdóms kom fram að atlaga ákærða að brotaþola hefði verið gerð í skyndilegu heiftaræði sem staðið hafi yfir í nokkurn tíma. Með hliðsjón af því sem fram kom fyrir dómi væri fyrir því óræk sönnun að ákærði hefði vegna geðveiki verið alls ófær um að stjórna gerðum sínum er hann réð brotaþola bana. Að því er síðari ákæruna varðar þótti ekki vera leitt í ljós að eins hafi staðið á fyrir honum þegar hann hafði klámefnið í vörslum sínum. Aftur á móti þætti, vegna álits geðlæknisins, ekki skilyrði til þess að refsa ákærða fyrir það brot, sbr. 1. mgr. 16. gr. hegningarlaga. Hins vegar var talið að réttaröryggi væri hætt ef hann fengi að ganga laus og var hann því dæmdur til að sæta öryggisgæslu skv. 62. gr. hegningarlaga.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 31. maí 2002, mál nr. S-473/2002.
    Maður var ákærður fyrir tilraun til kynferðislegrar misneytingar með því að hafa í sambýli geðfatlaðra farið nakinn inn í íbúð brotaþola í því skyni að hafa við hana kynferðismök, afklætt hana án þess að hún gæti spornað við því sökum svefndrunga og lyfjaáhrifa. Brotaþoli vaknaði hins vegar og gat hindrað að ákærði kæmi fram vilja sínum. Í skýrslu geðlæknis kom m.a. fram að ákærði væri alvarlega geðtruflaður. Hann væri með svokallað „Tourette“- heilkenni og allra verstu fylgifiska þess, þ.e. ofvirkni, athyglisbrest og mikinn hegðunarvanda. Hann væri þó hvorki ofbeldisfullur né hættulegur öðrum. Hins vegar væri ekki nokkur vafi á ósakhæfi hans. Héraðsdómur taldi ekki ástæðu til að vefengja athuganir læknisins og féllst á það mat að ákærði hefði á verknaðarstundu verið alls ófær um að stjórna gerðum sínum og skilja afleiðingar þeirra. Var hann því sýknaður á grundvelli 15. gr. hegningarlaga. Þar sem ákærði væri ekki hættulegur umhverfi sínu, sem geðlæknirinn rökstuddi þannig að ákærði hætti ætíð þegar honum væri sagt að hætta, væru ekki efni til að dæma hann til að sæta öryggisgæslu. Hins vegar taldi dómurinn, með vísan til álits læknisins, að nauðsynlegt væri að ákærði yrði vistaður á heimili eða sambýli þar sem heimilismönnum er veitt þjónusta allan sólarhringinn, sbr. 62. gr. hegningarlaga.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 13. desember 2002, mál nr. S-2450/2002.
    Kona var ákærð fyrir manndráp með því að hafa sest klofvega ofan á dóttur sína og þrengt að hálsi hennar þar til hún lést. Engin ástæða var fyrir verknaðinum en ákærða kvaðst hafa vaknað um nóttina og fundist sem einhver stjórnaði sér, guð eða djöfullinn. Kvaðst hún hafa fengið dóttur sína upp í rúm til sín og „fundist tími til kominn að hún fengi að upplifa alvöru ást“. Hafi hún því sest ofan á hana klofvega og eitthvað hafi sagt sér að sleppa ekki takinu. Hafi dóttirin ekki átt að deyja, heldur hafi hún átt að upplifa alvöru sælutilfinningu. Í skýrslu geðlæknis kom fram að ákærða væri ósakhæf, en hún hefði örugg einkenni sturlunarsjúkdóms og ranghugmynda. Héraðsdómur tók undir með lækninum og taldi að ákærða hefði á verknaðarstundu verið alls ófær um að stjórna gerðum sínum. Hafi athafnir hennar stjórnast af sjúkleika og ranghugmyndum. Var niðurstaða dómsins að sýkna ákærðu á grundvelli 15. gr. hegningarlaga. Hins vegar þætti með tilliti til hins alvarlega verknaðar sem ákærða framdi og til alvarlegs sjúkdóms hennar rétt í þágu réttaröryggis að gera ákærðu að sæta öryggisgæslu skv. 62. gr. hegningarlaga.

Hrd. 2003, bls. 2592, mál nr. 98/2003.
    Maður var ákærður fyrir líkamsárás með því að hafa ráðist á fyrrverandi sambýliskonu sína og slegið hana margsinnis í andlit, höfuð og líkama, slegið höfði hennar utan í vegg og misþyrmt henni með öðrum hætti. Þá var hann ákærður fyrir tilraun til manndráps með því að hafa ári síðar ráðist á sömu konu, veist að henni með ofbeldi, brotið hægri upphandlegg hennar ofan við olnboga, skorið hana með hnífi á vinstri augabrún og vinstra megin á háls með þeim afleiðingum að hún hlaut þar djúpt sár og slagæð og bláæð skárust í sundur. Héraðsdómur taldi ekkert skyggja á sakhæfi ákærða og dæmdi hann til 7 ára fangelsisrefsingar. Hæstiréttur taldi með hliðsjón af geðrannsókn og öðrum gögnum málsins að ekkert væri fram komið sem benti til þess að ákvæði 15. og 16. gr. almennra hegningarlaga hafi átt við um andlega hagi ákærða er hann framdi brot sín og var hann því talinn sakhæfur. Var refsing hans ákveðin fangelsi í 5½ ár.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 5. desember 2003, mál nr. S2098/2003.
    Maður var ákærður fyrir mörg brot, m.a. fyrir að hafa slegið konu í andlitið og klórað hana um borð í áætlunarflugi. Þá var hann ákærður fyrir að hafa ráðist á ökumann strætisvagns, slegið hann, klórað og rifið í hár. Í niðurstöðum lækna kom fram að ákærði væri haldinn alvarlegri geðveiki með mikilmennsku- og ofsóknarhugmyndum, sérstaklega gagnvart konum. Héraðsdómur féllst á mat læknanna og taldi að endurteknar líkamsárásir ákærða bentu til þess að hann gæti verið hættulegur öðru fólki. Á verknaðarstundu hefði hann verið haldinn alvarlegri geðtruflun á háu stigi og alls ófær um að stjórna gerðum sínum. Var niðurstaðan sú að ákærði var sýknaður á grundvelli 15. gr. hegningarlaga, en nauðsynlegt þótti að hann skyldi sæta öryggisgæslu með vísan til réttaröryggis annarra, skv. 62. gr. hegningarlaga.

Hrd. 2001, bls. 2060, mál nr. 41/2004.
    Maður var ákærður fyrir manndráp, en ákærði stakk hann á heimili hans með hnífi í kvið, brjóst og framhandlegg með þeim afleiðingum að hann lést. Þá var hann einnig ákærður fyrir að ráðast á gæslumann á réttargeðdeildinni að Sogni. Deilt var um sakhæfið en ósamhljóða matsgerðir lágu fyrir um geðheilbrigði ákærða. Talið var ljóst að hæfni ákærða til að stjórna viðbrögðum sínum væri skert og að minnsta kosti á stundum væri hann haldinn ranghugmyndum og líklegur til að rangtúlka aðstæður þegar hann teldi sér ógnað. Héraðsdómur og Hæstiréttur komust þó að þeirri niðurstöðu að ákærði væri ósakhæfur og því bæri að sýkna hann á grundvelli 15. gr. hegningarlaga. Var hann dæmdur til að sæta öryggisgæslu skv. 62. gr. hegningarlaga.

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra frá 13. október 2004, mál nr. S-196/2004.
    Maður var ákærður fyrir brennu í sambýli fatlaðra með því að kveikja eld í íbúð sem hann hafði til umráða þannig að eldur breiddist um hana og stofnaði lífi fimm íbúa hússins og starfsmanns í bersýnilegan háska. Framburður ákærða var mjög óskýr og ruglingslegur um ástæður íkveikjunnar, hann ýmist sagði hana hafa verið óviljaverk eða þá að hann hafi í mótmælaskyni kveikt í sökum þess að hann hafi ekki fengið tiltekið sjúkrahúspláss. Í skýrslu geðlæknis kom m.a. fram að ákærði þjáðist af tvíhverfri lyndisröskun, öðru nafni geðhvarfasýki og sökum geðveiki og vitglapa hafi hann verið alls ófær um að stjórna gerðum sínum á verknaðarstundu. Undir þetta tók héraðsdómur og sýknaði ákærða með vísan 15. gr. hegningarlaga. Að mati dómsins var þó ekki hjá því komist að dæma ákærða til vistar á viðeigandi hæli, sbr. 62. gr. hegningarlaga.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 3. febrúar 2005, mál nr. S-2492/2004.
    Kona var ákærð fyrir manndráp og tilraun til manndráps með því að hafa banað dóttur sinni með því að stinga hana hnífi í brjóstkassa og fyrir að hafa reynt að bana syni sínum með því að stinga hann hnífi í brjóstkassa og bak. Gaf hún enga sérstaka ástæðu fyrir athæfinu. Samkvæmt niðurstöðum geðlækna var andlegt ástand ákærðu það sjúkt á verknaðarstundu að hún hafi verið ófær um að stjórna gerðum sínum, en læknarnir voru þó ósammála um sjúkdómsgreiningu ákærðu. Í héraðsdómi kom fram að ákærða hefði um áratugaskeið verið haldin alvarlegu geðrofssjúkdómi og hafi hún á verknaðarstundu verið alls ófær um að stjórna gerðum sínum, hugsun hennar hafi verið brengluð og skynjun úr lagi færð. Bæri því að sýkna hana skv. 15. gr. hegningarlaga. Þegar litið væri til alvarleika háttseminnar og alvarlegs sjúkdóms ákærðu væri rétt í þágu réttaröryggis að gera ákærðu að sæta öryggisgæslu skv. 62. gr. hegningarlaga.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 30. maí 2005, mál nr. S-289/2005.
    Maður var ákærður fyrir tilraun til manndráps með því að hafa stungið annan mann þrívegis með eggvopni í magann. Tvennum sögum fór af orsökum stungunnar en ákærði og brotaþoli, sem þekktust lítillega frá fyrri tíð, hittust á skemmtistað og fóru síðan heim til ákærða. Hélt ákærði því fram að brotaþoli hefði skyndilega byrjað að hreyta ónotum í sig, sem leitt hafi til ryskinga og loks til þess að ákærði stakk brotaþola í nauðvörn. Brotaþoli hafði þó aðra sögu að segja og bar að ákærði hefði skyndilega og að ástæðulausu stungið hann í magann, þegar brotaþoli hugðist yfirgefa íbúð ákærða. Í skýrslu geðlæknis sem framkvæmdi rannsókn á ákærða kom m.a. fram að ákærði ætti við að stríða alvarlegan og viðvarandi geðhvarfasjúkdóm, sem lýsi sér sem árleg köst af maníu með geðrofi (sturlun). Þegar ákærði væri í slíkri sturlunarmaníu væri enginn vafi á því að hann væri hættulegur umhverfi sínu. Kvað hann ýmislegt geta stutt þá niðurstöðu að ákærði hafi verið alls ófær um að stjórna gerðum sínum á verknaðarstundu, en kvaðst þó ekki treysta sér til að fullyrða að svo hafi verið því hann hafi fyrst séð ákærða nokkrum dögum eftir atburðinn. Hann hafi þó allt að einu verið með skert sakhæfi á verknaðarstundu, en kvaðst ekki vilja útiloka ósakhæfi. Taldi dómurinn að skýrlega mætti ráða af framangreindri geðrannsókn og vitnisburði annars læknis, geðlæknis ákærða til margra ára, að ákærði væri haldinn alvarlegum og viðvarandi geðhvarfasjúkdómi. Einkennist sjúkdómurinn af reglubundnum maníuköstum með geðrofi eða sturlun, einu sinni til tvisvar á ári, sem gátu staðið í allt að þrjá mánuði. Hafi verið nokkuð ljóst að ákærði hafi verið farinn að veikjast af maníu þegar hann framdi verknaðinn. Þá kom fram í vitnisburði læknanna að meiri hætta væri á slíkri maníu fyrir ákærða ef hann vanrækti að taka lyfin sín og manían yrði þá yfirleitt verri. Með vísan til þessa taldi dómurinn ekki varhugavert að slá því föstu að andlegt ástand ákærða hafi verið það sjúkt á verknaðarstundu að hann hafi þá verið ófær um að stjórna gerðum sínum og væri því ósakhæfur. Bæri því að sýkna hann af refsikröfu ákæruvaldsins skv. 15. gr. hegningarlaga. Hins vegar þætti rétt með hliðsjón af eðli sjúkdóms ákærða og alvarleika háttsemi hans að dæma hann til að sæta öryggisgæslu skv. 62. gr. hegningarlaga.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 7. október 2005, mál nr. S-869/2005.
    Maður var ákærður fyrir tilraun til manndráps með því að hafa brugðið snæri um háls eiginkonu sinnar í ruslageymslu húss og hert að, en með því þrengdi ákærði svo að öndunarvegi hennar að hún m.a. missti meðvitund. Kvaðst ákærði muna óljóst eftir atvikum en hann mundi eftir gríðarlegum ranghugmyndum í höfði sínu varðandi framhjáhald eiginkonunnar. Kvaðst hann hafa farið að heyra raddir sem skipuðu honum að grípa til aðgerða gagnvart konunni. Í skýrslu geðlæknis og áliti læknaráðs kom fram að ástand ákærða hafi verið á svo háu stigi og hugsun hans svo brengluð að hann hafi verið alls ófær um að stjórna gerðum sínum á verknaðarstundu. Héraðsdómur tók undir álit læknanna og taldi ákærða ósakhæfan og bæri því að sýkna hann skv. 15. gr. hegningarlaga. Með hliðsjón af eðli sjúkdóms ákærða og alvarleika háttsemi hans þótti rétt að dæma hann til að sæta öryggisgæslu skv. 62. gr. hegningarlaga.

Dómur Hæstaréttar Íslands frá 16. febrúar 2006, mál nr. 449/2005.
    Maður var ákærður fyrir að hóta og beita lækni líkamsmeiðingum vegna þess að erfðafræðileg rannsókn sem læknirinn annaðist sýndi ekki fram á að ákærði væri faðir tiltekins drengs. Að áliti geðlæknis var ákærði haldinn alvarlegri hugvilluröskun og var það mat staðfest af tveimur dómkvöddum matsmönnum, sem töldu brýnt að hann sætti öryggisgæslu og fengi meðferð á viðeigandi stofnun. Héraðsdómur og Hæstiréttur tóku undir sakhæfismatið og töldu ákærða ekki hafa getað stjórnað gerðum sínum á verknaðarstundu. Var hann því sýknaður af refsikröfu ákæruvaldsins skv. 15. gr. hegningarlaga en dæmdur til að sæta öryggisgæslu og fá meðferð á viðeigandi stofnun skv. 62. gr. hegningarlaga.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 8. júní 2006, mál nr. S-576/2006.
    Maður var ákærður fyrir tilraun til manndráps með því að hafa stungið föður sinn með hnífi í bakið. Málsatvik voru þau að feðgarnir fóru að rífast og reiddist ákærði föður sínum mjög. Kvaðst hann hafa reynt að stinga hann í magann en faðir hans hafi snúið sér við með þeim afleiðingum að hnífurinn fór á kaf í bakið á honum. Í niðurstöðu geðlæknis kom m.a. fram að ákærði væri haldinn alvarlegum geðrofssjúkdómi, aðsóknarklofa með ofskynjunum og ranghugmyndum. Auk þess væri hann haldinn persónuleikabrenglun með mikilli hvatvísi og stjórnleysi í hegðun sinni auk árásarkenndar. Héraðsdómur féllst á þetta mat og taldi að ákærði hefði á verknaðarstundu verið alls ófær um að stjórna gerðum sínum og bæri því að sýkna hann skv. 15. gr. hegningarlaga. Þegar hins vegar væri litið til háttsemi ákærða og alvarlegs sjúkdóms hans væri rétt í þágu réttaröryggis að dæma hann til að sæta öryggisgæslu skv. 62. gr. hegningarlaga.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness frá 3. apríl 2007, mál nr. S-157/2007.
    Maður var ákærður fyrir tilraun til brennu fyrir að hafa hellt eldsneyti á stétt við hús A og yfir bifreið hans. A kom hins vegar að ákærða áður en eldur var borinn að eldsneytinu og hrakti hann í burtu. Ákærði hafði átt við andlega vanheilsu að stríða í mörg ár og nokkrum sinnum lagst inn á geðdeild. Í mati geðlæknis kom m.a. fram að á umræddum tíma hafi ákærði verið í örlyndisástandi og með ranghugmyndir. Mat geðlæknir ákærða ósakhæfan vegna þess að hann hafi verið undir áhrifum alvarlegs geðsjúkdóms og þar að auki með geðrofseinkenni í formi ranghugmynda. Taldi héraðsdómur að andlegt ástand ákærða hefði á verknaðarstundu verið með þeim hætti að hann hefði ekki getað stjórnað gerðum sínum. Var ákærði því sýknaður með vísan til 15. gr. hegningarlaga, en dæmdur til að sæta öryggisgæslu skv. 62. gr. hegningarlaga.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 5. júlí 2007, mál nr. S-683/2007.
    Maður var ákærður fyrir brot gegn umferðarlögum og hegningarlögum m.a. fyrir að þvinga ökumann bifreiðar, sem stöðvað hafði vegna umferðaróhapps sem ákærði olli þegar hann ók á tré, út úr bifreið sinni og aka af stað með þeim afleiðingum að ökumaðurinn féll í götuna og slasaðist. Í niðurstöðu geðlæknis kom m.a. fram að ákærði hefði um langt skeið notað fíkniefni og þjáðst af geðklofasýki. Á tímabilum hafi hann verið mjög sturlaður. Þá hafi hann verið með ofheyrnir, misskynjanir, ofskynjanir og tilvísunarranghugmyndir. Héraðsdómur taldi með hliðsjón af skýrslu geðlæknisins ákærða hafa verið með öllu ófæran um að stjórna gerðum sínum er hann framdi þau brot sem honum voru gefin að sök og sýknaði hann skv. 15. gr. hegningarlaga. Með vísan til 62. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, var ákveðið að ákærði skyldi gangast undir viðeigandi lyfjameðferð vegna geðsjúkdómsins í formi forðasprautu á 14 daga fresti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 16. apríl 2008, mál nr. S-93/2008.
    Maður var ákærður fyrir líkamsárás, en hann réðst á mann fyrir utan skemmtistað og veitti honum fjölmarga alvarlega áverka í andliti með brotinni glerflösku. Upphafið að átökunum mátti rekja til ósættis þeirra eftir að ákærði gerði sér dælt við stúlku inni á staðnum. Á verknaðarstundu var ákærði mjög ölvaður en hann þjáðist af geðsjúkdómi að eigin sögn. Í skýrslu geðlæknis kom m.a. fram að ákærði hefði öll einkenni sturlunarsjúkdóms, geðklofa, sem kæmu fram í kerfisbundnum ranghugmyndum. Samkvæmt mati geðlæknis varð ekki séð að neinum tilgangi væri náð með því að refsa honum með fangelsisvist, en ákærði hafi verið ófær um að stjórna gerðum sínum á verknaðarstundu. Héraðsdómur féllst á geðlæknismatið og taldi ákærða ósakhæfan með vísan til 15. gr. hegningarlaga, en dæmdi hann til vistunar á viðeigandi stofnun skv. 62. gr. hegningarlaga.

Dómur Hæstaréttar Íslands frá 16. maí 2008, mál nr. 267/2008.
    Maður, sem úrskurðaður hafði verið í öryggisgæslu á grundvelli 62. gr. almennra hegningarlaga, gerði þá kröfu að hann yrði leystur úr öryggisgæslu í áföngum. Samkvæmt upplýsingum sem aflað var frá Réttargeðdeildinni að Sogni hafði maðurinn sýnt þar af sér ofbeldisfulla og ógnandi hegðun á köflum en hann hafði þó tekið verulegum framförum. Fram kom í læknisfræðilegum gögnum að hann hefði náð ákveðnum bata en ekki væri unnt að fullyrða að um varanlegan bata væri að ræða. Taldi héraðsdómur verulegan vafa leika á því hvort ástand mannsins væri orðið nægilega stöðugt til að raunhæft væri að reyna önnur úrræði en dvöl í öryggisgæslu og hafnaði því kröfu hans um lausn úr öryggisgæslu eða rýmkun hennar. Staðfesti Hæstiréttur úrskurð héraðsdóms með vísan til forsendna hans.

Dómur Hæstaréttar Íslands frá 18. desember 2008, mál nr. 659/2008.
    Maður sem gert hafði verið að sæta öryggisgæslu á grundvelli 62. gr. almennra hegningarlaga krafðist þess aðallega að öryggisgæsla hans yrði felld niður en til vara að ákveðið yrði annað úrræði um vistun hans. Áður hafði öryggisgæslu hans verið breytt og hún rýmkuð með tilteknum hætti. Staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu héraðsdóms um að hafna bæri niðurfellingu öryggisgæslunnar þar sem nauðsynlegt þótti vegna réttaröryggis að gera ráðstafanir til þess að varna því að háski yrði af manninum. Við ákvörðun á inntaki þeirrar gæslu sem manninum bæri að sæta taldi Hæstiréttur hins vegar að fyrir hendi væru skilyrði til þess að breyta inntaki öryggisgæslu hans í ljósi þess að hann hafði sætt öryggisgæslu á réttargeðdeildinni að Sogni í afar langan tíma og ekki virtust líkur á því að hann næði þar frekari bata á geðheilsu sinni. Skyldi maðurinn því fá búsetu á sambýli fyrir geðfatlaða eða í öðru sambærilegu viðeigandi búsetuúrræði, með sólarhringsgæslu.

Dómur Hæstaréttar Íslands frá 12. mars 2009, mál nr. 620/2008.
    Maður var ákærður fyrir fjölda þjófnaðarbrota, umferðarlagabrot, fjársvik, nytjastuld, rán og fíkniefnalagabrot. Að áliti geðlæknis var hann haldinn alvarlegri persónuleikaröskun, hafði hlotið geðklofagreiningu og geðrofasjúkdóm. Þrír geðlæknar sem maðurinn hafði verið í meðferð hjá töldu hann stórhættulegan sjálfum sér og öðrum og að ástand hans gæti leitt til voðaverka í framtíðinni. Niðurstaða héraðsdóms og Hæstaréttar var að heilsufari mannsins væri þannig háttað að ekki væri líklegt að refsing gæti borið árangur, sbr. 16. gr. almennra hegningarlaga. Hins vegar var talið nauðsynlegt, vegna réttaröryggis og til að varna því að háski yrði af honum, að beita úrræðum skv. 62. gr. laganna og var honum því gert að sæta öryggisgæslu á viðeigandi stofnun.

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 17. apríl 2009 í máli nr. S-755/2008.
    Maður var ákærður fyrir kynferðisbrot gegn tólf ára dreng. Í vottorði geðlæknis kom fram að ákærði hefði átt við alvarlegan geðklofasjúkdóm að stríða um áratuga skeið. Sjúkdómurinn einkenndist af miklum og flóknum ranghugmyndakerfum, en þau kerfi væru að megninu til af trúarlegum toga. Hann teldi sig vera undir stjórn æðra máttarvalds og væri ekki annað að sjá en að einkennin hefðu verið stöðug í að minnsta kosti 20–30 ár. Taldi geðlæknirinn að erfitt væri að meta hvort alvarleg geðveiki mannsins væri af því tagi að hann hefði verið ófær um að stjórna gerðum sínum á þeim tíma sem meint brot var talið hafa átt sér stað. Ákærði væri með mjög alvarlegan og langvinnan geðsjúkdóm, hefði ekkert sjúkdómsinnsæi og það væri borin von að refsing gæti borið árangur gagnvart honum. Taldi dómurinn sannað að maðurinn hefði gerst sekur um þá háttsemi sem honum var gefin að sök og var hann metinn sakhæfur. Hins vegar taldi dómurinn að refsing mundi ekki bera neinn árangur, sbr. 16. gr. almennra hegningarlaga, og var honum því gert að sæta vistun á viðeigandi stofnun.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 21. desember 2009 í máli nr. S-939/2009.
    Kona var ákærð fyrir tilraun til manndráps, með því að hafa stungið stúlku í brjóstið með þeim afleiðingum að hún hlaut áverka á þind og lifur, en stungusárið náði inn undir neðri holæð neðan við hjarta hennar. Konan játaði sök. Álit dómkvadds matsmanns var að hún væri haldin alvarlegum geðsjúkdómi af geðklofagerð. Lyfjamisnotkun og að alvarlegir atburðir undanfarinna ára gætu verið orsakavaldar að hluta til. Taldi hann ljóst að konan hefði verið ófær um að stjórna gerðum sínum á verknaðarstund. Í málinu var einnig lögð fram skýrsla sálfræðings sem hafði tekið viðtöl við konuna. Í niðurstöðu skýrslunnar kom fram að þótt niðurstöður sálfræðiprófanna hefðu ekki gefið eins skýra mynd af hugarástandi og getu konunnar og vænst var sýndu þær þó að á þeim tíma sem prófin voru lögð fyrir hana hefði hún verið í einhvers konar ójafnvægi. Með vísan til þessa segir í niðurstöðu héraðsdóms að konan hefði verið ófær um að stjórna gerðum sínum á verknaðarstundu og væri því ósakhæf. Vegna réttaröryggis þótti hins vegar rétt að hún sætti öryggisgæslu á viðeigandi stofnun skv. 62. og 63. gr. almennra hegningarlaga.

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 17. nóvember 2010 í máli nr. S-194/2010.
    Ung kona var ákærð fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, rán og hótunarbrot. Hafði hún um langt skeið átt við andlega vanheilsu og erfiðleika að stríða, en einnig var hún haldin verulegri þroskaröskun. Þá bentu læknisfræðileg gögn og vitnisburður fyrir dóminum til þess að hún hefði við tíu ára aldur hlotið höfuðhögg með þeim afleiðingum að blæddi inn á heila hennar. Í vitnisburði dómkvadds matsmanns kom fram að vafalaust væri að hún væri haldin geðsjúkdómi og ef ástand hennar yrði óbreytt næstu árin væru yfirgnæfandi líkur á því að hún mundi uppfylla skilgreiningu um að hún væri haldin alvarlegri geðröskun, svonefndri persónuleikaröskun. Var það mat hans að hún væri mjög hættuleg sjálfri sér og samfélaginu og að ólíklegt og allt að því útilokað væri að hún mundi vegna þessa skilja eðli refsinga. Konan játaði þá háttsemi sem henni var gefin að sök í ákæru. Var það niðurstaða dómsins að verulegar líkur væru fyrir því að á því tímabili þegar brotin voru framin hefði samspil hins andlega sjúkleika konunnar og vanþroska hennar verið með þeim hætti að hún hefði verið alls ófær að stjórna gerðum sínum. Var hún talin ósakhæf, sbr. 15. gr. almennra hegningarlaga, en gert að sæta öryggisvistun skv. 62. gr. laganna.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 24. febrúar 2011 í máli nr. S-876/2010.
    Maður var ákærður fyrir tilraunir til manndrápa, en til vara sérstaklega hættulegar líkamsárásir, með því að hafa veist að móður sinni og föður þannig að af hlutust margvíslegir áverkar. Mat dómkvaddra matsmanna var að maðurinn hefði verið ósakhæfur á verknaðarstundu. Í yfirmati kom fram að fyrir manninum hefði þó ekki vakað að taka líf foreldra sinna umrætt sinn, geðklofi hans hefði gert hann hættulegan á verknaðarstundu, en verknaðurinn hefði verið framinn í geðrofsástandi. Maðurinn neitaði sök en héraðsdómur taldi sannað að hann hefði gerst sekur um þá háttsemi sem hann var ákærður fyrir. Héraðsdómur taldi að þótt árásirnar hefðu verið háskalegar hefði ekki verið um tilraunir til manndrápa að ræða heldur sérstaklega hættulegar líkamsárásir. Var það mat dómsins að á verknaðarstundu hefði andlegt ástand mannsins verið það sjúkt að hann hefði þá verið ófær um að stjórna gerðum sínum og væri því ósakhæfur. Hins vegar þótti rétt, með hliðsjón af eðli sjúkdóms mannsins og alvarleika háttsemi hans, að láta hann sæta öryggisgæslu skv. 62. gr. laga nr. 19/1940.

Dómur Hæstaréttar Íslands frá 13. október 2011, mál nr. 198/2011.
    Maður var ákærður fyrir manndráp með því að hafa veist að öðrum manni á heimili hans og banað honum með því að stinga hann ítrekað með hnífi í brjóst, bak, háls, andlit, handleggi og hendur. Maðurinn játaði sök. Í málinu lá fyrir matsgerð og yfirmat þriggja dómkvaddra geðlækna sem allir komust að þeirri niðurstöðu að maðurinn hefði á verknaðarstundu verið alls ófær um að stjórna gerðum sínum sökum svæsins geðrofs. Í matsgerð yfirmatsmanna kom meðal annars fram að maðurinn hefði „ofbeldishugsanir gagnvart öðrum“ og að illgerlegt væri að meta í hvaða átt ofsafengin reiði hans gæti beinst þar sem mikil duld væri yfir ranghugmyndaheimi hans. Hefði þetta gert það að verkum að flestir teldu hann meinlausan. Héraðsdómur taldi manninn vera ósakhæfan og sýknaði hann af refsikröfu ákæruvaldsins, sbr. 15. gr. almennra hegningarlaga, en dæmdi hann til að sæta öryggisgæslu á viðeigandi stofnun skv. 62. gr. laganna. Í dómi Hæstaréttar kom meðal annars fram að þau sjónarmið sem byggju að baki refsilögum mæltu með því að 15. gr. hegningarlaganna yrði fremur skýrt þröngt en rúmt, enda hefði það lagaákvæði að geyma undantekningu frá þeirri meginreglu að mönnum væri refsað fyrir afbrot er þeir hefðu framið. Ekki yrði hróflað við mati hinna dómkvöddu geðlækna að maðurinn hefði verið haldinn geðveiki á verknaðarstundu en það álitaefni hvort hann hefði sökum geðsjúkdómsins verið alls ófær um að stjórna gerðum sínum umrætt sinn lyti endanlegri úrlausn dómstóla og væru þeir í því efni ekki bundnir af áliti matsmannanna. Við þá úrlausn bæri einkum að horfa til aðdraganda brots mannsins, hvernig hann stóð að því og framferði hans í kjölfar þess. Í þessu samhengi var rakið að verknaðurinn hefði verið skipulagður í þaula með það fyrir augum að ekki kæmist upp um hann, maðurinn hefði gengið ákveðið og skipulega til verks og síðan gert allt sem í hans valdi stóð til að aftra því að upp um hann kæmist. Einnig var bent á að hann hefði sjálfur borið að hann hefði að einhverju leyti gert sér grein fyrir því að hann hefði verið að gera eitthvað sem væri rangt. Að þessu virtu var talið í ljós leitt að maðurinn hefði borið skynbragð á eðli þess afbrots sem hann var ákærður fyrir og að hann hefði verið að því marki fær um að stjórna gerðum sínum á verknaðarstundu að hann teldist sakhæfur. Var hann því dæmdur í 16 ára fangelsi fyrir brot gegn 211. gr. almennra hegningarlaga að frádregnu gæsluvarðhaldi og öryggisgæslu sem hann hafði sætt.

Fylgiskjal II.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, með síðari breytingum (öryggisráðstafanir o.fl.).

    Meginmarkmið frumvarpsins er að skerpa á ákvæði almennra hegningarlaga um öryggisráðstafanir vegna þeirra sem framið hafa afbrot en ekki er unnt að beita refsingu einhverra hluta vegna. Þau ákvæði hafa staðið að mestu efnislega óbreytt frá setningu laganna eða í rúmlega 70 ár. Í frumvarpinu er skilgreint betur samspil einstakra úrræða og kveðið nánar á um skilyrði fyrir beitingu þeirra þannig að skýrt sé við hvaða aðstæður heimilt sé að beita úrræðum á borð við þvingaða vistun á stofnun og hvenær beita megi vægari úrræðum. Þá er leitast við að færa orðalag gildandi ákvæða um öryggisráðstafanir í nútímalegra horf og gera inntak þeirra skýrara og fyllra en verið hefur. Með því móti er ætlunin að auka gegnsæi lagareglna um öryggisráðstafanir og gera beitingu þeirra fyrirsjáanlegri. Með frumvarpinu er jafnframt stefnt að því að skýra betur en í gildandi ákvæðum hvernig ábyrgð stjórnvalda á fullnustu dóma um öryggisráðstafanir er háttað og mæla fyrir um heimildir til setningar reglugerða til að hægt sé að kveða nánar á um inntak öryggisráðstafana og málsmeðferð.
    Í frumvarpinu er fjallað um öryggisráðstafanir gagnvart mönnum sem misjafnlega er ástatt um. Lagt er til að lögfestar verði reglur um tímalengd öryggisráðstafana og er vikið að skipun tilsjónarmanns einstaklings sem dæmdur hefur verið til að sæta vistun á stofnun. Lagt er til að lögfest verði ákvæði er veiti dómara heimild til að beita öryggisráðstöfunum, að uppfylltum ströngum skilyrðum, í beinu framhaldi af afplánun manns sem dæmdur hefur verið í fangelsi fyrir gróf ofbeldis- eða kynferðisbrot. Lögð er sú skylda á ákæruvaldið að gæta þess að öryggisráðstafanir vari ekki lengur eða séu umfangsmeiri en nauðsyn krefur og mælt fyrir um breytingar og afnám þeirra. Loks er fjallað um stjórnsýslulega ábyrgð á fullnustu dóma um öryggisráðstafanir og mælt fyrir um setningu reglugerða um inntak og framkvæmd öryggisráðstafana. Gert er ráð fyrir að Fangelsismálastofnun beri ábyrgð á því að dómi eða úrskurði um beitingu þeirra ráðstafana sem kveðið er á um hér að framan sé framfylgt. Skal stofnunin ef þörf krefur hafa samráð við velferðarráðuneytið um framkvæmdina og sjá til þess að fyrir hendi séu vistunarúrræði.
    Verði frumvarpið lögfest er gert ráð fyrir að útgjöld Fangelsismálastofnunar geti aukist um allt að 4,5 m.kr., eða sem nemi hálfu starfi, að mati innanríkisráðuneytisins Ekki ætti því að vera um að ræða umtalsverða útgjaldabreytingu miðað við árlega veltu stofnunarinnar eða innanríkisráðuneytisins og verður að gera ráð fyrir að stofnunin eða ráðuneytið geti forgangsraðað til verkefnisins fjárheimildum innan útgjaldaramma fjárlaga.