Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 89. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 549  —  89. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit



um tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

Frá 1. minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar.


    Óumdeilt er að vinna verkefnisstjórnar rammaáætlunar byggði á faglegum forsendum. Engu að síður virðist ráðherra ekki telja fært að byggja efni tillögunnar að öllu leyti á þeirri vinnu. Í 5. kafla athugasemda tillögunnar segir m.a.: „sex virkjanakostir, Urriðafossvirkjun (31), Holtavirkjun (30), Hvammsvirkjun (29), Skrokkölduvirkjun (26), Hágönguvirkjun 1 (91) og Hágönguvirkjun 2 (104), [voru] fluttir úr nýtingarflokki í biðflokk þar sem nauðsynlegt var talið að kanna nánar einstaka áhrifaþætti [þeirra].“ Þessi tilfærsla ráðherra er rökstudd með tilliti til varúðarsjónarmiða. Er því haldið fram að skortur á upplýsingum um áhrif virkjana á verndarsvæði (e. buffer zone) Vatnajökulsþjóðgarðs og á laxfiska í Þjórsá réttlæti hann. En mat ráðherrans er ekki einhlítt. Virðast viðbrögð ráðherra aðeins byggjast á því að tekist hafi að benda á mögulegan upplýsingaskort. Mat ráðherra virðist vera allt annað þegar í ljós kom að þær upplýsingar sem verkefnastjórnin taldi skorta voru til staðar í raun og veru. Þannig var að samkvæmt tillögunni raðar ráðherra virkjanakosti 21, Hólmsárvirkjun neðri við Atley, í biðflokk þar sem mat faghópa hafi ekki byggst á nýjustu gögnum og óvissa væri með áhrif á skóglendi og hvar línulögn myndi liggja. Á fundi umhverfis- og samgöngunefndar og í umsögn 2. minni hluta atvinnuveganefndar kom fram að gögn um nýja staðsetningu virkjunarkostsins hafi ekki verið lögð fyrir faghópana enda hafi þau ekki komið í ljós fyrr en of seint hafi verið fyrir verkefnastjórnina að bregðast við. Að sjálfsögðu hefði þessi staða átt að verða til þess að ráðherra rannsakaði gögnin sjálfstætt og kannaði hvort unnt væri að leggja mat á virkjanakostinn að nýju á grundvelli þeirra. Engin merki slíkrar rannsóknar er að finna í tillögunni eða athugasemdum við hana. Sú er staðan þrátt fyrir að fyrir hafi legið minnisblað orkuskrifstofu iðnaðarráðuneytisins þar sem færð eru rök fyrir tilfærslu virkjanakosta úr biðflokk í nýtingarflokk.
    Vinnubrögð ráðherrans bera þess merki að í huga hans hafi virkjanakostir rammaáætlunar aðeins verið hreyfanlegir til einnar áttar. Í þessu máli hafa þessi vinnubrögð orðið til skaða.
    Að öðru leyti tekur 1. minni hluti undir ályktanir og niðurstöður sem koma fram í umsögn 2. minni hluta atvinnuveganefndar (sjá fylgiskjal).
    Fyrsti minni hluti batt miklar vonir við að vinna faghópa og verkefnisstjórnar mundi skila niðurstöðum sem væru byggðar á faglegum sjónarmiðum. Í meginatriðum varð hann ekki fyrir vonbrigðum fyrr en í ljós kom að tillaga ráðherra var ekki í samræmi við undirbúningsgögn hennar. Mat 1. minni hluta er að hún muni ekki skapa þá sátt sem nauðsynleg hefði verið. Stjórnmálaleg sjónarmið virðast hafa ráðið ferðinni þegar málið var í höndum ráðherra. Með því gekk málið úr réttum farvegi. Ekki verður annað séð en að önnur lögbundin undirbúningsvinna tillögunnar hafi verið vönduð. Af þeim sökum er það álit 1. minni hluta að staldra beri við og kanna hvort ekki sé fært að lagfæra það sem aflaga hefur farið, tillagan verði unnin á ný með niðurstöður og ályktanir verkefnisstjórnar að leiðarljósi. Því leggur 1. minni hluti til að tillögunni verði vísað til ríkisstjórnarinnar.

Alþingi, 19. nóvember 2012.

Ásmundur Einar Daðason.



Fylgiskjal.


Umsögn 2. minni hluta atvinnuveganefndar um tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

    Grundvöllur tillögunnar er nokkuð sterkur. Hún byggist á mikilli vinnu og tiltölulega ítarlegum og skýrum lögum sem ætlað er að útfæra skynsamlegt markmið. Óhætt er að fullyrða að þessi grundvöllur hafi skapað mönnum væntingar um að tillagan mundi innihalda afurð sem endurspeglaði faglegt ákvarðanatökuferli. Vonbrigðin voru töluverð þegar í ljós kom að svo var ekki.
    Eins og flestir vita var tillagan fyrst lögð fram af iðnaðarráðherra á 140. löggjafarþingi en þá var henni vísað til atvinnuveganefndar til umfjöllunar. Á líðandi þingi var tillagan svo lögð fram af umhverfis- og auðlindaráðherra og henni vísað til umhverfis- og samgöngunefndar. Atvinnuveganefnd hafði þó lagt í nokkra vinnu til þess að setja sig inn í þær aðstæður sem tillagan fjallar um. Hún fjallaði m.a. um málið á níu fundum og tók á móti fjölda gesta síðastliðið vor. Að auki lagði nefndin í ferð um Suðurland í september síðastliðnum, m.a. í þeim tilgangi að öðlast skarpari sýn á nokkra virkjanakosti. Óhætt er að fullyrða að þær áherslur sem lágu til grundvallar ákvörðunum um meðferð málsins á líðandi þingi hafi ekkert með skilvirkni eða hagkvæmni í vinnubrögðum að gera.
    Eftir á að hyggja má víst segja að ákveðin aðvörunarmerki hafi komið í ljós strax á fyrstu stigum meðferðar iðnaðarráðherra á málinu. Samkvæmt þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar 2011–2012 var lagt upp með að tillagan yrði lögð fram á Alþingi haustið 2011. Eins og flestir muna varð ekki af því og fór svo að tillagan var fyrst lögð fram 31. mars 2012, á síðasta mögulega framlagningardegi 140. löggjafarþings skv. 45. gr. þingskapa. Höfðu menn þá spurt sig um nokkra hríð hvort tillagan mundi virkilega daga uppi á borði ríkisstjórnarinnar. Ef til vill var ráðherra þó vorkunn enda var ljóst að stjórnarflokkarnir voru síður en svo einhuga um efni hennar. Ekki er vitað hvað gerðist meðan stjórnarflokkarnir köstuðu tillögunni á milli sín um nokkurra mánaða skeið. Þó er ljóst að þar hafa átt sér stað pólitísk hrossakaup þar sem sjónarmiðum um uppbyggingu atvinnulífs og nýtingu orku var kastað á glæ annarra pólitískra gæluverkefna annars hvors stjórnarflokksins eða beggja.
    Þegar tillagan leit loks dagsins ljós voru augljós pólitísk fingraför á henni. Í 5. kafla athugasemda tillögunnar koma slík merki t.d. fram þar sem segir: að „sex virkjanakostir, Urriðafossvirkjun (31), Holtavirkjun (30), Hvammsvirkjun (29), Skrokkölduvirkjun (26), Hágönguvirkjun 1 (91) og Hágönguvirkjun 2 (104), [hafi verið] fluttir úr nýtingarflokki í biðflokk þar sem nauðsynlegt [hafi verið] talið að kanna nánar einstaka áhrifaþætti [þeirra].“ Er þar einnig rakið að tilfærslan hafi verið byggð á ákveðnum varúðarsjónarmiðum og sérstökum röksemdum. Hvað Skrokkölduvirkjun og Hágönguvirkjanir I og II varðar kemur sá rökstuðningur fram fyrir tilfærslunni að verkefnastjórnin hafi ekki metið áhrif þeirra á verndarsvæði (e. buffer zone) Vatnajökulsþjóðgarðs. Hvað Hvammsvirkjun og Holtavirkjun varðar er vísað til varúðarsjónarmiða og talið að frekari rannsóknir þurfi að liggja fyrir um áhrif virkjanaframkvæmda á laxfiska í Þjórsá. Sömu rök eru lögð til grundvallar tilfærslu Urriðafossvirkjunar en að auki bent á að umhverfismat fyrir þá virkjun sé orðið átta ára gamalt. Í öllum framangreindum tilvikum vék iðnaðarráðherra frá þeim tillögum sem hin faglega verkefnastjórn hafði lagt fram. Ávallt er það gert á grundvelli varúðarsjónarmiða, náttúran er látin njóta vafans. Ekkert er svo sem við það að athuga þó svo að benda megi á að inntak svokallaðrar varúðarreglu er síður en svo óumdeilt (sjá t.d. umfjöllun í nefndaráliti atvinnuveganefndar um þingsályktunartillögu um eflingu græna hagkerfisins (þskj. 993 á 140. löggjafarþingi). Það er hins vegar mat ráðherrans á styrkleika vafans sem vekur athygli. Þannig virðast lítt rökstuddar efasemdir um gæði ítarlegra gagna vegna margra ára rannsókna á laxastofnum í Þjórsá og óljós grunur um að virkjun kynni að hafa áhrif, ekki á Vatnajökulsþjóðgarð sjálfan heldur á svæðið í kringum hann, gera það að verkum að kostir sem eru augljóslega þjóðhagslega hagkvæmir virkjunarkostir verða látnir sitja á hakanum um langt skeið. Óhætt er að segja að þessi atriði endurspegli forgangsröðun ráðherrans.
    Það sem varpar enn frekara ljósi á sérstök vinnubrögð ráðherrans er þó eftirfarandi: Í tillögunni er virkjanakosti 21, Hólmsárvirkjun neðri við Atley, raðað í biðflokk. Sú röðun byggist á skorti á upplýsingum, þ.e. að mat faghópanna hafi ekki byggst á nýjustu gögnum og óvissa væri með áhrif á skóglendi og hvar línulögn mundi liggja. Á fundum nefndarinnar og umhverfis- og samgöngunefndar kom fram að mannleg mistök hafi m.a. gert það að verkum að gögn um nýja staðsetningu virkjunarkostsins voru ekki lögð fyrir faghópana. Ný gögn hafi ekki uppgötvast fyrr en undir lok ferlisins og verkefnastjórnin hafi ekki treyst sér til að hefja að nýju skoðun á virkjunarkostinum og draga þannig skil á niðurstöðum varðandi aðra kosti. 2. minni hluti fær ekki betur séð en að með nýjum áætlunum um virkjun hafi verið komið til móts við helstu gagnrýni sem heyrst hefur á eldri virkjanaáform sem verkefnastjórnin yfirfór. Þá virðast þær upplýsingar sem faghóparnir yfirfóru ekki hafa verið ítarlegar og fullnægjandi. Þrátt fyrir þetta gerði ráðherra engan reka að því að rannsaka virkjanakostinn sjálfstætt og bregðast við að neinu leyti. Ekkert mat virðist hafa verið lagt á hinar nýju upplýsingar af hans hálfu – hefur þó verið nægur tími til þess. Við þetta bætist að í minnisblaði orkuskrifstofu iðnaðarráðuneytisins til iðnaðarráðherra (sjá fylgiskjal I) og ráðuneytisstjóra, dags. 5. janúar 2012, eru m.a. færð fram rök fyrir því að í raun hafi komið fram gögn sem sýni fram á að ekki sé ástæða til að ætla að óvissa ríki um áhrif framkvæmdarinnar á skóglendi og legu línulagnar og líta beri svo á að gæði þeirra gagna sem borist hafa séu fullnægjandi. Því sé ekki þörf á frekari upplýsingum til að ákveða röðun virkjunarkostsins í orkunýtingarflokk eða verndarflokk.
    Framangreind vinnubrögð ráðherrans gefa óhjákvæmilega til kynna að virkjanakostir rammaáætlunar hafi aðeins verið hreyfanlegir í eina átt. Virðist mat ráðherrans á upplýsingum hafa verið formótað þannig að aðrar upplýsingar en þær sem með einhverjum hætti vöktu upp minnsta vafa um þá mynd sem fyrir lá hafi ekki verið tækar.

Nýr biðflokkur.
    Í umræðunum um málið varð 2. minni hluta ljóst að erfitt er að fjármagna rannsóknir og annan undirbúning verkefna sem raðast í biðflokk. Var athygli nefndarmanna nokkrum sinnum vakin á því að biðflokkur er ekki hugsaður sem geymsluflokkur. Því lagði 2. minni hluti til að biðflokknum yrði skipt upp, annars vegar í biðflokk virkjanakosta sem vilji væri til að geyma að taka ákvörðun um hvort ættu heima í verndarflokki eða nýtingarflokki og hins vegar nýr flokkur – biðflokkur til nýtingar – sem væri hugsaður fyrir verkefni þar sem óskað væri tiltekinna rannsókna og undirbúnings áður en hægt væri að ákveða hvort viðkomandi virkjanakostur ætti heima í nýtingarflokki. Væri mönnum þannig gert fært að ráðast í umhverfismat, arðsemismat og aðrar rannsóknir áður en ákveðið yrði að ráðast í framkvæmdir.

Mörg umdeilanleg mál.
    Það vekur athygli að sex vatnsaflsvirkjanakostir eru færðir úr nýtingarflokki í bið. Á síðustu árum hefur komið í ljós að vandamál fylgja jarðvarmavirkjunum sem enn hefur ekki fundist lausn á, ekki síst hvað varðar útblástur lofttegunda og niðurdælingu vatns. Hins vegar eru vatnsaflsvirkjanir og áhrif þeirra þekkt hér á landi enda hafa landsmenn margra áratuga reynslu af þeim. Því orkar tilfærsla tveggja efstu virkjananna í neðri Þjórsá tvímælis og þá ekki síst í ljósi þess að Landsvirkjun hefur verið að prófa seiðafleytu fyrir efstu virkjunina. Þrátt fyrir það telur 2. minni hluti eðlilegt að neðsta virkjunin, Urriðafossvirkjun, sé færð í biðflokk, í það minnsta þar til nægileg reynsla er komin á seiðafleytuna.
    Skrokkölduvirkjun og Hágönguvirkjanir I og II eru færðar í biðflokk vegna hugsanlegra áhrifa þeirra á verndarsvæði umhverfis Vatnajökulsþjóðgarð. Á fundi nefndarinnar kom fram að verndarsvæðin (buffer zone) hafa ekki beina lagastoð. Til að mynda kemur hugtakið hvorki fram í tillögunni né í lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun.
    Á fundum nefndarinnar, og sameiginlegum fundum með umhverfis- og samgöngunefnd, kom fram að hugmyndir um Hagavatnsvirkjun urðu fyrst til sem umhverfisverndarmál, þ.e. í tengslum við hugmyndir um heftingu sandfoks. Mikil samstaða er um þá virkjun meðal ferðaþjónustunnar, landeigenda, sveitarstjórna aðliggjandi sveitarfélaga og heimamanna. Þá kom fram í máli Sveins Runólfssonar landgræðslustjóra og Ólafs Arnalds prófessors á fundi nefndarinnar að stífla eða virkjun sem halda mundi vatnsborð Hagavatns stöðugu mundi án efa minnka uppblástur frá Hagavatnssvæðinu. Á sameiginlegum fundi nefndarinnar og umhverfis- og samgöngunefndar kom fram að framkvæmdaraðilar Hagavatnsvirkjunar hyggjast reisa jafnrennslisvirkjun sem viðhaldi stöðu yfirborði vatnsins.
    2. minni hluti bendir að lokum á að Hólmsárvirkjun neðri við Atley er virkjanakostur sem heimamenn í Skaftárhreppi hafa lýst stuðningi við. Samfélagsleg áhrif af þeirri virkjun verða mjög jákvæð. Hefur sveitarstjórn hreppsins lagt ríka áherslu á að virkjunin verði færð í nýtingarflokk. Eru tillögur hennar byggðar á sjónarmiðum um eflingu veikburða atvinnuástands á svæðinu og tekjur sem samfélagið mun njóta vegna hennar. Skaftárhreppur er í erfiðri stöðu og þarf nauðsynlega á fjölgun atvinnutækifæra að halda. Landbúnaður og ferðaþjónusta eru uppistaða atvinnulífs á svæðinu. Efla þarf fjölbreytni í starfavali þar svo atvinnulíf og rekstur sveitarfélagsins verði sjálfbær. Sveitarstjórnin í Skaftárhreppi hefur lagt áherslu á að þar hafi skapast sátt um stækkun Vatnjökulsþjóðgarðs samhliða samþykkt virkjanakosta í aðalskipulag. Hólmsárvirkjun er þeirra kosta bestur. Virkjun Hólmsár styrkir einnig grunnnet rafmagnsframleiðslu og rafmagnsflutnings á landssvæði sem býr við óstöðuga og dýra raforku.

Lokaorð.
    Að mati 2. minni hluta hefði verið eðlilegra að meira samræmis hefði gætt milli mats verkefnisstjórnar rammaáætlunar og mats flutningsmanns tillögunnar – faglegri vinnubrögð hefðu orðið ofan á í stað þeirra pólitísku vinnubragða sem þar eru viðhöfð. Hefði svo verið væri sátt á milli sjónarmiða um vernd og nýtingu virkjanakosta mun líklegri. Þær vonir sem margir bundu við vinnuna við rammaáætlun um að víðtæk sátt næðist milli sjónarmiða um vernd og nýtingu – sú sátt virðist hafa horfið í pólitískum hrossakaupum stjórnarflokkanna.
    Álit 2. minni hluta er að Alþingi beri að virða niðurstöðu verkefnastjórnarinnar. Því leggur 2. minni hluti til að gerðar verði breytingar á tillögunni, hún formuð upp á nýtt og aðlöguð tillögum verkefnastjórnar sem sé hin rétta faglega niðurstaða.
    Ef tillagan verður samþykkt óbreytt, eins og forsvarsmenn meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar virðast áætla, er ljóst að þar fer pólitísk rammaáætlun ríkisstjórnar Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs og Samfylkingar en ekki fagleg niðurstaða faghópa sem unnu að rammaáætlun um vernd og nýtingu virkjanakosta og vonir voru bundnar við að víðtæk sátt næðist um.
    Önnur afleiðing verður áframhaldandi stöðnun atvinnulífs með tilheyrandi atvinnuleysi ekki síst í jarðverktaka- og byggingargeira. Sú stöðnun er á ábyrgð ríkisstjórnarflokkanna.

Alþingi, 19. nóvember 2012.

Sigurður Ingi Jóhannsson.


Fylgiskjal.

Mögulegir virkjanakostir í vatnsafli sem hægt væri að færa úr biðflokk í orkunýtingarflokk rammaáætlunar.
Minnisblað til ráðherra og ráðuneytisstjóra
frá orkuskrifstofu, 5. janúar 2012.


    Eftirfarandi virkjunarkostir í vatnsafli eru í biðflokki þingsályktunartillögunnar:
Landshluti Vatnasvið Virkjunarkostur
Vesturland Hvítá í Borgarfirði 1 Kljáfossvirkjun
Vestfirðir Hestfjörður 2 Glámuvirkjun
Vestfirðir Þverá, Langadalsströnd 3 Skúfnavatnavirkjun
Norðurland Jökulsár í Skagafirði 6 Skatastaðavirkjun B
Norðurland Jökulsár í Skagafirði 7 Skatastaðavirkjun C
Norðurland Jökulsár í Skagafirði 8 Villinganesvirkjun
Norðausturland Skjálfandafljót 9 Fljótshnúksvirkjun
Norðausturland Skjálfandafljót 10 Hrafnabjargavirkjun A
Suðurland Hverfisfljót 15 Hverfisfljótsvirkjun
Suðurland Skaftá 40 Búlandsvirkjun
Suðurland Hólmsá 19 Hólmsárvirkjun við Einhyrning, án miðlunar
Suðurland Hólmsá 21 Hólmsárvirkjun neðri við Atley
Suðurland Farið við Hagavatn 39 Hagavatnsvirkjun
Suðurland Hvítá í Árnessýslu 34 Búðartunguvirkjun
Suðurland Hvítá í Árnessýslu 35 Haukholtsvirkjun
Suðurland Hvítá í Árnessýslu 36 Vörðufellsvirkjun
Suðurland Hvítá í Árnessýslu 37 Hestvatnsvirkjun
Suðurland Ölfusá 38 Selfossvirkjun

    Af framangreindum virkjunarkostum má telja að mest rök séu fyrir því að færa Hagavatnsvirkjun úr biðflokk í orkunýtingarflokk. Í öðru sæti kemur síðan Hólmsárvikjun neðri við Atley. Hér að neðan eru færð fram rök fyrir flutningi þessara virkjunarkosta úr biðflokk í orkunýtingarflokk. Röksemdir fyrir flutningi annarra af ofangreindum virkjanakostum eru vandfundnari, m.a. út frá röðun og könnun verkefnisstjórnar.

Hagavatnsvirkjun (39)
    Í röðun verkefnisstjórnar var röðun af sjónarhóli nýtingar 34 og röðun af sjónarhóli verndar 35. Í könnun verkefnisstjórnar voru 4 atkvæði í nýtingarflokk, 5 í biðflokk og 2 í verndarflokk. Uppsett afl er 20 MW.
    Hagavatnsvirkjun er í drögum að þingsályktunartillögunni flokkuð í biðflokk með eftirfarandi rökstuðningi: „Óvissa um gildi virkjunar til að draga úr uppblæstri og sandfoki. Stíflun útfalls Hagavatns rýrir gildi svæðisins fyrir ferðamenn.“
    Í umsagnarferli þingsályktunartillögunnar, sem lauk 12. nóvember 2011, voru 5 umsagnir sem beindust sérstaklega að Hagavatnsvirkjun (frá Bláskógabyggð, ferðamálafulltrúa Uppsveita Árnessýslu, Íslenskri Vatnsorku, landeigenda Úthlíðartorfu og Kristni Briem) . Allar voru þær í þá veru að færa skyldi Hagavatnsvirkjun úr biðflokk í orkunýtingarflokk. Í umsögnunum er sérstaklega komið inn á jarðvegsfok og áhrif á ferðaþjónustu, með þeim hætti að áhrif virkjunarinnar verði jákvæð fyrir báða þessa þætti (dragi úr jarðvegsfoki og hafi jákvæð áhrif á ferðaþjónustu).
    Í umsögn Íslenskrar Vatnsorku kemur fram að umhverfisáhrif virkjunar við Hagavatn sunnan Langjökuls mótast af því að stíflað verði skarð sem myndaðist í jökulgarðinn fyrir um 80 árum, en þannig myndast uppistöðulón sem yrði á sama stað og stöðuvatn sem þar var áður af náttúrunnar hendi. Þannig má segja að fyrri stærð Hagavatns verði endurheimt með framkvæmdinni. Áætlanir sýna að sandfok af svæðinu myndi þannig minnka verulega og hefur Landgræðsla ríkisins ásamt landeigendum og sveitarfélaginu Bláskógarbyggð því sýnt þessum hugmyndum mikinn áhuga. Virkjunin hefur verið útfærð á umhverfisvænni hátt en upprunalega var gert ráð fyrir, m.a. með stöðugu vatnsborði án árstíðabundinnna sveiflna.
    Í umsögn sveitarstjórnar Bláskógabyggðar kemur m.a. fram að: „Til margra ára hefur það verið mikið áhugamál hjá sveitarstjórn Bláskógabyggðar og þar áður sveitarstjórn Biskupstungnahrepps að endurheimta fyrri hámarksstærð Hagavatns með stíflugerð til að hefta sandfok og endurheimta gróðurþekju á nærliggjandi svæðum. Samhliða því hefur sveitarstjórn haft hug á því að nýta þá framkvæmd og vatn Hagavatns til orkuframleiðslu með það að markmiði að auka hagkvæmni þeirrar framkvæmdar. Landgræðsla ríkisins hefur verið áhugasöm um þetta verkefni og unnið að rannsóknum þar að lútandi. Landgræðslan ásamt fulltingi Biskupstungnahrepps lét vinna mat á umhverfisáhrifum þess að hækka vatnsborð Hagavatns með því að stífla Farið, árið 1997.
    Sveitarstjórn Bláskógabyggðar hefur áður ályktað um mikilvægi þess að færa yfirborð Hagavatns til fyrra horfs til að hefta sandfok og tryggja árangur uppgræðslustarfs, sem hún hefur tekið þátt í meðal annars með Landgræðslu ríkisins. Þetta verkefni hefur einnig verið mikið hagsmunamál hjá landeigendum Úthlíðartorfunnar.
    Hið mikla jarðvegsfok frá svæðinu ætti flestum að vera alkunna, en oft á tíðum er þetta einna stærsti valdur að svifryksmengun á suðvesturhluta landsins, svo sem í Reykjavík. Því til stuðnings eru til margar loftmyndir.
    Með tilliti til allra þeirra rannsókna sem hafa átt sér stað um umhverfisþætti svæðisins, getur sveitarstjórn Bláskógabyggðar ekki verið annað en algerlega ósammála þeim rökstuðningi sem fram kemur í tillögu um þingsályktun, það sem lýtur að Hagavatnsvirkjun.
    Fyrir liggja í dag hugmyndir um virkjun Hagavatns, sem hefur tekið umtalsverðum breytingum frá fyrri hugmyndum. Um er að ræða mun umhverfisvænni útfærslu. Virkjunin verði m.a. útfærð sem rennslisvirkjun sem mun tryggja mun stöðugra vatnsyfirborð ofan stíflu. Rafmagnstengingar verði að mestu leyti í jarðstrengjum. Vegslóðar og reiðleiðir verði samræmdar til að stemma stigu við utanvegaakstur, m.a. við Jarlhettur. Við útfærslu virkjunarinnar gefst einnig kostur á að opna fyrir ýmsa möguleika á frekari tengingu við starfsemi ferðaþjónustu á svæðinu.
    Byggðaráð vill leggja áherslu á, að með þessari framkvæmd er verið að endurheimta fyrra horf Hagavatns, hefta jarðvegsfok, auka möguleika á landgræðslu og bæta lífsgæði íbúa á áhrifasvæði uppfoksins.
    Sveitarstjórn Bláskógabyggðar fer þess eindregið á leit við iðnaðarráðuneytið og frummælendur fyrirliggjandi þingsályktunartillögu að Hagavatnsvirkjun verði færð til um flokk, þ.e. úr biðflokki í orkuvinnsluflokk.“
    Í umsögn Ferðamálafulltrúi Uppsveita Árnessýslu og framkvæmdastjóri Markaðsstofu Suðurlands er tekið í sama streng og bent á að virkjunin muni koma í veg fyrir gífurlegt sandfok sem er á svæðinu og opna nýja spennandi möguleika í ferðaþjónustu. Breið samstaða sé um málið meðal heimamanna, sveitarstjórnar og ferðaþjónustu og með umhverfissjónarmið að leiðarljósi sé brýnt að virkjunarkosturinn verði endurmetinn og fluttur í orkunýtingarflokk.
    Umsögn landeigenda Úthlíðartorfu og Kristins Briem gengur í sömu átt.
    Niðurstaða: Í umsagnarferli þingsályktunartillögunnar komu fram upplýsingar sem sýna fram á að ekki sé ástæða til að ætla að Hagavatnsvirkjun rýri gildi svæðisins fyrir ferðamenn og jafnframt að virkjunin sé líkleg til að draga úr uppblæstri og sandfoki og auka möguleika á landgræðslu. Var því í umsagnarferlinu brugðist við þeim atriðum sem tilgreind voru í rökstuðningi þingsályktunartillögunnar fyrir flokkun í biðflokk. Með vísan til þessa, og að með framkvæmdinni er verið að endurheimta fyrra horf Hagavatns, þykir rétt að færa Hagavatnsvirkjun úr biðflokk í orkunýtingarflokk.

Hólmsárvirkjun neðri við Atley (21)
    Í röðun verkefnisstjórnar var röðun af sjónarhóli nýtingar 31 og röðun af sjónarhóli verndar 36. Í könnun verkefnisstjórnar voru 6 atkvæði í nýtingarflokk, 4 í biðflokk og 2 í verndarflokk. Uppsett afl er 65 MW.
    Þrátt fyrir röðun og könnun verkefnisstjórnar er Hólmsárvirkjun neðri við Atley í drögum að þingsályktunartillögunni flokkuð í biðflokk með eftirfarandi rökstuðningi: „Mat faghópa var ekki byggt á nýjustu gögnum. Óvissa er með áhrif á skóglendi og hvar línulögn mun liggja. Vantar frekari upplýsingar.“
    Í umsagnarferli þingsályktunartillögunnar, sem lauk 12. nóvember 2011, voru 3 umsagnir sem beindust sérstaklega að Hólmsárvirkjun neðri við Atley (Orkusalan ehf., Vigfús Gunnar Gíslason og Jóna Lísa Gísladóttir). Tvær þeirra voru í þá veru að færa virkjunarkostinn úr biðflokk í verndarflokk en ein í þá veru að færa hann í orkunýtingarflokk.
    Í umsögn Orkusölunnar ehf. er tilgreint að frá 2002 hafi Landsvirkjun og RARIK staðið sameiginlega að rannsóknum vegna hugsanlegrar virkjunar í Hólmsá. Í niðurstöðum fyrsta áfanga rammaáætlunar frá október 2003 var fjallað um hugsanlega Hólmsárvirkjun við Einhyrning, án miðlunar, og var sá kostur metinn í umhverfisflokk a; þ.e. sem minnst umhverfisáhrif höfðu. Á grundvelli þessarar jákvæðu niðurstöðu var unnið að frekari rannsóknum og útfærslum á virkjun Hólmsár og í apríl 2009 var farið að athuga þann möguleika að virkja Hólmsá með miðlunarlóni við Atley. Þannig hefur verið unnin ný útfærsla virkjunar í Hólmsá sem hefur verulega minni umhverfisáhrif en sú útfærsla sem fyrst var metin í rammaáætlun.
    Varðandi óvissu með áhrif á skóglendi er bent á að í þeim gögnum sem send voru inn í júlí 2009 vegna rammaáætlunar er fullbúið vistgerðarkort, þar sem sjá má þær landgerðir sem lónið mun fara yfir. Þar kemur fram að í 5% lónstæðisins er birkikjarr. Birkikjarr þekur 17 km 2 á rannsóknarsvæði Hólmsárvirkjunar, af því munu um 0,42 km 2 fara undir vatn við myndun Atleyjarlóns. Það sé því ekki rétt að óvissa sé um áhrif virkjunarinnar á skóglendi eða að það vanti frekari upplýsingar.
    Varðandi óvissu með hvar línulögn mun liggja er bent á að miðað er við að tenging virkjunarinnar við flutningskerfið verði við Sigöldulínu í um 30 km fjarlægð frá virkjuninni. Þetta hafi verið kynnt verkefnisstjórn og ekki sé því uppi óvissa um hvar línulögn muni liggja.
    Varðandi gæði gagna er bent á að gögn vegna Hólmsárvirkjunar hafi fengið einkunnina 1 A, 3 B og 1 C sem telja megi fullnægjandi upplýsingar. Er því í umsögn Orkusölunnar ehf. hvatt til að Hólmsárvirkjun neðri við Atley verði færð úr biðflokki í orkunýtingarflokk.
    Í umsögnum tveggja landeigenda er lagt til að virkjunarkosturinn eigi að vera í verndarflokki í stað biðflokks þar sem að umhverfisáhrif séu mjög mikil og óafturkræf. Þannig sé fyrirhugað lón 10km 2. Virkjunin muni þrengja að hefðbundnum sauðfjárbúskap í Skaftártungu.
    Niðurstaða: Í umsagnarferlinu komu fram upplýsingar sem sýna fram á að ekki sé ástæða til að ætla að óvissa sé með áhrif framkvæmdarinnar á skóglendi eða hvar línulögn muni liggja vegna virkjunarinnar. Líta ber svo á að gæði gagna séu fullnægjandi og því ekki þörf á frekari upplýsingu til að unnt sé að raða virkjunarkostinum annaðhvort í orkunýtingarflokk eða verndarflokk. Með vísan til röðunar verkefnisstjórnar og könnunar verkefnisstjórnar eru því rök til þess að færa Hólmsárvirkjun neðri við Atley úr biðflokki í orkunýtingarflokk, þar sem fullnægjandi upplýsingar eru til staðar.

Búlandsvirkjun (40)
    Í röðun verkefnisstjórnar var röðun af sjónarhóli nýtingar 42 og röðun af sjónarhóli verndar 25. Í könnun verkefnisstjórnar voru 3 atkvæði í nýtingarflokk, 3 í biðflokk og 6 í verndarflokk. Uppsett afl er 150 MW.
    Búlandsvirkjun er í drögum að þingsályktunartillögunni flokkuð í biðflokk með eftirfarandi rökstuðningi: „Rökstuðningur: „Virkjunarkostur kemur seint fram til skoðunar og erfitt að meta áhrif hans. Vantar frekari upplýsingar.“
    Í umsagnarferli þingsályktunartillögunnar, sem lauk 12. nóvember 2011, voru 4 umsagnir sem beindust sérstaklega að Búlandsvirkjun. Þrjár voru í þá veru að færa skyldi Búlandsvirkjun úr biðflokk í verndarflokk en ein í þá veru að færa hana í orkunýtingarflokk.
    Með vísan til framangreinds verður að teljast hæpið að ætla að rökstyðja það að flytja Búlandsvirkjun úr biðflokki í orkunýtingarflokk.

Aðrir virkjunarkostir vatnsafls í biðflokki.
    Út frá skoðunarkönnun og röðun verkefnisstjórnar og fyrirliggjandi gögnum eru tæpast aðrir vatnsaflskostir sem koma til greina að flytja úr biðflokk í orkunýtingarflokk.
    Varðandi virkjunarkost 19, Hólmsárvirkjun við Einhyrning án miðlunar (72 MW), er tekið fram í rökstuðningi í þingsályktunartillögunni að „virkjunarkostir í Hólmsá nr. 19 og 21 útiloka hvor annan og þar sem nr. 21 fer í biðflokk fer nr. 19 jafnframt í biðflokk“. Ekki er því unnt að færa bæða virkjunarkosti 19 og 21 úr biðflokk í orkunýtingarflokk. Í röðun verkefnisstjórnar er virkjunarkostur 19 í 38 sæti af sjónarhóli nýtingar og 29 sæti af sjónarhóli verndar og í skoðunarkönnun verkefnisstjórnar var hann með 3 atkvæði í nýtingarflokk, 5 í biðflokk og 4 í verndarflokk. Ríkari rök virðast því fyrir því að færa virkjunarkost 21 (Hólmsárvirkjun neðri við Atley) úr biðflokk í orkunýtingarflokk fremur en virkjunarkost 19 (Hólmsárvirkjun við Einhyrning án miðlunar).