Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 89. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 554  —  89. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálitum tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

Frá 2. minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar.


    Unnið hefur verið að gerð rammaáætlunar um langt árabil. Allan tímann var markmiðið að skapa sátt um fagleg vinnubrögð og aðferðir við að meta virkjunarkosti út frá mismunandi sjónarhornum, einkum út frá orkugetu og hagkvæmni viðkomandi kosta, þjóðhagslegum áhrifum, öðrum áhrifum á samfélag, atvinnulíf og byggðaþróun, og afleiðingum fyrir náttúrufar og náttúru- og menningarminjar. Hugsunin var með öðrum orðum sú að ákvarðanir um nýtingu virkjunarkosta byggðust á víðtæku mati þar sem tillit væri tekið til fjölbreyttra sjónarmiða.
    Byggt var á þeirri hugmynd að áfram yrði haldið við nýtingu orkuauðlinda landsins, en ákvarðanir um nýtingu einstakra svæða tækju ekki bara mið af hagkvæmni og efnahagslegum hagsmunum heldur væri einnig tekið tillit til umhverfisverndarsjónarmiða og margvíslegra félagslegra þátta.
    Grunnhugmynd rammaáætlunar var því sú að búa til vinnulag og verkferla, byggða á faglegum sjónarmiðum, sem dregið gætu úr þeim miklu deilum sem oft hafa staðið um einstaka virkjunarkosti á umliðnum árum. Með því móti væri líka auðveldara fyrir alla viðkomandi aðila, svo sem orkufyrirtæki, sveitarfélög og önnur yfirvöld, að forgangsraða verkefnum og gera áætlanir til lengri tíma. Rannsóknir, skipulagsvinna og annar undirbúningur framkvæmda getur tekið langan tíma og mikilvægt að sú vinna beinist að virkjunarkostum og landsvæðum þar sem sæmilegar líkur eru á að framkvæmdir verði heimilaðar. Röðun virkjunarkosta og flokkun þeirra í orkunýtingarflokk, biðflokk og verndarflokk gæti veitt veigamiklar leiðbeiningar um forgangsröðun, jafnvel þótt niðurstöður rammaáætlunar væru ekki endanlegar að öllu leyti. Þannig þýddi flokkun virkjunarkosts í nýtingarflokk t.d. ekki sjálfkrafa að heimilt væri að ráðast í framkvæmdir, það mundi ráðast af öðrum ákvörðunum og leyfisveitingum á grundvelli annarra laga, svo sem á sviði skipulagslaga, mannvirkjalaga og umhverfislöggjafar.
         Segja má að allgóð samstaða hafi náðst um vinnu verkefnisstjórnar og faghópa meðan á starfi þeirra stóð. Eftir að þeirri vinnu lauk lá fyrir röðun virkjunarkosta út frá niðurstöðum faghópanna. Var þar auðvitað komin mikilvægur grunnur að frekari vinnu við undirbúning þingsályktunartillögunnar. Áframhaldandi úrvinnsla var í höndum formanns verkefnisstjórnar og formanna faghópanna sem skiluðu drögum að þingsályktunartillögu þar sem 67 virkjunarkostum var skipað í orkunýtingarflokk, biðflokk og verndarflokk. Tók þá við ferli þar sem þessi niðurstaða var sett í umsagnarferli og að lokum skiluðu umhverfisráðherra og iðnaðarráðherra endanlegri tillögu sem byggðist á niðurstöðu formannahópsins með nokkrum veigamiklum undantekningum. Sex virkjunarkostir, þrír í neðri hluta Þjórsár og þrír á miðhálendinu, voru færðir úr nýtingarflokki í biðflokk og var þar um að ræða kosti sem raðast höfðu mjög ofarlega í nýtingarátt í vinnu faghópa og verkefnisstjórnar. Þessi breyting, sem ráðherrar ríkisstjórnarinnar stóðu að, hefur verið gagnrýnd mjög harðlega innan þings og utan, eins og komið hefur skýrlega fram í umsögnum sem borist hafa um þingsályktunartillöguna og í máli gesta á nefndarfundum, bæði á vorþingi og nú í haust. Hefur niðurstaða ráðherranna verið gagnrýnd út frá þeirri forsendu að hún víki frá faglegri niðurstöðu án fullnægjandi raka og hún byggist umfram allt annað á einhvers konar pólitískri málamiðlun innan ríkisstjórnarflokkanna og milli þeirra.
    Eftir að tillaga ríkisstjórnarinnar var lögð fram óbreytt á þingi í haust lögðu þingmenn Sjálfstæðisflokks fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um verndar og orkunýtingaráætlun, nr. 48/2011 (þingskjal 3, 3. mál). Helsta breytingin í frumvarpinu felur í sér að verkefnisstjórn verði kölluð saman að nýju og falið að gera tillögu að nýrri flokkun virkjunarkosta í samræmi við lögin. Var á því byggt að vinnan við þá verkáfanga sem voru í höndum verkefnisstjórnar og faghópa hefði verið vönduð og fagleg en málið hefði hins vegar tekið nýja stefnu eftir að það komst í hendur ráðherranna. Mikilvægt væri að tryggja að fagleg sjónarmið réðu för við ákvörðun um verndun og orkunýtingu landsvæða. Það yrði ekki gert með öðrum hætti en þeim að stíga skref til baka og setja málið að nýju í faglegt ferli.
    Með samþykkt framangreinds frumvarps væri verkefnisstjórninni gert kleift að gera tillögu að flokkun virkjunarkosta. Sú tillaga yrði í framhaldi lögð fyrir Alþingi og yrði grunnur að faglega unninni áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða sem víðtæk sátt gæti náðst um. 2. minni hluti er þeirrar skoðunar að vinnulag byggt á framangreindu frumvarpi væri best til þess fallið að skila árangri í þessu sambandi. Sömu sjónarmið koma fram í umsögn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í atvinnuveganefnd sem lögð var fram 19. nóvember sl.
    Annar minni hluti leggst gegn því að tillaga til þingsályktunar um vernd og orkunýtingu landsvæða nái fram að ganga óbreytt. Tillagan í þeirri mynd sem umhverfisráðherra og iðnaðarráðherra gengu frá í vor og meiri hluti nefndarinnar leggur nú til að verði samþykkt óbreytt getur ekki orðið sá grundvöllur að víðtækri sátt um langtímaáætlun á þessu sviði sem að var stefnt í upphafi.
    Annar minni hluti lítur ekki svo á að með samþykkt rammaáætlunar verði með öllu komið í veg fyrir ágreining um einstakar virkjunarframkvæmdir eða togstreitu milli nýtingar- og verndarsjónarmiða almennt. Engu að síður getur rammaáætlun sem byggist á faglegum vinnubrögðum sem sátt er um orðið til þess að draga verulega úr deilum og auðvelda áætlanagerð bæði opinberra aðila og einkaaðila til lengri tíma. Rammaáætlun þar sem vikið er frá faglegum niðurstöðum á pólitískum eða hugmyndafræðilegum forsendum nær ekki þeim tilgangi og verður fyrir vikið skammlífari en ella.

Alþingi, 23. nóvember 2012.Birgir Ármannsson,


frsm.


Árni Johnsen.