Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 171. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Nr. 3/141.

Þingskjal 592  —  171. mál.


Þingsályktun

um fjögurra ára fjarskiptaáætlun fyrir árin 2011–2014.


    Alþingi ályktar, sbr. lög um fjarskipti, nr. 81/2003, með síðari breytingum, að á árunum 2011–2014 skuli unnið að fjarskiptamálum í samræmi við eftirfarandi áætlun:

ALMENN FJARSKIPTAVERKEFNI


    Á árunum 2011–2014 verði unnið að verkefnum sem falla undir fjögur meginmarkmið fjarskiptaáætlunar, í samræmi við stefnumótun í fjarskiptaáætlun fyrir árin 2011–2022.

1. Markmið um aðgengileg og greið fjarskipti.
Verkefni:
     a.      Skilgreindir verði þjóðfélagslega mikilvægir fjarskiptastaðir, og kröfur til þeirra, sem nauðsynlegir eru til að ná markmiðum um öryggi fjarskiptakerfa á landsvísu sem og útbreiðslu og afköst.
     b.      Samstarfsvettvangur hagsmunaaðila móti tillögur að úrbótum sem greiði fyrir endurnýjun og uppbyggingu ljósleiðarastofn- og aðgangsneta um land allt.
     c.      Skilgreindur verði markaðsbrestur í fjarskiptum og leiðir stjórnvalda til úrbóta.
     d.      Fjarskiptasjóður vinni stöðumat, þarfagreiningu og forgangsröðun núverandi og mögulegra verkefna.
     e.      Tryggt verði jafnt aðgengi fjarskiptafyrirtækja að sendistöðum utan þéttbýlis og stuðlað að hóflegri verðlagningu.
     f.      Settar verði fram myndrænar upplýsingar um fjarskiptastaði, fjarskiptakerfi og þjónustusvæði þeirra.
     g.      Yfirfærslu hliðrænnar útsendingar sjónvarps yfir á stafrænt form verði lokið fyrir árslok 2014.
     h.      Þjóðskrá, skipaskrá, ökutækjaskrá og fleiri skrár verði samþættar/sameinaðar í samvinnu við nýja upplýsingatæknimiðstöð.
     i.      Innleidd verði rafræn viðskipti hjá innanríkisráðuneytinu þar sem það er tæknilega mögulegt og hagkvæmt.
     j.      Innleidd verði eftir þörfum tilskipun ESB varðandi opnun póstmarkaða.
     k.      Opnað verði fyrir aðgang að skjölum og samskiptum einstaklinga og lögaðila við opinbera aðila á island.is.
     l.      Tryggt verði aðgengi að einni hljóðvarpsrás á helstu stofnvegum.

2. Markmið um hagkvæm og skilvirk fjarskipti.
Verkefni:
     a.      Evrópuregluverk verði innleitt eftir þörfum árið 2012.
     b.      Vinnuhópur geri tillögur að hagræðingu í opinberum innkaupum á fjarskiptaþjónustu.
     c.      Úttekt verði gerð á tækni og verði nettenginga opinberra stofnana utan helstu þéttbýlissvæða.
     d.      Opinberir aðilar horfi til samnýtingar á nettengingum í opinberum innkaupum.
     e.      Lagaumhverfi verði endurskoðað með tilliti til aukins hvata til fjárfestinga í fjarskiptainnviðum auk þess sem stuðlað verði að samnýtingu og samstarfi.
     f.      Gjaldskrá tíðna verði endurskoðuð með tilliti til aukinnar útbreiðslu fjarskipta í dreifbýli.
     g.      Auðlindagjald fyrir tíðnir verði útfært og innleitt.
     h.      Reiknivélar á netinu nái yfir helstu fjarskiptaþjónustu á hverjum tíma.
     i.      Fjarskiptafyrirtæki setji fram upplýsingar um verð á fjarskiptaþjónustu á samanburðarhæfan hátt.
     j.      Verkefnahópur geri tillögur að útfærslu á alþjónustukvöð í fjarskiptum sem verði endurskoðuð á fjögurra ára fresti, fyrst árið 2014.
     k.      Lög verði sett um íslenska landslénið .is sem tryggi örugga og skilvirka stjórnarhætti landslénsins.
     l.      Stjórnunarhættir internetsins innan stjórnsýslunnar verði metnir og nauðsynlegar úrbætur gerðar.
     m.      Tilskipun 2008/6/EB um póstmarkaði verði innleidd eftir þörfum með hliðsjón af íslenskum aðstæðum.
     n.      Reglur um póstflutninga og vöruflutninga verði samræmdar eins og við á.
     o.      Skilgreining á alþjónustu í pósti verði endurskoðuð og hagkvæm lausn fundin á fjármögnun.

3. Markmið um örugg fjarskipti.
Verkefni:
     a.      Mótuð verði stefna stjórnvalda um net- og upplýsingaöryggi og vernd ómissandi upplýsingainnviða er varða þjóðaröryggi.
     b.      Mótaðar verði tillögur að framtíðarskipan fyrirkomulags öryggisstjórnunar á grunnstoðum fjarskipta á neyðarstundu þjóðar.
     c.      Skilgreindar verði kröfur til neyðarfjarskipta.
     d.      Mikilvægir fjarskiptainnviðir verði skilgreindir og kortlagðir.
     e.      Lagarammar og stjórnsýsluleg ábyrgð varðandi öryggisfjarskipti verði skýrð.
     f.      Mótaðar verði viðbragðsáætlanir um náttúruvá, farsóttir og netárásir í samstarfi við fjarskiptafyrirtæki og neyðar- og viðbragðsaðila.
     g.      Skilgreindur verði vettvangur fyrir neyðarsamstarf fjarskiptafyrirtækja og stærstu hagsmunaaðila.
     h.      Nauðsynlegar úrbætur sem efla þol gagnvart stóráföllum verði skilgreindar og innleiddar.
     i.      Skilgreindar og framkvæmdar verði reglubundnar æfingar á viðbrögðum við stóráföllum.
     j.      Útbúinn verði rafrænn vettvangur og einföld kæruleið fyrir kærur notenda gagnvart fjarskiptafyrirtækjum.
     k.      Upplýsingum um staðsetningu radíósenda verði safnað og haldið til haga og þær gerðar aðgengilegar almenningi.
     l.      Stofnuð verði netöryggissveit Póst- og fjarskiptastofnunar til verndar ómissandi upplýsingainnviðum gegn netárásum með það að markmiði að draga úr hættu af völdum öryggisatvika (bilanir undanskildar) og lágmarka útbreiðslu þeirra og það tjón sem innviðirnir kunna að verða fyrir af þeim sökum.
     m.      Gerð verði úttekt og áhættumat fyrir fjarskiptainnviði Stjórnarráðsins og mikilvægra stofnana. Mótuð verði stefna og nauðsynlegar breytingar innleiddar.
     n.      Staðlar og gæðaviðmið fjarskiptaþjónustu verði endurskoðuð og eftir atvikum gefnar út reglur þar að lútandi. Kannanir verði gerðar reglulega hjá þjónustuveitum, niðurstöður birtar opinberlega og úrbótaþörf fylgt eftir.
     o.      Skilgreind verði úrræði ábyrgðaraðila til að minnka líkur á misnotkun á netinu.
     p.      Fræðslu um netöryggi, auðkenningu, nafnleynd og traust er varðar netnotkun almennt verði viðhaldið og hún efld.
     q.      Eftirlitsaðilum verði tryggð úrræði til að koma í veg fyrir og stöðva misnotkun á netinu.

4. Markmið um umhverfisvæn fjarskipti.
Verkefni:
     a.      Póst- og fjarskiptastofnun haldi skrá yfir skilgreinda fjarskiptainnviði.
     b.      Starfshópur geri tillögur um kostnaðarskiptingu og aukna samnýtingu jarðframkvæmda.
     c.      Skoðað verði hvort raunhæft sé að heimila samninga um rafrænar póstsendingar.
     d.      Skoðaðar verði leiðir til að fækka útburðardögum pósts með nýtingu rafrænna samskipta.
     e.      Fyrirkomulag förgunar á fjarskiptabúnaði verði endurskoðað í samstarfi við umhverfisráðuneytið og kannað hvort fella eigi hana undir Úrvinnslusjóð.
     f.      Kortlögð verði tækifæri til samnýtingar samgöngutækja í póst- og vörudreifingu.
     g.      Fjarskipta- og póstþjónustufyrirtæki setji sér umhverfisstefnu.

Samþykkt á Alþingi 29. nóvember 2012.