Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 172. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Nr. 4/141.

Þingskjal 593  —  172. mál.


Þingsályktun

um tólf ára fjarskiptaáætlun fyrir árin 2011–2022.


    Alþingi ályktar, sbr. lög um fjarskipti, nr. 81/2003, með síðari breytingum, að á árunum 2011–2022 skuli unnið að fjarskiptamálum í samræmi við áætlun þessa sem felur í sér stefnumótun í fjarskiptamálum og helstu markmið sem vinna skal að og þannig verði lagður grunnur að framþróun íslensks samfélags.
    Í fjarskiptaáætlun verði lögð áhersla á að:
     a.      stuðla að atvinnuuppbyggingu, bættum lífsgæðum og jákvæðri byggðaþróun,
     b.      tryggja öryggi almennra fjarskiptaneta innan lands og tengingar við umheiminn,
     c.      styrkja samkeppni á fjarskiptamarkaði og auka samkeppnishæfni Íslands,
     d.      ná fram víðtæku samstarfi markaðarins, neytenda, opinberra stofnana og ráðuneyta um stefnumótun er varðar fjarskipti og skyld svið,
     e.      ná fram hagkvæmri notkun fjármagns og hámarka jákvæð áhrif fjarskipta á hagvöxt og lífsgæði,
     f.      ná fram samræmdri forgangsröðun og stefnumótun, og skal forgangsröðun byggjast á mati á þörf fyrir úrbætur á landinu í heild og í einstökum landshlutum.
    Markmiðin stuðli að aðgengilegum, greiðum, hagkvæmum, skilvirkum, öruggum og umhverfisvænum fjarskiptum. Heimilt verði í fjarskiptaáætlun að skoða fjarskipti heildstætt í tengslum við aðra þætti samskipta, svo sem rafræn samskipti og samskipti sem byggjast á póstþjónustu.
    Í fjarskiptaáætlun verði jafnframt mörkuð aðgerðaáætlun til næstu fjögurra ára og leggi ráðherra fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um slíka áætlun. Aðgerðaáætlun verði endurskoðuð á tveggja ára fresti og má þá leggja nýja þingsályktunartillögu fyrir Alþingi. Sé það gert eigi sjaldnar en á fjögurra ára fresti. Í fjögurra ára áætlun sé gerð grein fyrir fjáröflun og útgjöldum eftir einstökum verkefnum eins og við á. Fjarskiptaáætlun og fjögurra ára aðgerðaáætlun hennar taki gildi þegar Alþingi hefur samþykkt þær sem þingsályktanir.

STEFNUMÓTUN


1. Markmið um aðgengileg og greið fjarskipti.
     a.      Uppbygging og endurnýjun ljósleiðarastofnnetsins innan lands taki mið af markmiðum stjórnvalda og þörfum notenda fyrir gagnaflutninga á hverjum tíma.
     b.      Ljósleiðarahringtenging nái að lágmarki til landsvæða/byggðakjarna með yfir 5.000/ 1.000 íbúa.
     c.      Byggðakjarnar með yfir 50 íbúa séu tengdir með ljósleiðara.
     d.      Þjóðfélagslega mikilvægir fjarskiptastaðir verði skilgreindir og tengdir raforku- og ljósleiðarastofnneti.
     e.      90% lögheimila og vinnustaða eigi kost á 30 Mb/s árið 2014, 100% árið 2022.
     f.      70% lögheimila og vinnustaða eigi kost á 100 Mb/s árið 2014, 99% árið 2022.
     g.      98% lögheimila og vinnustaða eigi kost á háhraðafarneti árið 2014, 99,9% árið 2022.
     h.      80% af landi og hafsvæði kringum landið eigi kost á háhraðafarneti árið 2018.
     i.      Opinberar stofnanir hafi aðgang að nettengingum við hæfi.
     j.      Öllum landsmönnum verði tryggð jöfn aðstaða til að tileinka sér möguleika upplýsingatækninnar.
     k.      Innanríkisráðuneytið og stofnanir þess stuðli að framþróun og verði í fremstu röð við að nýta tækifæri til hagræðingar og framboðs á rafrænni þjónustu.

2. Markmið um hagkvæm og skilvirk fjarskipti.
     a.      Skilvirkt regluverk á fjarskipta- og póstmarkaði stuðli að framförum og samkeppni.
     b.      Regluverk stuðli að fjárfestingum á sviði fjarskipta og jafnvægi gagnvart samkeppnissjónarmiðum.
     c.      Tryggð verði skilvirk stjórnun tíðna gegnum regluverk um ráðstöfun og notkun tíðnisviðsins.
     d.      Úthlutun og verðlagning tíðna efli samkeppni, stuðli að aukinni útbreiðslu fjarskiptaþjónustu og vinni gegn markaðsbresti.
     e.      Verð á fjarskiptaþjónustu sé sambærilegt við það sem best gerist annars staðar í Evrópu.
     f.      Viðhaldið verði og stuðlað að samkeppni og eigin fjárfestingum markaðsaðila í fjarskiptakerfum á grundvelli regluverks og úthlutunar opinberra auðlinda.
     g.      Stuðlað verði að samnýtingu í fyrirliggjandi og nýjum fjarskiptakerfum þar sem ekki er talinn grundvöllur til samkeppni í fjarskiptanetum.
     h.      Tryggt verði aðgengi neytenda að skýrum og samanburðarhæfum upplýsingum um fjarskiptaþjónustu.
     i.      Dregið verði úr aðstöðumun fyrirtækja í dreifbýli og þéttbýli hvað varðar verð og framboð á fjarskiptaþjónustu.
     j.      Stuðlað verði að samkeppnishæfni og aukinni nýtingu sæstrengja.
     k.      Innkaup stjórnsýslunnar stuðli að hagkvæmni og framförum í fjarskiptatækni.
     l.      Nýttir verði kostir alþjónustu við að ná fram markmiðum áætlunarinnar um uppbyggingu gagnaflutningsþjónustu og til þess að koma til móts við óskir notenda varðandi hana.
     m.      Tryggt verði hagkvæmt og öruggt aðgengi að íslensku léni.
     n.      Íslenskir neytendur eigi kost á hagkvæmri og skilvirkri póstþjónustu.
     o.      Tryggð verði fjármögnun alþjónustu í pósti.

3. Markmið um örugg fjarskipti.
     a.      Regluverk á fjarskiptamarkaði efli öryggi fjarskipta og vernd neytenda.
     b.      Mótuð verði þjóðaröryggisstefna stjórnvalda um netöryggi og vernd innviða fjarskipta og upplýsingakerfa með samræmdum hætti til samræmis við aðrar Evrópuþjóðir.
     c.      Virkni neyðarfjarskiptakerfa verði skilgreind og bætt gagnvart skilgreindum áföllum.
     d.      Hagsmunaaðilar skilgreini, meti og bæti þol almennra fjarskiptaneta gagnvart skilgreindum áföllum.
     e.      Óánægðir viðskiptavinir fjarskiptafyrirtækja hafi einföld og hagkvæm úrræði til að fá úrlausn sinna mála.
     f.      Öryggi borgara á netinu verði viðhaldið og það eflt með skipulegri fræðslu og rafrænni auðkenningu.
     g.      Öryggi póstþjónustu verði tryggt og ekki lakara en annars staðar á Norðurlöndum.

4. Markmið um umhverfisvæn fjarskipti.
     a.      Upplýsingar um fjarskiptasendistaði verði aðgengilegar á myndrænu formi fyrir almenning.
     b.      Upplýsingar um fyrirhugaðar framkvæmdir verði aðgengilegar tímanlega og á myndrænu formi til að greiða fyrir samnýtingu framkvæmda við fjarskiptalagnir.
     c.      Förgun fjarskiptabúnaðar verði útfærð og innleidd.
     d.      Póstþjónustu- og fjarskiptafyrirtæki setji sér umhverfisstefnu.
     e.      Stjórnvöld stuðli að nýtingu fjarskipta til þess að stemma stigu við neikvæðum áhrifum loftslagsbreytinga.
     f.      Stuðlað verði að umhverfisvænni póstdreifingu.

Samþykkt á Alþingi 29. nóvember 2012.