Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 506. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 655  —  506. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um stjórnsýsludómstól og úrskurðarnefndir.

Flm.: Atli Gíslason, Lilja Mósesdóttir, Birgir Ármannsson, Birgitta Jónsdóttir,
Sigurður Ingi Jóhannsson, Kristján Þór Júlíusson.


    Alþingi ályktar að fela innanríkisráðherra að skipa nefnd til að gera tillögur um stofnun stjórnsýsludómstóls innan núverandi dómstólakerfis og til að móta reglur um störf og starfshætti úrskurðarnefnda á æðra stjórnsýslustigi. Í þessu samhengi skoði nefndin vandlega hvort rétt sé að færa verkefni úrskurðarnefnda að einhverju eða öllu leyti til dómstóla eða sameina þær.
    Nefndin skili tillögum til ráðherra fyrir 1. desember 2013.

Greinargerð.


    Tillaga sama efnis var áður flutt í mars 2005 á 131. löggjafarþingi. Þá hafði farið fram talsverð umræða í þjóðfélaginu, einkum meðal lögfræðinga, um nauðsyn þess að setja á stofn sérstakan stjórnsýsludómstól. Var málefnið til umfjöllunar á málþingi Lögfræðingafélags Íslands 24. september 2004. Á málþinginu fjallaði dr. Páll Hreinsson, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, um það hvort hægt væri að setja stjórnsýsludómstól inn í núverandi dómstólakerfi. Taldi Páll Hreinsson m.a. að unnt væri að setja sérstök ákvæði í lög um meðferð einkamála þar sem teknar væru upp sérsniðnar réttarfarsreglur um meðferð stjórnsýslumála, enn fremur að tryggja mætti nauðsynlega sérþekkingu með því að koma á fót deild við Héraðsdóm Reykjavíkur þar sem dómarar með reynslu og sérþekkingu á stjórnsýslurétti störfuðu við að leysa úr málum sem í öðrum ríkjum falla undir stjórnsýsludómstóla. Í athugasemdum Björns Bjarnasonar, þáverandi dómsmálaráðherra, við erindi frummælenda taldi hann rök hníga til þess að dómstóll sem sérhæfir sig á sviði stjórnsýslu mundi tileinka sér meiri skilning og virðingu fyrir hinum sérstöku lögmálum hennar en fram kæmi í þremur dómum Hæstaréttar sem hann vitnaði til. Í blaðagrein í Fréttablaðinu 27. september 2004 taldi dómsmálaráðherra sig að gefnu tilefni síður en svo ósammála hugmyndum Páls Hreinssonar.
    Á 130. löggjafarþingi, 2003–2004, var forsætisráðherra spurður að því hversu margar sjálfstæðar og óháðar úrskurðarnefndir væru starfandi á vegum ríkisins, hvað þær hétu og hver verkefni þeirra væru. Að auki var spurt um heildarkostnað ríkisins af starfsemi þessara úrskurðarnefnda á árunum 2002 og 2003 (þskj. 1116, 746. mál á 130. þingi).
    Í svari forsætisráðherra kom fram að 42 slíkar nefndir væru starfræktar og voru heiti þeirra og verkefni tiltekin, auk þess sem nefndunum var raðað eftir þeim ráðuneytum sem þær heyrðu undir og gerð grein fyrir lagagrundvelli hverrar þeirra. Þá kemur fram í svarinu að heildarkostnaður ríkisins af starfsemi þessara úrskurðarnefnda hafi numið 316.148.225 kr. árið 2002 og 336.625.320 kr. árið 2003.
    Samsvarandi fyrirspurnir voru bornar upp til ráðherra á núverandi þingi og hafa svör borist frá öllum átta. Á vegum forsætisráðuneytis eru nú starfandi tvær úrskurðarnefndir (sjá þskj. 285, 163. mál), engin í utanríkisráðuneyti (sjá þskj. 272, 164. mál), tólf í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti (sjá þskj. 234, 165. mál), sex í innanríkisráðuneyti (sjá þskj. 363, 167. mál), sjö í mennta- og menningarmálaráðuneyti (sjá þingskjal 288, 168. mál), þrjár í umhverfis- og auðlindaráðuneyti (sjá þingskjal 233, 169. mál), níu í velferðarráðuneyti (sjá þingskjal 407, 170. mál) og þrjár í fjármála- og efnahagsráðuneyti (sjá þingskjal 423, 256. mál). Heildarkostnaður ríkisins af starfsemi þessara nefnda nam rúmum 452 millj. kr. 2011, rúmum 389 millj. kr. árið 2010 og rúmum 451 millj. kr. árið 2009. Nánari útlistun kostnaðar og verkefna nefndanna má sjá í svörum ráðherra sem fylgja tillögu þessari sem fylgiskjöl.
    Á árinu 1999 gaf forsætisráðuneytið út skýrslu nefndar um starfsskilyrði stjórnvalda o.fl. Í kafla um mótun framtíðarstefnu um þróun stjórnsýslukerfisins á bls. 52 í skýrslunni segir orðrétt:
         „Á síðustu árum hefur sjálfstæðum stjórnsýslunefndum fjölgað mikið án þess að séð verði að að baki stofnun þeirra liggi heildarstefnumörkun. Fjölgun stjórnsýslunefnda getur leitt til þess að erfitt verði að manna þær hæfum einstaklingum auk þess sem kostnaður við stjórnsýslu eykst og stjórnsýslukerfið verður flóknara. Miðað við smæð hins íslenska stjórnsýslukerfis gæti verið skynsamlegt að sameina nefndir á ákveðnum sviðum og bæta starfsskilyrði þeirra og gera þær öflugri þyki á annað borð ástæða til að færa vald frá ráðherra til nefndar.
         Æskilegt er að mótuð verði framtíðarstefna um þróun stjórnsýslukerfisins. Bæri þar að taka m.a. afstöðu til þess í hvaða tilvikum réttlætanlegt verður talið að gera undantekningu frá meginreglu íslenskrar stjórnskipunar og setja á fót sjálfstæða stofnun eða stjórnsýslunefnd.“
    Þrátt fyrir að nokkuð sé síðan þessi skýrsla er skrifuð eiga orð hennar ennþá við. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis til þess að rannsaka aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða kemur fram að styrkja þurfi ráðuneytin og mannauð þeirra. Þar er bent á smæð stjórnsýslukerfisins og að ráðuneytin eru m.a. vegna smæðar sinnar veik og illa í stakk búin til að takast á við sífellt fleiri og flóknari stjórnsýsluverkefni. Þá er ljóst að möguleikar til sérhæfingar innan lítilla og fámennra ráðuneyta eru litlir. Var það m.a. tillaga starfshóps forsætisráðherra um viðbrögð við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis að brugðist yrði við þessari gagnrýni rannsóknarnefndar Alþingis með því að fækka sjálfstæðum úrskurðarnefndum. Árið 2010 samþykkti ríkisstjórn að setja á fót starfshóp ráðuneyta undir forustu forsætisráðuneytis. Lítið hefur þó heyrst frá störfum eða skipan hans og er ekki að finna upplýsingar um hann á vef forsætisráðuneytis þar sem tilteknir eru þeir starfshópar sem eru að störfum. Ekki verður því annað séð en að brýnt sé að leggja tillögu þessa fram að nýju svo gripið verði til fullnægjandi ráðstafana.
    Líkt og áður segir voru starfræktar 42 úrskurðarnefndir árið 2003. Þær eru nú 41 og því hefur lítið unnist í því að fækka úrskurðarnefndum. Á tímabilinu frá 2003 hafa úrskurðarnefndir þó verið sameinaðar og til að mynda var með lögum nr. 66/2010 fimm úrskurðar- og kærunefndum á vegum velferðarráðuneytis fækkað í tvær. Fátt hefur þó gerst í frekari fækkun og sameiningu úrskurðarnefnda.
    Það er mat flutningsmanna að stefna beri að því að leggja niður flestar úrskurðarnefndir sem nú eru starfræktar og færa úrskurðarvald þeirra til dómstóla. Starfshópur forsætisráðherra um viðbrögð við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis lagði til að sjálfstæðum úrskurðarnefndum yrði fækkað og úrskurðarvaldið yrði í meira mæli á ný fært inni í ráðuneytin. Ekki verður séð að það sé ákjósanleg skipan mála enda mætir það ekki á fullnægjandi hátt þeirri gagnrýni sem fram kom í skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Rétt er því að færa úrskurðarvaldið til dómstóla.
    Þegar úrskurðarnefndum hefur verið komið á fót hefur það gjarnan verið rökstutt með meintum seinagangi í dómskerfinu. Þessi rök eru þó illa haldbær. Skilvirkni dómstóla í dag er góð og mun betri en hjá einstökum úrskurðarnefndum. Dómstólar starfa auk þess eftir skýrum og gegnsæjum réttarfarsreglum, lögum nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Hins vegar er erfitt að henda reiður á þeim leikreglum sem úrskurðarnefndir starfa eftir ef frá eru talin ákvæði stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Ákvæði um þær eru ekki samræmd og úrskurðarnefndir skortir reglur um sakarefni, sönnun og sönnunargögn, málsforræði, milliliðalausa málsmeðferð, skýrslugjöf, vitni, sönnunargildi vitnisburðar, matsgerðir og fleira. Fullyrða má að gæði málsmeðferðar fyrir dómstólum séu mun meiri en fyrir úrskurðarnefndum. Þær eru auk þess skipaðar af ráðherra viðkomandi málasviðs sem tengist óhjákvæmilega oft þeim ágreiningi sem til úrlausnar er. Varðandi málsskot stjórnsýsluákvörðunar á lægra stjórnsýslustigi má horfa til þess að unnt er að skjóta fjárnámi o.fl. þvingunaraðgerðum sýslumanna beint til héraðsdóms samkvæmt lögum sem gilda um þessar aðgerðir. Sýslumenn eru hluti af framkvæmdarvaldinu
    Í greinargerð með tillögu þeirri sem lögð var fram fyrir sjö árum var þess getið að sá mikli kostnaður sem væri af starfsemi úrskurðarnefnda kæmi á óvart. Vart verður sagt að svo sé enn enda löngu ljóst að miklu fé er varið í starfsemi þessara nefnda. Það kemur hins vegar á óvart að ekki hafi enn verið gripið til aðgerða við að fækka nefndum og færa verkefni þeirra til dómstóla enda má leiða líkur að því að það fé sem til þeirra rennur megi nýta mun betur. Ætla má að meðferð fyrir dómstólum verði skilvirkari, gegnsærri og kostnaðarminni.
    Um frekari rök vísast til álits umboðsmanns Alþingis í máli nr. 4193/2004 vegna athugunar á afgreiðslutíma 48 sjálfstæðra stjórnsýslu- og úrskurðarnefnda. Í samantekt umboðsmanns um málið segir:
         „Fjölmargar sjálfstæðar stjórnsýslu- og úrskurðarnefndir hafa verið stofnaðar á síðustu árum. Þarna er um að ræða nefndir sem ekki eru hluti af hinni eiginlegu stjórnsýslu ráðuneytanna og þeirra stofnana sem undir þau heyra heldur er kveðið á um sjálfstæði þeirra í lögum og þannig verða ákvarðanir þeirra ekki bornar undir ráðherra með stjórnsýslukæru. Í áliti umboðsmanns er greint frá því að við meðferð kvartana sem borist hafa umboðsmanni hafi komið í ljós að þrátt fyrir að í ýmsum tilvikum sé það bundið í lög hversu langan tíma þessar nefndir hafi til að afgreiða mál eða kveða upp úrskurði hafi afgreiðslutími sumra þeirra verið verulega langur. Í nokkrum tilvikum hafi þessi mál orðið tilefni sérstakra athugana af hálfu umboðsmanns og þá hafi gjarnan komið fram áform af hálfu nefndanna um að úr þessu yrði bætt. Það hafi þó ekki alltaf gengið eftir. Þetta hafi orðið umboðsmanni tilefni til þess að gera að eigin frumkvæði almenna athugun á afgreiðslutíma 48 stjórnsýslu- og úrskurðarnefnda, sbr. heimild í 5. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.
         Í álitinu kemur fram að af nefndunum 48 hafi 24 lögmæltan afgreiðslutíma, átta hafi sett sér reglur um afgreiðslutíma eða ákvæði eru um hann í reglugerð en 16 nefndir starfi án þess að mælt sé fyrir um afgreiðslutíma þeirra í skriflegum reglum eða sérlögum. Til grundvallar niðurstöðum athugunar umboðsmanns liggja upplýsingar frá nefndunum um störf þeirra á tveimur sex mánaða tímabilum, frá 1. nóvember 2003 til 30. apríl 2004 og frá 1. janúar 2005 til 30. júní 2005. Upplýsingar fengust frá öllum nefndunum um fyrra tímabilið en frá 45 nefndum um það síðara. Í álitinu greinir frá því að nefndir með lögmæltan afgreiðslufrest afgreiddu 47,5% mála innan frestsins en 52,5% utan frests. Nefndir með reglur afgreiddu 60% mála innan frests en 40% utan frests. Mikill meirihluti, 75% mála, á báðum könnunartímabilum kom til kasta nefnda með lögmæltan frest, nefndir með reglur fjölluðu um 9% mála en nefndir án reglna um 16%. Kemur fram að samanburður á málafjölda og afgreiðslutíma milli könnunartímabila bendi til þess að málum fari fjölgandi og að afgreiðslutími sé að lengjast. Þannig hafi liðlega 10% mála á fyrra tímabili verið lengur en eitt ár í vinnslu en á síðara tímabilinu hafi hlutfallið verið 17,6%.
         Greint er frá því að meirihluta nefndanna berast tiltölulega fá mál, 26 nefndir af 48 afgreiddu tíu mál eða færri samtals á báðum könnunartímabilunum. Ekkert mál barst níu nefndum en eitt mál fengu sex nefndir.
         Umboðsmaður bendir á að mikill misbrestur sé á því að nefndir fylgi fyrirmælum stjórnsýslulaga um að tilkynna málsaðilum þegar tafir verða á vinnslu mála. Aðeins hafi verið tilkynnt um tafir í tíunda hluta þeirra mála sem ástæða hefði verið til og fylgni við regluna hafi verið lakari á seinna könnunartímabilinu en á því fyrra.
         Umboðsmaður beinir í álitinu þeim tilmælum til stjórnsýslu- og úrskurðarnefndanna að gæta að því hvort þeir annmarkar sem þar er lýst séu enn til staðar og gera nauðsynlegar úrbætur ef svo er.“
    Þó svo að margar þær úrskurðarnefndir sem starfræktar eru sinni afmörkuðum sérsviðum þar sem þörf er á sérkunnáttu eiga þær það sameiginlegt að vera æðsti úrskurðaraðili á stjórnsýslustigi og þurfa að taka á formlegum ágreiningsatriðum sem eru sameiginleg í allri stjórnsýslu. Á það skal jafnframt minnt að dómstólar hafa heimildir til að kalla til sérfróða meðdómendur í fjölskipaðan dóm í málum sem kalla á sérþekkingu. Þá er iðulega látið reyna á úrskurði úrskurðarnefnda fyrir dómstólum. Má segja að í því felist tvíverknaður. Er full ástæða til að huga að því að setja á stofn stjórnsýsludómstól innan núverandi dómskerfis og móta reglur um störf og starfshætti úrskurðarnefnda með það fyrir augum að tryggja réttaröryggi einstaklinga.


Fylgiskjal I.


Svar forsætisráðherra við fyrirspurn Atla Gíslasonar um úrskurðarnefndir.
(Þingskjal 285, 163. mál 141. löggjafarþings.)


     1.      Hversu margar sjálfstæðar og óháðar úrskurðarnefndir eru starfandi á vegum ráðuneytisins, hvað heita þær og hver eru verkefni þeirra?
    Á vegum forsætisráðuneytis starfa tvær sjálfstæðar og óháðar úrskurðarnefndir. Þær eru úrskurðarnefnd um upplýsingamál og óbyggðanefnd.
    Úrskurðarnefnd um upplýsingamál er starfrækt á grundvelli V. kafla upplýsingalaga, nr. 50/1996, til að leysa úr ágreiningsmálum um aðgang almennings að upplýsingum hjá stjórnvöldum.
    Óbyggðanefnd er sjálfstæð stjórnsýslunefnd sem á grundvelli III. kafla laga um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, nr. 58/1998, hefur þríþætt hlutverk:
     1.      Að kanna og skera úr um hvaða land telst til þjóðlendna og hver séu mörk þeirra og eignarlanda.
     2.      Að skera úr um mörk þess hluta þjóðlendu sem nýttur er sem afréttur.
     3.      Að úrskurða um eignarréttindi innan þjóðlendna.

     2.      Hver var heildarkostnaður ríkisins af starfsemi nefndanna árin 2009, 2010 og 2011, sundurliðað á hverja nefnd fyrir sig?


Bókuð gjöld hjá FOR 2009 2010 2011
Úrskurðarnefnd upplýsingalaga 4.181.512 3.726.475 4.266.924
Óbyggðanefnd 78.958.276 30.134.241 45.558.861

    Lækkun á kostnaði vegna óbyggðanefndar á milli áranna 2009 og 2010 skýrist af því að í kjölfar efnahagshrunsins var tekin ákvörðun um hægja mjög á starfssemi nefndarinnar í sparnaðarskyni. Kostnaður jókst aftur á árinu 2011 vegna aukinna umsvifa en gert er ráð fyrir að störf nefndarinnar verði komin í fyrra horf á árinu 2013.



Fylgiskjal II.


Svar utanríkisráðherra við fyrirspurn Atla Gíslasonar um úrskurðarnefndir.


(Þingskjal 272, 164. mál 141. löggjafarþings.)


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hversu margar sjálfstæðar og óháðar úrskurðarnefndir eru starfandi á vegum ráðuneytisins, hvað heita þær og hver eru verkefni þeirra?
     2.      Hver var heildarkostnaður ríkisins af starfsemi nefndanna árin 2009, 2010 og 2011, sundurliðað á hverja nefnd fyrir sig?


    Engar úrskurðarnefndir eru starfandi á vegum ráðuneytisins né hafa verið starfandi á þess vegum árin 2009–2011.


Fylgiskjal III.


Svar atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn Atla Gíslasonar


um úrskurðarnefndir.

(Þingskjal 234, 165. mál 141. löggjafarþings.)

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hversu margar sjálfstæðar og óháðar úrskurðarnefndir eru starfandi á vegum ráðuneytisins, hvað heita þær og hver eru verkefni þeirra?
     2.      Hver var heildarkostnaður ríkisins af starfsemi nefndanna árin 2009, 2010 og 2011, sundurliðað á hverja nefnd fyrir sig?

    Eftirfarandi eru umbeðnar upplýsingar um sjálfstæðar og óháðar úrskurðarnefndir á vegum ráðuneytisins og kostnað við starfsemi þeirra.

Lög nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði. Matsnefnd.
    Ráðherra skipar þrjá menn og jafnmarga til vara í matsnefnd til fjögurra ára í senn.
    Tveir nefndarmanna skulu skipaðir að tilnefningu Hæstaréttar Íslands og skulu þeir uppfylla almenn hæfisskilyrði héraðsdómara. Einn nefndarmaður skal skipaður að tilnefningu stjórnar Landssambands veiðifélaga. Nefndin skiptir með sér störfum. Annar þeirra nefndarmanna sem Hæstiréttur tilnefnir skal vera formaður nefndarinnar.
    Hlutverk matsnefndarinnar er að meta hve mikið af heildartekjum veiðifélags skal koma í hlut einstakra félagsmanna (jarða) í veiðifélagi. Nánar má sjá um þetta í reglugerð nr. 403/ 2012, um arðskrár veiðifélaga.

Lög nr. 13/1998, um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna. Úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna.
    Hlutverk úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna er að ákveða fiskverð sem nota skal við uppgjör á aflahlut áhafnar einstakra skipa við tiltekin skilyrði sé málinu skotið til nefndarinnar af Verðlagsstofu skiptaverðs, heildarsamtökum sjómanna og eða útvegsmanna. Sjá nánar lög nr. 13/1998, um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna.
    Í úrskurðarnefndinni eiga sæti níu menn skipaðir af ráðherra. Af þeim tilnefna Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, Sjómannasamband Íslands og Félag vélstjóra og málmtæknimanna einn fulltrúa hvert og einn fulltrúa sameiginlega. Þá skal Landssamband íslenskra útvegsmanna tilnefna þrjá fulltrúa og Landssamband smábátaeigenda einn fulltrúa. Loks skipar ráðherra formann nefndarinnar án tilnefningar en að höfðu samráði við framangreind samtök sjómanna og útvegsmanna. Varamenn eru skipaðir á sama hátt og aðalmenn.

Lög nr. 37/1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla. Úrskurðarnefnd til að úrskurða álagningu gjalds.
    Greiða skal sérstakt gjald fyrir veiðar, verkun, vinnslu eða viðskipti með ólögmætan sjávarafla.
    Í þessu sambandi telst ólögmætur sá sjávarafli eða hluti afla sem:
     1.      ekki nær þeirri lágmarksstærð sem kveðið er á um í lögum, stjórnvaldsfyrirmælum eða sérstökum veiðileyfum,
     2.      er umfram þann hámarksafla sem veiðiskipi er settur,
     3.      fenginn er utan leyfilegra sóknardaga,
     4.      fenginn er með óleyfilegum veiðarfærum,
     5.      fenginn er á svæði þar sem hlutaðeigandi veiðar eru bannaðar,
     6.      fenginn er án þess að tilskilin veiðileyfi hafi verið fyrir hendi,
     7.      2. mgr. 7. gr. laga nr. 37/1992 tekur til.
    Fiskistofa leggur gjaldið á og geta aðilar kært úrskurðinn til úrskurðarnefndar.
    Ráðherra skipar þriggja manna nefnd til að úrskurða álagningu gjalds og jafnmarga menn til vara. Aðalmenn og varamenn skulu skipaðir til þriggja ára í senn og skal einn nefndarmanna skipaður formaður hennar. Nefndarmenn skulu fullnægja almennum skilyrðum laga til að fá skipun í stöðu í þjónustu ríkisins. Formaður nefndarinnar og varamaður hans, sem tekur sæti formanns í forföllum hans, skulu að auki fullnægja skilyrðum til að hljóta skipun í embætti héraðsdómara.

Áfrýjunarnefnd hugverkaréttinda á sviði iðnaðar.
    Samkvæmt löggjöf um einkaleyfi, vörumerki og hönnun skipar ráðherra áfrýjunarnefnd hugverkaréttinda á sviði iðnaðar. Skipa skal formann nefndarinnar til þriggja ára í senn. Nefndin skal úrskurða í ágreiningsmálum, m.a. varðandi einkaleyfi, vörumerki og hönnunarvernd, sbr. nánar reglugerð nr. 275/2008.

Samkeppnislög, nr. 44/2005. Áfrýjunarnefnd samkeppnismála.
    Með tilvísun til 9. gr. samkeppnislaga, nr. 44/2005, og eftir tilnefningu Hæstaréttar er skipað í áfrýjunarnefnd samkeppnismála. Í 3. mgr. 9. gr. laganna er kveðið á um að skipunartími áfrýjunarnefndar skuli vera hinn sami og skipunartími stjórnar Samkeppniseftirlitsins.

Lög nr. 50/2000, um lausafjárkaup. Kærunefnd um lausafjár- og þjónustukaup.
    Kærunefnd lausafjár- og þjónustukaupa er skipuð til fimm ára í senn, sbr. 99. gr. laga nr. 50/2000, um lausafjárkaup, með síðari breytingum. Nefndarmenn skulu vera þrír. Ráðherra skipar einn nefndarmanna eftir tilnefningu Neytendasamtakanna, annan eftir tilnefningu Samtaka atvinnulífsins og hinn þriðja skipar ráðherra án tilnefningar og skal hann jafnframt vera formaður nefndarinnar. Hann skal fullnægja skilyrðum til að vera héraðsdómari. Kærunefndin skal vistuð hjá Neytendastofu sem sér nefndinni fyrir fundaraðstöðu, tekur við kvörtunum til nefndarinnar, annast tilkynningar og sér um vörslu gagna.

Úrskurðarnefnd í vátryggingamálum.
    Í nefndinni sitja þrír fulltrúar og þrír til vara, sem allir skulu vera löglærðir og valdir til tveggja ára í senn. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Neytendasamtökin og Samband íslenskra tryggingafélaga velja hvert sína aðal- og varafulltrúa til setu í nefndinni. Nefndin velur sér formann og varaformann.
    Nefndin fjallar um ágreining varðandi bótaskyldu, þ.m.t. sök og sakarskiptingu, milli neytenda og vátryggingafélags sem starfsleyfi hefur hér á landi.
    Nefndin úrskurðar ekki um bótafjárhæðir nema að fengnu samþykki aðila.
    Nefndin úrskurðar hvort ágreiningur aðila heyri undir nefndina og hvort ágreiningur sé þess eðlis eða studdur þeim gögnum að unnt sé að úrskurða í málinu. Telji nefndin svo ekki vera vísar hún málinu frá.

Lög nr. 55/1992, um Viðlagatryggingu Íslands. Úrskurðarnefnd um Viðlagatryggingu Íslands.
    Samkvæmt 19. gr. laga nr. 55/1992, um Viðlagatryggingu Íslands, skipar ráðherra fjögurra manna úrskurðarnefnd sem tjónþoli getur skotið máli sínu fyrir vilji hann ekki sætta sig við úrskurð stjórnar Viðlagatryggingar Íslands um greiðsluskyldu og fjárhæð vátryggingabóta. Hæstiréttur skal tilnefna einn fulltrúa sem jafnframt er formaður nefndarinnar. Annar skal skipaður eftir tilnefningu Veðurstofu Íslands, hinn þriðji af Háskóla Íslands og sá fjórði án tilnefningar.

Úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki.
    Úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki starfar samkvæmt samkomulagi atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja, Sambands íslenskra sparisjóða og Neytendasamtakanna frá 8. júní 2000 og samþykktum byggðum á því samkomulagi.
    Samkvæmt samkomulagi aðila eiga allir viðskiptamenn fjármálafyrirtækja, einstaklingar sem lögaðilar, málskotsrétt til nefndarinnar með kvartanir vegna viðskipta við þau. Nefndin tekur til meðferðar kvartanir sem varða réttarágreining milli fjármálafyrirtækis eða dótturfyrirtækis slíks fyrirtækis annars vegar og viðskiptamanns hins vegar, enda sé samningssamband milli aðila. Jafnframt tekur nefndin til meðferðar ágreining um yfirfærslur á milli viðskiptareikninga á milli landa skv. 13. gr. laga nr. 87/1992, með síðari breytingum, hvort sem viðkomandi fjármálafyrirtæki er aðili að nefndinni eður ei.

Úrskurðarnefnd verðbréfamiðstöðva.
    Samkvæmt 25. gr. laga nr. 131/1997, um rafræna eignarskráningu verðbréfa, skal senda til úrskurðarnefndar verðbréfamiðstöðva kæru vegna ágreinings sem kann að rísa í tilefni af eignarskráningu í verðbréfamiðstöð eða annarra atriða sem falla undir gildissvið laganna. Þetta á þó ekki við um skaðabótakröfur. Úrskurðarnefnd er ætlað að kveða á um rétt og skyldu manna í tengslum við eignarskráningar í verðbréfamiðstöð. Úrskurðir nefndarinnar teljast því til stjórnvaldsákvarðana og fer um störf nefndarinnar eftir stjórnsýslulögum, nr. 37/1993. Ráðherra skipar þrjá menn í úrskurðarnefnd, þar af einn sem formann og skal hann fullnægja skilyrðum til þess að verða skipaður héraðsdómari. Aðrir nefndarmenn skulu hafa staðgóða þekkingu á rafrænni skráningu eignarréttinda.

Raforkulög, nr. 65/2003. Úrskurðarnefnd raforkumála.
    Í 30. gr. raforkulaga, nr. 65/2003, er kveðið á um úrskurðarnefnd raforkumála. Úrskurðarnefndinni er ætlað það hlutverk að úrskurða um kærur sem henni berast vegna stjórnvaldsákvarðana sem teknar eru af Orkustofnun á grundvelli raforkulaga og varða gjaldskrá eða starfsemi flutningsfyrirtækisins eða dreifiveitna.

Endurkröfunefnd skv. 96. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987.
    Samkvæmt 96. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987, skipar ráðherra þriggja manna nefnd til að kveða á um hvort beita skuli endurkröfurétti vegna gáleysis eða ásetnings þess sem ábyrgð ber á tjóni sem vátryggingafélag hefur bætt samkvæmt umferðarlögum. Skipunartími nefndarinnar er þrjú ár.
    Ráðherra setur reglur um starfsháttu nefndarinnar, þar á meðal um það hvernig vátryggingafélögin senda nefndinni þau gögn sem félögin hafa reist bótakröfur sínar á. Kostnaður af störfum nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði, en vátryggingafélögin skulu endurgreiða þann kostnað eftir reglum sem ráðherra setur.

Heildarkostnaður ríkisins af starfsemi úrskurðarnefnda
á vegum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis.

2009 2010 2011
Lög nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði; matsnefnd Ríkissjóður ber engan kostnað Ríkissjóður ber engan kostnað Ríkissjóður ber engan kostnað
Lög nr. 13/1998, um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna; úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna 1.289 þús. kr. 1.320 þús. kr. 1.356 þús. kr.
Lög nr. 37/1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla; úrskurðarnefnd til að úrskurða álagningu gjalds 634 þús. kr. 286 þús. kr. 321 þús. kr.
Áfrýjunarnefnd hugverkaréttinda á sviði iðnaðar 2.551 þús. kr. 2.647 þús. kr. 2.880 þús. kr.
Samkeppnislög nr. 44/2005; áfrýjunarnefnd samkeppnismála 11.122 þús. kr. 8.406 þús. kr. 7.401 þús. kr.
Lög nr. 50/2000, um lausafjárkaup; kærunefnd um lausafjár- og þjónustukaup 5.929 þús. kr. 6.598 þús. kr. 3.228 þús. kr.
Úrskurðarnefnd í vátryggingamálum 2.486 þús. kr. 4.350 þús. kr. 4.529 þús. kr.
Lög nr. 55/1992, um Viðlagatryggingu Íslands; úrskurðarnefnd um Viðlagatryggingu Íslands 0 kr. 0 kr. 0 kr.
Úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki 1.353 þús. kr. 2.445 þús. kr. 2.675 þús. kr.
Úrskurðarnefnd verðbréfamiðstöðva 437 þús. kr.
Raforkulög, nr. 65/2003; úrskurðarnefnd raforkumála 334 þús. kr.
Endurkröfunefnd skv. 96. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987 Ríkissjóður ber engan kostnað Ríkissjóður ber engan kostnað Ríkissjóður ber engan kostnað



Fylgiskjal IV.


Svar innanríkisráðherra við fyrirspurn Atla Gíslasonar um úrskurðarnefndir.


(Þingskjal 363, 167. mál 141. löggjafarþings.)

     1.      Hversu margar sjálfstæðar og óháðar úrskurðarnefndir eru starfandi á vegum ráðuneytisins, hvað heita þær og hver eru verkefni þeirra?
    Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála:
Skv. 13. gr. laga um Póst- og fjarskiptastofnun, nr. 69/2003, er heimilt að kæra ákvarðanir Póst- og fjarskiptastofnunar til úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála. Sá sem á verulegra hagsmuna að gæta getur kært hvort heldur er málsmeðferð eða efni ákvörðunar.
     Yfirfasteignamatsnefnd: Yfirfasteignamatsnefnd er ætlað að annast yfirmat fasteigna fyrir landið allt. Í 34. gr. laga um skráningu og mat fasteigna, nr. 6/2001, er kveðið á um að hagsmunaaðilar geti kært niðurstöðu endurmats til yfirfasteignamatsnefndar.
     Örorkumatsnefnd: Örorkunefnd starfar á grundvelli 10. gr. skaðabótalaga, nr. 50/1993. Meginverkefni nefndarinnar er eftirfarandi:
    Þegar fyrir liggur sérfræðilegt álit um örorku- og/eða miskastig tjónþola, eða læknisfræðilega þætti skv. 2. mgr. 3. gr. laganna, sem meta þarf til að uppgjör bóta samkvæmt lögum þessum geti farið fram, getur hvor um sig, tjónþoli eða sá sem krafinn er bóta, borið álitið undir örorkunefnd. Heimilt er að óska álits örorkunefndar um ákvörðun örorku- og/eða miskastigs án þess að fyrir liggi sérfræðilegt álit, ef málsaðilar standa sameiginlega að slíkri beiðni. Annað verkefni nefndarinnar er að semja töflur um miskastig.
     Matsnefnd eignarnámsbóta: Matsnefnd eignarnámsbóta starfar samkvæmt lögum nr. 11/1973, um framkvæmd eignarnáms. Skv. 1. mgr. 2. gr. nefndra laga sker nefndin úr ágreiningi um eignarnámsbætur og annað endurgjald, sem ákveða á samkvæmt lögum um framkvæmd eignarnáms.
     Nefnd um dómarastörf: Nefnd um dómarastörf setur almennar reglur um hvers konar aukastörf geti samrýmst embættisstörfum dómara.
    Nefnd um dómarastörf setur almennar reglur um að hvaða marki samrýmanlegt sé embætti dómara að hann eigi hlut í félagi eða atvinnufyrirtæki.
    Nefnd um dómarastörf fjallar um skriflegar kvartanir frá hverjum þeim sem telur dómara hafa gert á hans hlut með störfum sínum.
    Úrskurðarnefnd um sanngirnisbætur: Nefndin starfar á grundvelli laga nr. 47/2010, um sanngirnisbætur, vegna bóta til þeirra sem sættu illri meðferð við vistun á stofnunum eða heimilum á vegum ríkisins.Tjónþoli getur hafnað sáttaboði sýslumanns um sanngirnisbætur eða samþykkt það. Hafni hann boðinu, eða hafi kröfu hans verið hafnað, getur hann innan þriggja mánaða skotið málinu til úrskurðarnefndar. Skal nefndin yfirfara kröfuna og öll gögn með ítarlegum hætti og kveða upp úrskurð.

     2.      Hver var heildarkostnaður ríkisins af starfsemi nefndanna árin 2009, 2010 og 2011, sundurliðað á hverja nefnd fyrir sig?

Heildarkostnaður af starfsemi nefndanna 2009–2011, sundurliðað á hverja nefnd.

Tekjur Gjöld Alls
2009
Úrskurðarnefnd póst- og fjarskiptamála 0 1.561.366 1.561.366
Yfirfasteignamatsnefnd 0 1.995.991 1.995.991
Örorkumatsnefnd 22.235.000 23.648.312 1.413.312
Matsnefnd eignarnámsbóta 10.350.840 11.058.187 707.347
Nefnd um dómastörf 0 5.113.759 5.113.759
Sanngirnisbætur vegna misgjörða á vistheimilum fyrir börn 0 0 0
2010
Úrskurðarnefnd póst- og fjarskiptamála 0 2.534.590 2.534.590
Yfirfasteignamatsnefnd 0 12.650.000 12.650.000
Örorkumatsnefnd 16.750.000 16.162.878 -586.122
Matsnefnd eignarnámsbóta 3.809.400 5.968.422 2.159.022
Nefnd um dómastörf 0 3.789.771 3.789.771
Sanngirnisbætur vegna misgjörða á vistheimilum fyrir börn 0 4.647.195 4.647.195
2011
Úrskurðarnefnd póst- og fjarskiptamála 0 6.288.311 6.288.311
Yfirfasteignamatsnefnd 0 8.987.530 8.987.530
Örorkumatsnefnd 22.175.000 22.168.426 -6.574
Matsnefnd eignarnámsbóta 1.021.384 4.773.379 3.751.991
Nefnd um dómastörf 0 2.061.086 2.061.086
Sanngirnisbætur vegna misgjörða á vistheimilum fyrir börn 0 16.303.855 16.303.855



Fylgiskjal V.


Svar mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn Atla Gíslasonar


um úrskurðarnefndir.

(Þingskjal 288, 168. mál 141. löggjafarþings.)


     1.      Hversu margar sjálfstæðar og óháðar úrskurðarnefndir eru starfandi á vegum ráðuneytisins, hvað heita þær og hver eru verkefni þeirra?
    Nefndir starfandi á vegum ráðuneytisins eru eftirfarandi:
    Áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema. Hlutverk: Að úrskurða í málum þar sem námsmenn í ríkisháskólum eða háskólum sem hlotið hafa staðfestingu mennta- og menningarmálaráðherra, telja brotið á rétti sínum, sbr. ákvæði reglna nr. 1152/2006, um störf áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema skv. 20. gr. laga um háskóla, nr. 63/2006.
    Fjölmiðlanefnd. Hlutverk: Að annast eftirlit samkvæmt fjölmiðlalögum, nr. 38/2011, og daglega stjórnsýslu á því sviði sem lögin ná til.
    Fornleifanefnd. Hlutverk: Að úrskurða um ákvarðanir Fornleifaverndar ríkisins um leyfisveitingar og rannsóknir og stöðvun framkvæmda.
    Málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Hlutverk: Að gefa álit um hvort úrskurðir stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna séu í samræmi við ákvæði laga, reglugerða og reglna um sjóðinn sem staðfestar hafa verið af menntamálaráðherra.
    Útvarpsréttarnefnd, starfaði til 1. september 2011 þegar skipuð var fjölmiðlanefnd skv. 8. gr. fjölmiðlalaga, nr. 38/2011. Hlutverk: Að veita útvarpsleyfi, úrskurða í kærumálum o.fl.
    Úrskurðarnefnd vegna ágreiningsmála milli sveitarfélaga um stuðningsþörf og kostnað vegna skólagöngu fósturbarna. Hlutverk: Samkvæmt reglugerð nr. 547/2012, um skólagöngu fósturbarna í grunnskólum. Nefndin hefur ekki verið skipuð.
    Úrskurðarnefnd skv. 57. gr. höfundalaga, nr. 73/1972, sbr. lög nr. 60/2000. Hlutverk: Að skera úr ágreiningi sem rís um fjárhæð þóknunar til höfunda þegar verk þeirra eru birt eða flutt eða notuð á annan hátt.

     2.      Hver var heildarkostnaður ríkisins af starfsemi nefndanna árin 2009, 2010 og 2011, sundurliðað á hverja nefnd fyrir sig?
    Áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema: Heildarkostnaður 10.381.856 kr.
    Fjölmiðlanefnd: Heildarkostnaður 27.193.082 kr.
    Fornleifanefnd: Engar greiðslur koma fram vegna starfa nefndarinnar á tilgreindum árum.
    Málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna: Heildarkostnaður 14.281.371 kr.
    Útvarpsréttarnefnd: Heildarkostnaður 51.856.309 kr.
    Úrskurðarnefnd vegna ágreiningsmála milli sveitarfélaga um stuðningsþörf og kostnað vegna skólagöngu fósturbarna: Ekki hefur komið til kostnaðar.
    Úrskurðarnefnd skv. 57. gr. höfundalaga, nr. 73/1972: Engar greiðslur enda nefndin ekki starfandi á tilgreindum árum.


Fylgiskjal VI.


Svar umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn Atla Gíslasonar


um úrskurðarnefndir.

(Þingskjal 233, 169. mál 141. löggjafarþings.)


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hversu margar sjálfstæðar og óháðar úrskurðarnefndir eru starfandi á vegum ráðuneytisins, hvað heita þær og hver eru verkefni þeirra?
     2.      Hver var heildarkostnaður ríkisins af starfsemi nefndanna árin 2009, 2010 og 2011, sundurliðað á hverja nefnd fyrir sig?


    Tvær sjálfstæðar úrskurðarnefndir störfuðu á vegum ráðuneytisins á árunum 2009–2011, þ.e. úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála og úrskurðarnefnd hollustuhátta og mengunarvarnamála. Ný nefnd, úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, tók svo til starfa 1. janúar 2012 og tók hún við auknum verkefnum frá öðrum ráðuneytum sem og verkefnum eldri úrskurðarnefnda ráðuneytisins.
    Samkvæmt 1. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, nr. 130/2011, er hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmála vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði.
    Heildarkostnaður ríkisins vegna úrskurðarnefnda á vegum umhverfisráðuneytisins á árunum 2009–2011 var eftirfarandi:

Ár Úrskurðarnefnd skipulags-
og byggingarmála
Úrskurðarnefnd hollustuhátta-
og mengunarvarnamála
2009 43.513.001 8.009.543
2010 40.391.339 7.071.492
2011 46.707.820 13.425.596



Fylgiskjal VII.


Svar velferðarráðherra við fyrirspurn Atla Gíslasonar um úrskurðarnefndir.


(Þingskjal 407, 170. mál 141. löggjafarþings.)

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hversu margar sjálfstæðar og óháðar úrskurðarnefndir eru starfandi á vegum ráðuneytisins, hvað heita þær og hver eru verkefni þeirra?
     2.      Hver var heildarkostnaður ríkisins af starfsemi nefndanna árin 2009, 2010 og 2011, sundurliðað á hverja nefnd fyrir sig?


    Á vegum velferðarráðuneytisins eru starfandi níu úrskurðarnefndir og eru þær eftirtaldar:
     Kærunefnd barnaverndarmála. Aðilar barnaverndarmáls geta skotið ákvörðunum barnaverndarnefnda, sem ekki verður skotið til dómstóla, til kærunefndar barnaverndarmála. Skjóta má tilteknum ákvörðunum Barnaverndarstofu til kærunefndar barnaverndarmála. Ákvörðun heimilis eða stofnunar má einnig skjóta til nefndarinnar. Kærunefnd barnaverndarmála starfar á grundvelli 6. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002.
     Kærunefnd greiðsluaðlögunarmála. Til nefndarinnar er unnt að kæra ákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010, og á grundvelli laga um tímabundið úrræði einstaklinga sem eiga tvær fasteignir til heimilisnota, nr. 103/2010. Úrskurðir kærunefndarinnar fela í sér endanlega stjórnvaldsákvörðun. Kærunefnd greiðsluaðlögunarmála starfar á grundvelli 32. gr. laga nr. 101/2010, um greiðsluaðlögun einstaklinga.
     Kærunefnd húsamála. Frá 1. júlí 2010 voru kærunefnd fjöleignarhúsamála, kærunefnd húsaleigumála og úrskurðarnefnd frístundahúsamála sameinaðar í eina nefnd sem heitir kærunefnd húsamála. Hlutverk nefndarinnar er að fjalla um ágreining milli eigenda í fjöleignarhúsum, milli leigjenda og leigusala íbúðar- og atvinnuhúsnæðis og milli leigusala og leigutaka lóða undir hús í frístundabyggð. Kærunefnd húsamála starfar á grundvelli 84. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994, sbr. 80. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994, og 25. og 26. gr. laga um frístundabyggð og leigu lóða undir frístundahús, nr. 75/2008.
     Kærunefnd jafnréttismála. Einstaklingar, fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök, í eigin nafni eða fyrir hönd félagsmanna sem telja að ákvæði jafnréttislaga hafi verið brotin á sér, geta leitað atbeina kærunefndar jafnréttismála. Jafnréttisstofa getur óskað eftir að kærunefnd jafnréttismála taki mál til meðferðar. Kærunefnd jafnréttismála starfar á grundvelli 5. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
    Úrskurðarnefnd almannatrygginga.Til nefndarinnar er unnt að kæra ágreining sem rís um grundvöll, skilyrði og upphæð bóta eða greiðslna samkvæmt lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð. Einnig fjallar nefndin um ágreining um endurkröfurétt, ofgreiðslur og innheimtu skv. 55. gr. laga um almannatryggingar. Úrskurðarnefnd almannatrygginga starfar á grundvelli 7. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, sbr. 14. gr. laga nr. 99/2007, um félagslega aðstoð, 16. gr. laga nr. 111/2000, um sjúklingatryggingu, og 36. gr. laga nr. 112/2008, um sjúkratryggingar.
    Úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða. Hlutverk úrskurðarnefndarinnar er að kveða upp úrskurði um ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laganna. Úrskurðir úrskurðarnefndarinnar fela í sér endanlega stjórnvaldsákvörðun. Úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða starfar á grundvelli 11. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar.
     Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála. Frá 1. júlí 2010 voru úrskurðarnefnd félagsþjónustu og kærunefnd húsnæðismála sameinaðar í eina nefnd sem heitir úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála. Hlutverk nefndarinnar er áfram að skera úr ágreiningsmálum sem kunna að rísa vegna ákvarðana félagsmálanefnda á grundvelli laga um félagsþjónustu sveitarfélaga og vegna ákvarðana húsnæðisnefnda og Íbúðalánasjóðs á grundvelli laga um húsnæðismál og laga um húsaleigubætur. Jafnframt er fötluðum einstaklingi heimilt að kæra til nefndarinnar stjórnvaldsákvarðanir um þjónustu sem teknar eru á grundvelli laga um málefni fatlaðs fólks. Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála starfar á grundvelli 65. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, sbr. 16. gr. laga um húsaleigubætur, nr. 138/1997, og 42. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998.
     Úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála. Til nefndarinnar er unnt að kæra ágreining sem kann að rísa á grundvelli laga um fæðingar- og foreldraorlof og ákvarðanir framkvæmdaraðila um réttindi foreldra langveikra barna og alvarlega fatlaðra barna sem teknar eru á grundvelli laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna. Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála starfar á grundvelli 5. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000, sbr. 7. gr. laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, nr. 22/2006, og 7. gr. laga um réttindi lifandi líffæragjafa til tímabundinnar fjárhagsaðstoðar, nr. 40/2009.
     Úrskurðarnefnd um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir. Til nefndarinnar er unnt að kæra ágreining um hvort framkvæma skuli fóstureyðingu eða ófrjósemisaðgerð. Annaðhvort landlæknir eða sjúkrahúslæknir getur vísað máli til nefndarinnar. Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála starfar á grundvelli 28. gr. laga um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir, nr. 25/1975.

Kostnaður við starfsemi úrskurðar- og kærunefnda árin 2009, 2010 og 2011.

2009 2010 2011 Samtals
Úrskurðarnefnd almannatrygginga 34.605.886 38.340.065 49.173.101 122.119.052
Úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 9.443.962 10.885.862 10.789.044 31.118.868
Kærunefnd barnaverndarmála 4.962.035 4.866.730 4.975.077 14.803.842
Kærunefnd greiðsluaðlögunarmála (frá 1. júlí 2010) 0 2.035.260 9.250.786 11.286.046
Kærunefnd húsamála (frá 1. júlí 2010) 0 4.669.456 9.220.006 13.889.462
Kærunefnd fjöleignarhúsamála (til 30. júní 2010) 7.142.315 5.582.871 0 12.725.186
Úrskurðarnefnd frístundahúsamála (til 30. júní 2010) 252.225 470.001 0 722.226
Kærunefnd húsaleigumála (til 30. júní 2010) 3.355.237 4.247.829 0 7.603.066
Kærunefnd jafnréttismála 4.242.046 3.283.012 5.287.228 12.812.286
Kærunefnd félagsþjónustu og húsnæðismála (frá 1. júlí 2010) 0 2.761.804 11.514.573 14.276.377
Kærunefnd húsnæðismála (til 30. júní 2010) 252.000 3.267.797 0 3.519.797
Úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála 7.139.900 7.995.210 8.150.566 23.285.676
Úrskurðarnefnd félagsþjónustu (til 30. júní 2010) 6.483.987 3.342.846 0 9.826.833
Úrskurðarnefnd um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir 2.551.737 2.758.500 2.756.277 8.066.514
Samtals 80.431.330 94.507.243 111.116.658 286.055.231




Fylgiskjal VIII.


Svar fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn Atla Gíslasonar


um úrskurðarnefndir.

(Þingskjal 423, 256. mál 141. löggjafarþings.)


     1.      Hversu margar sjálfstæðar og óháðar úrskurðarnefndir eru starfandi á vegum ráðuneytisins, hvað heita þær og hver eru verkefni þeirra?
    Úrskurðarnefndir, sem starfa á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins, eru þrjár.

Kærunefnd útboðsmála.
    Kærunefnd útboðsmála starfar samkvæmt 91. gr. laga nr. 84/2007, um opinber innkaup.
    Fjármála- og efnahagsráðherra skipar í nefndina. Í henni skulu eiga sæti þrír menn sem ráðherra skipar til fjögurra ára í senn.
    Hlutverk nefndarinnar er að leysa með skjótum og óhlutdrægum hætti úr kærum einstaklinga og lögaðila vegna ætlaðra brota á lögunum og reglum settum samkvæmt þeim.

Ríkistollanefnd.
    Ríkistollanefnd starfar samkvæmt 44. gr. laga nr. 88/2005, um tollalög.
    Fjármála- og efnahagsráðherra skipar ríkistollanefnd þremur mönnum og þremur til vara til fjögurra ára í senn. Skal einn þeirra vera formaður og skal hann fullnægja sömu hæfisskilyrðum og héraðsdómarar til skipunar í embætti. Aðrir nefndarmenn skulu hafa staðgóða þekkingu á tollamálum. Við skipun í nefndina skal þess gætt að nefndarmenn séu óháðir tollyfirvöldum og hagsmunaaðilum.
    Verkefni ríkistollanefndar er að vera óháður úrskurðaraðili í ágreiningsmálum, sem til hennar er skotið, um ákvörðun tolla og annarra skatta og gjalda sem greiða ber við tollafgreiðslu, tollverð, tollflokkun og annað sem lög þessi mæla fyrir um.

Yfirskattanefnd.
    Yfirskattanefnd starfar samkvæmt lögum nr. 30/1992, með áorðnum breytingum.
    Í yfirskattanefnd sitja sex menn sem skipaðir eru af fjármála- og efnahagsráðherra til sex ára í senn og hafa fjórir nefndarmanna starfið að aðalstarfi. Skulu nefndarmenn fullnægja skilyrðum sem sett eru um embættisgengi ríkisskattstjóra. Formaður og varaformaður þurfa þó einnig að uppfylla þau skilyrði sem sett eru um embættisgengi héraðsdómara.
    Yfirskattanefnd er æðsti úrskurðaraðili á stjórnsýslustigi í skattamálum og tekur lögsaga hennar til landsins alls. Hún er sérstök stofnun og óháð skattyfirvöldum og fjármála- og efnahagsráðherra í störfum sínum.

     2.      Hver var heildarkostnaður ríkisins af starfsemi nefndanna árin 2009, 2010 og 2011, sundurliðað á hverja nefnd fyrir sig?

Úrskurðarnefnd 2009 2010 2011
Kærunefnd 13.513.751 10.692.473 14.910.275
Ríkistollanefnd 3.194.298 3.268.908 4.174.278
Yfirskattanefnd 110.454.655 113.803.866 117.823.068