Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 404. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 664  —  404. mál.
Svarutanríkisráðherra við fyrirspurn Vigdísar Hauksdóttur
um embættismannakvóta Evrópusambandsins.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hvað eiga Íslendingar að fá marga embættismenn, aðstoðarmenn og annars konar starfsmenn í gegnum embættismannakvóta Evrópusambandsins gangi Ísland í sambandið?

    Eðli málsins samkvæmt kallar aðild nýrra ríkja að Evrópusambandinu á aukinn fjölda starfsmanna hjá stofnunum sambandsins en það fer þó einnig eftir stærð hins nýja aðildarríkis. Annars vegar er um að ræða fjölgun starfsfólks frá ESB-ríkjum, til þess að mæta auknu álagi og skuldbindingum af hálfu sambandsins gagnvart hinu nýja aðildarríkis. Hins vegar er um að ræða tiltekinn fjölda starfsmanna frá viðkomandi ríki.
    Ekki er um eiginlega embættismannakvóta að ræða. Hins vegar liggja þrjár viðmiðanir til grundvallar þegar kemur að ákvörðun um starfsmenn frá nýjum aðildarríkjum: a) mannfjöldatölur, b) fjöldi þingmanna á Evrópuþinginu og c) atkvæðavægi í ráðinu. Sem kunnugt er skiptast aðildarviðræðurnar í umfjöllun um 35 samningskafla eftir mismunandi samstarfssviðum en upplýsingar um þá er að finna í heimasíðunni viðræður.is. Um síðastnefndu tvær viðmiðanirnar er fjallað í samningskafla 34, um stofnanir. Um þann kafla hefur ekki enn verið fjallað en það er iðulega gert í lok samningaferlis.
    Málið hefur hvergi verið rætt, hvorki í spurningum Evrópusambandsins og svörum Íslands við þeim né í rýnivinnu. Því er ekki unnt að segja til um fjölda starfsmanna frá Íslandi við hugsanlega inngöngu í Evrópusambandið.