Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 296. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 679  —  296. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um fullgildingu viðbótarbókunar
við samning á sviði refsiréttar um spillingu.


Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Írisi Lind Sæmundsdóttur og Birgi Hrafn Búason frá utanríkisráðuneyti og Ingu Þóreyju Óskarsdóttur frá innanríkisráðuneyti.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til fullgildingar viðbótarbókunar við samning Evrópuráðsins frá 27. janúar 1999 á sviði refsiréttar um spillingu sem gerð var í Strassborg 15. maí 2003.
    Spillingarsamningurinn var lagður fram til undirritunar í Strassborg 27. janúar 1999 og undirritaði Ísland hann sama dag. Hinn 11. febrúar 2004 var hann fullgiltur af hálfu Íslands og 1. júní sama ár öðlaðist hann gildi að því er Ísland varðar. Með samningnum var stefnt að því að samræma ýmsar efnis- og formreglur aðildarríkjanna er tengjast tilteknum tegundum spillingarbrota og bæta alþjóðlegt samstarf í því skyni að gera saksókn vegna þessara brota mögulega og auðvelda hana.
    Þrátt fyrir góðan árangur af spillingarsamningnum töldu aðildarríki Evrópuráðsins að æskilegt væri að aukið væri við samninginn þannig að gildissvið hans væri rýmkað og hann tæki til fleiri brota. Í því skyni voru drög að viðbótarbókun við samninginn gerð árið 2001 og samþykkt af ráðherranefnd Evrópuráðsins í janúar 2003. Viðbótarbókunin var lögð fram til undirritunar í Strassborg 15. maí 2003 og undirrituð af hálfu Íslands sama dag. Bókunin felur í sér að spilling á sviði gerðar- og kviðdóma verði gerð refsiverð og rýmkar hún gildissvið samningsins að því er slík brot varðar.
    Fullgilding viðbótarbókunarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi til að mæta þeim skuldbindingum sem viðbótarbókunin felur í sér. Í því skyni hefur innanríkisráðherra lagt fram frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, með síðari breytingum (mútubrot). Allsherjar- og menntamálanefnd hefur fjallað um frumvarpið og lokið umfjöllun þess.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.

Alþingi, 10. desember 2012.

Árni Þór Sigurðsson,
form.
Gunnar Bragi Sveinsson,
frsm.
Árni Páll Árnason.

Helgi Hjörvar.
Illugi Gunnarsson.
Mörður Árnason.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.