Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 367. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 684  —  367. mál.




Svar



forsætisráðherra við fyrirspurn Atla Gíslasonar um gildissvið upplýsingalaga.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Telur ráðherra koma til álita að breyta gildissviði upplýsingalaga, nr. 50/1996, þannig að þau taki eftir því sem við getur átt til fyrirtækja, svo sem banka, fjölmiðla, olíufélaga, tryggingafélaga, verslunarsamsteypa og annarra stórfyrirtækja, sem hafa mikla eða ráðandi markaðshlutdeild og fyrirtækja sem taka að sér þjónustuverkefni í almannaþágu?

Fyrirtæki sem hafa mikla eða ráðandi markaðshlutdeild.
    Forsætisráðherra hefur lagt fram frumvarp til nýrra upplýsingalaga á yfirstandandi löggjafarþingi, en með því er lögð til nokkur breyting á gildissviði laganna. Þannig er í 2. mgr. 2. gr. frumvarpsins lagt til að lögin taki til allrar starfsemi einkaréttarlegra lögaðila sem eru að 51% hluta eða meira í eigu hins opinbera. Þau skuli þó ekki taka til lögaðila, sem sótt hafa um eða fengið opinbera skráningu hlutabréfa samkvæmt lögum um kauphallir, og dótturfélaga þeirra. Jafnframt er lagt til að ef starfsemi lögaðila sem fellur undir 2. mgr. er að nær öllu leyti í samkeppni á markaði geti ráðherra, að fenginni tillögu hlutaðeigandi ráðherra eða sveitarstjórnar og umsögn Samkeppniseftirlitsins, ákveðið að hann skuli ekki falla undir gildissvið laganna eða dregið slíka ákvörðun til baka.
    Markmið upplýsingalaga er að tryggja gegnsæi í stjórnsýslu og við meðferð opinberra hagsmuna. Undir afmörkun gildissviðs upplýsingalaga, verði frumvarpið að lögum, falla mörg fyrirtæki sem annast þjónustu í almannaþágu, eru í samkeppnisrekstri og í eigu hins opinbera, svo sem Landsvirkjun, Orkuveita Reykjavíkur, Rarik ohf. og fleiri. Telur ráðherra, að svo stöddu, og með hliðsjón af markmiði upplýsingalaga, ekki rétt að ganga lengra í rýmkun gildissviðs laganna, þ.e. að lögin nái til fyrirtækja sem eru að minni hluta en 51% í eigu hins opinbera, hvort sem fyrirtæki hefur mikla eða ráðandi markaðshlutdeild eða ekki. Benda má á að í áðurnefndu frumvarpi er lagt til að miða eignarhluta opinberra aðila við 51% eða meira til samræmis við sjónarmið meiri hluta allsherjarnefndar þegar hún fjallaði um frumvarp sama efnis á 139. löggjafarþingi. Rökin að baki því hlutfalli eru fyrst og fremst þau að þegar eignarhluti tiltekins aðila í fyrirtæki hefur náð þeim mörkum verði að líta svo á að ákvarðanir um meðferð og stjórnun slíks fyrirtækis séu í reynd að umtalsverðu leyti ákvarðanir um ráðstöfun opinberra hagsmuna.
    Benda má á að í nýju frumvarpi til upplýsingalaga er áfram byggt á þeirri reglu að vegna samkeppnishagsmuna sé heimilt að undanþiggja ýmsar upplýsingar aðgangsrétti almennings, sbr. 3. tölul. 10. gr. frumvarpsins, en jafnframt að þeir lögaðilar sem falla undir lögin og eru að nær öllu leyti í samkeppni á markaði geti fengið undanþágu ráðherra frá gildissviði laganna. Ætla má að þau fyrirtæki sem hafa mikla eða ráðandi markaðshlutdeild eigi töluverðra samkeppnishagsmuna að gæta varðandi mikinn hluta þeirra upplýsinga sem liggja fyrir hjá þeim. Upplýsingalögin setja mikilvæga varnagla þegar kemur að samkeppnishagsmunum fyrirtækja.
    Í ljósi alls þessa og með vísan til þess frumvarps, sem lagt hefur verið fram til nýrra upplýsingalaga og athugasemda við frumvarpið, telur ráðherra það vart koma til álita, að svo stöddu, að lögin taki til annarra fyrirtækja en þeirra sem eru að 51% hluta eða meira í eigu hins opinbera og að færa þyrfti skýr og skilmerkileg rök fyrir slíkri útvíkkun á gildissviði upplýsingalaga.

Fyrirtæki sem taka að sér þjónustuverkefni í almannaþágu.
    Í 3. gr. frumvarps til nýrra upplýsingalaga er lagt til að lögin taki til einkaaðila, hvort sem þeir eru í opinberri eigu eða ekki, að því leyti sem þeim hefur með lögum eða með ákvörðun eða samningi sem byggist á heimild í lögum verið falið að taka stjórnvaldsákvörðun eða sinna þjónustu sem kveðið er á um í lögum að stjórnvald skuli sinna eða telst að öðru leyti liður í opinberu hlutverki stjórnvalds. Í gildandi upplýsingalögum er kveðið á um það í 2. mgr. 1. gr. að lögin taki til starfsemi einkaaðila að því leyti sem þeim hefur verið falið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna. Með ákvæði 3. gr. frumvarps til upplýsingalaga er því verið að leggja til breytingu á gildissviði upplýsingalaga í þá átt að þau taki til fyrirtækja sem taka að sér þjónustuverkefni í almannaþágu.
    Útvíkkun á gildissviði upplýsingalaga, sem felur í sér að lögin taki til einkaréttarlegra lögaðila sem eru að 51% eða meira í eigu opinberra aðila, og til einkaaðila sem á grundvelli laga fara með opinber verkefni, tryggir að mati ráðherra að lögin nái til meðferðar þeirra opinberu hagsmuna sem um er að tefla í mun ríkari mæli en gildandi lög gera.