Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 97. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 701  —  97. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu



um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 101/2012 um breytingu á bókun 31 (um samvinnu á sérstökum sviðum
utan marka fjórþætta frelsisins) við EES-samninginn.


Frá utanríkismálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bergþór Magnússon og Jóhönnu B. Bjarnadóttur frá utanríkisráðuneyti og Þórunni J. Hafstein frá innanríkisráðuneyti. Þá hafa nefndinni borist gögn frá ráðuneytunum vegna málsins.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 101/2012, frá 30. apríl 2012, um breytingu á bókun 31 (um samvinnu á sérstökum sviðum utan marka fjórþætta frelsisins) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun ráðsins 2008/114/EB frá 8. desember 2008 um að greina og tilnefna grunnviði samfélagsins í Evrópu og meta þörfina á að efla vernd þeirra. Sex mánaða frestur, samkvæmt EES-samningnum, til að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara var veittur til 30. október 2012.
    Markmið tilskipunarinnar er að setja upp ferla við ákvörðun á því hvort mannvirki teljist til mikilvægra samfélagsinnviða og setja fram samræmda nálgun á því hvernig mikilvægir samfélagsinnviðir verði best verndaðir, í þeim tilgangi að varðveita öryggi borgaranna.
    Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að ekki væri um að ræða skuldbindingu til innleiðingar. Á það var bent að í bókun 31 við EES-samninginn, er varðar samvinnu á sérstökum sviðum utan marka fjórþætta frelsisins, eru teknar upp gerðir sem varða nána samvinnu samningsaðila og eru til þess fallnar að ná markmiðum samningsins.
    Fram kom við umfjöllun nefndarinnar að þátttaka í þessu samstarfi getur komið að gagni fyrir íslensk stjórnvöld, varðandi verklag og vinnuaðferðir um vernd ómissandi innviða á ýmsum sviðum. Í samræmi við ákvæði almannavarnalaga og ályktanir almannavarna og öryggismálaráðs verður unnið að gerð hættumats, könnun á áfallaþoli og gerð viðbragðsáætlana sem miða að vernd ómissandi innviða. Í gögnum sem nefndinni bárust var í því sambandi vísað til áhættuskoðunar almannavarna frá árinu 2011 og samþykktar almannavarna- og öryggismálaráðs dags. 10. júní 2009 um undirbúning og gerð viðbragðsáætlana, svo sem um vernd mikilvægra samfélagsinnviða og netöryggis. Var tekið fram að innleiðing tilskipunarinnar væri ekki forsenda þess að framangreind vinna færi fram. Í gögnum sem nefndinni bárust er einnig bent á nýleg lög nr. 62/2012 frá 25. júní 2012 um breytingu á fjarskiptalögum þar sem fjallað er um ómissandi upplýsingainnviði, þ.e. upplýsingakerfi þeirra mikilvægu samfélagslegu innviða sem tryggja eiga þjóðaröryggi, almannaheill og margs konar öflun aðfanga í þróuðu og tæknivæddu þjóðfélagi. Um er að ræða þann tækja- og hugbúnað sem er nauðsynlegur til reksturs og virkni kerfisins og þær upplýsingar sem þar eru hýstar eða um kerfið fara. Ríkislögreglustjóra er í fjarskiptalögum falið að skilgreina ómissandi upplýsingainnviði.
    Komist íslensk stjórnvöld að þeirri niðurstöðu að ómissandi innviðir hér á landi tengist eða séu háðir ómissandi innviðum í Evrópu gerir tilskipunin ráð fyrir því að íslensk stjórnvöld tilnefni mannvirki hér á landi sem hluta af ómissandi innviðum í Evrópu. Áður en til slíkrar tilnefningar kemur þarf að liggja fyrir ákvörðun íslenskra stjórnvalda á grundvelli íslenskra laga um hvað teljist til ómissandi innviða hér á landi samkvæmt íslenskum lögum.
    Fram kemur í athugasemdum við tillöguna að innleiðing tilskipunar 2008/114/EB kalli á breytingar á lögum. Unnt sé að fullnægja nær öllum atriðum tilskipunarinnar um áhættumat og öryggisáætlanir innan ramma almannavarnalaga, nr. 82/2008. Upp á vanti ákvæði um þær skyldur sem eru lagðar á aðila, sem reka mannvirki sem skilgreind eru til grunnviða samfélagsins, til að viðhafa lágmarksöryggisráðstafanir á þessu sviði. Fyrirhugað er að innanríkisráðherra leggi fram lagafrumvarp til breytingar á almannavarnalögum á yfirstandandi löggjafarþingi til innleiðingar á viðkomandi ákvæðum tilskipunarinnar. Lagabreytingarnar muni hvorki hafa í för með sér umtalsverðan kostnað né stjórnsýslulegar afleiðingar. Kostnaður viðkomandi stjórnvalda, innanríkisráðuneytisins, embættis ríkislögreglustjóra og hlutaðeigandi stofnana, muni fyrst og fremst felast í samráði á vettvangi EES-samstarfsins um vernd ómissandi innviða. Þá muni ekki leiða af þessari tilskipun beinan kostnað fyrir rekstraraðila grunnviða þar sem hún felur aðeins í sér ramma um samstarf og samráð en ekki bindandi reglur.
    Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að æskilegt gæti verið að breyta orðalagi í tillögugreininni þar sem fjallað er um „þýðingarmikil grunnvirki“. Nefndin telur eðlilegt, með tilliti til þeirra íslensku laga sem fjalla um innviði sem vísað hefur verið til í þessu áliti, að breyta orðum tillögugreinarinnar til samræmis. Tilskipunin fjallar um þýðingarmikla innviði og leggur nefndin til að þeir verði nefndir grunnviðir.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:



    Í stað orðanna „þýðingarmikil grunnvirki“ komi: grunnviði.

    Árni Páll Árnason og Bjarni Benediktsson, framsögumaður nefndarinnar, voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 27. nóvember 2012.



Árni Þór Sigurðsson,


form.


Ásmundur Einar Daðason.


Gunnar Bragi Sveinsson.



Helgi Hjörvar.


Jón Bjarnason.


Mörður Árnason.



Ragnheiður E. Árnadóttir.