Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 479. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 714  —  479. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu



um frumvarp til laga um breytingu á lögum um vegabréf, nr. 136/1998,
með síðari breytingum (gildistími almenns vegabréfs).


Frá allsherjar- og menntamálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bryndísi Helgadóttur frá innanríkisráðuneyti og Sólveigu Guðmundsdóttur og Þorvarð Ólafsson frá Þjóðskrá Íslands.
    Með frumvarpinu er lagt til að gildistími almennra vegabréfa fullorðinna verði færður til þess horfs sem var við gildistöku laga um vegabréf, nr. 136/1998, sem tóku gildi 1. júní 1999. Gildistími almenns vegabréfs verður þá tíu ár frá útgáfudegi en fimm ár fyrir börn yngri en 18 ára.
    Með breytingu á lögum um vegabréf (með lögum nr. 72/2006) var gildistími vegabréfa færður í fimm ár frá útgáfudegi óháð aldri manna. Rökin fyrir þeirri breytingu voru upptaka lífkenna við útgáfu vegabréfa hér á landi. Sökum þess að örflögur sem geyma tiltekin lífkenni manna í vegabréfum hafa reynst endingarbetri en talið var að yrði fyrir nokkrum árum þykir rétt að færa gildistíma almennra vegabréfa í fyrra horf.
    Nefndin vekur athygli á misritun í 2. málsl. 2. mgr. athugasemda við frumvarpið. Þar hefði átt að standa að gildistími vegabréfs var tíu ár frá útgáfudegi fyrir þá sem eldri voru en 18 ára en fimm ár fyrir börn yngri en 18 ára.
    Í frumvarpinu er lagt til að lögin taki gildi 1. janúar 2013. Við meðferð frumvarpsins í nefndinni komu fram þær ábendingar að nauðsynlegt væri að gera breytingar á grunnskilríkjum vegabréfaútgáfunnar sem krefjist nákvæmrar skjala- og tæknivinnu hérlendis og hjá þjónustuaðila erlendis. Það er álit nefndarinnar að tryggja verði öryggi við þá framkvæmd og einnig verði að tryggja að nægilegur tími sé gefinn til að kynna erlendum landamærastöðvum breyttan gildistíma vegabréfa. Nefndin leggur til að gildistöku laganna verði frestað til 1. mars 2013.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:



    2. gr. orðist svo:
    Lög þessi öðlast gildi 1. mars 2013.

    Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Þráinn Bertelsson og Tryggvi Þór Herbertsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 12. desember 2012.



Björgvin G. Sigurðsson,


form., frsm.


Skúli Helgason.


Sigmundur Ernir Rúnarsson.



Guðfríður Lilja Grétarsdóttir.


Siv Friðleifsdóttir.


Birgitta Jónsdóttir.