Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 462. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 748  —  462. mál.




Svar



innanríkisráðherra við fyrirspurn Einars K. Guðfinnssonar
um afnám einkaréttar á póstþjónustu.


     1.      Hvernig verður brugðist við því að einkaréttur ríkisins á þjónustu vegna póstsendinga bréfa allt að 50 g að þyngd á að falla niður um áramótin samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins um opnun póstmarkaða?
    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins um opnun póstmarkaða 2008/6/EB hefur ekki lagagildi á Evrópska efnahagssvæðinu, eingöngu innan Evrópusambandsins. Ekki stendur til að bregðast við efnisatriðum tilskipunarinnar fyrr en ljóst er hvort og hvenær umrædd tilskipun verður innleidd innan EES.
    Noregur hefur haft þá afstöðu að gera fyrirvara um að tilskipunin falli undir EES og hefur ekki sent svar til EFTA um með hvaða hætti ríkið hyggist innleiða tilskipunina. Tilskipunin hefur því ekki verið tekin inn í EES-samninginn og er ágreiningur í uppsiglingu milli framkvæmdastjórnar ESB og Noregs. Á vettvangi innanríkisráðuneytis hefur verið ákveðið að fylgja Noregi að málum og innleiða ekki tilskipunina að sinni. Helstu rökin eru strjálbýli og erfiðleikar við dreifingu en íslenskur póstmarkaður hefur ákveðna sérstöðu gagnvart erlendum mörkuðum að því leyti hversu strjálbýlt landið er, með um þrjá íbúa á hvern ferkílómetra. Það felur í sér að mikill munur er á dreifingarkostnaði milli þéttbýlis og dreifbýlis.

     2.      Mun afnám einkaréttarins hafa áhrif á þær gæðakröfur til póstþjónustunnar sem nú eru gerðar og á alþjónustukvöðina sem lögð er á Íslandspóst?
    Afnám einkaréttar í póstþjónustu hefur í sjálfu sér ekki áhrif á gæðakröfur til póstþjónustu, enda er í sömu tilskipun kveðið á um ákveðnar gæðakröfur og alþjónustu sem ber að veita. Eftir sem áður þarf að standa undir kostnaði vegna alþjónustu, hvort sem um er að ræða með einkarétti eða án hans.
    Hingað til hefur einkarétturinn staðið undir þeim kostnaði sem Íslandspóstur ber vegna alþjónustu á sviði póstþjónustu. Vegna minnkandi póstmagns getur það þó breyst og lítur út fyrir að Íslandspóstur muni skila tapi í ár vegna alþjónustunnar.
    Afnám einkaréttar þarf ekki að hafa áhrif á þær gæðakröfur sem gerðar eru í dag, svo sem um fimm daga þjónustu. Það er verkefni innanríkisráðuneytisins/stjórnvalda að móta þær gæðakröfur sem kunna að verða settar ef einkarétturinn verður afnuminn, með hliðsjón af þeim gæðakröfum sem eru í umræddri tilskipun og þarf að uppfylla jafnvel þótt einkarétturinn falli niður.
    Samkvæmt upplýsingum frá Póst- og fjarskiptastofnun vinnur Íslandspóstur nú að greiningu á kostnaði fyrirtækisins af alþjónustu. Stofnunin mun, eftir að Íslandspóstur hefur skilað inn gögnum um kostnað fyrirtækisins vegna alþjónustu, yfirfara og staðreyna þennan kostnað eftir atvikum.
    Samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðu Íslandspósts liggur þessi kostnaður gróflega á bilinu 400–600 millj. kr. á hverju ári. Með þessari vinnu er ætlað að greina þá þætti þjónustunnar sem ekki væri sinnt með sama hætti og nú er ef engin væri alþjónustuskyldan. Einkum er hér um að ræða kostnað vegna reksturs póstafgreiðslna um land allt, kostnað við dreifingu pósts alla virka daga um land allt og kostnað í tengslum við gildandi gæðakröfur, t.d. að 85% af A-pósti skuli dreift daginn eftir móttöku.

     3.      Hefur verið lagt mat á hverjar afleiðingarnar yrðu af afnámi þessa einkaréttar fyrir póstþjónustu, einkanlega í dreifbýli?
    Í dag veitir einkarétturinn Íslandspósti ákveðið skjól til að halda uppi sambærilegri þjónustu um allt land. Ef einkaréttur verður afnuminn þarf líklega að fjármagna þann kostnað/tap sem er á alþjónustu. Sú tilskipun sem um ræðir gerir ráð fyrir þremur möguleikum að því er varðar fjármögnun alþjónustu.
          Útboð á þjónustu.
          Jöfnunarsjóður þar sem aðilar á markaði skipta á milli sín kostnaði af alþjónustu.
          Bein framlög frá ríki til alþjónustuveitanda.
    Á undanförnum fjórum árum hefur póstmagn innan einkaréttar farið úr 48 milljónum sendinga á ári niður í 33 milljónir sendinga á ári. Spár gera ráð fyrir að magn muni halda áfram að minnka. Það gætu því verið forsendur til þess, hvort heldur einkaréttur verður afnuminn eða ekki, að draga úr þeim kostnaði sem til fellur vegna núgildandi alþjónustuskyldu til að koma í veg fyrir þörf Íslandspósts á að hækka gjaldskrár fyrirtækisins í framtíðinni, en miklar gjaldskrárhækkanir gætu ýtt undir enn frekari fækkun bréfa.
    Innan ráðuneytisins fer nú fram vinna þar sem verið er að kanna þá möguleika sem standa til boða.