Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 473. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 789  —  473. mál.

2. umræða.


Nefndarálit



um frumvarp til laga um breytingu á lögum um vörugjald, nr. 97/1987,
og tollalögum, nr. 88/2005, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigurð Guðmundsson og Ögmund Hrafn Magnússon frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Hörð Davíð Harðarson frá embætti tollstjóra, Andrés Magnússon og Harald Jónsson frá Samtökum verslunar og þjónustu, Halldór Árnason frá Samtökum atvinnulífsins, Bjarna Má Gylfason og Ragnheiði Héðinsdóttur frá Samtökum iðnaðarins, Almar Guðmundsson og Pál Rúnar Kristjánsson frá Félagi atvinnurekenda, Hólmfríði Þorgeirsdóttur, Elvu Gísladóttur og Dóru Guðrúnu Guðmundsdóttur frá embætti landlæknis.
    Þá hafa nefndinni borist umsagnir um málið frá ÁTVR, Bændasamtökum Íslands, embætti landlæknis, Félagi atvinnurekenda, Myllunni, Neytendasamtökunum, ríkisskattstjóra, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum ferðaþjónustunnar, Samtökum iðnaðarins, Samtökum verslunar og þjónustu, SÍBS og Arnóri Vikari Árnórssyni.

Forsaga málsins.
    Með lagabreytingu sem tók gildi 1. mars 2007 voru vörugjöld felld niður af innlendum og innfluttum matvælum, öðrum en sykri og sætindum, auk þess sem öll matvara til manneldis var færð niður í 7% virðisaukaskattsþrep. Fram að því hafði ákveðinn hluti matvöru borið 14% virðisaukaskatt en önnur matvara 24,5% virðisaukaskatt.
    Í frumvarpi til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum sem lagt var fram á miðju ári 2009 voru lagðar til sérstakar tekjuöflunaraðgerðir til að bregðast við versnandi horfum um afkomu ríkissjóðs frá því sem gert hafði verið ráð fyrir í fjárlögum þess árs og efnahagsáætlun stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem lágu lögunum til grundvallar. Í 4. gr. frumvarpsins var lagt til að sá hluti matvörunnar sem fyrir 1. mars 2007 hafði tilheyrt hinu efra virðisaukaskattsþrepi yrði á ný færður upp í það þrep sem þá var 24,5%.
    Í minnisblaði fjármálaráðuneytisins, nú fjármála- og efnahagsráðuneytisins, til efnahags- og skattanefndar, nú efnahags- og viðskiptanefndar, kemur fram að skattandlag tillögunnar væri fyrst og fremst sykraðar vörur og að tekjuauki ríkissjóðs vegna hennar væri metinn á um 2,5 milljarða kr. á ársgrundvelli. Athugasemdir frumvarpsins báru einnig með sér að fyrir utan hið almenna tekjuöflunarsjónarmið þætti ráðuneytinu ekki ástæða til að vörur sem í hlut ættu, þ.e. sykurvörur, sælgæti og ýmsar drykkjarvörur, sættu ívilnandi skattlagningu.Nánari skrýringar voru ekki tilgreindar en í áliti meiri hluta efnahags- og skattanefndar fyrir 2. umræðu var talið að þarna lægju að baki lýðheilsusjónarmið.
    Lýðheilsustöð, sem síðar var sameinuð embætti landlæknis, skilaði umsögn um umrætt mál þar sem lögð var áhersla á mikilvægi þess að skattbreytingar sem þessar væru sniðnar að manneldis- og tannheilsusjónarmiðun. Stofnunin studdi að lækkun virðisaukaskatts á sykraða gos- og svaladrykki gengi til baka en féllst ekki á að það sama yrði gert varðandi tilgreindar ósætar drykkjavörur.
    Við 2. og 3. umræðu frumvarpsins um ráðstafanir í ríkisfjármálum lagði meiri hluti efnahags- og skattanefndar til breytingar á 4. gr. þess. Á fundum hennar hafði komið fram það sjónarmið að tillagan mundi leiða til aukins flækjustigs í skattframkvæmd þar sem matvara yrði ekki lengur öll í sama skattþrepi og að um væri að ræða óþarfa forsjárhyggju og neyslustýringu. Töldu sumir fulltrúar atvinnulífsins að illskárri kostur væri með tilliti til alvarleika í efnahagsmálum að skattleggja allan sykur í tolli við innflutning og jafnvel að hækka annað eða bæði þrep virðisaukaskattsins hóflega.
    Með hliðsjón af framangreindum athugasemdum lagði meiri hluti efnahags- og skattanefndar til við 3. umræðu frumvarpsins að tekið yrði upp að nýju það vörugjaldskerfi á matvæli sem aflagt var með gildistöku laganna 1. mars. 2007 en með hærri hlutföllum til að ná inn sama tekjuauka og að var stefnt. Einnig skipti máli að áratugalöng reynsla var af kerfinu frá upptöku þess árið 1970 og sem rekja má til inngöngu Íslands í EFTA. Tillaga meiri hlutans var síðan samþykkt við 3. umræðu, sbr. 4. gr. laga nr. 70/2009, um ráðstafanir í ríkisfjármálum.

Efni frumvarpsins.
    Í því frumvarpi sem hér er til umfjöllunar eru lagðar til breytingar á lögum um vörugjald, nr. 97/1987, og tollalögum, nr. 88/2005. Lagðar eru til breytingar á almennum vörugjöldum sem lögð eru á matvæli annars vegar og ýmsa aðra vöruflokka hins vegar. Meginefni frumvarpsins er í þremur þáttum. Í fyrsta lagi eru lagðar til breytingar á umgjörð um álagningu vörugjalda. Nú sér tollstjóri um álagningu vörugjalda á innfluttar vörur en ríkisskattstjóri um álagningu vörugjalda á innlenda framleiðslu. Með frumvarpinu er lagt til að öll álagning vörugjalda verði á einni hendi og færist öll til tollstjóra, auk þess sem lagt er til að innflytjendum og framleiðendum standi til boða val við fyrirkomulag á skilum vörugjalda. Í öðru lagi er lagt til að álagning vörugjalda á matvæli taki eingöngu mið af manneldissjónarmiðum og fari því eftir magni af viðbættum sykri eða sætuefnum í vöru. Í þriðja lagi er lagt til að komið verði rökréttari skipan á álagningu vörugjalda á ýmsar aðrar vörur, einkum raftæki, með það fyrir augum að svipaðar vörur beri sömu vörugjöld.
    Frumvarpið er afrakstur vinnu tveggja starfshópa sem skipaðir voru í maí sl. Starfshópur I fjallaði um álagningu vörugjalda á matvæli og starfshópur II fjallaði um álagningu vörugjalds á aðrar vörur. Í skipunarbréfi starfshóps I sem fjallaði um matvæli kom fram að honum væri ætlað að gera tillögur að breytingum sem miðuðu að því að gera álagningu vörugjalda einfalda, gegnsæja, samræmda og skilvirka og hlutlausa með tilliti til vöruvals nema þar sem stjórnvöld vildu hafa áhrif á neyslu almennings með tilliti til manneldis-, umhverfis- eða öryggissjónarmiða. Eitt af markmiðum frumvarpsins sem er afrakstur vinnu starfshópsins er að hækka vörugjöld á óholl matvæli og vinna þannig gegn neyslu þeirra með hagrænum hvata.
    Sams konar viðmið og verkefni voru í skipunarbréfi starfshóps II. Þar kom einnig fram að vegna slæmrar stöðu ríkissjóðs nú um stundir og í fyrirsjáanlegri framtíð og vegna markmiða stjórnvalda í ríkisfjármálum væri nauðsynlegt að tillögur starfshópsins mundu leiða til takmarkaðra breytinga á tekjum ríkissjóðs af almennum vörugjöldum.
    Starfshópur II skilaði af sér tillögum að breytingum á fyrirkomulagi á skilum vörugjalds og álagningu á einstök tollskrárnúmer. Ekki náðist samstaða í starfshópi I um tillögur og hefur hann í raun ekki lokið störfum formlega en hins vegar er fyrirsjáanlegt að samstaða náist ekki. Vegur þar þyngst að fjármála- og efnahagsráðuneytið annars vegar og hagsmunaaðilar hins vegar sem skipaðir voru í starfshópinn hafa allsendis ólíka hugmynd um framtíðaruppbyggingu vörugjaldakerfisins þar sem hagsmunaaðilar telja flestir að leggja beri af vörugjöld og afla ríkissjóði tekna á annan hátt. Þá kemur það einnig til að vinna starfshópanna var ekki aðskilin frá tekjuöflun fjárlagafrumvarps fyrir árið 2013 en í því kom fram að áætlað væri að vörugjöld á matvæli mundu skila ríkissjóði um 800 millj. kr. í auknar tekjur á árinu 2013. Telja hagsmunaaðilar í starfshópi I að þetta hafi um of markað vinnu starfshópsins.

Umfjöllun nefndarinnar.
    Nefndin fjallaði um málið á fundum sínum og fékk til sín helstu hagsmunaaðila. Fram komu þau sjónarmið hjá mörgum þeirra að stefna ætti að því að leggja vörugjöld af og afla ríkissjóði tekna á annan hátt. Innheimta vörugjalda væri úr sér gengið fyrirkomulag sem væri flókið í framkvæmd, ógagnsætt, tilviljanakennt og óskilvirkt. Verður nú vikið að helstu þáttum sem fjallað var um á fundum nefndarinnar.

Álagning vörugjalda.
    Skv. 1. gr. laga um vörugjald, nr. 97/1987, skal greiða í ríkissjóð vörugjald af innfluttum vörum og vörum sem eru framleiddar eða fá einhverja vinnslumeðferð hér á landi eins og nánar er kveðið á um í lögunum. Skv. 2. gr. laganna nær gjaldskyldan til allra vara sem flokkast undir tollskrárnúmer sem talin eru upp í viðauka við lögin og skv. 2. mgr. 2. gr. skal við flokkun til gjaldskyldu notast við flokkunarreglur tollalaga, nr. 88/2005. Álagning vörugjalda er því með þeim hætti að lagt er vörugjald á tiltekin tollskrárnúmer og þær vörur sem samkvæmt tollskrá falla í þau tilteknu númer bera vörugjald sem skal innheimt hjá innflytjanda eða framleiðanda hennar hvort sem um er að ræða innflutta vöru eða innlenda framleiðslu.
    Álagning vörugjalds er mismunandi eftir því um hvaða vörur er að ræða. Viðauka I við lög um vörugjald, nr. 97/1987, er skipt upp í liði A–E og er álagning gjaldsins mismunandi eftir því í hvaða lið viðkomandi tollskrárnúmer er flokkað. Annars vegar er lagt á magngjald, þ.e. gjald á hverja einingu af vöru. Lagt er magngjald á matvæli. Hins vegar er lagt vörugjald á verðmæti vöru. Þær vörur eru t.d. raftæki, iðnaðarvörur og ýmsar aðrar vörur.

Skil á vörugjaldi.
    Með frumvarpinu eru eins og áður sagði lagðar til breytingar á innheimtu og skilum vörugjalda. Lagt er til að innflytjendum og framleiðendum verði boðið upp á að velja fyrirkomulag á skilum vörugjalda sem hentar hverjum aðila best.
    Komið hefur fram gagnrýni á það fyrirkomulag sem felst í 10. gr. laganna og talið að það mismuni aðilum eftir því hvort um innflytjanda fullunnar vöru er að ræða eða innflytjanda hráefnis sem síðan er notað til að framleiða fullunna vöru. Skv. 10. gr. laganna eru gefin út svokölluð vörugjaldsskírteini til innlendra framleiðenda sem framleiða vörugjaldsskylda vöru. Felur það í sér að þeir fá vörugjöld af aðföngum sínum endurgreidd. Þeir innlendu framleiðendur sem þannig fá vörugjöld endurgreidd af aðföngum þurfa hins vegar að greiða vörugjöld af fullunninni framleiðsluvöru en það er gert eftir á miðað við það magn sem selt er. Í því felst að framleiðandi þarf aðeins að greiða vörugjald af þeim hluta sem sannanlega selst. Verði afföll af aðföngum, þ.e. ef hluti þeirra nýtist ekki við framleiðsluna eða það sem framleitt er selst ekki, greiðir framleiðandinn ekki vörugjald af þeim hluta. Sá sem flytur inn fullunna vöru þarf hins vegar að greiða vörugjald af öllum vörum sem fluttar eru inn og skiptir í þeim efnum ekki máli þó að hluti vörunnar seljist ekki. Sá hluti er samt sem áður vörugjaldsskyldur og verður innflytjandinn að taka á sig þau afföll sjálfur og greiða vörugjöldin. Komið hafa fram þau sjónarmið að þetta fyrirkomulag kunni að brjóta gegn EES-samningnum og þeirri meginreglu að gjöld sem lögð eru á skuli falla jafnt á alla óháð framleiðslulandi og að óheimilt sé að haga gjaldtöku þannig að innlendum framleiðendum sé sérstaklega hyglt, sbr. 10. og 14. gr. EES-samningsins, sbr. lög nr. 2/1993, um Evrópska efnahagssvæðið. Með framkvæmd á innheimtu vörugjalda er því ákveðin mismunun á grundvelli þess hvar vara er framleidd.
    Með 2. gr. frumvarpsins er lagt til að innheimta vörugjalda verði öll á einum stað óháð því hvort um innflutning sé að ræða eða sölu fullunninnar vöru á markaði hérlendis. Lagt er til að öll innheimta verði hjá embætti tollstjóra og að embættinu verði veittar auknar fjárheimildir í samræmi við þann aukna kostnað sem til verður hjá embættinu vegna umsýslu vörugjalda. Að sama skapi mun sparast í rekstri ríkisskattstjóra og því má gera ráð fyrir því að ekki sé um aukinn kostnað að ræða hjá hinu opinbera. Umsagnaraðilar og gestir telja þessa breytingu til bóta enda sé líklegra að gætt verði betur jafnræðis ef framkvæmdin er öll á einum stað.
    Skv. 3. gr. frumvarpsins verður framleiðendum og innflytjendum boðið upp á tvær leiðir við skil á vörugjaldi. Innlendum framleiðendum er annars vegar mögulegt að nýta sér núverandi fyrirkomulag sem lýst er hér að framan. Hins vegar býðst þeim einnig að skila ekki vörugjaldi af vörum sínum heldur kaupa einfaldlega aðföng til framleiðslunnar og fá gjaldið ekki endurgreitt. Með þessum hætti losnar framleiðandi undan umstangi sem fylgir annars skilum á gjaldinu.
    Innflytjanda er annars vegar heimilt að skila vörugjaldi í samræmi við tollflokkun vörunnar og í samræmi við það gjald sem lagt er á tollskrárnúmerið en það gjald tekur mið af áætluðu sykurinnihaldi vörunnar. Hins vegar getur innflytjandi skilað vörugjaldi í samræmi við hlutfall viðbætts sykurs í vörunni geti hann framvísað innihaldslýsingu frá framleiðanda vörunnar þar sem magn viðbætts sykurs er tiltekið. Í greinargerð með frumvarpinu segir að með því að gefa framleiðendum og innflytjendum val um skilin sé þeim gert kleift að velja að greiða aðeins vörugjald í samræmi við raunverulegt hlutfall viðbætts sykurs í vörunni.
    Fyrir nefndinni kom fram að þótt kerfið væri góðra gjalda vert væri það ekki svo einfalt að það sniði alla agnúa af innheimtu vörugjalda. Þannig kæmi það mjög misjafnlega niður á fyrirtækjum eftir stærð þeirra, en stærri fyrirtæki væru mun betur í stakk búin til að reka þau tölvukerfi og sinna þeirri umsýslu sem skil vörugjalda krefst ef fyrirtæki kysi að skila eingöngu vörugjöldum af þeim hluta sem sannarlega er nýttur til framleiðslu eða í réttu samræmi við magn viðbætts sykurs í innfluttri vöru. Sú leið mun ávallt vera hagstæðust fyrir fyrirtæki en krefst jafnframt mests kostnaðar við umsýslu. Þannig var fyrir nefndinni sérstaklega bent á að ýmis smærri framleiðslufyrirtæki, svo sem bakarí, sem hefðu ekki burði til mikillar skrifstofuvinnu í kringum skil vörugjalda þyrftu að kaupa þessa þjónustu annars staðar frá og mundu því velja hagkvæmustu leiðina við skil á vörugjöldum.

Vörugjöld á matvæli.
    Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að eitt af markmiðum þess sé að haga skattlagningu þannig að þær vörur sem séu óæskilegar út frá lýðheilsu- og manneldissjónarmiðum séu skattlagðar meira en aðrar vörur. Með því móti megi reyna að draga úr neyslu þeirra með hagrænum hvötum. Þá kemur einnig fram að neysla á viðbættum sykri sé ekki eina óæskilega neysla landans heldur sé hér á landi neytt of mikils af harðri fitu. Erfitt sé hins vegar að reyna að draga úr neyslu á harðri fitu með hagrænum hvötum og því verði að reyna aðrar leiðir til að draga úr henni. Í greinargerð starfshóps I sem fjármálaráðherra skipaði til að endurskoða álagningu vörugjalda á matvæli, en greinargerðin var unnin af formanni hópsins þar sem hópurinn komst ekki að sameiginlegri niðurstöðu, kemur fram að offita hafi aukist mikið hér á landi á undanförnum tveimur áratugum og að réttlætanlegt og mögulegt sé að beina neyslu í átt að manneldismarkmiðum með hagrænum hvötum sem gerðar eru tillögur um í frumvarpinu.
    Fyrir nefndinni kom fram m.a. af hálfu embættis landlæknis að þrátt fyrir góð fyrirheit um að með vörugjöldum yrði reynt að breyta neyslumynstri almennings væri ekki gengið nógu langt með frumvarpinu og ekki væri samræmi í því á hvaða vörur aukin vörugjöld verða lögð. Af þessum sökum mundi frumvarpið ekki ná markmiði sínu. Var á það bent að þótt t.d. gosdrykkir mundu hækka í verði væri gert ráð fyrir því að mestallt súkkulaði mundi lækka í verði. Þá mundi hækkun á gosdrykkjum einnig verða mjög lítil og ólíkleg til að draga úr neyslunni en á hinn bóginn gæti neysla á sælgæti og súkkulaði aukist. Þannig væri ekki hægt að segja að sú leið sem valin hefði verið tæki nægjanlega mið af manneldissjónarmiðum og hún mundi því ekki hafa mikil áhrif til bættrar lýðheilsu.
    Nokkuð var gagnrýnt fyrir nefndinni sá munur sem gerður er í frumvarpinu á viðbættum sykri og sætuefnum. Þannig er lagt til að lagt verði 200 sinnum hærra vörugjald á sætuefni en viðbættan sykur.
    Sjónarmið komu fram um að neysluskattar í heild væru ekki æskilegir. Þeir væru gjarnan handahófskenndir eins og hækkanir frumvarpsins bæru með sér. Nær væri að efla forvarnir og fræðslu frekar en að skattleggja einstaka vörur, eins og sykur, þar sem það væri ekki síst kyrrseta og neysla á harðri fitu sem ylli heilsufarsvandamálum. Umsagnaraðilar og gestir nefndarinnar voru sumir hverjir þeirrar skoðunar að hér væri ekki um skatta með tilliti til manneldissjónarmiða að ræða heldur einfaldlega aukna skattheimtu sem væri ætlað það eina hlutverk að auka tekjur ríkissjóðs. Þá væri þetta flókin leið til þess og jafnvel færi betur á því að hækka virðisaukaskattshlutfall vara sem taldar eru óæskilegar til neyslu út frá manneldissjónarmiðum. Þannig væri jafnræðis gætt milli vörutegunda og skattheimtan í heild gerð einfaldari og gegnsærri.

Vörugjöld á ýmsar aðrar vörur.
    Starfshópur II skoðaði m.a. álagningu vörugjalda á ýmsar aðrar vörur en matvæli með það fyrir augum að skapa samræmi í álagningu þeirra. Þannig er t.d. lagt til að fella niður vörugjöld á samlokugrill og hraðsuðukatla, smærri varmadælur sem notaðar eru til húshitunar, og leggja vörugjöld á nuddbaðkör og nuddpotta. Í heild er um samræmingu að ræða sem meiri hlutinn telur góða en hún mun hins vegar ekki hafa teljandi áhrif á ríkissjóð þar sem áætlað er að tekjur muni aukast um 10 millj. kr. árlega vegna breytinganna.
    Með hliðsjón af þeirri stefnu að skapa aukið samræmi í álagningu leggur meiri hlutinn til að tollar á reiðhjól falli niður en samkvæmt upplýsingum frá fjármála- og efnahagsráðuneyti ætti sú aðgerð að kosta ríkið um 30 millj. kr. Er þetta gert með það að markmiði að efla vistvænar samgöngur og til samræmis við tillögur í skýrslu nefndar Alþingis um eflingu græna hagkerfisins frá september 2011, sem og nýlegar niðurfellingar, endurgreiðslur og lækkanir á opinberum gjöldum á vistvænar bifreiðar.
    Fyrir nefndinni kom fram það sjónarmið að fella ætti niður öll vörugjöld af iðnaðarvörum þar sem sú skattheimta skilaði ríkissjóði litlum tekjum en töluverður kostnaður væri hins vegar fólginn í umsýslu vegna skila á gjaldinu. Fram kom að velta með iðnaðarvörur þyrfti aðeins að hækka um 1,1% til þess að vinna upp það tekjutap sem afnám vörugjalda á iðnaðarvörur hefði í för með sér fyrir ríkissjóð. Niðurfelling vörugjaldanna mundi leiða til aukins hagræðis og verða fyrirtækjum og neytendum til góða.

Áhrif vörugjalda á hag heimilanna.
    Samkvæmt greinargerð með frumvarpinu er áætlað að aukin vörugjöld muni skila um 800 millj. kr. í auknar tekjur fyrir ríkissjóð á næsta ári. Er þá haft til hliðsjónar að í frumvarpinu er gildistaka laganna áætluð 1. mars 2013. Á ársgrundvelli er því um að ræða 960 millj. kr. í auknar tekjur fyrir ríkissjóð. Þá kemur einnig fram í greinargerðinni að hækkanirnar muni leiða til 0,1% hækkunar á vísitölu neysluverðs. Fyrir nefndinni kom fram að hækkun vörugjalda á matvæli þýddi auknar álögur á heimilin sem legðist með tvöföldum þunga á þau. Fyrst með hækkun vöruverðs og þar með hækkun á verði matarkörfu heimilanna sem leiði til hækkunar verðtryggðra lána. Kom fram að 0,1% hækkun á vísitölu neysluverðs leiði til hækkunar á verðtryggðum lánum heimilanna um 1,3 milljarða kr.
    Meiri hlutinn áréttar að frumvarpinu er ætlað að afla ríkissjóði tekna til að standa straum af ríkisfjármálaáætlun stjórnvalda og þjóna markmiði um jöfnun fjárlaga. Nefndin tók til skoðunar mismunandi leiðir til að þjóna þessu markmiði og komu þar einkum fjórar leiðir til álita. Í fyrsta lagi að hækka neðra þrep virðisaukaskatts en sú leið hefði leitt til almennrar hækkunar matvælaverðs í landinu með tilheyrandi verulegum áhrifum á vísitölu neysluverðs. Sú leið var ekki talin fær. Í öðru lagi að hækka umtalsvert vörugjöld. Í þriðja lagi að halda núverandi vörugjaldakerfi óbreyttu en flytja einstaka vörutegundir matvæla milli virðisaukaskattsþrepa. Í fjórða lagi að fara þá leið sem lögð er til í frumvarpinu. Það er niðurstaða meiri hlutans að síðastnefnda leiðin sé heppilegust þar sem hún sé til þess fallin að viðhalda mestu innra samræmi og jafnræði í kerfinu án þess að auka flækjustig frá núverandi framkvæmd.
    Meiri hlutinn hvetur jafnframt til heildarendurskoðunar á fyrirkomulagi vörugjalda og virðisaukaskatts með það fyrir augum að einfalda og samræma álagningu, draga úr undanþágum og lækka almennar álögur. Meiri hlutinn áréttar enn fremur að í ljósi þess að skv. 9. gr. frumvarpsins taka lögin gildi 1. mars 2013 sé ráðrúm fyrir stjórnvöld að bregðast við þeim sjónarmiðum um manneldismarkmið sem fram koma í umsögnum einstakra aðila, svo sem landlæknisembættisins.

Breytingartillögur.
     1.      Við umfjöllun málsins lagði fjármála- og efnahagsráðuneytið til við nefndina að vörugjaldi sem lagt er á tiltekin tollskrárnúmer samkvæmt frumvarpinu yrði breytt lítillega. Um er að ræða smávægilegar breytingar á áætluðu sykurinnihaldi, t.d. sýróps og nokkurra tegunda af kexi. Tillagan er í samræmi við athugasemdir sem ráðuneytið hefur fengið frá ýmsum hagsmunaaðilum og komið á framfæri við nefndina.
     2.      Lagt er til að hámark á tollfrelsi varnings sem ferðamenn flytja til landsins hækki úr 65.000 kr. í 88.000 kr. og að hámark á verðmæti einstaks hlutar verði afnumið. Umræddum fjárhæðarviðmiðum hefur ekki verið breytt síðan þau voru lögfest í lok árs 2008, sbr. lög nr. 167/2008. Með hliðsjón af þróun gengis frá því ári telur meiri hlutinn að tímabært sé að hækka fjárhæðarmörkin auk þess sem meiri hlutinn telur ekki þörf á að hafa sérstök mörk fyrir verðmæti einstaks hlutar.
     3.      Lagt er til að tollur á reiðhjól verði felldur niður sbr. umfjöllun hér að framan.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Jón Bjarnason skrifar undir nefndarálit þetta með fyrirvara.

Alþingi, 19. desember 2012.



Helgi Hjörvar,


form., frsm.


Lilja Rafney Magnúsdóttir.


Magnús Orri Schram.



Jón Bjarnason,


með fyrirvara.


Skúli Helgason.