Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 468. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 818  —  468. mál.

2. umræða.


Nefndarálit



um ráðstafanir í ríkisfjármálum (tekjuöflunaraðgerðir, kjarasamningar,
verðlagsbreytingar o.fl.).

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Maríönnu Jónasdóttur, Ingibjörgu Helgu Helgadóttur, Sóleyju Ragnarsdóttur, Elínu Árnadóttur og Ögmund Hrafn Magnússon frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Ingvar Rögnvaldsson, Guðrúnu Jennýju Jónsdóttur og Elínu Ölmu Arthúrsdóttur frá ríkisskattstjóra, Heiðrúnu Guðmundsdóttur og Marinó Melsted frá Hagstofu Íslands, Ólaf Darra Andrason frá Alþýðusambandi Íslands og Sonju Ýri Þorbergsdóttur frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Almar Guðmundsson frá Félagi atvinnurekenda, Þóreyju S. Þórðardóttur og Þorbjörn Guðmundsson frá Landssamtökum lífeyrissjóða, Hannes G. Sigurðsson og Halldór Árnason frá Samtökum atvinnulífsins, Jónu Björk Guðnadóttur, Guðjón Rúnarsson og Yngva Örn Kristinsson frá Samtökum fjármálafyrirtækja, Orra Hauksson frá Samtökum iðnaðarins, Ernu Hauksdóttur, Bergþór Karlsson, Kristófer Oliversson og Sigurður Berndsen frá Samtökum ferðaþjónustunnar og Andrés Magnússon frá Samtökum verslunar og þjónustu, Alexander G. Eðvardsson frá KPMG, Magnús Ásgeirsson frá Kauphöll Íslands NasdaqOMX, Guðmund Skúla Hartvigsson frá Deloitte, Harald I. Birgisson frá Viðskiptaráði Íslands, Karl Björnsson og Guðjón Bragason frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Reyni Jónsson frá Strætó B/S, Runólf Ólafsson frá Félagi íslenskra bifreiðaeigenda og Özur Lárusson frá Bílgreinasambandi Íslands, Guðmund Magnússon og Lilju Þorgeirsdóttur frá Öryrkjabandalagi Íslands, Jóhannes Gunnarsson og Hildigunni Hafsteinsdóttur frá Neytendasamtökunum, Ívar J. Arndal frá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, Agnesi M. Sigurðardóttur, biskup Íslands, Sigríði Dögg Geirsdóttur og Svönu Helen Björnsdóttur frá Biskupsstofu.
    Þá hafa nefndinni borist umsagnir frá Alþýðusambandi Íslands, Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Bílaleigunni FairCar, Bílgreinasambandinu, Deloitte, Félagi atvinnurekenda, Félagi íslenskra bifreiðaeigenda, Ísam, Kauphöll Íslands NasdaqOMX, Kirkjuráði, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Landssamtökum lífeyrissjóða, Neytendasamtökunum, PWC, ríkisskattstjóra, Samtökum álframleiðenda, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum ferðaþjónustunnar, Samtökum fjármálafyrirtækja, Samtökum iðnaðarins, Samtökum starfsmanna fjármálafyrirtækja, Samtökum verslunar og þjónustu, Seðlabanka Íslands, skattrannsóknarstjóra ríkisins, Tómasi Hannessyni Árdal, Viðskiptaráði Íslands og Öryrkjabandalagi Íslands.

1.     Almennt.
    Fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2013 gerir ráð fyrir að heildarjöfnuður ríkissjóðs á næsta ári verði neikvæður um 2,8 milljarða kr., heildartekjur verði 570,3 milljarðar kr. og skatttekjur þar af nemi 508,8 milljörðum kr. Tekjuáætlunin er byggð á þremur meginþáttum, endurskoðaðri tekjuáætlun ársins 2012, þjóðhagsspá næsta árs og áformum um nýja tekjuöflun sem tekur mið af markmiði um jöfnuð í ríkisfjármálum. Samkvæmt framhaldsnefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar sem lá frammi fyrir 3. umræðu um fjárlagafrumvarpið er gert ráð fyrir að heildartekjur verði um 579,9 milljarðar kr. og byggist það á endurmati fjármálaráðuneytisins á tekjum næsta árs.
    Í þjóðhagsspá Hagstofu Íslands sem birtist 5. júlí sl. er reiknað með að hagvöxtur næsta árs verði 2,7%. Í endurskoðaðri þjóðhagsspá frá 2. nóvember sl. er gert ráð fyrir að hagvöxturinn verði 2,4%. Seðlabanki Íslands gerir ráð fyrir 2,9% hagvexti og ASÍ spáir 2,5% hagvexti. Fjármála- og efnahagsráðuneytið telur að endurskoðuð þjóðhagsspá Hagstofunnar hafi óveruleg áhrif á tekjuforsendur fjárlagafrumvarpsins.
    Sjötta og síðasta endurskoðun samstarfsáætlunar stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fór fram sumarið 2011 og gerði ráð fyrir mildara aðlögunarferli ríkisfjármálanna en áður hafði verið reiknað með, þ.e. að heildarjöfnuði í afkomu hins opinbera yrði náð 2014 í stað 2013. Ríkisfjármálaáætlun stjórnvalda er reist á sama markmiði, þótt samstarfinu sé formlega lokið, og gerir hún ráð fyrir að heildarjöfnuður á næsta ári verði neikvæður um 2,8 milljarða kr. og jákvæður um 17,8 milljarða kr. árið þar á eftir.
    Að lokinni 3. umræðu um fjárlagafrumvarpið er gert ráð fyrir að heildarjöfnuðurinn á næsta ári verði neikvæður um 3,7 milljarða kr. en áfram er gert ráð fyrir jákvæðum jöfnuði frá og með árinu 2014 sem er meginforsenda þess að það takist að stöðva skuldasöfnun og ná niður vaxtakostnaði. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu er vaxtakostnaður þriðji stærsti útgjaldamálaflokkur ríkissjóðs á eftir almannatrygginga- og velferðarmálum og heilbrigðismálum.
    Til marks um framgang ríkisfjármálaáætlunar hefur verið á það bent að hallinn á árinu 2009 hafi verið um 140 milljarðar kr. (eða 110 milljarðar kr. án óreglulegra gjalda og tekna). Jafnframt er athygli vakin á því að ýmsir óvissuþættir geti haft áhrif á afkomu ríkissjóðs á komandi árum eins og efnahagsþróun í helstu viðskiptalöndum og ófyrirséðar gjaldfærslur til komnar vegna bankahrunsins. Einnig er sérstök þörf talin vera á að útfæra leiðir til þess að mæta þeim vanda sem blasir við vegna lífeyrisskuldbindinga ríkissjóðs.
    Miklar skattkerfisbreytingar hafa átt sér stað á undanförnum árum í kjölfar efnahagshrunsins sem hafa haft að markmiði að styrkja tekjustofna ríkissjóðs. Hefur það verið gert með innleiðingu nýrra tekjustofna og breytingu á hefðbundnum sköttum í samræmi við áherslur stjórnvalda í skattamálum. Frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2012 fylgdi yfirlit og umfjöllun um tekjuöflunaraðgerðir tímabilsins 2009–2011 auk þess sem þar var lagt mat á uppsöfnuð áhrif skattkerfisbreytinga sem gerðar höfðu verið frá upphafi árs 2009 að meðtöldum þeim sem lagðar voru til í frumvarpinu.
    Fjármála- og efnahagsráðuneytið telur að tekjuáætlanir fjárlaga hafi í stórum dráttum gengið eftir á árunum 2009–2011. Endurskoðuð tekjuáætlun fyrir árið 2012 bendi einnig til þess að horfur fyrir þetta ár séu góðar þótt áform um viðbótartekjur sem lögð voru til í fjárlögum ársins hafi ekki alfarið gengið eftir. Þeirri viðbótartekjuöflun var ætlað að skila viðbótartekjum upp á 20,7 milljarða kr. og var reiknað með að 9,7 milljarða kr. yrði aflað í formi skatttekna, þar af 6 milljarða kr. í formi veiðigjalds, en 11 milljarða kr. með sölu ríkiseigna og arðs af eignum ríkissjóðs auk framlengingar á heimild til útgreiðslu séreignarsparnaðar.
    Það frumvarp sem hér liggur fyrir gerir ráð fyrir að sérstakar tekjuöflunaraðgerðir nemi 8,4 milljörðum kr. á næsta ári en um áhrif annarra breytinga og heildaráhrif frumvarpsins vísast einnig til sérstaks yfirlits á bls. 9 og 10 í frumvarpinu og í kostnaðarumsögn fjárlagaskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytisins sem frumvarpinu fylgir.

2.     Sérstakar tekjuöflunaraðgerðir.
    Sérstakar tekjuöflunaraðgerðir frumvarpsins eiga samanlagt að skila tekjum upp á 8,4 milljarða kr. Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að virðisaukaskatti á gistiþjónustu verði komið fyrir í nýju 14% virðisaukaskattsþrepi í stað 7% sem ætlað er að skila 1,1 milljarði kr. í nýjar tekjur á næsta ári. Í 3. gr. er lagt til að almennt tryggingagjald hækki um 0,3% sem ætlað er að skila 2,9 milljörðum kr. Í a- og c-lið 23. gr. og 24. gr. er lögð til 20% hækkun á tóbaksgjaldi og í b-lið 23. gr. er lögð til 100% hækkun á neftóbaki sem samanlagt er ætlað að skila tekjum upp á 1 milljarð kr. Í 15. gr. frumvarpsins er lagt til að skatthlutfall fjársýsluskatts á fjármálafyrirtæki og vátryggingafyrirtæki hækki úr 5,45% í 6,75% sem ætlað er að skila 800 millj. kr. Í 19. gr. er lagt til að dregið verði úr afslætti sem bílaleigur hafa notið af vörugjaldi á ökutækjum og er þeirri breytingu ætlað að skila 500 millj. kr. Í 25. og 26. gr. er lagt til að heimild til úttektar á séreignarsparnaði sem rann úr gildi 1. október sl. gildi allt næsta ár og er ætlað að skila 1,5 milljörðum kr. Loks gerir frumvarpið ráð fyrir að með bættum skattskilum verði unnt að auka tekjur ríkissjóðs um 600 millj. kr.

2.1.     Hækkun almenns tryggingagjalds um 0,3% (3. gr. frumvarpsins).
    Í athugasemdum við frumvarpið er hækkun almenns tryggingagjalds rakin til vaxandi útgjalda ríkissjóðs til almannatryggingakerfisins. Í fjárlagafrumvarpinu er útgjaldaaukinn áætlaður 2,5 milljarðar kr. á næsta ári að undanskildum verðlagshækkunum, þar af 1,5 milljarðar kr. vegna fjölgunar bótaþega og endurmats á fjárþörf lífeyristrygginga.
    Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands mótmæltu harðlega áformum frumvarpsins um hækkun almenns tryggingagjalds og töldu þau ganga gegn fyrirheitum sem ríkisstjórnin gaf við gerð kjarasamninga 5. maí 2011. Forsendur samninganna verða endurmetnar í byrjun næsta árs og telja aðilarnir að hækkunin torveldi gerð samkomulags þar sem hún skerði svigrúm fyrirtækja til launahækkana.
    Fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga báru fram á fundi nefndarinnar ítrekaðar óskir um hlutdeild sveitarfélaga í almennu tryggingagjaldi til þess að mæta útgjöldum vegna fjárhagsaðstoðar og húsaleigubóta og jafnframt til að standa straum af kostnaði við vinnumarkaðsúrræði.

2.2.     Nýtt 14% þrep í virðisaukaskatti – hótel- og gistiþjónusta færð úr 7% í 14% (1. gr. frumvarpsins).
    Í athugasemdum við frumvarpið er tillagan rökstudd með vísan til mikillar fjölgunar erlendra ferðamanna hér á landi og þess að rekstraraðilar hótel- og gistiþjónustu hafi á undanförnum árum almennt notið meiri endurgreiðslna á virðisaukaskatti en hitt þar sem innskattur hefur oftast verið hærri en útskattur. Þá er vísað til þess að í greinargerð Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands hafi verið metin neikvæð áhrif þess á komu ferðamanna að færa gistiþjónustu í efsta þrep virðisaukaskattsins eins og gert sé ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu. Að gefnum forsendum mat stofnunin þau áhrif óveruleg og taldi að ferðamönnum, sem fjölgað hefur að meðaltali um 7,7% á ári, mundi áfram fjölga.
    Umrædd tillaga frumvarpsins mætti mikilli andstöðu aðila í ferðaþjónustu sem telja hana vera of seint fram komna. Samkvæmt frumvarpinu er henni ætlað að taka gildi 1. maí á næsta ári og töldu þeir að sá fyrirvari væri of skammur þar sem flestir ferðaþjónustuaðilar hefðu þegar gefið út verðskrá fyrir árið 2013. Fulltrúar í atvinnulífinu höfðu uppi sérstök varnaðarorð við upptöku nýs 14% skattsþreps sem þeir telja að muni flækja skattkerfið með tilheyrandi hættu á skattundanskotum og af hálfu ríkisskattstjóra var tekið undir þær áhyggjur. Samtök atvinnulífsins og Samtök ferðaþjónustunnar töldu að skárra hefði verið að leggja til hóflega hækkun á neðra þrepi virðisaukaskattsins.
    Nefnt var til marks um óæskileg áhrif frumvarpsins að rekstraraðilar hótela kynnu að þurfa að tilgreina á sama reikningi fjóra þjónustuliði sem féllu undir mismunandi skattþrep (gisting (14%), morgunverð (7%), áfengi (25,5%) og afþreyingu (0%)) og gæti það haft afbrigðileg áhrif á verðlagningu hverrar þjónustu fyrir sig og um leið hegðun viðskiptavinarins.
    Fulltrúar ríkisskattstjóra sem komu á fund nefndarinnar telja óæskilegt að skattbreytingar taki gildi á miðju ári. Endurskoðandi dró einnig í efa að áætlaður tekjuauki á næsta ári upp á 1,1 milljarð kr. yrði sá sem stefnt væri að í ljósi ákvarðandi bréfs ríkisskattstjóra nr. 1068/ 2007 þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að seljanda bæri að innheimta og tiltaka á reikningnum virðisaukaskatt samkvæmt því skatthlutfalli sem í gildi er á útgáfudegi reiknings. Yrði sömu reglu beitt ættu reikningar útgefnir fyrir gildistökuna 1. maí nk. að bera 7% virðisaukaskatt enda þótt gistiþjónusta verði ekki veitt fyrr en eftir það tímamark.
    Fram komu sjónarmið um að tímabært væri að taka virðisaukaskattslögin til heildarendurskoðunar með það fyrir augum að leiðrétta misræmi sem þar væri að finna og breikka skattstofna. Samtök ferðaþjónustunnar lögðu auk þess ríka áherslu á að jafnræði aðila innan ferðaþjónustunnar yrði aukið með hertu skatteftirliti gagnvart þeim sem stunda starfsemi án leyfis. Ræddi nefndin í því sambandi hvernig til hefði tekist með framkvæmd gistináttaskatts frá því að hann tók gildi í upphafi þessa árs.
    Nefndin ræddi loks hvort aðilar í ferðaþjónustu hefðu þörf umfram aðrar atvinnugreinar á að bjóða þjónustu sína í lægsta þrepi virðisaukaskatts í ljósi aukins vaxtar undanfarin ár.
    Samkvæmt 40. gr. á umrædd tillaga 1. gr. frumvarpsins að taka gildi 1. maí 2013 og á hún að taka til afhendingar og útleigu hótel- og gistiherbergja og annarrar gistiþjónustu frá og með þeim degi. Meiri hlutinn leggur til með hliðsjón af framangreindum athugasemdum ferðaþjónustunnar um að breytingin sé of seint fram komin að gildistökunni verði frestað til 1. september á næsta ári.

2.3.     Skerðing afsláttar sem bílaleigur hafa notið af vörugjaldi á ökutækjum (19. gr. frumvarpsins).
    Tillagan varðar lög um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. og er ætlað að skila 500 millj. kr. tekjuauka í ríkissjóð. Af hálfu aðila í ferðaþjónustu og annarra voru þessi tekjuáhrif sterklega dregin í efa með vísan til þess að tillagan mundi draga úr kaupgetu bílaleiga og leiða til hækkunar á verði þjónustu bílaleiganna til viðskiptavina sinna. Hækkun á verði þjónustunnar bitnaði á eftirspurn og gæti haft í för með sér skert gjaldeyrisinnflæði og minni ávinning fyrir samfélagið, ekki síst á landsbyggðinni þar sem þjónustan auðveldar aðgengi og dreifingu ferðamanna yfir landið og allt árið um kring.
    Fram kom að bílaleigurnar væru stór aðili í innflutningi nýrra bifreiða sem smátt og smátt hefði tekið við sér eftir að hafa næstum stoppað í kjölfar hrunsins. Bent var á að þróunin hefði verið á þann veg að bílaleigubifreiðar væru að liðnum vissum notkunartíma seldar á almennum markaði með verulegum afföllum og að það hjálpaði til við endurnýjun bílaflotans sem ekki væri vanþörf á með tilliti til umhverfisins, aldurs bílaflotans og öryggis bifreiða. Bílgreinasambandið telur að umrædd tillaga frumvarpsins geti haft slæm áhrif á rekstrargrundvöll bílaumboða sem mörg hver séu að taka við sér eftir endurskipulagningu á rekstri í kjöfar hrunsins.
    Eins og fram kemur í umsögn Samtaka ferðaþjónustunnar um málið lögðu samtökin fyrir hönd rekstraraðila bílaleiga fram minnisblað þar sem reifaðar voru hugmyndir að ýmiss konar gjaldheimtu fyrir ríkið sem gæti skilað um 349 millj. kr. og kæmi í stað þeirrar tillögu sem lögð er til í frumvarpinu. Má þar nefna uppástungur um að herða eftirlit með skattskilum bílaleiga og enn fremur heimild yfirvalda til töku leyfisgjalds af bílaleigum sem nýta afsláttinn. Í minnisblaði fjármála- og efnahagsráðuneytisins til nefndarinnar frá 13. desember sl. var ekki fallist á tillögur samtakanna, einkum á þeirri forsendu að ráðuneytið taldi það ekki svara kostnaði að koma upp flóknu kerfi gjaldheimtu til að innheimta umræddar tekjur.
    Í samráði við ráðuneytið leitaði meiri hlutinn leiða til þess að koma til móts við sjónarmið ferðaþjónustunnar og leggur nú til breytta útfærslu sem ætlað er að skila sama tekjuauka fyrir ríkið og tillaga frumvarpsins, þ.e. 500 millj. kr. Lagt er til að fallið verði frá því að draga úr umræddum skattafslætti á bílaleigur en að í staðinn verði þak á niðurfellingu vörugjalds sem þeim getur hlotnast lækkað úr 1.250.000 kr. í 750.000 kr. Lækkun þaksins er ætlað að skila 100 millj. kr.
    Í annan stað er lagt til að tekið verði upp sérstak leyfisgjald sem þeir rekstraraðilar bílaleiga sem nýta sér lækkun vörugjalda vegna innflutnings bílaleigubíla greiði. Tillagan gerir ráð fyrir því að leyfisgjald bílaleiga sem njóta lækkaðra vörugjalda verði ákvarðað mishátt eftir því hversu mörg ökutæki hver og ein bílaleiga ætlar að flytja inn á hverju almanaksári. Leyfisgjaldinu er ætlað að skila 200 millj. kr. en auk þess að standa undir tekjuöflun ríkissjóðs er gert ráð fyrir að tillagan verði til þess að efla eftirlit með bílaleigum og draga úr misnotkun á afsláttarfyrirkomulaginu.
    Loks er lagt til að við álagningu opinberra gjalda skv. 95. gr. tekjuskattslaga verði sett sérstakt gjald, vegagjald, á starfsemi bílaleiga sem ætlað er að skila 200 millj. kr. Gjaldið skal reiknast út frá virðisaukaskattsskyldri veltu vegna starfsemi bílaleiga, sbr. lög um bílaleigur, og leggst á virðisaukaskattsskylda veltu eins og hún er skilgreind í 11. gr. laga um virðisaukaskatt. Ekki skal taka tillit til innskattsfrádráttar við álagningu gjaldsins.

2.4.     Hækkun fjársýsluskatts úr 5,45% í 6,75% (15. gr. frumvarpsins).
    Í athugasemdum við frumvarpið eru rakin tengsl almenns og sérstaks fjársýsluskatts sem lögfestir voru með lögum nr. 165/2011. Í athugasemdum er einnig vakin athygli á því að öndvert við áætlanir fjárlagafrumvarpsins muni sérstakur fjársýsluskattur haldast óbreyttur auk þess sem lagt er til að almenni fjársýsluskatturinn hækki úr 5,45% í 6,75. Fjárlagafrumvarpið gerði upphaflega ráð fyrir að sérstakur fjársýsluskattur yrði lagður niður og að almenni fjársýsluskatturinn yrði hækkaður til mótvægis auk þess sem til stóð að taka upp tvö þrep í almennum fjársýsluskatti.
    Upphaflegt frumvarp til laga nr. 165/2011 gerði einungis ráð fyrir upptöku almenns fjársýsluskatts sem ákvarðaður yrði 10,5% af launakostnaði fjármálafyrirtækja, vátryggingafélaga og lífeyrissjóða. Frumvarpið tók nokkrum breytingum við þinglega meðferð þar sem meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar lagði til að greiðsla skattsins teldist frádráttarbær rekstrarkostnaður og að skatturinn mundi ekki taka til lífeyrissjóða. Meiri hlutinn lagði auk þess til að skatthlutfallið yrði lækkað í 5,45% en að þess í stað yrði tekinn upp sérstakur 6% skattur á hagnað fjármálafyrirtækja og vátryggingafélaga umfram 1 milljarð kr. Átti sú breyting að skila ríkinu sama tekjuauka og lagt var upp með í upphaflegu frumvarpi, þ.e. 4,5 milljörðum kr. (2,25 milljörðum kr. vegna hvorrar skattheimtu).
    Lög nr. 165/2011 tóku gildi um síðustu áramót og gera þau ráð fyrir að álagning sérstaks fjársýsluskatts fari fram 2013 vegna hagnaðar næstliðins árs. Lögin gera einnig ráð fyrir að skattaðilar hafi greitt fyrir fram upp í skattinn frá og með 1. apríl sl. í samræmi við skattstofn af reglulegri starfsemi eins og hann var í árslok 2010, þ.e. tekjuskattsálagningu 2011 á rekstur ársins 2010. Samkvæmt tilkynningu ríkisskattstjóra um álagningu opinberra gjalda á lögaðila frá 31. október sl. námu fyrirframgreiðslur á árinu 2012 tæplega 2,5 milljörðum kr. vegna væntanlegrar álagningar 2013.
    Við umfjöllun í nefndinni kom fram að tekjustofn fjármálafyrirtækja hafi verið minni á síðasta ári en ráð hafði verið fyrir gert við umrædda lagasmíð og að það hafi einkum mátt rekja til dóms Hæstaréttar í máli nr. 600/2011 er varðar endurreikning gengistryggðra lána. Samtök fjármálafyrirtækja telja aftur á móti í umsögn sinni að horfur um hagnað á þessu ári séu góðar en á því mun álagning næsta árs byggjast.
    Samtök fjármálafyrirtækja áréttuðu upphaflega andstöðu sína við almenna fjársýsluskattinn og aðrar ótekjutengdar álögur sem þau telja hafa keyrt úr hófi fram miðað við eiginlegan rekstrarkostnað fyrirtækjanna, einkum þeirra sem minni eru. Benda þau á að neikvæð birtingarmynd þessa komi fram í hærri vaxtagjöldum heimila og fyrirtækja, lokun rekstrareininga/útibúa á landsbyggðinni og fækkun starfa. Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja benda einnig á að starfsmönnum í útibúum, þjónustuverum og bakvinnslu fjármálafyrirtækja hafi fækkað um 100 frá upphafi árs og þar af séu 90 konur.
    Samtök fjármálafyrirtækja lýstu áhyggjum sínum af því að íslenskt skattumhverfi væri úr takti við alþjóðlegt skattumhverfi fjármálafyrirtækja. Samtökin töldu einnig að hækkun almenns fjársýsluskatts nú félli illa að þeirri hugsun sem lá að baki þegar ákveðið var að taka upp sérstakan fjársýsluskatt sem lýst er hér að framan. Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur á móti bent á að sérstakur fjársýsluskattur sé óreglulegur tekjustofn sem valdi óvissu í áætlunum um fjármál ríkissjóðs þar sem lítið samband sé á milli hagnaðar fyrir skatta samkvæmt ársreikningi og endanlegs tekjuskattsstofns til álagningar, sbr. minnisblað ráðuneytisins til nefndarinnar frá 18. desember sl.

2.5.     Sérstök hækkun tóbaksgjalds (a- og c-liður 23. gr. og 24. gr. og b-liður 23. gr.).
    Í a- og c-lið 23. gr. og 24. gr. er lögð til 20% hækkun á tóbaksgjaldi og í b-lið 23. gr. er lögð til 100% hækkun á neftóbaki sem samanlagt er ætlað að skila tekjum upp á 1 milljarð kr. Í athugasemdum er vakin athygli á því að 20% hækkun sé 15% að raungildi miðað við verðlagsforsendur fjárlagafrumvarpsins. Tvöföldun á neftóbaksgjaldi er rökstudd með vísan til aukinnar neyslu og því að gjaldið þykir vera óvenjulágt miðað við gjald af öðru tóbaki.
    Fulltrúar landlæknisembættisins sem komið hafa á fund nefndarinnar í tengslum við mál nr. 473 (vörugjöld og tollar) hafa lagt áherslu á að áþreifanleg tengsl séu á milli takmörkunar aðgengis og neyslu. Aðrir viðmælendur óttast aftur á móti að þær takmarkanir sem felast í aukinni gjaldtöku styðji við ólögmæta atvinnustarfsemi. Þá voru verðlagsáhrif breytingarinnar gagnrýnd.

2.6.     Áframhaldandi úttekt á séreignarsparnaði (25. og 26. gr.).
    Í 25. og 26. gr. er lagt til að heimild til úttektar á séreignarsparnaði sem rann úr gildi 1. október sl. gildi allt næsta ár og er henni ætlað að skila 1,5 milljörðum kr. Breytingin er lögð til við ákvæði til bráðabirgða VIII og IX í lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða og gerir hún ráð fyrir að skilyrði heimildarinnar verði að öðru leyti óbreytt.
    Fyrir nefndinni hafa áður verið reifuð sjónarmið um að framlenging heimildarinnar hafi hjálpað fólki í greiðsluerfiðleikum og um leið aukið tekjur ríkissjóðs og sveitarfélaga á erfiðum tímum án þess að grafa undan eignastöðu sjóðanna. Landssamtök lífeyrissjóða tóku fram að framkvæmdin hefði gengið vel en þar sem heimildin dregur úr gildi reglulegs sparnaðar hvetja þau til varfærni.

2.7.     Bætt skattskil (11. gr. frumvarpsins).
    Frumvarpið gerir ráð fyrir tekjuauka upp á 600 millj. kr. í ríkissjóð í framhaldi af aðgerðum stjórnvalda um bætt skattskil. Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur búið sig undir að leggja fram aðgerðaáætlun til samræmis við þingsályktunartillögu um bætt skattskil (51. mál). Áformin gera m.a. ráð fyrir að styrkja lagaheimildir tollstjóra sem samræmingar- og eftirlitsaðila gagnvart öðrum innheimtumönnum ríkissjóðs.
    Við umfjöllun í nefndinni hafa ábendingar komið fram um að þörf sé á að styrkja lagaheimildir skattyfirvalda til að stemma stigu við svartri atvinnustarfsemi. Niðurstöður athugunar Alþýðusambands Íslands, Samtaka atvinnulífsins og ríkisskattstjóra frá sumrinu 2012 sem vísað er til í umræddri þingsályktunartillögu gefa vísbendingar um öran vöxt svartrar atvinnustarfsemi. Virðist slík starfsemi vera verulegt vandamál í ferðaþjónustu, mannvirkjagerð og byggingarstarfsemi. Verg landsframleiðsla ársins 2011 nam 1.630 milljörðum kr. samkvæmt útreikningum Hagstofu Íslands. Af samanburði niðurstaðna athugana stjórnvalda allt frá miðjum níunda áratug síðustu aldar má draga þá ályktun að undanskot nemi nú um 6% af landsframleiðslu. Tekjutap ríkissjóðs af þeim sökum er um 98 milljarðar kr. árlega. Þessu til viðbótar hafa líkur verið leiddar að því að undanskot frá virðisaukaskatti nemi um 3–4% eða 9–12 milljörðum kr. Skattundanskot auka misræmi í samfélaginu, skekkja samkeppnisstöðu og raska þar með jafnvægi í þjóðfélaginu.
    Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um eftirfylgni: Eftirlit með innheimtu sekta og sakarkostnaðar (2009), frá október 2012, kemur fram að hæstu dómsektir séu vegna brota á ákvæðum skattalaga. Kemst stofnunin að því að mjög lítill hluti dómsekta umfram tiltekna upphæð fáist greiddur, heldur virðist sem stærstur hluti þeirra sé greiddur með afplánun vararefsingar í fangelsi eða með samfélagsþjónustu.
    Meiri hlutinn vekur athygli á því að í umsögn Samtaka ferðaþjónustunnar er lagt til að áhersla verði lögð á að uppræta svarta starfsemi þeirra sem stunda leigu gistirýma án tilskilinna leyfa. Í frétt Viðskiptablaðsins frá 5. júlí 2012 kemur fram að svört atvinnustarfsemi sé algeng meðal þeirra aðila sem leigja gistirými. Úttektir Samtaka ferðaþjónustunnar benda til þess að verulegur hluti gistiheimila sé rekinn án starfsleyfa (15,3% rúma í Reykjavík og 29,8% á Akureyri).

3.     Aðrar mikilvægar breytingar sem hafa áhrif á tekjur og útgjöld ríkissjóðs.
3.1.     Umhverfis- og auðlindaskattar (16.–18. gr. frumvarpsins).
    Í frumvarpinu eru lagðar til fjórar meginbreytingar á lögum nr. 129/2009, um umhverfis- og auðlindaskatta:
     1.      að lögin verði gerð varanleg hvað kolefnisgjald og gjald á heitu vatni varðar en að raforkuskatturinn falli úr gildi 31. desember 2015;
     2.      að gjaldið verði lagt á gas af jarðefnauppruna sem skili tekjum upp á 13 millj. kr.;
     3.      í ljósi þess að innanlandsflug féll undir viðskiptakerfi með losunarkerfi 1. janúar sl. verði gjaldið fellt niður af þotu- og flugvélaeldsneyti, sem kosti ríkið um 35 millj. kr.;
     4.      að raforkuskattur hækki í takt við verðlag.
    Fram kemur í athugasemdum við frumvarpið að að óbreyttu muni lög um umhverfis- og auðlindaskatta falla niður í lok ársins en í ljósi fyrstu tillögunnar er gert ráð fyrir að gjaldtakan skili ríkinu um 5,9 milljörðum kr. á næsta ári. Er sú breyting jafnframt talin forsenda þess að stjórnvöldum takist að ná markmiðum sínum um jöfnuð í ríkisfjármálum.
    Samtök iðnaðarins og Samál telja að áform um að framlengja raforkuskattinn um þrjú ár feli í sér brot á samkomulagi stjórnvalda og álfyrirtækjanna þar sem hin síðarnefndu skuldbundu sig til þess að fyrirframgreiða tekjuskatt á árunum 2010–2012 gegn því að skatturinn yrði afnuminn í lok þessa árs. Samtökin telja einnig að áformin brjóti í bága við fjárfestingarsamninga félaganna við íslensk stjórnvöld og geti haft skaðleg áhrif á erlenda fjárfestingu. Sjónarmið komu fram um að íslensk stjórnvöld ættu eftir fremsta megni að bera sig eftir samkomulagi við umrædd fyrirtæki um áformin en meiri hlutinn minnir á í því sambandi að skattlagningarvaldið er í höndum þingsins og framsal skattlagningarvalds til stjórnvalda er almennt ekki heimilt. Á það verði ekki fallist að tímabundið samkomulag standi í vegi fyrir því að íslenska ríkið grípi til skattalegra ráðstafana um ókomna tíð.
    Sumir umsagnaraðilar telja að það orki tvímælis að ríkið leggi skatt á nauðsynjar eins og heitt vatn og rafmagn. Þá var þeim áformum að einungis raforkuskatturinn yrði tímabundinn mótmælt sérstaklega af hálfu Sambands íslenskra sveitarfélaga. Landssamband íslenskra útvegsmanna og Samtök ferðaþjónustunnar leggjast gegn hækkun kolefnisgjalds og olíugjalds.

3.2.     Allir vinna (2. gr. frumvarpsins).
    Samtök atvinnulífsins og einstök aðildarsamtök fögnuðu framlengingu ákvæðis til bráðabirgða XV í lögum um virðisaukaskatt sem að greindum skilyrðum heimilar 100% endurgreiðslu vegna vinnu manna á byggingarstað. Samtök iðnaðarins lögðu til að heimildin yrði hækkuð í 110% til þess að framkalla aukin umsvif í hagkerfinu.

3.3.     Barnabætur (9. og 12. gr. frumvarpsins).
    Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að fjárhæðir til úthlutunar barnabóta á næsta ári nemi 10,8 milljörðum kr. og hækki um 2,5 milljarða kr. frá fyrra ári. Tillögur frumvarpsins (mál nr. 468) gera ráð fyrir hækkun á viðmiðunarfjárhæðum barnabóta til samræmis við umrædda hækkun og áherslur stjórnvalda í þessum málaflokki. Stjórnvöld vinna nú að því að taka upp nýtt stuðningskerfi fyrir barnafjölskyldur.
    Samband íslenskra sveitarfélaga mótmælir framlengingu á ákvæði til bráðabirgða XXXVIII sem kveður m.a. á um bann við skuldajöfnun barnabóta á móti opinberum gjöldum til sveitarfélaga og vangreiddum meðlögum til Innheimtustofnunar sveitarfélaga. Telur sambandið að þar sem Jöfnunarsjóður sveitarfélaga beri árlegan halla stofnunarinnar geti áframhaldandi frestun leitt til lakari innheimtu og raskað útgjaldajöfnun sjóðsins.

3.4.     Vaxtabætur (13. gr. frumvarpsins).
    Í frumvarpinu er lagt til að viðmiðunarfjárhæðir almennra vaxtabóta haldist óbreyttar milli ára til samræmis við ákvæði til bráðabirgða XLI í lögum um tekjuskatt, sbr. lög nr. 164/2010. Að óbreyttu hefðu greiðslur vaxtabóta sem gilda fyrir árið í ár átt að lækka um allt að 30%. Á bls. 393–394 í síðara hefti fjárlagafrumvarpsins er gerð grein fyrir því hvernig bæturnar eru reiknaðar út.
    Í greinargerð fjármálaráðuneytisins frá júlí 2012 um úthlutun vaxtabóta 2012 kemur fram að íbúðareigendur hafi á grundvelli umrædds bráðabirgðaákvæðis (hækkun viðmiðunarfjárhæða almennra vaxtabóta) og ákvæðis til bráðabirgða XLII (sérstök vaxtaniðurgreiðsla) fengið í ár endurgreidd 26,6% af 54,7 milljarða kr. vaxtakostnaði sem er ígildi 4,4% lækkunar frá fyrra ári. Úthlutun almennu vaxtabótanna við síðustu álagningu nam 8,8 milljörðum kr. sem er 26,4% lækkun frá fyrra ári og er sú þróun talin eiga sér tvær meginskýringar, þ.e. að vaxtagjöld hafi minnkað og að tekjur hafi aukist. Þá hafi sú breyting komið til framkvæmda á árinu að í stað þess að miða við gjaldfallna vexti var miðað við greidda.
    Í athugasemdum við frumvarpið er vakin athygli á að að undanförnu hafi verið unnið að stefnumótun varðandi stuðning hins opinbera í húsnæðismálum sem miðist við fjölskyldustærð en verði ekki mismunandi eftir því hvort um er að ræða leigu- eða eignarhúsnæði.

3.5.     Fjármögnun lífeyrissjóða á sérstakri vaxtaniðurgreiðslu 2011 og 2012 (27. gr. frumvarpsins).
    Með ákvæði til bráðabirgða XIV í lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, var sérstakt gjald lagt á lífeyrissjóði sem falla undir 6. tölul. 4. gr. laga um tekjuskatt og lífeyrissjóði sem starfa samkvæmt sérlögum. Gjaldið bar að leggja á við álagningu opinberra gjalda 2012 og 2013 og skyldi nema 0,0814% af hreinni eign til greiðslu lífeyris í lok næstliðins árs. Þá átti að greiða fyrir fram upp í álagt gjald, annars vegar 31. desember 2011 vegna álagningar ársins 2012 og hins vegar 1. nóvember 2012 vegna álagningar ársins 2013.
    Í áliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar sem gefið var út í tengslum við afgreiðslu laga nr. 164/2011, um ráðstafanir í ríkisfjármálum, er gerð grein fyrir tilurð þessarar gjaldtöku sem ætlað var að standa undir fjármögnun sérstakra vaxtaniðurgreiðslu samkvæmt ákvæði til bráðabirgða XLII í lögum um tekjuskatt. Taldi meiri hluti nefndarinnar að skattlagningin væri reist á málefnalegum forsendum þar sem henni er ætlað að standa undir almennri aðgerð til lausnar skuldavanda heimila. Var fjárhæð gjaldsins við það miðuð að hlutur lífeyrissjóðanna í fjármögnuninni hafi á hvoru ári átt að nema 1,4 milljörðum kr. Samhliða afgreiðslu umræddra laga og laga nr. 156/2011 sem vörðuðu breytingar á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða sendu forsætisráðherra og þáverandi fjármálaráðherra forseta ASÍ og framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins bréf þar sem lýst var fyrirætlunum stjórnvalda er lytu að því að þátttaka lífeyrissjóðanna í umræddri fjármögnun yrði metin sem hluti af þeirri jöfnun áunninna lífeyrisréttinda almenna og opinbera vinnumarkaðarins sem fjallað væri um í ákvæði VI í yfirlýsingu ríkisstjórnar tengdri kjarasamningunum frá 5. maí 2011.
    Í frumvarpinu (mál nr. 468) er lagt til að álagning ársins 2013 og fyrirframgreiðslan 1. nóvember 2012 verði felld brott. Á fundum nefndarinnar áréttuðu fulltrúar Landssamtaka lífeyrissjóða fyrri sjónarmið um að þátttaka sjóðanna í þessu verkefni hafi frá upphafi átt að byggjast á gagnkvæmu samkomulagi við ríkið. Telja þeir að umrædd skattheimta komi misjafnt niður á sjóðunum fyrir ýmsar sakir, m.a. þær að gjaldið er lagt á samtryggingarhluta sjóðanna og að sumir sjóðir noti ekki allt lágmarksiðgjaldið til þess að standa undir lágmarkstryggingavernd. Í þessu felist með öðrum orðum hvati til að ráðstafa lágmarksiðgjaldi til séreignar að gættum skilyrðum 3. mgr. 4. gr. laga nr. 129/1997.
    Landssamtökin benda á að gjaldtakan mismuni sjóðfélögum í almennu sjóðunum samanborið við sjóðfélaga í opinberu sjóðunum þar sem síðarnefndir sjóðir eru reknir með bakábyrgð launagreiðenda. Skuldbindingar ríkissjóðs vegna lífeyrissjóða ríkisstarfsmanna gefi ekki tilefni til að ætla að hrein eignastaða opinberu sjóðanna sé eins góð og vera ber sem gæti hafa orsakað að hlutdeild annarra sjóða í fjármögnuninni hafi orðið meiri en ella. Þá geti skattlagningin haft þau áhrif að sjóðirnir sjái hag sínum best borgið með því að halda eignastöðu sinni neikvæðri og við ystu vikmörk samkvæmt heimild 39. gr., sbr. og ákvæði til bráðabirgða VI í lögum nr. 129/1997.
    Fulltrúar Landssamtaka lífeyrissjóða tóku fram á fundi nefndarinnar að þegar lífeyrissjóðir leituðu leiða til að fjármagna sérstaka vaxtaniðurgreiðslu hafi hún þurft að rúmast innan ramma 2. mgr. 20. gr. laga nr. 129/1997. 8. febrúar 2012 hafi tekist samkomulag við fjármálaráðherra um að fella niður og endurgreiða skattinn gegn því að sjóðirnir skuldbyndu sig til að taka þátt í þremur til fjórum gjaldeyrisútboðum Seðlabanka Íslands á árinu með gildum tilboðum að fjárhæð allt að 200.000.000 evra. Að mati samtakanna er ekki á nokkurn hátt við sjóðina að sakast að tilboðum sjóðanna hafi ekki verið tekið og ávinningur ríkisins af útboðunum fyrir vikið reynst lakari en áætlað var og því ekki forsendubrestur í málinu.
    Af athugasemdum við frumvarpið verður ekki annað ráðið en að fjármála- og efnahagsráðuneytið telji að samstarf stjórnvalda og Landssamtaka lífeyrissjóða gefi ekki tilefni til að fella meira niður en sem nemur álagningu ársins 2013. Er sú afstaða ráðuneytisins reist á viljayfirlýsingu frá desember 2010 þar sem sjóðirnir skuldbundu sig til að taka þátt í fjármögnun vegna sérstöku vaxtaniðurgreiðslunnar og téðrar lagaskyldu. Í minnisblaði fjármála- og efnahagsráðuneytisins sem lagt var fyrir ríkisstjórn 15. nóvember sl. kemur fram að að teknu tilliti til niðurfellingarinnar nemi heildargreiðsla lífeyrissjóðanna tæpum tveimur milljörðum kr. og að hún samanstandi annars vegar af hagnaði ríkissjóðs vegna útboðanna að fjárhæð 431 millj. kr. og álagningu ársins 2012 að fjárhæð 1.550 millj. kr. Meiri hlutinn telur sem fyrr að skattlagningin sé reist á málefnalegum grunni.

4.     Tillaga um að falla frá einstökum verðlagshækkunum.
    Á fundum nefndarinnar komu fram sjónarmið um að verðlagsáhrif frumvarpsins væru vanmetin og óskaði nefndin í framhaldi eftir endurmati ráðuneytisins. Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að lauslegt mat bendi til þess að áhrifin séu 0,2% en við umfjöllun nefndarinnar kom fram að í því mati hefði ráðuneytið horft til þess að tæpur helmingur verðlagshækkana væri þegar innifalinn í almennum verðlagsforsendum þjóðhagsspár Hagstofunnar frá í nóvember sl. Í minnisblaði ráðuneytisins til nefndarinnar frá 14. desember sl. eru áhrifin metin lauslega um 0,36%.
    Í umræddu minnisblaði kemur fram að áhrif hækkana á krónutölugjöldum og gjaldskrám komi fyrst og fremst fram í hærra verðlagi. Í takti við verðlagsforsendur fjárlagafrumvarpsins er lagt til að bensíngjald og sérstakt vörugjald á bensín (20. og 21. gr. frumvarpsins), olíugjald, kílómetragjald og sérstakt kílómetragjald (29. og 31. gr. frumvarpsins), bifreiðagjald (33. gr. frumvarpsins), áfengisgjald (22. gr. frumvarpsins) og gjald fyrir vegabréf (28. gr. frumvarpsins) hækki um 4,6% með það að markmiði að þessar fjárhæðir haldi raungildi sínu frá fyrra ári.
    Að áhrifum umræddra gjaldahækkana auk sérstakrar hækkunar tóbaksgjalds (a- og c-liður 23. gr. og 24. gr. og b-liður 23. gr.) og skatts af raforku (17. gr. frumvarpsins) og vægi þessara liða í vísitölu er vikið í umræddu minnisblaði. Efasemdir komu fram um að hækkanirnar mundu skila þeim tekjum sem að væri stefnt vegna neikvæðra áhrifa þeirra á kaupmátt, eftirspurn og verðlag. Sérstakar áhyggjur komu fram af víxlverkun skattahækkana og verðlagshækkana og áhrifum þess á verðtryggðar skuldir heimilanna auk þess sem Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins vakti athygli á mismunandi áhrifum flatra hækkana áfengisgjaldsins á bjór, léttvín og sterkt áfengi.
    Um samband verðlags og verðteygni var nefndin upplýst um að verð er mælt í verslunum í hverjum mánuði og því koma verðbreytingar fram jafnóðum og nýjar mælingar liggja fyrir. Leiði verðbreyting til breytinga í neyslu koma þau áhrif oftast fram á lengra tímabili en skipt er um grunn vísitölunnar á hverju ári í mars. Lykilheimild fyrir skiptingu neyslu er Rannsókn á útgjöldum heimilanna sem er samfelld rannsókn sem unnin er á Hagstofunni. Niðurstöður rannsóknarinnar eru teknar saman fyrir þriggja ára tímabil í senn. Ef ítarlegar heimildir eru tiltækar er oft stuðst við síðasta árið og þannig háttar til dæmis til um áfengi, tóbak og ökutæki.
    Með hliðsjón af því sem greinir í næsta kafla leggur meiri hlutinn til að fallið verði frá verðlagshækkunum almenns og sérstaks vörugjalds á bensín, olíugjalds og kílómetragjalds og bifreiðagjalds sem og útvarpsgjalds og áfengisgjalds að því er varðar öl og léttvín en þó ekki sterkt vín. Miðað við forsendur frumvarpsins er tekjumissir ríkissjóðs vegna þessara breytinga áætlaður 850 millj. kr. í tilviki eldsneytisgjaldanna, 300 millj. kr. í tilviki bifreiðagjaldsins, 250 millj. kr. í tilviki áfengisgjaldsins og 190 millj. kr. í tilviki útvarpsgjalds. Tillaga meiri hlutans gerir einnig ráð fyrir að þessar breytingar hafi áhrif til lækkunar á vísitölu neysluverðs sem nemi 0,14%.

5.     Aðgerðir í tengslum við kjarasamninga.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar sem standa í tengslum við gefin fyrirheit ríkisstjórnarinnar við gerð kjarasamninga 5. maí 2011. Í 3. gr. frumvarpsins er lögð til 0,4 prósentustiga lækkun á atvinnutryggingagjaldi, úr 2,45% í 2,05%, til samræmis við forsendur fjárlaga um mælingar og spár um þróun atvinnuleysis. Samtök atvinnulífsins fagna þessari lækkun en telja með hliðsjón af stöðu Atvinnuleysistryggingasjóðs að hægt væri að ganga lengra í lækkun gjaldsins. Reiknað er með að tekjur ríkisins minnki vegna þessa um 3,9 milljarða kr. á ári en á móti kemur samsvarandi fjárhæð til lækkunar á útgjaldahlið vegna minni framlaga til sjóðsins.
    Önnur ákvæði frumvarpsins er tengjast kjarasamningunum eru ákvæði er varða afdráttarskatt á vaxtagreiðslur innlendra aðila til erlendra og skattaleg meðferð á hagnaði af afleiðusamningum. Þykir rétt að taka fram í upphafi að í ljósi umsagnar skattrannsóknarstjóra sem barst nefndinni við umfjöllun málsins leggur meiri hlutinn til að ákvæði 5.–8. gr. sem varða skattlagningu tekna af afleiðusamningum verði ekki lögfest að svo stöddu.
    Meiri hluti nefndarinnar hefur enn fremur haft til skoðunar möguleika á því að draga úr tekjutapi vegna breytinga á afdráttarsköttum í því skyni að lækka hluta skattahækkana í frumvarpi um ráðstafanir í ríkisfjármálum og draga með því úr verðlagsáhrifum frumvarpsins. Verðlagsáhrif frumvarpsins voru vanmetin við framlagningu um 0,15% sem leiða mun að óbreyttu til 2 milljarða kr. hækkunar á verðtryggðum skuldum heimilanna umfram þá 4 milljarða kr. hækkun sem frumvarpið sjálft boðaði, eða 6 milljarða kr. hækkun samtals. Eins og fram kemur í umfjöllun síðasta kafla leggur meiri hlutinn til breytingar sem áætlað er að muni skila sér í 0,14% lækkun á vísitölunni og virðist þá nær lagi að verðtryggðar skuldir heimilanna hækki um 4 milljarða kr.

5.1.     Skattlagning vaxtatekna og tekna af afleiðusamningum úr landi (4. og 10. gr. frumvarpsins).
    Í 4. gr. frumvarpsins er lögð til breyting á 8. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga um tekjuskatt sem felur í sér að afnumin verði skattskylda aðila með heimilisfesti erlendis af vöxtum sem þeir fá greidda hér á landi. Umrætt lagaákvæði var sett með lögum nr. 70/2009 sem einnig kváðu á um að greiðendum bæri að halda eftir staðgreiðslu af vöxtunum og að réttilega ákvörðuð og innborguð staðgreiðsla væri fullnaðargreiðsla án þess að fara þyrfti fram sérstök ákvörðun eða álagning.
    Lagaákvæðið hefur frá upphafi mætt mikilli andstöðu fulltrúa í atvinnulífinu eins og ráða má af þeim umsögnum sem efnahags- og skattanefnd bárust við umrædda lagasetningu og einnig við afgreiðslu laga nr. 46/2009. Í framhaldsáliti um síðarnefndu lögin kemur fram að tilgangur ákvæðisins hafi lotið að því koma í veg fyrir skattasniðgöngu, í ljósi þeirrar tilhneigingar að færa hagnað úr fyrirtækjum á formi vaxtatekna í stað arðgreiðslna sem almennt sæta skattlagningu, og tryggja um leið ríkinu eðlilega hlutdeild í verðmætasköpun og vaxtagreiðslum úr landi sem fyrirsjáanlega færu vaxandi eftir efnahagshrunið. Ríkisskattstjóri áleit skattlagningu vaxtatekna úr landi löngu tímabæra þar sem hún mundi draga úr hvata innlendra aðila til að beina vaxtatekjum sínum til lágskattasvæða auk þess sem skattbyrði þeirra er nytu verndar tvísköttunarsamninga ætti ekki að aukast.
    Fulltrúar atvinnulífsins hafa frá upphafi bent á að skattlagning vaxtatekna erlendra aðila hér á landi hefti möguleika innlendra aðila til að afla erlends lánsfjár og dragi úr áhuga erlendra fjárfesta á að stofna dótturfélög hér á landi. Hafa þeir fært rök fyrir því að kostnaður erlendra lánveitenda vegna slíkrar skattheimtu færist yfir á innlenda lántakendur í ljósi ákvæða í alþjóðlegum lánasamningum (goss-up). Einnig hafa þeir talið að áhættu hins erlenda lánveitanda vegna tvísköttunar vaxtatekna sé ekki útrýmt enda séu tvísköttunarsamningar fyrir hendi sem geri þá fráhverfa því að veita lán til innlendra aðila.
    Með lögum nr. 164/2011 var skatthlutfallið sem nú er mælt fyrir um í 8. tölul. 70. gr. laga um tekjuskatt lækkað í 10%, þ.e. úr 20% í tilviki einstaklinga og 18% í tilviki lögaðila. Í áliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarpið kom fram að um væri að ræða eins konar sáttatillögu stjórnvalda gagnvart atvinnulífinu á meðan endurskoðun stæði yfir á því hvernig unnt væri að ná markmiðum ákvæðisins eftir öðrum leiðum. Við þá vinnu yrði litið til reglna annars staðar á Norðurlöndum sem gilda í viðskiptum tengdra aðila annars vegar og reglna um lágmarks eigið fé fyrirtækja hins vegar. Endurskoðuninni átti að ljúka fyrir lok þessa árs og er tekið fram í athugasemdum við frumvarpið að það byggist öðrum þræði á vinnu starfshóps um reglur þunnrar eiginfjármögnunar.
    Reiknað er með að tekjutap ríkisins vegna brottfalls ákvæðis um skattlagningu vaxtatekna úr landi nemi 2,2 milljörðum kr. á næsta ári. Frumvarpið gerir þess í stað ráð fyrir að erlendir aðilar greiði tekjuskatt af tekjum af afleiðusamningum öðrum en vaxtaskiptasamningum án þess þó að sú breyting verði talin hafa teljandi áhrif á afkomu ríkissjóðs. Skv. 10. gr. frumvarpsins er skatthlutfallið 20% í tilviki einstaklinga og 18% í tilviki lögaðila.
    Meiri hlutinn telur með hliðsjón af markmiðum um tekjuöflun ríkissjóðs og því að koma skuli í veg fyrir skattasniðgöngu að þarfir íslensks atvinnulífs standi ekki til þess að afnema eigi með öllu ákvæði um skattlagningu vaxta úr landi. Leggur meiri hlutinn því til að sett verði ákveðin hlutlæg skilyrði fyrir vaxtafrelsinu sem nánar tiltekið felast í því að um sé að ræða vexti af lánasamningum, þ.m.t. sambankalánum, við erlend fjármálafyrirtæki sem skráðir eru á skipulegum verðbréfamarkaði enda séu ekki eignatengsl á milli greiðanda vaxtanna og móttakanda þeirra. Telur meiri hlutinn að þessi skilyrði samræmist fyrirheitum ríkisstjórnarinnar sem gefin voru við kjarasamningsgerðina 5. maí 2011.

5.2.     Skattlagning tekna af afleiðusamningum (5. og 6. gr. frumvarpsins) og skattlagning hagnaðar af afleiðuviðskiptum sem byggjast á hlutabréfum (7. og 8. gr. frumvarpsins).
    Í 5. og 6. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á 8. gr. og 1. mgr. 12. gr. laga um tekjuskatt sem fela í sér að litið verði á tekjur af afleiðusamningum sem söluhagnað í stað vaxta eins og verið hefur. Skattyfirvöld hafa fram til þessa talið með hliðsjón af skattalögum að þess háttar tekjur séu eitt form vaxtatekna og að við uppgjör slíkra samninga beri almennt að halda eftir staðgreiðslu hvort sem tekjurnar tengjast atvinnurekstri eða einstaklingi utan rekstrar. Sú regla mun þó áfram gilda um vaxtaskiptasamninga sem taka mið af breytingum á vöxtum sem undirliggjandi verðmæti.
    Að baki tillögunni býr vinna starfshóps sem skipaður var fulltrúum stjórnvalda og atvinnulífsins og skilaði ráðherra tillögum í júní 2012. Kemur þar fram að verði tillagan að lögum verði staðgreiðsla af afleiðuviðskiptum afnumin í þeim tilvikum þar sem tekjur af afleiðusamningum teljast til söluhagnaðar. Enn fremur mun tillagan þýða að einstaklingum utan rekstrar verður heimilt að draga frá þess háttar hagnaði það tap sem stafar af sams konar samningum á grundvelli 1. mgr. 24. gr. laga um tekjuskatt. Ríkisskattstjóri gengur þó út frá því að hagnaður af slíkum viðskiptum verði ætíð skattskyldur á söluári óháð þeim hvötum sem liggja að baki slíkum viðskiptum.
    Í 7. og 8. gr. frumvarpsins er lagt til að hagnaður vegna afleiðuviðskipta sem byggjast á hlutabréfum verði skattlagður með sambærilegum hætti og bein viðskipti með hin undirliggjandi hlutabréf. Er þá átt við að hagnaðurinn teljist að fullu til skattskyldra tekna á söluári óháð eignarhaldstíma og reiknist sem mismunur á söluverði og kaupverði, sbr. 1. og 2. mgr. 18. gr. laga um tekjuskatt. Í annan stað er lagt til að lögaðilum sem uppfylla skilyrði 9. tölul. a 31. gr. laganna verði heimilt að draga frá tekjum hagnað af umræddum afleiðuviðskiptum.
    Í umsögn Kauphallar Íslands OMX Nordic Exchange sem efnahags- og skattanefnd barst við afgreiðslu laga nr. 38/2008, þar sem lögfest var efnislega samhljóða ákvæði, sbr. a- og b-lið 1. gr., var á það bent að hagnaður rekstraraðila væri skattlagður eins og almennar rekstrartekjur á meðan hagnaður af sölu hlutabréfa væri ekki skattlagður. Þetta misræmi gerði viðskipti með afleiðusamninga þar sem undirliggjandi verðmæti er hlutafé mun óhagstæðari en bein viðskipti með hlutafé.
    Þessi lagabreyting var samt sem áður felld brott úr tekjuskattslögum með lögum nr. 128/ 2009 með hliðsjón af afstöðu ríkisskattstjóra sem taldi rök standa til þess að fjármálagerningar, hverju nafni sem þeir nefndust, væru skattlagðir samkvæmt þeim ávinningi sem skapast af mismun kaup- og innlausnarverðs óháð ótilgreindum undirliggjandi verðmætum. Eins og að framan er getið hefur embættið fram til þessa litið á tekjur af afleiðusamningum sem vexti.
    Í umsögn endurskoðunarfyrirtækisins PWC um frumvarp þetta er vakin athygli á því að verði 5.–8. gr. óbreyttar að lögum verði skattaleg meðferð tekna af afleiðusamningum með þrenns konar hætti, þ.e. sem vextir í tilviki vaxtaskiptasamninga, sem söluhagnaður af hlutabréfum í tilviki afleiðusamninga þar sem undirliggjandi verðmæti eru hlutafé og loks sem almennur söluhagnaður. Ríkisskattstjóraembættið leggur sérstaka áherslu á að heimildin til frádráttar sem að framan er lýst verði bundin við sölu á skipulegum verðbréfamarkaði til að koma í veg fyrir að afleiður af ýmsum toga verði færðar í búning hlutabréfaviðskipta til þess að koma tekjum undan skattlagningu.
    Í umsögn skattrannsóknarstjóra er aftur á móti vakin athygli á því að þær breytingar sem lagðar eru til í 5.–8. gr. frumvarpsins geti í ljósi 2. gr. almennra hegningarlaga raskað grundvelli mála sem embættið hefur haft til rannsóknar þar sem einstaklingar sem átt hafa í afleiðuviðskiptum eru grunaðir um að hafa vantalið skattstofna. Í þeim rannsóknum hafi verið lagt til grundvallar að ekki sé heimild til þess að draga tapsamninga frá hagnaðarsamningum, sbr. nefnt lagaákvæði tekjuskattslaga.
    Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur upplýst að ekki hafi verið haft samráð við embætti skattrannsóknarstjóra áður en málið var lagt fram 29. nóvember sl. Málið gekk til nefndar sjö dögum síðar. Meiri hlutinn telur við svo búið og með hliðsjón af athugasemdum skattrannsóknarstjóra að það sé óvarlegt að lögfesta að svo stöddu 5.–8. gr. frumvarpsins en lýsir sig reiðubúinn til að taka málið til umfjöllunar á vorþingi að undangengnu samráði ráðuneytisins við skattrannsóknarstjóraembættið og eftir atvikum embætti sérstaks saksóknara.

5.3.     Tímabundin vinna útsendra starfsmanna (14. gr. frumvarpsins).
    Í 14. gr. frumvarpsins er lagt til að hafi maður aflað tekna vegna vinnu erlendis samfellt í sex mánuði eða lengur sé heimilt að lækka tekjuskatt hans sem nemur þeim tekjuskatti sem reiknaður er hér á landi af hinum erlendu tekjum. Skilyrðin fyrir þessari heimild eru nokkur:
     1.      að maðurinn beri fulla og ótakmarkaða skattskyldu hér á landi;
     2.      að vinnan hafi staðið samfellt í sex mánuði eða lengur;
     3.      að ekki sé fyrir hendi tvísköttunarsamningur sem kveði á um að íslenska ríkið eigi skattlagningarréttinn á tekjunum;
     4.      að maðurinn hafi verið sendur af vinnuveitanda sínum og dveljist ekki hér á landi umfram tiltekinn dagafjölda á mánuði, hálfu ári og ári.
    Að uppfylltum skilyrðum er heimildin valkvæð, þ.e. skattaðili getur óskað eftir að ákvæðum tvísköttunarsamnings milli Íslands og vinnuríkisins verði beitt í stað ákvæðisins. Verði ákvæðinu beitt er skattyfirvöldum auk þess heimilt að taka tillit til hinna erlendu tekna þegar tekjuskattur er reiknaður á aðrar tekjur aðilans.
    Ekki er gert ráð fyrir að heimildin taki til opinberra starfsmanna né þeirra manna sem starfa á íslenskum skipum eða loftförum og í athugasemdum við frumvarpið er nánar gerð grein fyrir skilyrðum sem um heimildina gilda.
    Við umfjöllun málsins kom fram að þessi tillaga frumvarpsins ætti rætur að rekja til tillagna Samtaka atvinnulífsins og af athugasemdum við hana má ráða að hún feli í sér að beitt verði svokallaðri undanþáguaðgerð við útreikning á skattskyldu í framangreindum tilvikum í stað svokallaðrar frádráttaraðferðar sem almennt er lögð til grundvallar í þeim tvísköttunarsamningum sem íslenska ríkið hefur gert.
    Tekið er fram í athugasemdum að sambærilega reglu sé að finna í norrænum rétti að dönskum rétti undanskildum þar sem nýlega hafi verið ákveðið að fella hana brott og beita alfarið tvísköttunarsamningum til að koma í veg fyrir tvísköttun. Í umsögn ríkisskattstjóra eru settar fram efasemdir um að ákvæðið verði raunverulega til þess að bæta réttarstöðu þeirra sem undir það falla. Umsögninni fylgja skýringardæmi þar sem farið er yfir framkvæmd ákvæðisins með samanburði við aðferðir tvísköttunarsamninga sem beitt er samkvæmt gildandi rétti. Af þeim dregur embættið þá ályktun að ákvæðið komi launamönnum til góða sem greitt hafi lága skatta í vinnuríkinu en um leið auki það umstang framteljenda og flæki álagningu opinberra gjalda.
    Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að hugsunin að baki ákvæðinu sé að styðja við íslensk fyrirtæki sem standa frammi fyrir harðnandi samkeppni á erfiðum tímum.

6.     Önnur umfjöllun.
6.1.     Skattaleg meðferð á eftirgjöf skulda.
    Á fundum nefndarinnar óskuðu fulltrúar endurskoðunarskrifstofa og Félag atvinnurekenda eftir að ákvæði til bráðabirgða XXXVI, XXXVII og XLIV í lögum um tekjuskatt yrðu framlengd út næsta ár. Ákvæðin varða skattalega meðferð á eftirgjöf skulda einstaklinga annars vegar og rekstraraðila hins vegar og hefur komið fram að talsverður fjöldi aðila eigi enn eftir að fá úrlausn sinna mála. Ákvæðin sem lögfest voru með lögum nr. 104/2010, sbr. einnig b- lið 19. gr. laga nr. 165/2010, var ætlað að vera liður í skilvirkri endurskipulagningu skulda sem yrði til þess fallin að flýta efnahagsbata.

6.2.     Íslenskar kvikmyndir ekki lengur undanþegnar virðisaukaskatti.
    Lagt er til að aðgangseyrir að íslenskum kvikmyndum verði ekki lengur undanþeginn virðisaukaskatti. Undanþágan hefur verið í gildi frá 1. janúar 1990, sbr. 1. gr. laga nr. 119/ 1989, eða frá því að lögin komu til framkvæmda. Stjórnvöldum hefur borist fyrirspurn frá Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, með bréfi dags. 4. desember 2012, þar sem óskað er skýringa á því hvers vegna aðgangseyrir að íslenskum kvikmyndum sé undanþeginn virðisaukaskatti en ekki aðgangseyrir að erlendum kvikmyndum. Er vafi talinn leika á því að ákvæðið samrýmist 36. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES). Breyting þessi er jafnframt í samræmi við ákvæði 5. tölul. 2. gr. samkomulags frá 8. desember 2011 sem Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda, Félag kvikmyndagerðarmanna, Samtök kvikmyndaleikstjóra, mennta- og menningarmálaráðuneyti og fjármálaráðuneyti, gerðu um stefnumörkun fyrir íslenska kvikmyndagerð og kvikmyndamenningu árin 2012–2015. Gert er ráð fyrir því að ákvæðið öðlist þegar gildi.

6.3.     Ferðir starfsmanns til og frá vinnu með vistvænum farkosti,
    Hér er á ferðinni sú nýjung að hvetja launamenn til að nýta almenningssamgöngur og vistvænar samgöngur, svo sem göngu, hlaup eða annan vistvænan ferðamáta, t.d. reiðhjól og önnur sambærileg farartæki, til ferða til og frá vinnu, þó ekki vélknúin ökutæki. Með vélknúnu ökutæki er átt við ökutæki sem búið er aflvél til að knýja það áfram samkvæmt skilgreiningu umferðarlaga, nr. 50/1987. Hámark undanþágu frá skattskyldu verður ákvarðað árlega í skattmati ríkisskattstjóra sem sett er á grundvelli 118. gr. tekjuskattslaga. Gengið er út frá því að gerður verði samgöngusamningur milli vinnuveitanda og viðkomandi starfsmanns þar sem kveðið verði nánar á um réttindi og skyldur. Í skattmati því sem gildir á tekjuárinu 2012 er ákvæði um að ekki skuli telja til tekna fjárhæð að hámarki 5.000 kr. á mánuði sem vinnuveitandi greiðir starfsmanni vegna ferða í þágu vinnuveitandans ef nýttar eru almenningssamgöngur, reiðhjól og sambærilegur ferðamáti. Sú regla tekur ekki til þeirra tilvika þegar vinnuveitandi greiðir kostnað starfsmanns vegna ferða til og frá vinnu.

6.4.     Stimpilgjald.
    Meiri hlutinn leggur til að ákvæði til bráðabirgða II, III, V og VI í lögum um stimpilgjald verði gerð varanleg en 36. gr. frumvarpsins gerir ráð fyrir að ákvæðin verði framlengd til loka næsta árs.
    Í ákvæði til bráðabirgða III er að greindum skilyrðum kveðið á um tímabundna undanþágu frá stimpilgjaldi þegar fasteignaveðskuldaveðbréf er endurnýjað með nýju fasteignaveðskuldabréfi sem kemur í stað þess eldra, þ.e. ekki skal greiða stimpilgjald af þeim hluta nýja fasteignaveðskuldabréfsins sem svarar til uppreiknaðs virðis eldra fasteignaveðskuldabréfsins ásamt vanskilum. Lagt er til að undanþágan gildi óháð því hvort hið nýja fasteignaveðskuldabréf kemur að hluta eða öllu leyti í stað hins eldra en ábendingar hafa komið fram um að í framkvæmd gildi hún aðeins í þeim tilvikum þegar eldra bréfið er að fullu endurfjármagnað með nýja bréfinu. Þegar nýtt skuldabréf er gefið út til endurfjámögnunar á eldra skuldabréfi er í framkvæmd gerður sá áskilnaður að nýja bréfið verði að bera með sér hversu stór hluti þess er ætlaður til endurfjámögnunar á eldra skuldabréfi. Hér gildir því sú regla að útgefendur slíkra skuldabréfa skulu árita á bréfið hversu stór hluti er notaður til endurfjármögnunar á eldra fasteignaveðskuldabréfi. Er þetta gert til að tryggja að niðurfelling stimpilgjalds varði einungis útgáfu er kemur til vegna endurfjármögnunar en ekki vegna töku nýrra lána.

6.5.     Endurgreiðsla olíugjalds.
    Samband íslenskra sveitarfélaga gerir athugasemdir við 30. og 32. gr. frumvarpsins. Í þeim greinum eru lagðar til breytingar á inntaki skyldu ríkisins til endurgreiðslna olíugjalds til sveitarfélaga, byggðasamlaga og landshlutasamtaka sveitarfélaga sem hafa einkaleyfi til fólksflutninga vegna rekstrar almenningsvagna í áætlunarferðum eða annarra sem framangreindir aðilar hafa framselt slík einkaleyfi. Breytingar frumvarpsákvæðanna munu hafa í för með sér tímabindingu endurgreiðsluskyldunnar, sólarlag hennar og takmörkun. Þannig verði skyldunni ætlaður tiltekinn gildistími, hún líði undir lok 31. desember 2014, hún verði takmörkuð þannig að hún verði aðeins virk gagnvart þeim sem hafa einkaleyfi til reksturs almenningsvagna í áætlunarferðum innan þéttbýliskjarna sveitarfélags eða samliggjandi þéttbýliskjarna fleiri en eins sveitarfélags og í stað þess að endurgreiðsluhlutfallið verði 85% greiddra gjalda verði það 57% árið 2013, 29% árið 2014 en falla niður þar á eftir.
    Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga er í fyrsta lagi bent á að ekki hafi verið gerðir neinir samningar við sveitarfélög um það fyrirkomulag sem felst í 30. og 32. gr. frumvarpsins þrátt fyrir að annað sé gefið í skyn í athugasemdum við það. Ekki kannast sambandið við að samráð hafi verið haft við það við undirbúning frumvarpsgerðar. Í öðru lagi bendir sambandið á að ekki hafi átt sér stað nauðsynleg skoðun og umræða um þá takmörkun sem felst í frumvarpinu. Telur sambandið sterk rök hníga til þess að endurgreiðsluskyldan nái til fjölkjarnasveitarfélaga sem reka almenningssamgöngur á milli byggðakjarna.
    Meiri hlutinn vekur athygli á því að í greinargerð frumvarpsins er vísað til þess að upphaflegt markmið ákvæða um endurgreiðslu olíugjalds vegna rekstrar almenningsvagna hafi verið að koma til móts við akstur sem eigi sér stað á vegakerfi í umsjón og rekstri sveitarfélaga. Breytingar á lagaskilgreiningum um reglubundna fólksflutninga innan og utan þéttbýliskjarna sveitarfélaga hafi þó gert það að verkum að fleiri aðilar njóti nú endurgreiðslna en upphaflega var gert ráð fyrir. Álit meiri hlutans er að þessar skýringar séu í samræmi við skýringar 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar frá 140. löggjafarþingi sem lagði til það fyrirkomulag sem verið hefur á endurgreiðslunum hingað til.

6.6.     Sóknargjöld (37. gr. frumvarpsins).
    Í umsögn kirkjuráðs þjóðkirkjunnar er minnt á að ekki hefur enn verið gerð leiðrétting á fjárhæð sóknargjalda. Benti kirkjuráð á að í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar fyrir 3. umræðu fjárlaga fyrir árið 2012 hafi því verið beint til innanríkisráðherra að bregðast við ábendingum um misræmi við útfærslu á niðurskurði framlaga undanfarinna ára til þjóðkirkjunnar (þingskjal 466, 1. mál, 140. þing). Þar var jafnframt vísað til þess að nefnd innanríkisráðherra um þetta mál væri að störfum. Á fundi nefndarinnar kom fram að sú nefnd hefði nú skilað niðurstöðu sinni og að samkvæmt henni ættu sóknargjöldin að vera 852 kr. á einstakling en í fyrirliggjandi frumvarpi væri þessi fjárhæð 728 kr.

7.     Breytingartillögur.
          Lagt er til að aðgangseyrir að íslenskum kvikmyndum verði ekki lengur undanþeginn virðisaukaskatti.
          Lagt er til að lagt verði á starfsemi bílaleiga vegagjald sem reiknast út frá virðisaukaskattsskyldri veltu (sjá umfjöllun í kafla 2.3).
          Lagt er til að heimild til skattfrelsis vegna vaxtagreiðslna úr landi sem mælt er fyrir um í 4. gr. frumvarpsins verði bundin ákveðnum skilyrðum (sjá umfjöllun í kafla 5.1).
          Lagt er til að ekki skuli telja til tekna tilgreinda fjárhæð á mánuði sem vinnuveitandi greiðir starfsmanni vegna ferða til og frá vinnu að greindum skilyrðum um vistvænan ferðamáta og í samræmi við skattmat ríkisskattstjóra (sjá umfjöllun í kafla 6.3).
          Lagt er til að 5.–8. og 10. gr. frumvarpsins sem tengjast skattalegri meðferð tekna af afleiðum falli brott (sjá umfjöllun í kafla 5.2).
          Lagt er til að ákvæði til bráðabirgða XXXVI, XXXVII og XLIV í lögum um tekjuskatt er varða skattalega meðferð á eftirgjöf skulda einstaklinga utan atvinnurekstrar annars vegar og rekstraraðila hins vegar verði framlengd út næsta ár (sjá umfjöllun í kafla 6.1).
          Lagt er til að fallið verði frá tillögu 19. gr. frumvarpsins um að draga úr afslætti bílaleiga á vörugjöldum og þess í stað lagt til að þak á afslátt bílaleiga verði lækkað, sett verði leyfisgjald á bílaleigur sem kjósa að nýta afsláttinn og að lagt verði á vegagjald sem verði 1,5% af virðisaukaskattsskyldri veltu bílaleiga (sjá umfjöllun í kafla 2.3).
          Lagt er til að fallið verði frá verðlagsuppfærslu almenns og sérstaks vörugjalds á bensín (20. og 21. gr.), olíugjalds og kílómetragjalds (29. og 31. gr.) og bifreiðagjalds (33. gr.) sem og útvarpsgjalds (35. gr.) og áfengisgjalds að því er varðar öl og léttvín en þó ekki sterkt vín (a- og b-liður 11. gr.) (sjá umfjöllun í kafla 4).
          Lagt er til að gildistöku 1. gr. frumvarpsins, um að hótel- og gistiþjónusta falli í nýtt 14% þrep í virðisauka, verði frestað til 1. september 2013 í stað 1. maí nk. (sjá umfjöllun í kafla 2.2).
          Lagt er til að ákvæði til bráðabirgða II, III, V og VI í lögum um stimpilgjald verði gerð varanleg en 36. gr. frumvarpsins gerir ráð fyrir að ákvæðin verði framlengd til loka næsta árs. Einnig er lagt til að undanþágan sem fram kemur í ákvæði til bráðabirgða III gildi óháð því hvort hið nýja fasteignaveðskuldabréf kemur að hluta eða öllu leyti í stað hins eldra (sjá umfjöllun í kafla 6.4).
          Lagt er til að 39. gr. um markaðsgjald falli brott.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem fram koma í sérstöku þingskjali.
    Jón Bjarnason skrifar undir álitið með fyrirvara sem varðar annars vegar hækkun virðisaukaskatts á hótel- og gistiþjónustu, sbr. 1. gr. frumvarpsins, og hins vegar sóknargjöld og samningsbundin framlög íslenska ríkisins til þjóðkirkjunnar, sbr. 37. og 38. gr. frumvarpsins.

Alþingi, 20. desember 2012.



Helgi Hjörvar,


form., frsm.


Lilja Rafney Magnúsdóttir.


Magnús Orri Schram.



Jón Bjarnason,


með fyrirvara.


Skúli Helgason.