Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 188. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 888  —  188. mál.
Svarutanríkisráðherra við fyrirspurn Ásmundar Einars Daðasonar
um björgunarpakka til varnar evrunni.


     1.      Hversu oft hafa aðildarríki Evrópusambandsins þurft að leggja fram fjármagn í björgunarpakka til varnar evrunni sl. fimm ár?
    Fjögur aðildarríki Evrópusambandsins hafa fengið neyðarlán eða lánsloforð vegna efnahagserfiðleika á undanförnum fimm árum, í samtals fimm björgunarpökkum. Grikkland fékk neyðarlán í maí 2010 og aftur í mars 2012, Írland fékk neyðarlán í nóvember 2010, Portúgal í maí 2011 og Spánn fékk lánsloforð í júní 2012 til að styðja við bankakerfi landsins.
    Einungis í tveimur tilvikum, þ.e. varðandi lánafyrirgreiðsluna til Grikklands í maí 2010 og í tengslum við lánið til Írlands, var um tvíhliða lánafyrirgreiðslu að ræða beint frá einstökum aðildarríkjum Evrópusambandsins til þess aðildarríkis sem statt var í alvarlegum efnahagsvanda og þurfti á aðstoð að halda.

     2.      Hverjar eru heildarupphæðir þessara björgunarpakka?
    Lánið til Grikklands í maí 2010 var samtals að fjárhæð 107,3 milljarðar evra, eða um 17.554 milljarðar kr. á núverandi gengi. Skiptist það þannig að sextán evruríki, þ.e. öll evruríkin nema Slóvakía, sem óskaði eftir því að þurfa ekki að veita lánafyrirgreiðslu vegna bágrar efnahagsstöðu heima fyrir, lánuðu Grikklandi um 77,3 milljarða evra, eða um 12.646 milljarða kr. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) lánaði síðan til viðbótar 30 milljarða evra, eða um 4.908 milljarða kr.
    Neyðarlánið til Írlands var samtals að fjárhæð 67,5 milljarðar evra, um 11.043 milljarðar kr. Það skiptist þannig að Evrópski fjármálastöðugleikasjóðurinn (e. European Financial Stability Facility, EFSF) veitti lán að fjárhæð 17,7 milljarðar evra, eða um 2.896 milljarðar kr. Evrópski viðbragðasjóðurinn fyrir fjármálastöðugleika (e. European Financial Stabilisation Mechanism, EFSM) og AGS lánuðu síðan hvor um sig 22,5 milljarða evra, eða um 3.681 milljarða kr. Þessu til viðbótar ákváðu stjórnvöld í Bretlandi, Danmörku og Svíþjóð að lána Írlandi samtals 4,8 milljarða evra, eða um 785 milljarða kr., án þess að þau væru á nokkurn hátt skuldbundin til að veita þau lán.
    Portúgal fékk samþykkt neyðarlán í maí 2011 að upphæð 78 milljarðar evra, um 12.762 milljarðar kr. Lánið var veitt af EFSF-sjóðnum, EFSM og AGS, sem hver um sig lánaði um 26 milljarða evra, eða um 4.254 milljarða kr.
    Lánsloforðið til Spánar til stuðnings bankakerfi landsins að upphæð 100 milljarðar evra, um 16.360 milljarðar kr., er alfarið fjármagnað af EFSF-sjóðnum.
    Loks er síðara lánið til Grikklands, sem veitt var í mars 2012, að upphæð 130 milljarðar evra, um 21.268 milljarðar kr., fjármagnað þannig að EFSF-sjóðurinn greiðir 110,2 milljarða evra, um 18.029 milljarða kr., og AGS, sem greiðir um 19,8 milljarða evra, eða um 3.239 milljarða kr.

     3.      Hver hefði hlutdeild Íslands í hverjum og einum þeirra verið ef Ísland væri innan sambandsins?
    Varðandi hugsanlega hlutdeild Íslands í framangreindum björgunaraðgerðum ef Ísland hefði verið aðildarríki Evrópusambandsins þarf að greina á milli þess hvort Ísland hefði á þeim tíma verið innan eða utan evrusvæðisins. Um EFSF-sjóðinn, sem hefur fjármagnað lánafyrirgreiðslu til framangreindra ríkja, gildir að einungis evruríkin standa að baki honum, en aðildarríki Evrópusambandsins sem ekki hafa tekið upp evru standa utan hans. Aðildarríki ESB sem ekki hafa tekið upp evru hafa þess vegna enga aðkomu haft að lánafyrirgreiðslum til evruríkjanna nema þau hafi sérstaklega óskað eftir því, eins og raunin var í tilviki Bretlands, Danmerkur og Svíþjóðar sem lánuðu Írlandi án þess að vera skuldbundin til þess.
    Í tilviki fyrra lánsins til Grikklands ber einnig að hafa í huga að einstök evruríki gátu auk þess ákveðið að standa utan við lánafyrirgreiðsluna eins og framangreint dæmi um Slóvakíu sýnir. Þá ber einnig að nefna að ríki á evrusvæðinu sem lent hafa í efnahagserfiðleikum, sbr. fyrrgreind ríki (Grikkland, Írland, Portúgal og Spánn), gangast ekki í ábyrgð fyrir neyðarlánum EFSF-sjóðsins til annarra evruríkja. Ef Ísland hefði lent í sambærilegum efnahagsþrengingum og raunin varð á í kjölfar kreppunnar og verið aðildarríki ESB með evru sem gjaldmiðil, verður ekki séð að Ísland hefði þurft að gangast í ábyrgð fyrir lánafyrirgreiðslu af hálfu EFSF-sjóðsins til framangreindra ríkja. Meginatriðið í því samhengi er þó að færa má sterk rök fyrir því að Ísland hefði ekki lent í slíkum hremmingum hefði það verið innan ESB og með evru sem gjaldmiðil.