Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 162. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 950  —  162. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 106/1999, um Byggðastofnun,
með síðari breytingum (takmörkun kæruheimildar).

Frá minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar.


    Nefndin fékk á sinn fund Þórð Reynisson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti til að kynna frumvarpið. Nefndin sendi út umsagnarbeiðnir en engar umsagnir bárust nefndinni vegna málsins.
    Í frumvarpinu er lagt til að bætt verði við lögin ákvæði um að reglur stjórnar Byggðastofnunar um lán- og ábyrgðarveitingar skuli hafa hlotið staðfestingu ráðherra áður en þær öðlast gildi og er það í samræmi við breytingartillögu í nefndaráliti umhverfis- og samgöngunefndar frá 140. löggjafarþingi. Einnig er lagt til að við lögin bætist ný málsgrein sem kveður á um að ákvarðanir Byggðastofnunar sem lúta að veitingu lána eða ábyrgða, og umsýslu þeim tengdri, verða samkvæmt greininni endanlegar á stjórnsýslustigi.
    Fram kom við umfjöllun málsins að nái frumvarpið fram að ganga verða ákvarðanir Byggðastofnunar sem lúta að veitingu lána eða ábyrgða ekki kæranlegar til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis líkt og nú er. Minni hlutinn áréttar þau sjónarmið er komu fram í nefndaráliti umhverfis- og samgöngunefndar á 140. þingi, sbr. fylgiskjal. Minni hlutinn varar við því að réttaröryggi borgara og fyrirtækja í landinu sé skert með því að aðilar mála sem varða lánveitingar, ábyrgðir og umsýslu þeirra fái ekki endurskoðun þeirra á tveimur stjórnsýslustigum eins og meginregla stjórnsýsluréttar kveður á um. Einnig er áréttað að stíga þurfi varlega til jarðar þegar endurskoðunarvaldi og ábyrgð æðra setts stjórnvalds gagnvart undirstofnunum sínum er vikið til hliðar. Minni hlutinn áréttar að hann telur hins vegar einnig að veigamikil rök séu fyrir því að þessar ákvarðanir Byggðastofnunar séu ekki kæranlegar til ráðuneytisins og telur að þar sé aðallega um fagþekkingu starfsmanna Byggðastofnunar að ræða sem ekki er til staðar í ráðuneytinu og að starfsemi Byggðastofnunar sé háð eftirliti Fjármálaeftirlitsins, sbr. lög um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998. Þar sem ekki er lagt til að stjórnsýslulegri stöðu Byggðastofnunar verði breytt hefur ráðuneytið eftir sem áður viðvarandi eftirlitsskyldu gagnvart Byggðastofnun, sbr. 1. mgr. 13. gr. laga um Stjórnarráð Íslands, nr. 115/2011. Í því felst að ráðuneytinu ber að hafa eftirlit með því að ákvarðanir séu teknar á lögmætan, réttmætan og samræmdan hátt og þar á meðal að farið sé að reglum stjórnsýslulaga við töku þeirra. Með frumvarpinu er ekki verið að svipta ráðherra yfirstjórnunar- og eftirlitsheimildum sínum gagnvart Byggðastofnun heldur aðeins mælt fyrir um að tilteknar ákvarðanir séu ekki kæranlegar til ráðuneytisins og því ekki endurskoðaðar efnislega af hálfu ráðuneytisins. Í ljósi stöðu Byggðastofnunar sem lánastofnunar sem hefur á sinni hendi mikið opinbert fé er ljóst að eftirlit ráðuneytisins með störfum stofnunarinnar verður að vera virkt og skilvirkt. Til að árétta þessa eftirlitsskyldu ráðuneytisins, og enn fremur í því skyni að efla hana, er að finna nýjan málslið í 1. gr. frumvarpsins sem kveður á um að stjórn Byggðastofnunar setji reglur um veitingu lána og ábyrgða sem skuli hljóta staðfestingu ráðherra áður en þær öðlast gildi. Með þessu móti er stofnuninni settur skýr rammi til að vinna eftir við umræddar ákvarðanir og gerir eftirlit ráðuneytisins með ákvarðanatöku Byggðastofnunar markvissari og skýrari. Einnig tryggir þetta að jafnræðis sé gætt við lánveitingar og að sambærileg sjónarmið ráði ákvörðunum um úthlutanir vegna sambærilegra verkefna.
    Þá kom fram að ráðuneytið muni í samstarfi við Byggðastofnun leitast við að tryggja fagleg vinnubrögð við ákvarðanatöku Byggðastofnunar, m.a. með því að yfirfara verkferla og málsmeðferð.
    Minni hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Valgeir Skagfjörð, áheyrnarfulltrúi, var samþykkur þessari afgreiðslu málsins.


Alþingi, 28. janúar 2013.

Ólína Þorvarðardóttir,
1. varaform, frsm.
Margrét Pétursdóttir.
Róbert Marshall.

Magnús Orri Schram.




Fylgiskjal.


Nefndarálit með breytingartillögu frá umhverfis- og samgöngunefnd um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 106/1999, um Byggðastofnun,
með síðari breytingum (takmörkun kæruheimildar).

(Þingskjal 1544 í 302. máli 140. löggjafarþings 2011–2012.)


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingva Má Pálsson og Kristján Skarphéðinsson frá iðnaðarráðuneytinu og Trausta Fannar Valsson frá Háskóla Íslands.
    Með frumvarpinu er lagt til að ákvarðanir Byggðastofnunar sem lúta að veitingu lána eða ábyrgða og umsýslu tengdri þeim, sbr. 1. mgr. 11. gr. laga um Byggðastofnun, verði endanlegar á stjórnsýslustigi. Í því felst að þær ákvarðanir verða ekki kæranlegar til ráðuneytis. Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að Byggðastofnun hefur yfirgripsmikla þekkingu á veitingu og umsýslu með lán og ábyrgðir og að ráðuneytið geri ríkar kröfur til stofnunarinnar um faglega málsmeðferð við úrlausn slíkra mála. Þá kemur og fram að ákvarðanir stofnunarinnar er lúta að veitingu lána og ábyrgða eða umsýslu þeirra skipta hundruðum á ári og verði þær ákvarðanir kæranlegar kalli það á ítarlegt endurmat af hálfu ráðuneytisins á ákvörðunum Byggðastofnunar. Í greinargerð kemur einnig fram að horft hafi verið annars vegar til Tækniþróunarsjóðs, sbr. lög um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun, nr. 75/2007, og hins vegar til Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, sbr. lög um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins, nr. 61/1997. Ákvarðanir sjóðanna beggja eru endanlegar á stjórnsýslustigi en hins vegar er Tækniþróunarsjóður lægra sett stjórnvald gagnvart ráðherra, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 75/2007, en Nýsköpunarsjóður er sjálfstæð stofnun í eigu ríkisins, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 61/1997.
    Það er meginregla í íslenskum stjórnsýslurétti að ákvarðanir lægra setts stjórnvalds eru kæranlegar til æðra stjórnvalds, sbr. VII. kafla stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Í 1. gr. laga um Byggðastofnun kemur fram að stofnunin sé sérstök stofnun í eigu íslenska ríkisins sem heyri undir yfirstjórn ráðherra. Í athugasemdum við frumvarpið kemur einnig fram að Byggðastofnun sé lægra sett stjórnvald gagnvart ráðherra. Meginregla stjórnsýslulaga um kæruheimild ákvarðana lægra settra stjórnvalda til æðra setts stjórnvalds á því við um Byggðastofnun en með frumvarpinu er lagt til að það kærusamband verði rofið.
    Nefndin geldur varhug við því að réttaröryggi borgara og fyrirtækja í landinu sé skert með því að aðilar mála sem varða lánveitingar, ábyrgðir og umsýslu þeirra fái ekki endurskoðun þeirra á tveimur stjórnsýslustigum eins og meginregla stjórnsýsluréttar kveður á um. Þá telur nefndin einnig að stíga þurfi varlega til jarðar þegar endurskoðunarvald og ábyrgð æðra setts stjórnvald gagnvart undirstofnunum sínum er vikið til hliðar. Nefndin telur hins vegar einnig að veigamikil rök séu fyrir því að þessar ákvarðanir Byggðastofnunar séu ekki kæranlegar til ráðuneytisins og telur að þar sé aðallega um fagþekkingu starfsmanna Byggðastofnunar að ræða sem ekki er til staðar í ráðuneytinu og því að starfsemi Byggðastofnunar er háð eftirliti Fjármálaeftirlitsins, sbr. lög um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998. Að þessu virtu telur nefndin þó rétt að árétta nokkur atriði.
    Með frumvarpinu er ekki lagt til að stjórnsýslulegri stöðu Byggðastofnunar verði breytt að neinu leyti. Stofnunin verður áfram lægra sett stjórnvald gagnvart ráðherra. Aðeins er lagt til að tilteknar ákvarðanir verði endanlegar á stjórnsýslustigi en aðrar ákvarðanir Byggðastofnunar verða eftir sem áður kæranlegar til ráðuneytisins á grundvelli VII. kafla stjórnsýslulaga. Þeir sem telja ákvörðun Byggðastofnunar sem lýtur að veitingu lána eða ábyrgða og umsýslu tengdri þeim ranga og vilja endurskoðun á henni geta þó ávallt leitað til dómstóla með þá kröfu sína. Þar sem ekki er lagt til að stjórnsýslulegri stöðu Byggðastofnunar verði breytt hefur ráðuneytið eftir sem áður viðvarandi eftirlitsskyldu gagnvart Byggðastofnun, sbr. 1. mgr. 13. gr. laga um Stjórnarráð Íslands, nr. 115/2011. Í því felst að ráðuneytinu ber að hafa eftirlit með því að ákvarðanir séu teknar á lögmætan, réttmætan og samræmdan hátt og þar á meðal að farið sé að reglum stjórnsýslulaga við töku þeirra. Samkvæmt 14. gr. laga um Stjórnarráð Íslands getur ráðherra krafið stjórnvöld sem undir hann heyra um allar þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að sinna yfirstjórnunarhlutverki sínu. Í þessu felst einnig að til að ráðherra sé fært að sinna eftirlitshlutverki sínu er honum heimilt að krefja lægra sett stjórnvöld um nauðsynlegar upplýsingar. Með frumvarpinu er ekki verið að svipta ráðherra yfirstjórnunar- og eftirlitsheimildum sínum gagnvart Byggðastofnun heldur aðeins verið að mæla fyrir um að tilteknar ákvarðanir séu ekki kæranlegar til ráðuneytisins og því ekki endurskoðaðar efnislega af hálfu ráðuneytisins. Í ljósi stöðu Byggðastofnunar sem lánastofnunar sem hefur á sinni hendi mikið opinbert fé er ljóst að eftirlit ráðuneytisins með störfum stofnunarinnar verður að vera virkt og skilvirkt. Til að árétta þessa eftirlitsskyldu ráðuneytisins, og enn fremur í því skyni að efla hana, leggur nefndin til þá breytingu á frumvarpinu að við það bætist ný málsgrein sem kveði á um að stjórn Byggðastofnunar setji reglur um veitingu lána og ábyrgða sem skuli hljóta staðfestingu ráðherra áður en þær öðlast gildi. Með þessu móti er stofnuninni settur skýr rammi til að vinna eftir við umræddar ákvarðanir og gerir eftirlit ráðuneytisins með ákvarðanatöku Byggðastofnunar markvissari og skýrari.
    Að þessum athugasemdum virtum leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með svofelldri

BREYTINGU:


    Við 1. gr. bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Reglur stjórnar Byggðastofnunar um lán- og ábyrgðarveitingar skulu hafa hlotið staðfestingu ráðherra áður en þær öðlast gildi.

    Atli Gíslason, Árni Johnsen og Mörður Árnason voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.


Alþingi, 12. júní 2012.

Ólína Þorvarðardóttir,
1. varaform., frsm.
Ólafur Þór Gunnarsson.
Björn Valur Gíslason.

Birgir Ármannsson.
Ásmundur Einar Daðason.
Róbert Marshall.