Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 567. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 957  —  567. mál.
Tillaga til þingsályktunarum hvernig minnast skuli 100 ára afmælis kosningarréttar íslenskra kvenna 19. júní 2015.

Flm.: Ásta R. Jóhannesdóttir, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Þuríður Backman,
Sigurður Ingi Jóhannsson, Árni Þór Sigurðsson, Unnur Brá Konráðsdóttir,
Oddný G. Harðardóttir, Illugi Gunnarsson, Álfheiður Ingadóttir,
Gunnar Bragi Sveinsson, Birgitta Jónsdóttir,
Guðmundur Steingrímsson, Lilja Mósesdóttir.

    Alþingi ályktar í tilefni af 100 ára afmæli kosningarréttar og kjörgengis kvenna 19. júní 2015 að fela forsætisnefnd þingsins:
     a.      að kalla saman til undirbúningsfundar fulltrúa sem flestra samtaka íslenskra kvenna, svo og stofnana sem fást við jafnréttismál kvenna og karla, til þess að safna hugmyndum og gera tillögur um hvernig minnast skuli tímamótanna, auka jafnréttis- og lýðræðisvitund og blása til nýrrar sóknar í jafnréttis- og mannréttindamálum. Fulltrúarnir kjósi fimm manna framkvæmdanefnd sem móti endanlegar tillögur og annist frekari undirbúning fyrir afmælisárið 2015,
     b.      að ráða framkvæmdastjóra verkefnisins og annað starfslið eftir þörfum,
     c.      að sjá framkvæmdanefnd og framkvæmdastjóra fyrir starfsaðstöðu,
     d.      að undirbúa tillögur um fjárframlög til verkefnisins 2013–2015.

Greinargerð.

    Hinn 19. júní 1915 fengu íslenskar konur kosningarrétt og kjörgengi til Alþingis með stjórnarskrárbreytingu sem staðfest var þann dag. Dagurinn markar því mikilvægan áfanga í átt til jafnrar þátttöku kynjanna í lýðræðislegri umræðu og ákvarðanatöku í samfélaginu og að bæði kynin séu með þar sem ráðum er ráðið. Í því felast grundvallarmannréttindi. Kosningaþátttaka á Íslandi hefur verið góð í marga áratugi og mikilvægt er að svo verði áfram. Þannig má tryggja þátttöku sem flestra, kvenna sem karla, í mótun samfélagsins. Lýðræðisvitund þjóðarinnar og vissan um að með því að nýta kosningarréttinn geti allir, jafnt konur sem karlar, haft áhrif eru forsendur þess að lýðræðislegir stjórnarhættir fá staðist og þróast á æskilegan hátt um ókomin ár.
    Konur fengu almennt ekki kosningarrétt og kjörgengi til þjóðþinga fyrr en um og eftir aldamótin 1900, oft eftir harða baráttu á opinberum vettvangi. Íslenskar konur fengu kosningarrétt sama ár og danskar konur, en áður höfðu nýsjálenskar konur fengið kosningarrétt árið 1893, finnskar árið 1906 og norskar konur árið 1913. Hérlendis höfðu konur reyndar fengið kosningarrétt til sveitarstjórna í þéttbýli árið 1908 og frá árinu 1882 höfðu ekkjur og ógiftar konur, sem stóðu fyrir búi og höfðu náð 25 ára aldri, kosningarrétt í sýslunefndir, hreppsnefndir, bæjarstjórnir og á safnaðarfundum. Sama ár og konur fengu kosningarrétt til sveitarstjórna í þéttbýli, 1908, buðu konur fram lista til bæjarstjórnar Reykjavíkur með góðum árangri.
    Í fyrstu var kosningarréttur kvenna til Alþingis bundinn við 40 ára aldur og skyldi svo lækka um eitt ár á hverju ári þannig að árið 1931 yrði kosningarréttur kynjanna jafn. Árið 1920 var stjórnarskránni hins vegar breytt að nýju og kosningarréttur kvenna færður til jafns við rétt karla.
    Barist hafði verið fyrir kosningarrétti kvenna hér á landi frá 1885, en það ár fékk Bríet Bjarnhéðinsdóttir birta grein um kvenréttindi í Fjallkonunni og um sama leyti hélt Páll Briem fyrirlestur um kosningarrétt og önnur réttindi kvenna. Árið 1894 var Hið íslenska kvenfélag stofnað. Á stefnuskrá þess var m.a. jafnrétti kynjanna og þátttaka kvenna í opinberum málum. Árið 1895 safnaði félagið 2.000 undirskriftum með áskorun til Alþingis um að veita konum kosningarrétt. Á Alþingi komu fram tillögur um jafnan atkvæðisrétt kvenna og karla en þær náðu ekki fram að ganga. Árið 1913 var lagt fram frumvarp til breytinga á stjórnarskrá um kosningarrétt kvenna, með því ákvæði að réttur þeirra skyldi miðast við 40 ára aldur. Frumvarpið var samþykkt og stjórnarskrárbreytingin á ný á nýju þingi og staðfest af konungi 19. júní 1915.
    Í tilefni af tímamótunum var haldinn almennur kvennafundur á Austurvelli 7. júlí 1915 við setningu Alþingis. Fór fylking kvenna um miðbæinn í sólskini og stafalogni og með henni hornaflokkur og 200 ljósklæddar smámeyjar með litla íslenska fána. Sendinefnd kvenna gekk inn í þinghúsið með ávarp frá íslenskum konum. Ingibjörg H. Bjarnason, sem árið 1922 varð fyrst íslenskra kvenna til að vera kosin á Alþingi, las upp skrautritað ávarp til þingsins, stuttar ræður voru haldnar og því næst var haldin hátíð á Austurvelli. Var sagt að ekki hefðu menn séð áður svo fjölmenna samkomu hér á landi og aldrei hefðu svo margar og jafnprúðbúnar konur safnast saman. Mun þetta jafnframt vera í fyrsta sinn sem íslenski fáninn, eins og hann er nú, var hafður uppi á fjölmennri útisamkomu.
    Árið 2005 var þess minnst með margvíslegum hætti að 90 ár voru liðin frá þessum atburðum. Tók Alþingi þátt í nokkrum viðburðum. Alþingi eignaðist við þetta tækifæri málverk af Ingibjörgu H. Bjarnason. Öllum konum, sem kosnar höfðu verið á Alþingi og enn voru á lífi, var boðið að vera viðstaddar afhjúpun málverksins. Alþingi stóð jafnframt að málþingi ásamt Háskóla Íslands, Kvennasögusafni Íslands og Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræði. Ávörp og erindi sem flutt voru á málþinginu voru gefin út í bókinni Kosningaréttur kvenna 90 ára. Auk erindanna er í henni að finna upplýsingar um þær konur sem tekið hafa sæti á Alþingi, kvenráðherra, þróun kosningarréttar til þings og þróun kosningaþátttöku kvenna og karla. Auk þessa voru haldnir viðburðir víða um land sem skipulagðir voru af sveitarstjórnum, Zontasambandinu, UNIFEM og fleirum.
    Mikilvægt er að minnast þeirra merku tímamóta í jafnréttisbaráttu á Íslandi þegar íslenskar konu fengu kosningarrétt og kjörgengi til Alþingis. Í Danmörku er fyrir nokkru hafinn undirbúningur að hátíðarhöldum 2015. Í Noregi hefur slíkur undirbúningur fyrir 2013 staðið yfir í nokkur ár. Norska þingið stofnaði sjóð til að standa straum af kostnaði við hátíðarhöldin og gátu grasrótarsamtök sótt um styrki í hann. Þar var jafnframt stofnuð nefnd, sem í eiga sæti þingkonur, fulltrúar frjálsa félagasamtaka og fræðikonur, sem hvetur og samhæfir grasrótarstarfið. Á þessu ári verða svo haldnir fjórir stórir viðburðir í Noregi þar sem fjallað verður m.a. um lýðræði, kosningarrétt og kosningaþátttöku.
    Forseti Alþingis boðaði 31. mars 2012 fulltrúa kvenna- og jafnréttissamtaka á Íslandi til fundar í Alþingishúsinu til að reifa hugmyndir um með hvaða hætti væri viðeigandi að halda upp á þessi merku tímamót í sögu landsins. Fundurinn var vel sóttur og á honum kom fram mikill áhugi á því að minnast þessara tímamóta með veglegum hætti. Fjöldi góðra hugmynda kom fram og var greinilegt að mikil gróska er í starfi grasrótarsamtaka og mikill áhugi meðal kvenna sem starfa í stjórnmálaflokkum. Á þriðja tug fundargesta skráði sig á lista yfir þá sem bjóða sig fram til að starfa frekar að verkefninu. Rætt var um hvernig ætti að halda upp á og minnast aldarafmælisins og voru margar tillögur lagðar fram sem framkvæmdanefnd getur haft til hliðsjónar.
    Megináhersla samkvæmt þessari tillögu verður lögð á að virkja grasrótarsamtök kvenna og stjórnmálasamtök og hvetja sveitarfélög um allt land til að láta sig varða og styðja málefni kvenna og jafnrétti. Er ljóst af umræðum á fundinum að mikill áhugi er á því að gera hlut kvenna í sögu Íslands sýnilegri með því að safna saman heimildum um konur á öldinni, fjalla um stöðu kvenna í dag og auka jafnréttisvitund hjá ungu fólki, m.a. með því að kenna kynjafræði á öllum skólastigum, sbr. e-lið þingsályktunar um áætlun í jafnréttismálum, nr. 30/139, sem Alþingi samþykkti 19. maí 2011, en þar er kveðið á um jafnréttisfræðslu í leik- og grunnskólum, að boðið verði upp á áfanga í kynja- og jafnréttisfræðum í framhaldsskólum og að fræðslu í jafnréttismálum verði komið á innan háskóla. Mikilvægt er að hafa samstarf við mennta- og menningarmálaráðuneyti sem sér um framkvæmd þessara verkefna og tryggja framgang þeirra.
    Á fundinum var jafnframt reifuð sú hugmynd að uppfæra og gefa að nýju út bókina Konur, hvað nú? sem kom út árið 1985. Bókin er yfirlitsrit um stöðu íslenskra kvenna og hvernig konum miðaði áleiðis til jafnréttis og jafnrar stöðu í þjóðfélaginu á áratugnum 1975–1985. Þar er fjallað um lagalega stöðu kvenna, menntun, atvinnu- og launamál, félagslega stöðu, konur í forustustöðum og heilbrigði kvenna og heilsufar. Þá er þar rakin saga kvenna og kvennahreyfinga á tímabilinu og fjallað um listsköpun kvenna.
    Jafnframt komu upp hugmyndir um að gera styttu af Ingibjörgu H. Bjarnason, halda sýningar á listaverkum kvenna, skautbúningum og efna til málþinga um bókmenntasköpun kvenna o.fl. Þá var rætt um mikilvægi þess að skilgreina hver væru helstu baráttumál kvenna um þessar mundir og fékk hugmyndin að kjörorðinu Leiðréttum allt! mikinn hljómgrunn.
    Mikilvægt er að tryggja aðkomu listafólks að viðburðum tengdum afmælinu. Voru talsvert ræddar hugmyndir um ritun leikrita, gerð heimildarmynda og stuttmynda, um uppsetningu sýninga og fleiri viðburði. Þá var lagt til að fastir árlegir menningar- og listviðburðir yrðu nýttir til að minnast afmælisins, svo sem bókmenntahátíð, tónlistarhátíðin Iceland Airwaves og kvikmyndahátíðin Reykjavík International Film Festival (RIFF).
    Í tillögu þessari er lagt til að forsætisnefnd Alþingis verði falið að kalla saman til undirbúningsfundar fulltrúa sem flestra samtaka íslenskra kvenna, svo og stofnana sem fást við jafnréttismál kvenna og karla, til að ræða hugmyndir sem unnið yrði að á hátíðarárinu. Fulltrúunum er svo ætlað að kjósa fimm manna framkvæmdanefnd sem móti frekar undirbúning fyrir afmælisárið 2015. Þá mun forsætisnefnd Alþingis einnig sjá um að ráða framkvæmdastjóra verkefnisins og annað starfslið eftir þörfum, sjá framkvæmdanefnd og framkvæmdastjóra fyrir starfsaðstöðu og undirbúa tillögur um fjárframlög til verkefnisins 2013–2015. Umfang hátíðarhalda og fjöldi viðburða mun því ráðast af því fjármagni sem Alþingi samþykkir að veitt verði í verkið í fjárlögum eða fjáraukalögum.
    Ljóst er að ekki skortir hugmyndir um viðburði í tengslum við afmælið og mikilvægt er að tryggja sem breiðasta aðkomu að því og bjóða upp á fjölbreytta dagskrá til að fagna þessum tímamótum og blása til nýrrar sóknar í jafnréttismálum.
    Brýnt er að undirbúningur hefjist sem fyrst og að fjárframlög til verkefnisins komi þegar á þessu ári þannig að nægur tími gefist til að undirbúa menningar-, lista- og fræðaviðburði svo að þessara merku tímamóta í sögu Íslands verði minnst með veglegum hætti eins og vert er.
    Þess ber loks að geta að við staðfestingu stjórnarskrárbreytingarinnar 19. júní 1915 var ekki aðeins lögfestur kosningarréttur kvenna, heldur einnig hjúa, svo og „kaupstaðaborgara, þurrabúðarmanna og lausamanna“ sem greiddu a.m.k. fjórar krónur í „aukaútsvar“. Með öðrum orðum: Fátækt fólk og öðrum háð fékk líka þau mannréttindi sem í kosningarréttinum felast. Vel færi á því að þess væri einnig minnst við þau tímamót sem verða 2015.