Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 443. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 1019  —  443. mál.




Svar



forsætisráðherra við fyrirspurn Lilju Mósesdóttur um málsvörn
í dómsmálum gegn ríkinu og undirstofnunum þess.


    Svarið byggist á upplýsingum sem aflað var frá embætti ríkislögmanns.

     1.      Hversu mörg dómsmál sem rekin hafa verið gegn ríkinu hafa verið leidd til lykta árlega frá og með árinu 2008? Í hversu mörgum þeirra hefur ríkislögmaður sjálfur verið verjandi fyrir hönd ríkisins?
    Frá árinu 2008 hafa verið höfðuð 614 mál á hendur ríkinu, áfrýjanir mála meðtaldar, sbr. þó svar við 2. og 3. tölul. Ef eingöngu er horft á málshöfðanir fyrir héraðsdómi þá eru þær 455 og 26 fyrir Félagsdómi. Spurt er í hve mörgum málum ríkislögmaður sjálfur hefur verið verjandi ríkisins. Gert er ráð fyrir að átt sé við ríkislögmann auk annarra lögmanna sem starfa við embættið. Öll málin að frátöldum 24 á þessu tímabili hafa verið flutt af ríkislögmanni eða lögmönnum sem starfa við embættið. Tekið skal fram að allmörg þjóðlendumál að auki hafa verið rekin af öðrum lögmönnum með heimild ríkislögmanns og fjármála- og efnahagsráðuneytis. Eru þau um 50 talsins frá 2008 (mál fyrir héraðsdómi og Hæstarétti aðskilin), en nokkur þeirra voru rekin sem sameinuð mál. Rétt er að nefna einnig að mál um gildi úrskurða samkeppnisyfirvalda hafa verið flutt af öðrum lögmönnum.

     2.      Er ríkinu heimilt að fela öðrum en ríkislögmanni málsvörn í dómsmálum sem rekin eru gegn ríkinu og ef svo er, samkvæmt hvaða heimildum? Hversu mörg dómsmál gegn ríkinu þar sem verjandi er annar en ríkislögmaður hafa verið leidd til lykta árlega frá og með árinu 2008?
    Heimilt er að fela öðrum en ríkislögmanni málsvörn í málum gegn ríkinu. Það gerir ríkislögmaður á grundvelli 2. mgr. 3. gr. laga nr. 51/1985, um ríkislögmann, að fengnu samþykki viðkomandi ríkisstofnunar. Fjöldi þeirra mála er 24 á því tímabili sem spurt er um.
    Tekið skal fram að lögmenn sem starfa við einstakar stofnanir flytja ýmis mál, svo sem innheimtumál, eins og lögin um ríkislögmann ganga út frá. Þau mál eru ekki talin með undir 1. tölul. fyrirspurnarinnar. Hins vegar eru þar talin með ýmis mál sem ráðherra hefur falið ríkislögmanni að flytja, svo sem mál um innheimtu gjalda þar sem ágreiningi um réttmæti viðkomandi skattkröfu er skotið til dóms.

     3.      Er ríkislögmanni heimilt að taka að sér mál fyrir undirstofnanir ríkisins og þá hverjar þeirra og hverjar ekki? Hversu mörg slík dómsmál þar sem verjandi er ríkislögmaður hafa verið leidd til lykta árlega frá og með árinu 2008?
    Ríkislögmanni er það öðru fremur rétt að flytja mál fyrir undirstofnanir, en í sumum tilvikum kemur til sérstök beiðni ráðherra varðandi tilteknar ríkisstofnanir, t.d. þær sem ekki eru svonefndar A-hluta stofnanir, eða sakarefni viðkomandi máls er þess eðlis eins og fyrr segir um innheimtukröfur. Gert er ráð fyrir þessari tilhögun í lögunum um embættið. Ekki verður séð að í spurningunni sé ætlast til að viðkomandi stofnanir séu allar taldar upp eða flokkaðar eftir nafni.
    Sökum mikilla anna hjá embætti ríkislögmanns treystir embættið sér ekki til að framkvæma úttekt á því hversu mörg slík dómsmál, þar sem verjandi er ríkislögmaður, hafi verið leidd til lykta frá árinu 2008 enda er talið að slík úttekt yrði ómarkviss. Í því sambandi verður að nefna að dómar Hæstaréttar síðustu missiri benda til að meginreglan sé sú að stefna skuli íslenska ríkinu, þótt undirstofnun eigi í hlut og hún sé aðildarhæf, sbr. 1. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Oft er undirstofnun stefnt ásamt íslenska ríkinu eða undirstofnun einni sér. Fjölmörg mál eru þessu marki brennd og margvíslegar stofnanir sem hlut eiga að eða tilbrigði við aðild ríkisins. Nægir að nefna sjúkrahúsin víðast hvar á landinu, lögreglu- og sýslumannsembætti, Vegagerðina, framhaldsskóla, Fiskistofu og margar aðrar. Nefna má einnig mál alls kyns stofnana þar sem ágreiningur er um réttarstöðu starfsmanna sem falla undir lög nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, stöðuveitingar eða starfslok. Svona mætti lengi telja. Þá hefur embættið flutt mál fyrir Fjármálaeftirlitið og aðrar sjálfstæðar stofnanir fyrir atbeina hlutaðeigandi ráðherra. Dæmi eru um, þegar undirstofnun er stefnt, að Hæstiréttur telji íslenska ríkið eiga hlut að og er heiti málsins þá breytt því til samræmis. Þá markast aðild máls oft af því hvort rétt sé að undirstofnun eða ráðherra fyrir hönd ríkis sé stefnt, þótt sakarefnið varði í reynd stjórnsýslu í ráðuneyti, sbr. ýmis kærumál. Í þessu ljósi er örðugt að svara fyrirspurninni eða gera á þessu sérstaka könnun.

     4.      Hversu mörg dómsmál gegn undirstofnunum ríkisins þar sem verjandi er annar en ríkislögmaður hafa verið leidd til lykta árlega frá og með árinu 2008?
    Hafa verður sama fyrirvara og við 3. tölul., en spurninguna verður að skýra nánar, þ.e. hvort átt er við mál sem ríkislögmaður hefur falið öðrum eða hvort átt er við mál almennt þar sem lögmenn stofnana eða aðrir hafa flutt mál. Um hið síðarnefnda hefur embættið ekki upplýsingar.

     5.      Hverjir hafa verið verjendur í framangreindum málum, sundurliðað eftir stofnun, ártali og fjölda mála? Hversu mörgum þessara mála hefur lokið með sýknu ríkisins eða undirstofnana þess af dómkröfum og hversu mörgum með viðurkenningu á dómkröfum?
    Hér vísast til svars og fyrirvara við 4. tölul. fyrirspurnarinnar og þeirra fyrirvara sem þar greinir. Þá skal tekið fram að embættið hefur ekki tök á því vegna anna að gera athugun á úrslitum mála, en slík rannsókn er mjög tímafrek og ganga þarf út frá tilteknum skilgreiningum í því sambandi.