Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 563. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 1078 —  563. mál.




Svar



velferðarráðherra við fyrirspurn Þuríðar Backman um fullgildingu
Íslands á samningi Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu
gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi.


     1.      Hvað líður fullgildingu samnings Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi (CETS nr. 210, undirritaður í Istanbúl í maí 2011) af Íslands hálfu og hvenær er fyrirhugað að henni verði lokið af hálfu íslenskra stjórnvalda?
    Velferðarráðuneytið vísar hér til svars innanríkisráðuneytis við þessari spurningu sem þingið ákvað að fela því að svara.

     2.      Hefur efnisleg greining á áhrifum samningsins farið fram? Ef svo er, bendir hún til þess að geri þurfi umtalsverðar laga- eða skipulagsbreytingar áður en samningurinn er fullgiltur og þá á hvaða sviðum?

    Í samræmi við samning Evrópuráðsins tekur þetta svar einungis til heimilisofbeldis, þ.e. ofbeldis karla gegn konum í nánum samböndum og áhrif þess á börn sem eru viðstödd þegar ofbeldið á sér stað. Samningurinn tekur ekki til ofbeldis gegn börnum að öðru leyti. Á hinn bóginn skal tekið fram að mikið starf er nú unnið á vegum stjórnvalda til að koma í veg fyrir ofbeldi gegn börnum. Það er samkvæmt vitundarvakningu, sem er samstarfsverkefni innanríkisráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis og velferðarráðuneytis, í samræmi við svonefndan Lanzarotesamning Evrópuráðsins.
    Svarið er tvíþætt: Annars vegar almennt um ofbeldi gegn konum. Hins vegar er sérkafli um heimilisofbeldi.

Almennt um ofbeldi gegn konum.
    Innanríkisráðuneytið lét gera yfirgripsmikla úttekt á efni samningsins og aðlögun íslenskra laga og reglna svo að fullgilda mætti samning Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi, hinn svokallaða Istanbúl-samning. Mannréttindastofnun Háskóla Íslands annaðist úttektina sem kom út í október 2012. Auk þess býr ráðuneytið yfir talsverðri þekkingu og reynslu á þessu málefnasviði enda var unnið að framkvæmd aðgerðaáætlunar um heimilisofbeldi á árunum 2006–2011 undir stjórn ráðuneytisins.
    Almennt má segja, hvað ofbeldi gegn konum varðar, að ekki þurfi að koma til lagabreytinga á málefnasviði velferðarráðuneytisins til að samningurinn verði fullgiltur. Hins vegar þarf að huga vel að ýmsum framkvæmdaratriðum og ljóst að tryggja þarf fjármagn svo unnt sé að framfylgja ákvæðum samningsins hér á landi. Sem dæmi má nefna að nauðsynlegt er að stjórnvöld standi að aðgerðaáætlunum með reglulegu millibili um þau málefni sem samningurinn lýtur að. Nauðsynlegt er að fjármagn fylgi með til framkvæmda, en bent skal á að ýmsar úrbætur kosta ekki mikið fé. Aðgerðaáætlun gegn kynbundnu ofbeldi fram til ársins 2016 er í vinnslu í ráðuneytinu.
    Aðgerðaáætlun um aðgerðir gegn heimilisofbeldi frá 2006 fylgdi fjármagn sem nýttist vel við framkvæmdina eins og skýrt verður nánar frá síðar í þessu svari. Auk þess gerir samningurinn ráð fyrir að sveitarfélög geri sínar eigin aðgerðaáætlanir. Eftir að aðgerðaáætlun hefur verið sett þurfa ríki og sveitarfélög að efla þau úrræði sem þar koma fram.
    Samningurinn leggur jafnframt mikið upp úr samráði og samstarfi milli þeirra aðila sem hafa með ofbeldi gegn konum að gera í störfum sínum. Samræma þarf aðgerðir gegn kynbundnu ofbeldi og sjá til þess að reglur, sem og framkvæmdin sjálf, taki mið af þeirri þekkingu og reynslu sem gagnast best í baráttunni gegn ofbeldi gegn konum þannig að nauðsynleg heildaryfirsýn fáist yfir málaflokkinn. Í tengslum við samráð og samstarf hefur verið nefnt að koma á fót ofbeldisvarnaráði ríkisins sem samhæfingaraðila um land allt.
    Enn fremur liggur fyrir að bæta þarf og samræma skráningu á ofbeldi gegn konum, svo sem hjá heilbrigðisþjónustu, félagsþjónustu og barnavernd. Með hliðsjón af 24. gr. samningsins þarf að skoða sérstaklega hvort stjórnvöld þurfi að koma á fót neyðarnúmeri sem þolendur ofbeldis og heimilisofbeldis geti hringt í á öllum tímum sólarhrings.
    Auka þarf fræðslu til almennings og faghópa og verður slík fræðsla að vera með reglulegum hætti. Enn fremur er mikilvægt að efla menntun hjá þeim fagstéttum sem fást við kynbundið ofbeldi sem og heimilisofbeldi. Þá hefur verið nefnt að kennsluefni um kynbundið ofbeldi verði hluti af almennu námsefni á öllum námsstigum eftir því sem við á.
    Fylgjast þarf sérstaklega með áhættuhópum, svo sem fötluðum konum og eldri konum, með því að afla þekkingar á stöðu þeirra hópa og beita í framhaldinu viðeigandi stuðningi. Tekið skal fram að í samræmi við framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum er nú á lokastigi rannsókn um ofbeldi gegn fötluðum konum, gerð hjá Háskóla Íslands.

Um heimilisofbeldi.
    Árið 2006 var gerð aðgerðaáætlun um heimilisofbeldi og er framkvæmd hennar nú á lokastigi. Lögð var aðaláhersla á þekkingaröflun, fræðslustarfsemi og samráð milli viðkomandi aðila.
    Ekki er talið nauðsynlegt að styrkja stöðu Kvennaathvarfsins með lagasetningu. Starfsemi Kvennaathvarfsins byggist á þeirri hefð að félagasamtök sjái um reksturinn en ríkissjóður veitir styrk til starfseminnar. Stjórnvöld verða því að tryggja rekstur athvarfsins áfram og taka mið af aukinni aðsókn. Ekki hefur verið sýnt fram á þörf á fleiri kvennaathvörfum en því sem nú er rekið í Reykjavík, en það athvarf stendur opið öllum konum á landinu.
    Fræðsla um heimilisofbeldi verður að beinast jöfnum höndum að almenningi og starfsfólki, svo sem heilbrigðisstarfsmönnum, starfsmönnum félagsþjónustu og barnaverndar. Haldnir hafa verið fræðslufundir og samráðsfundir hjá þeim aðilum sem fást við verkefnið. Árið 2008 voru gefnar út fimm bækur um heimilisofbeldi; ein ætluð til kennslu en aðrar ætlaðar starfsfólki félags- og heilbrigðisþjónustu, þar af ein sérstaklega ætluð ljósmæðrum og önnur lögreglu. Þessum bókum var dreift skipulega til allra stofnana sem bækurnar fjölluðu um. Gera þarf áætlun um að kennsluefni varðandi kynbundið ofbeldi o.fl. verði sett í almennt námsefni á öllum námsstigum þar sem við á. Verður ákvæði um þetta að finna í aðgerðaáætlun stjórnvalda um ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi.
    Leggja verður mikið upp úr samstarfi milli þeirra aðila sem koma nærri heimilisofbeldi. Samkvæmt aðgerðaáætlun ríkisins frá 2006 er nú verið að koma á fót samstarfsteymi til þriggja ára sem hafi umsjón með því að fylgt sé samræmdri heildarstefnu, gerðir samstarfssamningar um tiltekna þjónustu og tilraunaverkefnum hrint í framkvæmd. Í samstarfsteyminu, sem er á vegum velferðaráðuneytis, verða fulltrúar velferðarráðuneytis, innanríkisráðuneytis, sveitarfélaga og lögreglu, sem og Jafnréttisstofu og félagasamtaka.
    Styðja þarf börn sem búa við heimilisofbeldi. Verkefnið heyrir fyrst og fremst undir barnaverndarnefndir sveitarfélaga, en þessum stuðningi hefur ekki verið komið þar á með skipulögðum hætti. Barnaverndarstofa sér nú um tilraunaverkefni á höfuðborgarsvæðinu um að veita börnum bráðaaðstoð og meðferð eftir íhlutun lögreglu vegna heimilisofbeldis. Framhald þess verkefnis er háð því að fjármagn sé fyrir hendi. Vegna mikilvægis þessa tilraunaverkefnis verður verkefninu ekki hætt fyrr en leitað hefur verið allra leiða til að fjármagna það áfram eða að sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu yfirtaki það.
    Skima þarf fyrir heimilisofbeldi hjá heilsugæslunni, öðrum heilbrigðisstofnunum og hjá læknum eftir því sem við á og hjá félagsþjónustu og barnavernd. Þjálfa þarf starfsmenn til að þekkja einkenni heimilisofbeldis, bæði hjá konum og þeim börnum sem búa við þessar aðstæður.
    Frá árinu 2007 hefur teymi tveggja sálfræðinga unnið að meðferð hjá þeim körlum sem beitt hafa konur sínar ofbeldi. Verkefnið er ekki lögbundið en er styrkt af ríkissjóði. Augljóslega er hér um brýnt forvarnarverkefni að ræða sem tryggja þarf fjármagn til þess að það nýtist um land allt.
    Ekki er mögulegt án lagasetningar að koma á tilkynningarskyldu um heimilisofbeldi þegar einungis er um fullorðið fólk að ræða. Ekkert stjórnvald er fyrir hendi sem gæti tekið við slíkum tilkynningum og því er ekki lögð til lagasetning um það efni.
    Nauðsynlegt er að gera kannanir um heimilisofbeldi með vissu millibili. Í samræmi við aðgerðaáætlun velferðarráðherra frá 2006 voru gerðar fimm kannanir á árunum 2009–2010, ein umfangskönnun og fjórar kannanir um viðbrögð félagsþjónustu, barnaverndar, grunnskóla, heilbrigðisþjónustu og lögreglu við ofbeldinu.

    Um allt ofbeldi gegn konum þarf að móta heildstæða stefnu með samræmdum aðgerðum enda varðar slíkt ofbeldi allt samfélagið og verður ekki þolað.