Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 419. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 1103  —  419. mál.
Svarfjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn Margrétar Tryggvadóttur um neysluviðmið.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hver yrði kostnaður ríkisins ef lögfest yrði að sú opinbera framfærsla sem ríkið stendur straum af mundi miðast við neysluviðmið velferðarráðuneytisins? Svar óskast sundurliðað eftir útgjaldaliðum.

    Neysluviðmið þau sem velferðarráðuneytið hefur gefið út eru ætluð í mismunandi tilgangi eins og fram kemur í skýrslu ráðuneytisins Íslensk neysluviðmið (Jón Þór Sturluson o.fl., 2011). Þrjár tegundir viðmiða eru nefndar í skýrslunni: dæmigerð viðmið, skammtímaviðmið og grunnviðmið. Því fyrsta, dæmigerðu viðmiði, er fyrst og fremst ætlað að gefa fólki vísbendingar til að bera eigin neyslu saman við neyslu annarra í líkri stöðu á meðan hin tvö, skammtímaviðmið og grunnviðmið, eru hugsuð í þrengra samhengi eins og nöfn þeirra gefa til kynna.
    Neysluviðmiðin eiga uppruna sinn í miðgildum úr neyslukönnunum Hagstofu Íslands. Miðgildi er sú upphæð sem jafnmargir eru ofan og neðan við. Ef nota á miðgildi sem viðmiðun bóta og annars opinbers stuðnings til þeirra sem rétt eiga á honum leiðir það óhjákvæmilega til þess að umtalsverður hópur fólks, sem ekki á rétt á stuðningi samfélagsins við framfærslu, verður í lakari stöðu en þeir sem fá samfélagslega aðstoð og geta jafnvel þurft að taka þátt í að greiða fyrir hana með sköttum.
    Neysluviðmið taka tillit til fjölskylduaðstæðna þannig að þau eru mismunandi eftir því hversu margir heimilismenn deila kjörum. Fram kemur í ofangreindri skýrslu að árið 2011 var talið að einstaklingur í eigin húsnæði á höfuðborgarsvæðinu þyrfti að eyða rúmlega 200.000 kr. á mánuði til skemmri tíma. Til þess þyrfti viðkomandi að hafa haft um 270.000 kr. í brúttómánaðarlaun. Samkvæmt gögnum fjármála- og efnahagsráðuneytisins um staðgreiðsluskil á því ári voru um 30% þeirra, sem eldri voru en 25 ára og höfðu fengið einhver laun greidd alla mánuði ársins, með laun sem voru lægri en sú upphæð. Með launum er hér átt við laun sem greitt er af í lífeyrissjóð. Lífeyrisþegar sem ekki greiða iðgjald eru því ekki taldir með en atvinnulausir eru með í hópnum. Þetta er hér sett fram til að minna á að þótt aðstæður séu vissulega mismunandi í fjölskyldum þá eru þessar upplýsingar vísbending um að allmargir verða að láta sér nægja að hafa til ráðstöfunar af eigin aflafé lægri upphæðir en þá viðmiðun sem þarna var sett fram og hafa engar forsendur til að fá aðstoð hins opinbera til að auka ráðstöfunartekjur sínar upp að því marki.
    Í fyrirspurninni er vísað til opinberrar framfærslu „sem ríkið stendur straum af“. Hér virðist vera um misskilning að ræða af hálfu fyrirspyrjanda enda er tilfærslukerfi ríkisins ekki framfærsla þótt því sé vissulega ætlað að styðja einstaklinga sem standa höllum fæti við að framfæra sig og sína.
    Engar forsendur eru til þess að færa ráðstöfunartekjur tekjulægri helmings þjóðarinnar upp að miðgildi tekna en lauslegur útreikningur bendir til þess að til að svo mætti verða þyrfti að skattleggja tekjur umfram miðgildið umtalsvert meira en nú er gert. Mikill hluti þeirrar skattlagningar mundi lenda á fólki sem væri með tekjur sem eru innan við tvöfaldar miðgildistekjur. Það er ekki á færi fjármála- og efnahagsráðuneytisins að reikna út hvað kosta mundi að hækka einungis bætur þeirra sem nú þegar njóta stuðning samfélagsins þar sem það hefur ekki undir höndum gögn um aðstæður þeirra og bótarétt.