Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 640. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 1138  —  640. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lagaákvæðum um verðtryggingu neytendasamninga.

Flm.: Lilja Mósesdóttir, Margrét Tryggvadóttir.


I. KAFLI

    Breyting á lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, með síðari breytingum.

1. gr.

    Við 13. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Neytendalán, þar með talin fasteignaveðlán einstaklinga, falla ekki undir ákvæði þessa kafla.

2. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Um endurmat og uppgjör neytendalánasamninga er reynast innihalda ákvæði um verðtryggingu eða vexti sem teljast ógild eða óskuldbindandi fyrir neytendur, skulu gilda ákvæði laga um neytendalán, vaxtalaga, samningalaga, önnur lög og almennar réttarreglur eftir atvikum hverju sinni.

II. KAFLI
    Breyting á lögum um neytendalán, nr. 121/1994, með síðari breytingum.

3. gr.

    1. mgr. 12. gr. laganna fellur brott.

III. KAFLI

     Breytingar á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna, nr. 21/1992,
með síðari breytingum.

4. gr.

    Orðin „og verðtryggingu“ í 3. málsl. 5. mgr. 6. gr. laganna falla brott.

5. gr.

    1. og 2. mgr. 7. gr. laganna falla brott.

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
     a.      2. mgr. orðast svo:
             Fastagreiðslan er 100.000 kr. miðað við launavísitölu 370 nema eftirstöðvar láns ásamt vöxtum og öðrum áföllnum gjöldum séu lægri. Þessi upphæð breytist á hverju ári í hlutfalli við launavísitölu í janúar hvers árs.
     b.      4. mgr. fellur brott.

7. gr.

    1. mgr. 9. gr. orðast svo:
    Hverri endurgreiðslu skal skipt í höfuðstól, vexti og annan lánskostnað eftir atvikum.

IV. KAFLI

     Breyting á lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998, með síðari breytingum.

8. gr.

    1. tölul. 10. gr. laganna orðast svo: Með tekjum af eigin fé sjóðsins, þ.e. afborgunum, vöxtum og öðrum gjöldum sem sjóðurinn innheimtir af veittum lánum.

9. gr.

    Í stað 3. og 4. málsl. 1. mgr. 19. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: ÍLS- veðbréf skulu vera óverðtryggð og bera vexti skv. 21. gr.

10. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 21. gr. laganna:
     a.      Orðin „og verðbóta, ef við á“ í 2. málsl. 2. mgr. falla brott.
     b.      Á eftir 3. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
             Vextir af ÍLS-veðbréfum geta verið breytilegir eða óbreytanlegir allan lánstímann. Íbúðalánasjóður skal setja reglur um vaxtakjör lána og með hvaða hætti þau geta tekið breytingum þegar um er að ræða breytilega vexti. Kveða skal í reglugerð nánar á um lágmarksbinditíma og endurskoðunartímabil breytilegra vaxta.
     c.      1. og 2. málsl. 4. mgr. falla brott.

11. gr.

    1. málsl. 1. mgr. 23. gr. laganna orðast svo: Íbúðalánasjóður innheimtir afborganir, vexti og önnur gjöld af ÍLS-veðbréfum og ráðstafar því fé sem þannig innheimtist til endurgreiðslu fjármögnunarbréfa sjóðsins.

12. gr.

    2. málsl. 24. gr. laganna orðast svo: Stjórn Íbúðalánasjóðs gerir tillögu til ráðherra um vexti, endurgreiðsluform, lánstíma og aðra skilmála í hverjum flokki.

13. gr.

    2. málsl. 1. mgr. 25. gr. laganna orðast svo: Endurgreiðslur fjármögnunarbréfa bera ekki vexti eða önnur sambærileg gjöld eftir gjalddaga.

14. gr.

    2. málsl. 2. mgr. 30. gr. laganna fellur brott.

15. gr.

    1. málsl. 4. mgr. 36. gr. laganna orðast svo: Vextir af lánum til leiguíbúða geta verið fastir eða breytilegir.

16. gr.

    3. málsl. 2. mgr. 48. gr. laganna orðast svo: Heimilt er að fresta greiðslum tímabundið í heild eða að hluta, t.d. þannig að lánþegi greiði eingöngu vexti og sambærileg gjöld.

V. KAFLI

     Breyting á lögum um íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins, nr. 27/1968,
með síðari breytingum.

17. gr.

    4. málsl. 5. gr. laganna fellur brott.

18. gr.

    3. málsl. ákvæðis til bráðabirgða í lögunum, sbr. 4. gr. laga nr. 134/1996, orðast svo: Lánin séu með kjörum sem taki mið af almennum lánum Íbúðalánasjóðs, og til allt að 15 ára.

VI. KAFLI

     Breyting á húsaleigulögum, nr. 36/1994, með síðari breytingum.

19. gr.

    Á eftir 6. gr. laganna kemur ný grein, 6. gr. a., svohljóðandi:
    Leigusamningar sem leigusalar gera í atvinnuskyni við neytendur vegna íbúðarhúsnæðis og innihalda skilmála um að fjárhæðir sem greiða skal taki að einhverju leyti mið af fjármagnskostnaði, þar á meðal vöxtum eða verðtryggingu, skulu fara eftir ákvæðum laga um neytendalán varðandi upplýsingar um lánskostnað sem skylt er að veita þegar samningur er gerður.
    Kveði leigusamningur ekki á um höfuðstól eða samningsfjárhæð til grundvallar lánskostnaði skv. 1. mgr. skal miða við opinberlega skráð fasteignamat hinnar leigðu fasteignar eða eftir atvikum hlutfallslegt fasteignamatsverð hvers fermetra af hina leigða húsnæði á hverjum tíma.

20. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. tölul. 1. mgr. 40. gr. laganna:
     a.      1. málsl. orðast svo: Tryggingarfé sem leigjandi greiðir til leigusala og hann varðveitir á vörslureikningi í sínu nafni hjá banka eða sparisjóði sem heimilt er að kveða á um með samningi.
     b.      4. málsl. fellur brott.
     c.      6. málsl. orðast svo: Ella skal hann skila leigjanda allri innstæðu af vörslureikningi tryggingafjár með áföllnum vöxtum án ástæðulauss dráttar.

21. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og gilda um lán og samninga sem gerðir eru eftir gildistöku þeirra. Þó gildir ákvæði til bráðabirgða í lögum um vexti og verðtryggingu skv. 2. gr. jafnt um eldri samninga sem nýja.

Greinargerð.


    Með breytingum sem lagðar eru til í frumvarpi þessu yrðu ákvæði um verðtryggingu neytendalána, þar með talið fasteignaveðlána, auk leigusamninga og annara samninga sem mynda stofnliði húsnæðiskostnaðar, felld brott úr lögum. Eftir sem áður mundu þó gilda um slíka samninga lög um neytendalán, nr. 121/1994, samningalög og almennt lög um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, nema neytendalán sem yrðu undanskilin VI. kafla þeirra laga um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár.
    Margvísleg rök hníga að afnámi almennrar verðtryggingar neytendalána. Komið hefur í ljós að framkvæmd verðtryggingar hér á landi kann að hafa stangast á við gildandi lög og reglur um árabil. Auk þess hafa nýlegar rannsóknir leitt í ljós að áhrif verðtryggingar eru allt önnur og þveröfug við það sem áður hefur verið haldið fram. Reyndin er sú að verðtrygging ýtir undir þenslu og eykur verðbólgu, sem hefur þannig skaðleg áhrif á hagkerfið í heild og stöðugleika gjaldmiðilsins. Þó að þessi áhrif komi einna verst fram hjá lántakendum sjálfum eru þau ekki einangruð við þá heldur ná auk þess til allra í hagkerfinu sem mega fyrir vikið þola óðaverðbólgu, greiða háa vexti og þurfa að sæta viðvarandi kaupmáttarskerðingu vegna viðvarandi peningalegra þensluáhrifa verðtryggingar á fjármagnseignir.
    Flest sem liggur fyrir bendir til þess að afnám verðtryggingar neytendalána njóti víðtæks stuðnings. Samkvæmt könnun sem Capacent gerði meðal almennings á seinni hluta ársins 2009 reyndust 80% svarenda hlynntir afnámi verðtryggingar. Á seinni hluta ársins 2011 tóku u.þ.b. 37.000 manns undir kröfu um afnám verðtryggingar með þáttöku í undirskriftasöfnun sem Hagsmunasamtök heimilanna stóðu fyrir. Komið hefur fram í opinberri umfjöllun og fjölmiðlum á árinu 2012 að sívaxandi hluti nýrra útlána sé nú óverðtryggur og hefur hlutfallið 86% verið nefnt í því samhengi. Þannig virðist eftirspurn eftir verðtryggðum lánum almennt dvínandi og nánast hverfandi á neytendamarkaði hér á landi.

Um greinar frumvarpsins.
    Með 1. gr. er lagt til að við 13. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, bætist ákvæði sem undanskilji neytendalán frá ákvæðum VI. kafla laganna um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár, með sama hætti og t.d. afleiðusamningar eru undanskildir þeim í vaxtalögum. Með neytendalánum er átt við lánssamninga sem lánveitandi gerir í atvinnuskyni við neytendur, sbr. lög um neytendalán, nr. 121/1994.
    Í 2. gr. er lagt til að bráðabirgðaákvæði verði fært í lög um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, til að skýra með afgerandi hætti forgangsröð laga sem eiga við um endurmat lánssamninga sem hafa reynst innihalda ólögmæt ákvæði um verðtryggingu eða vexti. Ber þar einkum að nefna lög um neytendalán, nr. 121/1994, auk vaxtalaga og samningalaga eftir því sem við á, sem geta til að mynda átt við um lög um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, nr. 7/1936, og ýmis sérákvæði þeirra um samninga sem gerðir eru við neytendur. Tilgangur ákvæðisins er því ekki að hafa efnislega breytingu í för með sér, heldur að árétta með skýrum hætti ótvíræðan rétt neytenda samkvæmt lögum þeim sem nú þegar gilda. Þau vandamál sem á undanförnum árum hafa stafað af ýmsum gerðum neytendalána sem reynst hafa innihalda ákvæði sem eru ólögmæt og þar með óskuldbindandi fyrir neytendur, hafa sýnt svo vart verður um villst mikilvægi þess að efla vitund um neytendarétt hér á landi. Á það ekki aðeins við meðal neytenda sjálfra, heldur ekki síður meðal embættismanna, dómara, lögfræðinga, og annara aðila sem þurfa að nota lagabókstafinn og ber skylda til að framfylgja honum í verki.
    Með 3. gr. er lagt er til að sérákvæði 12. gr. laga um neytendalán, nr. 121/1994, varðandi upplýsingar um kostnað vegna lánssamninga er kveða á um verðtryggingu, verði fellt brott, þar sem almennt verður óheimilt að verðtryggja slíka samninga nema að því leyti sem slík verðtrygging kynni annars að geta rúmast innan ramma laganna. Er í því samhengi vísað til þess að almennt er heimilt að notast við breytilega vexti og ýmis form breytilegs lánskostnaðar, að vissum skilyrðum uppfylltum, og er ekki útilokað að heimilt væri að nota opinber verðlagsviðmið sem grunn verðlagstengdra vaxta eða lánskostnaðar sem getur verið breytilegur með einhverjum gagnsæum hætti. Í 1. mgr. 12. gr. er ekki eingöngu kveðið á um útreikning árlegrar hlutfallstölu kostnaðar verðtryggðra lánssamninga enda er þar einnig gert ráð fyrir að lánssamningur heimili breytilega vexti. Við útreikning árlegrar hlutfallstölu kostnaðar slíkra samninga skal samkvæmt ákvæðinu miða við að vextir og önnur gjöld verði óbreytt til loka lánstímans. Ekki verður séð að slíkur útreikningur gefi raunhæfa mynd af kostnaðinum og er því ákvæðið fellt brott í heild sinni. Eftir sem áður mundu lánaform með breytilegan kostnað þó þurfa að uppfylla skilyrði um upplýsingagjöf um lánskostnað.
    Í III. kafla eru settar fram heildstæðar tillögur um breytingar á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna, nr. 21/1992, sem fela í meginatriðum í sér að námslán frá sjóðnum verði framvegis ekki verðtryggð. Af þeim sökum eru einnig gerðar nokkrar breytingar á þeim ákvæðum laganna þar sem gert er ráð fyrir verðtryggingu, þar á meðal að í stað vísitölu neysluverðs miðist fastagreiðsla við launavísitölu.
    Í IV. kafla. eru settar fram heildstæðar tillögur um breytingar á lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998, varðandi útlán Íbúðalánasjóðs, sem í meginatriðum fela í sér að framvegis verði lán frá sjóðnum án verðtryggingar. Af þeim sökum eru einnig gerðar nokkrar breytingar á þeim ákvæðum laganna þar sem gert er ráð fyrir verðtryggingu.
    Með 8., 11., 13. og 16. gr. er lagt til að orðalagi viðkomandi ákvæða laga um starfsemi Íbúðalánasjóðs og innheimtu gjalda af veittum lánum verði breytt þannig að þar sé ekki gert ráð fyrir verðtryggingu sérstaklega. Eftir sem áður mundi innheimta verðbóta af eldri verðtryggðum lánum þó rúmast innan ramma hins almennara orðalags sem getur um „önnur gjöld“ en breytingarnar ættu ekki að hindra það heldur einungis samræma orðalagið við það markmið að afnema verðtryggingu til framtíðar.
    Með 9., 10. og 12. gr. er lagt til að þeim ákvæðum sem kveða á um verðtryggingu ÍLS- veðbréfa verði breytt þannig að þau kveði ekki á um verðtryggingu, heldur aðeins vexti, en því er ætlað að hafa þau áhrif að lánssamningar sjóðsins skuli framvegis ekki kveða á um verðtryggingu. Að öðru leyti er gert ráð fyrir því að áfram verði sem hingað til á verksviði sjóðsins að setja reglur um lánskjör, þar á meðal um vexti, og er ekki lagt til að neinar aðrar breytingar verði á því fyrirkomulagi.
    Með 14. og 15. gr. er lagt til að lán sem Íbúðalánasjóði er heimilt að veita til fjármögnunar húsnæðis fyrir hjúkrunarheimili og leiguíbúðir verði framvegis ekki verðtryggð. Með þessu yrðu umrædd ákvæði færð til samræmis við þau markmið frumvarpsins að eyða áhrifum verðtryggingar á húsnæðiskostnað, en fjármögnunarkjör vegna húsnæðis mynda í flestum tilvikum meiri hlutann af föstum rekstrarkostnaði hvers konar heimila og eru þar af leiðandi ráðandi um þann kostnað sem hlýst af búsetu heimilisfólks, hvort sem það býr í eigin fasteign, í leiguhúsnæði eða á opinberri stofnun. Þó svo að þau lán sem hér um ræðir séu vissulega ekki venjuleg neytendalán verður þó ekki framhjá því litið að íbúar á heimilum í húsnæði sem fjármagnað er með þessum hætti, eru án undantekninga neytendur.
    Í V. kafla eru settar fram heildstæðar tillögur um breytingar á lögum um íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins, nr. 27/1968, til samræmis við þann tilgang frumvarpsins að nema á brott verðtryggða kostnaðarliði vegna íbúðarhúsnæðis. Annars vegar er lagt til að felld verði brott heimild til að setja viðmiðunarreglur um leigu með vísitölutengingu og hins vegar er lagt til að bráðabirgðaákvæði um heimild til að selja ríkisstarfsmönnum húsnæði með sérstökum kjörum í vissum tilvikum, verði breytt til samræmis við þau markmið frumvarpsins að eyða áhrifum verðtryggingar á húsnæðiskostnað. Þó svo að þau lán sem hér um ræðir séu vissulega ekki venjuleg neytendalán verður þó ekki framhjá því litið að íbúar heimila í húsnæði sem er leigt eða keypt af ríkinu, eru án undantekninga einnig neytendur. Jafnframt er lagt til að lánskjör þess hluta kaupverðs sem lánað er fyrir við sölu miðist við almenn kjör Íbúðalánasjóðs.
    Í VI. kafla eru settar fram heildstæðar tillögur um breytingar á húsaleigulögum, nr. 36/1994, til samræmis við þann tilgang frumvarpsins að draga úr áhrifum verðtryggingar á kostnað vegna íbúðarhúsnæðis. Reyndar er ekki sérstaklega gert ráð fyrir verðtryggingu í núgildandi húsaleigulögum en aftur á móti getur fjárhæð leigu verið breytileg og á grundvelli samningsfrelsis hefur til að mynda mátt kveða á um tengingu við vísitölu neysluverðs og verðtryggja leigusamninga þannig í reynd. Með greinunum er lagt til að slíkt verði eftir sem áður heimilt en að um það gildi jafnframt skýrar og samræmdar reglur.
    Með 19. gr. er lagt til að ný grein bætist við húsaleigulög sem kveði á um reglur sem skuli gilda þegar um er að ræða samninga við neytendur þar sem tilteknir kostnaðarliðir eða einhver hluti leigu taka mið af fjármagnskostnaði í einhverri mynd. Hér er tekið mið af þeim sjónarmiðum sem komu fram í dómum Hæstaréttar um gengistryggingu svokallaðra bílasamninga, t.d. í máli nr. 153/2010 sbr. mál nr. 92/2010, þar sem niðurstöður dómsins grundvölluðust m.a. á því að viðkomandi samningar fælu í sér ákvæði um vexti og verðtryggingu og hefðu þannig ýmis af helstu einkennum lánssamninga þrátt fyrir að hafa verið færðir í búning leigusamninga. Slíkum samningi sem kveður á um vexti eða verðtryggingu eða hvort tveggja er þannig með góðu móti hægt að líkja við lánssamning sem felur í sér greiðslu fjármagnskostnaðar af tilteknum höfuðstól, og er þá venja að miða við þann hluta kaupverðs sem ekki er staðgreiddur af neytanda heldur fjármagnaður með slíkum samningi. Lagt er til að hér verði meginreglan sú að miða við fasteignamatsverð en þó megi semja um annað viðmið. Hvað húsaleigu varðar má líkja þessu fyrirkomulagi við sviðsmynd þar sem húsnæði væri tekið að láni þann tíma sem samningur er í gildi gegn greiðslu lánskostnaðar eða annara tíma- og fjárhæðartengdra þóknana, en við endalok samningstíma greiðist höfuðstóll lánsins til baka með afhendingu húsnæðisins á ný til umráða leigusala. Ef vel er að gáð má sjá allnokkur líkindi með slíkum viðskipum og lánveitingu þar sem aðeins eru greiddir vextir á samningstímanum en allur höfuðstóll lánsins greiðist upp í lokin, svokölluð kúlulán, eða veltilán ef um er að ræða framlengjanlega samninga, jafnvel svokölluð ævarandi lán eða eilífðarlán þegar um er að ræða ótímabundna samninga. Nánari skilgreiningar framangreinda hugtaka má til dæmis finna í Hagfræðiorðasafni orðanefndar viðskipta- og hagfræðinga, og víðar.
    Með 20. gr. er lagt til að gerð verði sú breyting á 40. gr. húsaleigulaga að ekki verði framvegis skylt að tryggingafé á vörslureikningi í nafni leigusala sé verðtryggt, heldur skuli varðveita það á vörslureikningi og heimilt sé að kveða á um það með samningi. Þannig fengju leigusalar og leigjendur aukið frelsi um með hvaða hætti þeir semja um slíka vörslu sín á milli, þar á meðal um val á þeirri fjárvörsluleið sem þeir telja hentuga með hliðsjón af öryggi, ávöxtun, og öðru sem skipt gæti máli.
    Lagt er til í 21. gr. að lög samkvæmt frumvarpinu öðlist þegar gildi og nái til samninga sem gerðir eru eftir gildistöku þeirra. Þannig hafi breytingarnar ekki afturvirk áhrif á eldri samninga. Þó er það áréttað að ákvæði til bráðabrigða í lögum um vexti og verðtryggingu skv. 2. gr. til skýringar gildandi lögum nái almennt til allra samninga.Fylgiskjal.


Yfirlit ýmissa ákvæða er varða verðtryggingu og vísitölutengingu.

    Auk þeirra laga sem eiga við um verðtryggingu neytendalána og -samninga eru ýmis önnur lög í gildi hér á landi sem innihalda ákvæði varðandi verðbætur, verðtryggingu eða vísitölutengingu af einhverju tagi. Við leit á vefsíðu Alþingis eftir lykilorðunum verðtrygging, verðtryggð, verðbætur og vísitala koma upp tilvísanir til fjölmargra laga og reglna til viðbótar við þau lög sem frumvarpið nær til. Eftirfarandi er lauslega flokkað yfirlit þeirra.

I. Lög og reglugerðir sem ýmsar vísitölur grundvallast á.
          1976 nr. 44 25. maí, lög um Fiskveiðasjóð Íslands (felld úr gildi með lögum nr. 60/1997 um FBA).
          1984 nr. 5 22. mars, lög um vísitölu framfærslukostnaðar og skipan Kauplagsnefndar (fallin úr gildi).
          1987 nr. 42 30. mars, lög um vísitölu byggingarkostnaðar (VBK, notuð í tengslum við framkvæmdir).
          1989 nr. 89 31. maí, lög um launavísitölu (LVT, myndar vegin með atvinnustigi greiðslujöfnunarvísitölu).
          1991 nr. 277 14. júní, reglugerð fyrir Fiskveiðasjóð Íslands (reikningseining Fiskveiðasjóðs, RFÍ).
          1995 nr. 12 2. mars, lög um vísitölu neysluverðs (VNV, leysti af hólmi vísitölu framfærslukostnaðar).
          2001 nr. 38 26. maí, lög um vexti og verðtryggingu (einkum 10. gr. um vaxtaviðmið Seðlabanka Íslands).

II. Lög sem gera ráð fyrir verðbótum eða verðtryggingu með almennum hætti.
          1989 nr. 90 1. júní, lög um aðför (grundvöllur aðfarar nær einnig til verðbóta ef við á um kröfu).
          1991 nr. 21 26. mars, lög um gjaldþrotaskipti o.fl. (gert ráð fyrir verðbótum á kröfur ef við á).
          1991 nr. 90 23. desember, lög um nauðungarsölu (gert ráð fyrir verðbótum á kröfur ef við á).
          1992 nr. 87 17. nóvember, lög um gjaldeyrismál (vextir og verðbætur undanþegin gjaldeyrishöftum).
          1993 nr. 97 12. ágúst, lög um Húsnæðisstofnun ríkisins (brottfelld að mestu með lögum um ÍLS).
          1997 nr. 75 28. maí, lög um samningsveð (heimild til að binda fjárhæð í veðbréfi við hækkun samkvæmt vísitölu eða gengi miðað við skráða grunntölu verðtryggingar).
          2004 nr. 99 9. júní, lög um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa (upplýsingaskylda um verðtryggingu áhvílandi veðskulda í söluyfirliti eftir því sem við á).
          2007 nr. 150 20. desember, lög um fyrningu kröfuréttinda (fyrning krafna vegna verðbóta).
          2010 nr. 101 2. júlí, lög um greiðsluaðlögun einstaklinga (upplýsingaskylda og tengingar við LVT).

III. Lög um skatta og opinber gjöld sem gera ráð fyrir verðbótum og verðtryggingu.
          1988 nr. 50 24. maí, lög um virðisaukaskatt (verðbætur geta talist hluti af skattverði vöru).
          1989 nr. 52 29. maí, lög um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur (tenging hækkana á skilagjaldi við VNV).
          1995 nr. 4 30. janúar, lög um tekjustofna sveitarfélaga (verðbætur á ógreitt og ofgreitt útsvar).
          1996 nr. 94 14. júní, lög um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur (skattskylda verðbóta).
          1997 nr. 27 5. maí, lög um uppgjör á vangoldnum söluskatti, launaskatti, tekjuskatti og eignarskatti (skuldabréf gefin út til greiðslu skattaskulda skulu vera verðtryggð miðað við VNV).
          2003 nr. 90 7. maí, lög um tekjuskatt (skattskylda verðbóta og tenging skattstofna við LVT).
          2004 nr. 14 26. mars, lög um erfðafjárskatt (skattskylda áfallinna verðbóta á fjármagnseignir).
          2006 nr. 153 15. desember, lög um gatnagerðargjald (tenging gatnagerðargjalda við vísitölu byggingarkostnaðar og endurgreiðslu eldri ofgreiddra gatnagerðargjalda við vísitölu neysluverðs).
          2011 nr. 109 16. september, lög um skattlagningu á kolvetnisvinnslu (skilgreining verðbóta sem hluta frádráttarbærs fjármagnskostnaðar).

IV. Lög varðandi verðtryggingu lífeyrisréttinda, almannatrygginga og skyldutrygginga.
          1972 nr. 53 29. maí, lög um orlof húsmæðra (tenging orlofs við VFK/VNV).
          1994 nr. 48 6. maí, lög um brunatryggingar (tenging vátryggingarfjárhæða við VBK).
          1996 nr. 65 5. júní, lög um réttaraðstoð við einstaklinga sem leita nauðasamninga (tenging við VNV).
          1997 nr. 1 10. janúar, lög um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins (tenging grundvallarlauna við VNV).
          1997 nr. 129 23. desember, lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða (verðtrygging lífeyrisréttinda m.v. VNV).
          1997 nr. 138 23. desember, lög um húsaleigubætur (tenging hámarksfjárhæðar við VNV).
          1998 nr. 155 28. desember, lög um Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda (tenging barnalífeyris við VNV).
          1999 nr. 12 11. mars, lög um Lífeyrissjóð bænda (tenging grundvallarlauna við VNV).
          1999 nr. 98 27. desember, lög um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta (verðbætur).
          2000 nr. 111 25. maí, lög um sjúklingatryggingu (tenging hámarks bótafjárhæðar við VNV).
          2007 nr. 100 11. maí, lög um almannatryggingar (tenging bótafjárhæða við VNV).
          2010 nr. 47 28. maí, lög um sanngirnisbætur fyrir misgjörðir á stofnunum eða heimilum sem falla undir lög nr. 26/2007 (tenging bótafjárhæða við VNV).

V. Lög varðandi verðtryggingu og verðbætur í atvinnurekstri og opinberum rekstri.
          1955 nr. 3 6. mars, lög um skógrækt (verðtrygging skógræktarstyrkja miðað við VBK).
          1983 nr. 79 28. desember, lög um innlenda lánsfjáröflun ríkissjóðs (verðtrygging ríkisskuldabréfa).
          1993 nr. 99 8. september, lög um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum (tengingar við VNV).
          1997 nr. 49 23. maí, lög um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum (verðtryggð lán ofanflóðasjóðs).
          1997 nr. 60 26. maí, lög um stofnun Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. (verðtrygging m.v. RFÍ).
          1998 nr. 153 28. desember, lög um byggingarsamvinnufélög (tenging forkaupsverðs við VBK).
          2004 nr. 80 9. júní, ábúðarlög (tenging kaupverðs í vissum tilfellum við VBK).
          2007 nr. 84 30. mars, lög um opinber innkaup (tenging viðmiðunarfjárhæða við VNV og upplýsingaskylda um verðbætur í útboðsgögnum eftir því sem við á).
          2008 nr. 75 11. júní, lög um frístundabyggð og leigu lóða undir frístundahús (upplýsingaskylda um verðtryggingu í leigusamningi ef við á, og jafnframt grundvöllur mats á leiguverði við framlengingu).
          2012 nr. 74 26. júní, lög um veiðigjöld (tengingar við verðvísitölur sjávarafurða og VBK).

VI. Lög sem kveða á um vísitölutengingu stofnfjár og rekstrarfjármuna.
          1988 nr. 19 5. maí, lög um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá.
          1991 nr. 22 27. mars, lög um samvinnufélög (almenn verðtrygging séreignarhluta í stofnsjóði).
          1997 nr. 61 26. maí, lög um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins (tenging lágmarks eigin fjár við VNV).
          1999 nr. 33 19. mars, lög um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur (tenging við VNV).
          2002 nr. 161 20. desember, lög um fjármálafyrirtæki (stofnfjárhækkun sparisjóða hámarkast af VNV).
          2007 nr. 110 26. júní, lög um kauphallir (tenging starfsábyrgðartryggingar við VNV).
          2010 nr. 56 10. júní, lög um vátryggingastarfsemi (tenging viðmiðunarfjárhæða lágmarksgjaldþols tryggingafélaga við samræmda vísitölu neysluverðs í aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins).

VII. Lög þar sem ýmsar viðmiðunarfjárhæðir eru vísitölutengdar.
          1993 nr. 50 19. maí, skaðabótalög (tenging viðmiðunarfjárhæða við LKV).
          1994 nr. 93 20. maí, lyfjalög (tenging eftirlitsgjalds við körfu LVT og VNV).
          1996 nr. 45 17. maí, lög um mannanöfn (tenging hámarks sektarfjárhæða við VNV).
          1997 nr. 71 28. maí. lögræðislög (tenging fjárhæða ýmissa gjalda við VNV).
          1999 nr. 44 22. mars, lög um náttúruvernd (tenging lágmarksfjárhæðar sekta við VNV).
          2003 nr. 61 27. mars hafnalög (allar verðmætaviðmiðanir tengdar VNV).
          2003 nr. 87 26. mars, lög um Orkustofnun (greiðslur fyrir kostnað tengdar VNV).
          2006 nr. 95 13. júní, lög um landshlutaverkefni í skógrækt (tenging framlaga til skógræktar við VNV).
          2008 nr. 72 11. júní, lög um Fiskræktarsjóð (tenging viðmiðunarfjárhæða við VNV).
          2011 nr. 57 1. júní, lög um skil menningarverðmæta til annarra landa (tenging við VNV).

VIII. Lög sem sett hafa verið til að takast á við afleiðingar verðtryggingar neytendalána.
          1983 nr. 81 28. desember, lög um heimild til að fresta greiðslum vegna verðtryggðra íbúðalána.
          1985 nr. 63 26. júní, lög um greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga.
          2009 nr. 50 21. apríl, lög um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði.

IX. Ýmislegt.
    Í lögum um fjármálafyrirtæki, verðbréfaviðskipti, fagfjárfestingasjóði, greiðsluþjónustu o.þ.h. er getið um vísitölutengingu á ýmsum stöðum í samhengi þar sem um er að ræða skilgreiningar á eiginleikum ákveðinna tegunda fjármálagjörninga sem þekktir eru í því samhengi. Aftur á móti er ekki að finna í þeim nein ákvæði varðandi verðtryggingu neytendalána sérstaklega, eða sem skipt gætu máli hér.