Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 607. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 1180  —  607. mál.




Svar



innanríkisráðherra við fyrirspurn Þorgerðar K. Gunnarsdóttur um FBI og mál
sem er til rannsóknar hjá ríkissaksóknara og ríkislögreglustjóra.


     1.      Kom ráðherra, eða eftir atvikum utanríkisráðherra, þeirri kröfu á framfæri við bandaríska dómsmálaráðuneytið að bandaríska alríkislögreglan (FBI) þyrfti nýja formlega réttarbeiðni í máli sem er til rannsóknar hjá ríkissaksóknara og ríkislögreglustjóra, sbr. orð ráðherra á fundi með embættismönnum 25. ágúst 2011? Ef svo var ekki, hvernig stendur þá á því?
    Kveðið er á um réttaraðstoð í sakamálum í lögum nr. 13 frá 1984, um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum. Þannig er hægt að leggja fram réttarbeiðni til að afla sönnunargagna hér á landi til notkunar í refsimáli í öðru ríki. Ef eðli rannsóknarinnar breytist eftir að réttarbeiðni er lögð fram er iðulega sett fram viðbótarréttarbeiðni. Ef um grundvallarbreytingu er að ræða þarf hins vegar að leggja fram nýja réttarbeiðni.
    Réttarbeiðni, sem barst frá bandarískum stjórnvöldum 30. júní 2011, tók til tiltekinna aðgerða í þágu rannsóknar á máli sem tengdist meintum undirbúningi tölvuárásar á íslenska stjórnarráðið og á fyrirtæki hér á landi. Samkvæmt þeim upplýsingum, sem ráðuneytinu barst frá ríkissaksóknara um fyrirætlanir FBI í ágúst 2011, var þá um að ræða aðgerðir sem voru allt annars eðlis en greindar höfðu verið í réttarbeiðninni. Því þurfti að mati ráðuneytisins aðra réttarbeiðni er tók til þeirra tilteknu aðgerða. Þessu sjónarmiði ráðuneytisins var komið til ríkissaksóknara og ríkislögreglustjóra er áttu samskipti við fulltrúa bandarísku alríkislögreglunnar er hafði þá komið til landsins. Þetta var ekki tilkynnt sérstaklega til bandaríska dómsmálaráðuneytisins þar sem ekkert erindi frá bandaríska dómsmálaráðuneytinu lá fyrir í ráðuneytinu annað en almenn fyrirspurn varðandi heimildir bandarískra lögregluyfirvalda til þess að annast yfirheyrslu á einstaklingum hér á landi. Því erindi var svarað innan tveggja daga af hálfu ráðuneytisins. Þegar síðar kom í ljós að fulltrúar FBI voru enn að störfum hér á landi þann 29. ágúst 2011 áttu ráðuneytisstjórar innanríkis- og utanríkisráðuneytisins fund með fulltrúa sendiráðs Bandaríkjanna þar sem framangreindar upplýsingar voru ítrekaðar.

     2.      Krafðist ráðherra á fyrrnefndum fundi að starfsmenn FBI færu strax úr landi?
    Samstarf íslenskra lögregluyfirvalda við FBI var stöðvað 25. ágúst 2011 þar sem fyrirliggjandi réttarbeiðni náði ekki til þeirra aðgerða sem FBI hugðist þá grípa til. Erlend lögreglulið hafa ekki heimild til að sinna lögreglustörfum hér á landi án samstarfs við íslensk yfirvöld.

     3.      Á grundvelli hvaða gagna og af samtölum við hverja er sú skoðun ráðherra byggð að einstaklingur sem hafði gefið sig fram til að ræða við FBI um hugsanleg tölvubrot hafi verið tálbeita á vegum FBI, sbr. ummæli ráðherra í sérstökum umræðum á Alþingi 14. febrúar sl.?
    Ráðherra byggði þetta á upplýsingum frá starfsmönnum ráðuneytisins og ríkissaksóknara.

     4.      Á hvaða gögnum byggist sú niðurstaða ráðherra að um tvö aðskilin mál sé að ræða þegar bæði ríkissaksóknari og ríkislögreglustjóri eru annarrar skoðunar, en margoft hefur komið fram að hið sjálfstæða ákæruvald taldi að eitt og sama mál væri til rannsóknar hjá íslenskum yfirvöldum en ekki tvö líkt og ráðherra hefur fullyrt?
    Sú réttarbeiðni sem lá fyrir var ekki í samræmi við þær upplýsingar sem ríkissaksóknari veitti ráðuneytinu 25. ágúst 2011. Var það því mat ráðuneytisins að um tvö aðskilin mál væri að ræða hvað varðar réttarbeiðni.
    Innanríkisráðuneytið er miðstjórnarvald hvað varðar gagnkvæma réttaraðstoð milli ríkja. Þannig er það hlutverk ráðuneytisins að taka á móti réttarbeiðnum, fara yfir skilyrði laga nr. 13/1984, framsenda þær til meðferðar hjá ríkissaksóknara og afgreiða að þeirri meðferð lokinni til viðkomandi ríkis. Það var niðurstaða ráðuneytisins sem miðstjórnarvalds að fyrirliggjandi réttarbeiðni um tilteknar aðgerðir íslensku lögreglunnar í þágu rannsóknar sakamáls í Bandaríkjunum, sem laut að því að brjótast eða „hakka“ sig inn í tölvukerfi íslenskra stjórnvalda, tæki ekki til þeirra aðgerða sem bandaríska alríkislögreglan hugðist framkvæma hér á landi í ágúst 2011.

     5.      Telur ráðherra heppilegt að hið pólitíska vald hafi aðra sýn á málið en faglegt og sjálfstætt ákæruvald?
    Ef fyrirspurn þingmannsins varðar stjórnsýslu er varðar meðferð réttarbeiðna í sakamálum þá gegnir ráðherra tilteknu hlutverki sem miðstjórnarvald, bæði á grundvelli þjóðréttarskuldbindinga og laga nr. 13/1984, um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum. Við mat á því hvort og þá með hvaða hætti réttarbeiðnir er berast íslenskum stjórnvöldum erlendis frá uppfylla skilyrði laga nr. 13/1984 þá er það hlutverk ráðuneytisins að taka afstöðu til þess hvort réttarbeiðni sé tæk til umfjöllunar. Það er hins vegar á ábyrgð ríkissaksóknara að stjórna umbeðnum rannsóknaraðgerðum og gæta þess að þær fari fram á grundvelli íslenskra réttarfarslaga. Ráðuneytið hefur engin afskipti af því ferli. Þess ber að geta að í þessu tilviki átti ríkissaksóknari frumkvæði að því að óska eftir aðild ráðuneytisins að málinu.
    Ef fyrirspurn þingmannsins varðar hins vegar meðferð ákæruvaldsins varðandi rannsókn og saksókn íslenskra mála þá er ríkissaksóknari æðsti handhafi ákæruvalds hér á landi og er við meðferð ákæruvalds óháður vilja stjórnvalda sem og annarra. Innanríkisráðherra telst ekki meðal handhafa ákæruvalds, nema í þeim fáu tilvikum þar sem lög tilgreina sérstaklega að mál skuli því aðeins höfðað að ráðherra mæli svo fyrir.

     6.      Telur ráðherra nokkuð því til fyrirstöðu að fram fari opinber rannsókn þar sem meðal annars öll gögn málsins verði skoðuð og lögð fram?

    Ráðherra sér ekkert því til fyrirstöðu að fram fari opinber rannsókn á þessu máli að því gefnu að rannsóknarhagsmunum sé ekki teflt í tvísýnu að mati ríkissaksóknara.