Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 100. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 1187  —  100. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit



um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 115/2012 um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn.

Frá meiri hluta utanríkismálanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bergþór Magnússon og Jóhönnu Bryndísi Bjarnadóttur frá utanríkisráðuneyti, Kjartan Ingvarsson og Stefán Einarsson frá umhverfis- og auðlindaráðuneyti og Hólmfríði Sigurðardóttur og Ingva Gunnarsson frá Orkuveitu Reykjavíkur. Þá hafa nefndinni borist gögn frá utanríkisráðuneyti vegna málsins og umsögn frá Orkuveitu Reykjavíkur.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES- nefndarinnar nr. 115/2012, frá 15. júní 2012, um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/31/EB frá 23. apríl 2009 um geymslu koltvísýrings í jörðu og um breytingu á tilskipun ráðsins 85/337/EBE, tilskipunum Evrópuþingsins og ráðsins 2000/60/EB, 2001/80/EB, 2004/35/EB, 2006/12/EB, 2008/1/EB og reglugerð (EB) nr. 1013/ 2006. Sex mánaða frestur, samkvæmt EES-samningnum, til að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara er veittur til 15. desember 2012. Framsetning tillögunnar telst að mati nefndarinnar í samræmi við 4. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála frá 1. október 2010.
    Markmið tilskipunarinnar er örugg geymsla koldíoxíðs í jarðlögum. Tilgangur þess að fanga koldíoxíð varanlega úr andrúmsloftinu er að draga úr neikvæðum áhrifum og áhættu fyrir umhverfið og heilsu manna, að því marki sem mögulegt er, og leggja þannig lóð á vogarskálarnar í baráttunni gegn hlýnun jarðar af völdum gróðurhúsaáhrifa.
    Innleiðing tilskipunarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi. Ef ákveðið verður að heimila þá starfsemi, sem fellur undir gildissvið tilskipunarinnar, þarf að setja löggjöf m.a. um: rannsóknarleyfi, geymsluleyfi, skyldur rekstraraðila og ríkisins, ábyrgð á geymslustöðum, aðgang að flutningsleiðum og geymslustöðum og viðurlög. Ef ákveðið verður að heimila ekki slíka starfsemi þarf að banna hana sérstaklega með lögum.
    Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að umhverfis- og auðlindaráðuneytið mun mögulega leggja til að nýtt verði sú heimild í tilskipuninni að banna geymslu koldíoxíðs í skilningi tilskipunarinnar á öllu yfirráðasvæði Íslands. Ef svo færi yrði slíkt bann tímabundið og jafnvel háð endurskoðun samkvæmt ákvæði sem setja mætti í lög. Fram kom að bannið mundi ekki hafa áhrif á þau tilraunaverkefni um geymslu koldíoxíðs sem eru í gangi á Íslandi þar sem umfang þeirra væri enn ekki slíkt að þau féllu undir gildissvið tilskipunarinnar. Þá kom fram að yrðu íslensk tilraunaverkefni, t.d. á vegum Orkuveitu Reykjavíkur, síðar að raunverulegum framkvæmdaverkefnum á þeim mælikvarða sem félli undir ákvæði tilskipunarinnar mætti aflétta banninu og heimila kolefnisföngun og geymslu. Hugsunin væri að með því mætti forðast kostnað fyrir ríkissjóð þar til fullvissa ríkti um hvort þessi tilraunaverkefni kæmu að fullu til framkvæmda eða ekki. Kostnaður yrði að öðrum kosti verulegur fyrir ríkissjóð, svo sem vegna regluverks í kring um rannsóknarleyfi og geymsluleyfi og vegna skyldna ríkisins, svo sem vegna mats á viðkomandi svæðum o.s.frv. Heppilegt gæti verið að heimila starfsemina um það leyti sem mögulegir rekstraraðilar væru í stakk búnir til að standa straum af þjónustugjöldum og eftirlitsgjöldum sem mundu geta komið á móti útgjöldum ríkissjóðs. Þegar og ef til þess kæmi að banni af þessu tagi yrði aflétt yrði að innleiða ákvæði tilskipunar 2009/31/EB í landsrétt eins rakið er hér að framan.
    Umhverfis- og auðlindaráðherra mun leggja fram frumvarp í þessa veru til innleiðingar á tilskipuninni á komandi þingi. Eftir framlagningu mun frumvarpið að líkindum koma til umfjöllunar í umhverfis- og samgöngunefnd.
    Meiri hlutinn leggur til að litið verði til framangreindra sjónarmiða við undirbúning lagafrumvarps til innleiðingar tilskipunarinnar. Jafnframt hvetur meiri hlutinn til að áfram verði haft gott samráð við alla aðila vegna innleiðingar tilskipunarinnar í íslenskan rétt.
    Gert ráð fyrir að innleiðing tilskipunarinnar með nýtingu framangreindrar heimildar í tilskipuninni muni hafa í för með sér óverulegan kostnað fyrir ríkissjóð. Þá kemur fram í gögnum frá ráðuneytinu að innleiðing tilskipunarinnar með öðrum hætti mundi hafa í för með sér verulegan kostnað fyrir ríkissjóð, eins og að framan greinir.
    Meiri hlutinn leggur til að tillagan verði samþykkt.
    Bjarni Benediktsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 8. mars 2013.



Árni Þór Sigurðsson,


form., frsm.


Árni Páll Árnason.


Mörður Árnason.



Þuríður Backman.


Oddný G. Harðardóttir.