Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 539. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 1264  —  539. mál.




Svar



velferðarráðherra við fyrirspurn Vigdísar Hauksdóttur um fækkun starfa.


     1.      Hvað hefur störfum á hinum almenna vinnumarkaði fækkað mikið árin 2010, 2011 og 2012?
    Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands sýna gögn Hagstofunnar fjölda starfandi á vinnumarkaði og byggja þær tölur á úrtaksrannsókn, svokallaðri vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar. Fjöldi þeirra sem er starfandi gefur ekki endilega rétta mynd af fjölda starfa (stöðugilda) á markaði og er slíkur samanburður því varasamur. Auk þess er gögnum Hagstofunnar ekki skipt eftir almennum vinnumarkaði annars vegar og opinberum vinnumarkaði hins vegar heldur er notast við atvinnugreinaflokkun ÍSAT. Umbeðin sundurliðun er því ekki möguleg að svo stöddu.

     2.      Hvað hefur störfum í opinbera geiranum fjölgað mikið 2010, 2011 og 2012, sundurliðað eftir:
                  a.      ríkinu,
                  b.      sveitarfélögum,
                  c.      ríkisfyrirtækjum sem einkaaðilar koma að (ohf. og önnur slík félög)?

    Í töflunni hér á eftir má sjá fjölda stöðugilda hjá ríki annars vegar og sveitarfélögum hins vegar. Einhvern hluta fækkunar ríkisstarfsmanna má rekja til flutnings verkefna frá ríki til sveitarfélaga og vegur þar flutningur á málefnum fatlaðra til sveitarfélaga árið 2010 sérstaklega þungt.
    
Ár

Ríki

Sveitarfélög
2010 17.746 19.242
2011 16.808 19.657
2012 16.727 19.621
Heimild: Fjársýsla ríkisins og Samband íslenskra sveitarfélaga .
    
    Miðlægar upplýsingar varðandi c-lið, ríkisfyrirtæki sem einkaaðilar koma að, liggja ekki fyrir.