Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 667. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 1364  —  667. mál.
Svarinnanríkisráðherra við fyrirspurn Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur
um ættleiðingar til samkynhneigðra.


     1.     Hefur ráðherra beitt sér fyrir því að Ísland nái ættleiðingarsamningi við land sem er tilbúið til að ættleiða til samkynhneigðra? Ef svo er, hvernig? Hvernig hyggst ráðherra vinna frekar að slíkum samningum?
    Ráðherra hefur ekki haft frumkvæði að því að kanna hjá öðrum ríkjum (upprunaríkjum) hvort vilji sé fyrir því að koma á samkomulagi um ættleiðingar á börnum til samkynhneigðra hér á landi. Það helgast ekki síst af því að það er mat ráðuneytisins í ljósi þess fyrirkomulags sem ríkir um millilandaættleiðingar á Íslandi, þ.e. að þær fari fram fyrir milligöngu löggiltra ættleiðingarfélaga, að það sé hlutverk slíkra félaga að hafa frumkvæði að því að afla nýrra sambanda við upprunaríki. Óski löggilt félag, eftir athugun á aðstæðum og þörfum tiltekins ríkis, eftir að taka upp samstarf við viðkomandi ríki veitir ráðuneytið á hinn bóginn liðsinni sitt við að koma slíku samstarfi á, enda verði talið að reglur ríkisins um málsmeðferð uppfylli öryggiskröfur Haag-samningsins um vernd barna og samvinnu varðandi ættleiðingu milli landa.

    2.     Hve mörg íslensk pör af sama kyni hafa ættleitt börn innan lands frá því að lög númer 65/2006 tóku gildi?
    3.     Hve mörg íslensk pör af sama kyni hafa ættleitt börn erlendis frá síðan lög númer 65/2006 tóku gildi?

    Ráðuneytið leitaði svara hjá Hagstofu Íslands og sýslumanninum í Reykjavík um þessa liði fyrirspurnarinnar. Upplýsingar fengust frá þessum aðilum um að ekkert par af sama kyni, búsett á Íslandi, hefur ættleitt barn (saman) frá því lög nr. 65/2006 tóku gildi – hvorki innan lands né erlendis frá.
    Geta má þess að svipaða sögu er að segja þegar kemur að öðrum norrænum ríkjum. Samstarfsríki þeirra eru mun fleiri en samstarfsríki Íslands og samkvæmt upplýsingum sem ráðuneytið hefur aflað frá Danmörku, Noregi og Svíþjóð hefur ekkert samkynhneigt par, búsett í þessum ríkjum, ættleitt erlent barn saman frá því samkynhneigðum pörum var veitt heimild til frumættleiðingar.