Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 6. máls.
142. löggjafarþing 2013.
Þingskjal 6  —  6. mál.
Frumvarp til lagaum slysatryggingar almannatrygginga.

Flm.: Guðbjartur Hannesson, Árni Páll Árnason, Helgi Hjörvar, Katrín Júlíusdóttir,
Kristján L. Möller, Oddný G. Harðardóttir, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,
Valgerður Bjarnadóttir, Össur Skarphéðinsson.


I. KAFLI
Markmið, gildissvið og orðskýringar.
1. gr.
Markmið.

    Markmið laga þessara er að tryggja slysatryggðum bætur frá almannatryggingum vegna vinnuslysa og annarra tiltekinna slysa óháð tekjum hins slysatryggða. Bæturnar eru ýmist greiddar í peningum eða veittar í formi aðstoðar eins og nánar er kveðið á um í lögum þessum og í samræmi við lög um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning, sem og lög um sjúkratryggingar og önnur lög eftir því sem við á.

2. gr.
Orðskýringar.

    Í lögum þessum hafa eftirfarandi orð svofellda merkingu:
     1.      Slysatryggður: Sá sem nýtur tryggingar samkvæmt lögum þessum.
     2.      Bótaþegi: Sá sem á rétt til bóta samkvæmt lögum þessum.
     3.      Óvígð sambúð: Sambúð tveggja einstaklinga, sem skráð er í þjóðskrá, enda eigi þeir barn saman eða von á barni saman eða hafi verið í sambúð samfleytt lengur en eitt ár.
    Að öðru leyti gilda orðskýringar laga um heilbrigðisþjónustu eftir því sem við á.

II. KAFLI
Stjórnsýsla.
3. gr.
Yfirstjórn.

    Ráðherra fer með yfirstjórn slysatrygginga almannatrygginga samkvæmt lögum þessum.

4. gr.
Framkvæmd slysatrygginga.

    Sjúkratryggingastofnun, sbr. lög um sjúkratryggingar, annast framkvæmd slysatrygginga almannatrygginga samkvæmt lögum þessum. Þó skal Tryggingastofnun ríkisins annast greiðslur mánaðarlegra bóta slysatrygginga skv. 11. og 12. gr. nema ráðherra ákveði annað.

III. KAFLI
Slysatryggingar.
A. Almenn ákvæði.

5. gr.
Gildissvið trygginganna.

    Slysatryggingar almannatrygginga taka til slysa við vinnu, iðnnám, björgunarstörf, tilteknar íþróttaæfingar, íþróttasýningar, íþróttakeppnir eða heimilisstörf, enda sé sá sem fyrir slysi verður tryggður samkvæmt ákvæðum 6. eða 7. gr. Með slysi er átt við skyndilegan óvæntan atburð sem veldur meiðslum á líkama þess sem tryggður er og gerist án vilja hans.
    Maður telst vera við vinnu:
     a.      þegar hann er á vinnustað á þeim tíma sem honum er ætlað að vera að störfum, svo og í matar- og kaffitímum,
     b.      í sendiferð í þágu atvinnurekstrar eða í nauðsynlegum ferðum á eðlilegri leið til vinnu og frá, enda sé aðeins um að ræða ferðir sem farnar eru samdægurs milli vinnustaðar og heimilis eða matstaðar. Sama gildir um lengri ferðir af þessu tagi ef starfsmaður er á launum hjá vinnuveitanda í ferðinni.
    Slys telst ekki verða við vinnu ef það hlýst af athöfnum hins slasaða sjálfs sem ekki standa í neinu sambandi við vinnuna. Tryggingin tekur þó til allra slysa á sjómanni sem verða um borð í skipi hans eða þegar hann ásamt skipinu er staddur utan heimahafnar skips eða útgerðarstaðar. Enn fremur tekur tryggingin til allra slysa sem verða á friðargæsluliðum íslenska ríkisins sem verða þegar þeir eru staddir erlendis vegna friðargæslustarfa. Hafi hinn slasaði verið valdur að slysi af stórkostlegu gáleysi er heimilt að fella niður bótagreiðslur. Til slysa teljast sjúkdómar er stafa af skaðlegum áhrifum efna, geislaorku eða öðru hliðstæðu sem ríkjandi eru í hæsta lagi fáeina daga og rekja verður til vinnunnar.
    Ákveða skal með reglugerð að tilteknir atvinnusjúkdómar skuli teljast bótaskyldir samkvæmt þessum kafla.

6. gr.
Slysatryggðir.

    Slysatryggðir samkvæmt lögum þessum eru:
     a.      launþegar sem starfa hér á landi að undanskildum erlendum ríkisborgurum sem gegna embætti fyrir erlend ríki og erlendu starfsliði slíkra embættismanna. Starf um borð í íslensku skipi eða íslensku loftfari, eða skipi eða loftfari sem gert er út eða rekið af íslenskum aðilum, jafngildir starfi hér á landi samkvæmt þessum lið, enda séu laun greidd hér á landi. Tryggingin gildir einnig um einstaklinga sem starfa erlendis fyrir aðila sem hefur aðsetur og starfsemi hér á landi enda séu þeir sjúkratryggðir skv. 1. mgr. 11. gr. laga um sjúkratryggingar,
     b.      nemendur við iðnnám í löggiltum iðngreinum og nemar í starfsnámi sem stunda nám í heilbrigðisgreinum og raunvísindum og háskólanemar þegar þeir sinna verklegu námi,
     c.      útgerðarmenn sem sjálfir eru skipverjar,
     d.      þeir sem vinna að björgun manna úr lífsháska eða vörnum gegn yfirvofandi meiri háttar tjóni á verðmætum,
     e.      íþróttafólk, í formbundnum íþróttafélögum sem eru aðilar að viðurkenndum íþróttasamböndum sem hafa íþróttaiðkun að meginmarkmiði, sem orðið er 16 ára og tekur þátt í íþróttaiðkunum, hvort heldur er æfingum, sýningum eða keppni. Ráðherra er heimilt með reglugerð að ákveða nánar gildissvið þessa ákvæðis, m.a. hvaða íþróttasambönd eru viðurkennd,
     f.      atvinnurekendur í landbúnaði sem vinna landbúnaðarstörf, makar þeirra og börn á aldrinum 13 til og með 17 ára,
     g.      atvinnurekendur sem starfa að eigin atvinnurekstri í öðrum atvinnugreinum en um getur í f-lið.
    Launþegi telst hver sá sem tekur að sér vinnu gegn endurgjaldi án þess að vera sjálfur atvinnurekandi í því sambandi, hvort sem um er að ræða tímakaup, föst laun, aflahlut eða greiðslu fyrir ákvæðisvinnu.
    Maki atvinnurekanda og börn hans á aldrinum 13 til og með 17 ára, sbr. g-lið 1. mgr., teljast ekki launþegar samkvæmt þessari grein nema þau starfi við atvinnureksturinn og þiggi laun fyrir.
    Hafi einstaklingar sem njóta tryggingar samkvæmt c-, f- eða g-lið 1. mgr. staðið skil á reiknuðu endurgjaldi vegna atvinnu sinnar skal það að öllu jöfnu talin sönnun þess að þeir stundi þá atvinnustarfsemi sem um ræðir.

7. gr.
Trygging við heimilisstörf.

    Þeir sem stunda heimilisstörf geta tryggt sér rétt til slysabóta við þau störf með því að skrá í skattframtal í byrjun hvers árs ósk þar að lútandi.
    Ráðherra er með reglugerð heimilt að skilgreina nánar tryggingartímabil og hvað teljist til heimilisstarfa.

B. Bætur.
8. gr.
Bætur slysatrygginga almannatrygginga.

    Bætur slysatrygginga almannatrygginga eru sjúkrahjálp, dagpeningar, örorkubætur og dánarbætur.

9. gr.
Sjúkrahjálp.

    Valdi bótaskylt slys sjúkleika og vinnutjóni í minnst tíu daga skal greiða nauðsynlegan kostnað vegna lækningar hins slasaða og tjóns á gervilimum eða hjálpartækjum, svo sem hér segir:
     1.      Að fullu skal greiða:
       a.      læknishjálp sem samið hefur verið um samkvæmt lögum um sjúkratryggingar,
       b.      sjúkrahúsvist, svo lengi sem afleiðingar slyssins gera hana nauðsynlega, sé hinn slasaði ekki sjúkratryggður samkvæmt lögum um sjúkratryggingar,
       c.      lyf og umbúðir,
       d.      viðgerð vegna brots eða löskunar á heilbrigðum tönnum eða vel viðgerðum. Greiðslu fyrir sams konar viðgerðir á lélegri tönnum má takmarka við kostnað sem ætla má að orðið hefði ef þær hefðu verið heilbrigðar,
       e.      gervilimi eða svipuð hjálpartæki, svo og viðgerð á þeim eða endurnýjun ef viðgerð telst ekki fullnægjandi. Sama gildir um gervitennur,
       f.          sjúkraflutning með sjúkraflugvél eða sjúkrabíl fyrst eftir slys eða þegar ella verður nauðsynlegt að senda sjúkling með slíkum farartækjum til meðferðar hjá lækni eða á sjúkrahúsi, þó ekki fyrir einstakar ferðir þegar um stundun er að ræða. Sama gildir um flutning með skipi þegar öðrum farartækjum verður ekki við komið,
       g.      sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun og talþjálfun,
       h.      eftirfarandi læknisvottorð vegna slysatrygginga: læknisvottorð vegna slysatrygginga (áverkavottorð), vegna beiðni um þjálfun og vegna öflunar hjálpartækja, og framhaldsvottorð vegna slysatrygginga. Endurgreiða skal það gjald sem tilgreint er í reglugerð um hlutdeild sjúkratryggðra í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu hverju sinni.
     2.      Að hluta skal greiða:
       a.      að hálfu ferðakostnað til læknis með leigubíl, enda sé sjúklingur ekki fær um að ferðast með áætlunarbíl eða strætisvagni. Ekki skal þó greitt fyrir flutning með bifreið manns af sama heimili eða sama bæ né bifreið í eigu venslamanna hins slasaða,
       b.      3/ 4 kostnað við sams konar ferðir með áætlunarbíl eða -skipi, enda sé um meira en 15 km vegalengd að ræða. Geti sjúklingur ekki ferðast með áætlunarbíl skal greiða ferð með áætlunarflugvél að 3/ 4.
     3.      Heimilt er að greiða:
       a.      hjúkrun í heimahúsum, veitta af vandalausum,
       b.      hluta kostnaðar vegna löskunar á tönnum þegar framkvæmdar hafa verið kostnaðarsamar aðgerðir á þeim sem ónýst hafa við slysið,
       c.      ferðakostnað með áætlunarbíl eða strætisvagni að 3/ 4 hlutum eða samkvæmt kílómetragjaldi ef áætlunarferðir eða strætisvagnaferðir eru ekki fyrir hendi þegar sjúklingur þarfnast ítrekaðrar meðferðar hjá lækni á sjúkrahúsi eða sjúkrastofnun, svo sem í endurhæfingu eða sjúkraþjálfun, með eða án innlagningar, þótt vegalengd sé skemmri en 15 km, enda séu ferðir fleiri en 30 á sex mánaða tímabili.
    Að svo miklu leyti sem samningar samkvæmt lögum um sjúkratryggingar ná ekki til sjúkrahjálpar samkvæmt framansögðu getur ráðherra ákveðið endurgreiðslu að nokkru eða öllu leyti með reglugerð.
    Valdi slys ekki óvinnufærni í tíu daga, en hafi þó í för með sér kostnað sem um ræðir í þessari grein, má þá greiða hann að svo miklu leyti sem hann fæst ekki greiddur hjá sjúkratryggingum.
    Bætur samkvæmt þessari grein greiðast ekki vegna kostnaðar sem fellur til þegar liðin eru fimm ár eða meira frá slysdegi. Þó er heimilt, ef alveg sérstaklega stendur á, að greiða kostnað sem fellur til í allt að tíu ár frá slysdegi enda séu skýr læknisfræðileg orsakatengsl milli slyssins og kostnaðarins.
    Einungis skal greiða nauðsynlegan kostnað skv. 1. mgr. sem til fellur hér á landi nema annað leiði af milliríkjasamningum. Þó skal greiða óhjákvæmilega sjúkrahjálp sem til fellur erlendis ef hinn slasaði er tryggður samkvæmt ákvæðum 2. málsl. b-liðar 2. mgr. 5. gr. eða 3. málsl. a-liðar 1. mgr. 6. gr.

10. gr.
Dagpeningar.

    Dagpeningar greiðast frá og með 8. degi eftir að slys varð, enda hafi hinn slasaði verið óvinnufær í minnst tíu daga. Dagpeningar greiðast þangað til hinn slasaði verður vinnufær, er metinn til varanlegrar örorku eða deyr, þó ekki lengur en 52 vikur.
    Sjúkratryggingastofnuninni er heimilt að ákveða að dagpeningar skuli greiddir lengur, einkum ef lækningatilraunum er ekki lokið og óvíst er hvort um varanlega örorku verður að ræða og líkur eru til að afstýra megi eða draga úr örorku með lengri bótagreiðslu.
    Dagpeningar eru 1.619 kr. á dag fyrir hvern einstakling og 363 kr. fyrir hvert barn á framfæri, þ.m.t. börn utan heimilis sem hinn slasaði greiðir sannanlega með samkvæmt staðfestum samningi, dómsátt, úrskurði stjórnvalds eða dómi. Greiðslur samkvæmt grein þessari mega ekki fara fram úr 3/ 4 af tekjum bótaþega við þá atvinnu sem hann stundaði er slysið varð.
    Greiði vinnuveitandi hinum slasaða laun í slysaforföllum skulu dagpeningagreiðslur samkvæmt þessari grein renna til vinnuveitandans þann tíma, þó aldrei hærri greiðsla en sem nemur 3/ 4 hlutum launanna.

11. gr.
Örorkubætur.

    Ef slys veldur varanlegri læknisfræðilegri örorku, sbr. 22. gr., skal sjúkratryggingastofnunin greiða slysatryggðum einstaklingi á aldrinum 18–67 ára mánaðarlegan slysaörorkulífeyri eða örorkubætur í einu lagi. Fullur slysaörorkulífeyrir skal vera 408.639 kr. á ári. Tekjur hins slasaða skulu ekki lækka örorkulífeyri samkvæmt þessari grein. Um greiðslur til viðbótar slysaörorkulífeyri fer samkvæmt ákvæðum laga um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning.
    Ef örorkan er 50% eða meiri greiðist mánaðarlega hálfur örorkulífeyrir fyrir 50% örorku, hækkar síðan um 2% fyrir hvert örorkustig sem við bætist uns örorkan nemur 75%, þá greiðist fullur lífeyrir. Þó er heimilt að greiða slysaörorkubætur í einu lagi samkvæmt þessari málsgrein hafi hinn slasaði ekki verið búsettur hér á landi er slysið átti sér stað og hafi ekki áunnið sér rétt til lífeyrisgreiðslna samkvæmt lögum um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning. Um útreikning eingreiðslu skv. 2. málsl. fer skv. 4. mgr.
    Ef örorkan er metin meiri en 50% skal auk örorkulífeyris greiða lífeyri vegna barna yngri en 18 ára, sem voru á framfæri bótaþega þegar slys bar að höndum, eftir reglum b-liðar 1. mgr. 12. gr. Ef örorkan er 75% eða meiri skal greiða fullar bætur og gildir það bæði vegna barna sem voru á framfæri bótaþega þegar slys átti sér stað og þeirra sem hann framfærir síðar. Sé orkutapið minna en 75% lækka bæturnar um 4% fyrir hvert 1% sem vantar á 75% örorku.
    Ef örorkan er minni en 50% er sjúkratryggingastofnuninni heimilt að greiða í einu lagi örorkubætur sem jafngilda lífeyri hlutaðeigandi um tiltekið árabil samkvæmt reglugerð er ráðherra setur.
    Örorkubætur greiðast ekki ef örorkan er metin minni en 10%. Hafi slasaður einstaklingur áður fengið metna varanlega læknisfræðilega örorku samkvæmt slysatryggingum almannatrygginga, sbr. 22. gr., vegna annars bótaskylds slyss skal taka tillit til samanlagðrar örorku.

12. gr.
Dánarbætur.

    Ef slys veldur dauða innan tveggja ára frá því að það bar að höndum skal greiða dánarbætur sem hér segir:
     a.      Ekkja eða ekkill, sem var samvistum við hinn látna eða á framfæri hans, hlýtur bætur, 37.585 kr. á mánuði í 8 ár frá dánardægri hins látna. Bætur samkvæmt þessum staflið falla ekki niður þótt ekkja eða ekkill stofni til hjúskapar á ný. Andist ekkja eða ekkill sem bóta hefur notið samkvæmt ákvæðum þessarar greinar áður en bætur hafa verið greiddar að fullu skulu eftirstöðvar bótanna greiddar að jöfnu börnum hinna látnu, ef á lífi eru, eftir sömu reglum til loka tímabilsins, ella til dánarbús hans.
     b.      Barnalífeyri, 302.100 kr. á ári fyrir hvert barn, sbr. að öðru leyti lög um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning.
     c.      Afkomandi, eldri en 18 ára, sem vegna örorku var á framfæri hins látna þegar slysið bar að höndum, fær bætur, eigi minni en 469.111 kr. og allt að 1.407.843 kr., eftir því að hve miklu leyti hann naut stuðnings hins látna við fráfall hans. Þó greiðast ekki bætur ef örorka er minni en 33%.
    Bætur skv. a- og c-liðum 1. mgr. skulu eigi vera lægri en 657.037 kr. fyrir hvert slys. Láti hinn látni ekki eftir sig aðstandendur sem rétt eiga til bóta samkvæmt þessum stafliðum skal bæta slysið með 657.037 kr. sem skiptast að jöfnu milli barna hins látna, ef á lífi eru, en greiðast ella til dánarbús hans.
    Um fósturbörn og fósturforeldra gildir sama og um börn og foreldra.
    Frá dánarbótum, sem greiddar eru vandamönnum, ber að draga þær örorkubætur er greiddar hafa verið í einu lagi skv. 4. mgr. 11. gr. vegna sama slyss.

13. gr.
Sjúkrahúsdvöl eða fangelsisvist bótaþega.

    Um bótarétt þess, sem nýtur lífeyris samkvæmt lögum þessum og dvelst á sjúkrahúsi eða í fangelsi, fer samkvæmt ákvæðum laga um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning.

C. Umsóknir um bætur og upplýsingaskylda.
14. gr.
Umsóknir um bætur.

    Þegar að höndum ber slys, sem ætla má bótaskylt samkvæmt lögum þessum, skal atvinnurekandi eða hinn tryggði, ef ekki er um atvinnurekanda að ræða, tafarlaust senda tilkynningu um slysið í því formi sem sjúkratryggingastofnunin hefur ákveðið, ásamt nauðsynlegum gögnum, til stofnunarinnar eða þjónustustöðva hennar utan Reykjavíkur. Hinum slasaða eða þeim öðrum sem gera vilja kröfu til bóta vegna slyssins ber að fylgjast með því að tilkynningarskyldunni sé fullnægt. Ef atvik að slysinu eru óljós eða mál ekki nægilega upplýst eða ástæða til að ætla að slysið hafi orðið af hirðuleysi eða lélegum útbúnaði, svo og ef sjúkratryggingastofnunin eða annar hvor aðila, atvinnurekandi eða hinn slasaði eða fyrirsvarsmaður hans, óskar þess skal lögreglustjóri rannsaka málið.
    Ef sá sem átti að tilkynna slys hefur vanrækt það skal það ekki vera því til fyrirstöðu að sá sem fyrir slysi varð eða eftirlátnir vandamenn hans geti gert kröfu til bóta ef það er gert áður en ár er liðið frá því að slysið bar að höndum. Heimilt er þó að greiða bætur þótt liðið sé ár frá því að slys bar að höndum ef atvik eru svo ljós að drátturinn torveldar ekki gagnaöflun um atriði er máli skipta og læknisfræðileg orsakatengsl eru ljós milli slyssins og einkenna hins slasaða þegar tilkynning berst. Ekki er heimilt að greiða bætur þegar meira en tíu ár eru liðin frá slysdegi þegar tilkynning berst, sbr. þó 2. mgr. 21. gr. Ráðherra setur reglugerð um nánari framkvæmd ákvæðisins.

15. gr.
Upplýsingaskylda umsækjenda.

    Umsækjanda er rétt og skylt að taka þátt í meðferð málsins, m.a. með því að veita sjúkratryggingastofnuninni þær upplýsingar sem taldar eru nauðsynlegar til þess að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt og greiðslu bóta sem og endurskoðun þeirra. Þá er skylt að tilkynna um breytingar á aðstæðum sem geta haft áhrif á bætur.

16. gr.
Upplýsingar um tekjur og greiðslur opinberra gjalda.

    Sjúkratryggingastofnun er heimilt, að fengnu skriflegu samþykki umsækjanda og bótaþega, að afla nauðsynlegra upplýsinga um tekjur umsækjanda og greiðslur opinberra gjalda hjá skattyfirvöldum, Vinnumálastofnun og sambærilegum stofnunum erlendis þegar það á við, rafrænt eða á annan hátt.
    Telji umsækjandi upplýsingar frá þessum aðilum ekki réttar skal hann leggja fram gögn því til staðfestingar.

17. gr.
Skortur á upplýsingum.

    Ef ekki reynist unnt að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra vegna skorts á nauðsynlegum upplýsingum sem rekja má til umsækjanda er sjúkratryggingastofnun heimilt að fresta ákvörðun og greiðslu bóta þar til úr því er bætt. Stofnunin skal tafarlaust gera viðkomandi viðvart ef til frestunar kemur, skora á hann að veita nauðsynlegar upplýsingar og gera honum grein fyrir afleiðingum þess ef áskorun um að veita upplýsingar er ekki sinnt.

18. gr.
Upplýsingaskylda heilbrigðisstarfsmanna.

    Þeim heilbrigðisstarfsmönnum sem ábyrgð bera á vörslu sjúkraskráa, sbr. lög um sjúkraskrár, er skylt að veita læknum, eða eftir atvikum hlutaðeigandi heilbrigðisstarfsmönnum sjúkratryggingastofnunarinnar, þær upplýsingar og gögn sem stofnuninni eru nauðsynleg vegna ákvörðunar um greiðslu bóta.

19. gr.
Upplýsingaskylda stofnana og fyrirtækja.

    Skattyfirvöld, Tryggingastofnun ríkisins, Vinnumálastofnun, Innheimtustofnun sveitarfélaga, Þjóðskrá Íslands, Fangelsismálastofnun, vátryggingafélög, skólar og aðrar stofnanir og fyrirtæki skulu láta sjúkratryggingastofnun í té upplýsingar að því marki sem slíkar upplýsingar teljast nauðsynlegar til að unnt sé að framfylgja lögum þessum.
    Þá skulu sjúkratryggingastofnunin og Tryggingastofnun skiptast á upplýsingum um mat á örorku og öðrum upplýsingum að því marki sem þær teljast nauðsynlegar við framkvæmd laga þessara.

20. gr.
Eftirlit og viðurlög.

    Sjúkratryggingastofnunin skal reglubundið sannreyna réttmæti bóta, greiðslna og upplýsinga sem ákvörðun um réttindi byggist á. Stofnuninni er heimilt í þágu eftirlits að óska eftir öllum gögnum sem talin eru nauðsynleg til að sannreyna réttmæti ákvarðana og greiðslna.
    Grundvöll bótaréttar má endurskoða hvenær sem er og samræma bætur þeim breytingum sem orðið hafa á aðstæðum bótaþega. Leiki rökstuddur grunur á að bótaréttur sé ekki fyrir hendi er heimilt að fresta greiðslum tímabundið meðan mál er rannsakað frekar og stöðva greiðslur komi í ljós að bótaréttur sé ekki fyrir hendi. Um ofgreiðslur og vangreiðslur fer skv. 27. gr.
    Leiki grunur á að bætur séu greiddar á grundvelli rangra eða villandi upplýsinga frá bótaþega er heimilt að afla upplýsinga frá öðrum aðilum sem ætla má að geti veitt upplýsingar er máli skipta í því skyni að leiðrétta bótagreiðslur.
    Komi í ljós að rangar, villandi eða ófullnægjandi upplýsingar hafi vísvitandi verið veittar eða látið hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar í því skyni að njóta tryggingar eða fá óréttmætar greiðslur, skal bótaþegi endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Um innheimtu ofgreiðslna fer að öðru leyti samkvæmt ákvæðum 27. gr.

D. Málsmeðferð o.fl.
21. gr.
Ákvörðun bóta.

    Allar umsóknir skulu ákvarðaðar svo fljótt sem kostur er á og skulu bætur reiknaðar frá þeim degi þegar umsækjandinn hefur uppfyllt skilyrði til bótanna. Mánaðarlegar bætur skv. 11. og 12. gr. reiknast þó frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að bótaréttur er fyrir hendi og falla niður í lok þess mánaðar er bótarétti lýkur.
    Bætur vegna sjúkrahjálpar, dagpeningar og dánarbætur skal aldrei ákvarða lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að umsókn og önnur gögn sem nauðsynleg eru til að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt og fjárhæð bóta berast sjúkratryggingastofnuninni. Um greiðslur slysalífeyris aftur í tímann fer samkvæmt lögum um fyrningu kröfuréttinda.
    Ákvarðaðar bætur falla niður ef þær eru ekki sóttar innan tólf mánaða, en ákvarða má bætur á ný ef rökstudd umsókn berst.
    Grundvöll bótaréttar má endurskoða hvenær sem er og samræma bætur þeim breytingum sem orðið hafa.

22. gr.
Mat örorku.

    Örorka skv. 11. gr. skal metin samkvæmt læknisfræðilegu mati og kallast varanleg læknisfræðileg örorka. Þar skal metin til hundraðshluta varanleg skerðing á líkamlegri og eftir atvikum andlegri færni hjá einstaklingum sem orðið hafa fyrir líkamstjóni. Umsækjendur skulu metnir út frá sömu læknisfræðilegu forsendum óháð kyni, menntun, starfi eða áhugamálum.
    Mat á varanlegri læknisfræðilegri örorku skal fyrst og fremst byggjast á miskatöflu örorkunefndar samkvæmt ákvæðum skaðabótalaga. Hámark varanlegrar læknisfræðilegrar örorku er 100% hvort sem um er að ræða afleiðingar eins slyss eða samanlagða örorku vegna afleiðinga fleiri slysa.
    Sjúkratryggingastofnun er heimilt að semja við lækna utan stofnunarinnar um áverkagreiningu og mat á örorku umsækjenda.
    Ráðherra er heimilt með reglugerð að kveða nánar á um framkvæmd örorkumats.

23. gr.
Stjórnsýslukærur.

    Rísi ágreiningur um grundvöll, skilyrði eða upphæð bóta samkvæmt þessum kafla er heimilt að kæra ákvörðun sjúkratryggingastofnunarinnar til úrskurðarnefndar almannatrygginga samkvæmt lögum um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning.
    Kæra til úrskurðarnefndar almannatrygginga skal vera skrifleg og skal hún borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun. Hjá sjúkratryggingastofnuninni og þjónustustöðvum hennar utan Reykjavíkur skulu liggja frammi eyðublöð í þessu skyni og veita starfsmenn stofnunarinnar nauðsynlega aðstoð við útfyllingu þeirra.
    Sjúkratryggingastofnunin skal láta nefndinni í té öll gögn máls, svo og þær upplýsingar og skýringar sem nefndin telur þörf á.
    Sjúkratryggingastofnunin getur höfðað dómsmál til að fá hnekkt úrskurði úrskurðarnefndar almannatrygginga.

24. gr.
Greiðslur til þriðja aðila.

    Ef talin er hætta á að greiðslur sem ætlaðar eru bótaþega eða framfæranda til framfærslu séu notaðar á þann hátt að eigi samrýmist tilgangi laganna er heimilt, ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi, að greiða þær eða hluta þeirra öðrum en bótaþega eða framfæranda. Slíkar ákvarðanir skulu ávallt vera tímabundnar og teknar í samráði við félagsþjónustu hlutaðeigandi sveitarfélags eða barnaverndarnefnd, ef um er að ræða greiðslur vegna framfærslu barna.

25. gr.
Stöðvun bótagreiðslna.

    Heimilt er að stöðva greiðslur bóta, sem ætlaðar eru bótaþegum sjálfum, ef hlutaðeigandi vanrækir að fara að læknisráðum eða neitar að hlíta fyrirmælum um þátttöku í þjálfun eða starfsnámi sem bætt gæti afkomu hans eða búið hann undir nýtt starf.

26. gr.
Bann við framsali, veðsetningu o.fl.

    Óheimilt er að framselja eða veðsetja bótakröfur samkvæmt lögum þessum og ekki má kyrrsetja þær né gera í þeim fjárnám né halda bótafé til greiðslu opinberra gjalda, annarra en iðgjalda samkvæmt lögum þessum.

27. gr.
Ofgreiðslur og vangreiðslur bóta.

    Hafi sjúkratryggingastofnunin ofgreitt bótaþega bætur samkvæmt lögum þessum skal stofnunin draga ofgreiddar bætur frá bótum sem bótaþegi kann að öðlast rétt til síðar, sbr. þó 2. mgr. Einnig á sjúkratryggingastofnunin endurkröfurétt á hendur bótaþega eða dánarbúi hans samkvæmt almennum reglum.
    Hafi sjúkratryggingastofnunin vangreitt bótaþega bætur skal stofnunin greiða honum eða dánarbúi hans það sem upp á vantar. Þegar bætur eru vangreiddar skal greiða vexti á þá fjárhæð sem vangreidd var og reiknast þeir frá þeim degi þegar skilyrði til bótanna eru uppfyllt, þó aldrei lengra aftur í tímann en tvö ár. Skulu vextir þessir vera jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður og birtir samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu. Sama á við þegar niðurstaða úrskurðarnefndar almannatrygginga, sbr. 23. gr., leiðir til þess að einstaklingur á rétt á bótum en hafði fengið synjun eða lægri bætur hjá sjúkratryggingastofnuninni, sbr. þó 21. gr. Ef bætur eru vangreiddar vegna skorts á upplýsingum, sbr. 17. gr., falla vextir niður.
    Þegar greiðsla skv. 1. mgr. stafar af sviksamlegu atferli bótaþega skal hann greiða dráttarvexti á þá bótafjárhæð og reiknast þeir frá þeim tíma þegar endurkröfuréttur stofnast.
    Ákvarðanir sjúkratryggingastofnunarinnar um endurkröfu ofgreiddra bóta samkvæmt ákvæði þessu eru aðfararhæfar. Stjórnsýslukæra frestar þó aðför á grundvelli ákvörðunar stofnunarinnar um endurkröfu ofgreiddra bóta.
    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd greinarinnar, m.a. um innheimtu á ofgreiddum bótum, undanþágur frá innheimtu ofgreiddra bóta og afskriftir krafna.

E. Tekjur.
28. gr.
Tekjur af tryggingagjaldi og iðgjöld.

    Útgjöld slysatrygginga almannatrygginga skulu borin af tekjum ríkissjóðs af tryggingagjaldi og iðgjöldum skv. 3. mgr. Þá skal árlega ákveða í fjárlögum framlag sem standa skal undir kostnaði af bótum vegna þeirra sem um getur í e-lið 1. mgr. 6. gr.
    Sjúkratryggingastofnunin skal ár hvert gera áætlun um bótagreiðslur og rekstrarkostnað slysatrygginga næsta almanaksár.
    Iðgjöld útgerðarmanna fiskiskipa vegna slysatrygginga sjómanna skulu vera 0,65% af samanlögðum launum og aflahlut sjómanna sem hjá þeim starfa hverju sinni. Iðgjöld þessi skulu ásamt dagpeningum skv. 6. mgr. 31. gr. standa undir greiðslu launa og/eða aflahlutar skv. 2. mgr. 31. gr. og rekstrarkostnaði slysatrygginga vegna framkvæmdar sjúkratryggingastofnunarinnar við tryggingu þessa.
    Iðgjöld þeirra sem heimilisstörf stunda skv. 7. gr. skulu ákveðin þannig að þau standi undir kostnaði við trygginguna og rekstrarkostnaði sjúkratryggingastofnunarinnar vegna framkvæmdarinnar.

29. gr.
Álagning og innheimta.

    Iðgjöld skv. 28. gr. skal ríkisskattstjóri leggja á með tekjuskatti og færa þau á skattskrá, sbr. 98. gr. laga um tekjuskatt, og skulu ákvæði 99. gr. þeirra laga og ákvæði laga um yfirskattanefnd gilda um iðgjöld eftir því sem við á.
    Ákvæði laga um tryggingagjald skulu eiga við um gjaldstofn, gjaldskyldu, greiðslutímabil, álagningu og innheimtu iðgjalds útgerðarmanna fiskiskipa vegna slysatrygginga sjómanna. Að tekjuári liðnu skal fara fram endanleg ákvörðun iðgjaldsins í samræmi við launaframtal og skal iðgjaldið sérgreint í álagningarskrá og skattskrá. Ríkisskattstjóri skal halda skrá yfir gjaldskylda aðila og skal eftir atvikum leita staðfestingar á iðgjaldi útgerðaraðila þegar greiðsluskylda sjúkratryggingastofnunarinnar er ákvörðuð.
    Gjalddagar iðgjalda skulu ákveðnir í reglugerð.
    Iðgjöld til slysatrygginga skulu innheimt af innheimtumönnum ríkissjóðs og sveitarsjóða eða sérstökum innheimtustofnunum. Ákvæði laga um tekjuskatt, þar á meðal um dráttarvexti og fjárnámsrétt, gilda um innheimtu iðgjalda.

30. gr.
Lögveð á skipum.

    Iðgjöld útgerðarmanna fiskiskipa vegna slysatrygginga sjómanna skv. 28. gr. skulu hvíla sem lögveð á hlutaðeigandi skipum og ganga fyrir öllum öðrum veðum en lögveðum fyrir gjöldum ríkissjóðs.

31. gr.
Viðbótartrygging útgerðarmanna fiskiskipa.

    Útgerðarmenn fiskiskipa skulu tryggja áhættu vegna bótaskyldra slysa samkvæmt lögum þessum og 1. mgr. 36. gr. sjómannalaga hjá sjúkratryggingastofnuninni.
    Sjúkratryggingastofnunin greiðir útgerðarmönnum fjárhæð sem svarar til fullra launa og/eða aflahlutar sjómanna í allt að tvo mánuði.
    Útgerðarmenn skulu greiða iðgjald skv. 28. gr.
    Útgerðarmenn sem þess óska geta sagt upp tryggingu, sbr. 1. mgr., fyrir 1. nóvember ár hvert vegna næsta árs á eftir. Tilkynning um uppsögn skal berast sjúkratryggingastofnuninni. Eftir að uppsögn hefur öðlast gildi eiga útgerðarmenn ekki rétt á greiðslum vegna launa eða aflahlutar í forföllum vegna slysa en njóta slysatrygginga almennra launþega.
    Halda skal tryggingum samkvæmt þessari grein reikningslega aðskildum frá annarri starfsemi sjúkratryggingastofnunarinnar.
    Dagpeningar skv. 10. gr. skulu renna til sjúkratryggingastofnunarinnar þann tíma sem greiðslur launa og aflahlutar eiga sér stað.

IV. KAFLI
Ýmis ákvæði.
32. gr.
Réttarstaða sambúðarfólks.

    Einstaklingar sem eru í óvígðri sambúð, sbr. 2. gr., eða staðfestri samvist njóta sömu réttinda og bera sömu skyldur og hjón hafa samkvæmt lögum þessum.
    Sameiginlegt lögheimili eða sambúð eftir öðrum ótvíræðum gögnum lengur en eitt ár skal lagt að jöfnu við skráningu sambúðar í þjóðskrá.

33. gr.
Meðferð persónuupplýsinga.

    Við meðferð persónuupplýsinga sem aflað er samkvæmt lögum þessum skal þess gætt að uppfyllt séu skilyrði laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og jafnframt gætt ákvæða laga um réttindi sjúklinga og laga um sjúkraskrár eftir því sem við á.

34. gr.
Skyldur starfsfólks.

    Starfsfólk sjúkratryggingastofnunarinnar skal kynna sér aðstæður umsækjenda og bótaþega og gera þeim grein fyrir ýtrasta rétti þeirra samkvæmt lögum þessum, reglugerðum settum á grundvelli laganna og starfsreglum stofnunarinnar.
    Starfsfólki sjúkratryggingastofnunarinnar og þjónustustöðva hennar er skylt að gæta þagmælsku um atriði er það fær vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum, fyrirmælum yfirmanns eða eðli máls. Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi.
    Þagnarskyldan gildir einnig um þá sem sinna verkefnum fyrir stofnunina en eru ekki starfsmenn hennar.

35. gr.
Réttindi milli landa.

    Þegar milliríkjasamningar sem Ísland er aðili að kveða á um gagnkvæm réttindi til slysatrygginga almannatrygginga skulu þeir sem eiga að falla undir íslenska löggjöf samkvæmt ákvæðum samninganna öðlast réttindi samkvæmt lögum þessum.
    Einstaklingar sem starfa erlendis fyrir aðila sem hefur aðsetur og starfsemi á Íslandi og sem eru sjúkratryggðir skv. 1. mgr. 11. gr. laga um sjúkratryggingar en starfa í öðrum ríkjum en þeim sem samningar skv. 1. mgr. hafa verið gerðir við falla einnig undir íslenska löggjöf.
    Ráðherra setur reglugerð um nánari framkvæmd greinarinnar, m.a. um heimild til að draga frá bótum samkvæmt lögum þessum bætur samkvæmt erlendri löggjöf fyrir sama tímabil og bætur eru greiddar fyrir hér á landi.
    Við framkvæmd laga þessara skal tekið tillit til milliríkjasamninga á sviði almannatrygginga og félagsmála sem Ísland er aðili að.

36. gr.
Ákvörðun fjárhæða.

    Dagpeningar, örorkubætur og dánarbætur samkvæmt lögum þessum koma til endurskoðunar við afgreiðslu fjárlaga ár hvert. Við endurskoðunina skal taka mið af þróun launa, verðlags og efnahagsmála. Þó er ráðherra heimilt, að fengnu samþykki ríkisstjórnar, að breyta þessum fjárhæðum ef verulegar breytingar verða á launaþróun og þjóðhagsforsendum frá afgreiðslu fjárlaga. Þegar fjárhæðum er breytt samkvæmt þessu ákvæði skal það gert með reglugerð.

37. gr.
Innleiðing EES-reglugerða.

    Ráðherra er heimilt að innleiða með reglugerð almannatryggingareglur Evrópusambandsins eins og þær eru felldar inn í viðauka VI við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993, með síðari breytingum, sbr. einnig ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 76 frá 1. júlí 2011 sem fellir undir samninginn reglugerðir Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004 um samræmingu almannatryggingakerfa með síðari breytingum og nr. 987/2009 um framkvæmd hennar. Reglugerðir Evrópusambandsins sem teknar verða upp í samninginn og fela í sér breytingar eða viðbætur við þær reglugerðir er einnig heimilt að innleiða með reglugerð. Sama á við um almannatryggingareglur stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu.

38. gr.
Reglugerðir.

    Ráðherra er heimilt að kveða í reglugerð á um nánari framkvæmd laga þessara.

39. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2013.

40. gr.
Breytingar á öðrum lögum.

     1.      Lög um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, með síðari breytingum: Í stað orðanna „slysadagpeninga samkvæmt lögum um almannatryggingar“ í 1. mgr. 51. gr. laganna kemur: slysadagpeninga samkvæmt lögum um slysatryggingar almannatrygginga.
     2.      Skaðabótalög, nr. 50/1993, með síðari breytingum: Í stað orðanna „eingreiddar örorkubætur almannatrygginga, sbr. 5. mgr. 34. gr. laga nr. 100/2007“ í 4. mgr. 5. gr. laganna kemur: eingreiddar örorkubætur slysatrygginga almannatrygginga, sbr. lög um slysatryggingar almannatrygginga.
     3.      Siglingalög, nr. 34/1985, með síðari breytingum:
       a.      Í stað orðanna „samkvæmt a-lið 1. mgr. 35. gr. laga um almannatryggingar“ í c-lið 1. tölul. 2. mgr. 172. gr. laganna kemur: samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. laga um slysatryggingar almannatrygginga.
       b.      Í stað orðanna „samkvæmt c-lið 1. mgr. 35. gr. laga um almannatryggingar“ í d-lið 1. tölul. 2. mgr. 172. gr. laganna kemur: samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. laga um slysatryggingar almannatrygginga.
       c.      Í stað orðanna „samkvæmt 33. gr. laga um almannatryggingar“ í a-lið 2. tölul. 2. mgr. 172. gr. laganna kemur: samkvæmt 10. gr. laga um slysatryggingar almannatrygginga.
     4.      Lög um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000, með síðari breytingum:
       a.      Í stað orðanna „sótt um þá til Tryggingastofnunar ríkisins samkvæmt gildandi lögum um almannatryggingar“ í c-lið 2. mgr. 13. gr. a laganna kemur: sótt um þá til sjúkratryggingastofnunar samkvæmt gildandi lögum um sjúkratryggingar eða slysatryggingar almannatrygginga.
       b.      Í stað orðanna „Tryggingastofnun ríkisins metur á grundvelli laga um almannatryggingar hvort foreldri hefði átt rétt á sjúkra- eða slysadagpeningum“ í 4. mgr. 13. gr. a laganna kemur: Sjúkratryggingastofnun metur á grundvelli laga um sjúkratryggingar eða slysatryggingar almannatrygginga hvort foreldri hefði átt rétt á sjúkra- eða slysadagpeningum.
       c.      Í stað orðanna „slysadagpeninga samkvæmt lögum um almannatryggingar“ í 2. mgr. 33. gr. laganna kemur: slysadagpeninga samkvæmt lögum um slysatryggingar almannatrygginga.
     5.      Lög um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, nr. 22/2006, með síðari breytingum: Í stað orðanna „sótt um þá til Tryggingastofnunar ríkisins samkvæmt gildandi lögum um almannatryggingar“ í c-lið 2. mgr. 9. gr. laganna kemur: sótt um þá til sjúkratryggingastofnunar samkvæmt gildandi lögum um sjúkratryggingar eða slysatryggingar almannatrygginga.
     6.      Lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980, með síðari breytingum: Í stað orðanna „Tryggingastofnun ríkisins“ í 4. mgr. 79. gr. laganna kemur: Sjúkratryggingastofnun.
     7.      Lög um tryggingagjald, nr. 113/1990, með síðari breytingum:
       a.      Orðin „til Tryggingastofnunar ríkisins“ í 6. tölul. 2. mgr. 3. gr. laganna falla brott.
       b.      Á eftir orðunum „Aðrar bætur greiddar af“ í 2. tölul. 9. gr. laganna kemur: sjúkratryggingastofnun eða.
     8.      Lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, með síðari breytingum: Í stað orðanna „lífeyri sem Tryggingastofnun ríkisins eða lífeyrissjóður greiðir, bætur greiddar af Tryggingastofnun ríkisins, sjúkradagpeninga samkvæmt lögum um sjúkratryggingar,“ í 4. málsl. 1. mgr. 3. gr. laganna kemur: lífeyri sem Tryggingastofnun ríkisins, sjúkratryggingastofnun eða lífeyrissjóður greiðir, bætur greiddar af sjúkratryggingastofnun, Tryggingastofnun ríkisins, sjúkradagpeninga samkvæmt lögum um sjúkratryggingar.
     9.      Lög um rannsókn sjóslysa, nr. 68/2000, með síðari breytingum: Í stað orðanna „Tryggingastofnun ríkisins“ í 2. mgr. 6. gr. laganna kemur: sjúkratryggingastofnun.

Greinargerð.


I. Inngangur.
    Frumvarp þetta var samið í velferðarráðuneytinu, samhliða frumvarpi til laga um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning, og lagt fram sem stjórnarfrumvarp á vorþingi 2013 (635. mál á 141. löggjafarþingi). Bæði frumvörpin eru nú lögð fram aftur og flutt af þingflokki Samfylkingarinnar.
    Við gerð frumvarpsins var haft náið samráð við sjúkratryggingastofnunina sem annast framkvæmd slysatrygginganna og byggt á tillögum lögfræðinga stofnunarinnar. Tilefni frumvarpsins var samning nýs frumvarps um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning en af því leiðir að flytja þarf ákvæði slysatryggingakafla gildandi laga um almannatryggingar, nr. 100/2007, með síðari breytingum, ásamt öðrum nauðsynlegum ákvæðum laganna í sérstök lög sem lagt er til að heiti ,,Lög um slysatryggingar almannatrygginga“. Ætlunin er að þau lög muni síðan standa sjálfstætt við hlið laga um sjúkratryggingar og fyrirhugaðra laga um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning og mynda þannig heildstæða lagaumgjörð um meginþætti almannatrygginga. Því til viðbótar eru í gildi ýmis sérlög á sviði félagslegs öryggis, bæði hjá ríki og sveitarfélögum.
    Vegna þessa tilefnis stendur ekki til að sinni að endurskoða frá grunni efni trygginganna eða orðalag ákvæða umfram það sem brýna nauðsyn ber til. Þó má telja að auðveldara verði er frá líður að breyta ákvæðum um slysatryggingar þegar þau hafa verið færð í sérlög og aðgreind frá almennum lífeyristryggingum almannatrygginga, enda er um eðlisólíkar tryggingar að ræða.
    Ekki eru því lagðar til miklar efnislegar breytingar í frumvarpi þessu frá gildandi ákvæðum um slysatryggingar í lögum um almannatryggingar, aðrar en þær að lagt er til að slysahugtaki laganna verði breytt lítillega. Þannig er lagt til að bætur og bótafjárhæðir verði þær sömu og áður og skilyrði til öflunar bótanna eru að mestu óbreytt. Einnig eru í frumvarpinu lögð til almenn ákvæði sem eru svo til samhljóða samsvarandi ákvæðum í frumvarpi til laga um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning. Er í þeim tilvikum vísað til athugasemda við samsvarandi greinar í því frumvarpi.
    Þótt ekki séu lagðar til miklar efnislegar breytingar í frumvarpinu er þó gert ráð fyrir nokkrum breytingum með hliðsjón af niðurstöðum úrskurðarnefndar almannatrygginga og lagt til að tekin verði af tvímæli varðandi vafatilvik sem upp hafa komið í framkvæmd.
    Samkvæmt framansögðu verður ekki séð að frumvarpið hafi sérstakar afleiðingar fyrir almannahagsmuni eða helstu hagsmunaaðila, sbr. einnig umfjöllun í athugasemdum við 9. og 11. gr. Þá verður ekki séð að frumvarpið hafi áhrif á stöðu kynjanna.
    Hér á eftir eru tilgreindar helstu breytingar frá gildandi lögum en í athugasemdum við einstaka greinar er gerð grein fyrir því hvaða áhrif efnislegar breytingar hafa þegar það á við.

II. Helstu breytingar frá gildandi lögum.
     1.      Slysatryggingakafli laga um almannatryggingar, nr. 100/2007, með síðari breytingum, er meginefni frumvarpsins en ákvæðin sett upp með örlítið breyttum hætti. Kveðið er á um markmiðið með slysatryggingum, gildissviðið er afmarkað og nokkur hugtök skilgreind.
     2.      Með hliðsjón af dönskum og norskum vinnuslysarétti og íslenskum vátryggingarétti er gert ráð fyrir að heimilt verði að fella niður bótagreiðslur samkvæmt lögunum hafi hinn slasaði verið valdur að slysinu af stórkostlegu gáleysi.
     3.      Gert er ráð fyrir því nýmæli að greiða kostnað við iðjuþjálfun og talþjálfun.
     4.      Lagt er til að sjúkrahjálp greiðist að jafnaði ekki vegna kostnaðar sem fellur til þegar liðin eru a.m.k. fimm ár frá slysdegi en eftir það fari um rétt hins slasaða samkvæmt almennum ákvæðum laga um sjúkratryggingar.
     5.      Gert er ráð fyrir tíu ára hámarksfresti undanþágu til að tilkynna slys, að liðnum eins árs tilkynningarfrestinum, og bætt við því skilyrði að berist tilkynningar síðar skuli læknisfræðileg orsakatengsl vera ljós milli slyssins og einkenna hins slasaða.
     6.      Lagt er til að örorkulífeyrir greiðist frá 18 ára aldri til samræmis við aldursviðmið annarra laga um bætur úr almannatryggingum.
     7.      Það er nýmæli að í fyrsta skipti er gerð grein fyrir því á hvers konar örorkumati varanleg læknisfræðileg örorka er byggð í slysatryggingum almannatrygginga. Efni ákvæðisins er í samræmi við framkvæmd.

III. Uppbygging frumvarpsins.
    Frumvarpið skiptist í fjóra kafla og eru heiti kaflanna þessi:
          I. Markmið, gildissvið og orðskýringar, 1.–2. gr.
          II. Stjórnsýsla, 3.–4. gr.
          III. Slysatryggingar, 5.–31. gr.
          IV. Ýmis ákvæði, 32.–39. gr.
    Jafnframt eru breytingar á öðrum lögum í 40. gr.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í gildandi lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, með síðari breytingum, er ekki að finna ákvæði um markmið slysatrygginga almannatrygginga og er 1. gr. frumvarpsins ætlað að bæta úr því. Í ákvæðinu segir að markmið laganna sé að tryggja slysatryggðum bætur vegna vinnuslysa og annarra tiltekinna slysa óháð tekjum hins slysatryggða. Bæturnar geta ýmist verið greiddar í peningum (dagpeningar, örorkubætur, dánarbætur) eða veittar í formi aðstoðar til verndar heilbrigði (kostnaður vegna sjúkrahjálpar). Ákvæðið felur í sér lýsingu á grundvallarréttindum slysatryggðra sem líta ber til við framkvæmd laganna og hafa til hliðsjónar við skýringu einstakra ákvæða. Enn fremur er vísað til annarra laga, svo sem laga um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning og laga um sjúkratryggingar og er það m.a. vegna þess að slysatryggingar almannatrygginga eru einn af þremur meginþáttum almannatrygginga.

Um 2. gr.

    Í ákvæðinu eru skilgreiningar á nokkrum hugtökum.
    1.–2. tölul. 1. mgr. þarfnast ekki skýringar. Í 3. tölul. 1. mgr. er óvígð sambúð skilgreind, sbr. 32. gr. Skilgreining þessi er í samræmi við viðtekna venju og þá skilgreiningu sem kemur fram í frumvarpi til laga um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning.
    2. mgr. þarfnast ekki skýringar.

Um 3. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.

Um 4. gr.

    Ákvæðið er í samræmi við 2. málsl. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, þar sem fram kemur að sjúkratryggingastofnunin annist framkvæmd slysatrygginga almannatrygginga. Fyrir tilkomu sjúkratryggingastofnunarinnar voru slysatryggingar almannatrygginga reknar með sjúkratryggingum Tryggingastofnunar ríkisins. Meginþungi framkvæmdar slysatrygginga almannatrygginga liggur nær sjúkratryggingum en lífeyristryggingum og samnýtast þar fjölmargir vinnsluþættir sjúkratryggingastofnunarinnar. Í þeim fáu tilvikum er kemur til greiðslna mánaðarlegra bóta slysatrygginga hefur Tryggingastofnun ríkisins annast greiðslurnar í gegnum greiðslukerfi lífeyristrygginga. Um er að ræða mánaðarlegar bótagreiðslur til u.þ.b. 200 einstaklinga að jafnaði. Hefur fyrirkomulagið verið þannig frá stofnun sjúkratryggingastofnunar og er lagt til að það verði óbreytt, nema ráðherra ákveði annað.

Um 5. gr.

    Í ákvæðinu er kveðið á um gildissvið slysatrygginga almannatrygginga, þ.e. til hvaða slysa tryggingin tekur og hvar og hvenær tryggingarinnar nýtur við. Ákvæðið er að mestu samhljóða 27. gr. gildandi laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, nema að því er varðar eftirtalin atriði:
    Í 1. málsl. 1. mgr. er því bætt við að tryggingin taki einnig til slysa við heimilisstörf. Er vísað til 7. gr. og er ekki um efnislega breytingu að ræða.
    Lagt er til að í stað orðanna ,,hvers konar“ í 1. mgr. 27. gr. laga um almannatryggingar komi: tilteknar. Er það til samræmis við breytingar sem koma fram í e-lið 1. mgr. 6. gr. frumvarpsins.
    Lögð er til sú breyting frá gildandi lögum og frumvarpinu á 141. löggjafarþingi að í skilgreiningu á slysi verði skilyrði um að atburður sem veldur slysi þurfi að vera „óvæntur“ í stað þess að vera „utanaðkomandi“. Er slysahugtakið því rýmkað ögn þannig að það taki m.a. til tilvika þar sem ofreynsla veldur vinnuslysi. Þá er hin nýja skilgreining sem lögð er til í frumvarpinu efnislega samhljóða skilgreiningu Vinnueftirlitsins á vinnuslysi.
    Lagt er til í b-lið 2. mgr. að kveðið verði á um að einstaklingur teljist vera við vinnu, og þar með tryggður, í nauðsynlegum ferðum á eðlilegri leið til og frá vinnu. Viðbótaráskilnaðurinn um eðlilega leið er í samræmi við áralanga framkvæmd slysatrygginga og niðurstöður úrskurðarnefndar almannatrygginga þar sem tryggingin hefur einungis tekið til ferða á því sem næst beinni leið milli heimilis og vinnustaðar en bótaskyldu hafnað vegna slysa þegar um er að ræða veruleg frávik frá beinni og eðlilegri leið í slíkum ferðum.
    Lagt er til að við 3. mgr. bætist eftirfarandi málsliður, með hliðsjón af 90. gr. laga um vátryggingasamninga, nr. 30/2004: „Hafi hinn slasaði verið valdur að slysi af stórkostlegu gáleysi er heimilt að fella niður bótagreiðslur.“ Tillagan er í samræmi við danskan og norskan vinnuslysarétt, en mikil þörf er talin á að setja skýra varúðarreglu til að ná betur þeim markmiðum sem að var stefnt með 9. gr. laga nr. 74/2002 sem breytti 22. gr. laga um almannatryggingar. Þá var slysaskilgreiningu vátryggingaréttarins bætt við slysatryggingakafla laganna („skyndilegur utanaðkomandi atburður sem veldur meiðslum á líkama þess sem tryggður er og gerist án vilja hans“).

Um 6. gr.

    Í ákvæðinu er tilgreint hverjir njóta slysatryggingar almannatrygginga. Ákvæðið er að mestu samhljóða 29. gr. gildandi almannatryggingalaga, nr. 100/2007, með eftirfarandi undantekningum:
    Lagt er til að við a-lið 1. mgr. bætist nýr málsliður um að tryggingaverndin taki einnig til útsendra starfsmanna sem starfa erlendis tímabundið á vegum íslenskra atvinnurekenda og sem eru sjúkratryggðir skv. 1. mgr. 11. gr. laga um sjúkratryggingar, en eðlilegt þykir að sjúkra- og slysatrygging þessara einstaklinga haldist í hendur. Er ákvæðið einnig í samræmi við 13. gr. gildandi laga um almannatryggingar. Sams konar ákvæði er í 1. mgr. 5. gr. frumvarps til laga um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning.
    Lagðar eru til nokkrar breytingar á slysatryggingu íþróttafólks í e-lið 1. mgr. Í úrskurði úrskurðarnefndar almannatrygginga í apríl 2010 var talið nauðsynlegt að hafa í lagaákvæði það ákvæði reglugerðar nr. 245/2002 að hinn slasaði æfi hjá íþróttafélagi innan ÍSÍ. Því er lagt til að bætt verði við ákvæðið áskilnaði um að íþróttafólk þurfi að vera í formbundnu íþróttafélagi og að félagið sé aðili að viðurkenndu íþróttasambandi. Þá er lagt til að ráðherra verði með reglugerð heimilt að ákveða nánar gildissvið slysatrygginga íþróttafólks. Lagt er til að 2. mgr. 29. gr. gildandi laga um almannatryggingar, nr. 100/2007, um að heimilt sé að veita launþegum undanþágu frá slysatryggingu ef hlutaðeigandi er sannanlega tryggður samkvæmt erlendri slysatryggingalöggjöf, verði felld brott þar sem ákvæðið er úrelt enda frá þeim tíma er greidd voru sérstök iðgjöld fyrir slysatryggingu launþega hjá almannatryggingum. Í 35. gr. og 37. gr. frumvarpsins er nú vísað til aðstæðna þegar erlend slysatryggingalöggjöf getur átt við.
    Lagt er til að við greinina bætist ný 4. mgr. um að skil á reiknuðu endurgjaldi vegna sjálfstæðrar atvinnustarfsemi teljist að öllu jöfnu sönnun þess að umsækjandi stundi þá atvinnustarfsemi sem um ræðir. Um er að ræða lögfestingu á sönnunaratriði, sbr. einnig umfjöllun í athugasemdum um 16. gr. frumvarpsins.

Um 7. gr.

    1. mgr. er samhljóða 30. gr. gildandi laga um almannatryggingar, nr. 100/2007.
    Lagt er til að bætt verði við nýrri málsgrein um að ráðherra verði heimilt með reglugerð að skilgreina nánar tryggingartímabil og hvað teljist til heimilisstarfa, en nú er kveðið á um það í reglugerð nr. 670/2012, um slysatryggingar við heimilisstörf.

Um 8. gr.

    Ákvæðið er efnislega samhljóða 31. gr. gildandi laga um almannatryggingar, nr. 100/2007.

Um 9. gr.

    Ákvæðið er að mestu samhljóða 32. gr. gildandi laga um almannatryggingar, nr. 100/2007, með eftirfarandi undantekningum:
    Gert er ráð fyrir því nýmæli í g-lið 1. mgr. að auk greiðslu sjúkraþjálfunar verði kveðið á um greiðslu á iðjuþjálfun og talþjálfun. Eðlilegt er talið að slysatryggingar almannatrygginga greiði slíkan kostnað að fullu eins og sjúkraþjálfunarkostnað, en reynt getur á hvort sem er iðju- eða talþjálfun vegna afleiðinga alvarlegra slysa. Þá er einnig lagt til að fellt verði út orðið „orkulækningar“ í sama staflið þar sem slíkar lækningar falla undir a-lið 1. mgr. eftir því sem við á („læknishjálp sem samið hefur verið um samkvæmt lögum um sjúkratryggingar“).
    Lagt er til að við 1. tölul. 1. mgr. bætist nýr stafliður, h-liður, þar sem kveðið er á um endurgreiðslu vegna tiltekinna læknisvottorða. Er gert ráð fyrir að endurgreiðsla miðist við það gjald sem tilgreint er í reglugerð um hlutdeild sjúkratryggðra í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu hverju sinni. Þetta er í samræmi við gildandi framkvæmd, en skort hefur lagaheimild fyrir umræddum endurgreiðslum. Kostnaður vegna vottorða og læknisfræðilegra gagna annarra en þeirra sem tilgreind eru í greininni endurgreiðast ekki úr slysatryggingum.
    Þá er lagt til að í stað orðanna ,,styrk upp í kostnað“ í b-lið 3. tölul. 1. mgr. komi orðin,,hluta kostnaðar“, en ekki er um efnislega breytingu að ræða.
    Lögð er til ný málsgrein, 4. mgr., þar sem kveðið verði á um að sjúkrahjálp greiðist ekki vegna kostnaðar sem fellur til þegar liðin eru fimm ár eða meira frá slysdegi. Ef alveg sérstaklega stendur á verði þó heimilt að greiða kostnað sem fellur til í allt að tíu ár frá slysdegi, enda séu skýr læknisfræðileg orsakatengsl milli slyssins og kostnaðarins. Talið er nauðsynlegt að setja tímamörk á greiðslu þessa kostnaðar sem nú er greiddur ótímabundið, óháð því hversu langt er liðið frá slysi enda erfitt að staðreyna orsakasamband milli slyss og kostnaðar þegar langt er um liðið frá slysi. Óeðlilegt má telja að kostnaður sem hlýst af slysum sem ákvæðið tekur til sé greiddur án þess að nokkrar takmarkanir séu gerðar hvað varðar tímamörk. Því er lagt til að útgjöld vegna sjúkrakostnaðar sem falla til innan fimm ára frá slysi verði greidd úr slysatryggingum almannatrygginga en eftir það fari að jafnaði um rétt hins slasaða eftir ákvæðum laga um sjúkratryggingar. Þessi breyting mundi aðallega snerta minni háttar slys sem hafa að jafnaði ekki í för með sér mikil útgjöld fyrir hinn tryggða. Í flestum tilvikum eru útgjöldin sem um ræðir hluti sjúklings við heilbrigðisþjónustu, svo sem komugjöld, en slík þjónusta er að öðru leyti greidd af sjúkratryggingum samkvæmt gildandi lögum um sjúkratryggingar. Þó er lagt til að heimilt verði að greiða kostnað hins tryggða úr slysatryggingum í allt að tíu ár í alveg sérstökum undantekningartilvikum. Hér gæti til dæmis verið um að ræða tilvik þegar um er að ræða verulegan kostnað sem ekki fæst greiddur samkvæmt lögum um sjúkratryggingar, til dæmis tannplanta, plantakrónur eða önnur dýr hjálpartæki sem þurfa endurnýjunar við og hinn sjúkratryggði þarf sjálfur að standa straum af, enda sé orsakasamband ljóst. Þannig verði mætt þeim útgjöldum sem hinn tryggði kann að verða fyrir en sjúkratryggingar greiða ekki samkvæmt lögum um sjúkratryggingar. Þessi breyting kæmi ekki fram fyrr en eftir fimm ár frá gildistöku laganna og þá aðeins vegna nýrra slysamála. Ekki er gert ráð fyrir að þessi breyting hafi mikil áhrif á viðkomandi hóp slysatryggðra enda taka sjúkratryggingar til þess kostnaðar sem um ræðir og með undanþáguheimildinni er unnt að mæta því ef upp kunna að koma sérstök ófyrirséð tilvik.
    Þá er lögð til ný málsgrein, 5. mgr., um að einungis skuli greiða nauðsynlegan sjúkrakostnað sem verður til hér á landi nema annað leiði af milliríkjasamningum. Þó er gert ráð fyrir að greiða skuli nauðsynlegan kostnað sem til fellur erlendis ef slys verður þar og hinn slasaði nýtur tryggingaverndar við störf erlendis, sbr. 2. málsl. b-liðar 2. mgr. 5. gr. eða 3. málsl. a-liðar 1. mgr. 6. gr. Er það í samræmi við gildandi framkvæmd.

Um 10. gr.

    Ákvæðið er efnislega samhljóða 33. gr. gildandi laga um almannatryggingar.

Um 11. gr.

    Efnislega er ákvæðið að mestu óbreytt frá 34. gr. gildandi laga um almannatryggingar. Í 1. mgr. þeirrar greinar er tekið fram að greiða skuli örorkulífeyri eftir reglum 4. mgr. 18. gr. þeirra laga. Samsvarandi ákvæði er nú í 15. gr. frumvarps til laga um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning. Þar sem um er að ræða ný lög um slysatryggingar almannatrygginga þykir rétt að tilgreina sérstaklega bæði fjárhæð og aldursmörk. Um tengdar greiðslur fer hins vegar samkvæmt lögum um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning og er vísað til þess í ákvæðinu. Hér er um að ræða tekjutryggingu, aldurstengda örorkuuppbót og uppbætur á lífeyri samkvæmt gildandi lögum um félagslega aðstoð, en þessar bætur greiðast ekki af slysatryggingum samkvæmt gildandi lögum. Barnalífeyrir og dánarbætur greiðast aftur á móti af slysatryggingum.
    Þá eru lagðar til eftirfarandi breytingar frá 34. gr. gildandi laga:
    1. mgr. er breytt til samræmis við frumvarp til laga um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning og gert ráð fyrir að í samræmi við örorkulífeyrisréttindi þeirra laga verði réttur til slysaörorkulífeyris reiknaður frá 18 ára aldri og undantekning vegna aldurs í 1. mgr. 34. gr. gildandi laga um almannatryggingar því felld niður. Þessi undantekning kom inn í lögin árið 2009 þegar aldursviðmið örorkulífeyris almannatrygginga var hækkað í 18 ár. Samkvæmt lögræðislögum verða menn lögráða og fjárráða 18 ára og er talið rétt að miða greiðslu örorkulífeyris við það aldursmark þannig að ófjárráða einstaklingum séu ekki greiddar örorkubætur. Má einnig benda á að örorkustyrkur og örorkulífeyrir samkvæmt gildandi almannatryggingalögum er veittur einstaklingum frá 18 ára aldri og barnalífeyrir er greiddur til 18 ára aldur en þó ekki vegna þeirra barna er njóta örorkulífeyris og á það við um slysaörorkulífeyri til að koma í veg fyrir ofgreiðslur. Þá eru umönnunargreiðslur til framfærenda fatlaðra og langveikra barna samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, greiddar til 18 ára aldurs. Einnig greiðast sjúkradagpeningar samkvæmt lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, frá 18 ára aldri. Þá er það meginregla bótaréttar að ekki eru greiddar tvöfaldar bætur fyrir sama tjón vegna sama tímabils. Mjög fátítt er að börn á aldrinum 16– 18 ára hljóti varanlega örorku af völdum bótaskyldra slysa. Þá verður að hafa í huga að þetta ákvæði hefur ekki áhrif á tryggingaverndina sem fjallað er um í 6. gr. frumvarpsins. Í því tilviki að barn yngra en 18 ára verður fyrir varanlegri örorku vegna bótaskylds slyss munu lífeyrisbætur greiðast frá og með 18 ára aldri eftir þá breytingu sem hér er lögð til. Einnig er bætt við málslið þar sem tekið er fram að tekjur hins slasaða skuli ekki lækka örorkulífeyri samkvæmt þessu ákvæði. Samsvarandi ákvæði er nú í 2. málsl. 2. mgr. 34. gr. gildandi laga.
    Í 2. mgr. er lagt til að við bætist nýr málsliður þar sem heimilað verði að greiða örorkubætur í einu lagi í samræmi við 4. mgr. hafi hinn slasaði ekki verið búsettur hér á landi er slysið átti sér stað og hafi ekki áunnið sér rétt til lífeyrisgreiðslna samkvæmt lögum um lífeyrisréttindi og félagslegan stuðning. Í 3. mgr. er lagt til að felld verði brott orðin „maka og“ en makabætur eru ekki greiddar vegna örorku heldur eru greiddar bætur til maka í átta ár frá dánardægri skv. 35. gr. gildandi laga, sbr. 12. gr. frumvarpsins, ef um andlát er að ræða í kjölfar slyss.
    Í 3. og 4. mgr. er lagt til að notað verði hugtakið „örorka“ í staðinn fyrir „orkutap“ og er það í samræmi við hugtakanotkun annars staðar í greininni. Þá er lagt til að orðin „ella greiðist lífeyrir í hlutfalli við örorkuna“ falli brott þar sem kveðið er á um það í 2. mgr.
    Fyrri málsliður 5. mgr. er samhljóða 6. mgr. 34. gr. gildandi laga um almannatryggingar. Í síðari málslið ákvæðisins er lagt til að kveðið verði á um að hafi slasaður einstaklingur áður fengið metna varanlega læknisfræðilega örorku samkvæmt slysatryggingum almannatrygginga, sbr. 22. gr., vegna annars bótaskylds slyss skuli taka tillit til samanlagðrar örorku. Þetta þýðir að lágmark örorku til greiðslu örorkubóta getur verið fyrir hendi á grundvelli tveggja eða fleiri örorkumata vegna tveggja eða fleiri slysa sem bótaskyld eru samkvæmt frumvarpinu. Er þetta í samræmi við framkvæmd sjúkratryggingastofnunar og áður Tryggingastofnunar ríkisins.

Um 12. gr.

    Ákvæðið er efnislega samhljóða 35. gr. gildandi laga um almannatryggingar.
    Í c-lið er lagt til að í stað „barns eldra en 16 ára“ komi „afkomandi eldri en 18 ára“. Þetta er gert til samræmis við hækkun lögræðisaldurs í 18 ár og að örorkulífeyrir greiðist nú frá 18 ára aldri en ekki 16 ára eins og áður, en í þessu felast engar efnislegar breytingar frá núverandi framkvæmd.

Um 13. gr.

    Samkvæmt ákvæðinu er gert ráð fyrir að sömu reglur og samkvæmt frumvarpi til laga um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning gildi um bótarétt slysaörorkulífeyrisþega skv. 11. gr., hvort sem hann dvelst á sjúkrahúsi eða í fangelsi. Er það í samræmi við framkvæmdina nú, sbr. lög um almannatryggingar. Þetta þýðir að sömu reglur gilda um niðurfellingu bóta og rétt til ráðstöfunarfjár.

Um 14. gr.

    Ákvæðið er byggt á 28. gr. gildandi laga um almannatryggingar, en þó eru lagðar til tvær efnisbreytingar.
    Í 1. mgr. er lagt til að hlutverk lögreglustjóra eða umboðsmanns hans sem aðalviðtakanda tilkynningar um vinnuslys fyrir hönd sjúkratryggingastofnunar verði fellt niður til samræmis við breytta framkvæmd, en tilkynningarnar hafa um árabil verið sendar beint til sjúkratryggingastofnunar eða umboða (þjónustustöðva) stofnunarinnar.
     Í 2. mgr. er lagt til að sett verði það skilyrði að þegar tilkynningar um slys berast að liðnum eins árs tilkynningarfrestinum sem kveðið er á um skuli læknisfræðileg orsakatengsl vera ljós milli slyssins og einkenna hins slasaða. Er þetta til samræmis við ákvæði 3. gr. reglugerðar nr. 356/2005 og áratuga framkvæmd. Þá er einnig lagt til að kveðið verði á um tíu ára hámarksfrest til að tilkynna um slys, sbr. einnig 3. gr. áðurnefndrar reglugerðar.

Um 15. gr.

    Ákvæðið, sem fjallar um upplýsingaskyldu umsækjenda, er efnislega samhljóða 91. gr. í frumvarpi til laga um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning, sbr. einnig 52. gr. gildandi laga um almannatryggingar. Vegna eðlis bóta slysatrygginga almannatrygginga eru þó ekki gerðar kröfur hér um tilkynningu bótaþega á breytingum um tekjur en hugtakið bætur er notað um allar greiðslur slysatrygginganna.

Um 16. gr.

    Ákvæðið er byggt á 92. gr. í frumvarpi til laga um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning og er efnislega samhljóða 3. málsl. 2. mgr. 52. gr. gildandi laga um almannatryggingar. Vegna eðlis bóta slysatrygginga almannatrygginga er hér að auki kveðið á um öflun upplýsinga um greiðslur opinberra gjalda en ekki er talin þörf á upplýsingum um greiðslur frá lífeyrissjóðum. Oft getur verið óljóst hvort greiða eigi dagpeninga eða aflahlut sjómanna til vinnuveitanda eða til hins slasaða, sbr. 4. mgr. 10. gr. frumvarpsins og 33. gr. gildandi laga um almannatryggingar. Þessara upplýsinga er því óskað frá hinum slasaða, en til staðfestingar getur sjúkratryggingastofnunin þurft aðgang að upplýsingunum frá skattyfirvöldum. Það auðveldar einnig afgreiðslu mála varðandi ákvörðun um hvort einstaklingur teljist hafa verið í vinnu þegar slys varð. Þá er litið á reiknað endurgjald og greiðslur opinberra gjalda sem hluta af sönnun þess að slys hafi orðið við vinnu, án þess að það sé þó fortakslaust skilyrði bótaréttar, sbr. einnig umfjöllun um tillögu að nýrri 4. mgr. 6. gr. frumvarpsins.

Um 17. gr.

    Ákvæðið er samhljóða 93. gr. í frumvarpi til laga um um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning, sbr. einnig 3. mgr. 52. gr. gildandi laga um almannatryggingar.

Um 18. gr.

    Ákvæðið er samhljóða 94. gr. í frumvarpi til laga um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning, sbr. 5. mgr. 52. gr. gildandi laga um almannatryggingar. Hér er, auk afrita úr sjúkraskrá og annarra læknisfræðilegra gagna, sem liggja fyrir hjá heilbrigðisstarfsmönnum, átt við vottorð um ástand hins slasaða.

Um 19. gr.

    Ákvæðið er byggt á 95. gr. í frumvarpi til laga um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning. Vegna eðlis bóta slysatrygginga almannatrygginga er ekki gerð tillaga um upplýsingar frá eins mörgum stofnunum og gert er í því frumvarpi en á móti er óskað upplýsinga frá vátryggingafélögum vegna tengsla slysatrygginga almannatrygginga við vátryggingar. Gert er ráð fyrir að ekki sé óskað upplýsinga umfram það sem nauðsynlegt er til að unnt sé að framfylgja lögunum. Mikilvægt er að hafa þagnarskyldu starfsmanna stofnunarinnar í huga og áréttað að við meðferð persónuupplýsinga sem aflað er skuli stofnunin gæta þess að uppfyllt séu skilyrði laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, sbr. einnig 33. og 34. gr. frumvarpsins.

Um 20. gr.

    Ákvæðið er samhljóða 97. gr. í frumvarpi til laga um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning, sbr. einnig 53. og 55. gr. gildandi laga um almannatryggingar.

Um 21. gr.

    1. og 2. mgr. eru að mestu leyti samhljóða 1. og 2. mgr. 53. gr. gildandi laga um almannatryggingar. Þó er í 1. mgr. lagt til að kveðið verði á um að mánaðarlegar bætur slysatrygginga almannatrygginga reiknist frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að bótaréttur er fyrir hendi og falli niður í lok þess mánaðar er bótarétti lýkur. Er þetta í samræmi við framkvæmdina. Í 2. mgr. eru gerðar lítils háttar orðalagsbreytingar með tilliti til þess að verði frumvarpið að lögum muni sérstök lög gilda um slysatryggingar almannatrygginga. Þá er tekið fram að um fyrningu slysaörorkulífeyris fari samkvæmt fyrningarlögum, sbr. 6. gr. laga um fyrningu kröfuréttinda, nr. 150/2007, þar sem fyrning er nú ákveðin tíu ár.
    3. mgr. er samhljóða 2. mgr. 54. gr. og 4. mgr. er samhljóða 3. mgr. 53. gr. gildandi almannatryggingalaga.

Um 22. gr.

    Hér er gerð tillaga um nýja grein þar sem í fyrsta skipti er gerð grein fyrir því á hvers konar örorkumati varanleg örorka slysatrygginga almannatrygginga byggist.
    Varanleg örorka slysatrygginga er metin samkvæmt læknisfræðilegu mati og kallast varanleg læknisfræðileg örorka. Er þar metin til hundraðshluta varanleg skerðing á líkamlegri og eftir atvikum andlegri færni einstaklinga sem orðið hafa fyrir líkamstjóni. Allir eru metnir út frá sömu forsendum og ekki tekið tillit til menntunar, starfs eða áhugamála við matið. Skal hér m.a. vísað til greinar um örorkumat í Tímariti lögfræðinga, 2. hefti 1972.
    Mat á varanlegri læknisfræðilegri örorku slysatrygginga er fyrst og fremst byggt á miskatöflu örorkunefndar, sem starfar á grundvelli 10. gr. skaðabótalaga, nr. 50/1993 (sjá: www.innanrikisraduneyti.is/raduneyti/nefndir/fastanefndir/nr/390). Fyrir getur komið að ekki sé getið um áverka hins slasaða í töflunni. Í þeim tilvikum eru áverkar metnir með hliðsjón af svipuðum áverkum í töflunni og til hliðsjónar hafðar miskatöflur annarra landa sem getið er um í hliðsjónarritum miskatöflu örorkunefndar. Hér má nefna dönsku miskatöfluna Méntabel, gefin út af Arbejdsskadestyrelsen árið 2012, sænsku miskatöfluna Medicinsk invaliditet, gefin út af Sveriges Försäkringsförbund 2004 og rit bandarísku læknasamtakanna Guides to the Evaluation of Permanent Impairment, 5. útgáfa, American Medical Association 2001(eða nýrri útgáfur eftir atvikum).
    Þá er hámark varanlegrar læknisfræðilegrar örorku 100% hvort sem um er að ræða afleiðingar annars vegar eins tiltekins slyss þegar um einn eða fleiri áverka er að ræða eða hins vegar þegar um er að ræða uppsafnaða örorku vegna afleiðinga margra bótaskyldra slysa. Við samlagningu örorkustiga er að jafnaði stuðst við þá meginreglu sem fram kemur í fyrrnefndum hliðsjónarritum, en í henni felst að þegar leggja skal saman mat á afleiðingum slyss A við afleiðingar slyss B er notuð formúlan A% + B% x ((100–A%)/100).
    Í 3. mgr. er lagt til að sjúkratryggingastofnun verði heimilt að semja við lækna utan stofnunarinnar um áverkagreiningu og mat á örorku umsækjenda.
    Í 4. mgr. er gert ráð fyrir að ráðherra geti sett reglugerð þar sem nánar sé kveðið á um framkvæmd örorkumats.

Um 23. gr.

    Ákvæðið er samhljóða 36. gr. gildandi laga um sjúkratryggingar, nr. 112/2008.

Um 24. gr.

    Ákvæðið er efnislega samhljóða 72. gr. í frumvarpi til laga um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning, sbr. 50. gr. gildandi laga um almannatryggingar.

Um 25. gr.

    Ákvæðið er efnislega samhljóða 27. gr. í frumvarpi til laga um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning, sbr. 51. gr. gildandi laga um almannatryggingar.

Um 26. gr.

    Ákvæðið er efnislega samhljóða 57. gr. gildandi laga um almannatryggingar, en hugtakið kyrrsetning kemur í stað eldra hugtaks, löghalds.

Um 27. gr.

    Ákvæðið er sótt í 55. gr. gildandi laga um almannatryggingar, að undanskildum 2. og 3. málsl. 2. mgr. sem fjalla um vexti á vangreiddar bætur, sem eru samhljóða 2. mgr. 77. gr. í frumvarpi til laga um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning.

Um 28. gr.

    Ákvæðið er samhljóða 36. gr. gildandi laga um almannatryggingar.

Um 29. gr.

    Ákvæðið er samhljóða 59. og 60. gr. gildandi laga um almannatryggingar.

Um 30. gr.

    Ákvæðið er samhljóða 61. gr. gildandi laga um almannatryggingar.

Um 31. gr.

    Ákvæðið er samhljóða 67. gr. gildandi laga um almannatryggingar.

Um 32. gr.

    Ákvæðið er að mestu samhljóða 73. gr. í frumvarpi til laga um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning, en ekki er þörf á að mæla fyrir um fjármagnstekjur hér.

Um 33. gr.

    Ákvæðið er samhljóða 50. gr. laga um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, um meðferð persónuupplýsinga en auk þess er lagt til að einnig verði vísað til laga um sjúkraskrár.

Um 34. gr.

    1. og 2. mgr. eru að mestu samhljóða 4. mgr. 52. gr. gildandi laga um almannatryggingar, en 3. mgr. er að mestu samhljóða 2. mgr. 98. gr. í frumvarpi til laga um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning.

Um 35. gr.

    Ákvæðið er að mestu samhljóða 1. og 3. mgr. 53. gr. gildandi laga um sjúkratryggingar, nr. 112/2008. Þó er lagt til að við greinina bætist ný 2. mgr. þar sem skýrt er að útsendir starfsmenn, sem starfa í öðrum ríkjum en þeim sem gerðir hafa verið milliríkjasamningar við, falli einnig undir íslenska löggjöf. Einnig er lögð til ný málsgrein, er verði 4. mgr., og er hún samhljóða 3. mgr. 118 gr. frumvarps til laga um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning og á sér einnig fyrirmynd í 63. gr. a. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, og 34. gr. laga nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof.

Um 36. gr.

    Ákvæðið er að mestu samhljóða 115. gr. í frumvarpi til laga um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning.

Um 37. gr.

    Ákvæðið er efnislega samhljóða 2. máls. 70. gr. gildandi laga um almannatryggingar en orðalag hefur verið lagfært til samræmis við gildandi reglur um frágang lagafrumvarpa.

Um 38. gr.

    Ákvæðið er efnislega samhljóða 1. málsl. 70. gr. gildandi laga um almannatryggingar.

Um 39. gr.

    Gert er ráð fyrir að lögin öðlist gildi um leið og lög um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning.

Um 40. gr.

    Greinin kveður á um breytingar á ýmsum lögum og er eingöngu um að ræða orðalagsbreytingar sem stafa af flutningi slysatryggingakafla almannatryggingalaga í sérstök lög.