Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 7. máls.
142. löggjafarþing 2013.
Þingskjal 7  —  7. mál.
Frumvarp til lagaum lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning.

Flm.: Guðbjartur Hannesson, Árni Páll Árnason, Helgi Hjörvar, Katrín Júlíusdóttir, Kristján L. Möller, Oddný G. Harðardóttir, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,
Valgerður Bjarnadóttir, Össur Skarphéðinsson.


I. KAFLI

Markmið, skilgreiningar og gildissvið.
A. Markmið og orðskýringar.

1. gr.
Markmið.

    Markmið laga þessara er að tryggja öllum þeim sem lögin taka til og þess þurfa bætur og stuðning vegna elli, skertrar starfsgetu, andláts og framfærslu barna, eftir því sem nánar er kveðið á um í lögum þessum og í samræmi við lög um málefni aldraðra, lög um málefni fatlaðs fólks og önnur lög eftir því sem við á.
    Með bótum og stuðningi skv. 1. mgr. skal stuðlað að því að einstaklingum sem lögin taka til sé gert kleift að framfleyta sér og lifa sjálfstæðu lífi.

2. gr.
Orðskýringar.

    Í lögum þessum hafa eftirfarandi orð svofellda merkingu:
     1.      Lífeyrisþegi: Einstaklingur sem fær greiddan lífeyri sem hann hefur sjálfur áunnið sér samkvæmt lögum þessum.
     2.      Greiðsluþegi: Einstaklingur sem fær aðrar greiðslur en lífeyri samkvæmt lögum þessum.
     3.      Bætur: Bætur greiddar í peningum.
     4.      Tekjutengdar bætur: Bætur þar sem tekjur hafa áhrif á fjárhæð greiðslna.
     5.      Ár: Almanaksár nema annað sé tekið fram.
     6.      Búseta: Lögheimili í skilningi lögheimilislaga nema sérstakar ástæður leiði til annars.
     7.      Einhleypur: Einstaklingur sem er hvorki í hjúskap eða staðfestri samvist skv. 8. tölul. né óvígðri sambúð skv. 9. tölul.
     8.      Hjón: Einstaklingar í hjúskap samkvæmt hjúskaparlögum eða í staðfestri samvist sem stofnað var til samkvæmt lögum um staðfesta samvist.
     9.      Óvígð sambúð: Sambúð tveggja einstaklinga, sem skráð er í þjóðskrá, enda eigi þeir barn saman, eigi von á barni saman eða hafi verið í sambúð samfleytt lengur en eitt ár.
     10.      Tekjur: Tekjur skv. II. kafla laga um tekjuskatt, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað ekki telst til tekna og frádráttarliða skv. 1., 3., 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum. Einnig sams konar tekjur sem aflað er erlendis og ekki eru taldar fram hér á landi.
     11.      Atvinnutekjur: Endurgjald fyrir hvers konar vinnu, starf eða þjónustu skv. 1. tölul. A- liðar og B-lið 7. gr. laga um tekjuskatt sem og greiðslur eða bætur sem koma í stað slíks endurgjalds.
     12.      Lífeyrissjóðstekjur: Greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum, sbr. lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.
     13.      Fjármagnstekjur: Tekjur skv. C-lið 7. gr. laga um tekjuskatt.

B. Gildissvið.
3. gr.
Efnislegt gildissvið.

    Lög þessi gilda um lífeyri almannatrygginga, greiðslur vegna heimilismanna á dvalar- og hjúkrunarheimilum, greiðslur vegna barna og stuðning vegna sérstakra aðstæðna.

4. gr.
Persónulegt gildissvið.

    Sá sem búsettur er hér á landi, sbr. 6. tölul. 2. gr., telst tryggður að uppfylltum öðrum skilyrðum laganna nema annað leiði af milliríkjasamningum.
    Tryggingavernd fellur niður þegar búseta er flutt frá Íslandi nema annað leiði af milliríkjasamningum eða ákvæðum þessa kafla.
    Tryggingastofnun ákvarðar hvort einstaklingur telst tryggður hér á landi samkvæmt lögunum. Um málskot fer skv. 100.–106. gr.

5. gr.
Sérákvæði um tryggingavernd.

    Einstaklingur sem tryggður er samkvæmt lögunum getur óskað eftir að vera áfram tryggður í allt að fimm ár þótt hann uppfylli ekki skilyrði 4. gr., enda starfi viðkomandi erlendis fyrir aðila sem hafi aðsetur og starfsemi á Íslandi og tryggingagjald, sbr. lög um tryggingagjald, sé greitt hér á landi af launum hans. Sama gildir um maka hans og börn undir 18 ára aldri sem dveljast með honum.
    Einstaklingur sem tryggður er samkvæmt lögunum telst áfram tryggður í allt að fimm ár þótt hann uppfylli ekki skilyrði 4. gr. meðan hann stundar viðurkennt nám erlendis, enda njóti hann ekki tryggingaverndar í almannatryggingum námslandsins. Sama gildir um maka námsmanns sem var tryggður hér á landi við upphaf námsins og börn undir 18 ára aldri sem með honum dveljast.
    Einstaklingur, sem tryggður er samkvæmt lögunum, getur óskað eftir að vera áfram tryggður í allt að eitt ár frá brottför af landinu þótt hann uppfylli ekki skilyrði 4. gr., enda leiði milliríkjasamningar ekki til annars. Skilyrði þessa er að viðkomandi hafi haft samfellda fasta búsetu hér á landi eigi skemur en fimm ár fyrir brottför og að það sé ekki tilgangur farar að leita læknismeðferðar.
    Þegar einstaklingur fellur undir milliríkjasamning um almannatryggingar gilda ákvæði hans um það hvaða löggjöf skuli beitt, sbr. 118. gr.
    Sækja skal um áframhaldandi tryggingavernd samkvæmt þessari grein til Tryggingastofnunar. Um málsmeðferð fer skv. VIII. kafla.
    

6. gr.
Flóttamenn.

    Flóttamenn, sem veitt hefur verið hæli samkvæmt lögum um útlendinga og fengið réttarstöðu flóttamanna hér á landi, eru tryggðir samkvæmt lögum þessum frá komudegi, að því tilskildu að fyrir liggi staðfesting Útlendingastofnunar á því að viðkomandi hafi verið veitt réttarstaða flóttamanns.

7. gr.
Dánarbú.

    Ákvæði þessara laga gilda um dánarbú eftir því sem við á.

C. Almenn ákvæði.
8. gr.
Reglugerðir.

    Ráðherra er heimilt að setja reglugerðir um einstök atriði er varða framkvæmd þessa kafla, m.a. um rétt til að njóta tryggingaverndar hér á landi, réttindaávinnslu í sérstökum tilfellum, skráningu á tryggingaréttindum, atvinnu, nám og tímabundna dvöl erlendis og réttindi flóttamanna.

II. KAFLI
Greiðslur til aldraðra.
A. Ávinnsla réttinda og skilyrði fyrir greiðslum.

9. gr.
Ellilífeyrir.

    Rétt til ellilífeyris eiga þeir sem eru 67 ára eða eldri og hafa verið búsettir hér á landi, sbr. I. kafla, a.m.k. þrjú almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Fullur ellilífeyrir greiðist þeim einstaklingum sem hafa verið búsettir hér á landi a.m.k. 40 almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Sé um skemmri tíma að ræða greiðist ellilífeyrir í hlutfalli við búsetutímann.
    Heimilt er að miða lífeyri hjóna, sem hvort um sig hafa uppfyllt skilyrði 1. mgr., við búsetutíma þess sem á lengri réttindatíma enda hafi það hjóna sem hefur skemmri búsetutíma ekki áunnið sér rétt til lífeyris í öðru landi fyrir sama tímabil.
    Hver sem stundað hefur sjómennsku í 25 ár eða lengur skal eiga rétt á töku ellilífeyris frá og með 60 ára aldri, enda njóti viðkomandi hvorki örorkulífeyris né örorkustyrks og skilyrðum þessarar greinar er að öðru leyti fullnægt. Starfsár sjómanna skal í þessu sambandi miðast við að sjómaður hafi verið lögskráður á íslenskt skip eða skip gert út af íslenskum aðilum eigi færri en 180 daga að meðaltali á ári í 25 ár.
    Hafi sjómaður stundað sjómennsku í 25 ár eða lengur að hluta eða öllu leyti á opnum báti eða þilfarsbáti undir 12 brl. eða honum hafi af öðrum ástæðum ekki borið skylda til lögskráningar er heimilt að ákvarða honum ellilífeyri frá og með 60 ára aldri, enda sé sannað að sú sjómennska hafi verið aðalstarf viðkomandi meðan á henni stóð.

B. Fjárhæðir greiðslna og tekjur.
10. gr.
Fjárhæðir.

    Fullur ellilífeyrir skal vera 1.932.540 kr. á ári og reiknast í hlutfalli við búsetu hér á landi skv. 9. gr. Ellilífeyri skal lækka um 45% af tekjum lífeyrisþegans, sbr. 11. gr., uns lífeyririnn fellur niður.

11. gr.
Tekjur.

    Til tekna samkvæmt þessum kafla laganna teljast tekjur skv. II. kafla laga um tekjuskatt, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað ekki telst til tekna og frádráttarliða skv. 1., 3., 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skulu ekki teljast til tekna bætur samkvæmt lögum þessum, fjárhagsaðstoð sveitarfélaga og greiðslur úr séreignarlífeyrissparnaði og viðbótartryggingavernd, sbr. lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, og sambærilegar bætur frá ríkjum sem gerðir hafa verið samningar við skv. 118. gr.
    Við útreikning á fjárhæð bóta samkvæmt þessum kafla laganna skal ekki reikna með tekjum maka. Fjármagnstekjur, eins og þær eru skilgreindar í 13. tölul. 2. gr., skiptast þó ávallt til helminga milli hjóna og skiptir ekki máli hvort hjónanna er eigandi þeirra eigna sem mynda tekjurnar eða hvort um séreign eða hjúskapareign er að ræða. Sama gildir um fjármagnstekjur sambýlisfólks sem uppfyllir skilyrði fyrir samsköttun skv. 3. mgr. 62. gr. laga um tekjuskatt.

C. Ýmis ákvæði.
12. gr.
Hækkun vegna frestunar á töku ellilífeyris.

    Þeir sem uppfylla skilyrði fyrir greiðslu ellilífeyris skv. 1. mgr. 9. gr. geta frestað töku lífeyris allt til 72 ára aldurs og öðlast með því rétt til hækkunar vegna frestunarinnar enda hafi þeir ekki fengið greiddan lífeyri á tímabilinu.
    Eftir að bótaréttur hefur verið reiknaður út skal hækka ellilífeyri um 0,5% fyrir hvern frestunarmánuð fram til 72 ára aldurs eða að hámarki 30%.

13. gr.
Stuðningur vegna sérstakra aðstæðna.

    Um stuðning sem heimilt er að veita lífeyrisþegum vegna sérstakra aðstæðna, svo sem vegna lágra tekna eða aukinna útgjalda, fer skv. VI. kafla.

14. gr.
Reglugerðir.

    Ráðherra er heimilt að setja reglugerðir um einstök atriði er varða framkvæmd þessa kafla, m.a. um fjárhæðir bóta, tekjumörk, útreikning greiðslna og hækkun vegna frestunar á töku lífeyris.

III. KAFLI
Greiðslur vegna skertrar starfsgetu.
A. Ávinnsla réttinda, skilyrði fyrir greiðslum og fjárhæðir.

15. gr.
Örorkulífeyrir.

    Rétt til örorkulífeyris eiga þeir einstaklingar sem hafa verið búsettir hér á landi, sbr. I. kafla, eru á aldrinum 18 til 67 ára og:
     a.      hafa verið búsettir hér á landi a.m.k. þrjú síðustu árin samfleytt áður en umsókn er lögð fram eða samfleytt í eitt ár hafi umsækjandi annaðhvort áður verið búsettur hér á landi í a.m.k. 20 ár eftir 18 ára aldur eða að lágmarki í fimm ár eftir 18 ára aldur enda hafi búseta erlendis eftir 18 ára aldur ekki staðið lengur en fimm ár og
     b.      eru metnir til a.m.k. 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar.
    Tryggingastofnun metur örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Heimilt er að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur, sbr. 16. gr.
    Fullur örorkulífeyrir greiðist þeim sem hafa verið búsettir hér á landi a.m.k. 40 almanaksár frá 18 ára aldri. Sé um skemmri tíma að ræða greiðist örorkulífeyrir í hlutfalli við búsetutímann. Við ákvörðun búsetutíma skal reikna með tímann frá þeim tíma sem örorka skv. b-lið 1. mgr. var metin fram til 67 ára aldurs umsækjanda.
    Fullur örorkulífeyrir skal vera 408.639 kr. á ári og reiknast í hlutfalli við búsetu hér á landi skv. 1. og 3. mgr. Örorkulífeyri skal lækka skv. 22. gr.

16. gr.
Endurhæfingargreiðslur.

    Þeir sem uppfylla skilyrði a-liðar 1. mgr. 15. gr. geta fengið endurhæfingargreiðslur í allt að 18 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni þeirra verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.
    Heimilt er að framlengja greiðslutímabil skv. 1. mgr. um allt að 18 mánuði ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi.
    Um fjárhæð og útreikning endurhæfingargreiðslna fer skv. 3. og 4. mgr. 15. gr. Um greiðslur vegna barna og stuðning vegna sérstakra aðstæðna fer eftir sömu reglum og gilda um örorkulífeyri, sbr. þó 1. mgr. 63. gr. Sjúkrahúsvist í endurhæfingarskyni skemur en eitt ár samfellt hefur ekki áhrif á greiðslur.
    Tryggingastofnun hefur eftirlit með því að endurhæfingaráætlun sé framfylgt og að skilyrði fyrir greiðslum séu að öðru leyti uppfyllt.

17. gr.
Aldurstengd örorkuuppbót.

    Aldurstengd örorkuuppbót greiðist þeim sem fá greiddan örorkulífeyri skv. 15. gr., endurhæfingargreiðslur skv. 16. gr. eða fullan örorkulífeyri samkvæmt lögum um slysatryggingar almannatrygginga. Um uppbótina gilda ákvæði 15. gr. um örorkumat, búsetutíma og lækkun vegna tekna.
    Fjárhæð uppbótar, sbr. 3. mgr., miðast við þann aldur sem einstaklingur var í fyrsta sinn metinn 75% öryrki skv. 1. mgr. 15. gr. og lögum um slysatryggingar almannatrygginga eða uppfyllir skilyrði 16. gr.
    Fjárhæð mánaðarlegrar aldurstengdrar örorkuuppbótar, sbr. 1. mgr., skal vera hlutfall af fullum mánaðarlegum örorkulífeyri skv. 15. gr. og miðast við fæðingardag, sbr. eftirfarandi:
18 til og með 24 ára 100%
25 ára 95%
26 ára 90%
27 ára 85%
28 og 29 ára 75%
30 og 31 árs 65%
32 og 33 ára 55%
34 og 35 ára 45%
36 og 37 ára 35%
38 og 39 ára 25%
40 til og með 45 ára 15%
46 til og með 50 ára 10%
51 til og með 55 ára 7,5%
56 til og með 60 ára 5%
61 til og með 66 ára 2,5%
    

18. gr.
Tekjutrygging.

    Tekjutrygging greiðist þeim sem fá greiddan örorkulífeyri skv. 15. gr., endurhæfingargreiðslur skv. 16. gr. eða fullan örorkulífeyri samkvæmt lögum um slysatryggingar almannatrygginga að uppfylltum öðrum skilyrðum laganna. Tekjutrygging greiðist í hlutfalli við búsetutíma hér á landi, sbr. 3. mgr. 15. gr.
    Full tekjutrygging skal vera 1.308.604 á ári. Tekjutryggingu skal lækka skv. 22. gr.

19. gr.
Heimilisuppbót.

    Heimilt er að greiða heimilisuppbót einhleypum lífeyrisþega sem býr einn og er einn um heimilisrekstur án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað.
    Full heimilisuppbót skal vera 380.025 kr. á ári. Heimilisuppbót skal lækka eftir sömu reglum og tekjutrygging skv. 18. gr.

20. gr.
Örorkustyrkur.

    Örorkustyrkur greiðist þeim sem eru á aldrinum 18–62 ára ef örorka þeirra er metin a.m.k. 50% og að uppfylltu búsetuskilyrði 1. mgr. 15. gr. Slíkan styrk skal enn fremur veita þeim sem uppfyllir skilyrði 1. málsl. og stundar fullt starf ef örorkan hefur í för með sér verulegan aukakostnað.
    Greiða skal einstaklingi sem náð hefur 62 ára aldri, uppfyllir búsetuskilyrði 1. mgr. 15. gr. og er metinn a.m.k. 50% öryrki, örorkustyrk sem skal svara til fulls örorkulífeyris skv. 15. gr.
    Fullur örorkustyrkur skal vera 302.100 kr. á ári. Örorkustyrkur lækkar eftir sömu reglum og örorkulífeyrir skv. 15. gr.

B. Tekjur og útreikningur greiðslna.
21. gr.
Tekjur.

    Til tekna samkvæmt þessum kafla laganna teljast tekjur skv. II. kafla laga um tekjuskatt, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað ekki telst til tekna og frádráttarliða skv. 1., 3., 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum. Þó skal eftirfarandi gilda við ákvörðun tekjugrundvallar:
     a.      Atvinnutekjur, sbr. 11. tölul. 2. gr., umfram 328.800 kr. á ári skulu teljast til tekna við útreikning á fjárhæð tekjutryggingar.
     b.      Lífeyrissjóðstekjur, sbr. 12. tölul. 2. gr., umfram 328.800 kr. á ári skulu teljast til tekna við útreikning á fjárhæð tekjutryggingar.
     c.      Fjármagnstekjur, sbr. 13. tölul. 2. gr., umfram 98.640 kr. á ári skulu teljast til tekna við útreikning lífeyris, tekjutryggingar, heimilisuppbótar og uppbóta samkvæmt þessum kafla laganna. Ef um hjón er að ræða skiptast tekjur skv. 1. málsl. til helminga milli hjóna við útreikning bótanna. Skiptir ekki máli hvort hjónanna er eigandi þeirra eigna sem mynda tekjurnar eða hvort um séreign eða hjúskapareign er að ræða. Sama gildir um fjármagnstekjur sambýlisfólks sem uppfyllir skilyrði fyrir samsköttun skv. 3. mgr. 62. gr. laga um tekjuskatt.
    Þegar um er að ræða bætur samkvæmt þessum kafla teljast ekki til tekna, þrátt fyrir ákvæði 1. mgr., bætur samkvæmt lögum þessum og lögum um félagslega aðstoð, fjárhagsaðstoð sveitarfélaga og greiðslur úr séreignarlífeyrissparnaði og viðbótartryggingavernd, sbr. lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Sama gildir um sambærilegar bætur frá ríkjum sem gerðir hafa verið samningar við skv. 118. gr.

22. gr.
Útreikningur greiðslna.

    Örorkulífeyri skal lækka ef tekjur lífeyrisþega skv. 21. gr. eru hærri en 2.575.220 kr. á ári. Ef tekjur eru umfram umrædd mörk skal lækka örorkulífeyri um 25% þeirra tekna sem umfram eru uns hann fellur niður.
    Hafi lífeyrisþegi tekjur skv. 21. gr. skal lækka tekjutryggingu um 38,35% þeirra tekna uns hún fellur niður.
    Við útreikning á fjárhæð bóta samkvæmt þessum kafla laganna skal ekki reikna með tekjum maka, sbr. þó 2. mgr. 21. gr.
    Samanlögð lækkun örorkulífeyris og tekjutryggingar skal aldrei fara umfram 38,35% af tekjum. Komi samtímis til lækkunar þessara bóta skal lífeyrir fyrst lækkaður og samsvarandi dregið úr lækkun tekjutryggingar. Ákvæði þessarar málsgreinar um lækkun gilda ekki um heimilisuppbót skv. 19. gr.

23. gr.
Tekjuviðmiðun lífeyrisþega sem fengið hafa eingreiðslu skaðabóta.

    Við útreikning örorkulífeyris og tekjutryggingar, sbr. 15. og 18. gr., er ráðherra heimilt að hækka tekjuviðmiðun þeirra lífeyrisþega sem fengið hafa eingreiðslu skaðabóta vegna örorku að frádregnum áætluðum örorkulífeyri og tekjutryggingu til framtíðar frá Tryggingastofnun.

C. Ýmis ákvæði.
24. gr.
Stuðningur vegna sérstakra aðstæðna.

    Um stuðning vegna sérstakra aðstæðna, svo sem vegna lágra tekna eða aukinna útgjalda, sem heimilt er að veita lífeyrisþegum og þeim sem fá endurhæfingargreiðslur fer skv. VI. kafla.

25. gr.
Örorkumat þegar örorka vegna slyss hefur áður verið metin.

    Við mat og ákvörðun örorkustigs skv. 2. mgr. 15. gr. skal eingöngu tekið mið af almennri örorku. Hafi umsækjandi áður verið metinn til örorku samkvæmt lögum um slysatryggingar almannatrygginga skal sú örorka ekki teljast til hækkunar við matið.

26. gr.
Útreikningur greiðslna þegar lífeyrisþegi hefur fengið greiddan slysalífeyri.

    Hafi lífeyrisþegi þegar fengið greiddan lífeyri samkvæmt lögum um slysatryggingar almannatrygginga skal taka tillit til þess við útreikning örorkulífeyris vegna almennrar örorku fyrir sama tímabil.

27. gr.
Stöðvun greiðslna.

    Heimilt er að stöðva greiðslu bóta sem ætlaðar eru greiðsluþega sjálfum ef hlutaðeigandi vanrækir að fara að læknisráðum eða neitar að hlíta fyrirmælum um þátttöku í þjálfun eða starfsnámi sem gæti bætt afkomu hans eða búið hann undir nýtt starf.

28. gr.
Örorkuskírteini.

    Tryggingastofnun gefur út örorkuskírteini til þeirra sem uppfylla skilyrði b-liðar 1. mgr. 15. gr. og eru jafnframt sjúkratryggðir hér á landi samkvæmt lögum um sjúkratryggingar.

29. gr.
Mat á endurhæfingarmöguleikum og örorku.

    Tryggingastofnun er heimilt að semja við lækna utan stofnunarinnar um sérhæft mat á endurhæfingarmöguleikum umsækjenda og örorku. Þá er stofnuninni heimilt að semja um kostnað vegna mats á möguleikum til endurhæfingar.

30. gr.
Reglugerðir.

    Ráðherra er heimilt að setja reglugerðir um einstök atriði er varða framkvæmd þessa kafla, m.a. um fjárhæðir bóta, tekjumörk, örorkustaðal, aldurstengda örorkuuppbót, örorkustyrki, hækkun tekjuviðmiðs þeirra lífeyrisþega sem fengið hafa eingreiðslu skaðabóta, útreikning greiðslna og endurhæfingargreiðslur, þ.m.t. hvaða aðila skuli falið að annast gerð endurhæfingaráætlunar.

IV. KAFLI
Greiðslur vegna heimilismanna á dvalar- og hjúkrunarheimilum.
A. Stöðvun lífeyrisgreiðslna vegna dvalar á stofnun.

31. gr.
Dvöl á stofnun fyrir aldraða.

    Lífeyrir samkvæmt þessum lögum og bætur honum tengdar falla niður frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir upphaf dvalar lífeyrisþega á dvalarheimili sem ekki er á föstum fjárlögum. Greiðsla lífeyris og tengdra bóta skal hefjast að nýju fyrsta dag næsta mánaðar eftir að dvöl heimilismanns lýkur. Heimilt er þó að víkja frá tímamörkum skv. 1. málsl. ef sérstaklega stendur á og skal við mat á framlengingu á greiðslu lífeyris og bótum honum tengdum höfð hliðsjón af tekjum skv. 38. gr.

32. gr.
Dvöl á sjúkrahúsi, hjúkrunarheimili og í hjúkrunarrýmum.

    Ef lífeyrisþegi dvelst lengur en í mánuð samfellt á sjúkrahúsi sem er á föstum fjárlögum fellur niður lífeyrir hans og bætur honum tengdar ef dvölin hefur varað lengur en sex mánuði undanfarna tólf mánuði. Ef ljóst er frá upphafi að um varanlega dvöl á hjúkrunarheimili eða í hjúkrunarrými öldrunarstofnunar er að ræða falla bætur niður frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir upphaf dvalar. Heimilt er þó að víkja frá tímamörkum skv. 1. málsl. ef sérstaklega stendur á og skal við mat á framlengingu á greiðslu lífeyris og bótum honum tengdum höfð hliðsjón af tekjum skv. 38. gr.

33. gr.
Upplýsingaskylda sjúkrahúsa og stofnana.

    Sjúkrahús og stofnanir skv. 34. gr. skulu mánaðarlega senda Tryggingastofnun upplýsingar um dvöl.

B. Daggjöld og dvalarframlag.
34. gr.
Daggjöld.

    Ráðherra ákveður með reglugerð daggjöld fyrir hjúkrunar-, dvalar- og dagvistarrými sem ekki eru á föstum fjárlögum.
    Tryggingastofnun er heimilt að greiða daggjöld fyrir hjúkrunarrými vegna einstaklinga sem eru sjúkratryggðir hér á landi frá upphafi dvalar en um greiðslur vegna andláts, brottflutnings og sjúkrahúsvistar fer samkvæmt reglugerð.

35. gr.
Dvalarframlag.

    Tryggingastofnun er heimilt að greiða dvalarframlag til dvalarheimilis fyrir aldraða sem ekki er á föstum fjárlögum sem nemur mismun á greiðsluþátttöku heimilismanns, sbr. 37. gr., og því sem á vantar heildardvalarkostnað, í samræmi við lög þessi. Dvalarframlag skal þó aldrei nema hærri fjárhæð en nemur daggjöldum eins og þau eru ákveðin af ráðherra hverju sinni skv. 34. gr.
    Dvalarframlag er heimilt að greiða frá upphafi dvalar. Við andlát heimilismanns eða þegar heimilismaður flytur af dvalarheimili falla greiðslur dvalarframlags niður frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir lok dvalar.
    Fari heimilismaður á sjúkrahús til skammtímainnlagnar er heimilt að greiða áframhaldandi dvalarframlag út næsta mánuð eftir að innlögnin á sér stað.

36. gr.
Flutningur heimilismanns.

    Flytjist heimilismaður af dvalarrými yfir á hjúkrunarrými skal dvalarframlag sem þegar hefur verið greitt til dvalarheimilis frá þeim tíma dragast frá daggjaldi sem Tryggingastofnun hefur greitt fyrir hjúkrunarrýmið samkvæmt reglugerð.

C. Greiðsla dvalarkostnaðar.
37. gr.
Greiðsluþátttaka í dvalarkostnaði.

    Heimilismaður sem hefur tekjur, sbr. 38. gr., umfram 75.566 kr. á mánuði skal taka þátt í greiðslu dvalarkostnaðar á stofnun fyrir aldraða. Þó skal greiðsluþátttaka hans aldrei nema hærri fjárhæð en sem nemur daggjöldum á stofnun eins og þau eru ákveðin af ráðherra, sbr. 34. gr.
    Eftirfarandi gildir um greiðslu heimilismanns á dvalarkostnaði á dvalarheimili og hjúkrunarheimili eða hjúkrunarrými öldrunarstofnunar sem ekki er á föstum fjárlögum og hjúkrunarrými sem er á föstum fjárlögum þegar heimilismaður greiðir dvalarkostnað með tekjum sínum að hluta eða öllu leyti:
     1.      Hafi heimilismaður tekjur, sbr. 38. gr., sem eru hærri en 75.566 kr. á mánuði skal hann með þeim tekjum sem umfram eru taka þátt í dvalarkostnaði, sbr. 1. mgr., frá þeim tíma þegar greiðslur bóta frá Tryggingastofnun falla niður.
     2.      Nái tekjur heimilismanns á dvalarheimili skv. 1. tölul. 1. mgr. 14. gr. laga um málefni aldraðra ekki 75.566 kr. á mánuði greiðir Tryggingastofnun dvalarkostnað hans með dvalarframlagi.

38. gr.
Tekjur.

    Til tekna samkvæmt þessum kafla laganna teljast tekjur skv. II. kafla laga um tekjuskatt, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað ekki telst til tekna og frádráttarliða skv. 1., 3., 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skulu ekki teljast til tekna bætur samkvæmt lögum þessum, fjárhagsaðstoð sveitarfélaga og greiðslur úr séreignarlífeyrissparnaði og viðbótartryggingavernd, sbr. lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, og sambærilegar bætur frá ríkjum sem gerðir hafa verið samningar við skv. 118. gr.
    Við útreikning á greiðsluþátttöku samkvæmt þessum kafla laganna skal ekki reikna með tekjum maka.
    Tekjumörk samkvæmt þessari grein breytast í samræmi við breytingar á tekjumörkum ellilífeyris skv. II. kafla.

39. gr.
Innheimta dvalarkostnaðar.

    Daggjaldastofnun skv. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 14. gr. laga um málefni aldraðra skal innheimta hjá heimilismanni sjálfum í byrjun hvers mánaðar daglegan hlut hans í dvalarkostnaði nýliðins mánaðar þegar hann tekur þátt í greiðslu dvalarkostnaðar skv. 37. gr. Þess skal ætíð gætt að heimilismaður haldi eftir mánaðarlegu ráðstöfunarfé skv. 37. gr. Stofnun skal gera Tryggingastofnun grein fyrir innheimtu vegna nýliðins mánaðar fyrir 15. dag næsta mánaðar. Nú tekst stofnun ekki að innheimta hlut heimilismanns í dvalarkostnaði og er Tryggingastofnun þá heimilt að halda eftir samsvarandi hluta af mánaðarlegum greiðslum dvalarframlags til viðkomandi stofnunar.
    Stofnun sem er á föstum fjárlögum skal innheimta hjá heimilismanni sjálfum í byrjun hvers mánaðar hlut hans í dvalarkostnaði, sbr. 3. mgr., nýliðins mánaðar þegar hann tekur þátt í greiðslu dvalarkostnaðar skv. 37. gr. Tekjur þessar skulu færast í bókhald stofnunar sem sértekjur. Því ráðuneyti sem fer með fjárreiður ríkisins er heimilt samkvæmt upplýsingum frá því ráðuneyti sem fer með velferðarmál að halda eftir af beinum fjárframlögum samkvæmt fjárlögum fjárhæð sem svarar til þessara sértekna.
    Ráðherra skal ákveða hámark greiðsluþátttöku heimilismanns í dvalarkostnaði á stofnun sem er á föstum fjárlögum. Við ákvörðun skal höfð hliðsjón af ákvörðun daggjalda eins og þau eru ákveðin skv. 34. gr.

40. gr.
Útreikningur, endurreikningur og uppgjör greiðsluþátttöku heimilismanna.

    Tryggingastofnun annast framkvæmd útreiknings á tekjum og greiðsluþátttöku heimilismanna í dvalarkostnaði samkvæmt þessum kafla.
    Til grundvallar útreikningi á greiðsluþátttöku heimilismanns hvers mánaðar skal leggja 1/ 12af áætluðum tekjum greiðsluársins. Greiðsluár er almanaksár. Áætlun um tekjuupplýsingar skal byggjast á nýjustu upplýsingum frá skattyfirvöldum, umsækjanda, heimilismanni eða öðrum þeim aðilum sem getið er um í 92. gr. Ef um nýjan útreikning á greiðsluþátttöku heimilismanns er að ræða skulu tekjur áætlaðar á grundvelli upplýsinga frá framangreindum aðilum og greiðsluþátttaka reiknuð út frá þeim tekjum heimilismanns og eftir atvikum maka hans sem aflað er frá upphafi dvalar.
    Tryggingastofnun hefur eftirlit með því að áætlaðar tekjur séu í samræmi við upplýsingar sem stofnunin aflar úr staðgreiðsluskrá skattyfirvalda eða frá öðrum þeim aðilum sem getið er um í 92. gr.
    Eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur greiðsluársins liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum skal Tryggingastofnun endurreikna fjárhæð greiðsluþátttöku á grundvelli tekna samkvæmt þessari grein. Við þann endurreikning er Tryggingastofnun heimilt að taka tillit til almennra breytinga á launum frá þeim tíma sem ætlaðar tekjur heimilismanns tilheyra til þess tíma sem endanlegar tekjur varða.
    Komi í ljós við endurreikning að greiðsluþátttaka heimilismanns hafi verið ofáætluð af Tryggingastofnun skal stofnunin greiða heimili það sem upp á vantar. Hafi greiðsluþátttaka verið vanáætluð skal um endurheimtu fara skv. 78.–80. gr. Stofnun skal leiðrétta greiðslur til heimilismanns í framhaldi af endurreikningi Tryggingastofnunar.
    Tryggingastofnun skal upplýsa heimilismann um forsendur útreiknings og gefa kost á að koma að athugasemdum. Um upplýsingaskyldu varðandi tekjur fer skv. 91. og 92. gr.
    Tryggingastofnun er heimilt, að ósk heimilismanns, að dreifa eigin tekjum heimilismannsins, sem stafa af fjármagnstekjum sem leystar hafa verið út í einu lagi, á allt að tíu ár. Ekki er heimilt að dreifa slíkum tekjum oftar en einu sinni á hverju tímabili. Sá sem nýtur greiðsludreifingar við upphaf dvalar skal njóta hennar áfram.
    Þegar nýr heimilismaður kemur til dvalar á stofnun, sbr. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 14. gr. laga um málefni aldraðra, skulu stjórnendur stofnunarinnar óska eftir því við Tryggingastofnun að hún kanni hvort viðkomandi skuli taka þátt í greiðslu dvalarkostnaðar.
    Um útreikning, endurreikning og uppgjör greiðsluþátttöku heimilismanna gilda að öðru leyti ákvæði reglugerðar, m.a. um áætlun tekna heimilismanna, breytingar á aðstæðum þeirra og endurreikning við álagningu opinberra gjalda og dvöl hluta úr mánuði.
    Ekki skulu greiddir vextir á vangreitt dvalarframlag eða daggjöld til stofnana.

D. Ráðstöfunarfé og dagpeningar utan stofnana.
41. gr.
Ráðstöfunarfé.

    Þegar lífeyrir og bætur honum tengdar falla niður skv. 31. eða 32. gr. er heimilt að greiða þeim sem dvelst á sjúkrahúsi hér á landi eða stofnun fyrir aldraða allt að 584.412 kr. á ári til eigin ráðstöfunar. Við útreikning á fjárhæð ráðstöfunarfjár skulu 65% af tekjum, sbr. 38. gr., koma til lækkunar. Greiðslur ráðstöfunarfjár falla niður þegar tekjur nema 899.095 kr. á ári.

42. gr.
Dagpeningar utan stofnana.

    Nú dvelst heimilismaður sem fær greitt ráðstöfunarfé utan stofnunar nokkra daga í senn en útskrifast samt ekki og er þá heimilt að greiða dagpeninga sem nema 2.650 kr. á dag þann tíma.

E. Ýmis ákvæði.
43. gr.
Greiðslur fyrir dagdvöl aldraðra.

    Þeir sem njóta þjónustu dagdvalar samkvæmt lögum um málefni aldraðra skulu taka þátt í kostnaði af dagdvölinni að hámarki sem nemur fullum örorkulífeyri einstaklings skv. 15. gr. Að öðru leyti greiðist kostnaður vegna dagdvalar af Tryggingastofnun.

44. gr.
Reglugerðir.

    Ráðherra er heimilt að setja reglugerðir um einstök atriði er varða framkvæmd þessa kafla, m.a. um greiðsluþátttöku heimilismanna í dvalarkostnaði, fjárhæðir og tekjumörk, daggjöld dvalarheimila fyrir aldraða, innheimtu dvalarkostnaðar, útreikning, endurreikning og uppgjör dvalarframlags og ráðstöfunarfé.

V. KAFLI
Greiðslur vegna barna.
A. Ávinnsla réttinda, skilyrði fyrir greiðslum og fjárhæðir greiðslna.

45. gr.
Barnalífeyrir vegna örorku og andláts.

    Barnalífeyrir er greiddur með börnum yngri en 18 ára ef annað hvort foreldra er látið eða uppfyllir skilyrði b-liðar 1. mgr. 15. gr. um örorkumat, hafi annað hvort foreldra þess eða barnið sjálft búið hér á landi a.m.k. þrjú síðustu árin áður en umsókn er lögð fram. Séu báðir foreldrar látnir eða uppfylli skilyrði skv. 1. málsl. um örorkumat skal greiddur tvöfaldur barnalífeyrir. Hvorki ákvæði 10. né 22. gr. takmarka rétt til barnalífeyris.
    Barnalífeyrir greiðist foreldrum barnanna, enda séu þau á framfæri þeirra, eða þeim öðrum er annast framfærslu þeirra að fullu, sbr. þó 55. gr.

46. gr.
Viðbót við örorkustyrk.

    Greiða skal viðbót við örorkustyrk til þeirra sem hafa börn innan 18 ára aldurs á framfæri sínu. Viðbótin má ekki vera hærri en 75% af barnalífeyri, sbr. 50. gr., fyrir hvert barn á framfæri.

47. gr.
Greiðsla með barni ellilífeyrisþega.

    Greiða skal barnalífeyri með barni ellilífeyrisþega. Sama á við ef greiðslur hafa fallið niður skv. 31. og 32. gr.

48. gr.
Greiðsla með barni fanga.

    Heimilt er að greiða barnalífeyri með barni einstaklings sem sætir gæsluvist eða afplánar fangelsisrefsingu, enda hafi hún varað a.m.k. þrjá mánuði samfellt.
    

49. gr.
Greiðsla vegna ófeðraðra barna.

    Greiða skal barnalífeyri að fenginni staðfestingu um að barn verði ekki feðrað.

50. gr.
Fjárhæð barnalífeyris.

    Árlegur barnalífeyrir með hverju barni skal vera 302.100 kr.

51. gr.
Stuðningur vegna náms.

    Heimilt er að greiða ungmenni á aldrinum 18–20 ára sem á lögheimili og er búsett hér á landi, sbr. 6. tölul. 2. gr. og 4. gr., stuðning vegna skólanáms eða starfsþjálfunar ef annað foreldri eða báðir eru elli- eða örorkulífeyrisþegar eða látnir.
    Verði úrskurði skv. 1. mgr. 62. gr. barnalaga eigi við komið vegna efnaleysis foreldris eða ekki tekst að hafa uppi á því er heimilt að greiða stuðning skv. 1. mgr. til ungmennis sem stundar sannanlegt nám í samræmi við þessa málsgrein. Sama gildir ef úrskurður á grundvelli 1. mgr. 62. gr. barnalaga liggur fyrir en ungmenninu er ókleift að innheimta greiðslur samkvæmt honum.
    Tryggingastofnun metur sönnun um skólavist og starfsþjálfun. Skilyrði er að námið og þjálfunin taki a.m.k. fimm mánuði hvert ár.
    Við ákvörðun um hvort veita skuli stuðning samkvæmt þessu ákvæði skal líta til efnahags og tekna ungmennis.
    Fjárhæð stuðnings samkvæmt þessu ákvæði skal nema sömu fjárhæð og fjárhæð barnalífeyris skv. 50. gr.

52. gr.
Styrkir til einstæðra framfærenda.

    Heimilt er að greiða styrki samkvæmt ákvæði þessu einstæðum foreldrum sem hafa börn sín undir 18 ára aldri á framfæri og eiga lögheimili og eru búsettir hér á landi, sbr. 6. tölul. 2. gr. og 4. gr. Sama gildir um aðra þá sem annast einir framfærslu barna undir 18 ára aldri og fara varanlega með forsjá þeirra. Sá sem greiðir meðlag með barni telst ekki framfærandi í þessu sambandi.
    Árlegir styrkir til einstæðra framfærenda skulu vera 84.180 kr. með tveimur börnum og 227.379 kr. með þremur börnum eða fleiri.
    Þegar lífeyrir fellur niður skv. IV. kafla er heimilt að greiða maka lífeyrisþegans styrk skv. 1. mgr. að uppfylltum öðrum skilyrðum. Sama á við um greiðslur til maka einstaklings sem dæmdur hefur verið til vistunar, sbr. 71. gr., enda hafi vistunin varað samfellt a.m.k. fjóra mánuði.
    Styrkur skv. 1. mgr. fellur niður einu ári eftir að greiðsluþegi hefur óvígða sambúð með öðrum en foreldri barnsins eða barnanna, sbr. 9. tölul. 2. gr. og 73. gr. Nú hefur viðtakandi greiðslnanna óvígða sambúð með hinu foreldri barnsins eða barnanna, fyrrverandi sambýlisaðila eða gengur í hjúskap og falla þá greiðslurnar strax niður.

53. gr.
Fyrirframgreiðsla meðlags og aðrar greiðslur samkvæmt barnalögum.

    Hver sá sem fær úrskurð stjórnvalds um meðlag með barni sem hann hefur á framfæri sínu eða um aðrar greiðslur skv. IX. kafla barnalaga, getur snúið sér til Tryggingastofnunar og fengið fyrirframgreiðslu meðlags eða annarra framfærsluframlaga samkvæmt úrskurðinum. Sama skal gilda þegar lagt er fram staðfest samkomulag um meðlagsgreiðslur og aðrar greiðslur skv. IX. kafla barnalaga. Fyrirframgreiðsla meðlags frá Tryggingastofnun skal ávallt vera innan þeirra marka sem fram koma í 45. og 50. gr. um aldur barna og fjárhæð greiðslna.
    Á sama hátt skal barnsmóðir fá samkvæmt stjórnvaldsúrskurði eða staðfestu samkomulagi greitt hjá Tryggingastofnun:
     a.      Framfærslulífeyri í allt að þrjá mánuði skv. 1. mgr. 25. gr. barnalaga.
     b.      Hjúkrunar- og framfærslustyrk í allt að níu mánuði skv. 2. mgr. 25. gr. barnalaga.
     c.      Kostnað vegna meðgöngu og fæðingar skv. 1. mgr. 26. gr. barnalaga.
    Þegar eftir að sýslumaður hefur veitt viðtöku ósk frá móður um að aflað verði faðernisviðurkenningar hjá lýstum barnsföður getur hún fengið meðlag greitt með barninu innan þeirra marka er 45. og 50. gr. setja.
    Þeir sem annast framfærslu barns að foreldri látnu eða af öðrum lögmætum ástæðum, þ.m.t. sveitarstjórn í framfærslusveit barnsins hafi hún greitt fé til framfærslu þess, eiga sama rétt og foreldri eftir því sem við getur átt.

54. gr.
Afturvirkar meðlagsgreiðslur.

    Heimilt er að greiða meðlag aftur í tímann allt að tólf mánuði, talið frá byrjun þess mánaðar sem stjórnvaldsúrskurður, staðfestur samningur eða vottorð sýslumanns um að hann hafi veitt viðtöku ósk móður um öflun faðernisviðurkenningar berst stofnuninni, enda eigi þá 49. gr. ekki við.
    Hafi meira en tveir mánuðir liðið frá útgáfu meðlagsákvörðunar, sbr. 1. mgr., þegar sótt er um greiðslu meðlags aftur í tímann, skal Tryggingastofnun greiða meðlag frá byrjun þess mánaðar sem umsókn og nauðsynleg fylgigögn berast. Þó er stofnuninni heimilt að greiða meðlag allt að tólf mánuði aftur í tímann enda liggi fyrir að umsækjandi hafi ekki fengið greitt fyrir sama tímabil.

B. Ýmis ákvæði.
55. gr.
Samskipti við Innheimtustofnun sveitarfélaga og skil vegna óinnheimtra skulda.

    Tryggingastofnun skal senda Innheimtustofnun sveitarfélaga innan eins mánaðar tilkynningu um fyrstu greiðslu skv. 53. gr. Tilkynningunni skal fylgja afrit af yfirvaldsúrskurði eða staðfestum samningi.
    Innheimtustofnun sveitarfélaga endurgreiðir Tryggingastofnun greiðslur skv. 1.–3. mgr. 53. gr. mánaðarlega eftir því sem innheimtist. Um skil vegna óinnheimtra skulda fer eftir ákvæðum laga um Innheimtustofnun sveitarfélaga.
    Ríkissjóður endurgreiðir Tryggingastofnun meðlög vegna meðlagsgreiðenda sem framfærslurétt eiga erlendis og innheimtast ekki, svo og meðlög greidd skv. 54. gr. þar til meðlagsúrskurður liggur fyrir.
    Þegar svo háttar til að Tryggingastofnun hefur milligöngu um meðlagsgreiðslur með barni skv. 1. mgr. 53. gr. og hið meðlagsskylda foreldri öðlast rétt til barnalífeyris vegna barnsins er stofnuninni þó heimilt að láta greiðslu barnalífeyris ganga til fyrirframgreiðslu meðlags vegna sama tímabils. Verður þá ekki um kröfu á hendur meðlagsskyldum aðila að ræða fyrir það tímabil.

56. gr.
Reglugerðir.

    Ráðherra er heimilt að setja reglugerðir um einstök atriði er varða framkvæmd þessa kafla, m.a. um fjárhæðir bóta og annarra greiðslna, styrki til einstæðra foreldra, stuðning vegna náms ungmenna, framkvæmd meðlagsgreiðslna og annarra framfærsluframlaga, fyrirframgreiðslu meðlags þegar foreldri eða börn eru búsett erlendis sem og um hámarksgreiðslur sem Tryggingastofnun innir af hendi.

VI. KAFLI
Stuðningur vegna sérstakra aðstæðna.
A. Markmið og gildissvið
.
57. gr.
Markmið.

    Markmið samkvæmt þessum kafla er að veita lífeyrisþegum sem hafa tekjur undir lágmarksframfærsluviðmiði, eins og það er ákveðið með lögum þessum, stuðning þeim til framfærslu. Þá er það markmið að veita sjúkum og fötluðu fólki sérstakan stuðning vegna aukinna útgjalda og gera hreyfihömluðum einstaklingum kleift að stunda atvinnu eða nám og að sækja reglubundna endurhæfingu eða læknismeðferð.
    Stuðningur samkvæmt þessum kafla tekur mið af félagslegum og efnahagslegum aðstæðum hér á landi og skal við mat á þörf og ákvörðun greiðslna litið heildstætt til allra fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna hlutaðeigandi, eins og nánar er kveðið á um í kaflanum.

58. gr.
Efnislegt gildissvið.

    Greiðslur samkvæmt þessum kafla taka til uppbóta á lífeyri vegna framfærslu, uppbóta á lífeyri vegna kostnaðar, uppbóta vegna hreyfihömlunar, styrkja til bifreiðakaupa, endurgreiðslu umtalsverðs kostnaðar við læknishjálp og lyf, umönnunargreiðslna, umönnunarbóta og dánarbóta.

59. gr.
Persónulegt gildissvið.

    Greiðslur samkvæmt þessum kafla eru eingöngu veittar þeim sem eiga lögheimili og eru búsettir hér á landi, sbr. 6. tölul. 2. gr. og 4. gr. og að uppfylltum öðrum skilyrðum laganna og reglugerða sem settar eru með stoð í þeim. Greiðslur samkvæmt þessum kafla eru ekki veittar þeim sem falla undir 5. gr. þegar búseta erlendis hefur varað eitt ár eða lengur.

B. Uppbætur á lífeyri.
60. gr.
Uppbót vegna framfærslu.

    Heimilt er að greiða lífeyrisþega sérstaka uppbót á lífeyri vegna framfærslu ef sýnt þykir að hann geti ekki framfleytt sér án hennar.
    Við mat á því hvort einhleypur lífeyrisþegi sem býr einn geti framfleytt sér án sérstakrar uppbótar skal miða við að heildartekjur séu undir 210.922 kr. á mánuði. Í öðrum tilfellum skal miða við að heildartekjur séu undir 181.769 kr. á mánuði.
    Til heildartekna samkvæmt ákvæði þessu teljast 45% af tekjum, sbr. 10. tölul. 2. gr. Skattskyldar greiðslur samkvæmt lögum þessum teljast með að fullu við útreikning uppbótarinnar, en þó skal ekki taka tillit til hækkunar vegna frestunar á töku ellilífeyris skv. 12. gr. og uppbóta skv. 61. gr. og 2. mgr. 62. gr. við útreikninginn. Sama gildir um fjárhagsaðstoð sveitarfélaga.
    Hámark uppbótar samkvæmt þessu ákvæði skal aldrei nema hærri fjárhæð en 50.000 kr. á mánuði.
    Við mat á þörf samkvæmt þessu ákvæði skal litið heildstætt til allra félagslegra og fjárhagslegra aðstæðna umsækjanda.

61. gr.
Uppbót vegna kostnaðar.

    Heimilt er að greiða lífeyrisþega sérstaka uppbót á lífeyri vegna kostnaðar sem ekki fæst greiddur eða bættur með öðrum hætti ef sýnt þykir að hann geti ekki framfleytt sér án hennar. Við mat á þörf samkvæmt þessu ákvæði skal litið heildstætt til allra félagslegra og fjárhagslegra aðstæðna umsækjanda.

62. gr.
Uppbætur vegna hreyfihömlunar.

    Til viðbótar við greiðslur skv. 10., 15. og 20. gr. er heimilt að greiða hreyfihömluðum lífeyrisþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem ætluð er til daglegra nota hans. Uppbót samkvæmt þessu ákvæði er heimilt að veita á fimm ára fresti og nemur fjárhæð hennar 300.000 kr. Fjárhæð uppbótar til hreyfihamlaðra sem eru að kaupa bifreið í fyrsta sinn skal nema 600.000 kr.
    Einnig er heimilt að greiða þeim sem uppfylla skilyrði 1. mgr. uppbót vegna reksturs bifreiðar. Sama gildir um þá sem fá endurhæfingargreiðslur. Fjárhæð uppbótarinnar er 151.050 kr. á ári.
    Skilyrði fyrir greiðslum skv. 1. og 2. mgr. er að lífeyrisþega sé nauðsyn að hafa bifreið vegna hreyfihömlunar og að sýnt sé fram á að hann geti ekki komist af án uppbótarinnar.
    Með hreyfihömlun samkvæmt þessu ákvæði er átt við verulega skerðingu á færni til að komast ferða sinna þannig að göngugeta sé að jafnaði minni en 400 metrar á jafnsléttu vegna afleiðinga sjúkdóms eða fötlunar.

C. Aðrar greiðslur.
63. gr.
Styrkir til bifreiðakaupa.

    Heimilt er að veita sjúkratryggðum einstaklingi sem telst verulega hreyfihamlaður styrk til kaupa á bifreið sem honum er nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar eða þess að líkamshluta vantar. Styrkur samkvæmt ákvæði þessu nemur 1.200.000 kr.
    Heimilt er að veita verulega hreyfihömluðum einstaklingi, sem uppfyllir skilyrði 1. mgr. og ekki kemst af án sérútbúinnar og dýrrar bifreiðar vegna mikillar fötlunar, styrk til að kaupa bifreið sem nemur allt að 60% af kaupverði hennar, þ.e. grunnverði án aukabúnaðar, þó að hámarki 5.000.000 kr. Skilyrði er að hinn hreyfihamlaði sé skráður eigandi bifreiðarinnar.
    Heimilt er að greiða styrk til framfæranda hreyfihamlaðs barns sem nýtur umönnunargreiðslna skv. 65. gr. sem nemur 300.000 kr. vegna kaupa á bifreið sem ætluð er til daglegra nota. Þá er heimilt að greiða framfæranda hreyfihamlaðs barns sem nýtur umönnunargreiðslna styrk skv. 1. mgr. ef sýnt er fram á þörf fyrir að koma barninu í reglubundna þjálfun, meðferð eða í skóla. Í sérstökum undantekningartilfellum er heimilt að greiða framfæranda hreyfihamlaðs barns, sem nýtur umönnunargreiðslna, styrk skv. 2. mgr. að uppfylltum sömu skilyrðum.
    Styrki vegna bifreiðakaupa samkvæmt þessu ákvæði er heimilt að veita á fimm ára fresti.

64. gr.
Endurgreiðsla umtalsverðs kostnaðar vegna læknishjálpar og lyfja.

    Verði útgjöld sjúkratryggðs einstaklings vegna læknishjálpar og lyfja umtalsverð er heimilt að endurgreiða hlutaðeigandi þennan kostnað að hluta eða að fullu að teknu tilliti til tekna.

65. gr.
Umönnunargreiðslur vegna barna.

    Heimilt er að inna af hendi umönnunargreiðslur til framfærenda fatlaðra og langveikra barna sem dveljast í heimahúsi eða á sjúkrahúsi, allt að 136.213 kr. á mánuði, og/eða taka aukinn þátt í greiðslu sjúkrakostnaðar ef andleg eða líkamleg hömlun barns hefur í för með sér tilfinnanleg útgjöld og sérstaka umönnun eða gæslu. Jafnframt er heimilt að inna af hendi umönnunargreiðslur til framfærenda barna með alvarleg þroskafrávik sem jafna má við fötlun og barna með alvarleg hegðunarvandamál sem jafna má við geðræna sjúkdóma. Þegar sérstaklega stendur á er heimilt að hækka umönnunargreiðslur um allt að 25%.
    Almenn leikskóla- og skólaþjónusta skerðir ekki umönnunargreiðslur. Önnur dagleg, sértæk þjónusta og vistun utan heimilis, þ.m.t. umtalsverð skammtímavistun, skerðir umönnunargreiðslur.

66. gr.
Umönnunarbætur vegna lífeyrisþega.

    Heimilt er að greiða maka lífeyrisþega eða öðrum sem halda heimili með lífeyrisþega umönnunarbætur ef sérstaklega erfiðar fjárhagslegar aðstæður eru fyrir hendi og umsækjandi uppfyllir ekki sjálfur skilyrði fyrir lífeyrisgreiðslum samkvæmt lögum þessum.
    Með sérstaklega erfiðum fjárhagslegum aðstæðum er átt við að maki eða annar aðili sem heldur heimili með lífeyrisþega búi við verulega skerta afkomumöguleika vegna umönnunar lífeyrisþegans og hafi takmarkaða getu til tekjuöflunar.
    Fullar umönnunarbætur skulu vera 1.373.799 kr. á ári.

67. gr.
Dánarbætur.

    Heimilt er að greiða hverjum þeim sem verður ekkja eða ekkill innan 67 ára aldurs bætur í sex mánuði eftir lát maka.
    Ef sérstaklega erfiðar fjárhagslegar aðstæður eru fyrir hendi eða hlutaðeigandi er með barn yngra en 18 ára á framfæri er heimilt að greiða bætur í a.m.k. tólf mánuði til viðbótar en þó aldrei lengur en í 48 mánuði.
    Með sérstaklega erfiðum fjárhagslegum aðstæðum er átt við að eftirlifandi maki búi við verulega skerta afkomumöguleika og hafi takmarkaða getu til tekjuöflunar.
    Fullar dánarbætur skv. 1. mgr. skulu vera 37.498 kr. á mánuði. Framlengdar dánarbætur skv. 2. mgr. skulu vera 28.090 kr. á mánuði.

D. Ýmis ákvæði.
68. gr.
Almennt ákvæði.

    Tryggingastofnun metur þörf á stuðningi samkvæmt ákvæðum þessa kafla.
    Ákvæði annarra kafla gilda eftir því sem við á um greiðslur samkvæmt þessum kafla.

69. gr.
Reglugerðir.

    Ráðherra er heimilt að setja reglugerðir um einstök atriði er varða framkvæmd þessa kafla, m.a. um skilyrði fyrir greiðslum og fjárhæðir, tekju- og eignamörk, helstu viðmið sem litið skal til við mat á þörf, um uppbætur á lífeyri, styrki til bifreiðakaupa, endurgreiðslu umtalsverðs kostnaðar, umönnunargreiðslur, umönnunarbætur og dánarbætur.

VII. KAFLI
Framkvæmd.
A. Almenn ákvæði.

70. gr.
Ósamrýmanleg réttindi.

    Greiðsluþegi getur ekki notið fleiri en einnar tegundar bóta vegna sama tilviks og fyrir sama tímabil nema annað sé sérstaklega tekið fram í lögum þessum. Þó er heimilt að greiða bætur og styrki sem er ætlað að mæta útlögðum kostnaði vegna tilviksins samhliða lífeyrisgreiðslum eða öðrum bótum sem ætlaðar eru til framfærslu.
    Eigi greiðsluþegi rétt á fleiri tegundum bóta en einni samkvæmt lögum þessum sem ekki geta farið saman skal greiða honum hærri eða hæstu bæturnar.
    Njóti einstaklingur bóta samkvæmt öðrum lögum fyrir sama tímabil og bætur eru greiddar samkvæmt þessum lögum, skulu þær teljast til tekna við útreikning tekjutengdra bóta samkvæmt nánari ákvæðum laga þessara.

71. gr.
Fangelsisvist og vistun á stofnun samkvæmt úrskurði.

    Lífeyrir samkvæmt þessum lögum og bætur honum tengdar falla niður þegar greiðsluþegi hefur verið dæmdur til fangelsisvistar eða á annan hátt úrskurðaður til vistunar á stofnun og vistunin hefur varað samfellt í fjóra mánuði. Þegar bætur hafa verið felldar niður er heimilt ef sérstaklega stendur á að greiða fanga ráðstöfunarfé í samræmi við 41. gr.
    Tryggingastofnunin getur þó ákveðið að greiða bæturnar, eða hluta þeirra, til maka greiðsluþega, barna eða einhvers þriðja aðila sem sér um að greiðslurnar komi þeim að sem mestu gagni.

72. gr.
Greiðslur til þriðja aðila.

    Ef talin er hætta á að greiðslur sem ætlaðar eru greiðsluþega eða framfæranda til framfærslu séu notaðar á þann hátt að eigi samrýmist tilgangi laganna, er heimilt, ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi, að greiða þær eða hluta þeirra öðrum en greiðsluþega eða framfæranda. Slíkar ákvarðanir skulu ávallt vera tímabundnar og teknar í samráði við félagsþjónustu hlutaðeigandi sveitarfélags eða barnaverndarnefnd, ef um er að ræða greiðslur vegna framfærslu barna.

73. gr.
Réttarstaða sambýlisfólks.

    Einstaklingar sem eru í óvígðri sambúð, sbr. 9. tölul. 2. gr., eða staðfestri samvist njóta sömu réttinda og bera sömu skyldur og hjón samkvæmt lögum þessum. Um fjármagnstekjur sambýlisfólks fer skv. 11. og 21. gr.
    Sameiginlegt lögheimili eða sambúð eftir öðrum ótvíræðum gögnum lengur en eitt ár skal lagt að jöfnu við skráningu sambúðar í þjóðskrá.

B. Útreikningur, endurreikningur og uppgjör bóta.
74. gr.
Tekjuáætlun og útreikningur greiðslna.

    Tryggingastofnun skal árlega áætla væntanlegar tekjur umsækjanda eða lífeyrisþega á næsta ári. Tekjuáætlun skal byggjast á nýjustu upplýsingum um tekjur sem fengnar eru frá þeim aðilum sem greinir í 92. gr. Til grundvallar bótaútreikningi hvers mánaðar skal leggja 1/ 12 af áætluðum tekjum ársins.
    Tryggingastofnun skal upplýsa umsækjanda eða lífeyrisþega um forsendur bótaútreiknings og gefa honum kost á að koma að athugasemdum.
    Bætur reiknast eingöngu á grundvelli þeirra tekna sem aflað er frá þeim tíma sem réttur til bóta stofnaðist í hverjum bótaflokki.

75. gr.
Nýjar upplýsingar um tekjur.

    Tryggingastofnun skal gæta þess að tekjuáætlun, sbr. 74. gr., sé í samræmi við nýjustu upplýsingar sem stofnunin aflar reglubundið úr staðgreiðsluskrá skattyfirvalda eða frá öðrum aðilum, sbr. 92. gr.
    Komi fram upplýsingar við samanburð skv. 1. mgr. eða frá þeim aðilum sem getið er um í 92. gr., sem leiða til breytinga á tekjuáætlun og breytingin hefur áhrif á rétt til bóta eða fjárhæð greiðslna, skal gefa lífeyrisþega kost á að leggja fram skýringar eða breyta tekjuáætlun. Berist nýjar upplýsingar frá lífeyrisþega skal breyta útreikningi bóta frá og með næsta mánuði á eftir til samræmis við þær enda séu þær ekki bersýnilega í ósamræmi við upplýsingar frá þeim aðilum sem getið er um í 92. gr. Berist ekki nýjar upplýsingar eða skýringar frá lífeyrisþega og sýnt er að um er að ræða varanlega breytingu á tekjum er Tryggingastofnun heimilt að breyta útreikningi bóta til samræmis við fyrirliggjandi upplýsingar.
    Þegar nýr útreikningur bóta skv. 2. mgr. liggur fyrir er áætluðum heildargreiðslum ársins jafnað á alla mánuði þess og bætur greiddar samkvæmt því þá mánuði sem eftir eru af árinu.

76. gr.
Endurreikningur tekjutengdra bóta.

    Þegar endanlegar upplýsingar um tekjur ársins liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum endurreiknar Tryggingastofnun fjárhæðir bóta á grundvelli tekna í samræmi við þessa grein. Við þann endurreikning er heimilt að taka tillit til almennra breytinga á launum frá þeim tíma sem ætlaðar tekjur tilheyra og til þess tíma sem endanlegar tekjur varða.
    Við endurreikning skv. 1. mgr. skulu lagðar til grundvallar þær aðstæður lífeyrisþega á hverjum tíma innan ársins sem geta haft áhrif á greiðslurétt, svo sem hjúskaparstaða, heimilisaðstæður og búseta viðkomandi. Hafi útreikningur farið fram skv. 3. mgr. 74. gr. skal endurreikningur bóta ársins taka mið af sömu forsendum og þar eru lagðar til grundvallar.
    Komi í ljós við endurreikning bóta að bætur hafa verið vangreiddar eða ofgreiddar fer um það skv. 77.–80. gr.
    Ákvæði 3. mgr. 87. gr. á við um endurreikning bóta eftir því sem við á.

77. gr.
Vangreiðsla tekjutengdra bóta.

    Komi í ljós vangreiðsla bóta við endurreikning skv. 76. gr. eða sé niðurstaða úrskurðarnefndar almannatrygginga að bætur hafi verið vangreiddar skal greiða lífeyrisþega eða dánarbúi hans það sem upp á vantar. Hafi lífeyrisþegi eða dánarbú hans áður fengið ofgreiddar bætur og ekki endurgreitt Tryggingastofnun að fullu er heimilt að draga fjárhæð ofgreiðslunnar eða eftirstöðva hennar frá vangreiðslunni.
    Þegar bætur eru vangreiddar, sbr. 1. mgr., skal greiða vexti af þeirri fjárhæð sem vangreidd var og reiknast þeir frá þeim degi þegar skilyrði til bótanna eru uppfyllt, þó aldrei lengra aftur í tímann en tvö ár. Skulu vextir þessir vera jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður og birtir samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu.
    Hafi bætur verið vangreiddar vegna skorts á upplýsingum eða umsókn hefur ekki borist, falla vextir niður.

78. gr.
Ofgreiðsla tekjutengdra bóta og almennar reglur um endurkröfur.

    Komi í ljós að lífeyrisþegi virðist hafa fengið ofgreitt skal þegar tilkynna honum það skriflega, gefa kost á andmælum og gera tillögu um fyrirkomulag endurgreiðslu.
    Hafi lífeyrisþegi fengið hærri greiðslur en hann átti rétt á samkvæmt lögum þessum ber honum eða dánarbúi hans að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var, að jafnaði innan tólf mánaða frá því að krafa stofnast. Ávallt er heimilt að semja við lífeyrisþega eða dánarbú hans um tilhögun endurgreiðslu.
    Berist ekki greiðsla og takist ekki að gera samning um fyrirkomulag endurgreiðslu skal skorað á lífeyrisþega eða dánarbú hans að endurgreiða ofgreiðsluna.
    Ef sýnt þykir að lífeyrisþegi muni ekki geta endurgreitt ofgreiðslu á tólf mánuðum skal meta hvernig staðið verði að innheimtu. Við það mat skal höfð hliðsjón af heildartekjum lífeyrisþega, eignastöðu og upplýsingum um aðrar aðstæður hans.
    Ákvarðanir Tryggingastofnunar um endurkröfu ofgreiddra bóta samkvæmt lögum þessum eru aðfararhæfar, sbr. þó 104. gr.
    Um endurkröfurétt Tryggingastofnunar vegna ofgreiðslna fer að öðru leyti samkvæmt almennum reglum.

79. gr.
Framkvæmd endurgreiðslu á ofgreiddum bótum.

    Ofgreiddar bætur skal að jafnaði draga frá bótum sem lífeyrisþegi kann síðar að öðlast rétt til, sbr. þó 2. mgr.
    Ofgreiddar tekjutengdar bætur dragast frá öðrum tekjutengdum bótum sem lífeyrisþegi kann síðar að öðlast rétt til. Þetta á eingöngu við ef tekjur á ársgrundvelli eru hærri en lagt var til grundvallar við útreikning bóta og ofgreiðsla stafar af því að lífeyrisþegi hefur ekki tilkynnt Tryggingastofnun um tekjuaukninguna eða aðrar breyttar aðstæður, sbr. 91. gr.
    Ofgreiddar bætur dragast að jafnaði frá greiðslum til lífeyrisþega á næstu tólf mánuðum eftir að krafa stofnast. Ekki er heimilt að draga frá bótum meira en 10% af mánaðarlegum heildartekjum lífeyrisþega, þó aldrei lægri fjárhæð en 3.000 kr., uns ofgreiðsla er endurgreidd að fullu nema samið sé sérstaklega um annað. Með mánaðarlegum heildartekjum er átt við 1/ 12 af árstekjum skv. 10. tölul. 2. gr.
    Hafi endurkrafa vegna ofgreiddra bóta ekki verið greidd á tólf mánuðum frá því að krafa stofnaðist skal greiða vexti af eftirstöðvum kröfunnar. Skulu vextirnir vera jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður og birtir samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu.

80. gr.
Undanþágur frá endurkröfu og heimild til lækkunar kröfu.

    Heimilt er að falla frá endurkröfu ofgreiðslu að fullu eða að hluta ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi. Skal þá einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna greiðsluþega, tilurð kröfunnar og þess hvort ætla megi að hann hafi verið í góðri trú um greiðslurétt sinn.
    Heimilt er að falla frá kröfu um vexti ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi eða ef samningur um endurgreiðslu ofgreiddra bóta liggur fyrir og viðkomandi stendur við greiðsluskyldu sína samkvæmt samningnum.
    Ofgreiðslur sem nema lægri fjárhæð en 1.000 kr. á ári skulu felldar niður.

C. Ýmis ákvæði.
81. gr.
Heimild til dreifingar fjármagnstekna.

    Heimilt er að ósk greiðsluþega að dreifa eigin tekjum hans, sem stafa af fjármagnstekjum sem leystar hafa verið út í einu lagi, á allt að tíu ár. Ekki er heimilt að dreifa slíkum tekjum oftar en einu sinni á hverju tímabili.
    

82. gr.
Dánarbú.

    Við andlát greiðsluþega skal Tryggingastofnun bjóða erfingjum hins látna að endurreikna bætur til hans til bráðabirgða. Þegar endanlegar upplýsingar um tekjur liggja fyrir fer samkvæmt ákvæðum þessa kafla.

83. gr.
Reglugerðir.

    Ráðherra er heimilt að setja reglugerðir um einstök atriði er varða framkvæmd þessa kafla, m.a. um ósamrýmanleg réttindi, útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta, innheimtu ofgreiddra bóta, undanþágur frá endurkröfum og afskriftir krafna.

VIII. KAFLI
Málsmeðferð og stjórnsýslureglur.
A. Almennt.

84. gr.

Umsóknir og málshraði.

    Sækja skal um allar bætur og greiðslur samkvæmt lögum þessum. Þó þurfa þeir sem fá greiddan örorkulífeyri ekki að sækja sérstaklega um ellilífeyri skv. 9. gr. þegar þeir ná 67 ára aldri.
    Umsóknir skulu vera á eyðublöðum Tryggingastofnunar eða sendar með rafrænum hætti til stofnunarinnar. Með umsókn skulu fylgja öll nauðsynleg gögn, sbr. 91. gr.
    Allar umsóknir skulu ákvarðaðar svo fljótt sem kostur er.

B. Málsmeðferð.
85. gr.
Gildi stjórnsýslulaga.

    Þegar teknar eru ákvarðanir um réttindi og skyldur samkvæmt lögum þessum gilda stjórnsýslulög nema umsækjanda eða greiðsluþega sé veittur betri réttur samkvæmt þessum lögum eða öðrum lögum sem við eiga. Gæta skal samræmis við ákvörðun sambærilegra mála.

86. gr.
Upphaf og lok bótaréttar.

    Réttur til bóta stofnast frá og með þeim degi er umsækjandi telst uppfylla skilyrði til bótanna og skulu bætur reiknaðar frá fyrsta degi þess mánaðar. Bótaréttur fellur niður frá og með þeim mánuði er skilyrði til bótanna teljast ekki lengur uppfyllt.

87. gr.
Greiðslufyrirkomulag og greiðslur aftur í tímann.

    Greiðslur skulu fara fram fyrsta dag hvers mánaðar fyrir undanfarandi mánuð. Greiðslum lýkur við upphaf þess mánaðar er skilyrði þeirra eru ekki lengur uppfyllt.
    Heimilt er að ósk umsækjanda eða greiðsluþega að fresta greiðslu bóta og greiða bætur í einu lagi eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur umsækjanda eða greiðsluþega á árinu liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum.
    Þegar sérstaklega stendur á er heimilt að greiða bætur allt að tvö ár aftur í tímann frá því að umsókn og önnur gögn sem nauðsynleg eru til að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt og fjárhæð greiðslna berast Tryggingastofnun. Þó skal heimild þessari ekki beitt ef rekja má tafir til umsækjanda sjálfs og atvik eru að öllu leyti ljós.

88. gr.
Tilkynning ákvörðunar og endurskoðun réttinda.

    Tryggingastofnun skal upplýsa umsækjanda eða greiðsluþega um ákvörðun bóta og forsendur hennar og gefa honum kost á að koma að athugasemdum áður en endanlega ákvörðun er tekin.

89. gr.
Leiðbeiningarskylda.

    Tryggingastofnun skal kynna sér aðstæður umsækjenda og greiðsluþega og gera þeim grein fyrir rétti þeirra samkvæmt lögum þessum og öðrum lögum er stofnunin starfar eftir, reglugerðum settum á grundvelli laganna og starfsreglum stofnunarinnar. Við meðferð máls skulu staða og réttindi umsækjanda eða greiðsluþega skoðuð heildstætt. Stofnunin skal leiðbeina umsækjanda um réttarstöðu hans, þau gögn sem þurfa að fylgja umsókn og um framhald málsins.
    Nú varðar erindi ekki starfssvið stofnunarinnar og skal það þá framsent á réttan stað svo fljótt sem auðið er og viðkomandi leiðbeint eftir því sem unnt er.

90. gr.
Rannsóknarskylda.

    Tryggingastofnun skal sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun um bótarétt er tekin, þar á meðal að öll nauðsynleg gögn og upplýsingar liggi fyrir.

C. Upplýsingaskylda og eftirlitsheimildir.
91. gr.
Upplýsingaskylda umsækjenda og greiðsluþega.

    Umsækjanda eða greiðsluþega er rétt og skylt að taka þátt í meðferð málsins, m.a. með því að veita Tryggingastofnun þær upplýsingar sem taldar eru nauðsynlegar svo unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum og endurskoðun þeirra. Þá er skylt að tilkynna um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum, svo sem hjúskaparstöðu, sem geta haft áhrif á bætur eða greiðslur.
    Ákvæði 1. mgr. eiga einnig við um maka umsækjanda eða greiðsluþega eftir því sem við getur átt.

92. gr.
Upplýsingar um tekjur.

    Tryggingastofnun er heimilt, að fengnu skriflegu samþykki umsækjanda og greiðsluþega, að afla nauðsynlegra upplýsinga um tekjur umsækjanda og greiðsluþega hjá skattyfirvöldum, greiðslur hjá lífeyrissjóðum, Vinnumálastofnun og sambærilegum stofnunum erlendis þegar það á við með rafrænum hætti eða á annan hátt.
    Þegar um hjón er að ræða er Tryggingastofnun heimilt, að fengnu skriflegu samþykki beggja, að afla upplýsinga um tekjur maka og greiðslur til hans hjá framangreindum aðilum ef þær gætu haft áhrif á fjárhæð bóta. Sama gildir um tekjur sambýlisfólks sem uppfyllir skilyrði fyrir samsköttun skv. 3. mgr. 62. gr. laga um tekjuskatt.
    Telji umsækjandi, greiðsluþegi eða maki upplýsingar frá þessum aðilum ekki réttar skal hann leggja fram gögn því til staðfestingar.

93. gr.
Skortur á upplýsingum.

    Ef ekki reynist unnt að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra vegna skorts á nauðsynlegum upplýsingum sem rekja má til umsækjanda, greiðsluþega eða maka hans er Tryggingastofnun heimilt að fresta ákvörðun og greiðslu bóta þar til úr því er bætt. Tryggingastofnun skal tafarlaust gera viðkomandi viðvart ef til frestunar kemur, skora á hann að veita nauðsynlegar upplýsingar og gera honum grein fyrir afleiðingum þess ef áskorun um að veita upplýsingar er ekki sinnt.

94. gr.
Upplýsingaskylda heilbrigðisstarfsmanna.

    Þeim heilbrigðisstarfsmönnum sem bera ábyrgð á vörslu sjúkraskráa, sbr. lög um sjúkraskrár, er skylt að veita læknum, eða eftir atvikum hlutaðeigandi heilbrigðisstarfsmönnum, Tryggingastofnunar þær upplýsingar og gögn sem stofnuninni eru nauðsynleg vegna ákvörðunar um greiðslu bóta og vegna eftirlitshlutverks hennar. Þá er læknum Tryggingastofnunar, eða hlutaðeigandi heilbrigðisstarfsmönnum þegar það á við, heimilt að skoða þann hluta sjúkraskrár sem nauðsynlegt er vegna eftirlits og reikningsgerð á hendur stofnuninni er byggð á. Skoðun skal fara fram á þeim stað þar sem sjúkraskrá er varðveitt.

95. gr.
Upplýsingaskylda stofnana og fyrirtækja.

    Skattyfirvöld, sjúkratryggingastofnunin, Vinnumálastofnun, Innheimtustofnun sveitarfélaga, Þjóðskrá Íslands, Útlendingastofnun, Fangelsismálastofnun, hlutaðeigandi lífeyrissjóðir, öldrunarstofnanir, sveitarfélög, Lánasjóður íslenskra námsmanna, skólar og aðrar stofnanir og fyrirtæki skulu láta Tryggingastofnun í té upplýsingar að því marki sem slíkar upplýsingar teljast nauðsynlegar til að unnt sé að framfylgja lögum þessum.
    Þá skulu Tryggingastofnun og sjúkratryggingastofnunin skiptast á upplýsingum um mat á örorku og öðrum upplýsingum að því marki sem þær teljast nauðsynlegar við framkvæmd laga þessara.

96. gr.
Upplýsingaskylda án endurgjalds.

    Upplýsingar og gögn sem Tryggingastofnun óskar eftir samkvæmt þessum kafla og unnt er að láta í té, skulu veittar án endurgjalds, sbr. þó 20. gr. laga um þjóðskrá og almannaskráningu, og í því formi sem óskað er, enda liggi fyrir heimild um öflun þessara upplýsinga samkvæmt ákvæðum þessa kafla.

97. gr.
Eftirlit og viðurlög.

    Tryggingastofnun skal reglubundið sannreyna réttmæti bóta og greiðslna og þeirra upplýsinga sem ákvörðun um réttindi byggist á. Stofnuninni er heimilt í þágu eftirlits að óska eftir öllum gögnum sem talin eru nauðsynleg til að sannreyna réttmæti ákvarðana og greiðslna.
    Grundvöll bótaréttar má endurskoða hvenær sem er og samræma bætur þeim breytingum sem orðið hafa á aðstæðum greiðsluþega. Leiki rökstuddur grunur á að bótaréttur sé ekki fyrir hendi er heimilt að fresta greiðslum tímabundið meðan mál er rannsakað frekar og stöðva greiðslur komi í ljós að bótaréttur sé ekki fyrir hendi. Fylgja ber ákvæðum stjórnsýslulaga, sbr. og 85. og 93. gr. Um ofgreiðslur og vangreiðslur fer skv. 77.–80. gr.
    Leiki grunur á að bætur séu greiddar á grundvelli rangra eða villandi upplýsinga frá greiðsluþega er heimilt að afla upplýsinga frá öðrum aðilum sem ætla má að geti veitt upplýsingar er máli skipta í því skyni að leiðrétta bótagreiðslur.
    Komi í ljós að rangar, villandi eða ófullnægjandi upplýsingar hafi vísvitandi verið veittar eða einstaklingur hafi látið hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar í því skyni að njóta tryggingar eða fá óréttmætar greiðslur, skal greiðsluþegi endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Um innheimtu ofgreiðslna fer að öðru leyti samkvæmt ákvæðum VII. kafla.

D. Þagnarskylda og meðferð persónuupplýsinga.
98. gr.
Þagnarskylda.

    Starfsfólki Tryggingastofnunar og þjónustustöðva hennar er bannað að viðlagðri ábyrgð eftir ákvæðum almennra hegningarlaga um brot í opinberu starfi að skýra frá upplýsingum sem það fær vitneskju um í starfi sínu og leynt eiga að fara. Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi.
    Þagnarskyldan gildir einnig um stjórn Tryggingastofnunar og þá sem sinna verkefnum fyrir stofnunina en eru ekki starfsmenn hennar.

99. gr.
Meðferð persónuupplýsinga.

    Við meðferð persónuupplýsinga sem aflað er skal Tryggingastofnun gæta þess að uppfyllt séu skilyrði laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Þá skal stofnunin jafnframt gæta ákvæða laga um sjúkraskrár eftir því sem við á.

E. Stjórnsýslukærur.
100. gr.
Ágreiningur.

    Rísi ágreiningur um grundvöll, skilyrði eða fjárhæð bóta eða greiðslna samkvæmt lögum þessum kveður sjálfstæð og óháð nefnd, úrskurðarnefnd almannatrygginga, upp úrskurð í málinu. Sama gildir um ágreining um endurkröfurétt, ofgreiðslur og innheimtu þeirra skv. VII. kafla.
    

101. gr.
Form kæru.

    Kæra til úrskurðarnefndar almannatrygginga skal vera skrifleg og skal hún borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun. Í Tryggingastofnun og þjónustustöðvum hennar skulu liggja frammi eyðublöð í þessu skyni og skulu starfsmenn stofnunarinnar veita nauðsynlega aðstoð.

102. gr.
Öflun gagna.

    Tryggingastofnun skal láta nefndinni í té öll gögn máls, svo og þær upplýsingar og skýringar er nefndin telur þörf á að afla frá stofnuninni.

103. gr.
Málsmeðferð og úrlausn.

    Úrskurðarnefnd almannatrygginga skal kveða upp úrskurð svo fljótt sem unnt er og eigi síðar en þremur mánuðum eftir að henni berst mál.
    Formaður stýrir störfum nefndarinnar. Þegar nefndarmenn eru ekki sammála ræður meiri hluti niðurstöðu máls.
    Um málsmeðferð nefndarinnar fer samkvæmt þessum kafla og ákvæðum stjórnsýslulaga.
    

104. gr.
Réttaráhrif kæru.

    Stjórnsýslukæra frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunar en stjórnsýslukæra frestar þó aðför á grundvelli ákvörðunar Tryggingastofnunar um endurkröfu ofgreiddra bóta, sbr. 78. og 79. gr.

105. gr.
Réttaráhrif úrskurða.

    Úrskurðarnefnd almannatrygginga er sjálfstæð í störfum sínum. Úrskurðir nefndarinnar eru endanlegir á stjórnsýslustigi og verður ekki skotið til annarra stjórnvalda.
    Úrskurðir nefndarinnar um endurkröfur ofgreiðslna skv. 100. gr. eru aðfararhæfir.
    Nefndin getur ákveðið að fresta réttaráhrifum úrskurðar telji hún ástæðu til þess. Krafa þess efnis skal gerð eigi síðar en tíu dögum frá birtingu úrskurðar. Skal frestun á réttaráhrifum úrskurðar vera bundin því skilyrði að málsaðili beri málið undir dómstóla innan 30 daga frá frestunarúrskurði og óski þá eftir að það hljóti flýtimeðferð. Frestun réttaráhrifa úrskurðar fellur úr gildi ef mál er ekki höfðað innan 30 daga. Sé mál höfðað vegna úrskurðar nefndarinnar er henni heimilt að fresta afgreiðslu sambærilegra mála, sem eru til meðferðar hjá henni, þar til dómur gengur í málinu.

106. gr.
Heimild Tryggingastofnunar til málshöfðunar.

    Tryggingastofnun getur höfðað dómsmál til að fá hnekkt úrskurði úrskurðarnefndar almannatrygginga.

107. gr.
Reglugerðir.

    Ráðherra er heimilt að setja reglugerðir um einstök atriði er varða framkvæmd þessa kafla, m.a. um umsóknir um greiðslur, greiðslufyrirkomulag, upplýsingaskyldu og eftirlitsheimildir Tryggingastofnunar.

IX. KAFLI
Stjórnsýsla.
108. gr.
Yfirstjórn.

    Ráðherra fer með yfirstjórn lífeyristrygginga og annarra málefna sem kveðið er á um í lögum þessum og markar stefnu innan ramma laganna. Ráðherra fer jafnframt með yfirstjórn Tryggingastofnunar.

109. gr.
Tryggingastofnun ríkisins.

    Aðalskrifstofur Tryggingastofnunar eru í Reykjavík. Stofnunin skal hafa þjónustustöðvar og ákveður ráðherra hvar þjónustustöðvarnar skulu vera að fenginni umsögn forstjóra og stjórnar. Jafnframt getur ráðherra ákveðið að sameina þjónustustöðvar Tryggingastofnunar við þjónustustöðvar annarra opinberra stofnana að fenginni umsögn forstjóra og stjórnar.
    Kostnaður af rekstri Tryggingastofnunar greiðist úr ríkissjóði samkvæmt fjárlögum hverju sinni.
    Reikningar Tryggingastofnunar fyrir síðastliðið ár skulu jafnan fullgerðir eigi síðar en 1. júlí ár hvert. Skulu þeir endurskoðaðir á sama hátt og reikningar annarra ríkisstofnana.

110. gr.
Hlutverk Tryggingastofnunar.

    Tryggingastofnun annast framkvæmd lífeyristrygginga og annarra málefna samkvæmt lögum þessum. Þá skal stofnunin sinna þeim verkefnum sem henni eru falin samkvæmt stjórnvaldsfyrirmælum, ákvörðun ráðherra eða öðrum lögum.
    Tryggingastofnun annast einnig aðra stjórnsýslu lífeyristrygginga almannatrygginga, m.a. að:
     a.      vera ráðherra og öðrum stjórnvöldum til ráðgjafar og upplýsingar um málefni sem heyra undir stofnunina,
     b.      veita almenningi þjónustu og ráðgjöf um réttindi og skyldur samkvæmt lögunum,
     c.      kynna almenningi rétt sinn með upplýsingastarfsemi,
     d.      birta upplýsingar um starfsemina með reglubundnum hætti,
     e.      gera árlega starfs- og fjárhagsáætlun og
     f.      gera árlega áætlun um bótagreiðslur hvers árs.
    Við framkvæmdina skal þess gætt að nýta fjármuni stofnunarinnar á sem hagkvæmastan hátt.

111. gr.
Stjórn.

    Ráðherra skipar fimm menn í stjórn Tryggingastofnunar og skal einn skipaður formaður stjórnar og annar varaformaður. Skipaðir skulu jafnmargir menn til vara.
    Stjórn Tryggingastofnunar staðfestir skipulag stofnunarinnar, árlega starfsáætlun og fjárhagsáætlun og markar stofnuninni langtímastefnu. Skal stjórnin hafa eftirlit með starfsemi Tryggingastofnunar og að rekstur hennar sé í samræmi við stefnuna og innan ramma fjárlaga á hverjum tíma.
    Formaður stjórnar skal reglulega gera ráðherra grein fyrir starfsemi stofnunarinnar, sbr. 2. mgr. Þá skal formaður stjórnar einnig gera ráðherra viðvart ef starfsemi, þjónusta eða rekstur stofnunarinnar er ekki í samræmi við lög eða stjórnvaldsfyrirmæli.
    Formaður stjórnar boðar til stjórnarfunda og stýrir þeim. Forstjóri situr fundi stjórnarinnar með málfrelsi og tillögurétt.
    Ráðherra setur stjórninni starfsreglur og ákveður þóknun til stjórnarmanna sem skal greidd af rekstrarfé stofnunarinnar.

112. gr.
Forstjóri.

    Ráðherra skipar forstjóra Tryggingastofnunar til fimm ára í senn að fenginni tillögu stjórnar. Forstjóri skal hafa lokið námi á háskólastigi og búa yfir reynslu af rekstri og stjórnun sem nýtist í starfi ásamt því að hafa þekkingu á sviði velferðarmála.
    Ráðherra setur forstjóra erindisbréf þar sem tilgreind skulu helstu markmið í rekstri stofnunarinnar og verkefni hennar bæði til lengri og skemmri tíma litið. Í erindisbréfi skal enn fremur kveðið á um samskipti forstjóra og stjórnar stofnunarinnar.
    Forstjóri ræður starfsmenn stofnunarinnar og annast daglegan rekstur hennar. Forstjóri ber ábyrgð á starfsemi stofnunarinnar og að hún starfi í samræmi við lög, stjórnvaldsfyrirmæli og erindisbréf skv. 2. mgr., sbr. og 110. gr. Forstjóri skal sjá til þess að rekstrarútgjöld og rekstrarafkoma séu í samræmi við fjárlög og að fjármunir séu nýttir á árangursríkan hátt.

113. gr.
Úrskurðarnefnd.

    Ráðherra skipar þrjá menn í úrskurðarnefnd almannatrygginga til sex ára í senn. Þar af tilnefnir Hæstiréttur Íslands tvo menn og skal annar þeirra uppfylla skilyrði um embættisgengi héraðsdómara og vera formaður nefndarinnar en hinn skal vera læknir og varaformaður hennar. Einn nefndarmanna skal skipaður án tilnefningar. Jafnmargir varamenn skulu tilnefndir á sama hátt og uppfylla sömu hæfisskilyrði og aðalmenn.
    Heimilt er að endurskipa nefndarmenn.
    Nefndinni er heimilt að ráða sér starfsmenn til undirbúnings úrlausnum mála og til almennra skrifstofustarfa eftir nánari ákvörðun Alþingis á fjárlögum hverju sinni.
    Nefndinni er heimilt að kveðja sér til ráðgjafar og aðstoðar sérfróða menn ef hún telur þörf á. Skulu þeir starfa með nefndinni við undirbúning og meðferð máls eftir ákvörðun formanns.
    Um þagnarskyldu nefndarmanna, starfsmanna og ráðgjafa nefndarinnar fer skv. 98. gr.
    Nefndin skal birta úrskurði með aðgengilegum og skipulegum hætti. Úrskurðirnir skulu birtir án persónugreinanlegra upplýsinga.
    Ráðherra ákveður þóknun nefndarmanna. Kostnaður vegna nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði.

114. gr.
Reglugerðir.

    Ráðherra er heimilt að setja reglugerðir um einstök atriði er varða framkvæmd þessa kafla, m.a. um framkvæmd almannatrygginga, starfsemi Tryggingastofnunar og hlutverk hennar.

X. KAFLI
Almenn ákvæði og gildistaka.
115. gr.
Ákvörðun fjárhæða.

    Bætur, greiðslur og aðrar fjárhæðir samkvæmt lögum þessum koma til endurskoðunar við afgreiðslu fjárlaga ár hvert. Við endurskoðunina skal taka mið af þróun launa, verðlags og efnahagsmála. Þó er ráðherra heimilt, að fengnu samþykki ríkisstjórnar, að breyta þessum fjárhæðum ef verulegar breytingar verða á launaþróun og þjóðhagsforsendum frá afgreiðslu fjárlaga. Þegar fjárhæðum er breytt samkvæmt þessu ákvæði skal það gert með reglugerð.
    Ráðherra er enn fremur heimilt að ákveða í reglugerð, að fengnu samþykki ríkisstjórnarinnar, að greiddar séu sérstakar orlofs- og desemberuppbætur til lífeyrisþega að uppfylltum nánar tilteknum skilyrðum.

116. gr.
Fjármögnun.

    Árleg heildarútgjöld samkvæmt lögum þessum skulu vera í samræmi við ákvörðun Alþingis samkvæmt fjárlögum og fjáraukalögum hvers árs.
    Kostnaður vegna lífeyristrygginga almannatrygginga greiðist úr ríkissjóði, m.a. af tekjum ríkissjóðs af tryggingagjaldi.
    Kostnaður við greiðslur skv. VI. kafla greiðist úr ríkissjóði samkvæmt ákvörðun fjárlaga og fjáraukalaga hverju sinni.
    Tryggingastofnun skal ár hvert haga áætlanagerð sinni vegna útgjalda samkvæmt lögum þessum fyrir næsta almanaksár í samræmi við reglur fjárlagagerðar og senda ráðherra til frekari meðferðar.
    Framlag ríkissjóðs til bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögum þessum skal greitt Tryggingastofnun með jöfnum greiðslum í byrjun hvers mánaðar.

117. gr.
Bann við framsali og veðsetningu bótakrafna.

    Óheimilt er að framselja eða veðsetja bótakröfur samkvæmt lögum þessum og hvorki má kyrrsetja né gera í þeim fjárnám eða halda bótafé til greiðslu opinberra gjalda.

118. gr.
Milliríkjasamningar.

    Ríkisstjórninni er heimilt að semja við erlend ríki um gagnkvæm réttindi og skyldur samkvæmt lögum þessum og ráðherra að semja við erlendar tryggingastofnanir í samningsríkjum um nánari framkvæmd slíkra samninga. Þar má m.a. veita undanþágur frá ákvæðum laganna og heimila takmarkanir á beitingu þeirra.
    Í samningum skv. 1. mgr. má m.a. kveða á um að búsetu-, atvinnu- eða tryggingatímabil í öðru samningsríki skuli talin jafngilda búsetutíma á Íslandi. Enn fremur er heimilt að kveða þar á um rétt til bótagreiðslna við búsetu í öðru samningsríki, jafnræði við málsmeðferð, skörun bóta og hvaða löggjöf skuli beita. Í samningum skv. 1. mgr. er enn fremur heimilt að semja um fyrirframgreiðslu meðlags milli samningsríkja, sbr. 53. gr., eins og um bætur almannatrygginga væri að ræða.
    Við framkvæmd laga þessara skal tekið tillit til milliríkjasamninga á sviði almannatrygginga og félagsmála sem Ísland er aðili að.

119. gr.
Útflutningur og skörun bóta.

    Greiða skal greiðsluþegum, búsettum í þeim ríkjum sem ríkisstjórn gerir samninga við eða ráðherra hefur samið við með stoð í 118. gr., bætur í samræmi við nánari ákvæði samninganna.
    Heimilt er að ákveða með reglugerð að frá bótum sem greiðsluþegi á rétt á hér á landi, dragist bætur sem hann fær samkvæmt erlendri löggjöf fyrir sama tímabil og bætur eru greiddar fyrir hér á landi.

120. gr.
Reglugerðarheimild.

    Ráðherra er heimilt að kveða á um nánari framkvæmd laga þessara í reglugerðum.

121. gr.
Innleiðing EES-reglugerða.

    Ráðherra er heimilt að innleiða með reglugerð almannatryggingareglur Evrópusambandsins eins og þær eru felldar inn í viðauka VI við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993, með síðari breytingum, sbr. einnig ákvörðun sameiginlegu EES- nefndarinnar nr. 76 frá 1. júlí 2011 sem fellir undir samninginn reglugerðir Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004 um samræmingu almannatryggingakerfa með síðari breytingum og nr. 987/2009 um framkvæmd hennar. Reglugerðir Evrópusambandsins, sem teknar verða upp í samninginn og fela í sér breytingar eða viðbætur við þær reglugerðir, er einnig heimilt að innleiða með reglugerð. Sama á við um almannatryggingareglur stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu.

122. gr.
Gildistaka og lagaskil.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2013. Jafnframt falla úr gildi lög um almannatryggingar, nr. 100/2007, með síðari breytingum, og lög um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, með síðari breytingum.
    Reglugerðir og öll önnur fyrirmæli, sem sett hafa verið samkvæmt lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, og lögum um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, skulu halda gildi sínu að svo miklu leyti sem þau brjóta ekki í bága við ákvæði laga þessara, uns nýjar reglugerðir hafa verið gefnar út.

123. gr.
Breytingar á öðrum lögum.

    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
     1.      Lög um málefni aldraðra, nr. 125/1999, með síðari breytingum:
                  a.      19., 21.–24. og 26. gr. laganna falla brott.
                  b.      Ákvæði til bráðabirgða I–VI falla brott.
     2.      Lög um vinnumarkaðsaðgerðir, nr. 55/2006, með síðari breytingum: Á eftir 2. mgr. 12. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Ráðherra er heimilt að fela Vinnumálastofnun að semja við fyrirtæki eða stofnanir um að þau ráði til vinnu öryrkja sem fá greiddan örorkulífeyri, örorkustyrk, endurhæfingarlífeyri eða slysaörorkubætur undir 50% og hafa vinnugetu sem ekki hefur nýst á vinnumarkaði og ekki verulegar aðrar tekjur til lífsviðurværis en lífeyri almannatrygginga. Lækkun lífeyrisgreiðslna á starfstímabilinu fer eftir almennum reglum um lækkun á hverjum tíma.
     3.      Lög um tekjuskatt, nr. 90/2003, með síðari breytingum:
                  a.      Í stað orðanna „skv. 14. og 30. gr. laga um almannatryggingar og 3. gr. laga um félagslega aðstoð“ í 2. tölul. A-liðar 7. gr. laganna kemur: skv. 45., 47.–49. og 51. gr. laga um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning og 12. gr. laga um slysatryggingar almannatrygginga.
                  b.      Í stað orðanna „skv. 14. gr. laga um almannatryggingar“ tvívegis í 2. tölul. A-liðar 7. gr. laganna kemur: skv. 50. gr. laga um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning.
                  c.      Í stað orðanna „lögum um almannatryggingar“ í 2. tölul. A-liðar 7. gr. laganna kemur: lögum um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning.
                  d.      Í stað orðanna „lögum um almannatryggingar“ í 4. mgr. 66. gr. laganna kemur: lögum um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning.
                  e.      Í stað orðanna „tryggður á grundvelli 12., 13. eða 14. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar“ í 7. mgr. A-liðar 68. gr. laganna kemur: 4. og 5. gr. laga um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning.
                  f.      Í stað orðanna „bætur samkvæmt lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð“ í ákvæði til bráðabirgða XL í lögunum kemur: bætur samkvæmt lögum um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning.
     4.      Lög um tryggingagjald, nr. 113/1990, með síðari breytingum:
                  a.      Í stað orðanna „skv. 9. gr. b laga nr. 117/1993, um almannatryggingar“ í 4. mgr. 4. gr. laganna kemur: skv. 1. mgr. 5. gr. laga um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning.
                  b.      Í stað orðsins „almannatryggingalaga“ í 4. mgr. 4. gr. laganna kemur: laga um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning.
                  c.      Orðin „þar með talið fæðingarorlof“ í 2. tölul. 9. gr. laganna falla brott.
     5.      Lög um starfsendurhæfingarsjóði, nr. 60/2012: Í stað orðanna „greiddan endurhæfingarlífeyri á grundvelli laga um félagslega aðstoð, örorkulífeyri á grundvelli laga um almannatryggingar“ í 9. gr. laganna kemur: endurhæfingargreiðslur og örorkulífeyri á grundvelli laga um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning.
     6.      Lög um bifreiðagjald, nr. 39/1988, með síðari breytingum: Í stað „43. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar“ í a-lið 1. mgr. 4. gr. laganna kemur: 31. eða 32. gr. laga um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning.
     7.      Lög um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000, með síðari breytingum: Í stað orðanna „endurhæfingarlífeyris samkvæmt lögum um félagslega aðstoð“ í 2. mgr. 33. gr. laganna kemur: endurhæfingargreiðslna samkvæmt lögum um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning.
     8.      Lög um sjúklingatryggingu, nr. 111/2000, með síðari breytingum: Í stað orðanna „lögum um almannatryggingar“ í 16. gr. laganna kemur: lögum um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning.
     9.      Barnalög, nr. 76/2003, með síðari breytingum:
                  a.      Í stað orðanna „lögum um almannatryggingar“ í 2. mgr. 55. gr. laganna kemur: lögum um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning.
                  b.      Í stað orðanna „lög um almannatryggingar“ í 67. gr. laganna kemur: lög um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning.
     10.      Lög um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, með síðari breytingum:
                  a.      Ístað orðanna „samkvæmt lögum um almannatryggingar“ í 1. mgr. 36. gr. laganna kemur: samkvæmt lögum um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning.
                  b.      Í stað orðanna „endurhæfingarlífeyris samkvæmt lögum um félagslega aðstoð“ í 1. mgr. 51. gr. laganna kemur: endurhæfingargreiðslna samkvæmt lögum um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning.
     11.      Lög um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, með síðari breytingum: Í stað orðanna „samkvæmt lögum um almannatryggingar“ í 1. mgr. 36. gr. laganna kemur: samkvæmt lögum um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning.
     12.      Lög um þjóðskrá og almannaskráningu, nr. 54/1962, með síðari breytingum: Í stað orðanna „samkvæmt lögum um almannatryggingar, nr. 117/1993, með síðari breytingum“ í 17. gr. laganna kemur: samkvæmt lögum um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning.
     13.      Lög um jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar, nr. 53/1980, með síðari breytingum: Í stað orðanna „samkvæmt 19. gr. laga um almannatryggingar“ í 4. gr. laganna kemur: samkvæmt lögum um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning.
     14.      Lög um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, með síðari breytingum: Í stað orðanna „samkvæmt II. og III. kafla laga um almannatryggingar“ í 25. gr. laganna kemur: skv. II. og III. kafla laga um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning.
     15.      Lög um sanngirnisbætur fyrir misgjörðir á stofnunum eða heimilum sem falla undir lög nr. 26/2007, nr. 47/2010, með síðari breytingum: Í stað orðanna „laga um almannatryggingar nr. 100/2007“ í 2. mgr. 12. gr. laganna kemur: laga um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning.
     16.      Skaðabótalög, nr. 50/1993, með síðari breytingum: Í stað orðanna „lögum um almannatryggingar“ í 1. mgr. 14. gr. og 1. mgr. 17. gr. laganna kemur: lögum um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning.
     17.      Lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, með síðari breytingum: Í stað orðanna „samkvæmt lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð“ í 9. mgr. ákvæðis til bráðabirgða VIII og í stað orðanna „samkvæmt lögum nr. 100/2007 um almannatryggingar, og lögum nr. 99/2007, um félagslega aðstoð“ í ákvæði til bráðabirgða XI í lögunum kemur: samkvæmt lögum um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning.

Ákvæði til bráðabirgða.

I.

    Vegna útreiknings á ellilífeyri skv. 9. gr. skal Tryggingastofnun á tímabilinu 1. júlí 2013 til og með 31. desember 2015 bera saman útreikning ellilífeyris, tekjutryggingar og heimilisuppbótar fyrir 1. júlí 2013 og ellilífeyris eftir 1. júlí 2013. Greiða skal lífeyrisþegum samkvæmt þeim útreikningi sem leiðir til hærri bóta á tímabilinu.

II.

    Vegna útreiknings á þátttöku heimilismanna í dvalarkostnaði og dvalarframlagi Tryggingastofnunar skv. 37. gr. skal á tímabilinu 1. júlí 2013 til og með 31. desember 2015 bera saman útreikning fyrir og eftir gildistöku þessara laga. Kostnaðarþátttaka heimilismanns fyrir það tímabil skal miðast við þá reglu sem leiðir til hagstæðari niðurstöðu fyrir hann. Sama á við um útreikning ráðstöfunarfjár skv. 41. gr.

III.

    Þrátt fyrir ákvæði 1. málsl. 3. mgr. 60. gr. skal hlutfallið vera 80% á tímabilinu 1. júlí – 31. desember 2013, 70% á árinu 2014, 60% á árinu 2015 og 50% á árinu 2016.

IV.

    Þrátt fyrir ákvæði 86. og 87. gr. skulu greiðslur á árinu 2013 fara fram fyrsta dag hvers mánaðar fyrir komandi mánuð. Þeir sem fá greiðslur frá Tryggingastofnun í desember 2013 skulu áfram fá greitt fyrir fram fyrsta dag hvers mánaðar fyrir komandi mánuð. Þeir einstaklingar geta þó óskað eftir því að fá greiðslur eftir á fyrsta dag hvers mánaðar fyrir undanfarandi mánuð í samræmi við ákvæði 87. gr.

V.

    Þrátt fyrir ákvæði 2. og 4. mgr. 22. gr. skal lækkunarhlutfallið vera 45% til og með 31. desember 2013.

VI.

    Þrátt fyrir ákvæði a-liðar 1. mgr. 21. gr. skal örorkulífeyrisþegi hafa 1.315.200 kr. frítekjumark vegna atvinnutekna við útreikning tekjutryggingar til og með 31. desember 2013.

VII.

    Þrátt fyrir ákvæði 15., 17.–20. og 61. gr. og 2. mgr. 62. gr. skulu greiðslur örorkulífeyris, aldurstengdrar örorkuuppbótar, tekjutryggingar, heimilisuppbótar, örorkustyrks, uppbótar vegna kostnaðar og uppbótar vegna reksturs bifreiðar ekki lækka til og með 31. desember 2013 vegna almennra hækkana á örorkulífeyri úr lífeyrissjóðum.

VIII.

    Þeir sem ákveðið hafa frestun ellilífeyris fyrir 1. janúar 1992, sbr. 11. gr. laga nr. 67/1971, um almannatryggingar, skulu halda rétti sínum. Tryggingastofnun skal breyta fjárhæðum vegna frestunarinnar til samræmis við breytingar sem verða á fjárhæðum almannatrygginga hverju sinni. Nú andast maður, sem frestað hefur töku lífeyris fram yfir 67 ára aldur, fyrir 1. janúar 1992 og lætur eftir sig maka á lífi og skal þá hinn eftirlifandi maki til viðbótar eigin lífeyri eiga rétt á þeirri hækkun sem hinn látni átti rétt á vegna frestunar. Lækkun skv. 10. gr. skal aldrei ná til þess hluta ellilífeyris sem einstaklingur á rétt á vegna frestunar á töku ellilífeyris sem ákveðin var fyrir 1. janúar 1992.

IX.

    Ákvæði 1. gr. laga nr. 62/1999 gilda um þá einstaklinga sem metnir eru til örorku í fyrsta sinn eftir gildistöku þeirra en ekki um þá sem metnir höfðu verið til örorku samkvæmt ákvæðum eldri laga, nema þeir sæki sérstaklega um það.

X.

    Ráðherra skal tryggja áframhaldandi umboð starfshóps þess sem unnið hefur að gerð frumvarpsins og skal starfshópurinn vinna að endurskoðun laga er snúa að öryrkjum í samstarfi við Öryrkjabandalag Íslands. Starfshópurinn skili greinargerð með tillögum að breytingum fyrir 1. október 2013.

Greinargerð.


I. Inngangur.
    Frumvarp þetta var samið í velferðarráðuneytinu og áður félags- og tryggingamálaráðuneytinu. Það var lagt fram sem stjórnarfrumvarp af velferðarráðherra á vorþingi 2013 (636. mál á 141. löggjafarþingi). Gerðar hafa verið nokkrar minni háttar breytingar á upphaflega frumvarpinu en frumvarpið er nú flutt af þingflokki Samfylkingarinnar, enda er það afstaða flokksins að óhjákvæmilegt sé að leggja nýjan grunn að sanngjörnu almannatryggingakerfi og að ekki sé lengur hægt að skjóta á frest löngu tímabærum endurbótum á almannatryggingakerfinu.
    Meginmarkmið með frumvarpinu er að styrkja stöðu aldraðra og þeirra sem búa við skerta starfsgetu, m.a. með því að gera lög um lífeyrisréttindi almannatrygginga og tengdar greiðslur einfaldari og skýrari heldur en búið er við í dag.
    Við samningu frumvarpsins var höfð hliðsjón af tillögum sem fram komu í skýrslu verkefnisstjórnar um endurskoðun almannatrygginga frá því í október 2009 um nýskipan almannatrygginga og byggt á tillögum starfshóps um endurskoðun almannatryggingalaga sem starfað hefur frá því í apríl 2011 að lokaáfanga heildarendurskoðunar almannatryggingalöggjafarinnar.
    Endurskoðun almannatryggingakerfisins var þó ekki að fullu lokið með framlagningu þessa frumvarps. Flutningsmenn leggja áherslu á að sá þverfaglegi- og þverpólitíski starfshópur sem unnið hefur að gerð þessa frumvarps sem og frumvarps um slysatryggingar almannatrygginga vinni áfram. Verði hlutverk starfshópsins að halda áfram vinnu við málaflokka sem enn eru ókláraðir og má þar m.a. nefna bætur til foreldra langveikra- og fatlaðra barna, barnatryggingar, starfsgetumat, lífeyrisgreiðslur og tryggingabætur til þeirra sem dvelja langdvölum á hjúkrunarheimilum, dvalarheimilum eða öðrum stofnunum, sökum öldrunar eða fötlunar og reglur um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra vegna bifreiðakaupa og/eða reksturs bifreiða. Eðlilegt er að leita eftir aðkomu Sambands íslenskra sveitarfélaga við þessa vinnu og tryggja að Öryrkjabandalagið komi að vinnunni að nýju.
    Mikilvægt er að árétta að endurskoðun á málefnum öryrkja var að mestu látin bíða við gerð þessa frumvarps en því þarf að halda áfram vinnunni varðandi þann þátt. Öryrkjabandalag Íslands hefur komið að mörgum ábendingum og athugasemdum við frumvarpið sem fjalla þarf um og mæta að því marki sem unnt er. Mikilvægt er að þeirri vinnu verði haldið áfram í góðu samstarfi við Öryrkjabandalagið og vinnunni lokið sem fyrst.
    Loks ber að geta að í meðförum Alþingis þarf að uppfæra upphæðir lífeyrisgreiðslna í samræmi við launa- og neysluvísitölu og stefnu stjórnvalda og Alþingis.

II. Ferill endurskoðunar almannatryggingalaga.
    Hinn 1. október 2007 var skipuð verkefnisstjórn um endurskoðun almannatrygginga. Í erindisbréfi verkefnisstjórnarinnar kemur fram að í ljósi þess að málefni aldraðra og almannatrygginga muni flytjast frá heilbrigðisráðuneyti til félagsmálaráðuneytis þann 1. janúar 2008 skuli vinna heildstæðar tillögur um eðlilegar fyrstu aðgerðir, langtímastefnumótun og nauðsynlegar lagabreytingar þar að lútandi. Skuli verkefnisstjórnin skila félagsmálaráðherra samræmdum tillögum annars vegar varðandi eðlilegar fyrstu aðgerðir og hins vegar varðandi þá heildarendurskoðun almannatryggingalöggjafarinnar sem framundan var.
    Verkefnisstjórnin lagði fram tillögur til skemmri tíma í lok nóvember 2007 sem var flestum hrundið í framkvæmd með lagabreytingum árið 2008. Hér má nefna afnám skerðingar lífeyris vegna tekna maka, innleiðingu frítekjumarks vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega og að úttekt séreignarsparnaðar hafi ekki áhrif á greiðslur almannatrygginga. Þá var frítekjumark vegna fjármagnstekna og frítekjumark vegna atvinnu- og lífeyrissjóðstekna öryrkja hækkað. Aldurstengd örorkuuppbót var einnig hækkuð og hinn 1. september 2008 var sett reglugerð um sérstaka uppbót til framfærslu lífeyrisþega en sú uppbót var síðar lögfest.
    Í kjölfarið hóf verkefnisstjórnin endurskoðun á almannatryggingakerfinu með það að leiðarljósi að einfalda kerfið og að bæta hag lakast settu lífeyrisþeganna.
    Verkefnisstjórnin útfærði starfið sitt í samræmi við eftirfarandi markmið:
          Athuga breytingar á lífeyriskerfi almannatrygginga í þeim tilgangi að bæta hag þeirra sem lægri tekjur og lakari stöðu hafa.
          Leggja til róttæka tillögu um einföldun kerfisins sem næði bæði til lífeyrisflokka og framkvæmdar.
          Ná fram meiri sanngirni á samspili tryggingabóta, lífeyrissjóðstekna og atvinnutekna.
          Ná fram meiri hvata til öflunar atvinnutekna og sparnaðar hjá bótaþegum en áður.
          Draga úr tekjutengingum einkum með hækkun frítekjumarks vegna atvinnutekna, lífeyrissjóðstekna og fjármagnstekna.
          Afnema skerðingu vegna tekna maka lífeyrisþega.
          Endurskoða skerðingarhlutföll í tengslum við breytingar á frítekjumörkum.
          Koma á lágmarksframfærslutryggingu fyrir lífeyrisþega og skilgreina betur réttindi sambúðarfólks og einhleypra auk eðlismunar ellilífeyriskerfisins og endurhæfingar- og örorkulífeyriskerfisins.
          Færa örorku- og endurhæfingarlífeyriskerfið í átt að virkari velferðarstefnu með nýju starfsgetumati og virkari þátttöku í endurhæfingu ásamt aukinni eftirfylgni og að lagðar verði línur fyrir framtíðarþróun opinbera lífeyriskerfisins og stofnanaskipan á sviði þess.
    Verkefnisstjórnin lagði fram nokkrar tillögur árið 2009 um einföldun á almannatryggingakerfinu. Þær fólu í sér sameiningu bótaflokkanna grunnlífeyris, tekjutryggingar og heimilisuppbótar í einn lífeyrisflokk með lágmarksframfærslutryggingu. Einhleypir ættu að fá hámarksfjárhæð hins nýja bótaflokks en fólk í sambúð 84% hámarksfjárhæðarinnar. Einföldun framkvæmdar yrði falin í því að bæði greiðslur almannatrygginga og allir þættir lágmarksframfærslu yrðu greiddir af Tryggingastofnun ríkisins. Lögð var til aukin notkun frítekjumarka og að innleitt yrði frítekjumark á lífeyrissjóðstekjur ellilífeyrisþega í áföngum, sem og hækkun frítekjumarka á fjármagnstekjur og atvinnutekjur ellilífeyrisþega. Einnig voru lagðar til breytingar á skerðingarhlutfalli vegna tekna yfir frítekjumarkinu og lagt til að bætur lækkuðu alveg að núlli vegna lífeyrissjóðstekna. Í skýrslu verkefnisstjórnarinnar frá október 2009 „Nýskipan almannatrygginga. Tillögur um breytingar á lífeyriskerfinu.“ 1 kemur fram sú framtíðarsýn að kerfisbreyting þessi geti átt sér stað sem fyrst án umtalsverðra útgjalda. Meiri kjarabætur komi til síðar þegar dragi úr áhrifum fjármálakreppunnar.
    Verkefnisstjórninni var einnig falið að gera tillögu um skipan lágmarksframfærslutryggingar fyrir lífeyrisþega og var það gert með reglugerð um sérstaka uppbót til framfærslu lífeyrisþega sem kom til framkvæmda hinn 1. september 2008 eins og nefnt er hér að framan. Heimild til greiðslu sérstakrar uppbótar á lífeyri vegna framfærslu var síðan innleidd í lög um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, með lögum nr. 120/2009, er tóku gildi hinn 1. janúar 2010, sbr. nú 2. mgr. 9. gr. laga um félagslega aðstoð. Hefur sú fjárhæð sem uppbótin miðast við verið hækkuð jafnt og þétt síðan.
    Frá því að efnahagshrunið skall á haustið 2008 hafa flestar breytingar sem gerðar hafa verið á lífeyristryggingakerfi almannatrygginga miðað að því að ná fram markmiðum fjárlaga hverju sinni. Eðli máls samkvæmt hefur ekki gefist mikið svigrúm til hækkunar bóta eða annarra aðgerða sem eru til þess fallnar að bæta kjör lífeyrisþega. Aðgerðir stjórnvalda hafa einkum falist í því að verja hag tekjulægstu lífeyrisþeganna og vinna gegn aukinni fátækt meðal þeirra. Þó hafa náðst fram einstaka breytingar til hagsbóta fyrir lífeyrisþega á þessu tímabili, t.d. tímabundin lausn á víxlverkunum milli örorkubóta almannatrygginga og örorkulífeyris lífeyrissjóðanna, sbr. lög nr. 106/2011. Í úttektum Þjóðmálastofnunar Háskóla Íslands hefur komið fram að leiðir stjórnvalda til að milda áhrif kreppunnar hjá fólki með lágar tekjur og millitekjur hafa reynst árangursríkar og að kaupmáttur lífeyrisþega hefur dregist minna saman en annarra hópa í þjóðfélaginu frá haustinu 2008. Skiptir þar einnig máli að lífeyrisþegar njóta enn þeirra miklu og jákvæðu breytinga sem gerðar voru á lífeyriskerfinu á árunum 2007 og 2008.
    Í framhaldi af starfi verkefnisstjórnarinnar var skipaður starfshópur hinn 4. apríl 2011 til að vinna að lokaáfanga heildarendurskoðunar almannatryggingalöggjafarinnar og ljúka við drög að nýju frumvarpi til laga um lífeyristryggingar. Í erindisbréfi velferðarráðherra til starfshópsins kemur fram að meginhlutverk hans sé að gera tillögur um leiðir og ljúka við drög að nýju frumvarpi til laga um lífeyristryggingar sem unnið hafi verið að í ráðuneytinu. Þá kom það fram í erindisbréfinu að hópurinn skuli gera tillögur að einfaldari og skýrari löggjöf með það að leiðarljósi að almannatryggingar veiti áfram lágmarkstryggingavernd vegna elli og örorku. Endurskoðunin fari fram á grundvelli núverandi tryggingakerfis á Íslandi, þ.e. tveggja stoða kerfis, þar sem einstaklingar á vinnumarkaði greiða í og safna upp réttindum í lífeyrissjóðskerfi en almannatryggingar veiti til viðbótar lágmarkstryggingavernd þeim sem á þurfa að halda.
    Í starfshópnum eiga sæti tveir fulltrúar tilnefndir af þingflokki Samfylkingarinnar, tveir frá þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, einn frá þingflokki Sjálfstæðisflokksins, einn frá þingflokki Framsóknarflokks, einn frá þingflokki Hreyfingarinnar, einn frá Landssambandi eldri borgara (LEB), tveir frá Öryrkjabandalagi Íslands (ÖBÍ), einn frá Landssamtökunum Þroskahjálp, tveir frá Alþýðusambandi Íslands (ASÍ), einn frá Samtökum atvinnulífsins (SA) og tveir sameiginlega frá Bandalagi háskólamanna (BHM), Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja (BSRB) og Kennarasambandi Íslands (KÍ). Formaður starfshópsins er skipaður af velferðarráðherra.
    Þegar starfshópurinn var upphaflega skipaður í apríl 2011 áttu sæti í honum fulltrúar stjórnmálaflokkanna, LEB, ÖBÍ og Þroskahjálpar. Fulltrúar ÖBÍ sögðu sig frá starfi hópsins í janúar 2012, en vildu ekki segja sig formlega úr hópnum. Velferðarráðherra ákvað að fjölga í starfshópnum og 1. mars 2012 tóku þar sæti fulltrúar ASÍ, SA, BHM, BSRB og KÍ. Með hópnum starfa lögfræðingar í velferðarráðuneytinu og sérfræðingur hjá Tryggingastofnun ríkisins (TR).
    Starfshópurinn samþykkti tillögu um einföldun bótakerfis vegna ellilífeyris í júní 2012 og í október 2012 samþykkti starfshópurinn eina breytingu á tillögunni. Er í frumvarpi þessu byggt á tillögu starfshópsins hvað varðar bætur vegna ellilífeyris en þó er gert ráð fyrir að gildistaka laganna verði ári síðar en þar er lagt til eða 1. janúar 2014. Starfshópurinn vinnur nú að endurskoðun þess kafla almannatryggingalaganna er fjallar um bótakerfi almannatrygginga vegna örorku, auk þess sem sérstakir hópar skoða tiltekna þætti, þ.e. fyrirkomulag bóta til foreldra langveikra og fatlaðra barna, fjölskyldubætur (barnatryggingar), bifreiðamál hreyfihamlaðra og starfsgetumat. Gert er ráð fyrir að samið verði frumvarp til breytinga á lögum um lífeyrisréttindi almannatrygginga þegar tillögur starfshópsins um bótakerfi almannatrygginga vegna örorku og aðra framangreinda þætti liggja fyrir.
    Lokatillaga starfshópsins um einföldun bótakerfis almannatrygginga vegna ellilífeyris er svohljóðandi:
         „Í erindisbréfi starfshópsins er honum falið að endurskoða almannatryggingakerfið með það að markmiði að gera það einfaldara og réttlátara og koma í veg fyrir víxlverkanir. Núverandi bótakerfi ellilífeyrisþega stendur saman af fjórum bótaflokkum sem hver um sig er með mismunandi skerðingarhlutföll gagnvart tekjum og mishá frítekjumörk. Réttindin sem bótaflokkarnir mynda eru afar ógagnsæ og einungis á færi sérfræðinga að skilja þau til fulls. Einföldun og aukið gagnsæi felst því í fækkun bótaflokka og skerðingarhlutfalla gagnvart tekjum. Mesta einföldunin og gagnsæið næst með því að sameina alla bótaflokka í einn, hafa eitt skerðingarhlutfall gagnvart tekjum og ekkert frítekjumark. Starfshópurinn gerir tillögu um að sú leið verði farin og hún komi til framkvæmda í áföngum á nokkrum árum með tilteknum sólarlagsákvæðum fyrir réttindi samkvæmt eldra bótakerfi í ákveðnum tilvikum.
              Bótaflokkurinn framfærsluuppbót, að hámarki 36.323 kr. á mánuði fyrir einstakling sem býr einn, skerðist krónu fyrir krónu gagnvart öllum tekjum. Svo hátt skerðingarhlutfall hefur í för með sér óæskileg áhrif, sérstaklega gagnvart greiðslum úr lífeyrissjóðum og veldur því að lífeyrisþegar sjá lítinn sem engan ávinning af þeim réttindum sem þeir hafa áunnið sér með áratuga greiðslu iðgjalda í lífeyrissjóði. Bótaflokkurinn, að viðbættum tekjuskerðingum annarra bótaflokka, vegur þannig að stoðum lífeyrissjóðakerfisins. Eins og nú háttar til hefur einhleypur ellilífeyrisþegi engan ávinning af greiðslu 73.000 kr. á mánuði úr lífeyrissjóði og fái hann 100.000 kr. greiðslu heldur hann einungis 11.000 kr. eftir. Af þessum ástæðum telur starfshópurinn brýnt að framfærsluuppbótin sameinist nýjum bótaflokki ellilífeyris, en vegna mikils kostnaðar fyrir ríkissjóð verði það gert í áföngum.
              Starfshópurinn leggur því til eftirfarandi:
              Í fyrsta áfanga verði bótaflokkarnir ellilífeyrir, tekjutrygging og heimilisuppbót sameinaðir í einn; ellilífeyrir. Fjárhæð ellilífeyris verði 155.000 kr. á mánuði miðað við gildandi bótafjárhæðir og 45% tekna lífeyrisþega hafi áhrif á fjárhæð hans.
              Nú er ellilífeyrisþegum sem búa einir tryggðar að lágmarki 203.000 kr. á mánuði og þeim sem búa með öðrum 175.000 kr. á mánuði með framfærsluuppbótinni. Í fyrsta áfanga mun skerðing framfærsluuppbótar vegna tekna lækka úr 100% í 80%. Skerðingarhlutfallið verði síðan lækkað í áföngum uns 45% markinu verði náð og þá standi einn bótaflokkur efti; ellilífeyrir.
              Samkvæmt framansögðu munu fyrstu breytingarnar taka gildi 1. janúar 2013. Starfshópurinn gerir þá tillögu að skerðing vegna tekna við útreikning framfærsluuppbótar lækki í 70% 1. janúar 2014, í 60% 1. janúar 2015, í 50% 1. janúar 2016 og sameinist ellilífeyri 1. janúar 2017.
              Með þessari sameiningu munu allar tegundir tekna hafa sömu áhrif á útreikning ellilífeyris almannatrygginga og engin frítekjumörk verða í gildi. Sú regla verður þó óbreytt fyrst um sinn að séreignarsparnaður hefur ekki áhrif á útreikning ellilífeyris en stefnt er að því að viðbótarlífeyrissparnaður verði gerður jafnsettur öðrum sparnaði þannig að stofn til skerðingar bóta verði aðeins fjármagnstekjur af sparnaðinum, ekki úttekt hans.
              Vegna ófyrirséðra áhrifa þessara breytinga á hag einstakra ellilífeyrisþega leggur starfshópurinn til að á tímabilinu 1. janúar 2013–31. desember 2015 verði gerður samanburður á útreikningi ellilífeyris, tekjutryggingar og heimilisuppbótar fyrir gildistöku nýrra laga og hins sameinaða ellilífeyris eftir gildistöku laganna. Ef samanburður leiðir til hærri bóta einstaklings samkvæmt eldri lögum greiðast hærri bæturnar á tímabilinu.
              Í eftirfarandi töflu er útgjaldaauki ríkissjóðs af fyrrgreindum breytingum áætlaður. Mestur útgjaldaauki verður við sameiningu framfærsluuppbótar við ellilífeyrinn og leggur nefndin því til að hún verði framkvæmd í fimm áföngum. Í fyrsta áfanga er áætlað að útgjaldaauki ríkisins verði 2.500 m.kr. árlega, en útgjaldaauki næstu áfanga verði á bilinu 750–2.000 m.kr.
              Árlegur kostnaður við afnám framfærsluuppbótar í áföngum í m.kr.
              Miðað er við núverandi fjölda og tekjur núverandi lífeyrisþega (stöðumynd) 2 .
2013 2014 2015 2016 2017
Skerðingarhlutfall við útreikning framfærsluuppbótar
80%

70%

60%

50%

45%
Sameinaður bótaflokkur 1.489 1.489 1.489 1.489 1.489
Framfærsluuppbót 824 1.625 3.051 5.747 7.719
Samanburður við eldri reglur 185 136 90 20 6
Samtals 2.498 3.250 4.630 7.256 9.600
Þegar áformaður útgjaldaauki til málaflokksins
698

3.550

4.130

4.130

4.130
Samtals að frádregnum þegar áformuðum útgjaldaauka
1.800

-300

500

3.126

5.470

              Í töflunni kemur einnig fram þegar áformuð útgjaldaaukning til málaflokksins. Samkvæmt gildandi lögum mun skerðingarhlutfall vegna tekjutryggingar lækka úr 45% í 38,35% og skerðingarhlutfall heimilisuppbótar lækka með sambærilegum hætti frá 1. janúar 2014. Áætlað er að þær breytingar auki útgjöld ríkissjóðs um 2.100 m.kr. á ári. Jafnframt mun samkomulag stjórnvalda við lífeyrissjóðina frá desember 2010, sem m.a. felur í sér hækkun frítekjumarks á tekjutryggingu ellilífeyrisþega vegna lífeyrissjóðstekna, koma til framkvæmda í þremur áföngum á árunum 2013–2015. Áætlað er að sú breyting auki útgjöld ríkissjóðs um 2.300 m.kr.
              Það hefur einnig þýðingu í þessu samhengi að samkvæmt yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga í maí 2011 skyldu bætur almannatrygginga „endurskoðaðar með hliðsjón af niðurstöðum kjarasamninga milli ASÍ og SA, þannig að lífeyrisþegar og atvinnulausir njóti hliðstæðra kjarabóta og um verður samið í kjarasamningum.“ Það var skilningur aðila vinnumarkaðarins að í þessu fælist fyrirheit um hækkun bóta almannatrygginga til samræmis við hækkun lægstu launataxta um 11.000 kr. árin 2012 og 2013, en ekki samkvæmt almennum launahækkunum (3,5% árið 2012 og 3,25% árið 2013), enda hækkuðu bæturnar til samræmis við 12.000 kr. hækkun launataxta árið 2011. Ef bætur almannatrygginga hefðu hækkað til samræmis við skilning aðila vinnumarkaðarins á yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar hefðu útgjöld almannatrygginga vegna ellilífeyrisþega aukist um 1.000 m.kr. aukalega hvort árið 2012 og 2013.“
    Formaður starfshópsins afhenti velferðarráðherra greinargerð með tillögu starfshópsins í október 2012 þar sem farið er yfir niðurstöðu hópsins, helstu verkefni í nánustu framtíð, áhrif tillögunnar á samspil lífeyrissjóða og almannatrygginga og áhrif tillögunnar fyrir ólíka hópa ellilífeyrisþega. Einnig er í greinargerðinni fjallað um kostnað við tillöguna og hvað vegi upp á móti, sem og nauðsyn lagabreytinga og afleiðingar þess að haldið verði áfram með óbreytt kerfi.
    Starfshópurinn ákvað einnig að leita eftir því við Talnakönnun hf. að skoða hver væru langtímaáhrif hugmynda starfshópsins á greiðslustreymi frá Tryggingastofnun ríkisins. Skyldi þar taka tillit til samspils lífeyrisgreiðslna frá lífeyrissjóðum og lífeyrisgreiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins þar sem horft er bæði á fjölgun eftirlaunaþega og aukinn rétt þeirra í lífeyrissjóðum. Var skýrslu um kostnaðaráhrif tillögu starfshópsins til lengri tíma, eða til ársins 2048, skilað í nóvember 2012. Samkvæmt skýrslunni er helsta breytan til kostnaðarauka við lokaáfangann árið 2017 og fram til 2048 áhrif aukins fjölda einstaklinga eldri en 67 ára á tímabilinu.
    Í kostnaðarmati fjármála- og efnahagsráðuneytisins kemur skýrt fram að verði frumvarpið að lögum muni það fela í sér umtalsverð áhrif á útgjöld hins opinbera. Er því lagt til að í meðförum þingsins verði skoðað hvort ástæða sé til og þá með hvaða hætti rétt sé að aðlaga þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu betur að langtímaáætlun ríkisstjórnarinnar um jöfnuð í ríkisfjármálum til að unnt verði að standa undir þeim auknu framlögum til almannatryggingakerfisins sem ætlað er að leiði af ákvæðum frumvarpsins.

III. Tilefni lagasetningarinnar.
    Lög um almannatryggingar, nr. 100/2007, tóku gildi hinn 30. maí 2007, en þá voru endurútgefin lög frá árinu 1993 með áorðnum breytingum, sem aftur voru að stofni til frá árinu 1971. Frá því lög nr. 100/2007 tóku gildi hafa verið gerðar margvíslegar breytingar á lögunum, nokkrar þeirra mjög umfangsmiklar.
    Segja má að þróunin hafi verið sú á undanförnum árum og áratugum að í stað heildarlagabálks um almannatryggingar, þ.e. um réttindi tryggðra einstaklinga þegar að höndum bera veikindi, slys eða örorka, vegna fæðingar eða atvinnuleysis, eða þegar lífeyrisaldri er náð, hafa smám saman verið sett sérlög um einstaka þætti almannatrygginga, t.d. lög um atvinnuleysistryggingar, lög um fæðingar- og foreldraorlof, lög um greiðslur til foreldra langveikra og fatlaðra barna og lög um sjúkratryggingar. Nú er lagt til að sett verði sérstök lög um lífeyrisréttindi almannatrygginga og að sá kafli gildandi almannatryggingalaga sem fjallar um slysatryggingar verði fluttur í sérstök lög um slysatryggingar almannatrygginga líkt og gert var þegar sérstök lög voru sett um sjúkratryggingar, sbr. lög nr. 112/2008. Verður því samhliða frumvarpi þessu lagt fram annað frumvarp til laga um slysatryggingar almannatrygginga.
    Með frumvarpi þessu er lögð til sameining laga um almannatryggingar, nr. 100/2007, og laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, og að í nýjum lögum verði bæði ákvæði um áunnin lífeyrisréttindi og einnig um félagslegan stuðning vegna sérstakra aðstæðna. Er því lagt til að heiti laganna verði „Lög um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning“.
    Frumvarpið byggist að mörgu leyti á ákvæðum gildandi laga auk þess sem höfð er hliðsjón af tillögum verkefnisstjórnar um endurskoðun almannatrygginga frá 2009 og starfshóps um endurskoðun almannatryggingalaganna frá 2012 hvað varðar ellilífeyri. Talið er nauðsynlegt að setja ný heildarlög um lífeyristryggingar almannatrygginga þar sem þær breytingar sem felast í frumvarpinu eru nokkuð umfangsmiklar. Þar sem ekki liggja fyrir tillögur frá starfshópi um endurskoðun almannatryggingalaganna varðandi einföldun bótakerfis vegna örorku og upptöku mats á starfsgetu og fleiri atriði, sem starfshópurinn vinnur nú að, eru ekki lagðar til viðamiklar breytingar á þeim köflum laganna í þessu frumvarpi. Með breyttri og skýrari framsetningu laganna er þó með frumvarpinu lagður grundvöllur að næstu skrefum í heildarendurskoðuninni.
    Í frumvarpinu er lögð áhersla á að kveða skýrt á um réttindi og skyldur hinna tryggðu, sem og málsmeðferð og stjórnsýslu og að ný lög verði einfaldari, skýrari og gagnsærri en gildandi lög hvað þetta varðar. Með einföldun löggjafarinnar er þannig stefnt að því að lífeyristryggingakerfi almannatrygginga verði gagnsærra fyrir notendur. Þá er markmið lífeyristrygginga almannatrygginga skýrt nánar og uppbygging og framsetning laganna breytt í sama tilgangi. Ber að geta þess að umboðsmaður Alþingis hefur m.a. bent á að vegna misjafnrar heilsufarslegrar og félagslegrar stöðu lífeyrisþega sé sérstaklega brýnt að ákvæði laga um réttindi þeirra séu skýr. Þá hefur hann einnig bent á að það sé skylda löggjafans að sjá til þess að fyrir hendi séu almennar, aðgengilegar og skýrar reglur um inntak þeirrar aðstoðar sem einstaklingar eiga rétt á vegna elli og annarra atriða, hvort sem sú aðstoð væri í formi þjónustu og umönnunar eða fjárframlaga.
    Enn fremur er lagt til að lög nr. 99/2007, um félagslega aðstoð, verði felld úr gildi og ákvæði þeirra laga um greiðslur sem teljast til félagslegrar aðstoðar eða bera einkenni hvors tveggja, almannatrygginga og félagslegrar aðstoðar, verði færð í sérstakan kafla í nýjum lögum um lífeyrisréttindi almannatrygginga, með nauðsynlegum breytingum eftir atvikum. Með þessu móti er gert ráð fyrir heildarlöggjöf um lífeyrisréttindi almannatrygginga og um stuðning vegna sérstakra aðstæðna sem komi til viðbótar lífeyrisgreiðslum í sérstökum tilvikum. Komi sú löggjöf í stað tveggja laga um þessar bætur og greiðslur eins og nú er og að þannig megi enn frekar ná markmiðinu um einfaldari og skýrari löggjöf.
    Meginregla gildandi laga er sú að bætur almannatrygginga eru ekki greiddar einstaklingum sem búsettir eru erlendis. Þó er heimilt að greiða slíkar bætur þeim sem búsettir eru í ríkjum sem gerður hefur verið samningur við um gagnkvæm réttindi til almannatrygginga, að því tilskildu að samningurinn taki til viðkomandi einstaklings, tilviks og bóta. Greiðslur samkvæmt gildandi lögum um félagslega aðstoð hafa verið bundnar við lögheimili hér á landi og greiðast ekki úr landi. Gildir það einnig þótt flutt sé til ríkis sem gerður hefur verið samningur við um gagnkvæm réttindi til almannatrygginga. Er áfram gert ráð fyrir því að þær greiðslur, sem telja má til félagslegrar aðstoðar og sem færðar verða í sérstakan kafla í nýjum lögum um lífeyrisréttindi almannatrygginga, verði ekki greiddar úr landi. Greiðslur samkvæmt kaflanum eru greiðslur félagslegs eðlis sem taka mið af efnahagslegum og félagslegum aðstæðum hér á landi og eru þær bundnar við að viðkomandi sé í raun búsettur hér á landi.
    Gildandi milliríkjasamningar um almannatryggingar eru aðallega ákvæði EES-samningsins um almannatryggingar og Norðurlandasamningurinn um almannatryggingar. Í viðauka VI (félagslegt öryggi) við EES-samninginn er reglugerð um samræmingu almannatryggingakerfa sem ætlað er að vernda áunnin réttindi þeirra einstaklinga sem fara á milli EES-ríkjanna. Tekur reglugerðin efnislega aðeins til þess sem hefðbundið er að telja til almannatrygginga, en það samsvarar í grófum dráttum sömu áhættuþáttum og tilgreindir eru í samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 102. Þeir flokkar almannatrygginga sem almannatryggingareglugerð EES-samningsins tekur til eru tæmandi taldir í reglugerðinni. Bætur vegna annarra áhættuþátta falla að meginreglu til ekki undir reglugerðina. Þó geta blandaðar greiðslur sem bera einkenni hvors tveggja, almannatrygginga og félagslegrar aðstoðar, fallið þar undir. Greiðslur félagslegrar aðstoðar falla aftur á móti ekki undir reglugerðina og eru ekki greiddar úr landi og að uppfylltum tilteknum skilyrðum eru blandaðar greiðslur sem bera einkenni hvors tveggja, almannatrygginga og félagslegrar aðstoðar, ekki heldur greiddar úr landi.
    Við gildistöku EES-samningsins árið 1994 þótti því rétt að skipta lögunum og greina á milli greiðslna almannatrygginga og greiðslna félagslegrar aðstoðar og ákvæði um þær greiðslur flutt í lög um félagslega aðstoð, nú lög nr. 99/2007.
    Á þeim árum sem liðin eru frá gildistöku EES-samningsins hafa íslensk lög á þessu sviði breyst mikið, nýir bótaflokkar og greiðslur komið til sögunnar og skilyrði breyst. Einnig hefur almannatryggingareglugerð EES-samningsins tekið breytingum. Í tengslum við yfirstandandi endurskoðun laganna var því talið tímabært og nauðsynlegt að fara að nýju yfir alla greiðslu- og bótaflokka í gildandi lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð og meta á ný hvort um væri að ræða greiðslur sem flokka mætti sem greiðslur félagslegrar aðstoðar, greiðslur almannatrygginga eða sem greiðslur er beri einkenni hvors tveggja. Er í frumvarpinu lagt til að ákvæði um greiðslur sem flokka megi sem félagslega aðstoð og ákvæði um greiðslur sem bera einkenni hvors tveggja, almannatrygginga og félagslegrar aðstoðar, verði færð í sérstakan kafla í nýjum lögum. Á þann hátt verði komið til móts við óskir um einfaldari og skýrari löggjöf sem veiti betri heildarsýn yfir réttindi og stuðning vegna sérstakra aðstæðna.
    Við þessa greiningu og flokkun greiðslna samkvæmt gildandi lögum um almannatryggingar og um félagslega aðstoð hefur verið litið til þess að bætur sem tengjast almennri hættu á fátækt, eins og t.d. ákvæði um tiltekna lágmarksfjárhæð bóta, eru almennt taldar vera félagsleg aðstoð. Hugtakið er almennt skilið svo að þar sé átt við bætur sem ætlað er að stuðla að tiltekinni lágmarksframfærslu einstaklinga í vanda, en vandasamt getur þó verið að greina mun á slíkum greiðslum og greiðslum sem hefðbundið er að telja til almannatrygginga og tengjast áðurnefndum áhættuþáttum. Hefðbundin viðmið eru t.d. að greiðslur félagslegrar aðstoðar tengist ekki greiðslu iðgjalda eða tryggingagjalda heldur séu fjármagnaðar af skatttekjum, að félagsleg aðstoð sé ekki skilyrt við starfstímabil og að hún sé háð mati á þörf. Þótt greiðsla sé ekki skilyrt við greiðslu tryggingagjalda eða sé háð mati á þörf þarf það þó ekki að þýða að greiðslan teljist vera félagsleg aðstoð, en ef veiting aðstoðarinnar er einnig háð einstaklingsbundnu mati á þörfum og aðstæðum viðkomandi einstaklings er almennt talið að svo sé. Hafi stjórnvöld hins vegar ekkert vald til að meta persónulega þörf eða aðstæður einstaklingsins við mat á því hvort veita skuli aðstoðina og ef hlutverk stjórnvalda er eingöngu að staðreyna að hlutlæg skilyrði séu uppfyllt, þá er yfirleitt talið að um bætur almannatrygginga sé að ræða. Þetta á við svo fremi sem bæturnar tengjast einum af hinum áðurnefndu hefðbundnu áhættuflokkum.

IV. Uppbygging frumvarpsins.
    Frumvarpið skiptist í tíu kafla og eru heiti kaflanna þessi:
     I.      Markmið, skilgreiningar og gildissvið, 1.–8. gr.
       A.      Markmið og orðskýringar.
       B.      Gildissvið.
       C.      Almenn ákvæði.
     II.      Greiðslur til aldraðra, 9.–14. gr.
       A.      Ávinnsla réttinda og skilyrði fyrir greiðslum.
       B.      Fjárhæðir greiðslna og tekjur.
       C.      Ýmis ákvæði.
     III.      Greiðslur vegna skertrar starfsgetu, 15.–30. gr.
       A.      Ávinnsla réttinda, skilyrði fyrir greiðslum og fjárhæðir.
       B.      Tekjur og útreikningur greiðslna.
       C.      Ýmis ákvæði.
     IV.      Greiðslur vegna heimilismanna á dvalar- og hjúkrunarheimilum, 31.–44. gr.
       A.      Stöðvun lífeyrisgreiðslna vegna dvalar á stofnun.
       B.      Daggjöld og dvalarframlag.
       C.      Greiðsla dvalarkostnaðar.
       D.      Ráðstöfunarfé og dagpeningar utan stofnana.
       E.      Ýmis ákvæði.
     V.      Greiðslur vegna barna, 45.–56. gr.
       A.      Ávinnsla réttinda, skilyrði fyrir greiðslum og fjárhæðir greiðslna.
       B.      Ýmis ákvæði.
     VI.      Stuðningur vegna sérstakra aðstæðna, 57.–69. gr.
       A.      Markmið og gildissvið.
       B.      Uppbætur á lífeyri.
       C.      Aðrar greiðslur.
       D.      Ýmis ákvæði.
     VII.      Framkvæmd, 70.–83. gr.
       A.      Almenn ákvæði.
       B.      Útreikningur, endurreikningur og uppgjör bóta.
       C.      Ýmis ákvæði.
     VIII.      Málsmeðferð og stjórnsýslureglur, 84.–107. gr.
       A.      Almennt.
       B.      Málsmeðferð.
       C.      Upplýsingaskylda og eftirlitsheimildir.
       D.      Þagnarskylda og meðferð persónuupplýsinga.
       E.      Stjórnsýslukærur.
     IX.      Stjórnsýsla, 108.–114. gr.
     X.      Almenn ákvæði og gildistaka, 115.–122. gr.
Breytingar á öðrum lögum, 123. gr.
Ákvæði til bráðabirgða, I–IX.

V. Samráð og mat á áhrifum frumvarpsins.
    Við gerð frumvarpsins var haft samráð við Tryggingastofnun ríkisins og Innheimtustofnun sveitarfélaga. Ragnhildur Helgadóttir, prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík, vann að einstaka köflum frumvarpsins með starfsmönnum ráðuneytisins og Brynhildur Flóvenz, dósent við lagadeild Háskóla Íslands, las frumvarpið yfir og veitti ráðgjöf. Þá var höfð hliðsjón af tillögum sem fram koma í skýrslu verkefnisstjórnar um endurskoðun almannatrygginga frá því í október 2009 og byggt á tillögu starfshóps um endurskoðun almannatryggingalaga sem starfað hefur frá því í apríl 2011. Í starfshópnum eiga sæti fulltrúar hagsmunasamtaka eldri borgara og öryrkja, fulltrúar aðila vinnumarkaðarins, auk fulltrúa fimm stjórnmálaflokka. Ítarlega er fjallað um skipan og störf hópsins og tillögur hans í kafla II hér að framan og í athugasemdum við II. kafla frumvarpsins. Einnig var leitað til Talnakönnunar hf. varðandi kostnaðaráhrif af tillögum starfshópsins til lengri tíma.
    Frumvarpið var metið með hliðsjón af stöðu kynjanna og hvort það væri öðru kyninu frekar til íþyngingar eða ívilnunar. Ekki verður séð að frumvarpið sem slíkt hafi áhrif á stöðu kynjanna. Réttur kynjanna til þeirra réttinda og greiðslna sem kveðið er á um í frumvarpinu er jafn, t.d. er lífeyrisaldur hér á landi hinn sami hjá báðum kynjum, ólíkt því sem gildir í sumum ríkjum Evrópu. Verði frumvarpið að lögum er aftur á móti, eins og á öðrum sviðum, nauðsynlegt að hafa kynjasjónarmið í huga við framkvæmd laganna.

VI. Helstu breytingar í frumvarpinu frá gildandi lögum um almannatryggingar.
    Helstu stefnumið frumvarpsins og meginbreytingar frá gildandi almannatryggingalögum eru eftirfarandi:
     1.      Markmiðsákvæði er sett í lögin, gildissvið lífeyristrygginga er afmarkað og helstu hugtök skilgreind í I. kafla.
     2.      Í II. kafla er gert ráð fyrir gjörbreyttri framsetningu varðandi réttindi aldraða til greiðslna og skilyrði fyrir greiðslum. Með þessu móti er leitast við að gera löggjöfina einfaldari í sniðum svo að unnt sé að fá yfirsýn yfir öll helstu réttindi og greiðslur til aldraðra í þessum kafla, en að ekki sé nauðsynlegt að lesa lög í heild í þeim tilgangi. Einnig er gert ráð fyrir mikilli einföldun bótakerfisins með sameiningu bótaflokka, einföldun reglna varðandi áhrif tekna á útreikning greiðslufjárhæðar og afnámi frítekjumarka.
     3.      Í III. kafla er fjallað um réttindi einstaklinga með skerta starfsgetu til greiðslna og skilyrði fyrir greiðslum. Í kaflanum eru einnig ákvæði um útreikning greiðslna og önnur ákvæði er lúta að réttindum og skyldum þeirra sem hafa skerta starfsgetu hvað varðar lífeyrisréttindi hjá almannatryggingum. Öll ákvæði um réttindi einstaklinga með skerta starfsgetu verða því í einum kafla í því skyni að löggjöfin sé skýr og framsetning einföld. Þá eru lagðar til tilteknar breytingar sem talið er nauðsynlegt að gera nú þegar. Starfshópur um endurskoðun almannatryggingalaga vinnur áfram að heildarendurskoðun almannatrygginga og tillögum um breytt bótakerfi vegna örorku og að innleiðingu starfsgetumats sem komi í stað núgildandi örorkumats. Þegar tillögur starfshópsins liggja fyrir er gert ráð fyrir að lagt verði fram sérstakt frumvarp um breytingu á þessum kafla.
     4.      Allar gildandi reglur um dvalar- og hjúkrunarheimili, svo sem um stöðvun lífeyrisgreiðslna vegna dvalar á stofnun, greiðsluþátttöku heimilismanna í dvalarkostnaði, útreikning, endurreikning og uppgjör dvalarframlags, ráðstöfunarfé og greiðslur fyrir dagvist aldraðra, hafa verið færðar í IV. kafla frumvarpsins og veitir það heildaryfirsýn í þessum málaflokki. Einnig er gert ráð fyrir að nýju fyrirkomulagi um greiðslur ellilífeyris, sem gert er ráð fyrir í þessu frumvarpi, verði beitt tímabundið við útreikning á kostnaðarþátttöku heimilismanna, en unnið er að breytingum á greiðslufyrirkomulagi heimilismanna á dvalar- og hjúkrunarheimilum í tengslum við fyrirhugaðan flutning málefna aldraðra frá ríki til sveitarfélaga.
     5.      Öll helstu ákvæði gildandi laga um almannatryggingar og laga um félagslega aðstoð sem varða framfærslu barna eru flutt í V. kafla. Áfram er unnið að undirbúningi tillagna um nýtt kerfi fjölskyldubóta (barnatrygginga) sem ætlunin er að komi í stað t.d. barnalífeyris og styrkja til einstæðra foreldra.
     6.      Flest ákvæði gildandi laga nr. 99/2007, um félagslega aðstoð, eru færð í VI. kafla. Í kaflanum eru sett fram markmið og gildissvið og kveðið skýrt á um þau skilyrði sem umsækjendur þurfa að uppfylla til að heimilt sé að veita þeim slíkan stuðning. Um er að ræða greiðslur sem flokka má sem félagslega aðstoð eða sem greiðslur er bera einkenni hvors tveggja, almannatrygginga og félagslegrar aðstoðar. Almennt miðast greiðslur samkvæmt kaflanum við að viðkomandi eigi lögheimili og sé einnig búsettur hér á landi líkt og á við varðandi greiðslur samkvæmt gildandi lögum um félagslega aðstoð. Með sérstöku markmiðsákvæði er lögð áhersla á að hér sé um félagslegan stuðning ríkisins að ræða sem taki mið af félagslegum og efnahagslegum aðstæðum hér á landi.
     7.      Í VII. kafla er fjallað um framkvæmd laganna og lúta þau ákvæði einkum að starfsemi Tryggingastofnunar ríkisins sem annast framkvæmdina. Er þar kveðið heildstætt á um allar reglur varðandi útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta, m.a. hvernig skuli farið með of- og vangreiðslur. Ýmis veigamikil atriði sem nú eru í reglugerðum eru færð í kaflann og þannig gert ráð fyrir lögfestingu þeirra.
     8.      Í VIII. kafla er gert ráð fyrir að setja ákvæði um málsmeðferð og stjórnsýslureglur, en talið er mikilvægt að kveða skýrt á um réttindi borgaranna og skyldur þeirra í samskiptum við stjórnvöld í lögum, m.a. hvað varðar leiðbeiningar- og upplýsingaskyldu, eftirlit, meðferð persónuupplýsinga og stjórnsýslukærur. Þá er gert ráð fyrir því að mánaðarlegar greiðslur verði inntar af hendi eftir á í stað fyrir fram.
     9.      Kveðið er á um yfirstjórn lífeyristrygginga, hlutverk Tryggingastofnunar, stjórn hennar og forstjóra í IX. kafla, auk þess sem formreglur er varða úrskurðarnefnd almannatrygginga eru færðar í sama kafla.
     10.      Í X. kafla frumvarpsins er enn fremur kveðið á um fjármögnun, heimild til að gera milliríkjasamninga, útflutning og skörun bóta auk almennrar reglugerðarheimildar ráðherra. Í einstökum köflum er einnig gert ráð fyrir heimild ráðherra til að setja reglugerðir um einstaka málaflokka.
     11.      Þar sem lagt er til að sett verði sérlög um slysatryggingar almannatrygginga er IV. kafli laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, sem fjallar um slysatryggingar, ekki hluti af frumvarpi þessu.
     12.      Gert er ráð fyrir að gildandi reglugerðir og reglur, sem settar hafa verið samkvæmt gildandi og eldri lögum um almannatryggingar og félagslega aðstoð, gildi áfram, að svo miklu leyti sem þau brjóta ekki í bága við ákvæði nýrra laga, þar til þær verða sérstaklega felldar úr gildi með setningu reglugerða á grundvelli nýrra laga.
     13.      Gert er ráð fyrir að lögin öðlist gildi 1. júlí 2013 þar sem innleiðing þeirra krefst töluverðs undirbúnings og kynningar. Allar fjárhæðir í frumvarpinu miðast við árið 2013.
     14.      Ýmsar breytingar þarf að gera á öðrum lögum komi ný lög um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning í stað gildandi laga um almannatryggingar og laga um félagslega aðstoð. Í frumvarpi til laga um slysatryggingar almannatrygginga er kveðið á um þær breytingar á öðrum lögum sem gera þarf í tengslum setningu sérlaga um slysatryggingar almannatrygginga og brottfall viðkomandi kafla gildandi almannatryggingalaga.

Athugasemdir við einstaka kafla og greinar frumvarpsins.

Um I. kafla.

    Í þessum kafla frumvarpsins er kveðið á um markmið, skilgreiningar og gildissvið laganna. Markmiðsákvæði hefur ekki áður verið sett í lög um almannatryggingar en talin er brýn þörf á því að kveða skýrt á um markmið svo mikilvægrar löggjafar. Áhersla er lögð á að ákvæðið samræmist stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, einkum 76. gr. hennar þar sem kveðið er á um að öllum, sem þess þurfa, skuli í lögum tryggður réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika.
    Í gildandi lögum er afar lítið um orðskýringar eða skilgreiningar á helstu hugtökum laganna en í frumvarpinu er lagt til að helstu hugtök verði skilgreind.
    Gildissviði frumvarpsins er skipt í efnislegt og persónulegt gildissvið. Efnislegt gildissvið er rýmra en í gildandi lögum þar sem frumvarpið gerir ráð fyrir því að ákvæði laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, verði felld inn í ný lög um lífeyrisréttindi almannatrygginga og er vísað til umfjöllunar um þetta atriði í almennum athugasemdum við frumvarpið. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að ákvæði um slysatryggingar verði færð í sérlög um slysatryggingar almannatrygginga og er af þeim sökum ekki kveðið á um hverjir teljist slysatryggðir í ákvæði frumvarpsins um efnislegt gildissvið.
    Í ákvæðum um persónulegt gildissvið er kveðið á um það hvaða einstaklingar teljast tryggðir samkvæmt lögunum og ýmis sérákvæði um tryggingavernd.

Um 1. gr.

    Ákvæðið er nýmæli en talið er mikilvægt að kveða sérstaklega á um markmið laga um lífeyrisréttindi almannatrygginga en það er ekki gert í gildandi lögum um almannatryggingar. Er 1. gr. frumvarpsins ætlað að bæta úr því.
    Markmið laganna er margþætt en meginmarkmiðið er að finna í 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins. Þar kemur fram að markmið laganna sé að tryggja þeim sem þess þurfa bætur og aðstoð vegna elli, skertrar starfsgetu, andláts og framfærslu barna, svo sem nánar er kveðið á um í lögunum, og í samræmi við önnur lög sem fjalla um málefni lífeyrisþega. Við samningu ákvæðisins var tekið mið af 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, þar sem kveðið er á um að öllum, sem þess þurfa, skuli tryggður réttur í lögum til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika. Í frumvarpinu eru þó notuð orðin „skert starfsgeta“ í stað orðsins „örorka“ en það er í samræmi við nútíma orðnotkun. Þá var litið til ákvæða norskra laga um almannatryggingar og sambærilegra ákvæða í öðrum íslenskum lögum, svo sem lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999, og lögum um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992, en þau lög ásamt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, og frumvarpi þessu, verði það að lögum, veita öldruðum og fötluðum heildstæða vernd íslenska velferðarkerfisins. Þar sem hér er í fyrsta sinn gerð tillaga að markmiðsákvæði þykir rétt að byggja fyrst og fremst á stjórnarskránni og efnislegu innihaldi laganna eins og áður sagði og ganga ekki lengra í skilgreiningu á markmiði en þörf krefur. Tíminn mun síðan leiða í ljós hvort þörf sé á ítarlegra markmiðsákvæði sérstaklega í ljósi frekari efnislegra breytinga á lögunum sjálfum sem vænta má að líti dagsins ljós á næstu árum og áratugum. Áfram er gert ráð fyrir þeirri meginreglu að tilgangur lífeyristrygginga almannatrygginga sé fyrst og fremst sá að veita þeim bætur og stuðning sem á þurfi að halda sökum tekjutaps eða tekjulækkunar og sérstakra útgjalda einhvern tímann á æviskeiðinu, svo sem vegna elli eða skertrar starfsgetu. Í lögum um lífeyrisréttindi almannatrygginga er aðallega fjallað um fjárhagslegar greiðslur en ekki þjónustu. Einnig er tekið mið af efni gildandi almannatryggingalaga.
    Í 2. mgr. kemur fram að með bótum og aðstoð, sbr. 1. mgr., sé þannig stuðlað að því að einstaklingar sem lögin taka til geti framfleytt sér sjálfir með þeim greiðslum og þeirri aðstoð sem kveðið er á um í lögunum og lifað sjálfstæðu lífi. Í þessu felst það meginmarkmið laganna að sérhver einstaklingur geti eftir atvikum lifað sjálfstæðu lífi með þeirri samfélagslegu aðstoð sem aðstæður hvers einstaklings kalla á hverju sinni. Í þessu sambandi ber sérstaklega að benda á nýja uppbyggingu laganna, þar sem annars vegar er í II.–V. kafla þeirra kveðið á um rétt til greiðslna vegna elli, skertrar starfsgetu o.fl., en hins vegar er í VI. kafla kveðið á um stuðning, sem tekur mið af þörfum og/eða aðstæðum hvers og eins, vegna útgjalda eða lágra tekna sem ekki duga til framfærslu. Við ákvörðun á því fyrirkomulagi stuðnings fyrir tiltekna hópa sem útfært er í VI. kafla er litið til efnahagslegra og félagslegra aðstæðna hér á landi á hverjum tíma og höfð hliðsjón af öðrum stuðningskerfum, svo sem sjúkratryggingum og félagsþjónustu sveitarfélaga.

Um 2. gr.

    Í ákvæðinu er að finna skilgreiningar á helstu hugtökum frumvarpsins.
    Í 1. tölul. er hugtakið lífeyrisþegi skilgreint sem einstaklingur sem fær greiddan lífeyri sem hann hefur sjálfur áunnið sér samkvæmt lögum þessum. Hér er átt við einstaklingsbundin réttindi sem einstaklingur hefur sjálfur áunnið sér eða á sjálfur rétt á. Hugtakið kemur í stað hugtaksins bótaþegi og tekur til þeirra sem þiggja lífeyrisgreiðslur samkvæmt lögunum sem ætlaðar eru þeim sjálfum. Því eru undanskildir þeir aðilar sem eingöngu fá greiðslur sem ætlaðar eru til framfærslu barna, t.d. barnalífeyri.
    Í 2. tölul. er hugtakið greiðsluþegi skilgreint sem einstaklingur sem fær aðrar greiðslur en lífeyri samkvæmt lögunum. Hugtakið er nýtt og tekur til þeirra sem þiggja einhverjar aðrar greiðslur en lífeyri og tengdar bætur samkvæmt lögunum, en hér er einkum um að ræða greiðslur skv. IV.–VI. kafla. Ástæðan fyrir því að greint er á milli hugtakanna lífeyrisþegi og greiðsluþegi er sú að í einstaka tilfellum getur það skipt máli varðandi útreikning bóta sem miðast við almanaksár og ávinnslu réttinda tengdra aðila, t.d. maka eða barna.
    Í 3. tölul. er hugtakið bætur skilgreint að hluta til eins og það er í ákvæði 1. mgr. 48. gr. gildandi laga, þ.e. sem bætur greiddar í peningum. Ellilífeyrir skv. 17. gr. laganna er dæmi um bætur greiddar í peningum. Samkvæmt lögunum teljast bætur ekki aðeins greiddar í peningum heldur einnig hjálp til sjúkra og slasaðra sem veitt er á annan hátt, þ.e. bætur geta hvort heldur sem er verið greiðsla eða þjónusta, sbr. 4. tölul. Meðlagsgreiðslur og önnur framfærsluframlög skv. V. kafla laganna eru undanskildar þar sem þær teljast ekki bætur samkvæmt lögunum.
    Í 4. tölul. er hugtakið tekjutengdar bætur skilgreint samhljóða skilgreiningu á hugtakinu í 2. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags.
    Í 5. tölul. er hugtakið ár skilgreint en í frumvarpinu er tekið sérstaklega fram að með ári sé átt við almanaksár. Samkvæmt gildandi lögum er hugtakið bótagreiðsluár látið ná yfir almanaksár, en hér er lögð til sú breyting að í stað orðsins „bótagreiðsluár“ sé kveðið á um ár eða almanaksár, t.d. að árstekjur séu þær tekjur sem aflað er á almanaksári.
    Í 6. tölul. er hugtakið búseta skilgreint sem lögheimili í skilningi lögheimilislaga, og er sú skilgreining sú sama og í ákvæði 2. mgr. 12. gr. gildandi laga. Í 1. gr. laga um lögheimili, nr. 21/1990, er hugtakið lögheimili skilgreint. Ástæða þykir þó til að gera ráð fyrir að sérstakar ástæður geti leitt til þess að einstaklingur sé ekki raunverulega búsettur á sama stað og skráð lögheimili hans segir til um og eigi því ekki að ávinna sér lífeyrisréttindi hér á landi. Þar getur verið um að ræða erlenda fanga, erlenda námsmenn sem ekki hafa tengsl við landið, hælisleitendur sem ekki hafa fengið hæli hér á landi eða ef lögheimili er ranglega skráð hér á landi samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hjá Tryggingastofnun. Í þessum tilfellum skráir Tryggingastofnun grunnupplýsingar í sérstaka tryggingaskrá um tryggingaréttindi einstaklinga sem er til viðbótar við Þjóðskrá Íslands.
    Í 7. tölul. er hugtakið einhleypur skilgreint sem einstaklingur sem er hvorki í hjúskap, staðfestri samvist né óvígðri sambúð, sbr. 8. og 9. tölul. þessa ákvæðis. Skilgreiningin er í samræmi við íslenskan málskilning en umboðsmaður Alþingis hefur m.a. komist að þeirri niðurstöðu að hugtakið sé hvergi skilgreint í lögum og lagði til að við endurskoðun laga um almannatryggingar og félagslega aðstoð yrði bætt úr því, sem nú er lagt til að gert verði með þessum hætti.
    Í 8. tölul. er hugtakið hjón skilgreint sem einstaklingar í hjúskap samkvæmt hjúskaparlögum, nr. 31/1993, en einnig einstaklingar sem eru í staðfestri samvist sem stofnað var til í gildistíð laga nr. 87/1996, um staðfesta samvist, og ekki hefur verið slitið, án þess að hafa fengið samvist sína viðurkennda sem hjúskap. Lög nr. 87/1996 voru felld úr gildi með lögum nr. 65/2010, um breytingar á hjúskaparlögum og fleiri lögum og um brottfall laga um staðfesta samvist (ein hjúskaparlög).
    Í 9. tölul. er hugtakið óvígð sambúð skilgreint sem sambúð tveggja einstaklinga, sem skráð er í þjóðskrá, enda eigi þeir barn saman eða von á barni saman eða hafi verið í sambúð samfleytt lengur en eitt ár. Þessi skilgreining er í samræmi við núgildandi skilgreiningu á sambúð í 49. gr. almannatryggingalaga. Í 73. gr. er kveðið á um að sömu réttindi og skyldur eigi við um sambýlisfólk og hjón, sbr. þó umfjöllun um 11. og 21. gr. varðandi fjármagnstekjur sambýlisfólks.
    Í 10. tölul. er hugtakið tekjur skilgreint. Ákvæðið er efnislega samhljóða 2. mgr. 16. gr. gildandi laga. Þá er lagt til að bætt verði við ákvæðið að sem tekjur samkvæmt lögum þessum teljist einnig sams konar tekjur sem aflað er erlendis og ekki eru taldar fram hér á landi. Hvað varðar fjármagnstekjur sambýlisfólks vísast til skýringa með 11. og 21. gr.
    Í 11. tölul. er hugtakið atvinnutekjur skilgreint sem endurgjald fyrir hvers konar vinnu, starf eða þjónustu. Þá nær hugtakið einnig yfir allar tekjur af atvinnurekstri og sjálfstæðri starfsemi og enn fremur þær tekjur sem koma í stað atvinnutekna, t.d. atvinnuleysisbætur og greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði. Er talið bæði eðlilegt og sanngjarnt að hugtakið nái einnig yfir tekjur sem eru ígildi atvinnutekna og falla því undir það frítekjumark sem öryrkjar njóta vegna atvinnutekna. Er það einnig í samræmi við framkvæmd Tryggingastofnunar ríkisins um meðhöndlun atvinnutekna við útreikning tekjutengdra bóta.
    Í 12. tölul. er hugtakið lífeyrissjóðstekjur skilgreint með sama hætti og í gildandi lögum, þ.e. greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum, sbr. lög nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.
    Í 13. tölul. er hugtakið fjármagnstekjur einnig skilgreint með sama hætti og í gildandi lögum, þ.e. tekjur skv. C-lið 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Um 3. gr.

    Ákvæðið er að hluta til nýtt en þar er fjallað um efnislegt gildissvið laganna. Þar segir að lögin gildi um lífeyristryggingar almannatrygginga, greiðslur vegna dvalar- og hjúkrunarheimila, greiðslur vegna barna og aðstoð vegna sérstakra aðstæðna. Gert er ráð fyrir að ákvæði sem nú eru í lögum um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, flytjist í lög um lífeyrisréttindi almannatrygginga, sbr. það sem að framan greinir í almennum athugasemdum með frumvarpinu um tilfærslu ákvæða laga um félagslega aðstoð yfir í lög um lífeyrisréttindi almannatrygginga.

Um 4. gr.

    Í ákvæðinu er fjallað um hvaða einstaklingar teljast tryggðir samkvæmt lögunum, þ.e. persónulegt gildissvið.
    Í 1. mgr. kemur fram sú meginregla að þeir sem lögin taka til og eru tryggðir samkvæmt lögunum eru þeir sem eru búsettir hér á landi, en búsetuhugtakið er skilgreint í 6. tölul. 1. gr. frumvarpsins og kemur í stað 2. mgr. 12. gr. gildandi laga. Ákvæðið er efnislega samhljóða 1. mgr. 12. gr. en þó er lagt til að felld verði út tilvísun í gildandi lögum um hverjir séu slysatryggðir samkvæmt lögunum þar sem gert er ráð fyrir að sérlög verði sett um slysatryggingar. Í 1. mgr. er að finna undanþágu vegna skuldbindinga íslenska ríkisins samkvæmt milliríkjasamningum. Um efni milliríkjasamninga er fjallað í X. kafla frumvarpsins.
    Í 2. mgr. er nýtt ákvæði um að tryggingavernd falli niður þegar búseta er flutt frá Íslandi, en það ákvæði er sams konar og ákvæði 3. mgr. 10. gr. laga um sjúkratryggingar, nr. 112/ 2008. Annað getur þó leitt af milliríkjasamningum, sbr. 118. gr. Nauðsynlegt þykir að fjalla um lok réttinda í lögunum en þó ber að athuga að áunnin réttindi á grundvelli búsetu til lífeyristrygginga falla ekki niður við brottflutning, heldur geymast þar til atburður sem leiðir til lífeyris kemur fram. Bætur eru þó ekki greiddar úr landi nema á grundvelli gildandi milliríkjasamnings, sbr. 118. gr.
    3. mgr. er samhljóða 3. mgr. 12. gr. gildandi laga, en þó er lagt til að orðin „eða eftir atvikum sjúkratryggingastofnunin“ falli brott, sbr. lög nr. 112/2008, um sjúkratryggingar. Yfirleitt eru einstaklingar með skráð lögheimili samkvæmt lögheimilislögum búsettir hér á landi og falla þar með undir lögin. Þess eru þó mörg dæmi að einstaklingar sem búsettir eru erlendis séu enn skráðir með lögheimili á Íslandi. Í slíkum tilvikum kann Tryggingastofnun að ákvarða að einstaklingur uppfylli ekki skilyrði um búsetu í skilningi laganna, t.d. ef stofnunin hefur yfir að ráða nýrri og ítarlegri upplýsingum en Þjóðskrá Íslands. Gert er ráð fyrir að Tryggingastofnun tilkynni Þjóðskrá Íslands um þau tilvik þegar stofnunin hefur ástæðu til að ætla að lögheimili sé ranglega skráð. Í VIII. kafla frumvarpsins er fjallað um eftirlit Tryggingastofnunar með réttmæti bótaréttar, bóta, greiðslna og upplýsinga sem og hvernig skuli staðið að ákvörðunum um frestun eða stöðvun greiðslna.

Um 5. gr.

    Í ákvæðinu er kveðið á um tryggingavernd á Íslandi þrátt fyrir tímabundna dvöl erlendis og eru þau ívilnandi frá 4. gr. frumvarpsins. Þó er ekki gert ráð fyrir því að greiðslur skv. VI. kafla frumvarpsins greiðist úr landi, sbr. 2. mgr. 1. gr. gildandi laga um félagslega aðstoð.
    1. mgr. er byggð á 1. mgr. 13. gr. gildandi laga en um er að ræða undantekningu frá þeirri meginreglu að um tryggingavernd fólks á vinnumarkaði fari eftir löggjöf starfslandsins. Lagt er til að hámarkstími tryggingar, sem er fimm ár, verði lögfestur en nú er eingöngu kveðið á um þann tíma í reglugerð.
    2. mgr. er byggð á 1. mgr. 14. gr. gildandi laga. Lagt er til að orðin „eða eftir atvikum sjúkratryggingastofnunin“ falli brott, sbr. lög nr. 112/2008, um sjúkratryggingar. Einnig er lagt til að í stað þess að heimilt sé að sækja um áframhaldandi tryggingavernd í þeim tilvikum að lögheimili og búseta hafi verið skráð í námslandi, verður aðalreglan sú að námsmenn njóti áframhaldandi tryggingaverndar og falli undir lögin meðan á viðurkenndu námi erlendis stendur. Það eigi þó ekki við njóti námsmaðurinn tryggingaverndar í námslandinu enda meginregla að ekki sé hægt að ávinna sér réttindi í tveimur löndum á sama tímabili. Gert er ráð fyrir að sett verði reglugerð þar sem nánar er skýrt hvað teljist vera viðurkennt nám en almennt er litið svo á að nám þurfi að vera lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna til að teljast viðurkennt nám.
    3. mgr. er efnislega samhljóða 2. mgr. 14. gr. gildandi laga en lagt er til að orðin „eða eftir atvikum sjúkratryggingastofnunin“ falli brott, sbr. lög nr. 112/2008, um sjúkratryggingar.
    Í 4. mgr. er tekið fram að þegar einstaklingur fellur undir milliríkjasamning ganga ákvæði samningsins framar, en það er í samræmi við ákvæði 118. gr.
    Í 5. mgr. er gert ráð fyrir að áfram verði sótt um áframhaldandi tryggingavernd til Tryggingastofnunar og að um málsmeðferð fari skv. VIII. kafla laganna.

Um 6. gr.

    Í ákvæðinu sem er nýmæli er fjallað um tryggingavernd flóttamanna. Efnislega sams konar ákvæði er nú að finna í 18. gr. reglugerðar nr. 463/1999, um framkvæmd almannatrygginga og skráningu í tryggingaskrá. Einnig er kveðið á um rétt flóttamanna gagnvart sjúkratryggingum í 1. mgr. 16. gr. laga um sjúkratryggingar, nr. 112/2008. Í ákvæðinu felst að þeir sem fengið hafa hælisveitingu og réttarstöðu flóttamanna njóta fullrar tryggingaverndar samkvæmt lögum þessum óháð reglum um réttindaávinnslu í hlutfalli við búsetutíma.
    Útlendingastofnun ákveður hverjum skuli veitt hæli og hverjir fái réttarstöðu flóttamanns hér á landi samkvæmt lögum um útlendinga. Hingað til hefur aðallega verið um að ræða flóttamenn sem tilheyra hópum flóttamanna sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að taka við en árið 2010 voru gerðar breytingar á lögum um útlendinga, nr. 96/2002, sem fela í sér ákveðna rýmkun á flóttamannahugtakinu og þar með hverjir geti öðlast hæli og fengið réttarstöðu flóttamanna hér á landi.

Um 7. gr.

    Ákvæðið er nýmæli og er því ætlað að taka af allan vafa um að frumvarpið gildi einnig um dánarbú. Á það m.a. við um 100. gr. frumvarpsins sem er samhljóða 1. mgr. 7. gr. gildandi laga um kæruheimild til úrskurðarnefndar almannatrygginga. Úrskurðarnefndin vísaði áður frá málum er vörðuðu endurkröfur á dánarbú í tengslum við ætlaðar ofgreiðslur bóta þar sem ekki var talið að dánarbú hefðu aðildarhæfi fyrir nefndinni. Úr þessu var að hluta til bætt með breytingum á lögum um almannatryggingar og fleiri lögum, sbr. lög nr. 120/2009. Í ákvæðinu er lagt til að gengið verði lengra í að samræma ákvæði laga um almannatryggingar við lög um skipti á dánarbúum, nr. 20/1991, með því að taka skýrt fram að lögin gildi einnig um dánarbú eftir því sem við á.

Um 8. gr.

    Gert er ráð fyrir að ráðherra sé heimilt að setja reglugerð um einstök atriði er varða framkvæmd þessa kafla, m.a. um rétt til að njóta tryggingaverndar hér á landi, skráningu á tryggingaréttindum, réttindaávinnslu í sérstökum tilfellum, atvinnu, nám og tímabundna dvöl erlendis sem og réttindi flóttamanna.

Um II. kafla.

    Eitt af meginmarkmiðum frumvarpsins er að einfalda almannatryggingalögin og setja efni þeirra fram á skýrari og gagnsærri hátt. Í þessum kafla, sem fjallar um lífeyrisgreiðslur til aldraða, hafa þrír stærstu bótaflokkarnir sem varða lífeyrisgreiðslur til aldraðra, þ.e. ellilífeyrir, tekjutrygging og heimilisuppbót, verið sameinaðir í einn bótaflokk; ellilífeyri. Þá hafa frítekjumörk vegna einstakra tegunda tekna verið afnumin og allar tekjur ellilífeyrisþega hafa sama vægi við útreikning fjárhæðar bótanna. Með þessu mun nást fram umtalsverð einföldun kerfisins án þess að það bitni á sanngirni þess. Einnig eru lagðar til ákveðnar breytingar varðandi frestun á töku lífeyris.
    Áfram er gert er ráð fyrir að hinn félagslegi lífeyrir almannatrygginga komi til viðbótar öðrum þeim tekjum sem viðkomandi einstaklingur kann að hafa sér til framfærslu og þá sérstaklega hjá þeim sem hafa lægstu tekjurnar og þurfa á viðbót að halda. Hér er einnig átt við að félagslegi lífeyririnn komi til viðbótar þeim lífeyrisréttindum sem lífeyrisþegi hefur aflað sér með atvinnuþátttöku eða greiðslu iðgjalda.

Um 9. gr.

    1. mgr. er byggð á 1. mgr. 17. gr. gildandi laga þar sem kveðið er á um rétt til ellilífeyris.
    Í 2. mgr. er kveðið sérstaklega á um að heimild til að miða lífeyri hjóna, sem bæði hafa uppfyllt skilyrði ellilífeyris, við búsetutíma þess sem á lengri réttindatíma, einskorðist við ellilífeyri og það skilyrði jafnframt sett að það hjóna sem hefur skemmri búsetutíma hafi ekki áunnið sér rétt til lífeyris í öðru landi fyrir sama tímabil. Um er að ræða rýmkun frá gildandi ákvæði laganna þar sem það skilyrði er sett að báðir aðilar fái greiðslur, en hafa ber í huga að hér er um heimildarákvæði að ræða og því t.d. ekki gert ráð fyrir beitingu heimildarinnar hafi hjúskap verið slitið áður en það hjóna sem á skemmri réttindatíma öðlast rétt skv. 1. mgr.
    3. og 4. mgr. eru byggðar á 3. og 4. mgr. 17. gr. gildandi laga en hér er þó lagt til að því skilyrði fyrir greiðslu ellilífeyris sjómanna verði bætt við að viðkomandi njóti ekki greiðslu örorkulífeyris, sem greiddur er til 67 ára aldurs, en eðli málsins samkvæmt geta þær greiðslur ekki farið saman. Þá er lagt til að heimild til setningar reglugerðar um ellilífeyri sjómanna verði færð í lokamálsgrein kaflans.

Um 10. gr.

    Lagt er til að fullur ellilífeyrir skuli vera 1.932.540 kr. á ári eða 161.045 kr. á mánuði. Er sú fjárhæð í samræmi við tillögur starfshóps um endurskoðun almannatryggingalaga að viðbættri 3,9% hækkun á bætur almannatrygginga frá 1. janúar 2013. Þá er gert ráð fyrir að ellilífeyrir skuli lækka um 45% af tekjum lífeyrisþegans, uns lífeyririnn fellur niður. Er það einnig í samræmi við framangreindar tillögur starfshóps um endurskoðun almannatryggingalaga. Einnig er lagt til að kveðið verði á um lækkun lífeyrisgreiðslna í stað skerðingar ef tekjur eru komnar yfir ákveðin mörk.

Um 11. gr.

    Samkvæmt frumvarpinu verða þrír stærstu bótaflokkar sem varða lífeyrisgreiðslur til aldraðra, þ.e. ellilífeyrir, tekjutrygging og heimilisuppbót, sameinaðir í einn bótaflokk, ellilífeyri. Í 10. gr. er lagt til að fjárhæð hins nýja bótaflokks lækki um 45% og vísað til 11. gr. varðandi tekjur.
    Gildandi reglur þykja afar flóknar og mörgum hefur reynst erfitt að skilja þær, enda eru í gildi mismunandi skerðingarhlutföll og frítekjumörk vegna einstakra bótaflokka og tekjutegunda. Í þessu ákvæði er lagt til að litið verði heildstætt á allar tekjur lífeyrisþega, burtséð frá því um hvers konar tekjur er að ræða með örfáum ívilnandi undantekningum, og að frítekjumörk vegna einstakra tekjutegunda verði afnumin. Með sameiningu bótaflokka og afnámi frítekjumarka er talið að gengið hafi verið eins langt og frekast er unnt í því skyni að einfalda reglurnar án þess að það bitni á sanngirni í kerfinu. Ekkju- og ekkilsbætur teljast þó ekki til tekna við útreikning tekjutengdra bóta, sbr. 70. gr. frumvarpsins.
    1. mgr. er samhljóða 1. málsl. 2. mgr. 16. gr. gildandi laga. Aftur á móti er ekki þörf á því að kveða sérstaklega á um þær sérreglur sem nú gilda við ákvörðun tekjugrundvallar, svokölluð frítekjumörk, sem fram koma í 2. málsl. 2. mgr. 16. gr. gildandi laga, þar sem lagt er til að þær reglur verði afnumdar.
    2. mgr. er byggð á 3. og 4. mgr. 16. gr. gildandi laga og kveður hún á um hvaða tekjur skuli ekki teljast til tekna við útreikning bóta samkvæmt lögunum. Lagt er til að áfram hafi séreignarsparnaður ekki áhrif á útreikning ellilífeyris en stefnt verði að því að þessi sparnaður verði gerður jafnsettur öðrum sparnaði, þannig að greint verði á milli höfuðstóls sparnaðar og ávöxtunar hans. Þannig verði stofn til lækkunar ellilífeyris vegna tekna aðeins fjármagnstekjur af sparnaði, en ekki einnig úttekt höfuðstóls. Til að það sé mögulegt verður hins vegar fyrst að breyta framsetningu tekna í skattframtali. Þá þarf einnig að horfa til annarra þátta er tengjast séreignarsparnaði, t.d. að skilgreina nákvæmlega hvað telst séreignalífeyrissparnaður auk þess sem horfa þarf einnig til þess að ýtt sé með eðlilegum hætti undir söfnun séreignarsparnaðar frekar en að dregið sé úr honum.
    3. mgr. er efnislega samhljóða 2. og 3. málsl. a-liðar 2. mgr. 16. gr. gildandi laga þar sem kveðið er á um að ekki skuli reikna með tekjum maka. Fjármagnstekjur, eins og þær eru skilgreindar í 13. tölul. 2. gr., skiptast ávallt til helminga milli hjóna og skiptir ekki máli hvort hjónanna er eigandi þeirra eigna sem mynda tekjurnar eða hvort um séreign eða hjúskapareign er að ræða. Lagt er til að bætt verði við ákvæðið nýjum málslið þar sem fram komi að sama gildi um fjármagnstekjur sambýlisfólks sem uppfyllir skilyrði fyrir samsköttun skv. 3. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Almennt gildir sú regla að einstaklingar sem eru í óvígðri sambúð njóti sömu réttinda og beri sömu skyldur og hjón en þó er í lögum um tekjuskatt gert ráð fyrir að einstaklingar í óvígðri sambúð óski þess báðir skriflega við skattyfirvöld að vera skattlagðir sem hjón. Hafi þeir aftur á móti ekki sótt um samsköttun eða uppfylli ekki skilyrði fyrir samsköttun er ekki talið heimilt að líta á fjármagnstekjur þeirra sameiginlega og skipta þeim til helminga, líkt og gildir um hjón og samskattað sambýlisfólk, heldur verði í þeim tilfellum eingöngu horft til fjármagnstekna umsækjandans eða lífeyrisþegans sjálfs.

Um 12. gr.

    Greinin er byggð á 2. mgr. 23. gr. gildandi laga en þó er lögð til sú orðalagsbreyting að tekið er fram að frestun ellilífeyris geti náð allt til 72 ára aldurs, enda geta einstaklingar 67 ára og eldri ákveðið að fresta töku ellilífeyris í ákveðinn tíma. Óljós skil hafa verið á milli afleiðinga þess að viðkomandi ákveður að halda áfram störfum og sækir ekki um lífeyri vegna áhrifa tekna á útreikning lífeyris og þess að sækja um lífeyri en fá hann ekki greiddan vegna áframhaldandi atvinnutekna. Er því gert ráð fyrir að viðkomandi hafi uppfyllt skilyrði til greiðslu ellilífeyris á tímabilinu en ákveðið að geyma rétt sinn og fá með því móti hærri lífeyrisgreiðslur síðar.
    Lagt er til að heimild ráðherra til að setja reglugerð um nánari framkvæmd ákvæðisins verði færð í 14. gr.

Um 13. gr.

    Gert er ráð fyrir að um stuðning, sem heimilt er að veita ellilífeyrisþegum vegna sérstakra aðstæðna, fari skv. VI. kafla laganna. Hér er um að ræða uppbætur sem heimilt er að veita ellilífeyrisþegum t.d. vegna framfærslu, kostnaðar eða fötlunar.
    Gildandi ákvæði eru í lögum um félagslega aðstoð en lagt er til að kveðið verði á um þessar greiðslur í sérstökum kafla en að vísað verði til þeirra ákvæða hér til að gefa heildarmynd af lífeyrisréttindum ellilífeyrisþega og auðvelda lestur laganna.

Um 14. gr.

    Gert er ráð fyrir að ráðherra sé heimilt að setja reglugerð um einstök atriði er varða framkvæmd þessa kafla, m.a. um fjárhæðir bóta, tekjumörk, útreikning greiðslna og hækkun vegna frestunar á töku lífeyris.

Um III. kafla.

    Vinna við þróun og innleiðingu nýs starfsgetumats, er leysi af hólmi gildandi örorkumat, er hafin en ljóst er að sú vinna mun taka nokkurn tíma og krefjast vandaðs undirbúnings. Með nýju starfsgetumati er ætlunin að miða fyrst og fremst við getu einstaklinga til starfa með aukinni áherslu á ýmis endurhæfingarúrræði. Í þessum kafla frumvarpsins eru dregin saman í einn kafla öll helstu ákvæði gildandi laga um almannatryggingar og laga um félagslega aðstoð sem varða réttindi og skyldur einstaklinga með skerta starfsorku. Þó er lagt til að gerðar verði ákveðnar breytingar sem talið er nauðsynlegt að gera nú, þótt á sama tíma sé unnið að endurskoðun og undirbúningi að breyttu bótakerfi, samhliða nýju starfsgetumati. Lagt er til að uppbygging kaflans verði í samræmi við II. kafla frumvarpsins þannig að fyrst verði kveðið á um ávinnslu réttinda, skilyrði fyrir greiðslum og fjárhæðir þeirra, í næsta undirkafla verði fjallað um tekjur og útreikning greiðslna og loks ýmis ákvæði um örorkuskírteini, tengsl við slysaörorku slysatrygginga almannatrygginga og fleira. Þá er gert ráð fyrir að ákvæði um stuðning við atvinnuþátttöku einstaklinga með skerta starfsgetu verði flutt í lög um vinnumarkaðsaðgerðir, nr. 55/2006, enda um að ræða vinnumarkaðsúrræði sem nýtist öryrkjum.

Um 15. gr.

    Ákvæði þetta byggist á 18. gr. gildandi laga um örorkulífeyri en uppröðun málsgreina er breytt í því skyni að gera greinina skýrari og efni hennar gagnsærra. Er fyrst gerð grein fyrir þeim skilyrðum sem umsækjendur um örorkulífeyri þurfa að uppfylla, síðan reglum um búsetu hér á landi og loks útreikning bóta vegna tekna viðkomandi.
    Í 1. mgr. er lagt til að áfram verði byggt á þeirri meginreglu gildandi laga að krafist sé þriggja ára samfelldrar búsetu fyrir umsókn. Hins vegar falli niður heimild í gildandi lögum til að veita örorkulífeyri eftir aðeins sex mánaða búsetu hér á landi hafi starfsorka verið óskert við flutning til landsins. Ástæða þessa er mikil aukning fólksflutninga milli landa og þar sem engin skilyrði eru fyrir ávinnslu réttar til örorkulífeyris almannatrygginga hér á landi önnur en búseta þykir ákvæðið of opið í dag. Á móti kemur að lagt er til að heimilt verði að veita rétt eftir eins árs samfellda búsetu hér á landi fyrir umsókn hafi umsækjandi annaðhvort áður verið búsettur hér á landi að lágmarki í fimm ár eftir 18 ára aldur og ekki verið búsettur erlendis í meira en fimm ár, eða verið áður búsettur hér á landi í a.m.k. 20 ár eftir 18 ára aldur. Þykir eðlilegt að þeir sem áður hafa búið hér á landi í langan tíma og áunnið sér lífeyrisrétt samkvæmt lögunum á grundvelli búsetu njóti þess í einhverjum mæli og öðlist réttindi fyrr við endurkomu til landsins en þeir sem ekki hafa búið hér á landi áður. Þannig verði gerður skýrari greinarmunur á því að ávinna sér réttindi hér á landi og því að öðlast rétt á ný eftir tímabundna fjarveru og með því gert ráð fyrir auknum sveigjanleika frá gildandi lögum. Aukinn flutningur fólks milli landa hefur kallað á þörf fyrir þessa breytingu. Einnig mælir það með breytingunni að íslenskur ríkisborgararéttur er ekki skilyrði fyrir rétti til örorkulífeyris almannatrygginga hér á landi eins og víða annars staðar og að ekki er krafist atvinnuþátttöku, iðgjaldagreiðslu eða annars samkvæmt gildandi lögum.
    2. mgr. er óbreytt frá 2. mgr. gildandi laga en lagt er til að heimild ráðherra til að setja reglugerð um örorkustaðal verði færð í 30. gr. Einnig er vísað í 16. gr. frumvarps þessa um endurhæfingargreiðslur í stað 7. gr. laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, þar sem lagt er til í frumvarpinu að ákvæði laga um félagslega aðstoð verði færð inn í ný lög um lífeyrisréttindi almannatrygginga, sbr. VI. kafla frumvarpsins.
    Í 3. mgr. er lögð til breyting á orðalagi 4. mgr. 18. gr. gildandi laga en án efnislegra breytinga. Í stað þess að vísa til reglna sem gilda um ellilífeyri varðandi útreikning á búsetu sem grundvöll örorku þykir réttara og gagnsærra að reglur um það komi fram í ákvæðinu sjálfu. Ekki er gert ráð fyrir breytingu á reglum um rétt á grundvelli ætlaðra tímabila (framtíðartímabil) að sinni en ljóst er að það atriði þarf að koma til ítarlegrar skoðunar í starfshópi um endurskoðun almannatryggingalaga, enda ákvæðið á margan hátt úrelt og t.d. óljóst hvernig með skuli fara þegar einstaklingar flytjast aftur frá Íslandi eftir að hafa áunnið sér rétt til lífeyris á grundvelli a.m.k. þriggja ára búsetu.
    Í 4. mgr. er lagt til að kveðið verði skýrt á um framkvæmd útreiknings örorkulífeyris annars vegar vegna búsetu, sbr. 1. og 3. mgr. og hins vegar vegna tekna, sbr. 22. gr. Er það í samræmi við útreikning bóta hjá Tryggingastofnun, þ.e. að fyrst eru reiknuð út áunnin réttindi umsækjanda samkvæmt búsetu og síðan er reiknuð út fjárhæð greiðslna samkvæmt henni og loks áhrif tekna á fjárhæð greiðslna. Er því lagt til að tekið verði út orðalag 4. mgr. 18. gr. gildandi laga um að örorkulífeyrir skuli greiddur eftir sömu reglum og ellilífeyrir.

Um 16. gr.

    Lagt er til að heiti bótaflokksins verði breytt enda ekki um að ræða eiginlegar lífeyrisgreiðslur heldur tímabundnar greiðslur í 18 mánuði sem heimilt er að framlengja um 18 mánuði til viðbótar, og geta greiðslurnar því að hámarki staðið yfir í allt að 36 mánuði.
    Ákvæðið er byggt á 7. gr. laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2007. Í 1. mgr. er lagt til að sömu skilyrði gildi um endurhæfingargreiðslur og um örorkulífeyri hvað varðar áunnin réttindi, sbr. umfjöllun um 15. gr. Nokkur gagnrýni hefur komið fram í tengslum við skilyrði gildandi laga eftir að lögum um félagslega aðstoð var breytt með lögum nr. 120/2009 en þá var gerð sú breyting að umsækjendur um endurhæfingarlífeyri skyldu fullnægja skilyrði 18. gr. laga um almannatryggingar um örorkulífeyri, sem kveður á um þriggja ára búsetutíma, án þess þó að greiðslur endurhæfingarlífeyris væru skilgreindar sem bætur almannatrygginga. Nú er aftur á móti lagt til að það verði formlega gert og þar sem allar sömu reglur um áunnin réttindi og greiðslur munu þá gilda um endurhæfingargreiðslur og um örorkulífeyri hefur það þau áhrif að einstaklingar, sem EES-samningurinn tekur til og áunnið hafa sér lífeyrisréttindi í öðru EES-landi, geta nýtt sér þau réttindi til að fullnægja skilyrðum ákvæðisins. Þó verður að hafa í huga að þeir einstaklingar sem eru nýfluttir til landsins og hafa starfað í síðasta búsetulandi geta átt rétt á greiðslum, sem þeir hafa áunnið sér á grundvelli starfsins, frá því landi.
    Einnig er lögð til sú orðalagsbreyting að í stað þess að kveða á um heimild til greiðslnanna verði tekið fram að þær séu inntar af hendi þegar ákveðin skilyrði eru uppfyllt, en þau eru háð mati og óbreytt frá gildandi lögum. Er það í samræmi við framkvæmd laganna þar sem allir sem uppfylla skilyrðin fá greiðslurnar inntar af hendi. Þá er lögð til sú breyting frá gildandi lögum að í stað þess að kveða á um að um tengdar bætur fari eftir sömu reglum og gilda um örorkulífeyri komi fram að um greiðslur vegna barna og stuðning vegna sérstakra aðstæðna fari samkvæmt sömu reglum og gilda um örorkulífeyri. Er það í samræmi við 2. málsl. 3. mgr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð en engin efnisleg breyting felst í því. Í ákvæðinu er enn fremur lagt til að kveðið verði á um að um fjárhæð og útreikning endurhæfingargreiðslna fari skv. 15. gr. sem er efnislega óbreytt frá gildandi lögum.
    Gert er ráð fyrir að lokamálsgrein 7. gr. gildandi laga um félagslega aðstoð falli brott og að heimild ráðherra til að setja reglugerð færist aftast í kaflann í 30. gr.

Um 17. gr.

    Ákvæðið sem fjallar um aldurstengda örorku er að mestu samhljóða 21. gr. gildandi laga. Lagt er til að í ákvæðinu verði vísað til laga um slysatryggingar sem komi í stað tilvísunar í 34. gr. gildandi laga. Þá er gert ráð fyrir að lokamálsgrein 21. gr. gildandi laga falli brott og að heimild ráðherra til að setja reglugerð færist aftast í kaflann í 30. gr.

Um 18. gr.

    Ákvæðið er efnislega samhljóða 1. mgr. 22. gr. gildandi laga en með breyttu orðalagi. Tekið er fram að tekjutrygging greiðist í hlutfalli við búsetutíma hér á landi, sbr. 3. mgr. 15. gr.
    Í 2. mgr. er tilgreind árleg fjárhæð tekjutryggingar og að tekjutrygging lækki vegna tekna í samræmi við 22. gr., sbr. og 21. gr.

Um 19. gr.

    Ákvæðið er byggt á 8. gr. gildandi laga um félagslega aðstoð. Þó er lagt til að fellt verði brott það skilyrði fyrir greiðslu heimilisuppbótar að viðkomandi fái greidda óskerta tekjutryggingu enda er það skilyrði ekki talið samrýmast tilgangi uppbótarinnar um sérstakan stuðning við þá örorkulífeyrisþega sem búa einir og njóta því ekki þess fjárhagslega hagræðis sem felst í því að geta deilt útgjöldum með öðrum. Þá er lagt til að því skilyrði verði bætt við að lífeyrisþegi þurfi að búa einn þar sem einstaklingar geta talist einhleypir án þess þó að búa einir. Er með þessu komið til móts við athugasemdir umboðsmanns Alþingis í máli nr. 6250/2010 þar sem m.a. var fjallað um skilgreiningu á hugtakinu „einhleypingur“.
    Í 2. mgr. er kveðið á um árlega fjárhæð heimilisuppbótar og að hún lækki vegna tekna eftir sömu reglum og gilda um tekjutryggingu.

Um 20. gr.

    Ákvæðið er efnislega samhljóða 1. og 2. mgr. 19. gr. gildandi laga en lagt er til að ákvæði um viðbót við örorkustyrk verði fært í V. kafla um börn. Einnig er lagt til að orðin „þ.e. grunnlífeyris án bóta tengdra honum“ falli brott enda skírskotað beint til 15. gr. um örorkulífeyri. Þá er gert ráð fyrir að lokamálsgrein ákvæðisins falli brott og að heimild ráðherra til að setja reglugerð færist aftast í kaflann í 30. gr.

Um 21. gr.

    1. mgr. er efnislega samhljóða 2. mgr. 16. gr. gildandi laga, en kveðið er á um frítekjumark vegna atvinnutekna skv. a-lið 1. mgr. í ákvæði til bráðabirgða, en lagt er til að það verði áfram óbreytt, 1.315.200 kr. á ári.
    2. mgr. er byggð á 3. og 4. mgr. 16. gr. gildandi laga en lagt er til að tekið verði fram að sama gildi um fjármagnstekjur sambýlisfólks sem uppfyllir skilyrði fyrir samsköttun skv. 3. mgr. 62. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003 og vísast nánar til athugasemda við 3. mgr. 11. gr.

Um 22. gr.

    Lagt er til að kveðið verði á um útreikning greiðslna samkvæmt þessum kafla í sérstöku ákvæði.
    Í 1. mgr. er kveðið á um útreikning örorkulífeyris, þ.e. lækkunarhlutfall og frítekjumark vegna tekna.
    Í 2. mgr. er kveðið á um útreikning tekjutryggingar, bæði lækkunarhlutfall og frítekjumörk, sbr. 21. gr. Gert er ráð fyrir að lækkunarhlutfall tekjutryggingar sé 38,35% en það er 45% út árið 2013 skv. 13. tölul. ákvæðis til bráðabirgða í gildandi lögum. Hlutfallið mun samkvæmt því að óbreyttu lækka í 38,35% hinn 1. janúar 2014.
    Í 3. mgr. er áfram gert ráð fyrir að ekki skuli reikna með tekjum maka við útreikning bóta samkvæmt lögunum, með þeirri undantekningu þó að fjármagnstekjur, eins og þær eru skilgreindar í 13. tölul. 1. gr., skuli skiptast til helminga milli hjóna.
    4. mgr. er samhljóða 4. mgr. 22. gr. núgildandi laga en þar er kveðið á um að samanlögð lækkun lífeyris og tekjutryggingar skuli aldrei fara umfram 38,35% af tekjum. Vísað er til umfjöllunar um 2. mgr. varðandi breytingu lækkunarhlutfalls úr 45% í 38,35% hinn 1. janúar 2014.

Um 23. gr.

    Ákvæðið er efnislega samhljóða 10. mgr. 16. gr. gildandi laga.

Um 24. gr.

    Vísað er til athugasemda við 13. gr.

Um 25. gr.

    Lagt er til að kveðið verði á um að við mat og ákvörðun örorkustigs skuli eingöngu tekið mið af almennri örorku og hafi umsækjandi um örorkulífeyri áður verið metinn til örorku samkvæmt lögum um slysatryggingar skuli sú örorka ekki tekin með við matið. Matsaðferðir eru ólíkar eftir því hvort um er að ræða almenna örorku eða örorku vegna bótaskylds slyss og sama örorka verður ekki metin tvisvar. Er þetta í samræmi við framkvæmd Tryggingastofnunar.

Um 26. gr.

    Í ákvæðinu er gert ráð fyrir að hafi lífeyrisþegi þegar fengið greiddan örorkulífeyri samkvæmt lögum um slysatryggingar fyrir tiltekið tímabil skuli tekið tillit til þess við útreikning og greiðslu örorkulífeyris vegna almennrar örorku sem kemur til síðar. Ákvæðið er nýtt og er í samræmi við framkvæmd Tryggingastofnunar, enda meginregla að ekki séu greiddar bætur tvívegis fyrir sama tímabil.

Um 27. gr.

    Ákvæðið er byggt á 51. gr. gildandi laga en lagt til að orðalagi verði breytt þannig að um heimild verði að ræða. Ákvæði þessu mun ekki hafa verið beitt við framkvæmd lífeyristrygginga en ekki þykir þó ástæða til að fella það brott, sérstaklega með tilliti til þátttöku viðkomandi í endurhæfingu sem og eigin ábyrgðar.

Um 28. gr.

    Ákvæðið er byggt á 3. mgr. 54. gr. gildandi laga. Ekki þykir ástæða til að gera þá kröfu að viðkomandi uppfylli skilyrði laganna til greiðslu örorkulífeyris heldur er lagt til að það nægi að uppfylla þau skilyrði sem sett eru fram í b-lið 1. mgr. 15. gr. um örorkumat. Er það í samræmi við framkvæmd Tryggingastofnunar.

Um 29. gr.

    Lagt er til að kveðið verði sérstaklega á um heimild Tryggingastofnunar til að fela læknum utan stofnunarinnar að leggja sérhæft mat á endurhæfingarmöguleika umsækjenda og örorku þeirra. Er þetta í samræmi við núverandi framkvæmd þar sem Tryggingastofnun leitar álits utanaðkomandi sérfræðinga vegna mats stofnunarinnar á örorku en rétt þykir að lögfesta slíka heimild stofnunarinnar. 2. málsl. er efnislega samhljóða 3. mgr. 18. gr. gildandi laga.

Um 30. gr.

    Gert er ráð fyrir að ráðherra sé heimilt að setja reglugerð um einstök atriði er varða framkvæmd þessa kafla, m.a. um fjárhæðir bóta, tekjumörk, örorkustaðal, aldurstengda örorkuuppbót, örorkustyrki, hækkun tekjuviðmiðs þeirra sem fengið hafa eingreiðslu skaðabóta og endurhæfingargreiðslur.

Um IV. kafla.

    Unnið er að breytingum á greiðslufyrirkomulagi íbúa á dvalar- og hjúkrunarheimilum í tengslum við flutning málefna aldraðra frá ríki til sveitarfélaga. Því eru ekki lagðar til miklar efnislegar breytingar á ákvæðum þar að lútandi í þessu frumvarpi heldur eru dregin saman í einn kafla öll helstu ákvæði gildandi laga um almannatryggingar, laga um félagslega aðstoð og laga um málefni aldraðra sem varða dvalar- og hjúkrunarheimili og kostnað við öldrunarþjónustu. Þó er notkun hugtaka breytt og lagðar til nauðsynlegar breytingar til samræmis við framkvæmd. Einnig er fylgt þeim breytingum, sem gerðar voru með lögum nr. 28/2012, hvað varðar breytingar á hugtökum í 48. gr. gildandi almannatryggingalaga og þá er gert ráð fyrir að nýju kerfi vegna ellilífeyris verði beitt hvað varðar kostnaðarþátttöku heimilismanna á dvalar- og hjúkrunarheimilum og útreikning dvalarframlags. Þá er bætt við helstu ákvæðum sem nú eru í reglugerðum um málaflokkinn þannig að það skapist ákveðin heildarsýn í málaflokknum. Er í samræmi við það lagt til að 19., 21.–24. gr. og 26. gr. laga um málefni aldraðra verði felldar brott úr lögunum.

Um 31. gr.

    1. málsl. er efnislega samhljóða 1. mgr. 21. gr. laga um málefni aldraðra.
    2. málsl. er samhljóða 1. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 598/2009, um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og dvalarframlags.
    3. málsl. er efnislega samhljóða 3. málsl. 5. mgr. 48. gr. laga um almannatryggingar.

Um 32. gr.

    Greinin er efnislega samhljóða 5. mgr. 48. gr. laga um almannatryggingar.

Um 33. gr.

    Greinin er efnislega samhljóða 7. mgr. 48. gr. laga um almannatryggingar.

Um 34. gr.

    1. mgr. er efnislega samhljóða 6. mgr. 48. gr. laga um almannatryggingar. Nú er í gildi reglugerð nr. 1217/2012 um daggjöld fyrir hjúkrunar-, dvalar- og dagvistarrými sem ekki eru á föstum fjárlögum og er texti greinarinnar í samræmi við það.
    Í 2. mgr. er lagt til að lögfest verði heimild til að greiða daggjöld vegna hjúkrunarrýma og tekið fram að það eigi við um einstaklinga sem eru sjúkratryggðir hér á landi. Er það í samræmi við framkvæmd Tryggingastofnunar. Einnig er lagt til að við ákvæðið bætist ný málsgrein þess efnis að um greiðslur vegna andláts, brottflutnings og sjúkrahúsvistar heimilismanns í hjúkrunarrými fari samkvæmt reglugerð um daggjöld.

Um 35. gr.

    Greinin er efnislega samhljóða 3. mgr., 1. málsl. 4. mgr. og 5. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 598/2009, um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags (dvalarframlags). Í 1. mgr. er lagt til að vísað verði til þess að Tryggingastofnun sé heimilt að greiða dvalarheimili fyrir aldraða, sem ekki er á föstum fjárlögum, dvalarframlag sem nemur mismun á greiðsluþátttöku heimilismanns skv. 37. gr. frumvarpsins og því sem á vantar heildardvalarkostnaði í samræmi við lög þessi en ekki lög um málefni aldraðra og vísast um það efni til athugasemda með þessum kafla.
    Í 2. mgr. er lögð til sú breyting að dvalarframlag greiðist frá innlagnardegi í stað þess að miða við þann dag sem lífeyrisgreiðslur falla niður eða frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir upphaf dvalar. Er það í samræmi við framkvæmd Tryggingastofnunar og þykir eðlileg regla með hliðsjón af betri nýtingu dvalarheimilisrýma.

Um 36. gr.

    Greinin er samhljóða 2. málsl. 4. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 598/2009 þar sem kveðið er á um að flytjist heimilismaður af dvalarrými yfir á hjúkrunarrými skuli dvalarframlag, sem þegar hefur verið greitt til dvalarheimilis fyrir sama tíma, dragast frá daggjaldi sem Tryggingastofnun hefur greitt fyrir hjúkrunarrýmið samkvæmt reglugerð um daggjöld sjúkrastofnana sem ekki eru á föstum fjárlögum. Þykir rétt að lögfesta þetta atriði.

Um 37. gr.

    Greinin er efnislega samhljóða 22. gr. laga um málefni aldraðra. Þó er lagt til að tekjumarkið hækki til samræmis við hækkanir sem gerðar hafa verið á greiðslum frá árinu 2009 og fari úr 65.005 kr. á mánuði í 75.566 kr. á mánuði. Er það einnig talið nauðsynlegt þar sem jaðaráhrif tekna heimilismanna verða mjög há á ákveðnu tekjubili ef tekjumarkið er lægra en það tekjumark sem greiðslur ráðstöfunarfjár skv. 41. gr. falla niður við, en það tekjumark hækkar sjálfkrafa við hækkun bóta.

Um 38. gr.

    1.–3. mgr. ákvæðisins eru efnislega samhljóða 11. gr. um tekjur ellilífeyrisþega og vísast til skýringa með því ákvæði. Er lagt til að sömu reglur gildi um tekjur heimilismanna á dvalar- og hjúkrunarheimilum og gilda um útreikning ellilífeyris.
    4. mgr. er efnislega samhljóða 4. mgr. 26. gr. gildandi laga um málefni aldraðra.

Um 39. gr.

    Greinin er efnislega samhljóða 23. gr. laga um málefni aldraðra.

Um 40. gr.

    Greinin er byggð á 3. mgr. og 5.–11. mgr. 26. gr. gildandi laga um málefni aldraðra. Þó er sú breyting lögð til að í stað þess að kveðið sé á um útreikning, endurreikning og uppgjör dvalarframlags sé kveðið á um útreikning, endurreikning og uppgjör greiðsluþátttöku heimilismanna. Er það í samræmi við framkvæmd þar sem Tryggingastofnun reiknar út greiðsluþátttöku heimilismanna og ræðst fjárhæð dvalarframlags í raun af þeim útreikningi. Meginmarkmiðið er því ekki útreikningur dvalarframlagsins sem slíks heldur greiðsluþátttökunnar. Er heiti greinarinnar í samræmi við þessa breytingu.
    Í 7. mgr. ákvæðisins er gert ráð fyrir að njóti heimilismaður, sem áður var lífeyrisþegi og nýtur greiðsludreifingar fjármagnstekna við upphaf dvalar, skuli njóta hennar áfram.
    Þá er lagt til að bætt verði við tveimur nýjum málsgreinum, annars vegar að um útreikning, endurreikning og uppgjör greiðsluþátttöku heimilismanna gildi að öðru leyti ákvæði reglugerðar nr. 598/2009 og hins vegar að ekki skuli greiddir vextir á vangreitt dvalarframlag eða daggjöld til stofnana. Þykir rétt að lögfesta þessi ákvæði. Loks er lagt til að heimild ráðherra til að setja reglugerð um nánari framkvæmd kaflans verði færð í 44. gr. frumvarpsins í samræmi við uppbyggingu þess.

Um 41. gr.

    Ákvæðið er samhljóða 1.–3. málsl. 8. mgr. 48. gr. gildandi laga um almannatryggingar. Þó er lagt til að orðunum „eða stofnun fyrir aldraða“ verði bætt við ákvæðið, sem er í samræmi við 24. gr. gildandi laga um málefni aldraðra. Einnig er vísað til tekjuhugtaksins í kaflanum og kemur það í stað 4. málsl. 8. mgr. 48. gr. almannatryggingalaga sem fellur brott en það felur ekki í sér neinar efnislegar breytingar frá gildandi lögum. Einnig er lagt til að í stað heitisins vasapeningar verði tekið upp heitið ráðstöfunarfé sem þykir lýsa betur eðli þessara greiðslna, þ.e. að heimilismenn hafi fé til eigin ráðstöfunar. Enn fremur er lagt til að ákvæði samsvarandi þeim sem eru í 5. og 6. málsl. 8. mgr. 48. gr. gildandi laga, þ.e. um tekjur af vinnu á stofnun, verði ekki í þessu frumvarpi þar sem aldrei reynir á þau ákvæði og því ekki talin vera þörf fyrir þau.

Um 42. gr.

    Greinin er byggð á 9. mgr. 48. gr. gildandi laga en þó er lagt til að bætt verði við ákvæðið að greiðslur dagpeninga utan stofnana miðist við að viðkomandi einstaklingur fái greitt ráðstöfunarfé og er það í samræmi við framkvæmd Tryggingastofnunar.

Um 43. gr.

    Greinin er byggð á 12. gr. gildandi laga um félagslega aðstoð og 19. gr. laga um málefni aldraðra.

Um 44. gr.

    Gert er ráð fyrir að ráðherra sé heimilt að setja reglugerð um einstök atriði er varða framkvæmd þessa kafla, m.a. um greiðsluþátttöku heimilismanna í dvalarkostnaði, fjárhæðir og tekjumörk, daggjöld dvalarheimila fyrir aldraða, innheimtu dvalarkostnaðar, útreikning, endurreikning og uppgjör dvalarframlags og ráðstöfunarfé.

Um V. kafla.

    Í þessum kafla frumvarpsins eru dregin saman öll helstu ákvæði gildandi laga um almannatryggingar og laga um félagslega aðstoð sem fjalla um framfærslu barna. Hér er um að ræða barnalífeyri, mæðra- og feðralaun, barnalífeyri vegna náms og meðlag og aðrar greiðslur samkvæmt barnalögum. Er talið skýrara að hafa í einum kafla ákvæði gildandi laga sem kveða á um greiðslur vegna barna. Af sömu ástæðu eru ákvæði um mismunandi tegundir greiðslna færð í sérstakar greinar en ekki eru lagðar til miklar efnislegar breytingar, enda stendur yfir heildarendurskoðun á stuðningi ríkisins við barnafjölskyldur sem tekur m.a. til þeirra greiðslna sem fjallað er um í kaflanum.

Um 45. gr.

    1. mgr. er byggð á 1. mgr. 20. gr. gildandi laga. Þó er lagt til að í stað orðsins „örorkulífeyrisþegi“ verði miðað við að foreldri hafi verið metið til 75% örorku, enda samræmist það 2. málsl. um að tekjur foreldris hafi ekki áhrif á rétt til greiðslu barnalífeyris og framkvæmd Tryggingastofnunar.
    2. mgr. er samhljóða 5. mgr. 20. gr. gildandi laga.
    Lagt er til að 2. mgr. 20. gr. gildandi laga verði felld brott þar sem greinin er talin óþörf. Kjörbörn hafa í dag sömu réttarstöðu og eigin börn foreldra auk þess sem sömu reglur gilda um greiðslur vegna fráfalls eða örorku stjúpforeldra ef aðstæður eru að öðru leyti þær sömu og lýst er í ákvæðinu.

Um 46. gr.

    Greinin er samhljóða 3. mgr. 19. gr. gildandi laga og kveður á um greiðslu viðbótar við örorkustyrk vegna barna. Þykir rétt að færa ákvæðið í þennan kafla sem kveður á um allar greiðslur með börnum.

Um 47. gr.

    Greinin er byggð á 3. mgr. 20. gr. gildandi laga en því er bætt við ákvæðið að sama eigi við þótt lífeyrisgreiðslur hafi fallið niður vegna sjúkrahúsvistar eða dvalar á stofnun og er það í samræmi við framkvæmd Tryggingastofnunar.

Um 48. gr.

    Ákvæðið byggist á 3. mgr. 20. gr. gildandi laga en lagt er til að bætt verði við greinina því skilyrði að fangelsisvist skuli hafa verið samfelld í þrjá mánuði til að beiting heimildarinnar komi til álita. Er það einnig í samræmi við framkvæmd Tryggingastofnunar.

Um 49. gr.

    Ákvæðið byggist á 4. mgr. 20. gr. gildandi laga. Hér er þó lögð til sú orðalagsbreyting að orðið staðfesting sé notað í stað orðsins skilríki.

Um 50. gr.

    Ákvæðið er samhljóða fyrri málslið 6. mgr. 20. gr. núgildandi laga. Aftur á móti er lagt til að ákvæði samsvarandi síðari málslið 6. mgr. 20. gr. verði fellt brott, þ.e. að ekki skuli greiða barnalífeyri vegna þeirra barna er njóta örorkulífeyris. Er það gert þar sem taka örorkulífeyris hefst nú við 18 ára aldur en ekki 16 ára eins og áður og því er ekki þörf á því að kveða sérstaklega á um þetta atriði.

Um 51. gr.

    Kveðið er á um barnalífeyri vegna náms í 3. gr. laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2007. Lagt er til að heiti ákvæðisins verði „Stuðningur vegna náms“ og að 4.–7. og 9. málsl. 1. mgr. falli brott enda er kveðið á um þessi atriði í reglugerð nr. 140/2006 sem þykir réttara þar sem um framkvæmdaleg atriði er að ræða. Þá er ákvæðinu skipt upp í fleiri málsgreinar sem þykir skýrara en í gildandi lögum.
    1. mgr. er efnislega samhljóða 1. málsl. 3. gr. gildandi laga. Einnig er lagt til að tekið verði fram í ákvæðinu að ungmenni þurfi að vera búsett hér á landi í skilningi 6. tölul. 2. gr. og 4. gr. en í 2. mgr. 1. gr. gildandi laga um félagslega aðstoð kemur fram að bætur samkvæmt þeim lögum séu eingöngu greiddar þeim sem eiga lögheimili hér á landi.
    2. mgr. er efnislega samhljóða 8. og 10. málsl. 1. mgr. 3. gr. gildandi laga.
    Í 3. mgr. er lagt til að lágmarkstími náms verði styttur í fimm mánuði til að tryggja að ákvæðið nái einnig til ungmenna sem eru að hefja nám eða ljúka námi. Að öðru leyti er ákvæðið samhljóða 2. og 3. málsl. 1. mgr. 3. gr. gildandi laga.
    4. mgr. er efnislega samhljóða 11. málsl. 1. mgr. 3. gr. gildandi laga. Þó er sú breyting lögð til að skylt sé að líta til aðstæðna og tekna ungmennisins þar sem um félagslegan stuðning er að ræða en ekki lögbundinn rétt.
    Í 5. mgr. er kveðið á um fjárhæð stuðnings samkvæmt ákvæðinu og er ekki um efnislega breytingu að ræða frá 3. gr. gildandi laga um félagslega aðstoð.

Um 52. gr.

    Ákvæðið er byggt á 2. gr. laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, en líkt og kemur fram í almennum athugasemdum við frumvarpið er lagt til að ákvæði þeirra laga verði færð inn í frumvarp þetta. Í frumvarpinu eru á hinn bóginn lagðar til nokkrar breytingar á núgildandi ákvæði.
    Lagt er til að bótaflokkurinn fái nýtt heiti, Styrkir til einstæðra framfærenda, í stað mæðra- og feðralauna. Tilgangur ákvæðisins er að veita barnafjölskyldum, þar sem aðeins er um einn framfæranda barns að ræða, fjárhagslegan stuðning. Er því lagt til að stuðningurinn nái ekki eingöngu til einstæðra foreldra heldur til allra þeirra sem eru einir um framfærslu barna og fara varanlega með forsjá þeirra. Er það einnig í samræmi við niðurstöðu úrskurðarnefndar almannatrygginga í máli nr. 426/2010.
    Í 1. mgr. er lagt til að í stað þess að kveða á um að heimilt sé að greiða mæðra- og feðralauna til einstæðra foreldra, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum eins og nú er, verði kveðið á um að heimilt verði að greiða styrki þessa einstæðum framfærendum að þessum sömu skilyrðum uppfylltum. Er það í samræmi við framkvæmd Tryggingastofnunar þar sem ekkert einstaklingsbundið mat á þörf fer fram heldur er nægjanlegt að sýna fram á að viðkomandi foreldri sé einstætt með börn yngri en 18 ára á framfæri. Einnig er lagt til að við framkvæmd ákvæðisins teljist þeir sem eru meðlagsskyldir gagnvart barni ekki vera framfærendur og eigi því ekki tilkall til styrkja. Er það í samræmi við 1. mgr. 68. gr. tekjuskattslaga sem kveður á um greiðslu barnabóta.
    Fjárhæðir í 2. mgr. hafa verið uppfærðar en að öðru leyti er ákvæðið efnislega óbreytt.
    3. mgr. frumvarpsins er efnislega samhljóða 3. og 4. mgr. 2. gr. gildandi laga en orðalag er gert skýrara. Þó er lagt til að upphaf greiðslu styrks til maka einstaklings sem vistaður hefur verið í fangelsi eða á stofnun miðist við a.m.k. fjögurra mánaða samfellda dvöl til samræmis við 71. gr. frumvarpsins um brottfall lífeyrisgreiðslna til fanga.
    4. mgr. er efnislega samhljóða 4. mgr. 2. gr. gildandi laga.

Um 53. gr.

    Ákvæðið er efnislega samhljóða 1.–3. og 5. mgr. 63. gr. gildandi laga.

Um 54. gr.

    1. mgr. er samhljóða 4. mgr. 63. gr. gildandi laga.
    2. mgr. er nýmæli. Þar er lagt til að lögfest verði sú regla sem fram kemur í 2. og 3. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 945/2009, um framkvæmd meðlagsgreiðslna og annarra framfærsluframlaga, að hafi meira en tveir mánuðir liðið frá útgáfu meðlagsákvörðunar þegar sótt er um greiðslu meðlags aftur í tímann, skuli Tryggingastofnun greiða meðlag frá byrjun þess mánaðar sem umsókn og nauðsynleg fylgigögn berast. Þá er tekið fram að stofnuninni sé heimilt að greiða meðlag allt að 12 mánuði aftur í tímann enda liggi fyrir að umsækjandi hafi ekki fengið greitt fyrir sama tímabil. Hér er um mikilvægt ákvæði að ræða sem ætlað er að koma í veg fyrir tvígreiðslu meðlags fyrir sama tímabil. Tryggingastofnun hefur milligöngu um meðlagsgreiðslur ef þess er óskað af hálfu meðlagsmóttakanda en aðilar geta ávallt haft annan hátt á án aðkomu stofnunarinnar.

Um 55. gr.

    Ákvæðið er efnislega samhljóða 64. gr. gildandi laga. Þó er í 3. mgr. lagt til að í stað orðsins „barnsfeðra“ komi „meðlagsgreiðenda“ og þarfnast það ekki skýringa.

Um 56. gr.

    Gert er ráð fyrir að ráðherra sé heimilt að setja reglugerð um einstök atriði er varða framkvæmd þessa kafla, m.a. um fjárhæðir greiðslna, framkvæmd meðlagsgreiðslna og annarra framfærsluframlaga, fyrirframgreiðslu meðlags þegar foreldri eða börn eru búsett erlendis, um hámarksgreiðslur sem Tryggingastofnun innir af hendi, styrki til einstæðra foreldra og stuðning vegna náms ungmenna.

Um VI. kafla.

    Til að ná fram sem mestri einföldun laganna er lagt til að ákvæði laga um félagslega aðstoð verði sameinuð ákvæðum laga um almannatryggingar en að ákvæði um þann fjárhagslega stuðning, sem telja má að beri öll einkenni félagslegrar aðstoðar, verði í sérstökum kafla og að nánar verði skýrt hvaða heimildir stjórnvöld hafa og hvaða þættir séu teknir með í reikninginn við mat á ákvörðun greiðslna hverju sinni. Ákvæði um aðrar greiðslur samkvæmt gildandi lögum um félagslega aðstoð, sem ákvarðaðar eru án nokkurs einstaklingsbundins mats, færast hins vegar í viðeigandi kafla frumvarpsins.
    Lagt er til að heiti kaflans verði „Stuðningur vegna sérstakra aðstæðna“ þar sem þeim greiðslum sem þar er kveðið á um er einkum ætlað að koma til móts við aðstæður sem hafa í för með sér aukin fjárútgjöld og tekjuleysi. Í kaflanum er því að finna þau ákvæði gildandi laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, sem ekki hafa verið færð inn í aðra kafla þessara laga. Um er að ræða uppbót á lífeyri vegna framfærslu, uppbót á lífeyri vegna kostnaðar, uppbætur vegna hreyfihömlunar, styrki til bifreiðakaupa, endurgreiðslu umtalsverðs kostnaðar við læknishjálp og lyf, umönnunargreiðslur, umönnunarbætur og dánarbætur.
    Eins og ítarlega er fjallað um í almennum athugasemdum við frumvarpið var almannatryggingalögunum skipt árið 1993 í annars vegar lög um almannatryggingar, nr. 117/1993, og hins vegar í lög um félagslega aðstoð, nr. 118/1993, í tengslum við gildistöku EES-samningsins þar sem greiðslur félagslegrar aðstoðar falla ekki undir samninginn. Vegna endurskoðunar almannatryggingalaganna og í ljósi breytinga sem átt hafa sér stað frá þeim tíma, var talið tímabært og nauðsynlegt að fara að nýju yfir alla greiðslu- og bótaflokka gildandi laga um almannatryggingar og laga um félagslega aðstoð og meta á ný, hvort um væri að ræða greiðslur sem flokka megi sem greiðslur félagslegrar aðstoðar, greiðslur almannatrygginga eða sem blandaðar greiðslur er beri einkenni hvors tveggja. Lagt er til að færa ákvæði um þær greiðslur, sem flokka má sem félagslega aðstoð og greiðslur sem bera einkenni hvors tveggja, almannatrygginga og félagslegrar aðstoðar, í þennan kafla. Með sérstöku markmiðsákvæði er svo undirstrikað að hér sé um félagslegan stuðning ríkisins að ræða sem taki mið af félagslegum og efnahagslegum aðstæðum hér á landi og sem eingöngu er heimilt að veita þeim sem bæði eiga lögheimili og eru búsettir hér á landi.

Um 57. gr.

    Í ákvæðinu er tilgreint markmið með VI. kafla frumvarpsins sem er að veita lífeyrisþegum sem hafa tekjur undir lágmarksframfærsluviðmiði stuðning til framfærslu með hliðsjón af efnahag, félagslegum aðstæðum og lífskjörum á Íslandi. Enn fremur er lagt til að fjárhæð greiðslna samkvæmt kaflanum taki mið af fjárhagslegum og félagslegum aðstæðum hlutaðeigandi og þannig verði unnt að bregðast við fjárhagslegri þörf viðkomandi. Þannig er stuðningur samkvæmt þessum kafla nátengdur félagslegu umhverfi viðkomandi einstaklings. Í tengslum við uppbætur og styrki vegna bifreiða fatlaðra má nefna að almenningssamgöngur eru fábreyttar hér á landi, fjarlægðir miklar og oft slæmir vegir sem orsaka það að þörf fyrir bifreiðar og aðstoð við samgöngur er mikil. Þá er markmið reglugerðar nr. 170/2009, um uppbætur og styrki til bifreiðakaupa, fært í ákvæðið.

Um 58. gr.

    Ákvæðið er efnislega samhljóða núgildandi 1. mgr. 1. gr. laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, þar sem taldar eru upp greiðslur samkvæmt lögunum. Er það í samræmi við þá tillögu sem lögð er fram í frumvarpinu um að ákvæði laga um félagslega aðstoð verði felld inn í lög um almannatryggingar, sbr. það sem að framan greinir í almennum athugasemdum við frumvarpið.

Um 59. gr.

    Ákvæðið er byggt á 1. málsl. 2. mgr. 1. gr. núgildandi laga um félagslega aðstoð þar sem kveðið er á um að bætur samkvæmt þessum kafla greiðist eingöngu þeim sem eiga lögheimili hér á landi. Þetta á einnig við um þá lífeyrisþega sem búa hér á landi og hafa eingöngu hlutfallslegan lífeyri frá Íslandi. Þá er lagt til að því skilyrði verði bætt við ákvæðið að greiðslur samkvæmt kaflanum séu eingöngu veittar þeim sem eru búsettir hér á landi, sbr. 6. tölul. 2. gr. frumvarpsins. Ákvæði þetta nær því eingöngu yfir þá sem raunverulega eru búsettir og dveljast hér á landi. Þeir sem fá undanþágu skv. 5. gr. frumvarpsins uppfylla því ekki skilyrði um að vera búsettir hér á landi. Því er í 2. málsl. lagt til að skýrt verði kveðið á um að félagslegur stuðningur samkvæmt kaflanum sé ekki veittur þeim sem falla undir 5. gr. frumvarpsins, ef búseta erlendis hefur varað eitt ár eða lengur, enda tekur slíkur stuðningur alfarið mið af aðstæðum hér á landi.

Um 60. gr.

    Ákvæðið er byggt á 2. mgr. 9. gr. laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2007. Í gildandi lögum er kveðið á um uppbætur á lífeyri í einu ákvæði en hér er lagt til að í tveimur málsgreinum verði kveðið á um annars vegar uppbætur vegna framfærslu og hins vegar uppbætur vegna kostnaðar til að greina betur þar á milli, enda eru skilyrði fyrir þessum uppbótum mismunandi og um eðlisólíkar greiðslur að ræða. Enn fremur eru lagðar til nokkrar áherslubreytingar frá gildandi lögum auk þess sem ákvæði um heimild ráðherra til að setja reglugerð um nánari framkvæmd ákvæðisins eru færð aftast í kaflann þar sem lagt er til að ráðherra sé heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd ákvæða kaflans, en hér gætu fallið undir ýmiss konar viðmið sem líta beri til við mat á þörf.
    Í 1. mgr. kemur fram heimild til að greiða lífeyrisþega sérstaka uppbót á lífeyri vegna framfærslu ef sýnt þykir að hann geti ekki framfleytt sér án þess. Er þetta samhljóða gildandi lögum en hér er um að ræða sérstakan stuðning við tekjulausa eða mjög tekjulága lífeyrisþega og þá sem ekki hafa áunnið sér full réttindi hér á landi.
    Í 2. mgr. er lagt til að í stað þess að miða fjárhæð viðmiðunartekna við það hvort einstaklingur fái greidda heimilisuppbót verði miðað við að viðkomandi sé einhleypur og jafnframt tekið fram að hann þurfi að búa einn. Er sú breyting lögð til vegna ábendingar umboðsmanns Alþingis í máli nr. 6250/2010.
    Í 3. mgr. kemur fram að til heildartekna samkvæmt ákvæðinu teljist 45% af tekjum lífeyrisþega sem er í samræmi við tillögur starfshóps um endurskoðun almannatryggingalaga, en hlutfall þetta er nú 100%. Í ákvæði til bráðabirgða III er aftur á móti tekið fram að þessu hlutfalli skuli náð í áföngum þannig að í fyrsta áfanga, við gildistöku laganna, er gert ráð fyrir að hlutfallið verði 80% og fari síðan lækkandi þar til markmiðinu um 45% tekjutengingu gagnvart heildartekjum verði náð árið 2018. Þó er tekið fram að greiðslur samkvæmt lögunum teljist með að fullu við útreikning uppbótarinnar, en jafnframt að ekki skuli taka tillit til hækkunar vegna frestunar á töku ellilífeyris skv. 12. gr. né uppbóta vegna kostnaðar skv. 61. gr. og uppbótar vegna reksturs bifreiðar skv. 2. mgr. 62. gr. við útreikninginn. Er það í samræmi við 5. gr. reglugerðar nr. 1052/2009, um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri. Þá er lagt til að sama gildi um fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, enda er slík aðstoð neðsta lag þess öryggisnets sem ætlað er að tryggja framfærslu fólks og því óeðlilegt að slíkar greiðslur hafi áhrif á sértækan stuðning ríkisins auk þess sem framfærsluuppbótin er talin til tekna við mat sveitarfélaga á þörf fyrir fjárhagsaðstoð.
    Í 4. mgr. er lagt til að sett verði sérstakt hámark á fjárhæð framfærsluuppbótar sem verði svipuð fjárhæð og mismunur milli fullra bóta til ellilífeyrisþega og framfærsluviðmiðs, þ.e. 50.000 kr. Er þetta talið nauðsynlegt þar sem gert er ráð fyrir að felld verði úr gildi sú regla í 15. gr. reglugerðar nr. 1052/2009, um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri, sem kveður á um að fjárhæð uppbótar vegna framfærslu reiknist í samræmi við réttindaávinnslu lífeyris, þ.e. greiðist í hlutfalli við búsetutímabil hér á landi. Munu þá sömu reglur gilda um þá lífeyrisþega sem búa hér á landi, óháð lengd búsetu. Hafi einstaklingur heildartekjur sem nema lægri fjárhæð en framfærsluviðmið laganna, þrátt fyrir að fá greidda hámarksfjárhæð samkvæmt þessu ákvæði, kemur til kasta grunnöryggisnets þjóðfélagsins, sem er félagsþjónusta sveitarfélaga. Gert er ráð fyrir að reglur um hámark á greiðslu framfærsluuppbótar verði áfram til endurskoðunar í tengslum við umfjöllun um starfsgetumat og bótakerfi tengt því, einkum hvað varðar rétt sem veittur er á grundvelli ætlaðra tímabila (framtíðarútreikningur).
    Í 5. mgr. kemur fram að við mat á þörf samkvæmt þessu ákvæði skuli litið heildstætt til allra félagslegra og fjárhagslegra aðstæðna umsækjanda. Er það einnig í samræmi við 2. mgr. 57. gr. frumvarpsins. Þetta felur það í sér að við mat á því hvort lífeyrisþegi geti ekki talist geta framfleytt sér án uppbótar vegna framfærslu og uppfylli skilyrði fyrir greiðslu uppbótarinnar skuli ekki eingöngu litið til tekna hans, eins og gera skal skv. 2. mgr. 9. gr. gildandi laga um félagslega aðstoð, heldur skuli einnig litið heildstætt á allar hans aðstæður, fjárhagslegar sem félagslegar. Inn í þetta mat geta því komið t.d. eigna- og skuldastaða lífeyrisþega sem og félagslegar aðstæður, t.d. fjölskylduhagir. Hér er enda ekki einvörðungu um að ræða tekjutengda greiðslu heldur félagslega aðstoð sem háð er einstaklingsbundnu mati á þörfum og aðstæðum viðkomandi einstaklings. Er gert ráð fyrir því að sett verði reglugerð þar sem nánar verði kveðið á um tekju- og eignamörk og helstu viðmið sem litið skuli til við mat á þörf, sbr. 69. gr. laganna.

Um 61. gr.

    1. mgr. er efnislega samhljóða 1. mgr. 9. gr. gildandi laga um félagslega aðstoð. Í reglugerð nr. 1052/2009, um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri, er kveðið á um þann kostnað sem hér getur verið um að ræða og er þar einkum um að ræða heilbrigðis- og umönnunarkostnað lífeyrisþega.
    Í gildandi lögum um félagslega aðstoð er kveðið á um að við mat á því hvort lífeyrisþegi geti framfleytt sér án uppbótar skuli tekið tillit til eigna og tekna. Í 2. mgr. frumvarpsins er lagt til að kveðið verði á um að við mat á þörf samkvæmt ákvæðinu skuli litið heildstætt til allra félagslegra og fjárhagslegra aðstæðna umsækjanda. Vísast nánar til athugasemda við 5. mgr. 60. gr. frumvarpsins hvað varðar mat á fjárhagslegum og félagslegum aðstæðum lífeyrisþega og setningu reglugerðar þar að lútandi.

Um 62. gr.

    Ákvæðið er byggt á 1. og 2. mgr. 10. gr. núgildandi laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2007. Þá er sérstaklega tekið fram varðandi uppbætur vegna kaupa á bifreið að bifreiðin þurfi að vera ætluð til daglegra nota hins hreyfihamlaða sjálfs, sem er í samræmi við tilgang ákvæðisins og skilyrði núgildandi reglugerðar nr. 170/2009. Lagt er til að það verði tilgreint sérstaklega að heimilt sé að veita uppbótina á fimm ára fresti og að fjárhæðir uppbótanna verði tilgreindar í lagaákvæðinu, líkt og gildir um aðrar fjárhæðir greiðslna samkvæmt frumvarpinu.
    Í 2. mgr. er sérstaklega tekið fram að heimild til greiðslu uppbótar vegna reksturs bifreiðar nái einnig til þeirra sem þiggja endurhæfingargreiðslur. Þeir geta aftur á móti ekki fengið uppbót vegna kaupa á bifreið skv. 1. mgr., sem er í samræmi við ákvæði núgildandi laga um félagslega aðstoð. Gert er ráð fyrir að árleg fjárhæð uppbótarinnar verði tilgreind í lagaákvæðinu.
    Skilyrði fyrir greiðslum samkvæmt ákvæðinu eru samræmd í 3. mgr. og þar lögð áhersla á þörf bifreiðar fyrir hinn hreyfihamlaða.
    Í 4. mgr. er skilgreiningu á hreyfihömlun bætt inn í lögin en þá skilgreiningu er einnig að finna í sömu reglugerð en með breyttu orðalagi.
    Heimild til að greiða uppbætur vegna bifreiðakaupa foreldra langveikra og fatlaðra barna er flutt í ákvæði um styrki til bifreiðakaupa þannig að í þessu ákvæði er einungis kveðið á um uppbætur til þeirra sem fá greiddan lífeyri eða örorkustyrk og eru hreyfihamlaðir. Þá ber að þess að geta að ákveðið hefur verið að stofna vinnuhóp sem fari yfir bifreiðamál hreyfihamlaðra heildstætt og meti hvort ástæða sé að leggja til enn frekari breytingar í málaflokknum.

Um 63. gr.

    Lagt er til að kveðið verði á um styrki til bifreiðakaupa í sérstöku ákvæði til að aðgreina þá frá uppbótum til lífeyrisþega vegna reksturs bifreiða og bifreiðakaupa. Þessir styrkir eru ekki háðir því að lífeyrisgreiðslur séu fyrir hendi og þykir skýrara að kveða annars vegar á um uppbætur og hins vegar styrki vegna bifreiða.
    1. mgr. er byggð á 3. mgr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð en lagt er til að orðalagi verði breytt þar sem áréttað er það skilyrði 3. málsl. gildandi laga að einstaklingur þurfi að vera sjúkratryggður hér á landi. Þá er lagt til að fjárhæð styrksins verði tilgreind í ákvæðinu.
    Í 2. mgr. er lagt til að kveðið verði á um heimild til greiðslu styrkja sem nema allt að 60% af kaupverði bifreiða. Í dag er þessi heimild fyrir hendi samkvæmt reglugerð nr. 170/2009 en það þykir skýrara að kveða sérstaklega í lögum á um þessa hæstu styrki til kaupa á sérútbúnum og dýrum bifreiðum. Gert er ráð fyrir að fjárhæð styrkjanna geti numið allt að 60% af kaupverði bifreiðar sem miðast við grunnverð án alls aukabúnaðar. Lagt er til að hámarksfjárhæð styrkjanna verði óbreytt, þ.e. 5.000.000 kr. Þá er lagt til að fellt verði brott skilyrði áðurnefndrar reglugerðar um að eigandi bifreiðarinnar þurfi að aka henni sjálfur eða annar heimilismaður, enda er það ekki í samræmi við þau eðlilegu sjónarmið að fatlað fólk ráði sínu lífi sjálft að svo miklu leyti sem mögulegt er.
    Í 3. mgr. er gert ráð fyrir að framfærendur sem njóta umönnunargreiðslna vegna langveikra eða alvarlega fatlaðra barna skv. 65. gr. geti fengið greidda styrki vegna bifreiðakaupa. Er lagt til að fjárhæðir þeirra styrkja verði þær sömu og uppbætur vegna bifreiðakaupa skv. 62. gr., þ.e. 300.000 kr. á fimm ára fresti. Er það í samræmi við 1. mgr. 10. gr. núgildandi laga um félagslega aðstoð en samkvæmt því ákvæði geta þeir sem þiggja umönnunargreiðslur fengið greidda uppbót vegna kaupa á bifreið. Hér er því ekki lögð til efnisleg breyting heldur einungis að framfærendur langveikra eða alvarlega fatlaðra barna geti nú fengið greidda styrki í stað uppbóta eins og nú er. Þá er lagt til að heimilt verði að greiða framfæranda, sem nýtur umönnunargreiðslna vegna verulega hreyfihamlaðs barns, styrk skv. 1. mgr. sem nemur 1.200.000 kr., ef sýnt er fram á þörf fyrir að koma barninu til reglubundinnar þjálfunar, meðferðar eða í skóla. Loks er í 3. mgr. lagt til að framfærendur langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, sem njóta umönnunargreiðslna, geti í sérstökum undantekningartilfellum fengið greidda styrki skv. 2. mgr. sem geta numið allt að 5.000.000 kr. Á þetta t.d. við þegar um er að ræða stór/þung börn eða ef um er að ræða fleiri en eitt verulega hreyfihamlað barn í fjölskyldu sem gerir þörfina fyrir sérútbúna bifreið enn augljósari svo flytja megi barnið eða börnin til reglubundinnar þjálfunar, meðferðar eða í skóla. Er hér einkum litið til úrskurðar úrskurðarnefndar almannatrygginga í máli nr. 262/2010.
    Í 4. mgr. er gert ráð fyrir að heimilt verði að veita styrki vegna bifreiðakaupa á fimm ára fresti, sem er í samræmi við núgildandi reglur.

Um 64. gr.

    1. mgr. er efnislega samhljóða 1. mgr. 11. gr. gildandi laga um félagslega aðstoð.
    Lagt er til að 2. mgr. 11. gr. gildandi laga falli brott en ráðherra er heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd þessa ákvæðis eins og önnur ákvæði kaflans, sbr. 69. gr.

Um 65. gr.

    Endurskoðun stendur yfir á stuðningi ríkisins við foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, sbr. lög nr. 22/2006, um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, með síðari breytingum, og 4. gr. laga um félagslega aðstoð. Því er lagt til að 4. gr. laga um félagslega aðstoð um umönnunargreiðslur haldist óbreytt um sinn með þeirri undantekningu að 3. mgr. færist í 68. gr. frumvarpsins þar sem kveðið er á um mat á þörf sem gildi um allar greinar skv. VI. kafla þess og að 4. mgr. falli brott en ráðherra sé heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd þessa ákvæðis eins og um önnur ákvæði kaflans, sbr. 69. gr.

Um 66. gr.

    Ákvæðið er nokkuð breytt frá 5. gr. laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2007. Í fyrsta lagi er lagt til að heiti bótaflokksins verði breytt þar sem orðið umönnunarbætur getur einnig náð yfir umönnunarbætur til maka. Þá er í 1. mgr. kveðið á um að heimildin sé bundin því að um sérstaklega erfiðar fjárhagslegar aðstæður sé að ræða og að umsækjandi uppfylli ekki sjálfur skilyrði fyrir lífeyrisgreiðslum samkvæmt lögum þessum, enda talið eðlilegt að viðkomandi nýti frekar lögbundinn rétt sinn til lífeyrisgreiðslna ef hann er fyrir hendi frekar en að leita félagslegs stuðnings samkvæmt heimildarákvæði þessu.
    Í 2. mgr. er skilgreint hvað átt sé við með sérstaklega erfiðum fjárhagslegum aðstæðum, þ.e. að maki eða sá sem heldur heimili með lífeyrisþega búi við verulega skerta afkomumöguleika vegna umönnunar lífeyrisþegans og hafi takmarkaða getu til tekjuöflunar. Er það til samræmis við skilyrði 67. gr. frumvarpsins um dánarbætur og horft til takmarkana sem fram koma í reglugerð nr. 179/2003, um dánarbætur frá Tryggingastofnun. Þá er af lagatæknilegum ástæðum nauðsynlegt að í lagaákvæðinu sjálfu komi fram þau viðmið sem byggt skal á við mat á þörf samkvæmt þessu ákvæði.
    Í 3. mgr. er lagt til að tilgreind verði árleg fjárhæð fullra umönnunarbóta, en hún jafngildir nú 80% af fjárhæð grunnlífeyris örorkulífeyrisþega og tekjutryggingar, sbr. 5. gr. gildandi laga.
    Lagt er til að síðasti málsliður núgildandi 5. gr. laga um félagslega aðstoð verði felldur brott en ráðherra er heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd þessa ákvæðis eins og önnur ákvæði kaflans, sbr. 69. gr.

Um 67. gr.

    1. mgr. er efnislega samhljóða 1. mgr. 6. gr. gildandi laga um félagslega aðstoð, en mánaðarleg fjárhæð dánarbóta er færð í nýja málsgrein, þar sem einnig er kveðið á um fjárhæð framlengdra dánarbóta. Ákvæði 73. gr. eiga við um greiðslu dánarbóta eftir því sem við á.
    Í 2. mgr. er heimild til að greiða framlengdar dánarbætur í allt að 48 mánuði til viðbótar bundin því skilyrði að um sérstaklega erfiðar fjárhagslegar aðstæður sé að ræða.
    Í 3. mgr. er skilgreint hvað átt sé við með sérstaklega erfiðum fjárhagslegum aðstæðum, þ.e. að eftirlifandi maki búi við verulega skerta afkomumöguleika og hafi takmarkaða getu til tekjuöflunar. Er það í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 179/2003 um dánarbætur frá Tryggingastofnun og vísast til umfjöllunar um 66. gr. frumvarpsins.

Um 68. gr.

    1. mgr. er samhljóða ýmsum ákvæðum gildandi laga um félagslega aðstoð en hér er lagt til að kveðið verði á um mat á þörf samkvæmt þessum kafla í almennum ákvæðum er varða VI. kafla.
    2. mgr. byggist á 1. mgr. 14. gr. gildandi laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2007.

Um 69. gr.

    Ákvæðið byggist aðallega á 2. mgr. 1. gr., 5. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. núgildandi laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2007. Hér er aftur á móti lagt til að í lokaákvæði kaflans verði ein reglugerðarheimild í stað margra samkvæmt núgildandi lögum þar sem kveðið verði á um heimild ráðherra til að setja reglugerðir um einstök atriði er varða framkvæmd kaflans, m.a. um skilyrði fyrir greiðslum sem og fjárhæðir, tekju- og eignamörk, helstu viðmið sem litið skal til við mat á þörf, um uppbætur á lífeyri, styrki til bifreiðakaupa, endurgreiðslu umtalsverðs kostnaðar, umönnunargreiðslur, umönnunarbætur og dánarbætur.

Um VII. kafla.

    Í þessum kafla frumvarpsins er fjallað um framkvæmd laganna. Stærstur hluti kaflans varðar útreikning, endurreikning og uppgjör bóta, en það fyrirkomulag var innleitt með lögum nr. 74/2002, um breytingar á lögum um almannatryggingar og fleiri lögum. Þá eru ýmis ákvæði sem nú eru í reglugerð nr. 598/2009, um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags, færð inn í lögin, t.d. ákvæði um endurreikning bóta og innheimtu ofgreiðslna, en talið er mikilvægt að lögfesta þau ákvæði. Í kaflanum er enn fremur fjallað um framkvæmd vegna ósamrýmanlegra réttinda, greiðslur til fanga og þriðja aðila og réttarstöðu sambýlisfólks.

Um 70. gr.

    Í 2. mgr. 48. gr. núgildandi almannatryggingalaga er kveðið á um hvaða bætur geti farið saman samkvæmt lögunum. Ákvæði þetta er úrelt og þarfnast breytinga, sérstaklega þar sem nú er kveðið á um sjúkratryggingar í lögum nr. 112/2008 og gert er ráð fyrir að sett verði sérstök lög um slysatryggingar almannatrygginga. Það er almenn meginregla í bótarétti að ekki eru greiddar tvöfaldar bætur vegna sama atburðar eða tímabils. Því er lagt til að kveðið verði skýrt á um þessa meginreglu í 1. mgr., þ.e. að greiðsluþegi geti ekki notið fleiri en einnar tegundar bóta sem hann hefur áunnið sér fyrir sama tímabil og ef um undantekningar er að ræða sé það tekið fram. Þetta er gert í stað þess að telja upp á tæmandi hátt hvaða bætur geti farið saman og hverjar ekki samkvæmt lögum þessum. Er t.d. tekið fram í 2. málsl. 1. mgr. að heimilt sé að greiða bætur og styrki sem er ætlað að mæta útlögðum kostnaði vegna tilviksins samhliða lífeyrisgreiðslum eða öðrum bótum sem ætlaðar eru til framfærslu, enda um eðlisólíkar greiðslur að ræða. Er einnig gert ráð fyrir því í 83. gr. að ráðherra geti sett reglugerð um ósamrýmanleg réttindi sem og hvaða greiðslur geti farið saman.
    Í 3. mgr. 48. gr. gildandi laga um almannatryggingar segir að ef einstaklingur á rétt á fleiri tegundum bóta en einni, sem ekki geta farið saman, megi hann taka hærri eða hæstu bæturnar. Í 2. mgr. ákvæðisins er lagt til að þessu ákvæði verði haldið inni í lögunum.
    Í 3. mgr. er lagt til að sett verði sérstök málsgrein sem varðar skörun bóta samkvæmt öðrum lögum. Meginreglan er sú að allar skattskyldar tekjur og greiðslur eru taldar til tekna við útreikning tekjutengdra bóta almannatrygginga. Til dæmis getur örorkulífeyrisþegi sem er í atvinnuleit fengið greiddar atvinnuleysisbætur á sama tíma. Atvinnuleysisbæturnar hafa aftur á móti þau áhrif að örorkubætur viðkomandi lækka þar sem atvinnuleysisbæturnar teljast honum til tekna við útreikning örorkubótanna. Njóti einstaklingur bótagreiðslna samkvæmt öðrum lögum en fyrir sama tímabil og bætur eru veittar samkvæmt þessum lögum, skulu slíkar greiðslur teljast til tekna við útreikning tekjutengdra bóta samkvæmt nánari ákvæðum frumvarpsins.

Um 71. gr.

    Greinin er byggð á 56. gr. gildandi laga en þó er lagt til að því skilyrði verði bætt við að heimild til greiðslu ráðstöfunarfjár skv. 41. gr. sé bundin því skilyrði að sérstaklega standi á. Fangar fá greiðslur frá Fangelsismálastofnun sem ætlað er að koma til móts við kostnað vegna brýnustu nauðsynja og til persónulegra þarfa. Þeir fangar sem metnir hafa verið til örorku gætu þó haft þörf fyrir hærri greiðslur, t.d. í tengslum við útgjöld vegna sjúkdóms eða skertrar starfsgetu og er þá heimilt samkvæmt ákvæðinu að greiða þeim ráðstöfunarfé að fenginni umsókn.

Um 72. gr.

    Ákvæðið kemur í stað 50. gr. gildandi laga. Tryggingastofnun getur samkvæmt ákvæðinu greitt öðrum en greiðsluþega eða framfærslumanni bætur ef ástæða er til að ætla að bæturnar séu notaðar á þann hátt að eigi samrýmist tilgangi laganna. Þá segir að slíkar ráðstafanir skuli ávallt vera tímabundnar og teknar í samráði við félagsþjónustu hlutaðeigandi sveitarfélags eða barnaverndarnefnd, ef um er að ræða greiðslur vegna framfærslu barna.
    Í 71. gr. er kveðið á um greiðslur til annarra í þeim tilfellum þegar greiðsluþegi hefur verið dæmdur til fangelsisvistar eða á annan hátt úrskurðaður til vistunar á stofnun. Hér er aftur á móti um að ræða heimild til að greiða bætur, eða hluta þeirra, öðrum en greiðsluþega eða framfæranda, t.d. ef um er að ræða lögræðissviptan aðila eða einstakling sem á rétt á lífeyrisgreiðslum en hafnar slíkum bótum eða nýtir þær ekki sér eða fjölskyldu sinni til framfærslu.

Um 73. gr.

    1. mgr. er byggð á 49. gr. núgildandi laga um almannatryggingar en hér er lagt til að orðunum „eða staðfestri samvist“ verði bætt við ákvæðið. Er það gert í því skyni að taka af allan vafa um að einstaklingar í staðfestri samvist, sem stofnað var til samkvæmt lögum nr. 87/1996, um staðfesta samvist, og ekki hefur verið slitið eða viðurkennd sem hjúskapur, sbr. 5. gr. laga nr. 65/2010, um breytingu á hjúskaparlögum og fleiri lögum og um brottfall laga um staðfesta samvist (ein hjúskaparlög), hafi sömu réttindi og beri sömu skyldur og hjón samkvæmt lögum þessum. Með lögum nr. 65/2010 voru lög nr. 87/1996, um staðfesta samvist, felld úr gildi en staðfest samvist, sem stofnað var til samkvæmt lögum nr. 87/1996, hefur samkvæmt lögunum sömu réttaráhrif og hjúskapur og einstaklingum sem eru í staðfestri samvist er heimilt að fá samvist sína viðurkennda sem hjúskap eða að stofna til hjúskapar. Þá er lagt til að bætt verði við nýjum málslið sem varðar fjármagnstekjur sambýlisfólks og vísast til athugasemda við 11. gr.
    Í 2. mgr. er lagt til að sameiginlegt lögheimili eða sambúð eftir öðrum ótvíræðum gögnum og sem varað hefur lengur en eitt ár, skuli lagt að jöfnu við skráningu sambúðar í þjóðskrá. Með 37. gr. laga nr. 65/2010 var 49. gr. laga um almannatryggingar breytt. Við þær breytingar voru 2. og 3. mgr. 49. gr. laganna felldar brott en sú síðarnefnda, sem kveður á um að sameiginlegt lögheimili eða sambúð eftir öðrum ótvíræðum gögnum og sem varað hefur lengur en eitt ár, skuli lagt að jöfnu við skráningu sambúðar í þjóðskrá, felld brott fyrir mistök. Því er hér lagt til að ákvæðið verði aftur sett inn í lögin sem 2. mgr. 73. gr.

Um 74. gr.

    Ákvæði 1. mgr. er efnislega samhljóða 5. og 9. mgr. 16. gr. gildandi laga. Þar er kveðið á um að Tryggingastofnun skuli áætla væntanlegar tekjur umsækjanda eða bótaþega og að þær tekjuáætlanir byggist á upplýsingum frá þeim aðilum sem taldir eru upp í 92. gr.
    2. mgr. er samhljóða 1. málsl. 9. mgr. 16. gr. gildandi laga.
    Í 3. mgr. er lagt til að sú regla gildi áfram að bætur skuli eingöngu reiknast á grundvelli þeirra tekna sem aflað er frá þeim tíma sem bótaréttur hófst og er nú einnig sérstaklega tekið fram að það eigi við um hvern bótaflokk fyrir sig. Er það til að taka af vafa um að tekjur sem aflað er t.d. áður en taka lífeyris hefst skuli ekki hafa áhrif á útreikning bóta. Samsvarandi reglu er nú að finna í 4. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 598/2009, um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags, þar sem fram kemur að við útreikning bóta skuli eingöngu miða við þær tekjur sem áætlað er að aflað verði eftir að bótaréttur stofnast. Er það einnig í samræmi við 5. mgr. 16. gr. núgildandi laga þar sem fram kemur að ef um nýja umsókn um bætur er að ræða skuli bótaréttur reiknaður út frá þeim tekjum umsækjanda og eftir atvikum maka hans sem aflað er frá þeim tíma sem bótaréttur hófst. Geti umsækjandi eða lífeyrisþegi þannig sýnt fram á hvaða tekjur hann hafði fyrir og eftir upphaf lífeyrisgreiðslna er rétt að miða útreikning bótanna við þær upplýsingar en að öðrum kosti sé miðað við upplýsingar úr staðgreiðsluskrá skattyfirvalda. Ef um er að ræða tekjur sem ekki eru staðgreiðsluskyldar, svo sem fjármagnstekjur, hafa þær tekjur áhrif á endurreikning í hlutfalli við fjölda þeirra mánaða sem réttur til bóta var fyrir hendi í, eins og gert er ráð fyrir í 7. gr. reglugerðarinnar.

Um 75. gr.

    1. mgr. ákvæðisins er efnislega samhljóða 6. mgr. 16. gr. núgildandi laga. Hér er lagt til að í stað þess að Tryggingastofnun hafi eftirlit með því að áætlaðar tekjur séu í samræmi við upplýsingar sem stofnunin aflar úr staðgreiðsluskrá skattyfirvalda eða frá öðrum aðilum samkvæmt lögunum, skuli stofnunin gæta þess að tekjuáætlun sé í samræmi við nýjustu upplýsingar sem stofnunin aflar reglubundið úr staðgreiðsluskrá skattyfirvalda eða frá öðrum aðilum samkvæmt frumvarpinu.
    Í 2. og 3. mgr. er kveðið á um framkvæmd Tryggingastofnunar ef nýjar upplýsingar sem leiða til breytinga á tekjuáætlun koma fram og breytingin hefur áhrif á rétt til bóta eða fjárhæð greiðslna. Er stofnuninni þá heimilt að breyta útreikningi bóta frá og með næsta mánuði á eftir til samræmis við hinar nýju upplýsingar, enda séu þær ekki bersýnilega í ósamræmi við þær upplýsingar sem fyrir liggja t.d. frá skattyfirvöldum. Sams konar reglur koma nú fram í 1. og 2. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 598/2009, um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags. Er orðalag þó einfaldað og í samræmi við framkvæmd stofnunarinnar.

Um 76. gr.

    Ákvæði 1. mgr. er efnislega samhljóða 7. mgr. 16. gr. núgildandi laga.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að við endurreikning skuli leggja til grundvallar þær aðstæður bótaþega á hverjum tíma sem geta haft áhrif á greiðslurétt. Er samsvarandi ákvæði nú að finna í 2. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 598/2009, um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags, en hér er lagt til að ákvæðið verði fært í lög.
    3. mgr. er samhljóða 8. mgr. 16. gr. gildandi laga.
    Í 4. mgr. er áréttað að endurreikningur bóta skuli ekki ná lengra aftur í tímann en gildir almennt um greiðslur bóta.

Um 77. gr.

    Ákvæðið byggist á 4. mgr. 55. gr. núgildandi laga. Þó er sú breyting lögð til að í þeim tilvikum þar sem bótaþegi er látinn skuli greiða dánarbúi hans vexti á þá bótafjárhæð sem vangreidd var, en samkvæmt núgildandi lögum er ekki heimilt að greiða dánarbúum ársvexti á vangreiddar bótafjárhæðir. Með vangreiðslu bóta er einnig átt við þau tilvik þegar einstaklingi hefur verið synjað um greiðslur bóta en síðar kemur í ljós að hann hefði átt tilkall til þeirra. Sama á við þegar úrskurðarnefnd almannatrygginga úrskurðar um vangreiðslur. Þá er bætt við ákvæðið að hafi greiðsluþegi eða dánarbú hans áður fengið ofgreiddar bætur og ekki endurgreitt Tryggingastofnun að fullu sé heimilt að draga fjárhæð ofgreiðslunnar eða eftirstöðva hennar frá vangreiðslunni. Er það í samræmi við 3. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags og framkvæmd Tryggingastofnunar ríkisins.
    Í 2. mgr. er lögð til breyting varðandi útreikning vaxta og er það til samræmis við lög um atvinnuleysistryggingar. Í stað þess að vextir séu ákveðnir 5,5% er lagt til að þeir skuli vera jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður og birtir á hverjum tíma skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.
    Í 3. mgr. er lagt til að sú regla gildi áfram að það teljist ekki vera vangreiðsla hafi einstaklingur ekki sótt um bætur eða veitt nauðsynlegar upplýsingar líkt og áskilið er samkvæmt lögunum.

Um 78. gr.

    Í 1. mgr. er lagt til að kveðið verði á um verkferli sem fara skuli eftir ef í ljós kemur að bótaþegi virðist hafa fengið ofgreitt. Í slíkum tilfellum er afar mikilvægt að þess sé gætt að bótaþega sé tilkynnt skriflega um hina ætluðu ofgreiðslu og honum gefinn kostur á að andmæla. Tryggingastofnun skal gera tillögu um fyrirkomulag endurgreiðslu.
    Í 2. mgr. er skýrt kveðið á um að hafi bótaþegi fengið hærri greiðslur en hann átti rétt á beri honum eða dánarbúi hans að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var. Tryggingastofnun krefur nær undantekningarlaust um endurgreiðslu ofgreiddra bóta, en undanþágur eru þó heimilaðar, sbr. 80. gr. frumvarpsins. Aftur á móti er ekki skýrt kveðið á um þetta í núgildandi lögum en nauðsynlegt þykir að gera það, sbr. t.d. 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar. Þá er lögfest sú meginregla að ofgreiddar bætur skuli að jafnaði endurgreiða innan 12 mánaða frá því að krafa stofnast. Þó ber að hafa í huga við innheimtu ofgreiddra bóta að ávallt er heimilt að semja við bótaþega eða dánarbú hans um tilhögun endurgreiðslu, eins og kveðið er á um í 2. málsl., sbr. nú 4. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 598/2009, um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags.
    Í 3. mgr. er lagt til að lögfest verði sú regla sem nú er í 12. gr. reglugerðar nr. 598/2009, um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags, um að berist ekki greiðsla og takist ekki að gera samning um fyrirkomulag endurgreiðslu skuli skorað á bótaþega eða dánarbú hans að endurgreiða ofgreiðsluna
    Í 4. mgr. er lagt til að lögfest verði ákvæði reglugerðar nr. 598/2009, um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags, um að ef sýnt þyki að bótaþegi muni ekki geta endurgreitt ofgreiðslu á 12 mánuðum skuli meta hvernig staðið verði að innheimtu og að við það mat verði höfð hliðsjón af heildartekjum bótaþega og eignastöðu og upplýsingum um aðrar aðstæður hans.
    5. mgr. er efnislega samhljóða 6. mgr. 55. gr. gildandi laga.
    Í 6. mgr. er áréttuð sú regla sem nú er í 1. mgr. 55. gr. laganna að um endurkröfurétt Tryggingastofnunar vegna ofgreiðslna fari að öðru leyti samkvæmt almennum reglum, en þar er m.a. átt við að kröfur þurfi að vera af sömu rót. Ofgreiðslur geta t.d. annars vegar myndast vegna tekjutengdra bóta og innheimtu ofgreiddra krafna vegna þeirra, en svo er í langflestum tilvikum. Hins vegar er um að ræða ofgreiðslur vegna ótekjutengdra bóta, en þar gilda sérreglur um skuldajöfnuð. Hér þarf því að greina vel á milli.

Um 79. gr.

    Í 1. mgr. kemur skýrt fram sú meginregla að ofgreiðsla skuli að jafnaði dregin frá bótum sem bótaþegi kann síðar að öðlast rétt til, þ.e. með skuldajöfnuði.
    Í 2.–4. mgr. er fjallað nánar um tilhögun endurgreiðslu ofgreiddra bóta. Er hér að mestu byggt á 2. og 3. mgr. 55. gr. núgildandi laga. Sú breyting er þó lögð til í 3. mgr. frumvarpsins að í stað þess að miða við að ekki sé heimilt að draga frá bótum meira en 20% af mánaðarlegum greiðslum til bótaþega verði miðað við 10% af heildartekjum hans. Þykir sú regla sanngjarnari auk þess sem hún leiðir til meiri skilvirkni í innheimtu. Heimild til að draga frá bótum allt að 20% af mánaðarlegum greiðslum, án þess að litið sé til heildartekna viðkomandi, hefur þau áhrif að í raun getur Tryggingastofnunin skuldajafnað mest hjá tekjulægstu lífeyrisþegunum. Tekjutengingar lífeyristrygginga hafa þau áhrif að því hærri tekjur sem lífeyrisþegi hefur annars staðar frá því lægri verða bætur hans frá Tryggingastofnun. Ef aðeins er litið til bótagreiðslnanna sjálfra hafa tekjur annars staðar frá þau áhrif að stofnunin getur skuldajafnað lægri fjárhæð en ef litið væri til heildartekna viðkomandi. Á sama hátt hefði sú regla sem lögð er til í þessu ákvæði þau áhrif að minna verður hægt að draga frá bótum þeirra sem ekki hafa aðrar tekjur sér til framfærslu eða aðeins mjög lágar tekjur. Til skýringar er kveðið á um að með mánaðarlegum heildartekjum sé átt við 1/ 12 af árstekjum eins og þær eru skilgreindar í 10. tölul. 2. gr.
    Í 4. mgr. er lögð til sú breyting að vextir á eftirstöðvar þeirra krafna sem ekki hefur náðst að innheimta á 12 mánuðum skuli vera jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður og birtir á hverjum tíma skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Er það í samræmi við 39. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, og kemur í stað fastra 5,5% vaxta samkvæmt gildandi lögum um almannatryggingar.

Um 80. gr.

    Í 1. mgr. ákvæðisins er kveðið á um undanþágur frá endurkröfu á ofgreiðslu og heimild fyrir Tryggingastofnun til að falla frá endurkröfu að fullu eða að hluta ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi. Svipaða heimild er nú einnig að finna í 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009, um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags, en hér er lagt til að það verði fært í lög.
    Samkvæmt 2. mgr. er heimilt að falla frá kröfu um vexti ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi eða ef samningur um endurgreiðslu ofgreiddra bóta liggur fyrir og viðkomandi stendur við greiðsluskyldu sína samkvæmt samningnum, sbr. 3. mgr. 55. gr. gildandi laga.
    Í 3. mgr. er lagt til að lögfest verði ákvæði um að ofgreiðslur sem nemi lægri fjárhæð en 1000 kr. á bótagreiðsluári skuli felldar niður. Er það m.a. vegna þess að það er varla talið svara kostnaði að innheimta svo lágar kröfur. Samsvarandi ákvæði er nú að finna í 1. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 598/2009, um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags, en þar kemur fram að svo lágar kröfur skuli ekki innheimtar.

Um 81. gr.

    Greinin er efnislega samhljóða 11. mgr. 16. gr. gildandi laga. Þá vísast til athugasemda við 7. mgr. 39. gr. þar sem gert er ráð fyrir að hafi lífeyrisþegi óskað eftir greiðsludreifingu skuli hann njóta hennar áfram þrátt fyrir að lífeyrisgreiðslur falli niður vegna dvalar á stofnun.

Um 82. gr.

    Í ákvæðinu er gert ráð fyrir heimild til þess að endurreikna dánarbú látins lífeyrisþega til bráðabirgða. Heimild þessi er í samræmi við framkvæmd Tryggingastofnunar og getur komið í veg fyrir óþægindi sem kunna að skapast vegna krafna í dánarbú lífeyrisþega löngu eftir andlát þeirra og jafnvel eftir að búið er að gera upp dánarbúið. Ekki er gert ráð fyrir að hugsanlegar kröfur vegna ofgreiðslna verði innheimtar eða vangreiðslur greiddar út í kjölfar bráðabirgðaútreikningsins heldur er tilgangurinn að koma í veg fyrir miklar of- eða vangreiðslur síðar þegar bætur eru endurreiknaðar og gerðar upp.

Um 83. gr.

    Gert er ráð fyrir að ráðherra sé heimilt að setja reglugerð um einstök atriði er varða framkvæmd þessa kafla, m.a. um ósamrýmanleg réttindi, útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta, innheimtu ofgreiddra bóta, undanþágur frá endurkröfum og afskriftir krafna.

Um VIII. kafla.

    Í þessum kafla er fjallað um málsmeðferð og stjórnsýslureglur. M.a. er þar kveðið á um meðferð umsókna, greiðslufyrirkomulag, helstu reglur stjórnsýslulaga, svo sem leiðbeiningar- og rannsóknarskyldu, upplýsingaskyldu, eftirlitsheimildir Tryggingastofnunar, þagnarskyldu, meðferð persónuupplýsinga og efnisreglur er varða stjórnsýslukærur. Aftur á móti er gert ráð fyrir að formreglur um úrskurðarnefnd almannatrygginga verði í IX. kafla þar sem kveðið verði á um stjórnsýslu.

Um 84. gr.

    Í 1. mgr. ákvæðisins er kveðið á um þá meginreglu að bætur og greiðslur samkvæmt lögunum séu ekki greiddar sjálfkrafa heldur þurfi að sækja um þær og veita nánar tilgreindar upplýsingar, sbr. einnig 91. og 92. gr. frumvarpsins. Ákvæðið er efnislega samhljóða 1. mgr. 52. gr. gildandi laga.
    Í 2. mgr. ákvæðisins er kveðið á um að umsóknir skuli vera á eyðublöðum Tryggingastofnunar eða sendar með rafrænum hætti til stofnunarinnar. Ákvæðið er því efnislega samhljóða 1. mgr. 52. gr. núgildandi laga en síðari málsliður ákvæðisins, þar sem mælt er fyrir um að umsókn skuli fylgja öll nauðsynleg gögn, er nýmæli til frekari áréttingar þess að aðeins er hægt að afgreiða umsóknir ef öll nauðsynleg gögn liggja fyrir.
    Í 3. mgr. ákvæðisins er kveðið á um að allar umsóknir skuli ákvarða svo fljótt sem kostur er. Ákvæðið er nú í 1. málsl. 1. mgr. 53. gr. núgildandi laga um almannatryggingar og er í samræmi við 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga um að ákvarðanir í málum skuli teknar svo fljótt sem unnt er.

Um 85. gr.

    Ákvæðið er nýmæli. Er því ætlað að leggja sérstaka áherslu á að þegar teknar eru stjórnvaldsákvarðanir samkvæmt lögum þessum beri að haga undirbúningi og málsmeðferð í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga nema umsækjanda eða bótaþega sé veittur betri réttur samkvæmt lögunum eða öðrum lögum sem við eiga.
    Í síðari málslið ákvæðisins er það áréttað að jafnræðisregla skuli gilda við ákvörðun sambærilegra mála, en það er í samræmi við 1. mgr. 11. gr. stjórnsýslulaga um að stjórnvöld skuli við úrlausn mála gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti.

Um 86. gr.

    Samkvæmt ákvæðinu er lagt til að kveðið verði á um upphaf og lok bótaréttar, en það er efnislega samhljóða 1. mgr. 53. gr. núgildandi laga. Orðalag þess hefur á hinn bóginn verið skýrt einkum til samræmis við þá tillögu sem lögð er fram í frumvarpi þessu um að bætur og greiðslur samkvæmt lögunum verði greiddar eftir á.

Um 87. gr.

    Hér er kveðið á um að bætur og aðrar greiðslur samkvæmt lögunum skuli greiddar eftir á, þ.e. fyrsta dag hvers mánaðar fyrir undanfarandi mánuð. Hér er um að ræða mikilvæga breytingu frá núverandi fyrirkomulagi, en skv. 54. gr. gildandi laga eru bætur og greiðslur samkvæmt lögunum greiddar fyrir fram fyrsta dag hvers mánaðar. Ástæður þess að breytingin er lögð til eru einkum þær að núgildandi kerfi fylgja ýmsir vankantar sem m.a. geta leitt til ofgreiðslna bóta. Með því að greiða bætur eftir á eru meiri líkur á að Tryggingastofnun hafi undir höndum öll nauðsynleg gögn til að geta tekið ákvarðanir um bótarétt og fjárhæðir bóta og til að stöðva greiðslur bóta tímanlega þegar skilyrði þeirra eru ekki lengur uppfyllt. Þá er mikilvægt að nánast öll greiðslukerfi gera ráð fyrir að bætur séu greiddar eftir á, m.a. hjá flestum lífeyrissjóðum, og því má gera ráð fyrir að því fylgi aukið hagræði fyrir lífeyrisþega að greiðslur frá lífeyrissjóðum og bætur almannatrygginga berist á sama tíma fyrir sama tímabil. Þá er það almenn regla í þjóðfélaginu í dag að laun eru greidd eftir á. Í ákvæði til bráðabirgða er gert ráð fyrir því að þeir sem fá greiðslur frá Tryggingastofnun við gildistöku laga þessara fái áfram greiddar bætur fyrir fram en að þeir geti þó óskað eftir því að fá greiddar bætur eftir á fyrsta dag hvers mánaðar fyrir undanfarandi mánuð í samræmi við þetta ákvæði.
    2. mgr. er samhljóða 2. málsl. 1. mgr. 54. gr. gildandi laga.
    3. mgr. er byggð á 2. mgr. 53. gr. gildandi laga. Lagt er til að metið verði hverju sinni hvort heimildinni verði beitt og að beiting hennar takmarkist við þau tilvik þegar sérstaklega stendur á. Þó er gert ráð fyrir að heimildinni verði ekki beitt ef tafir verða raktar til umsækjanda sjálfs og atvik eru að öllu leyti ljós. Er það talið sanngjarnt að umsækjandi bíði ekki tjón af því ef afgreiðsla mála tefst vegna atvika sem ekki verða raktar til hans. Einnig er mikilvægt að upplýsingagjöf Tryggingastofnunar sé fullnægjandi til að koma í veg fyrir að fólk uppgötvi síðar að það hafi átt rétt til greiðslna frá stofnuninni og þurfi að sækja um bætur aftur í tímann. Þá hafa orðin „aðrar en slysalífeyrir“ verið felld brott þar sem gert er ráð fyrir að sett verði sérstök lög um slysatryggingar almannatrygginga.

Um 88. gr.

    Ákvæðið er sambærilegt 1. málsl. 9. mgr. 16. gr. gildandi laga en gert er ráð fyrir að umsækjandi sé upplýstur um ákvörðun og forsendur hennar og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum áður en endanleg ákvörðun um rétt til bóta og fjárhæð þeirra er tekin.

Um 89. gr.

    Í ákvæðinu er kveðið á um leiðbeiningarskyldu Tryggingastofnunar. 1. málsl. ákvæðisins er efnislega samhljóða 1. og 2. málsl. 4. mgr. 52. gr. núgildandi laga en hér er þó lagt til að orðin „til hlítar“ falli brott enda er stofnuninni eftir sem áður skylt að kynna sér aðstæður umsækjenda og greiðsluþega eins og kostur er. Þá er lagt til að leiðbeiningarskylda stofnunarinnar verði rýmkuð á þann hátt að nú sé stofnuninni ekki eingöngu skylt að gera umsækjanda og bótaþega grein fyrir rétti þeirra samkvæmt lögum um almannatryggingar heldur einnig öllum öðrum lögum sem stofnunin starfar eftir, t.d. barnalögum.
    2. og 3. málsl. ákvæðisins eru nýmæli. Í 2. málsl. er kveðið á um að stofnuninni sé skylt að skoða stöðu og réttindi umsækjanda eða bótaþega í heild. Er þetta m.a. gert til að koma í veg fyrir að umsækjandi eða bótaþegi fari á mis við réttindi sem hann gæti átt tilkall til. Þá er kveðið á um að stofnunin skuli leiðbeina umsækjanda um réttarstöðu hans, þau gögn sem þurfa að fylgja umsókn sem og framhald málsins.
    2. mgr. er einnig nýmæli en þar er kveðið á um að berist erindi, sem ekki varðar starfssvið Tryggingastofnunar, skuli það framsent á réttan stað svo fljótt sem unnt er og viðkomandi leiðbeint eftir því sem unnt er. Slík leiðbeining getur m.a. falið í sér ráðgjöf um hvert umsækjandi eða annar aðili geti leitað með erindi sitt, en getur að sjálfsögðu ekki falið í sér ráðgjöf varðandi réttindi sem heyra undir önnur stjórnvöld eða aðrar stofnanir. Er það talið vera í samræmi við 7. gr. stjórnsýslulaga um að stjórnvald skuli veita þeim sem til þess leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál sem snerta starfssvið þess.

Um 90. gr.

    Ákvæðið er nýmæli en í því er kveðið á um rannsóknarskyldu Tryggingastofnunar áður en ákvörðun um bótarétt er tekin. Ákvæðið er í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga.

Um 91. gr.

    Ákvæðið er efnislega samhljóða 1. málsl. 2. mgr. 52. gr. gildandi laga en hefur verið umorðað til þess að gera það skýrara. Þá er einnig lagt til að tekið verði upp í lögin að umsækjanda og bótaþega sé skylt að taka þátt í meðferð máls til þess leggja áherslu á mikilvægi þess að þeim beri að taka virkan þátt í meðferð mála sinna hjá stofnuninni, einkum með því að veita þær upplýsingar sem taldar eru nauðsynlegar til þess að hægt sé að taka ákvarðanir um bótarétt, fjárhæð bóta, greiðslur og endurskoðun þeirra.
    Í 2. málsl. 2. mgr. 52. gr. gildandi laga er kveðið á um að maka umsækjanda og bótaþega sé skylt að veita upplýsingar um sig ef þær kunna að hafa áhrif á fjárhæð bóta. Hér er lagt til í 2. mgr. ákvæðisins að ákvæði um upplýsingaskyldu skuli gilda um maka bótaþega og umsækjanda eftir því sem við getur átt, en þörf fyrir slíkar upplýsingar frá maka hefur þó minnkað umtalsvert þar sem tekjur maka hafa nú mun minna vægi en áður.

Um 92. gr.

    Ákvæði 1. mgr. er byggt á 3. og 4. málsl. 2. mgr. 52. gr. gildandi laga. Hér er þeim hluta ákvæðisins á hinn bóginn skipt niður í þrjár málsgreinar til þess að gera ákvæðið skýrara og auðlesnara.
    Fyrri málsliður 2. mgr. er efnislega samhljóða 5. málsl. 2. mgr. 52. gr. gildandi laga. Í síðari málslið ákvæðisins er gert ráð fyrir að upplýsingaskyldan gildi einnig um tekjur sambýlisfólks ef skilyrði í 3. mgr. 62. gr. laga um tekjuskatt fyrir samsköttun eru uppfyllt. Að öðrum kosti á upplýsingaskylda um tekjur sambýlisaðila ekki við enda ekki gert ráð fyrir að tekjur sambýlisaðila hafi nein áhrif á útreikning bóta þegar svo háttar til.
    3. mgr. er samhljóða 7. málsl. 2. mgr. 52. gr. gildandi laga. Ákvæðið er í samræmi við framkvæmd Tryggingastofnunar, en stofnuninni er nauðsynlegt, eðli málsins samkvæmt, að hafa tiltækar upplýsingar um tekjur umsækjenda og bótaþega þegar um er að ræða tekjutengdar bætur. Í upphafi þarf að afla samþykkis umsækjanda og er það gert á umsóknareyðublaði þar sem umsækjandi heimilar stofnuninni að afla upplýsinga um tekjur sínar. Hjá þeim sem þegar þiggja tekjutengdar bætur frá stofnuninni liggur samþykkið fyrir þannig að ekki þarf að leita þess nema einu sinni. Stofnunin fær upplýsingar yfirleitt sendar með rafrænum hætti þótt upplýsingar berist einnig t.d. á pappír frá umsækjendum.

Um 93. gr.

    Ákvæðið er efnislega samhljóða 3. mgr. 52. gr. gildandi laga en hér er einnig lagt til að Tryggingastofnun skuli gera umsækjanda eða bótaþega grein fyrir afleiðingum þess ef áskorun um að veita upplýsingarnar er virt að vettugi. Er talið mikilvægt að stofnunin geri viðkomandi skýra grein fyrir afleiðingum þessa, þ.e. að viðkomandi firri sig tímabundið rétti til bóta.

Um 94. gr.

    Ákvæðið er efnislega samhljóða 5. mgr. 52. gr. gildandi laga en hér er lagt til að vísað verði í lög um sjúkraskrár. Hvað meðferð persónuupplýsinga varðar þá vísast til þess sem segir í 99. gr.

Um 95. gr.

    1. mgr. er nýmæli en þar er gert ráð fyrir að þær stofnanir og fyrirtæki sem búa yfir upplýsingum, sem geta haft áhrif á rétt til greiðslna eða fjárhæðir þeirra samkvæmt lögum þessum, skuli láta Tryggingastofnun í té upplýsingar sem nauðsynlegar eru við framkvæmd laganna. Stofnuninni er nauðsynlegt að geta aflað upplýsinga frá þeim aðilum sem taldir eru upp í greininni til að geta sinnt hlutverki sínu, en eðli máls samkvæmt eru margir aðilar sem búa yfir slíkum upplýsingum. Í 92. gr. er sérstaklega kveðið á um öflun upplýsinga um tekjur en það eru ýmsar aðrar upplýsingar sem geta verið nauðsynlegar, t.d. vegna mats á framkvæmd við innheimtu ofgreiddra bóta þar sem m.a. er tekið mið af eignum viðkomandi. Heimildir þykja of takmarkaðar í gildandi lögum og er því lagt til að þær verði rýmkaðar og er í því sambandi horft til 4. mgr. 9. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, og 55. gr. laga nr. 96/2002, um útlendinga. Þá hafa aðrar þjóðir, t.d. Norðurlöndin, ítarlegri ákvæði og heimildir hvað varðar aðhald og eftirlit sem talið er geta aukið tiltrú almennings á almannatryggingakerfinu og fela í sér betri nýtingu á almannafé. Krafa er um að hið opinbera verji fjármagni sínu í samræmi við lög og reglur og til að svo megi vera er talið mikilvægt að opinberar stofnanir, þar á meðal Tryggingastofnun, hafi nægjanlegar heimildir til upplýsingaöflunar. Tekið er skýrt fram að gert er ráð fyrir að upplýsingarnar séu nægjanlegar og viðeigandi og ekki umfram það sem nauðsynlegt er til að unnt sé að framfylgja ákvæðum laganna. Einnig er mikilvægt að hafa í huga þagnarskyldu starfsmanna stofnunarinnar og áréttað að við meðferð persónuupplýsinga sem aflað er skuli stofnunin gæta þess að uppfyllt séu skilyrði laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.
    2. mgr. er efnislega samhljóða 4. málsl. 2. mgr. 52. gr. gildandi laga en þó er gert ráð fyrir þeirri breytingu að stofnanirnar skuli skiptast á þeim upplýsingum sem taldar eru nauðsynlegar við framkvæmd laganna.

Um 96. gr.

    Ákvæðið er nýmæli og á sér fyrirmynd í ákvæði 94. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, en nauðsynlegt þykir vegna eftirlitshlutverks Tryggingastofnunar að stofnunin fái sem greiðastan aðgang að þeim gögnum og upplýsingum er varða bætur og greiðslur og þá ókeypis og í því formi sem hún óskar eftir. Er ákvæðinu fyrst og fremst ætlað að taka til bótaþega og umsækjanda en einnig til opinberra aðila og heilbrigðisstarfsmanna sem veitt geta upplýsingarnar. Þá er það tekið fram sérstaklega að þetta breyti ekki 20. gr. laga um þjóðskrá og almannaskráningu, nr. 54/1962, sem kveður á um að Tryggingastofnun ríkisins standi straum af árlegum kostnaði við rekstur Þjóðskrár Íslands að 1/ 10hluta. Ekki er heldur gert ráð fyrir að breyting verði á núverandi framkvæmd að því er varðar læknisvottorð t.d. í tengslum við mat á örorku.

Um 97. gr.

    Í greininni er kveðið á um eftirlitshlutverk Tryggingastofnunar. Stofnunin hefur þegar eflt eftirlit til muna en rétt þykir að skerpa á því í lögum að stofnunin hafi eftirlitshlutverki að gegna. Ekki er um nýtt hlutverk að ræða heldur lögfesting á því sem eðlilegt getur talist, þ.e. að stofnunin skuli á hverjum tíma sannreyna réttmæti bóta og greiðslna, en stofnunin ráðstafar árlega stórum hluta fjárlaga. Eðlilegt verður að teljast að hún geti sannreynt áreiðanleika gagna í þágu eftirlits.
    1. mgr. er nýmæli þar sem fjallað er um reglubundið eftirlit af hálfu Tryggingastofnunar og lagt til að kveðið verði á um skyldu Tryggingastofnunar til að sannreyna reglubundið réttmæti bóta og greiðslna og upplýsinga sem ákvörðun um réttindi byggjast á. Segir jafnframt að stofnuninni sé heimilt í þágu eftirlits að óska eftir öllum gögnum sem talin eru nauðsynleg til að sannreyna réttmæti ákvarðana og greiðslna. Hvað varðar upplýsingar sem ákvörðun um réttindi byggist á, má hér nefna t.d. búsetu, en Tryggingastofnun greiðir bætur á grundvelli lögheimilisskráningar og því er afar mikilvægt að stofnunin hafi réttar upplýsingar um búsetu til þess að geta greitt réttar bætur. Mikilvægt er að stofnunin geti sannreynt að upplýsingar, m.a. um búsetu bótaþega/umsækjanda eða þeirra sem safna réttindum til töku lífeyris á grundvelli búsetu, séu réttar. Er þá bæði átt við búsetu á Íslandi og í öðrum löndum.
    Í 2. mgr. er fjallað um endurskoðun á grundvelli bótaréttar og samræmingu bóta við áorðnar breytingar. 1. málsl. 2. mgr. er samhljóða 3. mgr. 53. gr. gildandi laga. Því er bætt við ákvæðið að heimilt sé, þegar rökstuddur grunur leiki á því að bótaréttur sé ekki fyrir hendi, að fresta greiðslum tímabundið meðan mál er rannsakað frekar. Í þessum tilvikum ber að flýta málsmeðferð svo sem kostur er og ávallt skal gætt meginreglna stjórnsýslulaga, svo sem um meðalhóf, sbr. einnig 93. gr., þar sem m.a. er kveðið á um tafarlausa tilkynningu til bótaþega og áskorun um að bregðast við eftir atvikum. Þá er bætt við ákvæði um að komi í ljós að bótaréttur sé ekki fyrir hendi skuli stöðva greiðslur og að um ofgreiðslur og vangreiðslur fari skv. 77.–80. gr.
    Ákvæði 3. mgr. er nýmæli. Þar er fjallað um þau tilvik þegar grunur leikur á að bætur séu greiddar á grundvelli rangra eða villandi upplýsinga. Er átt við allar þær aðstæður sem haft geta áhrif á rétt til bóta eða fjárhæðir bóta, t.d. hjúskaparstöðu, búsetu eða búsetutíma, tekjur o.fl. Kveðið er á um heimild Tryggingastofnunar til að afla upplýsinga ef grunur leikur á að verið sé að greiða út bætur á grundvelli rangra upplýsinga. Í því skyni getur reynst nauðsynlegt að afla upplýsinga frá öðrum aðilum um aðstæður bótaþega, en hér er sérstaklega átt við aðra aðila en þá sem skyldugir eru til að veita upplýsingar.
    Í 4. mgr. er fjallað um þau tilvik þegar greiðslur hafa átt sér stað vegna vísvitandi rangra eða ófullnægjandi upplýsingagjafar eða upplýsingaskorts. Í þeim tilvikum er lagt til að hin ofgreidda fjárhæð skuli endurgreidd að viðbættu 15% álagi. Kemur það í stað 5. mgr. 55. gr. gildandi laga þar sem kveðið er á um greiðslu dráttarvaxta ef um sviksamlegt atferli er að ræða og er sú breyting í samræmi við 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, og 17. gr. laga nr. 138/1997, um húsaleigubætur. Hér er þó aðeins gert ráð fyrir álagi á hina ofgreiddu fjárhæð ef um sviksamlegt atferli móttakanda greiðslnanna er að ræða. Tryggingastofnun er eftir sem áður heimilt að kæra mál til lögreglu.

Um 98. gr.

    Í 1. mgr. er kveðið á um þagnarskyldu starfsfólks Tryggingastofnunar og þjónustustöðva hennar. Greinin er efnislega samhljóða 4. mgr. 52. gr. núgildandi laga en er strangar orðuð. Tryggingastofnun fer með mjög viðkvæmar upplýsingar og því mikilvægt að starfsfólk sé vel upplýst um þagnarskyldu sína og þá ábyrgð sem því fylgir að skýra frá upplýsingum sem það fær vitneskju um í starfi sínu og leynt eiga að fara.
    2. mgr. er nýmæli þar sem fram kemur að þagnarskyldan eigi einnig við um stjórn stofnunarinnar og þá sem sinna verkefnum fyrir stofnunina. Hér geta t.d. átt í hlut verktakar sem vinna að upplýsingatækniverkefnum fyrir stofnunina.

Um 99. gr.

    Ákvæðið er efnislega samhljóða síðasta málslið 5. mgr. 52. gr. gildandi laga.

Um 100. gr.

    Greinin er efnislega samhljóða 1. mgr. 7. gr. gildandi laga.

Um 101. gr.

    Greinin er efnislega samhljóða 1. mgr. 8. gr. gildandi laga.

Um 102. gr.

    Greinin er efnislega samhljóða 2. mgr. 8. gr. gildandi laga.

Um 103. gr.

    Greinin er efnislega samhljóða 6., 8. og 9. mgr. 8. gr. gildandi laga.

Um 104. gr.

    Greinin er samhljóða 7. mgr. 8. gr. gildandi laga.

Um 105. gr.

    1. mgr. er samhljóða 1. mgr. 9. gr. gildandi laga en ástæða þykir til að bæta því við ákvæðið að úrskurðir nefndarinnar séu endanlegir á stjórnsýslustigi og þeim verði ekki skotið til annarra stjórnvalda.
    2. mgr. er samhljóða 2. mgr. 9. gr. gildandi laga.
    Í 3. mgr. er lagt til að í stað þess að takmarka heimild nefndarinnar til að fresta réttaráhrifum úrskurðar við að málsaðili hafi gert kröfu um það verði nefndinni heimilað að fresta réttaráhrifum úrskurðar ex officio.

Um 106. gr.

    Greinin er efnislega samhljóða 4. mgr. 9. gr. gildandi laga.

Um 107. gr.

    Gert er ráð fyrir að ráðherra sé heimilt að setja reglugerð um einstök atriði er varða framkvæmd þessa kafla, m.a. um umsóknir um bætur, greiðslufyrirkomulag bóta, upplýsingaskyldu og eftirlitsheimildir Tryggingastofnunar.

Um IX. kafla.

    Í þessum kafla er fjallað um stjórnsýslu. Þær meginbreytingar sem lagðar eru til eru að gert er ráð fyrir að Tryggingastofnun hafi þjónustustöðvar í stað umboðsskrifstofa og að ráðherra ákveði staðsetningu þeirra. Enn fremur að ráðherra geti ákveðið að sameina þjónustustöðvarnar við þjónustustöðvar annarra opinberra stofnana. Í frumvarpinu er gert er ráð fyrir að núgildandi fyrirkomulag umboðsskrifstofa hjá sýslumönnum á landsbyggðinni haldist þar til ráðherra ákveður endanlega hvernig fyrirkomulagi þjónustustöðva skuli háttað. Þá er Tryggingastofnun ríkisins einungis nefnd Tryggingastofnun í frumvarpi þessu.

Um 108. gr.

    Ákvæðið á sér fyrirmynd í núgildandi 1. mgr. 2. gr. laga um almannatryggingar. Lagt er til að fram komi í lögunum að ráðherra fari með yfirstjórn lífeyristrygginga en einnig með yfirstjórn annarra málefna sem kveðið er á um í lögunum, t.d. milligöngu meðlags hjá Tryggingastofnun. Jafnframt er lagt til að fram komi að ráðherra marki stefnu innan ramma laganna m.a. í þeim tilgangi að undirstrika heimildir ráðherra til stefnumótunar, stjórnunar og skipulagningar almenna lífeyristryggingakerfisins innan ramma laganna.

Um 109. gr.

    1. mgr. ákvæðisins er byggð á 1. og 2. mgr. 10. gr. núgildandi laga. Hér eru þær breytingar lagðar til að Tryggingastofnun skuli hafa þjónustustöðvar í stað umboðsskrifstofa og að ráðherra skuli ákveða staðsetningu þeirra, án þess að það sé bundið við staði utan Reykjavíkur. Er talið eðlilegt að það sé í höndum ráðherra að ákveða endanlega staðsetningu, en að afla skuli umsagnar forstjóra og stjórnar Tryggingastofnunar. Enn fremur er lagt til að ráðherra verði heimilt að sameina þjónustustöðvarnar við þjónustustöðvar annarra opinberra stofnana, einnig að fenginni umsögn forstjóra og stjórnar. Gert er ráð fyrir að núgildandi fyrirkomulag umboðsskrifstofa hjá sýslumönnum á landsbyggðinni haldist þar til ráðherra ákveður hvernig fyrirkomulagi þjónustustöðva skuli háttað.
    2. mgr. er ný en þar kemur fram að kostnaður af rekstri Tryggingastofnunar greiðist úr ríkissjóði samkvæmt fjárlögum hverju sinni. Er það í samræmi við gildandi framkvæmd.
    3. mgr. er samhljóða 1. mgr. 11. gr. gildandi laga.

Um 110. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að kveðið verði ítarlegar á um hlutverk Tryggingastofnunar en gert er í núgildandi lögum. Þó ákvæðið sé ekki tæmandi þykir rétt að tilgreina helstu verkefni stofnunarinnar í lögunum með áherslu á meginhlutverk Tryggingastofnunar, þ.e. framkvæmd lífeyristrygginga ríkisins. Jafnframt er lögð áhersla á að stofnunin skuli gæta þess að nýta rekstrarfé á sem árangursríkastan hátt.

Um 111. gr.

    1., 4. og 5. mgr. ákvæðisins eru samhljóða 3. gr. gildandi laga sem fjallar um stjórn Tryggingastofnunar.
    2. og 3. mgr. ákvæðisins eru nánast samhljóða 1. og 2. mgr. 4. gr. gildandi laga. Enn fremur er lagt til að formaður stjórnar skuli upplýsa ráðherra ef starfsemi, þjónusta eða rekstur stofnunarinnar er ekki í samræmi við lög eða stjórnvaldsfyrirmæli, en í gildandi lögum er einungis kveðið á um að upplýsa skuli ef þessi atriði eru ekki í samræmi við fjárlög. Er þetta gert til að taka af allan vafa um eftirlitsskyldu stjórnar og upplýsingaskyldu formanns gagnvart ráðherra.

Um 112. gr.

    1. mgr. ákvæðisins er byggð á 5. gr. og 1. mgr. 6. gr. gildandi laga um almannatryggingar en hér er lagt til að gerð verði krafa um að forstjóri Tryggingastofnunar hafi lokið námi á háskólastigi, hafi reynslu af rekstri og stjórnun sem nýtist í starfi og búi yfir þekkingu á sviði velferðarmála. Er talin rík ástæða til að gera miklar hæfniskröfur í tengslum við starf forstjóra Tryggingastofnunar og er í því sambandi m.a. litið til 1. mgr. 7. gr. laga nr. 112/2008, um sjúkratryggingar.
    2. mgr. er samhljóða 2. mgr. 6. gr. gildandi laga en með örlítið breyttu orðalagi. Gert er ráð fyrir að ráðherra setji forstjóra erindisbréf í hvert sinn er nýr forstjóri er skipaður, svo og hvenær sem talin er þörf á að breyta erindisbréfinu, t.d. þegar markmiðum er breytt eða ný verkefni koma til.
    3. mgr. er að mestu óbreytt en þar er lagt til að kveðið verði á um að forstjóri Tryggingastofnunar beri lagalega og rekstrarlega ábyrgð á stofnuninni. Einnig er lagt til að bætt verði við ákvæðið nýjum málslið þess efnis að forstjóri beri ábyrgð á starfsemi stofnunarinnar og er það m.a. í samræmi við 3. mgr. 7. gr. laga um sjúkratryggingar.

Um 113. gr.

    Er 1. mgr. efnislega samhljóða 2. mgr. 7. gr. gildandi laga en orðalagi þess ákvæðis er hér lítillega breytt.
    2. mgr. er samhljóða 3. mgr. 7. gr. gildandi laga.
    3. og 4. mgr. eru samhljóða 3. og 4. mgr. 8. gr. gildandi laga.
    Í 5. mgr. er kveðið á um að þagnarskylda nefndarmanna, starfsmanna og ráðgjafa nefndarinnar fari eftir 98. gr. en þar er að finna almennt þagnarskylduákvæði. Hér er því lagt til að sömu reglur gildi um þagnarskyldu þessara aðila og um starfsmenn Tryggingastofnunar, stjórn hennar, starfsfólk þjónustuskrifstofa hennar og allra annarra sem sinna verkefnum fyrir stofnunina. Í gildandi lögum um almannatryggingar eru tvenns konar ákvæði um þagnarskyldu; annars vegar um starfsfólk Tryggingastofnunar og umboðsskrifstofa hennar, sbr. 4. mgr. 52. gr. laganna, og hins vegar ákvæði um þagnarskyldu nefndarmanna, starfsmanna og ráðgjafa úrskurðarnefndar almannatrygginga, sbr. 5. mgr. 8. gr. Ákvæði 98. gr. er nánast samhljóða 5. mgr. 8. gr. gildandi laga en það ákvæði er öllu strangara en þagnarskylduákvæði 4. mgr. 52. gr. laganna. Nánar er fjallað um þagnarskylduna í athugasemdum um 98. gr. í frumvarpinu.
    6. mgr. er efnislega samhljóða 5. mgr. 9. gr. gildandi laga en hér er þó lagt til að í stað orðanna „Úrskurðirnir skulu birtir án nafna, kennitalna eða annarra persónugreinanlegra auðkenna“ komi orðin „Úrskurðirnir skulu birtir án persónugreinanlegra upplýsinga“ í 2. málsl. Enn fremur er lagt til að kveðið verði á um að nefndin birti úrskurði sína með aðgengilegum og skipulegum hætti en ekki eingöngu helstu úrskurði sína. Er það mat lagt í hendur nefndarinnar hvers konar skipulag skuli haft á birtingu úrskurða, t.d. eftir fordæmisgildi, mikilvægi eða öðru.
    7. mgr. er samhljóða 6. mgr. 9. gr. gildandi laga og þarfnast því ekki skýringa.

Um 114. gr.

    Gert er ráð fyrir að ráðherra sé heimilt að setja reglugerð um einstök atriði er varða framkvæmd þessa kafla, m.a. um framkvæmd almannatrygginga, starfsemi Tryggingastofnunar og hlutverk hennar.

Um X. kafla.

    Í kaflanum er kveðið á um ákvörðun fjárhæða, fjármögnun, milliríkjasamninga, útflutning og skörun bóta, innleiðingu EES-gerða, almenna reglugerðarheimild og gildistöku laganna.

Um 115. gr.

    Lagt er til að sett verði nýtt ákvæði um ákvörðun fjárhæða samkvæmt lögunum sem komi í stað 69. gr. núgildandi laga um almannatryggingar.
    1. málsl. 1. mgr. er efnislega óbreyttur frá gildandi lögum. Í 2.–4. málsl. er tekið mið af 33. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, og 15. tölul. ákvæðis til bráðabirgða við gildandi lög um almannatryggingar. Er lagt til að bætur, greiðslur og aðrar fjárhæðir samkvæmt lögunum komi til endurskoðunar við afgreiðslu fjárlaga ár hvert og skuli við þá endurskoðun taka mið af þróun launa, verðlags og efnahagsmála. Er talið eðlilegt að Alþingi ákveði breytingar á fjárhæðum lífeyristrygginga og öðrum greiðslum samkvæmt lögunum. Jafnframt er lagt til að ráðherra sé heimilt, að fengnu samþykki ríkisstjórnar, að breyta fjárhæðum með reglugerð ef verulegar breytingar verða á launaþróun og þjóðhagsforsendum frá afgreiðslu fjárlaga.
    Í 2. mgr. er lagt til að lögfest verði heimild ráðherra til að ákveða í reglugerð, að fengnu samþykki ríkisstjórnarinnar, að greiddar séu sérstakar orlofs- og desemberuppbætur til lífeyrisþega að uppfylltum nánar tilteknum skilyrðum. Slíkar uppbætur hafa lengi verið greiddar til lífeyrisþega með stoð í reglugerðum, en rétt þykir í þessari grein að lögfesta heimild ráðherra til setningar slíkra reglugerða.

Um 116. gr.

    Ákvæðið er efnislega samhljóða 24.–26. gr. gildandi laga um almannatryggingar en hér er lagt til að þau verði sameinuð í eitt ákvæði. Í III. kafla gildandi laga, sem fjallar eingöngu um lífeyristryggingar, er kveðið á um að árleg heildarútgjöld lífeyristrygginga skuli vera í samræmi við ákvörðun Alþingis samkvæmt fjárlögum og fjáraukalögum hvers árs, en hér er lagt til að í stað lífeyristrygginga verði kveðið á um að allar greiðslur samkvæmt lögunum, verði frumvarp þetta að lögum, skuli vera í samræmi við fjárlög og fjáraukalög, enda ekki einvörðungu um greiðslur lífeyristrygginga að ræða.
    Einnig er lagt til að bætt verði við málsgrein um fjármögnun bóta skv. VI. kafla frumvarps þessa sem nú eru í lögum nr. 99/2007, um félagslega aðstoð, en þær greiðslur eru að fullu fjármagnaðar af ríkissjóði og er málsgreinin efnislega samhljóða 4. mgr. 1. gr. laganna. Þá er lagt til í 5. mgr. að framlag ríkissjóðs til allra greiðslna samkvæmt lögunum skuli greitt Tryggingastofnun með jöfnum greiðslum í byrjun hvers mánaðar sem er í samræmi við 26. gr. gildandi laga.

Um 117. gr.

    Greinin er efnislega samhljóða 57. gr. gildandi laga en í stað banns við löghaldi er lagt til að komi bann við kyrrsetningu bótakrafna. Einnig er lagt til að orðin „annarra en iðgjalda samkvæmt lögum þessum“ falli brott enda ekki um nein iðgjöld að ræða í lífeyristryggingum almannatrygginga.

Um 118. gr.

    Ákvæðið er að mestu efnislega samhljóða 68. gr. gildandi laga.
    Í gagnkvæmum samningum um almannatryggingar er að finna sérstök ákvæði um það hvaða löggjöf skuli gilda og hvað teljist búseta samkvæmt samningunum. Helstu gildandi milliríkjasamningar sem taka til almannatrygginga eru samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993, með síðari breytingum og Norðurlandasamningurinn um almannatryggingar, sbr. lög nr. 66/2004 um lögfestingu hans. Þegar einstaklingur fellur undir slíkan samning gilda ákvæði hans um það hvaða löggjöf skuli beitt.
    Í 1. mgr. er orðalaginu breytt þannig að í stað orðalags núgildandi 1. mgr. 68. gr. „gagnkvæmra samninga til hlunninda sem almannatryggingar veita“ er kveðið á um gagnkvæm réttindi og skyldur samkvæmt lögunum. Orðalag í gildandi lögum þykir gamaldags og nýtt orðalag lýsir betur efnislegu innihaldi tvíhliða- eða fjölþjóðlegra samninga á sviði almannatrygginga, sem bæði geta kveðið á um réttindi og skyldur. Þá er í 2. málsl. 1. gr. tekið fram að með samningum megi veita undanþágur frá ákvæðum laganna eða takmarka beitingu þeirra sem er efnislega samhljóða 3. mgr. 10. gr. laga nr. 112/2008, um sjúkratryggingar, og á þetta orðalag sér einnig fyrirmynd í norsku lögunum.
    Í 2. mgr. er lögð til sú breyting að í 2. málsl. 1. mgr. 68. gr. gildandi laga falli brott orðin „hvort sem um er að ræða íslenska þegna eða þegna annarra samningsríkja“, en ekki þykir rétt að binda lengur í lög þá takmörkun að gagnkvæmir samningar um almannatryggingar við önnur ríki geti eingöngu tekið til ríkisborgara samningsríkjanna. Tilvísun í jafnræðisreglur, reglur um skörun bóta og lagaskil er bætt við upptalningu á hugsanlegu efni samninga sem er í samræmi við efni tvíhliða- eða fjölþjóðlegra samninga á sviði almannatrygginga. Þá er lagt til að felld verði brott tilvísun í 17. og 58. gr. gildandi laga og tekin út orðin „samkvæmt almannatryggingalögum“, en réttur til bótagreiðslna í öðru samningsríki er eitt þeirra atriða sem þegar eru talin upp í 1. málsl. 2. mgr. og leiðir það af efni samninganna til hvaða gagnkvæmu bótagreiðslna þeir taka.
    Ákvæði 3. mgr. sem er ný málsgrein, á sér fyrirmynd í 63. gr. a laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, og 34. gr. laga nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof.

Um 119. gr.

    1. mgr. er efnislega samhljóða 1. mgr. 58. gr. gildandi laga en með breyttu orðalagi. Í ákvæðinu er kveðið á um heimild til að greiða bætur til einstaklinga sem búsettir eru erlendis í ríkjum sem samið hefur verið við. Í stað orðanna „sömu bætur og viðkomandi hefði átt rétt á hefði hann verið búsettur hér á landi“ er lagt til að komi „bætur í samræmi við nánari ákvæði samninganna“. Ástæður þess eru að tvíhliða- eða fjölþjóðasamningar um almannatryggingar geta verið misjafnir að efni til og þeir almannatryggingasamningar sem gerðir hafa verið taka ekki til greiðslna sem teljast eingöngu félagslegs eðlis og taka mið af efnahagslegum og félagslegum aðstæðum. En sú breyting er lögð til í frumvarpi þessu að ákvæði gildandi laga nr. 99/2007, um félagslega aðstoð, og laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, eru felld inn í ein heildarlög og því verður að breyta orðalagi greinarinnar.
    2. mgr. er efnislega samhljóða 3. mgr. 58. gr. gildandi laga og þarfnast ekki nánari skýringar. Þegar um samningsríki er að ræða er yfirleitt kveðið á um það í samningunum sjálfum hvort og í hvaða tilfellum einstaklingur geti fengið greitt samkvæmt löggjöf tveggja ríkja fyrir sama tímabil.

Um 120. gr.

    Greinin er efnislega samhljóða 1. málsl. 70. gr. gildandi laga.

Um 121. gr.

    Greinin er efnislega samhljóða 2. málsl. 70. gr. gildandi laga en orðalag hefur verið lagfært til samræmis við reglur um frágang lagafrumvarpa.

Um 122. gr.

    Lagt er til að lögin öðlist gildi 1. júlí 2013. Falli þá um leið úr gildi lög um almannatryggingar, nr. 100/2007, með síðari breytingum, og lög um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, með síðari breytingum.
    Í 2. mgr. er lagt til að tekið verði fram að reglugerðir, sem settar eru samkvæmt gildandi lögum, haldi gildi sínu við gildistöku nýrra laga, uns nýjar reglugerðir hafa verið settar á grundvelli ákvæða frumvarpsins. Er það og eðli máls samkvæmt háð því að ákvæði gildandi reglugerða hafi næga stoð í ákvæðum nýrra laga og séu í samræmi við efni þeirra.

Um 123. gr.

    Í greininni er kveðið á um nauðsynlegar breytingar á öðrum lögum verði frumvarp þetta að lögum.
     Um 1. tölul.
    Eins og fram kemur í athugasemdum um IV. kafla frumvarpsins er kveðið á um mörg þeirra atriða sem þar koma fram í V. kafla laga um málefni aldraðra, nr. 125/1999, sem fjallar um kostnað við öldrunarþjónustu og því er mikið um endurtekningar í gildandi lögum og hætta á misræmi. Er því lagt til að 19., 21.–24. gr. og 26. gr. laga um málefni aldraðra verði felldar brott úr lögunum og ákvæði þeirra færð í frumvarp þetta þannig að það skapist ákveðin heildarsýn hvað varðar kostnað við öldrunarþjónustu og það sem lýtur að greiðsluþátttöku heimilismanna og greiðslum til þeirra. Þá er enn fremur lagt til að ákvæði til bráðabirgða I–VI í lögunum falli brott.
     Um 2. tölul.
    Lagt er til að þessi heimild sem er að finna í 62. gr. gildandi laga um almannatryggingar og lýtur að stuðningi við atvinnuþátttöku einstaklinga með skerta starfsgetu flytjist yfir í lög um vinnumarkaðsaðgerðir, nr. 55/2006. Er talið að það samræmist betur markmiði þeirra laga um að veita einstaklingum viðeigandi aðstoð til að vera virkir þátttakendur á vinnumarkaði. Mun umsýsla málaflokksins því flytjast frá Tryggingastofnun til Vinnumálastofnunar við breytinguna.
     Um 3.–117. tölul.
    Hér er kveðið á um breytingar á ýmsum lögum og er eingöngu um að ræða breytingar sem leiðir af því að ný lög um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning koma í stað laga um almannatryggingar, nr. 100/2007, og laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, eftir því sem við á. Í frumvarpi til laga um slysatryggingar almannatrygginga eru lagðar til breytingar á öðrum lögum sem leiðir af því að lagt er til að IV. kafli gildandi almannatryggingalaga verði að sérlögum um slysatryggingar almannatrygginga.

Um ákvæði til bráðabirgða I.

    Ákvæðið er í samræmi við tillögu starfshóps um endurskoðun almannatryggingalaga í því skyni að koma í veg fyrir að þeir sem fá greiddan ellilífeyri við gildistöku laganna fái lægri greiðslur vegna þeirra breytinga sem frumvarpið felur í sér. Því er lagt til að á tímabilinu 1. júlí 2013 til 31. desember 2015 verði gerður samanburður á útreikningi ellilífeyris, tekjutryggingar og heimilisuppbótar fyrir 1. júlí 2013 og hins nýja ellilífeyris eftir 1. júlí 2013 og að lífeyrisþegum verði greitt samkvæmt þeim útreikningi sem leiðir til hærri bóta á tímabilinu.

Um ákvæði til bráðabirgða II.

    Til samræmis við ákvæði til bráðabirgða I er lagt til, vegna útreiknings á þátttöku heimilismanna í greiðslu dvalarkostnaðar skv. 37. gr. og ráðstöfunarfé skv. 41. gr. frumvarpsins, að gerður skuli samanburður á útreikningi samkvæmt fyrri reglum og samkvæmt reglum laganna á því tímabili sem um ræðir og að kostnaðarþátttaka heimilismanns og ráðstöfunarfé miðist við þær reglur sem eru hagstæðari fyrir hann. Er það einnig í samræmi við bráðabirgðaákvæði gildandi laga um málefni aldraðra, nr. 125/1999, og ekki gert ráð fyrir breytingum á því fyrirkomulagi sem felst í samanburði við eldri reglur til hagsbóta fyrir heimilismenn.

Um ákvæði til bráðabirgða III.

    Ákvæðið er lagt til í samræmi við tillögur starfshóps um endurskoðun almannatryggingalaga. Í tillögum starfshópsins er þó gert ráð fyrir gildistöku nýrra laga 1. janúar 2013. Þar sem nú er lagt til að frumvarpið öðlist gildi 1. júlí 2013 er gert ráð fyrir að fyrstu breytingar samkvæmt tillögunni taki gildi á þeim tíma. Þá er lagt til að lækkun framfærsluuppbótar vegna tekna fari í áföngum úr 100% í 45% þannig að hlutfallið verði 80% frá 1. júlí 2013, 70% 1. janúar 2014, 60% 1. janúar 2015, 50% 1. janúar 2016 og loks 45% 1. janúar 2017.

Um ákvæði til bráðabirgða IV.

    Innleiðing á nýju greiðslufyrirkomulagi sem felur í sér að bætur og aðrar greiðslur samkvæmt lögunum skuli greiddar eftir á, þ.e. fyrsta dag hvers mánaðar fyrir undanfarandi mánuð, krefst undirbúnings af hálfu Tryggingastofnunar ríkisins. Samkvæmt greininni er því gert ráð fyrir að greiðslur á árinu 2013 fari áfram fram fyrsta dag hvers mánaðar fyrir komandi mánuð. Einnig er gert ráð fyrir því að þeir sem fá greiðslur frá Tryggingastofnun í desember 2013 skuli áfram fá greitt samkvæmt gildandi greiðslufyrirkomulagi en að þeir einstaklingar geti óskað eftir því við stofnunina að fá greiðslur eftir á í samræmi við nýtt greiðslufyrirkomulag þegar það kemur til framkvæmda.

Um ákvæði til bráðabirgða V.

    Ákvæðið er efnislega samhljóða 13. tölul. ákvæðis til bráðabirgða í gildandi lögum um almannatryggingar.

Um ákvæði til bráðabirgða VI.

    Ákvæðið er efnislega samhljóða 14. tölul. ákvæðis til bráðabirgða í gildandi lögum um almannatryggingar.

Um ákvæði til bráðabirgða VII.

    Ákvæðið er efnislega samhljóða 16. tölul. ákvæðis til bráðabirgða í gildandi lögum um almannatryggingar og síðara ákvæði til bráðabirgða í gildandi lögum um félagslega aðstoð.

Um ákvæði til bráðabirgða VIII.

    Fyrstu tveir málsliðir ákvæðisins eru samhljóða 1. tölul. ákvæðis til bráðabirgða í gildandi lögum um almannatryggingar. Þá er bætt við ákvæðið málslið sem er samhljóða 3. málsl. 2. mgr. 17. gr. gildandi laga, um að lækkun ellilífeyris vegna tekna skuli aldrei ná til þess hluta ellilífeyris sem einstaklingur á rétt á vegna frestunar á töku ellilífeyris sem ákveðin var fyrir 1. janúar 1992.

Um ákvæði til bráðabirgða IX.

    Ákvæðið er samhljóða 2. tölul. ákvæðis til bráðabirgða í gildandi lögum um almannatryggingar.

Um ákvæði til bráðabirgða X.

    Í ákvæðinu er mælt fyrir um að ráðherra beri að tryggja áframhaldandi umboð starfshóps þess er vann að samningu frumvarpsins svo halda megi áfram þeirri vinnu sem hópurinn hefur unnið að við heildstæða endurskoðun á almannatryggingakerfinu. Lagt er til að lögbundið verði að starfshópurinn leiti samráðs við Öryrkjabandalagið, stærstu hagsmunasamtök öryrkja hér á landi. Starfshópurinn skili niðurstöðum sínum í formi greinargerðar og verði þeirri vinnu lokið fyrir 1. október 2013.
Neðanmálsgrein: 1
1     www.velferdarraduneyti.is/media/acrobat-skjol/VEA_Lokaskyrsla.pdf.
Neðanmálsgrein: 2
2     Samkvæmt mannfjöldaspá Hagstofunnar mun 67 ára og eldri fjölga um 3,0–3,5% á næstu árum, um 3,3% að meðaltali. Útgjöld TR aukast samsvarandi en á móti kemur að hver árgangur sem hefur töku lífeyris er með meiri lífeyrisrétt en lífeyrisþegar að jafnaði.