Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 22. máls.
142. löggjafarþing 2013.
Þingskjal 28  —  22. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 49/2009, um Bjargráðasjóð (kal í túnum, endurræktunarstyrkir).


Flm.: Steingrímur J. Sigfússon, Árni Þór Sigurðsson, Lilja Rafney Magnúsdóttir.


1. gr.

    Við 1. mgr. 8. gr. laganna bætist nýr stafliður, svohljóðandi: vegna kostnaðar við endurræktun túna þegar meiri háttar kal veldur fyrirsjáanlegum og stórfelldum vanda við fóðuröflun og kostnaði langt umfram venju. Geta slíkir styrkir numið allt að helmingi áætlaðs kostnaðar við endursáningu eða endurræktun, sbr. þó ákvæði 2. málsl. 1. mgr. 10. gr. Hámarksstyrkur skal þó aldrei vera hærri en 75 þús. kr. á hektara. Endurræktunarstyrkir samkvæmt þessu ákvæði hafa ekki áhrif á bætur sem greiddar kunna að verða á grundvelli b- og c-liðar þessarar málsgreinar eða b-liðar 1. mgr. 9. gr.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Eftir langan og áfellasaman vetur er nú orðið ljóst að stórfellt kal í túnum um norðan- og austanvert landið hefur bakað bændum mikið tjón og erfiðleika. Koma þessi áföll í kjölfar umtalsverðs kals í túnum á sumpart sömu slóðum 2011 og óvenjulegra þurrka sem víða voru til vandræða á síðasta ári. Skilvirkasta leiðin til úrbóta er endurræktun þeirra túna sem eyðilagst hafa, en það á í tilviki sumra bújarða við um verulegan eða jafnvel mestallan hluta túnanna. Eru þess dæmi í Þingeyjarsýslum, Eyjafirði og víðar að allt að 70–90% túna sem verið hafa undirstaða fóðuröflunar bænda undanfarin ár séu stórskemmd eða ónýt.
    Þessir atburðir eru af þeirri stærðargráðu að eðlilegt er að á þeim sé tekið með ráðstöfunum gegnum almenna deild Bjargráðasjóðs. Er þá átt við bæði fjárhagsaðstoð vegna uppskerubrests, sbr. c-lið 1. mgr. 8. gr. laga um Bjargráðasjóð og styrki til endurræktunar samkvæmt ákvæðum frumvarps þessa. Mikilvægt er að stuðningi við bændur við svona aðstæður sé hagað með þeim hætti að þeim sé bætt stórfellt uppskerutjón en jafnframt sé til staðar hvati til áframhaldandi búskapar. Því er frumvarp þetta um heimild almennrar deildar Bjargráðasjóðs til að styrkja sérstaklega endurræktun túna flutt.
    Ætla má að kostnaður við fulla endurræktun túna geti numið allt að 150 þús. kr. á hvern hektara, að lágmarki 100 þús. kr. Í einhverjum tilvikum kann einfaldari endurræktun eða endursáning að duga. Þá er að sjálfsögðu ekki við því að búast að allt verði endurræktað strax sem nú eyðilagðist. Erfitt er því að áætla nákvæmlega kostnað við sérstaka styrki til endurræktunar túna að viðbættu því að bæta uppskerutjón. Talið er að um 5.200 hektarar séu stórskemmdir eða ónýtir á um 270 bæjum allt frá Ísafjarðardjúpi og Ströndum í vestri til Austurlands. Ef tekið er sem dæmi að um 4.000 hektarar yrðu endurræktaðir og styrkir yrðu að meðaltali um 60 þús. kr. á hektara yrði kostnaður ríkissjóðs vegna þessa þáttar um 240 millj. kr. en kostnaður bænda væntanlega rúmlega annað eins. Þessu til viðbótar kæmu svo bætur vegna uppskerutjóns að svo miklu leyti sem það yrði áfram til staðar.
    Einboðið er að ríkisvaldið komi bændum og landbúnaðinum til aðstoðar þegar hamfarir af þessu tagi ganga yfir, sbr. fordæmi frá undangengnum árum þegar eldgos og flóð eða hamfaraveður hafa valdið stórfelldu tjóni. Er nærtækast að ráðstafa til þessa fjármunum gegnum Bjargráðasjóð af fjárlagalið nr. 09-989, ófyrirséð útgjöld.
    Mikilvægt er að koma sem allra fyrst skýrum skilaboðum á framfæri til bænda hvað varðar þann stuðning sem þeir mega vænta til að takast á við þessi áföll.