Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 9. máls.
142. löggjafarþing 2013.
Þingskjal 47  —  9. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um aðgerðir
vegna skuldavanda heimila á Íslandi.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigrúnu Ólafsdóttur frá forsætisráðuneyti, Sigurð Guðmundsson frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Bryndísi Helgadóttur frá innanríkisráðuneyti, Ólaf Darra Andrason frá Alþýðusambandi Íslands, Sonju Ýri Þorbergsdóttur og Kristin Bjarnason frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Hannes G. Sigurðsson frá Samtökum atvinnulífsins, Guðjón Bragason frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Ástu S. Helgadóttur og Lovísu Ósk Þrastardóttur frá umboðsmanni skuldara, Þóreyju S. Þórðardóttur og Gunnar Baldvinsson frá Landssamtökum lífeyrissjóða, Halldóru E. Ólafsdóttur og Guðrúnu Áslaugu Jósepsdóttur frá Fjármálaeftirlitinu, Grétar Jónsson og Ingibjörgu Þórðardóttur frá Félagi fasteignasala, Vilhjálm Bjarnason og Guðmund Ásgeirsson frá Hagsmunasamtökum heimilanna, Gunnhildi Gunnarsdóttur og Sigurð Jón Björnsson frá Íbúðalánasjóði, Hörpu Jónsdóttur og Þórarin G. Pétursson frá Seðlabanka Íslands, Höskuld H. Ólafsson bankastjóra og Helga Bjarnason frá Arion banka, Birnu Einarsdóttir bankastjóra og Unu Steinþórsdóttir frá Íslandsbanka, Steinþór Pálsson bankastjóra og Helga Teit Helgason frá Landsbankanum og Guðjón Rúnarsson og Yngva Örn Kristinsson frá Samtökum fjármálafyrirtækja.
    Umsagnir bárust frá Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi háskólamanna, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Hagsmunasamtökum heimilanna, Íbúðalánasjóði, Landsbankanum hf., Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum fjármálafyrirtækja, Seðlabanka Íslands, talsmanni neytenda, Viðskiptaráði Íslands og umboðsmanni skuldara.
    Þar sem málið varðar að sumu leyti aðgerðir sem eru á málefnasviði annarra fastanefnda óskaði nefndin umsagnar allsherjar- og menntamálanefndar og velferðarnefndar og eru umsagnir þeirra fylgiskjöl með áliti þessu.

Almennt um þingsályktunartillöguna.
    Með tillögunni er lögð til aðgerðaáætlun í tíu liðum. Henni er ætlað að taka á skuldavanda heimila á Íslandi, sem er tilkominn af hinni ófyrirsjáanlegu höfuðstólshækkun verðtryggðra húsnæðislána sem leiddi af hruni fjármálakerfisins. Grunnviðmiðið er að ná fram leiðréttingu vegna verðbólguskots áranna 2007–2010. Þá er henni ætlað að tryggja stöðugleika og gagnsæi á húsnæðislánamarkaði til framtíðar.
    Aðgerðirnar eru annars vegar beinar og kveða á um framlagningu frumvarpa á næstu vikum og mánuðum og hins vegar eru tímasettar athuganir sem miða að því að skila skýrum aðgerðaáætlunum í kjölfar greininga sérfræðinga á þeim leiðum sem mögulegar eru til þess að ná því marki að leiðrétta forsendubrestinn sem varð með hruni fjármálakerfisins. Um er að ræða almennar aðgerðir og í athugasemdum við tillöguna kemur fram að þær eigi að vera óháðar lántökutíma með áherslu á jafnræði og skilvirkni úrræða. Í athugasemdum við tillöguna er gerð nánari grein fyrir þeim tíu liðum sem lagðir eru til og tilgangi hvers liðar áætlunarinnar.
    Þegar hafa verið lögð fyrir Alþingi frumvörp í samræmi við tvo liði áætlunarinnar, og hefur annað þeirra nú þegar verið samþykkt sem lög, sbr. frumvarp innanríkisráðherra um meðferð einkamála (2. mál) í samræmi við 5. lið og frumvarp forsætisráðherra um Hagstofu Íslands (14. mál) í samræmi við 10. lið. Aðrir liðir eru tímasettir enda er þar um að ræða verkefni sem þurfa nánari skoðunar við.

Vinna nefndarinnar.
    Meiri hlutinn lagði áherslu á að fjalla almennt um efni tillögunnar en fara ekki ítarlega í einstaka liði hennar á þessu stigi enda liggur ekki fyrir útfærsla einstakra liða og verkefna. Nefndinni voru á fundum og í umsögnum kynnt sjónarmið hagsmunaaðila varðandi skuldavanda heimilanna sem munu nýtast í þeirri vinnu sem fram undan er. Hagsmunaaðilar voru almennt jákvæðir í garð tillögunnar og telja þörf á að gripið verði til aðgerða til að koma til móts við skuldug heimili. Fram kom að töluverðrar óþreyju er farið að gæta meðal lántakenda. Tekur meiri hlutinn undir þau sjónarmið og áréttar mikilvægi þess að tillagan nái fram að ganga. Fjöldi heimila í landinu treystir á að fá úrlausn sinna mála á næstu missirum og ákveðnar væntingar hafa byggst upp sem verður að koma til móts við.
    Meiri hlutinn áréttar að í þingsályktunartillögu þessari eru dregnar upp útlínur þess hvernig ríkisstjórnin hyggst leysa brýnasta málið sem íslenskt samfélag stendur frammi fyrir í dag, skuldavanda heimilanna. Meiri hlutinn gerir ráð fyrir að hver liður í áætluninni muni skila sér sem frumvarp eða tillögur þegar starfshópar og nefndir hafa lokið sínum störfum og því sé ekki á þessu stigi tímabært að fara ítarlega í hvern lið fyrir sig þar sem nákvæm útfærsla liggur ekki fyrir. Tækifæri mun gefast til slíkrar umfjöllunar, sem og náins samstarfs og aðkomu hagsmunaaðila að hverju verkefni fyrir sig þegar þingmál vegna skuldavandans samkvæmt aðgerðaáætlun þessari berast. Telur meiri hlutinn það til marks um jákvæðni í garð fyrirliggjandi tillögu að umsagnaraðilar og gestir nefndarinnar lýstu sig flestir að fyrra bragði fúsa til að taka þátt í að leysa þann vanda sem steðjar að íslenskum heimilum vegna hækkunar húsnæðislána sem rekja má til forsendubrests sem varð með hruni fjármálakerfisins.
    Meiri hlutinn leggur áherslu á að með tillögunni er lagt til að Alþingi lýsi yfir stuðningi við aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar um skuldavanda heimilanna. Meiri hlutinn telur brýnt að Alþingi taki afstöðu í þessu máli og sýni á þann hátt ótvíræðan vilja sinn til að vinna með framkvæmdarvaldinu að farsælli lausn þessara mála.

Sjónarmið við framkvæmd aðgerðaáætlunarinnar.
    Fyrir nefndinni var vakin athygli á því að efnislega væri erfitt að taka afstöðu til þeirra atriða sem þar koma fram því að mörg þeirra bíða frekari útfærslu. Hagsmunaaðilar bentu á að í því ljósi væri erfitt að veita nákvæmar umsagnir um tillögurnar umfram það að styðja allar góðar aðgerðir til handa heimilunum. Umsagnaraðilar lýstu sig einnig flestir að fyrra bragði reiðubúna til samvinnu við útfærslu aðgerðanna verði þingsályktunartillagan samþykkt. Meiri hlutinn áréttar mikilvægi þess að í þeirri vinnu sem fram undan er verði í hvívetna leitast við að hafa gott samráð við alla hagsmunaaðila er málin varða hverju sinni og ítrekar að þegar útfærslur liggja fyrir verður hægt að koma afstöðu til einstakra liða á framfæri. Meiri hlutinn bendir einnig á að í umsögnum um málið koma fram ýmis sjónarmið og álitaefni sem vert er að líta til.
    Fyrir nefndinni hafa komið fram sjónarmið þess efnis að ýmsir aðrir en skuldarar verðtryggðra íbúðalána séu í fjárhagslegum erfiðleikum sem rekja megi til þess óvænta forsendubrests sem orsakaðist af hruni bankakerfisins á haustmánuðum 2008. Í umsögn velferðarnefndar um málið er til að mynda vakin athygli á því að helsti skulda- og greiðsluvandi einstaklinga er vegna bílalána og annarra neyslulána með þyngri greiðslubyrði en verðtryggð húsnæðislán. Þessu til stuðnings er vísað í greinargerð um fjárhagsstöðu heimilanna frá apríl 2013 sem unnin var af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, forsætisráðuneyti, innanríkisráðuneyti og velferðarráðuneyti. Í sömu greinargerð kemur fram að skuldir við stóru viðskiptabankana þrjá fara minnkandi. Meiri hlutinn áréttar að í tillögunni liggur fyrir ákveðin aðgerðaáætlun sem ætlað er að taka á skuldavanda heimila sem tilkominn er vegna ófyrirsjáanlegrar höfuðstólshækkunar verðtryggðra húsnæðislána og nær hún því samkvæmt efni sínu og markmiði ekki til annarra lána. Meiri hlutinn leggur áherslu á mikilvægi þess að þegar farið er í almennar aðgerðir af því tagi sem lýst er í tillögunni verði jafnræði haft að leiðarljósi í hvívetna en í því felst að einstaklingar í sambærilegri stöðu fái sambærilega lausn sinna mála.
    Gestir nefndarinnar veltu upp þeirri spurningu hvort ekki væri rétt að fram færi ítarleg þarfagreining til að hægt verði að leggja mat á það hvar þörfin á eftirgjöf skulda sé mest. Meiri hlutinn vekur athygli á að þingsályktunartillögu þessari er beint að almennri leiðréttingu skulda heimila vegna hinnar ófyrirsjáanlegu höfuðstólshækkunar verðtryggðra húsnæðislána.
    Fram kom á fundum, í umsögnum sem og í áliti sem velferðarnefnd Alþingis skilaði um málið að mikil vinna hefur nú þegar farið fram á mörgum þessara sviða og fjölmargir starfshópar verið skipaðir og skilað af sér skýrslum. Þar sem mikið og gott starf hefur víða verið unnið við greiningu og gagnaöflun í tengslum við vandann er það mat meiri hlutans að byggt verði á þeirri vinnu sem þegar liggur fyrir ef kostur er.
    Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið þess efnis að niðurfærsla lána væri dýr og óskilvirk leið og almennar aðgerðir væru ekki heppilegar til að aðstoða þá sem eru í mestum skulda- og greiðsluvanda. Auk þess var varað við því að skuldsetja ríkissjóð til að leiðrétta skuldir heimila. Þá komu fram áhyggjur af því að þær aðgerðir sem gert væri ráð fyrir gætu haft áhrif á efnahagslífið, aukið einkaneyslu og þannig stuðlað að veikara gengi og vaxandi verðbólgu. Meiri hlutinn bendir á að þegar eru til staðar aðgerðir fyrir þá sem eru í mestum vanda en áréttar mikilvægi þess að gripið sé til almennra aðgerða til handa heimilum í landinu og leggur áherslu á mikilvægi þess að kostnaðargreining verði höfð að leiðarljósi við útfærslu þeirra leiða sem hér eru kynntar. Að auki er mikilvægt að hafa hagræn sjónarmið í huga er varða fjármálastöðugleikamarkmið Seðlabanka Íslands og ríkissjóð almennt. Meiri hlutinn telur ekki ástæðu til að óttast verðbólguskot þótt skuldir heimila verði lækkaðar enda verði þá ekki greiddar út neinar fjárhæðir.
    Fram kom í máli gesta á fundum nefndarinnar að mikilvægt væri að stíga varlega til jarðar í útfærslu á ákveðnum liðum til að skapa jákvæða hvata fyrir fólk til að standa undir skuldbindingum sínum, svo sem þegar kemur að útfærslu á lyklafrumvarpi og heimildum í tengslum við gjaldþrot.
    Meiri hlutinn leggur áherslu á að aðgerðaáætlunin verði unnin hratt og örugglega þar sem brýnt er að fá úrlausn í skuldavanda heimilanna eins fljótt og kostur er.
    Meiri hlutinn áréttar mikilvægi þess að Alþingi fái að fylgjast með framgangi vinnu þeirra starfshópa sem tilgreindir eru og að verkefnin verði unnin þannig að sem víðtækust sátt verði um útfærslu aðgerðanna.
    Meiri hlutinn leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 26. júní 2013.Frosti Sigurjónsson,


form.


Pétur H. Blöndal.


Willum Þór Þórsson,


frsm.Líneik Anna Sævarsdóttir.


Ragnheiður Ríkharðsdóttir.


Vilhjálmur Bjarnason.

Fylgiskjal I.


Umsögn allsherjar- og menntamálanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um þingsályktunartillöguna, sbr. umsagnarbeiðni efnahags- og viðskiptanefndar frá 14. júní 2013 þar að lútandi.
    Nefndin tók þá ákvörðun að fjalla um tillöguna út frá málefnasviði sínu sem skilgreint er í 13. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991. Umsögnin mun þar af leiðandi varða lið 3 er fjallar um hvernig gera megi eigendum yfirskuldsettra íbúða kleift að losna án gjaldþrots undan eftirstöðvum sem veðið sjálft stendur ekki undir, lið 5 sem lýtur að flýtimeðferð dómstóla sem tengjast skuldavanda heimilanna og lið 10 er fjallar um skýrari heimildir til handa Hagstofu Íslands til öflunar upplýsinga. Nefndin gerir ráð fyrir því að mál sem tengjast öðrum töluliðum þingsályktunartillögunnar og teljast neytendamál muni koma til umfjöllunar nefndarinnar þegar tillögur og útfærslur liggja fyrir.
    Í þingsályktunartillögunni kemur fram að kannað verði hvernig gera megi eigendum yfirskuldsettra íbúða kleift að losna án gjaldþrots undan eftirstöðvum sem veðið sjálft stendur ekki undir. Um verður að ræða tímabundna aðgerð sem á að miða að því að leysa vanda tengdan afleiðingum efnahagshrunsins. Í aðgerðaáætluninni kemur fram að tillögur um útfærslu eigi að liggja fyrir í september 2013. Nefndin ræddi þetta og áréttar í því sambandi að tillögur þessar munu verða skoðaðar nánar í nefndinni þegar þær liggja fyrir.
    Í þingsályktunartillögunni kemur fram að lögfest verði flýtimeðferð dómsmála sem tengjast skuldavanda heimilanna og varða ágreining um lögmæti þess að binda fjárskuldbindingu við gengi erlendra gjaldmiðla eða vísitölu. Þann 11. júní mælti innanríkisráðherra fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um meðferð einkamála, nr. 91/1991, með síðari breytingum (flýtimeðferð). Var frumvarpinu vísað til allsherjar- og menntamálanefndar. Nefndin sendi frumvarpið til umsagnar og var frestur til að skila umsögnum til 19. júní. Umsagnir hafa borist frá Alþýðusambandi Íslands, dómstólaráði, Fjármálaeftirlitinu, Hagsmunasamtökum heimilanna, Lögmannafélagi Íslands, Samtökum fjármálafyrirtækja, Samtökum iðnaðarins, Seðlabanka Íslands, umboðsmanni skuldara og Viðskiptaráði Íslands. Nefndin hefur haldið þrjá fundi um frumvarpið og fengið á sinn fund fulltrúa frá innanríkisráðuneytinu, fulltrúa réttarfarsnefndar, umboðsmann skuldara og formann dómstólaráðs. Nefndarálit verður afgreitt frá nefndinni 20. júní og sent til 2. umræðu.
    Í þingsályktunartillögunni er mælt fyrir um að Hagstofa Íslands fái skýrari heimildir til að afla upplýsinga frá fjármálafyrirtækjum um fjárhagsstöðu heimila og fyrirtækja. Þann 18. júní mælti fjármála- og efnahagsráðherra fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 163/2007, um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð, með síðari breytingum (tölfræðilegar upplýsingar um skuldir heimila og fyrirtækja). Var frumvarpinu vísað til allsherjar- og menntamálanefndar. Frumvarpið er í efnislegri meðferð í nefndinni en afstaða nefndarinnar mun birtast í nefndaráliti um leið og nefndin lýkur umfjöllun um málið
    Nefndin ræddi um ýmis atriði sem ekki eru nefnd í þingsályktunartillögunni en þyrftu að koma til skoðunar og leggur til að álitaefnum varðandi lánsveð og ábyrgðarmenn verði fundinn staður í þeirri vinnu sem mun fara fram á grundvelli þingsályktunartillögunnar. Jafnframt verði skoðað hvort bregðast eigi við forsendubresti vegna verðbólgu og verðtryggingar hjá öðrum hópum en húseigendum, svo sem vegna námslána, verðtryggðrar leigu leigjenda og búseturéttarhafa.
    Nefndin áréttar mikilvægi þess að Alþingi fái að fylgjast með framgangi vinnu þeirra starfshópa sem tilgreindir eru og að aðkoma bæði stjórnar- og stjórnarandstöðu að málum verði tryggð.

Alþingi, 20. júní 2013.

Unnur Brá Konráðsdóttir,
Páll Valur Björnsson,
Líneik Anna Sævarsdóttir,
Elsa Lára Arnardóttir,
Guðbjartur Hannesson,
Helgi Hrafn Gunnarsson,
Jóhanna María Sigmundsdóttir,
Svandís Svavarsdóttir,
Vilhjálmur Árnason.
Fylgiskjal II.


Umsögn velferðarnefndar.


    Með tölvupósti dagsettum 14. júní 2013 óskaði efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis eftir umsögn velferðarnefndar um tillögu til þingsályktunar um aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi, og jafnframt eftir því að umsögnin bærist fyrir 21. júní. Þingsályktunartillagan er aðgerðaáætlun í tíu liðum og ætlað að taka á skuldavanda heimila á Íslandi sem er tilkominn vegna ófyrirsjáanlegrar höfuðstólshækkunar verðtryggðra húsnæðislána sem leiddi af hruni fjármálakerfisins, líkt og fram kemur í tillögugreininni. Með hliðsjón af afmörkun á málefnasviði nefndarinnar í 7. tölul. 1. mgr. 13. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, tók nefndin til skoðunar liði nr. 1, 3, 4, 6, 7 og 9, en um liði 1, 6 og 9 var aðallega fjallað með hliðsjón af áhrifum þeirra áætlana á starfsemi Íbúðalánasjóðs. Margir liðir aðgerðaáætlunarinnar snerta húsnæðismál með einum eða öðrum hætti, sem eru á málefnasviði nefndarinnar, og helgaðist umfjöllun nefndarinnar að nokkru leyti af því.
    Nefndin hélt einn fund um málið og fékk til fundar við sig Eygló Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, og Hönnu Sigríði Gunnsteinsdóttur, Lísu Margréti Sigurðardóttur og Matthías Imsland frá velferðarráðuneyti, Sigurð Erlingsson og Gunnhildi Gunnarsdóttur frá Íbúðalánasjóði, Ástu S. Helgadóttur og Lovísu Ósk Þrastardóttur frá umboðsmanni skuldara, Ólaf Darra Andrason frá Alþýðusambandi Íslands, Halldór Árnason frá Samtökum atvinnulífsins, Helgu Jónsdóttur frá BSRB, Guðlaugu Kristjánsdóttur frá BHM, Hildigunni Hafsteinsdóttur frá Neytendasamtökunum og Guðjón Bragason frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Almennt um þingsályktunartillöguna.
    Gestir sem komu á fund nefndarinnar voru almennt jákvæðir gagnvart þingsályktunartillögunni enda væri markmið hennar að bæta hag heimilanna í landinu. Með þingsályktunartillögunni er markaður ákveðinn rammi utan um komandi starf og hverri aðgerð í aðgerðaáætluninni er gefinn ákveðinn tímarammi þar til beinar tillögur eiga að liggja fyrir. Tillagan mælir fyrir um umfangsmikla greiningu og úttektir á ýmsum leiðum sem hafa verið nefndar til sögunnar. Ljóst er að mikil vinna er fram undan við að útfæra einstakar aðgerðir nánar. Nefndin telur rétt að víkja að nokkrum atriðum sem fram komu á fundi með gestum og nefndin telur að hafa þurfi í huga við frekari útfærslu aðgerðanna sem nefndar eru í þingsályktunartillögunni.

Framtíðarskipan húsnæðismála.
    Í lið 4 í aðgerðaáætluninni er lagt til að skipuð verði verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála og að þeirri verkefnastjórn verði m.a. falið að koma með tillögur að nýju húsnæðislánakerfi, m.a. með það í huga að tryggja virkan leigumarkað og skilvirk félagsleg úrræði fyrir þá sem slíkt þurfa, og verði þá m.a. litið til fyrirmynda frá Norðurlöndunum og skýrslu starfshóps um framtíðarhorfur og hlutverk Íbúðalánasjóðs. Nefndin telur rétt að benda á að á síðastliðnum árum hefur verið unnið gott og mikið starf á vegum velferðarráðuneytisins við gerð tillagna og mótun hugmynda um framtíðarskipulag húsnæðismála og gerð húsnæðisáætlunar. Þannig liggur fyrir skýrsla samráðshóps um húsnæðisstefnu sem skilað var til velferðarráðherra í apríl 2011. Á grundvelli þeirrar stefnu voru síðan unnar skýrslur um afmarkaða þætti. Vinnuhópur um gerð húsnæðisáætlunar skilaði ráðherra skýrslu sinni í júní 2012, tillögum um bætta öflun og miðlun upplýsinga um húsnæðismál var skilað var til ráðherra í janúar 2012, tillögum um húsnæðisbætur var skilað til ráðherra í maí 2012 og tillögum um breytt rekstrar- og skattaumhverfi húsnæðisfélaga var skilað til ráðherra í nóvember 2012. Mikið starf hefur því verið unnið á síðastliðnum árum við greiningu á húsnæðismálum og rökstuddar tillögur liggja fyrir. Nefndin telur rétt að þessi vinna verði nýtt í þeirri vinnu sem fram undan er og tekið verði mið af henni eins og kostur er. Þá leggur nefndin áherslu á víðtækt samráð við stjórnmálaflokka á Alþingi, sveitarfélögin, aðila vinnumarkaðarins og Neytendasamtökin þar sem framtíðarskipan húsnæðismála snertir landsmenn alla.
    Í athugasemdum við lið 4 í aðgerðaáætlun þingsályktunartillögunnar kemur fram að tryggja þurfi virkan leigumarkað. Málefni leigjenda og leigumarkaðarins hafa mætt afgangi hér á landi í áraraðir. Rekstrarumhverfi leigufélaga er ekki eins og best verður á kosið og leigumarkaðurinn hefur lengi einkennst af einstaklingsmarkaði þar sem einstaklingar leigja út eigin íbúð oftast til fremur skamms tíma. Húsnæðisöryggi margra leigjenda er því takmarkað og hafa þeir auk þess komið illa út úr efnahagshruninu þar sem stór hluti leigusamninga er verðtryggður og kemur hækkun á vísitölu neysluverðs strax fram í leiguverði af fullum þunga. Nefndin telur mikilvægt að málefni leigumarkaðarins verði tekin föstum tökum og unnið verði samkvæmt tillögum að bættu fyrirkomulagi sem þegar hafa komið fram og unnar voru að undangengnu víðtæku samráði.
    Á sameiginlegum fundi velferðarnefndar og efnahags- og viðskiptanefndar 28. febrúar sl. kynnti Alþýðusamband Íslands tillögur sínar að nýju húsnæðislánakerfi og nýju félagslegu húsnæðiskerfi þar sem litið er til Danmerkur sem fyrirmyndar. Á fundi nefndarinnar vegna vinnslu umsagnar þessarar voru tillögurnar reifaðar stuttlega auk þess sem frekari gögn voru lögð fram til kynningar.

Höfuðstólslækkun verðtryggðra húsnæðislána.
    Ein stærsta einstaka aðgerðin sem þingsályktunartillagan mælir fyrir um að ráðast skuli í er lækkun á höfuðstól verðtryggðra húsnæðislána. Höfuðstólslækkunin er ekki útfærð í þingsályktunartillögunni en lagt er til að sérfræðingahópur útfæri mismunandi leiðir til að ná fram höfuðstólslækkun verðtryggðra húsnæðislána. Í greinargerð með þingsályktunartillögunni kemur fram að grunnviðmiðið verði að ná fram leiðréttingu vegna verðbólguskots áranna 2007–2010 og að um almennar aðgerðir óháðar lántökutíma verði að ræða með áherslu á jafnræði og skilvirkni úrræða.
    Á fundi nefndarinnar vegna málsins kom m.a. fram hjá gestum að helsti skulda- og greiðsluvandi einstaklinga væri vegna bílalána og annarra neyslulána með þyngri greiðslubyrði en verðtryggð húsnæðislán. Þessar niðurstöður koma einnig fram í greinargerð um fjárhagsstöðu heimilanna frá apríl 2013 sem unnin var af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, forsætisráðuneyti, innanríkisráðuneyti og velferðarráðuneyti. Þar kemur einnig fram að hrein eign heimila í íbúðarhúsnæði fari vaxandi og vanskil við viðskiptabankana þrjá og Íbúðalánasjóð fari minnkandi. Um sanngirnisaðgerð yrði því að ræða með tilliti til forsendubrests vegna höfuðstólshækkunar og þyngri greiðslubyrði húsnæðislána en aðgerðin mun ekki ná til þeirra sem hafa orðið fyrir hækkun húsnæðiskostnaðar á leigumarkaði. Þá er einnig ljóst að viðskiptavinir viðskiptabankanna hafa hugsanlega fengið meiri niðurfellingu á sínum húsnæðislánum en viðskiptavinir Íbúðalánasjóðs þar sem bankarnir geta afskrifað á einstaklingsgrunni en Íbúðalánasjóður getur aðeins farið í almennar aðgerðir að gættu fullu jafnræði. Á fundi nefndarinnar voru reifuð þau sjónarmið að flöt höfuðstólslækkun húsnæðisskulda mundi ekki leysa vanda þeirra sem eru í greiðsluvanda og kom m.a. fram að réttara gæti verið að nýta það fé sem færi í að fjármagna niðurfærslu lána til að efla almannaþjónustu og lækka þjónustugjöld.

Úrræði vegna skulda- og/eða greiðsluvanda.
    Í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008 voru lögfest ýmis úrræði til aðstoðar skuldurum sem ekki gátu staðið í skilum með skuldbindingar sínar. Frá hausti 2008 hafa verið sett lög um umboðsmann skuldara, nr. 100/2010, lög um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010, lög um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði, nr. 50/2009, lög um tímabundið úrræði einstaklinga sem eiga tvær fasteignir, nr. 103/2010, og lög um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins, nr. 107/ 2009, en þau tvö síðarnefndu eru nú fallin úr gildi en á grundvelli síðastnefndu laganna var m.a. úrræðið sértæk skuldaaðlögun. Fyrir nefndinni kom fram að þessi úrræði hefðu reynst mörgum vel en þó séu alltaf dæmi um einstaklinga þar sem þessi úrræði hafa ekki dugað. Af hálfu umboðsmanns skuldara kom fram að nauðsynlegt væri að fara yfir úrræðin og hlutverk embættisins nú þegar reynsla væri komin á það. Var á það bent að rétt væri að styrkja greiðsluaðlögunarúrræðið og þá þannig m.a. að það yrði varanlegt úrræði fyrir þá sem á þurfa að halda hverju sinni. Þá kom einnig fram af hálfu fulltrúa Íbúðalánasjóðs að greiðsluaðlögunin og sértæka skuldaaðlögunin hefðu reynst mörgum viðskiptavinum sjóðsins vel. Nefndin bendir á að lykilatriði við úrlausn í skuldamálum einstaklinga er að horfa heildstætt á skuldavandann.
    Í liðum 3 og 7 eru tillögur sem lúta annars vegar að því að kannað verði hvernig gera megi eigendum yfirskuldsettra íbúða kleift að losna án gjaldþrots undan eftirstöðvum sem veðið sjálft stendur ekki undir. Um tímabundna aðgerð verði að ræða sem miði að því að leysa vanda tengdan afleiðingum efnahagshrunsins. Hins vegar er í lið 7 lagt til að kannað verði hvernig eignalausum einstaklingum verði gert kleift að greiða kostnað vegna gjaldþrotaskipta á búi sínu. Nefndin telur að það skipti miklu máli hvernig þessar aðgerðir verði útfærðar nákvæmar. Ljóst má vera að sá vísir að lyklafrumvarpi sem er í lið 3 getur gagnast mörgum sem eiga nú í erfiðleikum. Kanna þarf hins vegar vel öll skilyrði fyrir beitingu úrræðisins, t.d. hvaða áhrif það hefur ef skuldari á aðrar eignir sem ekki eru yfirveðsettar. Þá mun það úrræði sem fram kemur í lið 7 einnig geta gagnast þeim sem eru með neikvæða greiðslugetu og sjá ekki fram á breytt ástand í fyrirsjáanlegri framtíð. Útfæra þarf vel öll skilyrði sem setja þarf fyrir beitingu þessa úrræðis og jafnframt hver muni taka ákvörðun um að greiða tryggingu fyrir skiptakostnaði fyrir skuldara. Mikilvægt er einnig að horfa til markmiðs úrræðisins sem er að leysa vanda þeirra allra verst settu en markmiðið má í sjálfu sér ekki vera að fjölga gjaldþrotaskiptum.

Niðurlag.
    Nefndin telur mikilvægt að vinna samkvæmt tillögunni gangi hratt og örugglega fyrir sig svo að beinar tillögur megi líta dagsins ljós hið fyrsta. Nefndin hvetur stjórnvöld til þess að virða þá tímaramma sem gerð er tillaga um í þingsályktunartillögunni og eru sá tími sem Alþingi veitir stjórnvöldum til að hrinda aðgerðaáætluninni í framkvæmd. Nefndin bendir einnig á að líta þurfi til þeirra sjónarmiða sem reifuð hafa verið í umsögn þessari.

Alþingi, 21. júní 2013.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, form.,
Þórunn Egilsdóttir,
Björt Ólafsdóttir,
Ásmundur Friðriksson,
Vilhjálmur Árnason,
Valgerður Bjarnadóttir,
Lilja Rafney Magnúsdóttir,
Páll Jóhann Pálsson,
Unnur Brá Konráðsdóttir.