Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 9. máls.
142. löggjafarþing 2013.
Þingskjal 49  —  9. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi.

Frá 2. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Efni þingsályktunartillögunnar sem hér er til umfjöllunar stendur bersýnilega ekki undir því heiti sem tillagan ber. Í henni er ekki að finna neinar aðgerðir.
    Kosningaloforð stjórnarflokkanna voru skýr og svo dýr að á sér ekkert fordæmi í íslenskri stjórnmálasögu. Loforðin hafa skapað gífurlegar væntingar í samfélaginu um útdeilingu fjár til hluta þjóðarinnar. Það er mikill ábyrgðarhluti að bregðast þeim væntingum og vanefndir stjórnarflokkanna geta haft víðtækar neikvæðar afleiðingar.
    Það hefur verið höfuðmarkmið þeirrar íslensku afskriftaleiðar sem farin hefur verið að koma jafnvægi á efnhagsreikninga heimila og þjóðarbúsins með því að hreinsa út af þeim tapaðar kröfur sem engin geta var lengur til að greiða. Í engu landi hafa jafn stór skref verið stigin í afskriftum og skuldavandaúrræðum í yfirstandandi heimskreppu og hér á landi frá 2009 til 2013 samkvæmt alþjóðlegum samanburðarskýrslum.
    Óvissa er að allra mati versti óvinur heimilanna í landinu og óskýr rannsóknaáætlun um forsendur dýrustu kosningaloforða Íslandssögunnar skapar mikla og skaðlega óvissu. Þess sér nú þegar stað á fasteignamarkaði, þar sem fólk heldur að sér höndum vegna óvissu um hvað það í raun eigi í húsnæði sínu, ef til almennrar skuldalækkunar kemur.
    Þegar litið er til efnis þingsályktunartillögunnar er ljóst að fyrirheit úr kosningabaráttunni um að aðgerðir kæmu til framkvæmda strax í sumar muni ekki ganga eftir. Efni tillögunnar bendir líka til þess að öll rannsóknarvinna, sem liggja þarf til grundvallar árangursríkum aðgerðum í jafn stóru máli og hér um ræðir, sé algerlega óunnin. Hér er því á ferðinni rannsóknaáætlun.
    Annar minni hluti telur jákvætt að ríkisstjórnin setji í orð fyrirheit um að byggja aðgerðir á vönduðum undirbúningi, en þau almennu orð sem höfð eru í tillögunni um verkefnið framundan bendir til að greining og undirbúningur aðgerða sé á algeru frumstigi.
    Ekkert bendir til að raunveruleg heildarsýn á skuldavanda heimila sé fyrir hendi.
    Ámælisvert er að lofa aðgerðum strax eftir kosningar en koma svo fram með almenna rannsóknaáætlun þar sem engar aðgerðir hafa enn verið útfærðar. Búið er að skapa miklar væntingar hjá almenningi og mikilvægt að koma sem fyrst með raunhæfar leiðir til að mæta þeim og ljúka málinu.
    Af þeim sökum er óhjákvæmilegt að leggja fram breytingatillögur til að herða á orðalagi varðandi þau verkefni sem mestu skipta: Afnám verðtryggingar og lækkun skulda. Það er óhjákvæmilegt að gefa stjórnarmeirihlutanum tækifæri á að gefa skýr fyrirmæli um að fyrir þingið skuli koma frumvarp um afnám verðtryggingar og útfærð áætlun um 20% lækkun lána.
    
Þverpólitísk samvinnuhefð Alþingis rofin.
    Frá 2009 hafa öll stefnumarkandi skref um skuldavanda í kjölfar banka- og gjaldeyriskreppu verið unnin í þverpólitísku opnu samstarfi á Alþingi. Þingsályktunartillagan ber með sér að nú skuli sú hefð rofin sem er mjög miður. Sú sérfræðivinna sem fara eigi fram eigi að vera á vegum ríkisstjórnar og sérfræðinga. Í því felst grundvallarbreyting frá verklagi síðasta þings. Strax með gildistöku fyrstu löggjafar um skuldamál heimila og fyrirtækja, laga nr. 107/2009, var sett á fót nefnd fulltrúa alla flokka sem greindi til þrautar þörf á frekari aðgerðum og tryggði víðtæka pólitíska samstöðu um öll skref sem tekin voru á liðnu kjörtímabili í skuldamálum heimilanna.
    Minnt er á að í tíð síðustu ríkisstjórnar fór fram mikil vinna á þessu sviði sem byggja hefði mátt áframhaldandi vinnu á, svo sem í húsnæðismálum, og koma í sumar fram með skýrar tillögur í samræmi við kosningaloforð um tafarlausa úrlausn.
    Ánægjuefni er að meiri hluti nefndarinnar vísar í þessa vinnu í áliti sínu og telur mikilvægt að á henni verði byggt.

Framhald afskrifta á skuldum heimila þarf að vera á grundvelli almennra leikreglna.
    Efnahagshrunið 2008 leiddi til þess að gríðarlegur greiðslu- og skuldavandi myndaðist hjá heimilum landsins. Kaupmáttur dróst saman um 14% og atvinnuleysi óx úr tæpu 1% í rúmlega 8%. Þetta leiddi til greiðsluvanda fjölda heimila. Vanskil á lánum heimila náðu hámarki á miðju ári 2010 og námu þá 22% af lánum. Raunverð fasteigna féll og var lækkun þess um 34% þegar verst lét. Fall raunverðs fasteigna olli því að skuldsett heimili misstu að hluta eða öllu leyti eigið féð sitt sem bundið var í íbúðarhúsnæði. Sérstakur vandi myndaðist hjá heimilum sem fjármagnað höfðu íbúðarkaup sín með gengisbundnum lánum vegna falls krónunnar um rúm 50% gagnvart helstu viðskiptagjaldmiðlum. Fá lönd, ef einhver, hafa þurft að glíma við vanda af þessari stærðargráðu.
    Seðlabankinn gerði sérstaka athugun á greiðslu- og skuldavanda heimila á árinu 2009. Sú greining var m.a. grundvöllur aðgerða stjórnvalda. Niðurstaða Seðlabankans var að flatur niðurskurður skulda mundi ekki leysa vanda þeirra heimila sem byggju við eða væru líkleg til þess að lenda í greiðslu- og skuldavanda. Mun líklegra til árangurs væri að beina þeim fjármunum sem úr væri að spila til þeirra heimila sem væru í greiðslu- eða skuldavanda.
    Ríkisstjórnin brást við þessum vanda með margvíslegum hætti. Fyrstu viðbrögð voru að bjóða skuldurum að frysta lán sín og virkja aftur greiðslujöfnun á verðtryggðum og gengisbundnum lánum. Þá var nauðungarsölum frestað. Tugþúsundir heimila nýttu sér þessi úrræði og meiri hluti íbúðaskuldara valdi greiðslujöfnun á lán sín.
    Sú leið sem var valin til að bregðast við fjármálakreppunni hér á landi skapaði sérstakt svigrúm til þess að taka á vanda skuldsettra heimila og fyrirtækja. Öfugt við það sem gert hefur verið annars staðar var bönkum í vanda ekki bjargað heldur voru þeir látnir fara í þrot. Stofnaðir voru nýir banka og eignir gömlu bankanna færðar á milli á matsverði sem tók mið af því ástandi sem skapaðist í kjölfar hrunsins. Hér var ekki forðast að taka á vandanum, eins og gerst hefur í fjölmörgum löndum. Þessi aðferð er einstök og tilgangur hennar var að koma í veg fyrir að skuldavandi heimila og fyrirtækja yrði viðvarandi. Þetta skapaði nýjum bönkunum svigrúm til þess að bregðast við skuldavanda heimila og fyrirtækja. Sama svigrúm myndaðist hins vegar ekki hjá Íbúðalánasjóði og lífeyrissjóðum.
    Aðgerðir ríkisstjórnarinnar frá 2009 miðuðu að því að tryggja að bankar nýttu sér þetta svigrúm og lækkuðu skuldir fyrirtækja og heimila. Mikilsverður áfangi náðist í því efni með samningi ríkisstjórnarinnar við fjármálamarkaðinn í desember 2010. Samið var um lækkun á öllum íbúðaskuldum heimila niður að 110% af virði fasteigna fyrir þau heimili sem ekki áttu aðrar eignir að neinu marki. Þá var tryggt að öllum stæði til boða sértæk skuldaaðlögun sem gæfi kost á lækkun íbúðaskulda niður í allt að 70% af virði fasteignar ef greiðsluerfiðleikar voru til staðar. Þá var samið um sérstaka vaxtaniðurgreiðslu árin 2011 og 2012 að fjárhæð samtals 12 milljarðar kr. sem fjármögnuð var m.a. með skatti á fjármálafyrirtæki og lífeyrissjóði. Dómar Hæstaréttar um lögmæti gengisbundinna lána hafa sett þau lán í sérstakan farveg og leitt til þess að stór hluti þeirra hefur verið endurútreiknaður. Til að tryggja að sá endurútreikningur næði til allra íbúða- og bílalána beitti ríkisstjórnin sér fyrir lagabreytingu þess efnis í desember 2010. Samtals hafa þessar aðgerðir leitt til þess að skuldir heimila hafa lækkað um 250 milljarða kr., þar af íbúðalán um 200 milljarða kr. eða um 15% af íbúðaskuldum við hrun. Vanskil á lánum heimila hafa farið lækkandi og voru að nálgast 10% í árslok 2012.
    Ríkisstjórnin lét Hagfræðistofnun Háskóla Íslands gera sérstaka úttekt á árinu 2012 á kostnaði við skuldaúrvinnslu banka. Niðurstaðan var að bankar hefðu fullnýtt það svigrúm sem þeir hefðu fengið við kaup lánanna frá gömlu bönkunum.
    Aðrar aðgerðir síðustu ríkisstjórnar beindust að því að aðstoða skuldara í erfiðleikum með margvíslegum hætti. Embætti umboðsmanns skuldara var komið á fót og því falin umsjón með greiðsluaðlögun einstaklinga í greiðsluvanda. Þá hefur gjaldþrotalögum verið breytt þannig að kröfur á einstaklinga við gjaldþrot fyrnast nú almennt á tveimur árum. Sérstök eftirlitsnefnd hefur starfað frá ársbyrjun 2010 til þess að hafa eftirlit með framkvæmd skuldaúrræða hjá fjármálafyrirtækjum til þess að tryggja jafnræði og sanngirni við úrlausn mála.
    Þrátt fyrir þessar aðgerðir er greiðslubyrði margra heimila þung og skuldir miklar. Sérstaklega gildir það um þá sem keyptu eða byggðu á árunum 2005–2008. Fyrir þennan hóp skiptir þróun kaupmáttar og fasteignaverðs á næstu árum miklu. Þá kann að vera nauðsyn á því að auka enn frekar þann stuðning sem ríkissjóður veitir vegna húsnæðiskostnaðar hjá þessum hópi.
    Í skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um heimsbúskapinn á seinni hluti ársins 2011 var fjallað um aðgerðir aðildarríkja sjóðsins gegn greiðslu- og skuldavanda heimila. Niðurstaða sjóðsins var að Ísland væri í fararbroddi hvað þessi mál varðaði og ekkert land hefði tekið á greiðslu- og skuldavanda heimila með jafn víðtækum og markvissum hætti og Íslendingar.
    
Um brostnar forsendur og bætur vegna verðbólguskots.
    Með tillögunni er mörkuð ný afstaða um forsendu afskrifta. Sú afstaða byggist á hugmyndinni um forsendubrest og að leiðrétta eigi verðbólguskot.
    Yfirlýst markmið er að leiðrétta forsendubrest sem varð með hruni fjármálakerfisins. Óhjákvæmilegt er að minna á að hugmyndinni um forsendubrest hefur ítrekað verið haldið fram fyrir dómstólum undanfarin ár og henni hefur ávallt verið hafnað. Það er því vafasamt í meira lagi að á henni megi byggja efnislega helda leið til almennra afskrifta, sem standist skilmála eignarréttarákvæða stjórnarskrárinnar.
    Hugmyndin um að leiðrétta skuli verðbólguskot er nýstárleg, en hana er líka að finna í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Hér yrði um mikla tímamótaákvörðun að ræða í hagstjórn á Íslandi. Þjóðin hefur í áratugi búið við meiri almenna verðbólgu en nokkur önnur vestræn þjóð og tjón af hennar völdum verið svo algengt og almennt að sérgreining tjónþola með bótarétt vegna hennar hefur aldrei komið til umræðu af nokkurri alvöru. Slíkt hefur verið talið ógjörningur.
    Verðbólga hefur sem alkunna er valdið gríðarlegum eignatilfærslum í áranna rás og misjafnt hverjir hafa hagnast og hverjir tapað. Um áratugi var lágtekjufólk og lífeyrisþegar látið bera kostnað af verðbólgu óbættan, á meðan þeir högnuðust sem voru í færum vegna pólitískra tengsla til að fá lánsfé á neikvæðum vöxtum. Söguleg yfirsýn leiðir í ljós að í sumum tilvikum urðu áþekk misgengisáhrif vegna hækkunar verðtryggðra lána og lækkandi fasteignaverðs og við höfum reynt hér á síðustu árum.
    Ekkert er því nýtt við það að misgengi verði né við það að það verði húsnæðiseigendum þungbært. Horfa þarf til þess hvort aðgerðirnar nú gefi fordæmi fyrir úrlausn framtíðartjóns vegna verðbólgu og hvort yfir höfuð sé mögulegt að skapa slíkt fordæmi í landi með verðbólgusögu og gjaldmiðilsvanda af þeim toga sem Ísland hefur búið við í hartnær heila öld.
    Ef viðmið ríkisstjórnarinnar er að bæta skuli áhrif verðbólguskots, er óhugsandi að bæta bara tjón eins þjóðfélagshóps af því. Í tillögunni sjálfri og í athugasemdum er meira að segja lögð á að tryggja þurfi jafnræði og skilvirkni úrræða.
    Tillagan horfir þó eingöngu til íbúðaeigenda en ekki til annarra sem orðið hafa fyrir viðlíka eða meiri forsendubresti sökum hrunsins. Þannig er ekki horft til þess að koma til móts við leigjendur sem greitt hafa verðtryggða leigu frá hruni þó svo að tjón þeirra og forsendubrestur sé meiri þar sem þeir hafa ekki fengið að njóta verðhækkunar eigna á móti hækkuðum húsnæðiskostnaði og þeir hafa ekki notið verðtryggðra húsaleigubóta. Í tillögunni er heldur ekki tekið á hækkun verðtryggðra námslána þó svo að þau lán hafi hækkað til samræmis við önnur verðtryggð lán vegna verðbólguskotsins, án þess að laun greiðenda hafi hækkað að sama skapi. Það misgengi hlýtur líka að fela í sér forsendubrest.
    Annar minni hluti áréttar að ef viðmið aðgerða er tjón vegna verðbólguskots er eðlilegt að jafnræðissjónarmið gildi um tjón allra þeirra aðila sem bera tjón sökum verðbólguskotsins. Hér mætti auk leigjenda og greiðenda námslána nefna búseturéttarhafa og elli- og örorkulífeyrisþega.
    Ef enn lengra er haldið hlýtur líka að vakna spurningin um hvort yfirleitt sé hægt að bæta slíkt verðbólguskot af samfélagslegum fjármunum ef ekki er á móti lagt gjald eða byrðar á þá sem hagnast hafa af verðbólguskotinu, sem tillagan tengir réttilega falli krónunnar. Fordæmi eru fyrir slíkum ráðstöfunum frá fimmta og sjötta áratug síðustu aldar, með ýmiss konar álögum á þá sem högnuðust á dýrtíð. Augljóst er nú að útflutnings- og samkeppnisatvinnuvegir hafa hagnast verulega á gengisfallinu og verðbólguskotinu. Ef einhver samkvæmni væri í tillögum stjórnvalda ætti samtímis að leggja sérstaka dýrtíðarskatta á greinar sem notið hafa ávinnings af verðbólguskotinu. Öll fyrstu skref stjórnvalda í skattamálum og ákafi stjórnvalda í að létta af sanngjörnu veiðigjaldi ganga hins vegar í þveröfuga átt og miða að því að létta sérstaklega byrðum af þeim greinum sem notið hafa stórkostlegs ávinnings af verðbólguskotinu. Samkvæmnin í tillögum stjórnvalda er því engin. Ef tjón af verðbólguskoti er samfélagslegt vandamál hlýtur ávinningur af verðbólguskoti að vera samfélagslegur ávinningur.

Um einstaka liði tillögunnar.
    Erfitt er að fjalla ítarlega um einstaka þætti tillögunnar enda er þar almennt ekki kveðið á um beinar aðgerðar heldur vinnu sem fara á fram til að útfæra og móta ákveðnar aðgerðir. Eðlilega vakna þó upp ýmsar spurningar og álitamál við lestur tillögunnar.
    Í 1. lið er lagt til að settur verði á fót sérfræðingahópur sem útfæri mismunandi leiðir til að ná fram höfuðstólslækkun verðtryggðra húsnæðislána og geri tillögur þar að lútandi. Greinin er afar óskýr og athugasemdir við hana óskiljanlegar. Í athugasemdunum er í löngu máli lögð áhersla á að skapa hvata fyrir lántakendur til að breyta fjármögnun í óverðtryggð lán. Af því má ráða að höfuðstólslækkuninni eigi að ná fram með umbreytingu verðtryggða skulda í óverðtryggðar, eins og fjöldamargir bankar hafa boðið upp á á undanförnum missirum. Í umræðu um málið kom þó fram hjáforsætisráðherra að slíkt yrði ekki gert að skilyrði höfuðstólslækkunar. Ofuráhersla á breytingu úr verðtryggðum í óverðtryggð lán í athugasemdum með tillögunni verður þá enn óskiljanlegri.
    Í athugasemdum um 1. lið kemur jafnframt fram að meta eigi fýsileiki þess að lækka höfuðstól lána með skattafslætti. Útfærsla gæti orðið þannig að lántakendum verði gert kleift að greiða inn á höfuðstól lána og njóta skattafsláttar í staðinn. Þeir sem hafa fjármuni til lækka lán sín njóta því sérstakra afslátta og fá viðbótarávinning. Ekki liggur fyrir hvernig fer fyrir þeim sem ekki hafa efni á sambærilegum innborgunum og hvort þeir sitji þá uppi með forsendubrestinn. Slíkt bryti gróflega á jafnræði fólks og mundi mismuna fólki á grundvelli efnahags.
    Einnig segir í athugasemdum um þennan lið að samhliða skoðun á þeim leiðum sem færar eru til að leiðrétta forsendubrestinn þurfi að „skoða aðrar leiðir sem geta verið færar til að nýta það svigrúm sem að öllum líkindum myndast samhliða uppgjöri þrotabúa gömlu bankanna til að koma til móts við lántakendur.“ Samkvæmt síendurteknum loforðum Framsóknarflokksins undanfarna mánuði hefur tilvist þessa svigrúms verið forsenda þess að nú væri mögulegt að leiðrétta forsendubrestinn. Samt er svigrúmið bara í aukasetningu í síðustu málsgrein athugasemda við 1. lið og það sem um það er sagt algerlega óskiljanlegt.
    Í 3. lið er kveðið á um könnun á því hvernig gera megi eigendum yfirskuldsettra íbúða kleift að losna án gjaldþrots undan eftirstöðvum sem veðið sjálft stendur ekki undir. Um verði að ræða tímabundna aðgerð sem miði að því að leysa vanda tengdan afleiðingum efnahagshrunsins. Hér virðist því verið að vísa til möguleika sem þegar eru fyrir hendi. Einstaklingar sem fara í gegn um greiðsluaðlögun geta losnað án gjaldþrots undan eftirstöðvum sem veðið sjálft stendur ekki undir. Þeir hafa líka möguleika á því að halda eign sinni og losna við kröfur umfram virði veðsins. Lækkun veðkrafna niður að 110% af fasteignamati hefur verið möguleg samkvæmt 110% leiðinni og vandséð að skuldari sé betur settur eignalaus og húsnæðislaus, nema húsnæðið og kostnaður af því sé langt umfram greiðslugetu hans. Erfitt er því að sjá ávinning af einhvers konar nýrri lyklafrumvarpslausn. Hætturnar á slíku kerfi eru hins vegar mýmargar og nægir að nefna vandaða greiningu Joseph Stieglitz á vandanum af þessu sérkenni hins bandaríska húsnæðislánakerfis og ágæta grein Þórólfs Matthíassonar prófessors, lyklalög, bót eða böl, sem fjallar um sama efni og birtist í Fréttablaðinu 25. júní sl.
    Í 4. lið er fjallað um framtíðaskipan húsnæðismála. 2. minni hluti minnir á þá gríðarmiklu vinnu sem fram hefur farið á vegum félagsmálaráðuneytis og síðar velferðarráðuneytis í þeim málaflokki allt frá árinu 2007 sem leggja mætti til grundvallar stefnumótun á þessu sviði.
    Í 6. lið er lagt til að settur verði á fót sérfræðingahópur um afnám verðtryggingar af neytendalánum, en honum ekki falið neitt sérstakt verkefni. Það er í hróplegri mótsögn við ítrekuð loforð Framsóknarflokksins um afnám verðtryggingar. Framsóknarflokkurinn leiddi nefndarstarf um afnám verðtryggingar á vegum stjórnvalda á síðasta kjörtímabili og málið er að fullu rannsakað. Flokkurinn lofaði, þrátt fyrir það, afnámi verðtryggingar en treystir sér nú aðeins til að setja málið í nefnd. Bilið milli orða og efnda hefur sjaldan verið ljósara.
    Í 8. lið er lagt til að stofnaður verði sérfræðingahópur sem meti möguleika á því að leggja gjald á fjármálafyrirtæki vegna umtalsverðra tafa á endurútreikningi lána. Slíkt er sjálfsagt. Í tíð fyrri ríkisstjórnar var mörkuð sú stefna að ekki ætti að leyfa arðgreiðslur úr bönkum og ekki að lækka eiginfjárkröfur til þeirra, nema að áður kæmi til umtalsverður árangur í skuldaúrvinnslu. Þessi tæki eru enn í höndum stjórnvalda. Þá bera fjármálafyrirtæki kostnað af umboðsmanni skuldara og er það því þeim í hag að greiða leið þeirra mála sem eru þar til vinnslu og vinna að minnkandi umsvifum stofnunarinnar. Stærsta vandamál er sem fyrr Drómi, sem ekki lýtur neinum venjulegum viðmiðum, enda ekki starfsleyfisskylt fyrirtæki. Óhjákvæmilegt er að upplausn Dróma og flutningur útlána hans yfir til starfsleyfisskylds fyrirtækis, sem virði eðlilegar samskiptareglur við viðskiptavini á fjármálamarkaði, verði meðal verkefna samkvæmt þessum tillögulið.

Niðurstaða.
    Fyrirliggjandi tillaga svarar ekki þeim mörgu áleitnu spurningum sem varpað var fram í kosningabaráttunni um fyrirhugaðir aðgerðir í þágu skuldugra heimila og útfærslu þeirra. Við lestur hennar vakna aftur á móti upp fleiri spurningar sem enn er ósvarað. Það er von 2. minni hluta að sú vinna sem framundan er muni taka á þessum atriðum.
    Annar minni hluti leggur áherslu á að ríkissjóður verði ekki skuldsettur til að fjármagna almennar aðgerðir og bendir á að almennar aðgerðir munu ekki gagnast þeim sem eru í mestum skuldavanda. Almennar tilfærslur af almannafé myndu fela í sér stórfellda tilfærslu fjár frá þeim tekjuminni til þeirra betur stæðu, frá öldruðum og ungu fólki til fólks á besta aldri og frá landsbyggð til höfuðborgar. Eftir slíka aðgerð væru tveir af hverjum þremur sem eru í vanda, enn í vanda og ríkissjóður í engum færum til að mæta honum. Mikilvægasta framlag til allra skuldsettra heimila og um leið allra annarra landsmanna er að ríkissjóður beini öllu svigrúmi til að lækka skuldir ríkisins og greiða þannig fyrir lægri vöxtum, afnámi hafta, almennri velsæld og fjölgun starfa.
    Annar minni hluti telur þrátt fyrir ágallana mikilvægt að þessi vinna fari fram. Það er mikilvægt að fyrir liggi að ríkisstjórnarmeirihlutinn hefur ekki meira að bjóða kjósendum sínum en það sem hér kemur fram. Sú vinna sem framundan er mun gera öllum ljóst að stjórnarflokkarnir hafa engar raunhæfar lausnir til að fylgja eftir loforðum sínum. Ný ríkisstjórn þarf að fá fullnægjandi efnisgrunn til að skilja til fulls eðli þess vanda sem við er að glíma og þau margháttuðu takmörk sem aðgerðum eru sett í ljósi jafnræðisreglu og eignarréttarákvæða stjórnarskrár. Mikilvægt er að vinnan fari fram með þverpólitískri þátttöku allra flokka til að skapa traust á verkefninu, en verði ekki lokuð af hjá stjórnarflokkunum einum.

Alþingi, 27. júní 2013.



Árni Páll Árnason.