Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 9. máls.
142. löggjafarþing 2013.
Nr. 1/142.

Þingskjal 55  —  9. mál.


Þingsályktun

um aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að fylgja eftir aðgerðaáætlun í tíu liðum til þess að taka á skuldavanda heimila á Íslandi, sem er tilkominn af hinni ófyrirsjáanlegu höfuðstólshækkun verðtryggðra húsnæðislána sem leiddi af hruni fjármálakerfisins, og til að tryggja stöðugleika og gagnsæi á húsnæðislánamarkaði til framtíðar. Um almennar aðgerðir verði að ræða með áherslu á jafnræði en þó með möguleikum á að beita fjárhæðatakmörkunum og setja önnur skilyrði til að tryggja jafnræði í framkvæmd og skilvirkni úrræða.

    

Aðgerðaáætlun.


     1.      Settur verði á fót sérfræðingahópur sem útfæri mismunandi leiðir til að ná fram höfuðstólslækkun verðtryggðra húsnæðislána og geri tillögur þar að lútandi. Tillögur liggi fyrir í nóvember 2013.
                   Ábyrgð: Forsætisráðherra og ráðherranefnd um úrlausnir í skuldamálum heimilanna.
     2.      Gerð verði úttekt á kostum og göllum þess að stofna sérstakan leiðréttingarsjóð vegna húsnæðislána. Tillögur að mögulegum útfærslum liggi fyrir í nóvember 2013.
                   Ábyrgð: Forsætisráðherra.
     3.      Kannað verði hvernig gera megi eigendum yfirskuldsettra íbúða kleift að losna án gjaldþrots undan eftirstöðvum sem veðið sjálft stendur ekki undir. Um verði að ræða tímabundna aðgerð sem miði að því að leysa vanda tengdan afleiðingum efnahagshrunsins. Niðurstaða liggi fyrir í september 2013.
                   Ábyrgð: Innanríkisráðherra og félags- og húsnæðismálaráðherra.
     4.      Skipuð verði verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála. Tillögur liggi fyrir í upphafi árs 2014.
                   Ábyrgð: Félags- og húsnæðismálaráðherra.
     5.      Lögfest verði flýtimeðferð dómsmála sem tengjast skuldavanda heimilanna og varða ágreining um lögmæti þess að binda fjárskuldbindingu við gengi erlendra gjaldmiðla eða vísitölu. Frumvarp lagt fram á sumarþingi 2013.
                   Ábyrgð: Innanríkisráðherra.
     6.      Settur verði á fót sérfræðingahópur um afnám verðtryggingar af neytendalánum. Tillögur og tímasett áætlun liggi fyrir í lok árs 2013.
                   Ábyrgð: Forsætisráðherra.
     7.      Kannað verði hvernig eignalausum einstaklingum verði gert kleift að greiða kostnað vegna gjaldþrotaskipta á búi sínu. Tillögur liggi fyrir í september 2013.
                   Ábyrgð: Félags- og húsnæðismálaráðherra og innanríkisráðherra.
     8.      Sérfræðingahópur meti möguleika á því að leggja gjald á fjármálafyrirtæki vegna umtalsverðra tafa á endurútreikningi lána. Tillögur liggi fyrir í ágúst 2013.
                   Ábyrgð: Fjármála- og efnahagsráðherra.
     9.      Stimpilgjöld af lánsskjölum verði endurskoðuð og stefnt að afnámi stimpilgjalda vegna kaupa einstaklinga á húsnæði til eigin nota. Frumvarp verði lagt fram á haustþingi 2013.
                   Ábyrgð: Fjármála- og efnahagsráðherra.
     10.      Hagstofa Íslands fái skýrar heimildir til að afla upplýsinga frá fjármálafyrirtækjum um fjárhagsstöðu heimila og fyrirtækja. Frumvarp verði lagt fram á sumarþingi 2013.
                   Ábyrgð: Forsætisráðherra.
    Samræming og eftirfylgni vegna aðgerðanna verði í höndum sérstakrar ráðherranefndar um úrlausnir í skuldamálum heimilanna sem hafi yfirsýn yfir aðgerðirnar og tryggi samræmi á milli þeirra. Nefndin skoði einnig aðrar leiðir sem mögulegar eru til þess að ná sömu markmiðum og tryggja samráð við þá aðila sem málið varðar þannig að sem víðtækust sátt verði um útfærslu aðgerðanna.
    Forsætisráðherra gefi Alþingi skýrslu um stöðu mála í upphafi haustþings 2013 og síðan aftur í upphafi vorþings 2014.

Samþykkt á Alþingi 28. júní 2013.