Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 5. máls.
142. löggjafarþing 2013.
Þingskjal 64  —  5. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til stjórnarskipunarlaga um breytingu á stjórnarskrá
lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigríði Ólafsdóttur og Daða Ingólfsson frá SANS, Samtökum um nýja stjórnarskrá, Geir Guðmundsson frá Stjórnarskrárfélaginu, Ástu Hafberg og Kristin Má Ársælsson frá Öldu, félagi um sjálfbærni og lýðræði, Björgu Thorarensen prófessor og Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmann. Þá barst umsögn frá SANS, Samtökum um nýja stjórnarskrá.
    Frumvarpið er samhljóða frumvarpi sem Alþingi samþykkti á 141. þingi (641. mál) og felur í sér að fram til 30. apríl 2017 verði unnt að breyta stjórnarskrá án þess að rjúfa þurfi þing, boða til kosninga og samþykkja breytinguna að nýju líkt og kveðið er á um í 79. gr. stjórnarskrárinnar.
    Stjórnarskráin nýtur meiri verndar en almenn lög. Þrátt fyrir að í frumvarpinu sé um stundarsakir kveðið á um annan feril en gert er ráð fyrir í 79. gr. stjórnarskrárinnar eru sjónarmið um vandaðan setningarhátt virt. Frumvarpið felur þannig í sér að á yfirstandandi kjörtímabili verði unnt að breyta stjórnarskrá með samþykki 2/ 3 hluta greiddra atkvæða á Alþingi og samþykkt meiri hluta greiddra atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslu, þó minnst 40% atkvæða kosningarbærra manna.
    Í greinargerð með frumvarpi því sem lagt var fram á síðasta þingi er vísað til þess að verði ákvæðið nýtt til að breyta stjórnarskrá skuli þjóðaratkvæðagreiðsla fara fram í samræmi við lög um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna, nr. 91/2010. Meiri hlutinn beinir því til innanríkisráðuneytis að skoða gildandi lagaákvæði um þetta efni til að tryggja að unnt verði að beita lögunum verði frumvarp þetta samþykkt.
    Meiri hlutinn leggur til að málið verði samþykkt.
    Pétur H. Blöndal var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Brynhildur Pétursdóttir, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk áliti þessu.
    Karl Garðarsson og Willum Þór Þórsson skrifa undir álit þetta með fyrirvara. Þeir eru samþykkir afgreiðslu málsins frá nefndinni en taka ekki efnislega afstöðu til frumvarpsins.

Alþingi, 3. júlí 2013.Ögmundur Jónasson,


form., frsm.


Brynjar Níelsson.


Helgi Hjörvar.Karl Garðarsson,


með fyrirvara.


Höskuldur Þórhallsson.


Kristján L. Möller.Willum Þór Þórsson,


með fyrirvara.